Inngangur og kennsluhættir

Vinnustofur er námsefni sem samanstendur af þematengdum verkefnum og byggir á hugmyndafræði um fyrirbærafræðilega nálgun í námi og kennslu (e. Phenomenon Based Learning). Slík nálgun er heildræn og byggir á að nemendur fái að upplifa eða skilja viðfangsefnin út frá eigin forsendum. Valin fyrirbæri eru rannsökuð gjarnan með hliðsjón af mörgum fræðigreinum. Nálgunin er sett fram þannig að samhengi myndast milli þeirra upplýsinga og þeirrar færni sem nemandinn hefur öðlast á lífsleiðinni. Lögð er áhersla á að skapa aðstæður fyrir nemendur þannig að þeir fái tækifæri til að nema í gegnum djúpan skilning út frá áhugasviði, forvitni og lífsreynslu, í tengslum við valið fyrirbæri. Fyrirbærin eru tími, staðir og rými, minningar og vatn. Hverju þeirra fylgja verkefni sem eru neðst í hverjum kafla fyrir sig.

Fyrirbærafræðileg nálgun á rætur að rekja til hugsmíðahyggjunnar. Áhersla er lögð á að koma fram við nemendur sem virka þekkingarsmiði. Leitað er upplýsinga með vandamálalausnum þar sem þekking er dregin saman úr mörgum litlum einingum sem mynda eina heild, í þeim aðstæðum sem hentar hverju sinni. 

Þegar fyrirbærafræðileg nálgun er unnin í hóp byggir námið á samvinnu og áherslu á ólík sjónarhorn. Lögð er áhersla á að upplýsingar myndist í félagslegu samhengi þar sem unnið er með ólíkar miðlunarleiðir eða tákn eins og tungumál, stærðfræðilegar útreikningsreglur og mismunandi hugmyndir ólíkra fræðimanna. Einnig er lögð áhersla á miðlun og öflun upplýsinga þannig að nemendur safna í sarpinn og geta notað þær upplýsingar og verkfæri áfram.

Fyrirbærafræðileg nálgun hefur forsendur til að auka virkni nemandans í eigin námi. Virknin nær bæði til þekkingarferla og sjálfstæðis í eigin námi, auk þeirra huglægu ferla sem eiga sér stað þegar nemandi lærir í fjölbreyttum aðstæðum. Virkni nemandans er einnig lykillinn að yfirfærslu upplýsinga í merkingarlegt samhengi; sem dæmi er erfitt að læra að keyra bíl eingöngu með því að lesa og skrifa um það. Fyrirbærafræðileg nálgun byggir á að setja upp fjölbreyttar námsaðstæður þar sem nemendur kynnast efninu frá ólíkum sjónarhornum með því að nálgast verkefnið á fjölbreyttan hátt. Niðurstöður verkefna eru því ekki staðlaðar heldur skal reikna með fjölbreyttum útkomum.

Fyrirbærafræðileg nálgun leggur áhersla á að nemendur

 • skilji raunveruleg fyrirbæri
 • sjái notandagildi í þeim kenningum og upplýsingum sem námið byggir á
 • geti sjálfir kynnt vandamál sem þeir vilja leita lausna við í námsferlinu
 • séu virkir í öllu ferlinu
 • læri um kenningar og hugmyndir sem eru tengdar gagnlegum aðstæðum og fyrirbærum sem nýtast þeim í raun aðstæðum.
 • nýti í námsferlinu fjölbreyttar og jafnvel frumlegar nálganir, efni og aðferðar
 • þekki námsmarkmiðin og þá hæfni sem búist er við af þeim að loknu námsferli
 • vinni verkefni í raunverulegum aðstæðum með heilstæðri nálgun þar sem tengingar eru búnar til milli ólíkra eininga og verkefna. 

