Poul Henningsen, PH-Lampe, 1925.
Wikimedia

Um aðferðina

Flestallir hlutir sem við notum í daglegu lífi og teljum sjálfsagða eru hannaðir. Það á jafnt við um stóra sem smáa hluti, flókna og einfalda. Hönnun felst í því að móta og ákveða útlit og form hluta en hún felur líka í sér að leita nýrra lausna, breyta hugmynd, endurgera hluti, betrumbæta eða samþætta heildarmynd. Þannig hefur hugmyndafræði hönnunar og fagurfræði oft mikil áhrif á umhverfi okkar og daglegt líf. Hönnun er ekki hluturinn sjálfur heldur allir þeir þættir sem hún byggist á eins og hugmynd, rannsókn, rökhugsun, fagurfræði og ímyndunarafli.

Dæmi um vöruhönnun, ultima thule glermunir.
Wikimedia

Hönnun skiptist í margar undirgreinar eða flokka, til dæmis byggingarlist, fatahönnun, vöruhönnun, grafíska hönnun, viðmótshönnun og upplifunarhönnun, og sá sem fæst við hönnun kallast hönnuður. Hönnunarferli hlutar getur verið langt og í því felst oft mikil rannsóknarvinna áður en hafist er handa við framleiðslu eða endanlega gerð hans. Góð hönnun og handverk getur skapað ný viðmið fyrir komandi kynslóðir og getur jafnvel orðið að klassískri hönnun sem heldur gildi sínu í framtíðinni.

Teikning og handverk eru mikilvægir þættir í hönnunarferlinu. Orðið hönnun, design á ensku er dregið af ítalska orðinu disegno sem merkir teikning og var einnig notað um hugmyndina að baki ákveðnu verki á tímum endurreisnarinnar á 15. og 16. öld. Listamaðurinn sem skapar var settur jafnfætis hinum fullkomna skapara, Guði, en það var liður í því að upphefja málverkið frá handverki til listar.[1] Margir líta á ítalska endurreisnar listamanninn Leonardo da Vinci (1452–1519) sem fyrsta þekkta hönnuðinn en hann var allt í senn hugsuður, listamaður og vísindamaður.[2]
[1] https://www.nationalgallery.org.uk/paintings/glossary/disegna
[2] Thomas Hauffe, Hönnun, sögulegt ágrip, þýð. Magnús Diðrik Baldursson, Háskólaútgáfan 1999, 11

Leonardo da Vinci vinnuteikning af flugtæki.
Wikimedia

Verkfæri frá steinöld.
Wikimedia

Handverkið hvílir á árþúsunda þróun og rótgrónum hefðum. Kunnátta og verkskilningur er mikilvægur þáttur handverksins jafnt nú á tímum sem fyrr á öldum. handverkið sameinar hug og hönd, hugsun og framkvæmd og er grundvöllur þess að skilja eðli hönnunar og þá tækni sem nýta má við að framleiða hana. Ný uppfinning leiðir til nýrrar hönnunar og tækninýjungar skapa nýja möguleika.

Hugtakið hönnun eins og við þekkjum það kom fram á 19. öld í kjölfar iðnvæðingar og fjöldaframleiðslu og þá hefst saga hönnunar. Hlutir höfðu þó verið hannaðir í meira en milljón ár og elstu dæmin um hönnun hluta eru verkfæri frá fornsteinöld.

Þá var til dæmis grjót notað sem verkfæri og þróað og betrumbætt til dæmis með því að höggva það til og gera beittara og oddhvassara. Þetta var mikilvægt skref steinaldarfólks í átt til nútímasamfélags.[1]

Í Grikklandi og Róm til forna var fagurfræði hönnunar upphafin og þar voru sett fram lögmál um jafnvægi, samsvörun og samhverfu sem hefur verið ríkjandi síðan einkum á tíma endurreisnarinnar og þegar klassíkin var endurvakin á seinni hluta 18. og 19. aldar.
[1] Hönnun, leiðsögn í máli og myndum, JPV útgáfa, 12.

Fagurlega skreyttar forngrískar myntir með áherslu á klassíks form eru fyrirmynd mynthönnunar nútímans.
Wikimedia

William Morris, Strawberry Thief, hönnun, 1883.
Wikimedia

Hlutir voru oftast búnir til af handverksmönnum fram á 18. öld en þegar iðnbyltingin gekk í garð í lok aldarinnar og vélvæðing varð almennari kom það í hlut hönnuðarins að gera vinnuteikningar og verkáætlun fyrir verksmiðjuframleiðslu.[1] Með iðnvæðingunni jukust möguleikar til fjöldaframleiðslu og um miðja 19 öld varð hugtakið hönnun eins og við notum það í dag til. Alls konar stílar og stefnur komu fram sem urðu einkennandi fyrir ákveðin tímabil og stundum voru margir stílar ráðandi í einu.[2] Þannig fylgir hönnun þeim tíðaranda og tísku sem ríkjandi er hverju sinni hverju sinni.

