NÝIR MIÐLAR

Steina Vasúlka, Of the North, nýir miðlar – innsetningar, 2001.
Listasafn Íslands: LÍ 8075

Um aðferðina

Til aðgreiningar frá hefðbundnari miðlum myndlistar eins og málverki, skúlptúr og grafík er talað um nýja miðla. Listamennirnir nýta sér þá margskonar tækni og tæki til þess að miðla listaverkum sínum eins og tölvutækni, vídeó, rafmagni, hljóð og tónlist og margir blanda saman fleiri en einni listgrein í margslungnum verkum. Gjörningar, þátttökuverk og önnur tímatengd verk tilheyra líka þessum flokki listmiðla.

Orðið gjörningur er notað yfir það sem kallast á ensku „happenings“ eða „performance“.  Það er tímabundið verk eða einstakur atburður sem byggist á athöfn sem listamaðurinn framkvæmir í viðurvist áhorfenda. Gjörningurinn tengist gjarnan hversdagslegum athöfnum mannsins og teygir sig inn á svið annarra miðla eins og leiklistar, tónlistar og kvikmynda þar sem ólíkum listgreinum og miðlum er blandað saman. Listamaðurinn notar eigin líkama til að framkvæma ákveðna hugmynd sem oftar en ekki felur í sér ádeilu eða pólitíska sýn og gæðir hana lífi. Gjörningurinn byggist þannig á hugmynd og athöfn en ekki á sýnilegri útkomu í formi listaverks eins og til dæmis málverks eða skúlptúrs. Hann má framkvæma gjörninginn hvar sem er, í listasöfnum, galleríum, úti í náttúrunni eða í almannarými. Gjörningur er framkvæmdur af einum listamanni eða fleirum og oft eru áhorfendur líka þátttakendur. Gjörningurinn getur verið einfaldur og tekið stutta stund eða flókinn og framkvæmdur af hóp í lengri tíma. Eina heimildin um gjörninginn er ljósmyndin, myndbandsupptaka af athöfninni eða skráning á honum (annað hvort fyrir fram eða eftir að honum lauk).

Bandaríska myndlistarkonan Carolee Schneemann (1939–2019) var frumkvöðull í gjörningalist þegar hún kom fram á sjöunda áratug tuttugustu aldar. Með gjörningum sínum umbylti hún hugmyndum fólks um myndlist og möguleikum listamannsins til að nota eigin líkama sem efnivið í listaverk.[1]

Gjörningurinn fékk viðurkenningu sem sjálfstæður listmiðill á áttunda áratugnum.

Listamenn sem tilheyrðu SÚM hópnum voru frumkvöðlar gjörninga á Íslandi í kringum 1974 og allt frá þeim tíma hafa listamenn notað þetta framsækna listform í bland við aðra miðla. Hér á landi eru gjörningar varðveittir í sérstöku gjörningaskjalasafni í Nýlistasafninu.
[1] Grein: Pípulagnir líkamans og innviðir netsins

Carolee Schneemann
Wikipedia

Árið 1974 vakti listamaðurinn Rúrí (1951) mikla athygli og hneykslun sumra með gjörningnum Gullinn Bíll. Gjörningurinn sem fór fram á Lækjartorgi í Reykjavík fólst í því að hún setti upp skúlptúr, Mercedes Benz bifreið sem búið var að gylla, á skúlptúrsýningu þar. Nokkrum dögum síðar réðist hún á Gullna Bílinn með sleggju eftir að hafa dreift yfir hann smápeningum og kropið á kné við bílinn líkt og í tilbeiðslu. Á númeraplötu bílsins var skráð „Konungur“ að framan og „Dýranna“ að aftan. Með gjörningnum gagnrýnir hún m.a. þá efnishyggju sem margir eru svo uppteknir af í nútíma neyslusamfélagi.

