Ásgrímur Jónsson, Þríhöfða þursinn (úr sögunni „Hermóður og Háðvör“), túskteikning, 30 x 45,5 cm, án ártals.
Listasafn Íslands: LÍÁJ 1484

 

Um aðferðina

Teikning er sjónræn hugsun færð í efni. Teiknarinn gerir sjónræna hugsun sína sýnilega með hreyfingu handarinnar og þar til gerðum, áhöldum og aðferðum. Teikning byggist oftast á línum sem dregnar eru á pappír eða annað slétt undirlag og lögð áhersla á útlínu, form og lögun þess sem teiknað er. Oftast er teiknað með blýanti, kolum, krít eða penna, bleki eða vaxlit á pappír en einnig má teikna með óhefðbundnum hlutum eins og ljósi, vír, gufu og rafmagni, á hrísgrjón, í snjó, sand, jökul eða loftin blá.

Blýantur er algengasta teikniáhaldið og með honum er hægt að teikna bæði dökkar og ljósar línur, móta og skyggja í grátóna litaskala. Í blýöntum er ekki blý þó heitið bendi til þess heldur litarefnið grafít (ritblý) sem er blanda af kolefni, leir og vatni sem yfirleitt er umlukið tré þar sem það er brothætt.

Teikningar má flokka eftir því hvaða teikniáhöld eru notuð:

Blýantsteikning er unnin með blýöntum, ýmist mjúkum eða hörðum, sem gerir mögulegt að teikna og skyggja með mismunandi styrkleika. Ef blýið er ekki umlukið tré er það yfirleitt sverara og þá er hægt að vinna með því breiðari fleti til dæmis með því að leggja það á hliðina og draga það eftir teiknifletinum.

Kolateikning er verk teiknað með kolum sem eru unnin úr koluðum trjám. Kolin eru mjúk og gefa mjög svartan lit.

Krítarteikning er teiknuð með krít en þær eru unnar úr hreinum litarefnum. Teiknikrítar eru svartar, rauðar eða hvítar allt eftir litarefninu.

Pennateikning/blekteikning er teiknuð með penna og bleki sem oftast er unnið úr svörtu litarefni sem er blandað í vökva.

Túskteikning er unnin með túski, sem er þunnfljótandi teikniblek úr fínu sóti eða kinroki í límupplausn. Túskteikningar eru ýmist gerðar með penna eða pensli.

Vaxlitamynd er verk unnið með vaxlitum sem eru steyptir úr vaxi og litarefni.

Teikningin er talin undirstaða myndlistar en auk hennar byggjast margar aðrar starfsgreinar á teikningu eins og arkitektúr, verkfræði og hverskyns hönnun. Allt í kringum okkur eru hlutir, smáir og stórir, sem eiga upphaf sitt í teikningunni. Teikning hefur nefnilega þann eiginleika að vera fljótleg aðferð til þess að búa til mynd af einhverju. Hægt er að teikna hvað sem er og gefa ímyndunaraflinu lausan taum. Teikning getur hjálpað til við að rannsaka hluti eða koma auga á eitthvað áður óþekkt og aukið skilning á umhverfinu og eflt sjónræna hugsun.

Innan myndlistar geta teikningar bæði staðið sem sjálfstæð myndverk og sem undirbúningur eða skissur að listaverkum sem unnin eru í önnur efni eins og til dæmis málverk og skúlptúr. Sem sjálfstæð listaverk geta teikningar verið frjáls listsköpun án fyrirmyndar. Þær geta sagt sögur, verið heimildir um lifnaðarhætti fólks á mismunandi tímum, verið til útskýringar eða skrauts eða myndasögur til dæmis fyrir börn. Bækur eru auk þess oft myndskreyttar með teikningum sem bæta við efni sögunnar.

