Jóhannes S. Kjarval, Mosi á Þingvöllum, olía á striga, 105 x 130 cm, 1937.
Listasafn Íslands: LÍ 509
MÁLARALIST
”Mosinn er mjúkur og djúpur. [...] Hann er grár í þurrki, gulur og grænn þegar rignir; eina nóttina sá ég litina breytast eingöngu vegna kuldans sem steig upp af jörðinni. Grátt rann yfir í gult og grænt, óstöðvandi hreyfing. Náttúran er síbreytileg, sérhvert ský endurkastar öðrum litum á fjöllin.[1]
”
Þessi náttúrulýsing Jóhannesar Kjarvals frá Þingvöllum lýsir vel næmi og tilfinningu málarans fyrir breytileika náttúrunnar í mismunandi birtu og veðri. Málverkin endurspegla þau áhrif sem málarinn varð fyrir og birtast í samspili lita og lína á tvívíðu yfirborði léreftsins.
[1] Kristín G. Guðnadóttir, Gylfi Gíslason, Arthur C. Danto, Matthías Johannessen, Silja Aðalsteinsdóttir, Eiríkur Þorláksson, Kjarval, Nesútgáfan, Reykjavík, 2005, 240
Verkefni
Um aðferðina
Hefðbundið málverk er unnið með litum á tvívíðan flöt. Til þess að mála málverk þarf liti og áhöld til að bera litina á striga eða annað undirlag. Þeir litir sem listmálarar nota innihalda mismunandi bindiefni og draga yfirleitt nafn sitt af því. Til dæmis olíu- og akríllitir, vatnslitir, guasslitir, pastellitir og temperalitir og lakk. Aðferðir við að mála eru persónubundnar en flestir listmálarar mála með penslum sem oftast eru með svíns- eða gervihárum. Það má líka nota spaða, sköfur, tuskur, svampa og trjágreinar eða bara fingurna og svo má auðvitað blanda þessu öllu saman. Algengast er að mála á striga en hægt er að mála á ýmiss konar undirlag til dæmis viðarplötur, pappír eða gler og einnig beint á vegg. Margir nota sérstakar listmálaratrönur en sumir leggja strigann eða plötuna á gólfið og mála á hann þannig, sérstaklega ef verkið er stórt. Ýmis efni eru notuð til þess að blanda í litina til þess að ná fram ákveðinni áferð til dæmis glansandi eða mattri. Það er líka hægt að þynna litina og blanda í þá efnum sem ýmist flýta eða seinka þornun þeirra. Viðfangsefni listmálara og málverk eru ýmist unnin í hlutbundnum stíl (fígúratív) eða óhlutbundnum (abstrakt).
Hellamálverk í Lascaux í Dordogne í Frakklandi.
Wikimedia
Þróun listmálunarlita
Aðferðir og efni til að mála hafa breyst í gegnum aldir. Elstu málverkin sem vitað er um eru hin svokölluðu hellamálverk sem fundist hafa í Suður-Evrópu.
Frægustu hellamálverkin eru í Altamira-helli á Spáni og í Lascaux í Dordogne í Frakklandi. Þau eru máluð með litum sem unnir eru úr viðarkolum og öðrum náttúrulegum litarefnum. Efnin voru möluð og í þau blandað bræddri fitu eða öðru sem gerði litina viðráðanlega og málað var með trjágreinum, laufi, fjöðrum eða jafnvel fingrum.
Veggmálverk eða freskur í kirkjum og klaustrum voru unnin með aldagamalli tækni sem rekja má aftur til forngrískrar og rómverskrar menningar en þekktustu freskurnar voru unnar á Ítalíu á 14. og 15. öld. Tæknin fólst í því að litaduft var blandað með vatni og síðan málað með því á rakan kalkmúr sem dreginn hefur verið á vegg á lítil svæði í einu. Um leið og múrinn þornar binst liturinn við hann þannig að myndin verður varanleg.
Giotto di Bodoni, Lamentation, freska, 1305.
Wikimedia
Sandro Botticelli, Fæðing Venusar, tempera á striga, um árið 1482.
Wikimedia
Orðið tempera, sem merkir að blanda á latínu, var upphaflega notað um liti þar sem þurrt litarefni var blandað með vatni og náttúrulegum bindiefnum. Algengasta tegundin er eggtempera. Talið er að egg hafi verið notuð í liti allt frá fornöld en eggtempera er þó aðallega tengd evrópskri list á 13. til 15. öld. Eggtemperalitir voru búnir til með því að blanda saman eggjarauðu, vatni og litarefni. Litirnir voru bjartir og skærir en þeir þornuðu fljótt og því vandaverk að mála með þeim, blanda þarf hvern lit fyrir fram því þeir blandast ekki á myndfletinum. Eftir að olíulitir komu til sögunnar féll tæknin í gleymsku en áhugi fyrir henni vaknaði á ný á 19. öld við rannsóknir á eldri list og enn má finna listamenn sem gera tilraunir með eggtemperu.[1]
Allt fram á 16. öld var aðallega málað á viðarplötur en smám saman varð striginn vinsælli vegna þess að hann var hentugri í röku loftslagi þar sem viðarplöturnar áttu það til að verpast og hann var líka ódýrari.
[1] Ian Chilvers, The Oxford Dictionary of Art, Oxford University Press, 2004, 280
Lengi var talið að hollenski listmálarinn Jan Van Eyck (1390–1441) hefði fundið upp olíulitina á fyrri hluta 15. aldar en síðar hefur komið í ljós að þeir eru mun eldri.
Tilkoma olíulitanna opnaði fyrir nýja möguleika í málverkinu og smám saman tóku þeir við af tempera-litunum. Með olíulitunum er hægt að mála einn lit yfir annan, mála ýmist þykkt eða þunnt og þannig hægt að ná fram samspili ljóss og skugga með fjölbreyttum litatónum og litbrigðum. Notkun olíulita barst fljótlega til Ítalíu og þá var lagður grunnur að fjarvídd, því með mismunandi styrk litanna var nú hægt að skapa tilfinningu fyrir fjarvídd á tvívíðum fleti.