Rúrí, Gullinn bíll, 1974.
www.ruri.is

Árið 2006 var gjörningur Rúrí Tileinkun fluttur við Drekkingarhyl á Þingvöllum. Þessi áhrifamikli gjörningur er tileinkaður minningu kvenna sem voru líflátnar á 17. og 18. öld fyrir þær sakir að verða þungaðar og ala börn utan hjónabands. Hópur myndlistarmanna, kafara og kvikmyndatökumanna tók þátt í flutningi gjörningsins sem var bæði ljósmyndaður og kvikmyndaður og tók verkið 90 mínútur í flutningi.[1]
[1] https://ruri.is/

Rúrí, Tileinkun, 2005.
www.ruri.is

Mörg verka Rúrí eru umhverfis-pólitísk ádeiluverk og fjalla meðal annars á áleitinn hátt um jörðina og hverfulleika náttúrunnar og náttúruvernd. Rúrí var fulltrúi Íslands á tvíæringnum í Feneyjum árið 2003. Þar sýndi hún verkið „Archive – Endangered Waters“, sem miðlar myndum og hljóðum á gagnvirkan hátt af fossum sem eru í útrýmingarhættu.

Rúrí, Archive – Endangered Waters, 2003.
www.ruri.is

Ólafur Lárusson (1951–2014) framdi fjölmarga gjörninga á áttunda áratugnum þar sem expressjónísk túlkun er ráðandi. Í röð verka sem hann kallar Cul-de-Sac I og II 1980 notar Ólafur ólíka miðla og fremur gjörning. Gjörningurinn fólst í því að hann vafði sig inn í plastrenning og rúllaði sér í gegnum gler sem var þakið litríkum málningarslettum. Liturinn, glerið og líkami listamannsins vísar til ný-expressjónisma í málverkinu.

Ólafur Lárusson, Cul-de-Sac I, blönduð tækni – ljósmyndun, 80 x 48,5 cm, 1980.
Listasafn Íslands: LÍ 6255

Gjörningaklúbburinn, Með þökk, vídeó, 2002.
Listasafn Íslands: LÍ-9045

Gjörningaklúbburinn er hópur þriggja listakvenna sem hafa helgað sig gjörningalistinni og starfað saman frá 1996. Meðlimir klúbbsins eru Eirún Sigurðardóttir (1971), Jóní Jónsdóttir (1972) og Sigrún Hrólfsdóttir (1973). Í gjörningum þeirra sem oft eru litríkir og umfangsmiklir má greina beittan femínískan undirtón. Handverkið spilar stóran þátt í gjörningunum sem þær rekja til áhrifa frá ömmum þeirra en þær vilja upphefja handverk kvenna og setja það í listrænt samhengi. Þátttökugjörningurinn Hugsa minna skynja meira var gerður í Listasafni Íslands árið 2014. Verkið sem er á mörkum leiklistar og myndlistar „sameinar óbeislaða óvissu gjörningsins og dramatíska persónusköpun leikhússins“, eins og segir í kynningu um verkið. Áhorfendur voru beðnir um að mæta í svörtum fötum og með veru sinni voru þeir um leið þátttakendur í verkinu.

Myndbandið er talið síðasti framúrstefnumiðillinn í listum á 20. öld. Evrópskir og bandarískir listamenn hófu að gera tilraunir með miðilinn á sjöunda áratug tuttugustu aldar. Fyrsta eiginlega myndbandsverkið gerði kóreski myndlistarmaðurinn Nam June Paik (1932–2006) sem nefndur hefur verið faðir vídeólistarinn árið 1965. [1]

Þýski myndlistarmaðurinn Wolf Vostell (1932–1998) var einn af frumkvöðlum myndbandslistar en hann var líka málari og skúlptúrlistamaður og vann í anda flúxushreyfingarinnar. Hann var fyrsti listamaðurinn til þess að nota sjónvarpstæki í verk sín og lýsti því yfir að sjónvarpið væri orðið að skúlptúr 20. aldar.[2]

