Rými og dýpt

Veggspjald: Rými.

Veggspjald: Rými.
Þegar rætt er um að málverk hafi dýpt þýðir það að listamanninum hefur tekist að búa til rými í myndinni. Þá virðist oft sem áhorfandinn geti farið inn í myndina og nýta listamenn ýmsar aðferðir til að koma þeirri tilfinningu að, eins og:

SKÖRUN

Skörun er aðferð sem meðal annars má sjá í málverki franska málarans Georges Seurats (1859–1891), Sunnudagssíðdegi á eynni La Grande Jatte. Til að sýna að eitthvert fólk er framar í myndinni en annað lætur Seurat það fólk skyggja á fólkið sem er aftar í myndinni. Á þann hátt er aftara fólkið að hluta til falið bak við það sem er framar. Þetta er kallað skörun.

Georges Seurat, Sunnudagssíðdegi á eynni La Grande Jette, 206 x 305 cm, 1891.
Wikimedia

SMÆKKUN

Adolph Tidemand og Gude, Brúðarförin í Harðangri, 93 x 103 cm, 1848.
Wikimedia

Smækkun er önnur leið sem listamenn nota til að búa til dýpt í myndum sínum. Þegar maður sér hluti úr fjarlægð sýnast þeir ævinlega minni en þeir eru í raun og veru. Því lengra burtu sem hluturinn er þeim mun minni sýnist hann. Þegar við sjáum flugvél á flugi fyrir ofan okkur getum við sett þumalfingurinn fyrir hana þannig að hún hverfur á bak við hann þrátt fyrir að flugvélin sé nógu stór til að bera margt fólk. Listamennirnir nota svipaða brellu í myndum sínum. Dæmi um slíkt má sjá í málverki Tidemand og Gudes Brúðarförin í Harðangri. Báturinn vinstra megin er málaður miklu stærri en sá sem er hægra megin þrátt fyrir að í raun og veru séu þeir jafnstórir. Hann virðist því nær. Hvernig hefði það breytt myndinni ef Tidemand og Gude hefðu málað báða bátana jafnstóra?

Einnig er hægt að sjá dæmi um smækkun í málverki Seurat hér að framan, Sunnudagssíðdegi á eynni La Grande Jatte. Fólkið verður sífellt minna eftir því sem innar dregur í myndina. Listamennirnir nota oft fjarvíddarlínur til að smækkun af þessu tagi verði eðlileg.

FJARVÍDDARLÍNUR

Listamenn beita oft fjarvíddarlínum til þess að gera dýpt og fjarvídd í málverkum eðlilega. Fjarvíddarlínur eru skálínur sem enda í fjarvíddarpunkti inni í myndinni. Við sjáum ekki alltaf þessar línur en listamaðurinn notar þær oft sem hjálparlínur þegar hann byggir upp verk sitt.

Á málverki Munchs Ópinu eru mörg dæmi um slíkar fjarvíddarlínur.

Edvard Munch, Ópið, 91 x 74 cm, 1893.
Wikimedia

JÁKVÆTT OG NEIKVÆTT RÝMI

Hver þessara skúlptúra hefur mest neikvætt rými?

Stundum er talað um jákvætt rými og neikvætt rými á myndum. Jákvætt rými í mynd er sá hluti myndarinnar sem við köllum oft myndefni. Neikvætt rými er þá sá hluti myndarinnar sem við skiljum eftir. Bæði rýmin skipta máli fyrir myndina.

Ef svartur punktur er settur á hvítt blað er punkturinn jákvæða rýmið á fletinum.

Magnús Pálsson, Flæðarmál, gifssteypa, 45 x 39 x 23 cm, 1976.
Listasafn Íslands: LÍ 7189

Ásmundur Sveinsson, Ráðskonan (Gólfþvottur), skúlptúr, brenndur leir, hæð 50 cm, 1950.
Listasafn Íslands: LÍ 7127

Gerður Helgadóttir, Abstraktion, málmskúlptúr, 91 cm, 1952.
Listasafn Íslands: LÍ 7079

Verkið Abstraktion hefur mest neikvætt rými, í því eru mörg göt sem loftar um.

LITIR

Einnig er hægt að búa til rými í málverki með litum. Hefur þú veitt því athygli hvernig fjall lítur út í töluverðri fjarlægð? Þótt það kunni að hljóma undarlega þá verður fjall sem séð er úr fjarlægð bláleitt á litinn. Því lengra sem það er í burtu þeim mun ljósara verður það og sama gildir þótt fjallið sé skógi vaxið. Dæmi um þetta má sjá í málverkinu Brúðarförin í HarðangriTidemand og Gude máluðu fjöllin ljósblá til að gefa til kynna að þau séu langt í burtu. Þannig sjáum við nefnilega fjöllin úr fjarlægð. Enda er stundum sagt að fjarlægðin geri fjöllin blá.

Blár litur er þar að auki kaldur litur. Kaldir litir draga sig til baka en þeir heitu koma á móti áhorfandanum. Taktu eftir því hvernig rauði liturinn í jakka brúðarinnar dregur að sér athygli áhorfandans.

Adolph Tidemand og Gude, Brúðarförin í Harðangri, 93 x 103 cm, 1848.
Wikimedia

Forgrunnur, miðrými og bakgrunnur

Á þessari mynd er fjallið og himinninn í bakgrunni, konan með hattinn er í miðrými og barnið í forgrunni.

Hlutir sem virðast vera fremst á mynd eru í forgrunni hennar. Í forgrunni sjást smáatriðin.

Hlutir sem virðast á milli forgrunns og bakgrunns eru í miðrými myndar.

Hlutir sem virðast aftast á mynd eru í bakgrunni hennar.

Frumþættir

LITIR

FORM

MYNDBYGGING

LISTRÝNI