Málverkið af Arnolfini og brúði hans er eitt þekktasta málverk evrópskrar listasögu. Samspil ljóss og skugga, hárfín tæknin til dæmis í ljósakrónunni og kúpta speglinum sýna vel færni málarans. Málverkið er líka ríkt af táknum sem birtast í hversdagslegum hlutum og undirstrika merkingu myndarinnar. Hundurinn táknar tryggð, ávextirnir frjósemi og brennandi kertið táknar nærveru Guðs. Þið getið ef til vill fundið fleiri tákn í myndinni.
Jan van Eyck, Arnolfini og brúður hans, olía á viðarplötu, 1434.
Wikimedia
Litahringurinn
Litir – veggspjald í myndmennt
Litahringurinn
Fyrir listmálara er nauðsynlegt að þekkja litina og eiginleika þeirra. Þeir þurfa að kunna að blanda litina og vita hvernig þeir bregðast hver við öðrum þegar þeir eru málaðir hlið við hlið. Rauður, gulur og blár litur eru frumlitir. Með því að blanda saman frumlitum fást nýir litir, t.d. grænn þegar blandað er saman gulum og bláum lit. Á litahringnum má sjá hvernig litirnir blandast. Þeir litir sem eru gegnt hvor öðrum á litahringnum eru kallaðir andstæðulitir, þannig er rauður andstæðulitur græna litarins og öfugt og gulur er andstæðulitur bláa litarins. Talað eru um að litir séu ýmist heitir eða kaldir. Rauðir og gulir litir eru heitir en bláir og blágrænir litir kaldir.
Ágrip af sögu málaralistar
Elstu málverkin sem fundist hafa í Evrópu eru yfir 30 þúsund ára gömul en það eru hellamálverk sem fundust í helli í Avignon í Frakklandi árið 1994. Árið 1940 fundu unglingar í Frakklandi hina svokölluðu Lascaux hella sem eru prýddir málverkum og ristum sem eru meira en sautján þúsund ára gömul. Hellamálverk hafa fundist á fleiri stöðum en þau eru yfirleitt af dýrum sem mörg eru nú útdauð í Evrópu.
Í fornöld voru sjónlistir eins og málverk og skúlptúr flokkaðar með handverksgreinum en ekki fögrum listum eins og til dæmis skáldskapur, mælskulist og tónlist.[1] Á miðöldum var myndlist nátengd trúariðkun og hlutverk hennar var að uppfræða almenning um boðskap Biblíunnar. Kristið myndmál snerist um að gera hið ósýnilega sýnilegt á myndrænan og táknrænan hátt. Biblía fátæklinganna (Biblía pauperum) var myndræn frásögn ætluð þeim, sem hvorki kunnu að lesa né skildu latínu og gátu því ekki meðtekið trúarboðskapinn nema með hjálp mynda.
Málaralistin og aðrar greinar sjónlista blómstruðu á endurreisnartímanum á 14. til 16. öld. Á 16. öld voru listgreinarnar í fyrsta sinn aðgreindar frá iðngreinum sem þær höfðu áður verið tengdar við. Listamennirnir slitu sig úr tengslum við svokölluð gildi handverksmanna og stofnuðu listaakademíu í Flórens sem varð fyrirmynd akademía í öðrum löndum.[2]
Allt frá miðöldum höfðu dætur hefðarfólks hlotið undirstöðumenntun í teikningu og málun þar sem áhersla var á munstur- og blómamyndir og eftirgerð mynda, í þeim tilgangi að auka fegurðarskyn og smekkvísi stúlknanna. Námið miðaði að því að gera þær að góðum húsmæðrum og eiginkonum en ekki að gera þær að skapandi listamönnum.[3]
Konur fengu ekki inngöngu í listaháskóla fyrr en um 1880 sem byggði á þeirri hefð sem hafði ríkt í listaháskólum í Evrópu allt frá stofnun þeirra. Fram að því voru það aðeins yfirstéttarkonur og dætur listamanna sem fengu kennslu í myndlist. Þó að hefðin hafi verið sú að konum hafi verið haldið frá myndlist nema sér til ánægju og dundurs eða sem kennarar fyrir hjónaband má finna konur sem þrátt fyrir hefðir ákváðu að helga sig listinni og hafna um leið hjónabandi og barneignum.[4]
[1] Paul Oskar Kristeller, þýð. Gunnar Harðarson, Listkerfi nútímans, Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, Reykjavík 2005, 45
[2] Kristeller, Paul Oskar, Listkerfi nútímans, Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, 2005, 53
[3] Dagný Heiðdal, Aldamótakonur og íslensk listvakning, Ritsafn Sagnfræðistofnunar 31, Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands, 1992, 10
[4] Sama heimild, 15
Hellamálverk í Lascaux í Dordogne í Frakklandi
Wikimedia
Sofonisba Anguissola, Sjálfsmynd, 1556.
Wikimedia
Fyrsta þekkta konan til þess að ljúka myndlistarmenntun þrátt fyrir að vera ekki dóttir listamanns eða af yfirstétt var Sofonisba Anguissola (1532–1625) frá Ítalíu. Hún málaði aðallega mannamyndir af hefðarfólki, sjálfsmyndir og hversdagslíf sem hún varð þekkt fyrir.
Artemisia Gentileschi (1593–1652) var ein þeirra kvenna sem braust í gegnum múr hefðarinnar en hún var einn áhrifamesti málari sinnar kynslóðar. Faðir hennar var listmálari, Orazio Gentileschi, sem þekktur var fyrir verk sem hann vann í anda Caravaggio (1571–1610) sem var þekktasti málarinn á Ítalíu á Barokktímanum. Hún hefur vafalaust fengið tilsögn hjá föður sínum þó verk hennar séu frábrugðin verkum hans. Hún sótti meðal annars myndefni í frásagnir af blóðugum átökum í Gamla testamentinu sem talið er að eigi rætur að rekja til erfiðrar lífsreynslu hennar á yngri árum.