Teikningin hefur fylgt manninum frá upphafi. Áður en hann lærði að skrifa tjáði hann sig með teikningum. Eins og önnur listform hefur teikningin þróast í gegnum tíðina bæði í sambandi við stíl og tækni. Til er frásögn um uppruna teikningarinnar frá fyrstu öld eftir Krist. Hún segir frá stúlku sem teiknaði vangamynd elskhuga síns eftir skuggamynd sem í skini lampa féll á vegg en með því vildi hún varðveita mynd hans.

Ein elsta manngerða teikning sem vísindamenn hafa fundið er á litlum steini í Suður-Afríku. Teikningin sem er gerð með rauðum leir er talin vera 73.000 ára gömul og líkist því sem mætti kalla rúðustrikun. Mjög lítill hluti teikningarinnar er á steininum og segja sumir hana líkjast myllumerki.[1] Gaman er að ímynda sér hvernig teikningin hafi litið út í heild.
[1] www.mbl.is/frettir/innlent/2018/09/13/elsta_teikning_heims_likist_myllumerki/

Úr íslensku Teiknibókinni. Bókin hefur að geyma myndefni sem notað var sem fyrirmyndasafn listamanna frá 14. öld fram á 17. öld.
Árnastofnun

Í Árnastofnun er varðveitt svokölluð Teiknibók frá miðöldum en hún er ein fárra slíkra bóka sem varðveittar eru á Norðurlöndum. Teiknibókin inniheldur safn mynda sem teiknarar notuðu sem fyrirmyndir í verk sín en á miðöldum var stuðst við fastmótað tákn- og myndkerfi bæði í orðum og myndum svo rétt merking skilaði sér til allra hvort sem þeir voru læsir eða ekki.[1]
[1] https://arnastofnun.is/is

Á árunum 1846–1847 skrifaði Helgi Sigurðsson (1815–1888) ritgerðina „Ávísun um uppdrátta og málaralistina“. Ritgerðin er hugsuð sem kennslubók í teikningu og málun og þar er meðal annars ítarlegur kafli um fjarvíddarteikningu með skýringarmyndum. Þar útskýrir hann hvernig teiknarinn býr til dýpt í myndina með því að nota hjálparlínur/fjarvíddarlínur sem enda í fjarvíddarpunkti inni í myndrýminu. Þannig virðast þeir hlutir sem eru fremst í myndinni stærri en þeir sem eru fjær. Einnig er hægt að skapa tilfinningu fyrir fjarvídd með litum. Sjá skýringarmynd: Rými.

Helgi stundaði nám í myndlist í Kaupmannahöfn jafnframt því að læra læknisfræði. Hann gerðist síðar læknir, bóndi og prestur á Vesturlandi. Eftir Helga liggja nokkur verk meðal annars teikningar af merkum Íslendingum á 19. öld. Hann teiknaði andlitsmynd af skáldinu Jónasi Hallgrímssyni þegar Jónas var nýlega látinn í rúmi sínu á sjúkrahúsi. Jafnvel þótt vinum hans hafi ekki þótt mikið til teikningarinnar koma á sínum tíma er hún þó sú mynd sem Íslendingar geyma í hugskotssjónum sínum af skáldinu. Hún varð síðar fyrirmynd annarra listamanna af Jónasi eins og hjá Einari Jónssyni myndhöggvara og Kjarval.[1]
[1] Björn Th. Björnsson, Íslenzk myndlist I, Helgafell, Reykjavík, 1964, 29

Helgi Sigurðsson, Jónas Hallgrímsson, blýantsteikning, 34,50 x 38,50 cm, 1845.
Listasafn Íslands: LÍ 152

Sigurður Guðmundsson, Gamall maður, blýantsteikning, 50,5 x 40,5 cm, 1852.
Listasafn Íslands: LÍ 1416