Saga myndbandslistar á Íslandi hófst ekki fyrr enn upp úr 1980 en síðan þá hefur listgreinin verið í stöðugri þróun og er nú algengt listform. Með aukinni tæknivæðingu bættust stafrænar aðferðir inn í listsköpunina sem bauð uppá tví- og þrívíða myndgerð og enn frekari samruna listmiðla og listgreina. Þeir íslensku listamenn sem fóru til framhaldsnáms í Jan van Eyck akademíuna í Hollandi upp úr 1980 voru fyrstu íslensku listamennirnir til þess að nota myndband. Þeirra á meðal voru hljóð- og myndbandslistamennirnir Ásta Ólafsdóttir (1948), Finnbogi Pétursson (1959) og Þór Elís Pálsson (1952). Í skólanum fengu þau tækifæri til þess að vinna með fullkomin tæki sem skilaði sér í fjölbreyttum verkum sem þau unnu í anda ljóðrænnar hugmyndalistar.[3]
[1] Harpa Þórsdóttir, Íslensk listasaga V, „Myndbandslistin við upphaf níunda áratugarins“, Forlagið, Listasafn Íslands, 2011,189
[2] Sama heimild, 189
[3] Sama heimild, 191

Steina Vasúlka (Steinunn Bjarnadóttir Vasúlka) (1940) er frumkvöðull myndbandslistar á heimsvísu. Steina er lærður fiðluleikari en kynntist myndbandsmiðlinum í gegnum eiginmann sinn Woody Vasulka (1937–2019) sem hún kynntist á námsárum sínum í Prag. Þau fluttu til New York árið 1965 og fóru fljótlega að vinna saman að myndbandagerð. Þar ráku þau nokkurs konar tilraunastöð, The Kitchen, fyrir þá sem unnu rafræna list sem var í senn leikhús og tónlistarsalur.[1] Í verkum sínum leitast þau við að fanga tímann þegar þau bjaga, spegla og umsnúa myndinni þannig að útkoman verður flókið samspil hljóðs og myndar þar sem tæknilegir möguleikar miðilsins eru nýttir til hins ýtrasta. Woody sem er vélaverkfræðingur og kvikmyndagerðarmaður smíðaði sjálfur þau tæki og tól sem til þurfti og þau vildu að upptökuvélin og skjárinn yrðu jafn eðlilegur miðill og pensill og strigi listmálaranum.
[1] Halldór Björn Runólfsson, Íslensk Listasaga IV, „Steina, upphaf íslenskrar myndbandslistar“, 230

Steina og Woody Vasulka.
Wikimedia

Fyrsta sjálfstæða verk Steinu er Violin Power (kraftur fiðlunnar) frá 1970–1978. Í verkinu nýtir hún sér bakgrunn sinn sem fiðluleikari en það sýnir listakonuna leika á fiðlu frá því hún er ung og þar til hún er orðinn þroskaður listamaður. Í verkinu má sjá hvernig Steina vinnur með tæknina, hún bjagar, umsnýr og veltir myndinni og hefur þannig beina stjórn á útsendingunni.[1] Um miðjan áttunda áratuginn hóf hún að vinna að hugmynd sem hún kallaði Machine vision, sem fólst meðal annars í að smíða vélbúnað sem gæti fylgt umhverfinu eftir líkt og mannsaugað. Verkið byggðist á tveimur upptökuvélum sem sneru hvor á móti annarri á öxli sem hringsnerist, þetta var innsti kjarni verksins sem hún kallaði Allvision (1976)[2].
[1] Sama heimild, 233
[2] Sama heimild, 236

Steina Vasulka, Violin Power (kraftur fiðlunnar) frá 1970–1978.

Verkið Off the North frá 2001 samanstendur af sjö hnöttum sem hringsnúast um sjálfa sig líkt og Jörðin sjálf. Árið 1997 var Steina valin fulltrúi Íslands á tvíæringinn í Feneyjum fyrst íslenskra kvenna. Steina og Woody bjuggu í Santa Fe í Nýju Mexíkó frá 1980.