Viðfangsefni málaranna urðu smám saman veraldlegri og þeir fóru að leita útávið í stað þess að tengja listsköpunina eingöngu við guðdóminn eins og gert var á miðöldum. Mörg af þekktustu málverkum listasögunnar eru máluð á tíma endurreisnarinnar á 14.–16. öld eins og til dæmis verkið Mona Lísa eftir Leonardo da Vinci (1452–1519) sem hann málaði um 1503. Þar beitir da Vinci málunartækni sem kallast sfumato sem á ítölsku merkir í gufu eða reyk. Da Vinci hafði lengi unnið að því að þróa tæknina sem felst í því að málað er í þunnum lögum, lag fyrir lag svo útlínur verða óskýrar og andstæður ljóss og skugga óljósar. Þessi aðferð gerir það meðal annars að verkum að það er eins og Mona Lísa brosi til áhorfandans þegar horft er á hana um stund.
Lengi var litið svo á að málverk ætti að líkja nákvæmlega eftir raunveruleikanum. Hlutverk málarans var því að skapa mynd sem gat þjónað sem heimild um staði viðburði og fólk. Þegar ljósmyndatæknin kom til sögunnar í byrjun 19. aldar var þess ekki lengur krafist að málverkið birti raunsanna eftirmynd af veruleikanum. Þess í stað fóru menn að velta fyrir sér sérstöðu málverksins eins og litameðferð, frelsi í litavali, áferð, efniskennd og pensilskrift. Málverkið getur annars vegar verið fígúratívt og vísað til raunveruleikans eða abstrakt og án tengingar við raunveruleikann.
Leonardo da Vinci, Mona Lisa, 1503.
Wikimedia
Málaralist á Íslandi
Í Þjóðminjasafni Íslands eru varðveittir listmunir frá fyrri öldum sem sýna að listsköpun hefur verið stunduð á landinu alla tíð. Til er kennslubók í málun frá 14. öld sem talin er tengjast ástundun myndlistar í klaustrum. Eftir að klausturskólarnir voru aflagðir við siðaskiptin um miðja 16. öld er ekki talið að formleg kennsla í myndlist hafi farið fram á Íslandi fyrr en löngu síðar.[1] Meðal merkra gripa sem varðveittir eru í safninu eru málverk á predikunarstól Bræðratungukirkju sem eru líklega elstu málverk sem varðveist hafa eftir íslenskan listamann. Þau eru máluð af Birni Grímssyni (1575–1634/5) sem var titlaður málari og sýslumaður. Talið er að hann hafi fengið tilsögn í málaralist þegar hann dvaldi í Þýskalandi en þangað fór hann árið 1597.[2]
[1] Þóra Kristjánsdóttir, Mynd á þili, íslenskir myndlistarmenn á 16., 17. og 18. öld, 136
[2] Sama heimild, 46
Björn Grímsson, Málverk á predikunarstól úr Bræðratungukirkju 1630.
Þjóðminjasafnið 6274/1912-52
Í Ferðabók Eggerts Ólafssonar frá 18. öld er að finna landslagsmyndir málaðar með vatnslitum en ekki er vitað með vissu hver málaði þær. Hér er um að ræða elstu landslagsmyndir sem varðveist hafa eftir íslenskan listamann.[1]
[1] Sama heimild, 119
Allnokkrir íslenskir listamenn fóru til útlanda til þess að afla sér menntunar á 16.–18. öld og hafa því komist í kynni við erlenda strauma í myndlist. Þeir listamenn sem fóru utan á 19. öld sneru sér flestir að öðrum viðfangsefnum við heimkomuna.
Segja má að myndlistin hafi verið samofin sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar og mikilvægur þáttur í mótun sjálfsmyndar hennar upp úr aldamótum 19. og 20. aldar. Litið var svo á að með málaralistinni mætti vekja upp fegurðartilfinningu með þjóðinni. Íslenskt landslag var aðalmyndefni íslenskra málara á fyrstu áratugum 20. aldar. Listamennirnir birtu nýja sýn á landið í verkum sínum þar sem hrjóstug náttúran varð að rómantísku landslagi með fjallabláma og heiðríkju. Hér á eftir er gerð grein fyrir nokkrum frumkvöðlum og þróun málaralistar á Íslandi og gefin dæmi um hvað listmálarar samtímans eru að fást við í verkum sínum.
Carl Ludvig Petersen (1824-1900), Tindfjallajökull, blýantsteikning, vatnslitir, 8,5 x 11 cm, 1847.
Listasafn Íslands: LÍ 541
Þórarinn B. Þorláksson, Þingvellir, olía á striga, 57,5 x 81,5 cm, 1900.
Listasafn Íslands: LÍ 1051
Árið 1900 urðu tímamót í íslenskri myndlistarsögu þegar Þórarinn B. Þorláksson, (1867–1924) hélt fyrstu einkasýningu íslensks listamanns í Reykjavík. Viðfangsefni hans var íslenskt landslag sem var ráðandi myndefni í íslenskri myndlist á fyrstu áratugum tuttugustu aldar. Þórarinn lauk námi í bókbandsiðn og lærði teikningu hjá Þóru Pétursdóttur Thoroddsen áður en hann hélt til Kaupmannahafnar í listnám árið 1895. Á fyrstu sýningu hans voru myndir frá Þingvöllum þar sem hann túlkar birtu, kyrrð og andrúmsloft staðarins. Í verkinu Þingvellir sem er eitt þekktasta verk Þórarins fangar hann sumarstemningu snemma morguns. Litirnir eru svalir, himinninn speglast í vatninu og fjöllin rísa upp af grösugu landinu og hestarnir undirstrika kyrrð sveitarinnar.