Sigurður Guðmundsson málari (1833–1874) var einnig þekktur fyrir teikningar af samferðafólki. Hann sýndi snemma áhuga á teikningu og fékk styrk til náms í myndlist í Kaupmannahöfn. Sigurður var hugsjónamaður og beitti sér fyrir varðveislu þjóðlegrar listmenningar. Hann teiknaði meðal annars nýja gerð af íslenska kvenbúningnum sem byggði á gamalli hannyrðahefð og silfursmíði.[1]

Í mannamyndum Sigurðar kemur fram hæfileiki hans og næmni til þess að ná fram persónulegu svipmóti og fasi þeirra sem hann teiknar.
[1] Sama 38

Benedikt Sveinbjarnarson Gröndal (1826–1907) var eitt af höfuðskáldum þjóðarinnar, fjölfræðingur, listaskrifari og teiknari. Hann teiknaði meðal annars myndir af öllum fuglum sem sést höfðu á Íslandi fram til ársins 1900 en þær myndir hafa komið út í bók. Auk þess að teikna fuglana af mikilli nákvæmni lýsir hann þeim og segir frá því helsta sem um þá var vitað. Þessar myndir Benedikts eru gott dæmi um það hvernig nota má teikningar til skrásetningar og aukinnar þekkingar um leið og þær hafa listrænt gildi.

Benedikt Sveinbjarnarson Gröndal, fugl/ugla, 1870–1905.
Þjóðminjasafn Íslands: ÞE-33

Ásgrímur Jónsson, Trunt, trunt og tröllin í fjöllum (Gellivör?), túskteikning, 45 x 60 cm, 1958.
Listasafn Íslands: LÍÁJ 696

Teikning var mikilvægur hluti myndlistar Ásgríms Jónssonar (1876–1958) og hann vann jöfnum höndum að landslagsverkum og þjóðsagnamyndum. Hann var fyrsti íslenski myndlistarmaðurinn sem sótti innblástur í þjóðsögurnar. Í safni Ásgríms eru um 1500 myndir sem tengjast efni íslenskra þjóðsagna og ævintýra, blýants- og pennateikningar, vatnslitamyndir og olíumálverk. Teiknibækur hans geyma á þriðja þúsund teikninga og er stór hluti þeirra úr þjóðsögum. Myndirnar eru flokkaðar í ævintýri, tröllasögur, álfasögur og draugasögur. Þjóðsagnamyndir Ásgríms

eiga sér stað í íslensku landslagi sem hann ýkir í anda frásagnarinnar. Álfar og huldufók, tröll og mennskir menn birtast ljóslifandi í dramatískum teikningunum.[1]
[1] http://www.listasafn.is/safneign/innkaupanefnd/vefsyning/thjodsagnamyndir/ sótt 11. okt. 2018

Líkt og Ásgrímur leitaði Guðmundur Thorsteinsson, Muggur (1891–1924) eins og hann var kallaður, í þjóðsögur og ævintýri og myndskreytti meðal annars söguna um Búkollu. Síðar vann hann frjálsar teikningar sem ekki hafa tengingu við ákveðnar sögur þó að myndefnið sé þjóðsagnakennt. Teikningin Stúlkan og huldusveinninn er gott dæmi um myndir þar sem vísað er í samband huldufólks og mennskra manna eins og algengt var í þjóðsögum. Sagan af Dimmalimm, sem hann samdi handa lítilli frænku sinni árið 1921, er sígilt verk og þykir ein mesta perla íslenskra barnabóka, en Muggur samdi bæði söguna og teiknaði myndirnar.