Myndmennt

Myndmennt hentar vel fyrirbærafræðilegri nálgun. Listir í sinni fjölbreyttustu mynd í fortíð og nútíð fást við hugtök, hugmyndir og hluti sem tengjast manneskjunni og nánasta umhverfi hennar. Þær hreyfa við okkur á margvíslegan hátt, næra ímyndunarafl og efla fegurðarskyn. Eins og segir í Aðalnámskrá grunnskóla þá opnar listupplifun farveg til að skoða og meta eigin gildi og viðhorf, á beinan eða óbeinan hátt, út frá margvíslegum leiðum og miðlum. Myndmennt er í eðli sínu skapandi námsferli. Mikilvægt ferli þar sem nemendur finna innri rödd, mynda tengingar, og þróa leikni í ólíkum nálgunum (Aðalnámskrá grunnskóla, 2013, bls. 143). Til að ná þeim markmiðum sem verkefnabankinn byggir á er mikilvægt að þau verkefni sem lögð eru fyrir nemendur veiti þeim tækifæri til að vinna út frá eigin rannsóknum og greiningu og með virkjun ímyndunaraflsins þar sem þeir tengja við fyrri reynslu, menningu og umhverfi. Umræður um listaverk og vinnuaðferðir listamanna veita tækifæri til að þjálfa orðaforða myndlistar, samkennd og umburðarlyndi í tengslum við gagnrýna umræðu um upplifun nemenda sem getur tengst umfjöllun þeirra um eigin verk. Verkefni sem veita nemendum tækifæri til að tengja við eigin reynslu þjálfar þá í læsi á eigið umhverfi (Aðalnámskrá grunnskóla 2013, bls. 148).

Í myndmennt, líkt og í öðrum námsgreinum, geta nemendur kynnst viðfangsefnum og aðferðum sem listamenn beita á sama tíma og þeir velta fyrir sér ólíkum sviðum veraldarinnar. Myndmennt gefur „nemendum færi á að kynna sér og ræða siði og lífshætti, þekkingu og hugmyndir, kenningar og staðreyndir, lögmál og reglur sem gefa lífi þeirra og umhverfi merkingu og tilgang“ (Aðalnámskrá grunnskóla, 2013, bls. 51). Menntun í list- og verkgreinum getur stuðlað að bættu siðferði og þjóðfélagslegri ábyrgð nemenda. Þær eru vettvangur menntunar til sjálfbærni þar sem nemendur vinna með samábyrgð, tilfinningar sínar og annarra, samhengi við aðra menningarheima og eigið umhverfi og náttúru (Aðalnámskrá grunnskóla, 2013, bls. 141). 

Í myndmennt er hægt að fræðast um nærumhverfi og valda staði þar með talið heim hluta og hugmynda, náttúru og menningu (Aðalnámskrá grunnskóla, 2013, bls. 51). Á sama tíma getum við lært fjölbreytta tækni og þróað okkar eigin stíl.

Mikilvægur þáttur listnáms er að læra og tjá sig án orða og að læra af eigin skynjun. Í slíku námi er hægt að læra af hversdagslegum fyrirbærum daglegs lífs. Þá er hin þögla þekking mikilvæg en einnig er hægt að læra margt með því að nota ímyndunaraflið. Nám sem byggir á að læra af skynjun veitir nemendum forsendur til að læra að þekkja sjálfa sig bæði í tengslum við náttúruna og efnisheiminn. Skilningurinn verður bæði almennur og persónulegur, byggður á rannsóknum á raunveruleikanum og töfrum ímyndunaraflsins. 

Mikilvægi samtímalistar

Jafnvel þótt listasagan sé hafsjór þekkingar sem við getum leitað til þegar við viljum fá innsýn í samfélagsleg viðhorf fyrri tíma, þá er mikilvægt að leggja áherslu á það erindi sem samtímalist á við okkur í dag. Á hverjum tíma eru álitamál krufin til mergjar með þeim efnivið og aðferðum sem í boði eru og því má segja að til þess að vinna með málefni sem eru ofarlega á baugi í samtíma okkar er mikilvægt að nálgast þau með aðferðum samtímalistar fremur en aðferðafræði og tækni sem tilheyrir liðnum tíma.

Tengsl við grunnþætti menntunar

Allir grunnþættir menntunar snerta sjónlistakennslu almennt séð, hver með sínum hætti. Sama gildir um viðfangsefni þessa kafla, tímann og flókið samspil hans við samfélagið, einstaklinginn og umhverfið. 