Aðalviðfangsefni Ásgríms Jónssonar (1876–1958) var hins vegar hverful birta landsins. Hann var fyrstur listamanna á Íslandi til þess að gera myndlist að aðalstarfi. Ásgrímur flutti til Kaupmannahafnar árið 1897 þar sem hann stundaði myndlistarnám í þrjú ár. Hann kom heim árið 1909 eftir að hafa dvalið einn vetur á Ítalíu, með viðkomu í Berlín og Weimar þar sem hann kynntist m.a. verkum frönsku impressjónistanna sem höfðu mikil áhrif á hann.
”Impressjónismi er stefna í myndlist sem á ættir að rekja til franskra málara sem bjuggu í París og nágrenni. Þeir máluðu úti og leituðust við að sýna samspil ljóss og lita. Listamennirnir vildu fanga augnablikið, margbreytileika birtunnar.
”Orðið expressjónismi merkir tjáning. Listamennirnir lögðu áherslu á að tjá tilfinningar með sterkum litum og tjáningaríkum formum.
”
Auk þess að vera meðal frumkvöðla íslenskrar landslagslistar var Ásgrímur einna fyrstur til að myndskreyta íslensku þjóðsögurnar. Hann málaði gjarnan úti í náttúrunni bæði með olíulitum og vatnslitum undir áhrifum impressjónisma en síðar urðu verkin litríkari og sjálfsprottnari í anda expressjónisma.
Ásgrímur leitaðist við að túlka hið kvika í náttúrunni, síbreytilega birtuna og stórbrotna náttúru. Í verkinu Tindafjöll sést hvernig hann skiptir myndfletinum í þrennt. Í forgrunni er dökkt landið, um miðbik myndarinnar glittir í mjóa vatnsrönd. Í bakgrunni rísa fjöllin með bjartan jökulinn efst og ábúðarmiklum himni.
Ásgrímur Jónsson, Tindafjöll, olía á striga, 80 x 125,5 cm, 1903–1904.
Listasafn Íslands: LÍ 1008
Kristín Jónsdóttir, Við Þvottalaugarnar, olía á striga, 100 x 123 cm, 1931.
Listasafn Íslands: LÍ 459
Kristín Jónsdóttir (1888–1959) og Júlíana Sveinsdóttir (1889–1966) voru fyrstar íslenskra kvenna til að gera myndlist að ævistarfi. Kristín lærði myndlist í Konunglega listaháskólanum í Danmörku og lauk námi þaðan 1916. Áður hafði hún stundað undirbúningsnám í Tegne- og Industriskolen for kvinner. Í fyrstu málaði hún aðallega landslagsmyndir frá heimahögum sínum á Norðurlandi. Hún dvaldi í Húsafelli árið 1921 og málaði ásamt Júlíönu Sveinsdóttur, Ásgrími Jónssyni (1876–1958) og Guðmundi Thorsteinssyni (1891–1924). Blæbrigðarík pensilskrift og kraftmiklir litir einkenna verk Kristínar sem hún vann í anda impressjónisma.
Hún sótti líka myndefni í störf kvenna eins og til dæmis í málverkinu Við Þvottalaugarnar sem sýnir konur þvo þvott í heitri laug í Laugardalnum í Reykjavík. Þangað komu konur, margar langt að til þess að þvo þvotta sem var mikil erfiðisvinna. Konurnar þvo, skola og vinda þvottinn umluktar vatnsgufunni sem leggur upp af laugunum sem sameinar þær og þvottinn. Klæðnaður kvennanna er í jarðlitum sem tengja þær jörðinni og umhverfinu í kring næstum eins þær hafi stigið upp úr jörðinni og bláleitri gufunni.
Kristín er einnig þekkt fyrir blóma- og kyrralífsmyndir sínar. Í kyrralífsmyndum er hversdagslegum hlutum, blómum og ávöxtum stillt upp og reynir það einkum á tilfinningu málarans fyrir formum, litum, birtu og skuggum.
Kristín Jónsdóttir, Tinkanna og ávextir, olía á striga, 60 x 75 cm, 1951.
Listasafn Íslands: LÍ 947
Júlíana Sveinsdóttir, Frá Vestmannaeyjum (Elliðaey), olía á striga, 82 x 90 cm, 1946.
Listasafn Íslands: LÍ 778
Júlíana Sveinsdóttir (1889–1966) var frá Vestmannaeyjum og eyjarnar voru algengt viðfangsefni verka hennar allan hennar listferil. Hún fór til Kaupmannahafnar eins og fleiri íslenskir myndlistarmenn á þeim tíma og var við nám í málaradeild Konunglega listaháskólans á árunum 1912–1917. Hún var búsett í Danmörku í yfir hálfa öld og tók virkan þátt í listalífinu þar en viðfangsefni hennar var íslenskt landslag, mannamyndir og uppstillingar. Hún túlkaði í verkum sínum ólík birtuskilyrði landsins, síbreytileika náttúrunnar og stemningu. Hún valdi myndefnið vandlega og málaði gjarnan margar myndir af sama stað. Birtan í verkum hennar er mild og flæðandi, jafnvel þungbúin og grámóskuleg til dæmis í sumum verkum frá Vestmannaeyjum. Júlíana var líka þekkt fyrir listvefnað og fékk viðurkenningar fyrir verk sem hún vann úr ull.