Steina Vasulka, Of the North, nýir miðlar – innsetningar, 2001.
Listasafn Íslands: LÍ 8075

Það hefur færst í vöxt hjá samtímalistamönnum að blanda saman nokkrum listgreinum í einu og sama verkinu og þá er talað um fjöltækni.

Anna Líndal, Jaðar, 1999-2000.

Verk Önnu Líndal (1957) er samsett og marglaga bæði hvað varðar myndefni, merkingu og framsetningu. Þannig má finna í innsetningum hennar nýjustu myndbandstækni og handverk sem á rætur í aldagamalli íslenskri hannyrðahefð. Í verkinu Jaðar frá 1999–2000 hefur Anna komið fyrir myndbandsverkum í heimilislegum hillum innan um pottablóm og aðra muni og blandar þannig saman innsetningu og myndbandslist. Á fjórum sjónvarpsskjáum eru myndbandsverk sem tengjast náttúru Íslands. Á einum skjánum eru upptökur af eldgosi í Grímsvötnum, annar sýnir vísindamenn að störfum við Grímsvötn, sá þriðji sýnir Önnu nota eigin líkama til að tengjast náttúrunni og á fjórða skjánum má sjá stúlku lesa upp úr Njálu. Verkið varpar ljósi á þekkingarleit mannsins, náttúruna og náttúruöflin andspænis heimilislegu öryggi stofunnar. Vísindaleg nálgun og skrásetning er fyrirferðarmikill þáttur í nýjustu verkum Önnu Líndal og hún hefur slegist í för með náttúruvísindamönnum til þess að afla gagna í verk sín sem hún vinnur úr með aðferðum listamannsins.[1]

[1] http://listasafnreykjavikur.is/syningar/anna-lindal-leidangur
http://www.annalindal.com/doc5.html

Um aldamótin 2000 þegar netvæðing var orðin almenn á Íslandi varð tölvan meira áberandi í myndlistinni. Haldin var stór sýning í Listasafni Íslands sem nefndist „Nýr heimur – stafrænar sýnir“, þar sem sýnd voru verk eftir helstu listamenn heims á sviði myndbandslistar og listar á veraldarvefnum meðal annarra Steinu.[1] Þar mátti meðal annars finna verk sem virkjuðu internetið þannig að gagnvirkt samband skapaðist milli áhorfenda á safninu og þeirra sem heima sátu.
[1] Harpa Þórsdóttir, „Sjónvarpsmiðillinn og gagnvirk notkun“, 207

Í verkum sínum notar Finnbogi Pétursson (1959) útvarps- og hljóðbylgjur til að framkalla hljóðmyndir. Hann vinnur þannig með mörk hins sýnilega og ósýnilega þegar hann tengir saman ljós, hljóð og skynjun í rými sem miðlað er með ýmiss konar rafeindabúnaði t.d. hátölurum. Verk hans Diabolus sem hann sýndi á Feneyjatvíæringnum árið 2001 samanstóð af 16 metra löngum trégöngum sem voru mjórri í annan endann þar sem komið var fyrir orgelpípu. Úr hátalara sem staðsettur var undir orgelpípunni barst ómstríður tónn sem hefur verið kallaður diabolus in musica eða djöfullinn í tónlistinni. [1] Í verkinu Infra supra frá 2016 mynda hljóðbylgjur gárur á vatnsflöt sem varpað er á vegg svo vatnsflöturinn virðist tvöfaldur í myrkvuðu rýminu.
[1] Eva Heisler, „Frá innsetningu til staðbundinna verka“, 292

Finnbogi Pétursson, Infra supra, 2016.
Verk eftir Finnboga á Sarpi

Ragnar Kjartansson, The Visitors, 2012.
Brot úr níu rása myndbandi.
Birt með leyfil istamannsins og i8 Gallery

Listsköpun Ragnars Kjartanssonar (1976) einkennist eins og hjá mörgum listamönnum af hans kynslóð af blöndun miðla og ljóðrænni framsetningu. Leiklist skipar veglegan sess í myndbandsverkum hans, þar sem hann blandar saman miðlum eins og tónlist, gjörningi og málverki. Verk hans byggjast oftar en ekki á endurtekningu, þar sem ákveðin tónlist, hljómfall eða athöfn er endurtekin í sífellu til þess að örva upplifun áhorfandans. Þannig býr hann til tregafulla fantasíu með leikrænu ívafi þegar saman kemur tónlist, málverk og leikhús í einu og sama verkinu.