Ekki voru allir jafn hrifnir af vélvæðingunni sem fylgdu iðnbyltingunni. Breska skáldið og listamaðurinn William Morris (1834–1896) hóf handverkið aftur til vegs og virðingar með framleiðslu á vönduðum handunnum listiðnaði. Hann fékk með sér handverksfólk úr ýmsum iðngreinum eins og vefara, leirkera- og húsgagnasmiði, glerskera, prentara og teiknara og stofnaði fyrirtæki þar sem framleidd voru húsgögn, áklæði og veggfóður með mynstri eftir Morris, steint gler og myndvefnaður. Aðalframleiðslan var húsgögn þar sem handverk- og verkkunnátta smiðsins fékk að njóta sín. Morris vildi efla skynbragð fyrir fögrum hlutum en vegna þess hve þeir urðu dýrir í framleiðslu hafði almenningur ekki efni á að eignast þá.[3]
[1] Sama heimild 12.
[2] Sama heimild 15.
[3] Björn Th. Björnsson, Aldateikn, Mál og menning, 1973, 180.

Í kjölfar heimstyrjaldarinnar fyrri litu framsæknir hönnuðir til nýrri tíma undir merkjum módernisma. Form hlutarins átti að ráðast af hlutverki hans og lögð var áhersla á einföld form, án skrauts og óþarfa. Farið var að nota ný efni eins og krossvið og stálrör í húsgögn. Hús voru með flötu þaki stórum gluggum og hvítum veggjum. Húsgögnin áttu að vera þægileg og lögð var áhersla á að allt væri vel unnið.[1]
[1] Hönnun, leiðsögn í máli og myndum, 167

Marcel Brauer, Wassily stóll, 1925.
Wikimedia

Táknmynd Bauhaus hönnuð af Oskar Schlemmer 1922.
Wikimedia

Stofnun Bauhaus skólans í Þýskalandi árið 1919 var merkasta tilraunin í þá átt að endurvekja handverk og sjónlistir í daglegu umhverfi. Stofnandi skólans Walter Gropius (1883–1969) fékk framsækna hönnuði, listamenn og arkitekta til að kenna við skólann sem var starfræktur á árunum 1919–1933. Markmiðið var að gera list- og iðnnámi jafn hátt undir höfði. Lögð var áhersla á kanna ný efni, notagildi og framleiðslumöguleika með nýjustu tækni og þeim möguleikum sem hún bauð uppá og lagður grunnur að nútíma iðnhönnun sem hefur áhrif enn í dag.[1]
[1] Björn Th. Björnsson, 184

Ýmislegt í umhverfi okkar sem við teljum sjálfsagt nú má rekja til uppfinninga Bauhaus skólans eins og til dæmis ópalglerið sem er hálfgegnsætt hvítt gler og mikið er notað í ljós og lampa. Borðlampi út málmi og gleri eftir Karl J. Jucker (1902–1997) og Wilhelm Wagenfeld (1900–1990) frá 1923-´24 var ein af aðal framleiðsluvörum Bauhaus. Skermur lampans og fótur eru úr gleri og málmi en slökkvari í keðju var líka ein af uppfinningum Bauhaus.

Árið 1924 var flutti skólinn til Dessau þar sem reistar voru nýjar byggingar fyrir skólann þar sem hver einasti hlutur var hannaður af aðstandendum og nemendum skólans. Enda þótt Bauhausskólinn hafi verið lagður niður árið 1933 lifðu hugsjónir hans áfram með listamönnunum sem þar höfðu starfað og barst um allan heim. Sú stefna að samræma fegurð forms og efnis við notagildi og framleiðsluhæfni festist í sessi á norðurlöndum og þar má sjá áhrif frá Bauhaus í byggingum og þekktum listiðnaðarvörum

Jucker og Wagenfeld, borðlampi – Bauhaus, hönnun, 1923–1924.
Wikimedia

Háskólinn í Ulm í Þýskalandi. Listaverkið, Poet and his Muse, er eftir Niki de Saint Phalle (19302002).

Á 7. áratug tuttugustu aldar tók hönnun ekki lengur mið af listum heldur nýjustu tækni, vísindum og nútímaframleiðsluaðferðum. Tækniframfarir á öllum sviðum urðu hönnuðum hvatning til að hanna vörur í óvenjulegum formum og litum og til dæmis komu þá fram litrík plasthúsgögn á Ítalíu. Í hönnunarskólanum í Ulm í Þýskalandi sem var starfræktur á árunum 1953–1968 var funksjónalismi ráðandi en hann hafði áhrif um allan heim. Funksjónalisminn byggðist á einföldum formum, hófsemi í litavali og ákveðinni kerfishugsun í hönnun hluta fyrir heimilið sem hæfðu nútímalífsstíll. Áhrifa geimferðakapphlaupsins á 6. og 7. áratugnum kom fram í notkun nýrra efna þar sem króm, silfur og mótað plast var notað til að líkja eftir vistarverum í geimflaugum.