Þeir listamenn sem höfðu átt þess kost að fara utan til náms um og eftir aldamótin 1900 báru með sér við heimkomuna nýja strauma í málaralist sem styrkti stöðu málverksins og farið var að líta svo á að listsköpunin ætti bæði rætur í listamanninum sjálfum og náttúrunni.[1]
[1] Ólafur Kvaran, Íslensk myndlist, 1900–1930, „Frá rómantík til módernisma“, sýningarskrá, Listasafn Íslands, 2004, 1
Jóhannes Sveinsson Kjarval (1885–1972) kom með nýja sýn á íslenska náttúru eftir áralanga dvöl í útlöndum. Hann hafði fengið tilsögn í teikningu og málun hjá Ásgrími Jónssyni áður en hann hélt til London árið 1912, þar vann hann að listinni og skoðaði söfn. Eftir dvöl sína í London hélt hann til Kaupmannahafnar þar sem hann stundaði nám við Konunglega listaháskólann 1914–1918. Í stað þess að mála bláma fjallanna eins og Þórarinn og Ásgrímur færir Kjarval sig nær viðfangsefninu og málar mosa og hraun svo skynjunin verður í senn huglæg og áþreifanleg. Kjarval málaði mikið úti í náttúrunni í allskonar veðrum. Verk hans eru afar fjölbreytt bæði hvað varðar stíl og viðfangsefni en hann leit svo á að náttúran væri forsenda listsköpunar hans.[1] Fjallamjólk (1941) er eitt þekktasta málverk Kjarvals og þar koma saman margir þættir sem einkenna list Kjarvals eins og nálægðin við myndefnið og áþreifanleg efniskennd. Litbrigði og formin í hrauninu, mosabreiðan og mjólkurlitt vatnið í gjánni mynda eina samfellda heild án fjarvíddar en gefur sterka tilfinningu fyrir einkennum Þingvalla.
[1] Björn Th. Björnsson, Íslensk myndlist II, Helgafell, MCMLXXIII, 59
Jóhannes S. Kjarval, Hraun, olía á striga, 121 x 120 cm, 1949.
Listasafn Íslands: LÍ 1209
Finnur Jónsson, Örlagateningurinn, olía á striga, 45 x 45 cm, 1925.
Listasafn Íslands: LÍ 4784
Þegar Finnur Jónsson (1892–1993) listmálari kom heim úr námi frá Þýskalandi árið 1925 hélt hann fyrstu sýningu íslensks listamanns á abstrakt málverkum. Sýningin vakti hörð viðbrögð og almenningur á Íslandi sýndi þessum nýja tjáningarmáta lítinn skilning enda þóttu verkin framandi og óskiljanleg. Fyrir verk af svipuðum toga sem sýnd voru í Þýskalandi fékk hann hins vegar mikið lof frá erlendum listgagnrýnendum. Í verkinu Örlagateningurinn frá 1925 raðar Finnur saman abstrakt flötum, kubbum og kúlum. Teningurinn sem virðist hafa verið kastað á loft kemur af stað hreyfingu í verkinu. Litirnir eru léttir og leikandi en hann notar auk þess gyllta fleti sem hreyfa enn frekar við myndfletinum.
Í byrjun síðari heimstyrjaldar sneru margir íslenskir listamenn heim frá Kaupmannahöfn og báru með sér nýja strauma í myndlist sem höfðu mikil áhrif á íslenska listamenn. Meðal annarra voru það Þorvaldur Skúlason, Jón Engilberts, Nína Tryggvadóttir og Louisa Matthíasdóttir, sem öll áttu eftir að verða þekktir listamenn. Þorvaldur Skúlason skrifaði mikið um myndlist og lét til sín taka í myndlistarumræðu á Íslandi. Hann lagði áherslu á að málverk þyrfti að byggjast á einhverju öðru en eftirlíkingu fagurra staða. Það þyrfti að hafa sjálfstætt gildi þó að það tæki mið af fyrirmyndinni.[1]
Þegar abstraktlistin ruddi sér til rúms á Íslandi í kringum 1945 fjaraði smám saman undan landslagsmálverkinu þó að það hafi aldrei horfið af sjónarsviðinu. Listamenn fóru í auknum mæli að þróa eigin stíl sem byggði á erlendum áhrifum og nýjum straumum í myndlist. Í stað þess að líkja eftir náttúrunni var nú leitað í raunveruleika málverksins sjálfs, innra líf lita og forma.
[1] Þorvaldur Skúlason, „Listastörf og þjóðarþroski“, Lesbók Morgunblaðsins, 11. maí 1941, 164
Eftir tíu ára dvöl í Danmörku innleiddi Svavar Guðnason (1909–1988) óhlutbundið myndmál í íslenska myndlist árið 1945, sem var í beinum tengslum við þá nýsköpun í myndlist sem hann hafði kynnst í Danmörku og verið virkur þátttakandi í þar. Svavar hafði gert stuttan stans í Konunglega listaháskólanum en komst í kynni við öfluga hópa framúrstefnulistamanna og fljótlega fór hann að sýna verk sín á sýningum undir merkjum þeirra. Þó að greina megi í verkum Svavars áhrif frá erlendum straumum og stefnum má sjá hvernig hann skapaði sitt eigið myndmál og stíl sem tengja má við íslenska náttúrusýn og náttúrukrafta eins og hraun og eldgos.
Í málverkinu Íslandslag frá 1944 má sjá mörg af stíleinkennum Svavars. Litaskalinn er ljós og fletir og form sem ýmist eru opin eða lokuð eru máluð með líflegum pensilstrokum og stundum málað yfir með hvítu sem þykir tengja verkið við íslenska náttúrusýn og birtu.[1]
[1] Sama heimild, 44
Svavar Guðnason, Íslandslag, olía á striga, 88 x 100 cm, 1944.
Listasafn Íslands: LÍ 719
Þorvaldur Skúlason, Rauða teppið, olía á striga, 120 x 100 cm, 1942.
Listasafn Íslands: LÍ 692
Þorvaldur Skúlason (1906–1984) var einn af brautryðjendum íslenskrar abstraktlistar. Hann lærði myndlist í Noregi og dvaldi auk þess bæði í Kaupmannahöfn og Frakklandi. Hann vakti strax athygli fyrir nýja nálgun í málverkinu sem byggist á evrópskum áhrifum og persónulegri tjáningu. Í fyrstu málaði Þorvaldur myndir í síðkúpískum stíl en smátt og smátt fóru abstrakt form, fletir og litir að ráða ferðinni í grunnu myndrýminu.[1] Þorvaldur hafði mikil áhrif á aðra málara og hann var oft kallaður „málari málaranna“. List hans var í stöðugri þróun og það má skipta henni í nokkur mismunandi tímabil.
[1] Sama heimild, 21
Þorvaldur Skúlason, Sveiflur, olía á striga, 200 x 146 cm, 1964.