Ragnar Kjartansson, The Visitors, 2012.
Brot úr níu rása myndbandi.
Birt með leyfil istamannsins og i8 Gallery

Myndbandsverkið The Visitors frá 2012 var tekið upp í glæsilegu 19. aldar sveitasetri nálægt New York. Það samanstendur af níu stórum skjám sem sýna tónlistarmenn leika á hljóðfæri saman en þó í sitthvoru herberginu og syngja endurtekið sömu lögin. Sjálfur spilar hann á gítar í baðkari og húsið, innanstokksmunirnir og umhverfið gefur verkinu draumkenndan blæ. Áhorfendur verða sjálfir eins og gestir á heimili þegar þeir ganga milli skjánna eins og úr einu herbergi í annað. Ragnar er einn þekktasti listamaður sinnar kynslóðar á heimsvísu í dag.

Ólafur Elíasson (1967) er líkt og Ragnar þekktur fyrir umfangsmiklar innsetningar. Hann vinnur í ýmsa miðla en útgangspunkturinn er staður, fólk og virkni í rými. Þannig skapar hann upplifun þar sem hugmynd um tíma, samhengi, aðstæður, skynjun og hljóð virkjar skilningarvit áhorfandans.

Ólafur Elíasson, Riverbed, 2014. Frá samnefndri sýningu í Louisiana, Humlebæk, Danmörku, 2014.
Ljósmynd: Anders Sune Berg. Birt með leyfi listamannsins og i8 gallerís.

The Weather Project frá 2003 er geysistór innsetning eftir Ólaf sem sett var upp í Túrbínu sal Tate Modern listasafnsins í London. Þar notaði hann yfir hundrað appelsínugul lágtíðni ljós eins og notuð eru í götulýsingu til að lýsa upp rýmið. Ljósin mynduðu hálfhring sem speglaðist í loftinu sem var þakið speglum svo hringurinn varð eins og kringlótt sól. Skær litur ljóssins ruglar litaskyn áhorfandans sem sér aðeins appelsínugulan og svartan lit.

Ólafur Elíasson, The Weather Project, innsetning í TATE Modern, 2003.

Listamenn samtímans geta notað ýmsa tækni sem áður var ekki tiltæk til listsköpunar og í hönnun. Tölvur hafa opnað möguleika á sköpun sem áður hefði verið óhugsandi og ýmis forrit eru nú mikilvæg hjálpartæki listamanna á ýmsum sviðum. Arkitektar og hönnuðir nota þrívíddarforrit við vinnu sína, ljósmyndarar og kvikmyndagerðarfólk ýmis myndaforrit og tónlistarfólk nýtir tölvur til að skapar hljóðheima. Sumt myndlistarfólk nýtir sér tækni sem sköpuð var fyrir aðra geira í verk sín. Margir listamenn nýta stafræna tækni þegar þeir skapa ljósmynda- og vídeóverk og stundum er óljóst hvort útkoman sé myndlistarverk, kvikmynd eða jafnvel tölvuleikur.

Hér hafa verið tekin dæmi um það hvernig myndlistarmenn samtímans nýta sér tækni og nýja miðla í listsköpun sinni. Listamennirnir einskorða sig ekki við einn miðil heldur líta á vinnustofuna sem tilraunastofu og hugmyndin verður grunnur að leiðangri þar sem möguleikar tækni og miðla eru metnir þar til hugmyndin finnur sér stað í fjölbreyttum verkum.