Guðmundur Thorsteinsson, Muggur, Stúlkan og huldusveinninn, 24,5 x 16,5 cm, 1915.
Listasafn Íslands: LÍ 1094

Jóhannes Kjarval, Þórólfur Ríkarðsson Húsey, túskteikning, 33 x 25 cm, 1926
Listasafn Íslands: LÍ 305

Þó að litið sé á Jóhannes Kjarval (1885–1972) fyrst og fremst sem landslagsmálara, skipaði teikningin stóran sess í list hans. Á námsárum sínum í Kaupmannahöfn var hann þegar farinn að teikna andlitsmyndir sem hann sinnti síðan af miklu kappi og hélt sýningu á þeim árið 1927. Síðar bættust enn fleiri andlit í hópinn sem sýna ólíkar karaktera. Í þessum myndum sem oft eru kallaðar Hausarnir hans Kjarvals mótar hann andlit fólksins þannig að manngerðin verður augljós og skýr. Hann velur líka teikniáhöld og aðferðir sem hæfa fyrirmyndunum sem eru ýmist ungt eða gamalt fólk. Hann teiknar það ýmist létt með blýanti, málar með breiðum pensli eða teiknar með krít allt eftir persónuleika þess sem hann teiknar hverju sinni.

Teikningar Valgerðar Briem (1914–2002) í myndaröðinni Landlit sem hún vann á árunum 1967–1970 eru af allt öðrum toga. Þær eru óhlutbundnar og ljóðrænar og unnar með blandaðri tækni. Þrátt fyrir að vera óhlutbundnar er í þeim sterk náttúrutenging og dýpt sem leiðir hugann að mosa, hrauni og gróðri. Valgerður var myndlistarkennari og vann skissubækur og óteljandi teikningar í tengslum við myndlistarkennsluna. Hún skildi eftir sig mikið safn teikninga sem er varðveitt í Gerðarsafni í Kópavogi.[1]
[1] https://gerdarsafn.kopavogur.is/safnkostur/einstaklingssofn/vidburdur/22/valgerdur-briem sótt 11. okt. 2018

Valgerður Briem, Landlit, litaduft, vatn, þrykktækni á pappír, 56,70 x 88,50 cm, um 1967-1970.
Listasafn Íslands: LÍ 8019

Gylfi Gíslason, Fjallasúrmjólk, túskteikning, 72,5 x 96,5 cm, 1971.
Listasafn Íslands: LÍ 5729

Á áttunda áratug tuttugustu aldar var samband manns og náttúru og náttúruvernd í brennidepli. Myndlistarmenn tóku að sjálfsögðu þátt í þeirri vitundarvakningu og deildu á umgengni mannsins við náttúruna. Í verkinu Fjallasúrmjólk frá 1971, eftir Gylfa Gíslason (1940–2006) sem unnið er með túski og vatnslitum á pappír er vísað í Fjallamjólk Kjarvals sem er eitt frægasta málverk íslenskrar listasögu. Í stað óspilltrar náttúrunnar í málverki Kjarvals hefur Gylfi bætt manngerðum súrálsturnum til áminningar um náttúruspjöll af manna völdum.[1]
[1] Dagný Heiðdal, „Samband manns og náttúru“, Íslensk listasaga IV, Forlagið, Reykjavík, 2011, 147

Náttúran er líka viðfangsefni Ragnheiðar Jónsdóttir (1933) í stórum teikningum sem eru unnar með kolum á pappír á persónulegan hátt þar sem hún teiknar, nuddar og strokar út með strokleðri og fær þannig hreyfingu og dýpt í myndflötinn. Teikningarnar eru óhlutbundnar og ljóðrænn óður til náttúrunnar og þeirrar upplifunar sem hún veitir. Ragnheiður er annars þekkt fyrir grafíkverk sín sem hún vann á árunum 1968–1988 en hún segir að í teikningunni hafi hún meira frelsi í listsköpuninni.