Einn þekktasti hönnuður 20. aldar er Dieter Rams (1932) frá Þýskalandi. Hann var bæði arkitekt og smiður og var einn af yfirhönnuðum fyrirtækisins Braun sem framleiddi m.a. útvarpstæki, hljómflutningstæki og ýmiss konar heimilistæki eins og kaffivélar. Einnkunnarorð hans voru „minni hönnun er meiri hönnun“, því hönnunin átti að vera tímalaus, einföld og tæknilega fullkominn.

Dieter Rams og Hans Gugelot, Braun Phonosuper SK4, „Snow White coffin“, 1956.
Wikimedia

Hönnun í samtímanum tengist öllum sviðum atvinnulífsins og birtingarmyndir hennar eru margþættar. Hönnun færir okkur áhugaverða og gagnlega hluti, fatnað, vefsíður og hús en fæst erum við meðvituð um þá fjölmörgu og ósýnilegu þræði hönnunar sem mynda umhverfi okkar og hafa mótandi áhrif á okkar daglega líf. Þó að enn sé unnið að hönnun í hefðbundnum skilningi hefur hugsunarháttur hönnunar skilað sér inn í aðrar atvinnugreinar sem leiða til samstarfs ólíkra greina þar sem tekist er á við margskonar verkefni. Hönnuðir samtímans láta sig varða samfélagsleg málefni og umhverfismál og þeim er ekkert í samfélaginu óviðkomandi. Þannig geta verk þeirra vakið fólk til umhugsunar og hvatt til aðgerða. Sjálfbærni, endurvinnsla, hverskyns sóun, óhófleg neysla og nýjar vistvænar framleiðsluaðferðir eru allt málefni sem hönnuðir samtímans takast á við.

Íslensk hönnun

Þó að orðið hönnun hafi ekki komið inn í íslensku fyrr en á sjötta áratug tuttugustu aldar þá höfðu íslenskir hönnuðir verið starfandi lengur. Íslensk hönnun á uppruna sinn í alþýðlegu handverki og gripir frá fyrri öldum sem varðveittir eru í söfnum víða um land vitna um handverk, verkkunnáttu og hagleik Íslendinga á fyrri tímum. Dæmi um slíka verkkunnáttu er taðkvörn eftir Gísla Sigmundsson frá 1880 sem Sigurður Ólafsson endurbætti um 1900. Í henni var malaður áburður (tað) sem síðan var borinn á gróðurinn. Talið er að taðkvörnin sé íslensk hugmynd og að þá fyrstu smíðaði Gísli P. Sigmundsson á Ljótsstöðum í Skagafirði.

Þorkell G. Guðmundsson, Spíra, fura, textíll, ullarefni, 60 cm x 150 cm x 63 cm, 1965-1967
Hönnunarsafn Íslands: Hs/2000-85

Um miðja 20. öld urðu miklar breytingar á íslensku samfélagi, efnahagur batnaði og fólk flutti úr sveit í borg. Nýir lífshættir kölluðu á nýjar lausnir í híbýlum fólks og íslensk hönnun þróaðist hratt á þessum tíma. 

Mikil vakning hefur verið í íslenskri hönnun á undanförnum árum. Menntun hönnuða á Íslandi fer fram í Listaháskóla Íslands en með stofnun hans árið 1998 á grunni Myndlista- og handíðaskóla Íslands var loks boðið upp á menntun á háskólastigi hér á landi í grafískri hönnun, vöruhönnun, arkitektúr og fatahönnun en margir stunda einnig nám í hönnun og arkitektúr erlendis. Tækniskóli Íslands og nokkrir framhaldsskólar bjóða upp á nám í hönnunargreinum á sérstökum listnámsbrautum.

Á meðal fyrstu fjöldaframleiddu húsgagna eftir íslenskan hönnuð var sófinn Spíra eftir Þorkel G. Guðmundsson (1934). Hægt var að leggja niður armana svo nota mátti sófann sem rúm og undir honum var rúmfatageymsla. Þorkell hannaði líka ullaráklæðið á sófann í nokkrum litum.

Hönnunarsafn Íslands sem var stofnað árið 1998 safnar og varðveitir íslenska hönnun einkum frá aldamótum 1900 og til samtímans. Safnið einbeitir sér ekki einungis að söfnun hönnunargripa heldur safnar það líka vinnuteikningum og öðrum gögnum sem varða vinnu hönnuða. Í safninu eru haldnar sýningar á hönnun og fjölbreyttri birtingarmynd hennar í ýmsum greinum.