Listasafn Íslands: LÍ 1325
Sýning á verkum Þorvaldar í Listamannaskálanum árið 1959 markar tímamót í list hans. Skörp fleygform sem sköpuðu þenslu og spennu á myndfletinum urðu einkennandi fyrir verk hans frá þessum tíma. Málverk frá 1967 hafa skírskotun í himingeiminn og Ölfusá veitti honum innblástur þegar hann málaði strauma og gárur árinnar í formsterkum abstraktverkum.
Geómetrísk abstraktlist (strangflatalist) blómstraði í íslenskri myndlist á 6. áratug tuttugustu aldar með Þorvald í broddi fylkingar. Geómetrían var andstæða fígúratívu listarinnar þar sem hún skírskotar ekki til neinnar þekktrar fyrirmyndar heldur túlkar hún innri sjón og tilfinningar málarans. Hörður Ágústsson (1922–2005) var einn þeirra listamanna sem héldu fram geómetrísku abstraktlistinni sem hann hafði kynnst á námsárum í París eins og aðrir fylgjendur hennar. Hann líkti geómetrískri list við tónlist og leit svo á að form og litur byggi yfir sérstökum seið eða andlegum krafti eins og hljómurinn og tónfallið.[1]
[1] Sama heimild, 78
Hörður Ágústsson, Gluggar, blönduð tækni, 121 x 121 cm, 1975.
Listasafn Íslands: LÍ 3859
Nína Tryggvadóttir, Gos, olía á striga, 131,5 x 105 cm, 1964.
Listasafn Íslands: LÍ 1383
Þó að Nína Tryggvadóttir (1913–1968) hafi búið flest sín fullorðinsár erlendis þá var íslensk náttúra grunnstefið í list hennar. Hún lærði myndlist við Listaháskólann í Kaupmannahöfn á árunum 1935–1939. Hún vakti fyrst athygli fyrir list sína á sýningu í Reykjavík árið 1942. Viðfangsefni verkanna voru húsaþyrpingar, kyrralífsmyndir, og portrettmyndir af félögum hennar, til dæmis af Halldóri Laxness sem hún túlkaði með sterkum litum og einföldum formum. Þegar Nína var eitt sinn spurð að því hvers vegna hún málað abstrakt svaraði hún: „Æ það er af því að heimurinn er svo abstraktur.“[1] Þessi afstaða endurspeglast í ljóðlínum hennar „ég tók niður liti rautt blátt og gult og kallaði það dagsverk.“[2] Nína lærði myndlist í Kaupmannahöfn við Konunglega listaháskólann (1935–1938) en eftir stutta viðdvöl á Íslandi flutti hún til New York 1943, þar lærði hún myndlist og tók virkan þátt í myndlistarlífinu. Nína bjó í París á árunum 1952–1957 þar sem hún var í nánum tengslum við allt það nýjasta í listheiminum og í London á árunum 1957–1961. Málverk Nínu voru í fyrstu á mörkum ljóðrænnar og geómetrískrar listar en þróuðust í átt til abstraktlistar sem hafði sterka skírskotun í íslenska náttúru.
[1] Hrafnhildur Schram, Nína í krafti og birtu, „Nína Tryggvadóttir líf hennar og list“, 6
[2] Sama heimild, 7
Guðmunda Andrésdóttir (1922–2002) lærði myndlist í Stokkhólmi á árunum 1946–1948 og í París á árunum 1951–1953 þar sem hún dvaldi ásamt mörgum íslenskum myndlistarmönnum. París var vagga geómetrískrar abstraktlistar eftir seinni heimsstyrjöldina og þaðan barst hún til Íslands. Guðmunda málaði allan sinn feril abstrakt verk. Hún sýndi fyrst geómetrísk verk á Vorsýningunni 1953 en þar áttu Ásmundur Sveinsson, Benedikt Gunnarsson, Gerður Helgadóttir, Hjörleifur Sigurðsson, Valtýr Pétursson og Þorvaldur Skúlason líka verk. Heitir litir og skörp form einkenndu verkin á sýningunni. Guðmunda lék sér með oddhvöss form með teiknuðum útlínum sem ýmist stingast út úr eða inn í hvert annað. Þetta má t.d. sjá í verkinu Komposition frá 1955. Þar myndar þessi leikur hvassra forma sem máluð eru í gulum, grænum, gráum og svörtum litatónum þyrpingu eða heild á dökkum grunni. Guðmunda hélt áfram að vinna með línur og hvöss form en þó aðeins sem undirliggjandi net sem glittir í undan kröftugu litasamspili, eins og í verkinu Nón (1965). Síðar gerði Guðmunda verk sem byggðust á hringformum þar sem hún grandskoðar hreyfingu formanna og kyrrstöðu.
Guðmunda Andrésdóttir, Átrúnaður, olía á striga, 110 x 120 cm, 1971.
Listasafn Íslands: LÍ 1605
Guðmundur Guðmundsson, Erró (1932), er einn þekktasti listmálari þjóðarinnar. Að loknu námi á Íslandi var hann tvö ár við nám við Listaakademíuna í Osló en þaðan fór hann til Ítalíu og lærði við akademíuna í Flórens og Ravenna þar sem hann lærði mósaíkmyndagerð. Hann flutti til Parísar árið 1958 og hefur búið þar að mestu síðan. Í verkum frá Ítalíuárunum sem hann sýndi á fyrstu einkasýningu sinni í Listamannaskálanum 1957 gætir áhrifa frá súrrealisma. Verkin á sýningunni þóttu óhugnanleg en myndefnið var ádeila á stríðsrekstur og vígbúnaðarkapphlaup og þann óhugnað sem því fylgir.[1] Á ferð sinni til New York árið 1963 kynntist hann popplist og varð fljótlega einn af frumherjum popplista og svokallaðrar frásagnafígúrasjónar í Evrópu. Listamennirnir tjáðu gagnrýnið viðhorf í fígúratívum verkum með tilvísunum í hversdagsleg fyrirbæri, auglýsingar, fjölmiðla, teiknimyndir og fleira sem þeir blönduðu við listasöguna og hristu þannig upp í hefðbundum hugsunarhætti neyslusamfélagsins.