Ragnheiður Jónsdóttir, án titils, kol á pappír, 150 x 300 cm, 1993.
Listasafn Íslands: LÍ 5659

Kristján Guðmundsson, Hraðar/hægar I-II, blekteikning á þerripappír, I: 8 x 53,5, II: 10,5 x 53,5 cm, 1975.
Listasafn Íslands: LÍ 3940

Kristján Guðmundsson (1941) telst til hóps hugmyndalistamanna sem komu fram á Íslandi á áttunda áratug tuttugustu aldar og áttu rætur í Hollandi og víðar í Evrópu. List þeirra byggðist á hugmyndinni sjálfri en ekki formi, stíl eða handverki listamannsins sem þeir vildu forðast. Kristján sneri sér að rannsóknum á grunnatriðum teikningarinnar árið 1974, pappírnum, pennanum og línunni í anda hugmyndalistar. Hann notaði reglustiku og skeiðklukku til þess að teikna línur með bleki í gljúpan þerripappír. Lengd línanna markast af tíma og hraða eins og til dæmis í verkinu Hraðar/hægar I-II, þar sem hægt dregnar línur kölluðu á breiðari þerripappír en þegar teiknað er hraðar.

Kristján Guðmundsson, Án titils, blýantur á bókfellspappa, 175 x 33 cm, 1987.
Listasafn Íslands: LÍ 4726

Teikningin verður að lágmynd í verkinu Án titils frá 1987, sem er sett saman úr mótuðum og samlímdum papparenningum sem eru þaktir blýi á jöðrunum.[1]
[1] Halldór Björn Runólfsson, „Kristján Guðmundsson“, Íslensk listasaga IV, 175

Steingrímur Eyfjörð (1954) blandar saman mörgum miðlum í verkum sínum en teikningin er þó alltaf mikilvægur þáttur. Hann hefur meðal annars unnið verk út frá teikningu Ásgríms Jónssonar Tröllin á Hellisheiði frá 1948 sem sýnir tröll varpa björgum í sjó fram og búa þannig til Vestmannaeyjar. Í þessum verkum Steingríms sem voru á sýningu sem nefndist Bein í Skriðu voru teikningar á veggjum og steinar á gólfi þar sem er vísað í fornar sagnir um leið og þær hafa tilvísun í samtímann. Þannig rennur gamli og nýi tíminn saman og vekur upp ímyndunarafl áhorfandans.[1]

Samsett verk Steingríms Fýkur yfir hæðir hefur líka vísun í teikningu eftir Ásgrím Jónsson sem er myndskreyting við kvæði Jónasar Hallgrímssonar Móðurást. Þar blandar Steingrímur saman teikningum og leirverkum sem saman mynda táknræna frásögn út frá kvæði Jónasar um leið og teikning Ásgríms fær nýtt samhengi og er gott dæmi um það hvernig þjóðsagnateikningar hans lifa með þjóðinni.
[1] Ragna Sigurðardóttir, „Steinaldarmennirnir og Sisyfos“, Morgunblaðið 25. maí 2005, 21, timarit.is.

Steingrímur Eyfjörð, Fýkur yfir hæðir, 49 x 68 cm, 2004.
Listasafn Íslands: LÍ 6918

Óhlutbundnar teikningar Þóru Sigurðardóttur (1955) eru marglaga og fjalla um tíma, rými og afbökun þess, um rýmið í teikningunni, teikninguna í rýminu, þrívíddina sem leynist í tvívíddinni og öfugt. Hún veltir fyrir sér rýminu sem línan markar og býr til innra og ytra rými.

Persónuleg teikning og myndheimur einkenna verk Gabríelu Friðriksdóttur (1971) sem hún vinnur í ólíka miðla. Teikningin er léttleikandi og fantasíukennd og furðufígúrur leika um myndflötinn í óræðri frásögn sem tengja má við teiknimyndaseríur.

Guðmundur Thoroddsen, Steggjun, teiknun – blönduð tækni, 76,5 x 57 cm, 2017.
Listasafn Íslands: LÍ 9178

Guðmundur Thoroddsen (1980) blandar saman teikningu, samklippi og málverki í verkum sem fjalla um karlmennskuna í fortíð og samtíð á gamansaman hátt. Hann klippir út teiknaða karla og hluti sem tengja má hugmyndum um karlmennsku sem virðast úr ólíkum áttum svo úr verður furðuleg og kímin frásögn.