Lógó Hönnunarsafns Íslands.

Húsgagnahönnun felst í því að hanna húsgögn af öllu tagi, stóla, borð, hillur, sófa og fleira. Margir húsgagnahönnuðir hafa tekist á við það verkefni að hanna stól. Stóllinn er einn algengasti gripur í heimi og flestir nota hann daglega. Stólar þurfa umfram allt að vera þægilegir og auðveldir í framleiðslu. Fagurfræðilegt gildi stóla er líka ótvírætt og því eru stólar hannaðir og framleiddir eftir stíl og tísku hvers tíma og hafa orðið tákn hvers tímabils fyrir sig í hönnunarsögunni. Sumir stólar verða klassískir og en aðrir heyra sögunni til. Litli borðstofustóllinn (1961) eftir Svein Kjarval (1919–1981) var fyrst smíðaður fyrir kaffihús í Reykjavík. Hann er enn framleiddur og gengur undir nafninu Kjarvalsstóllinn. 

Arkitektúr
Í upphafi var arkitektúr eða byggingarlist skilgreind sem listin að reisa hús og fegra með tilliti til fagurfræði, notagildis og tækni. Orðið arkitekt kemur frá gríska orðinu arkitekton sem þýðir yfirsmiður. Í dag er skilgreiningin mun víðtækari og nær yfir allt manngert umhverfi og mótun þess. Viðfangsefnin eru fjölbreytt og þar fléttast inn samfélagsleg ábyrgð og almenn meðvitund um umhverfi og almenningsrými. 

Húsavíkurkirkja var vígð árið 1907 en arkitektinn Rögnvaldur Ólafsson (1874–1917) teiknaði hana. Hann var fyrsti Íslendingurinn sem nam byggingarlist og fyrsti nútíma húsameistarinn sem Íslendingar eignuðust. Húsavíkurkirkja er timburhús en hún stendur á steinhlöðnum sökkli.

Grafísk hönnun
Grafískir hönnuðir fást við fjölbreytt verkefni á sviði prentmiðla eins og til dæmis auglýsingar, kynningar og bóka- og umbúðahönnun. Þeir hanna líka fyrir stafræna miðla eins og til dæmis tölvuleiki, viðmót í tölvum og hönnun á heimasíðum. Þeir gera myndskreytingar, hanna letur og lógó eða merki auk þess að annast skilti og margt fleira.

Fatahönnun
Fatahönnuðir hanna fatnað undir eigin merkjum eða vinna hjá framleiðslufyrirtækjum eða tískuhúsum. Um leið og fatnaður er nauðsynjavara er hann líka ákveðinn tjáningarmáti sem fylgir tískustraumum og tíðaranda. Hugmyndavinna er stór hluti hönnunarferlisins en í henni felst þróunarvinna og framsetning, val á efni og litum sem síðan er notað við sníðagerð. Vandaður fatnaður úr góðum efnum er alltaf eftirsóttur og fatahönnun í samtímanum beinist í auknu mælið að endurvinnslu, meðvitund um verndun náttúrunnar og gegn óhóflegri neyslu. Hönnuðirnir sækja innblástur í öll svið mannlífsins og áhrif geta komð frá náttúrunni, íþróttum, listaverkum, kvikmyndum, leikhúsum og öðrum þáttum menningarinnar. Í námsefninu Fatahönnun fyrir grunnskóla má lesa ýmsan fróðleik.

Coco Chanel (1883–1971) var franskur brautryðjandi á sviði kventískuhönnunar.

Hér má sjá annars vegar hönnun Dieter Rams (Braun) og hins vegar hönnun Jony Ive (Apple).

Vöru- og iðnhönnun
Vöru- og iðnhönnuðir vinna fjölbreytt verkefni og nota ýmiskonar tæki og tól til þess að móta og miðla hugmyndum sínum. Þeir vinna meðal annars verkefni á sviði matarhönnunar, efnisrannsókna og staðbundinnar framleiðslu í samstarfi við félög og stofnanir í samfélaginu. Oft er um að ræða þverfaglega samvinnu eins og til dæmis á sviði verkfræði, hönnunar og tónlistar sem miðar að því að framleiða vöru þar sem allir þættir framleiðslunnar koma saman.

Skartgripahönnun
Skartgripagerð er aldagömul grein og í öllum menningarheimum þekkist að fólk skreyti sig með skarti. Skartgripir eru oftast úr málmum eins og gulli, silfri en einnig eru notuð efni eins og raf og perlur eða óhefðbundin efni eins og gúmmí, skeljar, plöntur eða plast allt eftir hugmyndaauðgi hönnuðarins. Form skartgripa eru ólík eftir menningarheimum og geta haft táknræna merkingu.

Perlufesti sem fannst árið 1933 í Mesópótamíu og er talin vera frá því um 2500 f. Kr.