Erró byggir málverkin á teiknimyndasögum, póstkortum, veggspjöldum og frægum verkum úr listasögunni sem hann raðar saman og skapar nýja frásögn.
[1] Íslensk listasaga, IV, 10
Verkið Hommage a la bande dessiné, sem er risastór veggmynd, málaði Erró á húsagafl í Frakklandi. Myndin sýnir ótal þekktar teiknimyndapersónur samankomnar í miklum hasar. Árið 1989 gaf Erró Reykjavíkurborg stórt safn verka sem spanna allan feril hans og hann bætir enn við gjöfina.
Með hinu svokallaða Nýja málverki sem spratt fram á árunum kringum 1980 varð málverkið að aðallistformi margra ungra myndlistarmanna á Íslandi en segja má að það hafi ekki átt upp á pallborðið hjá þeim á tíma hugmyndalistarinnar. Nýja málverkið hafði blómstrað víða í Evrópu sérstaklega í Þýskalandi en þangað fóru margir íslenskir listamenn til náms, auk Spánar, Ítalíu og Frakklands en líka til Bandaríkjanna. Meðal þeirra listamanna sem vöktu að nýju upp málverkið meðal yngri myndlistarmanna voru: Helgi Þorgils Friðjónsson, Daði Guðbjörnsson, Jóhanna Kristín Ingvadóttir og Kjartan Ólason. Tjáning listamannanna var hispurslaus þar sem tilvist mannsins og tilvistarkreppa var aðalviðfangsefnið. Málverkin voru oft stór og vinnubrögðin groddaleg og kraftmikil. Segja má að nýja málverkið hafi stuðlað að endurkomu málverksins því það opnaði fyrir frjálsa tjáningu og frelsi til þess að fara eigin leiðir í málverkinu.
Einn þeirra málara sem kom fram á sjónarsviðið í byrjun níunda áratugarins með kraftmikil fígúratíf málverk var Daði Guðbjörnsson (1954). Efnismeðferðin og viðfangsefnið var í anda nýja málverksins, sjálfsprottin tjáning og sterkir litir eins og við sjáum í verkinu Rauð tunga (1982). Síðar átti Daði eftir að þróa með sér persónulegan og mildari stíl sem einkennist af flúri og skrauti sem hann tvinnar saman við stílbrögð sem hann sækir til eldri málara eins og Kjarvals og Svavars Guðnasonar.
Daði Guðbjörnsson, Rauð tunga, olía á striga, 128 x 108 cm, 1982.
Listasafn Íslands: LÍ 8028
Jóhanna Kristín Ingvadóttir, Lára, olía á striga, 150 x 75 cm, 1981.
Listasafn Íslands: LÍ 4300
Jóhanna Kristín Ingvadóttir (1953–1991) málaði einlæg og tjáningarfull fígúratív málverk sem sýna innri baráttu manneskjunnar, ótta og sorg. Málverk hennar voru oft dökk og jafnvel drungaleg, máluð í anda expressjónisma þar sem kraftmikil teikning, litameðferð og viðfangsefni haldast í hendur. „Ég mála einfaldlega eins og andinn blæs mér í brjóst og þannig ræðst það hvaða stefnu verkið tilheyrir hverju sinni,“[1] sagði Jóhanna Kristín. Hún lærði myndlist á Íslandi og í Hollandi og vakti strax mikla athygli fyrir verk sín en listferill hennar var stuttur því hún lést aðeins þrjátíu og sjö ára gömul árið 1991.
[1] Gunnar B. Kvaran, Íslensk listasaga V, „Hefðbundið málverk“, 30
Hrá og sjálfsprottin vinnubrögð einkenna málverk Helga Þorgils Friðjónssonar (1953) frá því um 1980. Hann stundaði framhaldsnám í Hollandi á árunum 1976–1979. Verkin eru frásagnarkennd og oft glettin og hispurslaus í anda nýja málverksins. Síðar urðu verk hans margslungnari og vinnubrögðin agaðri en frásögnin hefur alltaf verið til staðar. Oft má sjá í verkum hans svífandi naktar mannverur í óræðu landslagi innan um dýr, blóm og ávexti. Í verkinu Fiskar sjávar frá 1995 hefur nakin mannvera tyllt sér á sker umlukin fuglum en á neðri hluta myndarinnar má sjá ýmsar tegundir fiska sem gægjast upp úr haffletinum. Fuglar og fiskar eru málaðir á raunsæjan hátt en mannveran er líkt og af öðrum heimi, föl og án tengingar við umhverfið. Himinn og haf renna saman og bláminn og birtan minnir á málverk endurreisnartímans.
Helgi Þorgils Friðjónsson. Fiskar sjávar, olía á striga, 236 x 205,2 cm, 1995.
Listasafn Íslands: LÍ 6100
Georg Guðni Hauksson, Án titils, olía á striga, 210 x 200 cm, 2008.
Listasafn Íslands: LÍ 8916
Það kom mörgum á óvart þegar Georg Guðni Hauksson (1961–2011) kom fram á sjónarsviðið með landslagsmálverk um miðjan níunda áratug tuttugustu aldar. Georg Guðni stundaði framhaldsnám í Hollandi á árunum 1985–1987. Þó að myndefni verkanna sé mannlaus náttúra, fjöll, dalir og heiðalandslag, þá er það þó umfram allt málverkið sjálft sem er markmiðið í list Georgs Guðna. Verkin eru byggð upp með nákvæmri litameðferð og skapa dýpt og birtu í marglaga myndflötinn með hnitmiðuðum pensilstrokum. Muskuleg þoka, mistur og jafnvel drungaleg birta einkenna mörg verka hans sem sum eru stór og dökk. Sjóndeildarhringurinn sem aðskilur himin og haf er áberandi í síðari verkum hans sem hann kemur til skila með næmri tilfinningu fyrir einkennum landsins. Það er óhætt að segja að Georg Guðni hafi með verkum sínum endurvakið íslenska landslagsmálverkið með nýrri sýn á landið.
Náttúran er megininntakið í verkum Guðrúnar Einarsdóttur (1957) sem í verkum sínum leitast við að endurgera náttúruna með aðferðum sem hún hefur þróað á ferli sínum. Í fyrstu vann hún einlit verk, svört og hvít en smám saman bættust litirnir við. Rík efniskennd einkennir verk Guðrúnar. Liturinn er þykkur og áferðin gróf og stundum munsturkennd þar sem glittir í liti undir yfirborðinu. Hún skoðar eiginleika efnisins um leið og hún túlkar náttúruna með litaskala hennar. Þannig efnisgerir hún sand, hraun, vatn og mosa á myndfletinum og skapar sjónræna upplifun með litum og náttúrulegri áferð.
Guðrún Einarsdóttir, Málverk, olía á striga, 120 x 160 cm, 1995.
Listasafn Íslands: LÍ 5884
Kristín G. Gunnlaugsdóttir (1963) stundaði myndlistarnám í Flórens þar sem hún lærði meðal annars aðferðir miðaldamálverksins. Blaðgull, sterkir litir og goðsagnakenndar verur einkenna verk hennar frá níunda áratugnum sem hafa tilvísun í ítalska miðaldamálverkið. Síðar tók við mannlaust og ímyndað landslag sem virðist af öðrum heimi. Þannig sameinaði Kristín aldagamla hefð málverksins og hugmyndalega nálgun samtímans í persónulegri túlkun sem hefur skapað henni sérstöðu í listinni.
Enn þróast málverkið og þeir málarar sem hófu myndlistarferil sinn í kringum aldamótin 2000 fást við afar fjölbreytt viðfangsefni í málverkum sínum og leita í hefðina um leið og þeir fara nýjar leiðir. Stílar og stefnur eru ekki leiðandi heldur hafa listamennirnir frjálsar hendur. Þessi kynslóð listamanna ólst upp með nýja málverkinu og þeirri sjónrænu menningu sem mótuð er af teiknimyndum, teiknimyndasögum, tölvugrafík og götulist. Úðabrúsinn hefur jafnvel tekið við af penslunum í bland við hefðbundnar vinnuaðferðir málverksins. Listamaðurinn Erró (1932) hefur án efa haft mikil áhrif á yngri listmálara með klippimyndum sínum og málverkum. Hallgrímur Helgason (1959) ruddi brautina fyrir innkomu teiknimynda í málverkið á Íslandi á tíunda áratugnum með málverkum af teiknimyndapersónunni Grim.
Persónan Grim birtist í verkum Hallgríms árið 1995 sem eins konar hliðarsjálf listamannsins. Þetta eru sjálfsmyndir með blöndu af Drakúla og Gosa, sem hans tákn fyrir rithöfundinn. Alltaf að ljúga og alltaf að teikna á annarra blóð. Nafnið Grim er stytting á nafninu Hallgrímur.
Gabríela Friðriksdóttir (1971) er ein þeirra myndlistarmanna sem vinna í marga miðla. Málverk hennar eru fígúratív og frásagnarkennd og byggjast á teikningu og lit. Furðuverur, myndgerðar hugsanir og undarleg fyrirbæri í ætt við teiknimyndasögur tvinnast saman á myndfletinum. Vinnubrögð hennar eru oft tilviljanakennd og frumleg og útkoman ófyrirséð enda segir hún sjálf: „ég held að alltaf þegar ég mála verði ég á einhvern hátt undrandi og finnist ég standa frammi fyrir nýju upphafi, eins og alltaf verði til nýtt tungumál.“[1]
[1] Lana Vogestad, „Þróttmikið hlutleysi“ Ljóslitlifun, sýningarskrá, Reykjavík: Listasafn Reykjavíkur, Reykjavík, 16
Gabríela Friðriksdóttir, Skugginn, blönduð tækni, 90 x 90 cm, 2007.
Listasafn Íslands: LÍ 8507
Í málverkum Þórdísar Aðalsteinsdóttur (1975) birtist líka margrætt myndmál sem oft byggir á furðulegum frásögnum af fólki og dýrum. Hún lauk framhaldsnámi í New York 2003. Vinnubrögð Þórdísar eru nostursamleg og hún málar gjarnan veggfóður og mynstur sem myndar bakgrunn fyrir frásögnina. Í verkunum má oft sjá hversdagslega hluti sem tilheyra lífi nútímamannsins eins og til dæmis síma.
Þórdís Aðalsteinsdóttir, Sjálfsmynd og kyrralíf, akrýl á striga, 91,5 x 91,5 cm, 2010.
Listasafn Íslands: LÍ 9067
Ragnar Þórisson (1977) ákvað strax á námsárum í Listaháskóla Íslands að helga sig málverki. Hann nálgast málverkið á hefðbundinn hátt með olíulitum á striga. Verk hans eru fígúratíf og litameðferðin dempuð og persónuleg. Manneskjan í einhvers konar tilvistarkreppu er algengt myndefni í málverkunum. Hann afmyndar persónurnar svo þær virðast umkomulausar og einmana á óræðu svæði oft úti í náttúrunni.
Munstur, skærir litir og fjörlegur fantasíuheimur einkennir málverk Davíðs Arnar Halldórssonar (1976). Myndirnar málar hann gjarnan með skipalakki og spreybrúsum á óreglulega lagaðar gamlar viðarplötur og búta, gömul húsgögn og stundum beint á vegg. Verk hans hafa sterka skírskotun í veggjalist, hlaðin skreytikenndu mynstri og óvæntum smáatriðum. Sjálfur segir hann að vinnuaðferðirnar tengist „endurvinnslupælingum“ sem hann hafi haldið áfram að þróa.
Davíð Örn Halldórsson, Hvernig virkar borgarvirki?, blönduð tækni, 50 x 78 cm, 2008.
Listasafn Íslands: LÍ 8063