Læsi: Læsi felur m.a. í sér að geta lesið úr táknmyndum og myndrænu efni. Verkefnin byggja á samtali. Með því að svara spurningum kennara, spyrja sjálfir spurninga og með því að lýsa og greina eigin verk og annarra, öðlast nemendur færni í að nýta íslensku í starfi og námi. Hægt er að tjá margt með listrænum hætti. Sumt er ekki hægt að setja í orð en hægt að setja í listrænt form. Með myndlæsi fá nemendur tilfinningu fyrir því hvernig samfélagsleg viðhorf eru greypt í listaverk hvers tímaskeiðs og fá þjálfun í að greina myndmál samtímans. Með því móti verða þeir næmari á dulin skilaboð og öðlast hæfni til að skilja flókið samband menningarlegra viðhorfa á viðtakendur. Með kynningu á listamönnum, eigin verkum og verkum hvers annars læra nemendur að lesa í myndmál listarinnar, manneskjunnar og lífsins. 

Sjálfbærni: Sjálfbært samfélag er samfélag sem virðir rétt allra og skapar öllum jöfn tækifæri á sama tíma og lögð er áhersla á að virða alltaf takmörk náttúrunnar. Í vinnu með nemendum er lögð áhersla á hið góða líf í tengslum við náttúruna og birtist þannig í tilfinninga- og félagsþroska sem hlúir að innri lífæðum samfélagsins. Listaverk hjálpa okkur að greina þessa mikilvægu innri þræði, greina þá í sundur og stuðla að heilbrigðu og sjálfbæru samfélagi réttlætis sem veitir öllum aðilum þess nauðsynlegt rými. Mikilvægt er þó að hafa í huga að náttúran skuli alltaf njóta vafans. Það hjálpar nemendum að greina hvað skiptir máli í hinu góða lífi.

Heilbrigði og velferð: Nemendur vinna út frá tilfinningum og fá að gera tilraunir sem eflir sjálfsvitund og trú á eigin hæfni. Leikir þroska félagsfærni sem er grunnur að lífshamingju og það er mikilvægt að nám sé ánægjuleg reynsla. Leikur virkjar sköpunargáfu og útsjónarsemi. Listaverk fjalla oft um persónulega hluti sem snerta innra líf og tilfinningaleg átök. Rannsókn og umræður um slík listaverk skapar þannig grundvöll fyrir einstaklinginn til að skilja sjálfan sig og eigin tilfinningar betur. 

Lýðræði og mannréttindi: Listaverk eru vettvangur skoðanaskipta og sameiginlegrar ígrundunar. Þau stuðla að meðvitund okkar um hlutverk okkar í samfélaginu og vekja okkur til ábyrgðar hvert fyrir öðru. Þau minna á mikilvægi hins virka vilja okkar til þess að lifa og starfa í samfélagi með öðru fólki og hjálpa okkur að leita leiða til að skilja hvert annað og finna samstarfsflöt þrátt fyrir ágreining. Þessar áherslur gefa forsendur til aukinnar félags- og samskiptahæfni, þjálfa siðferðiskennd og ýta undir tilfinningaþroska sem eru forsendur fyrir fjölmenningarlega hæfni. Fjölmenningarleg hæfni er hæfni einstaklinga til þess að eiga farsæl samskipti við fólk af öðru þjóðerni eða fólk sem hefur annan menningarlegan bakgrunn. Það tengist því að vera virkur þátttakandi í samfélaginu og þekkja lýðræðisleg réttindi, skyldur og ábyrgð. Þátttökulist og sameiginlegar ákvarðanir um framvindu kennslunnar og útfærslu verka eru einnig mikilvægur hluti sjónlistakennslu. 

Jafnrétti: Verkefnin tengjast jafnrétti í sinni víðustu mynd og fela í sér gagnrýna skoðun á viðteknum hugmyndum í samfélaginu. Þau bjóða upp á að unnið sé með málefnið bæði verklega og í umræðu sem vinnur gegn staðalmyndum og fordómum. Því tengist umræða um áhrifavald, valdahlutföll, tengsl og frelsi til ólíkra lífsskoðanna. Það er mikilvægt að kynna bæði listakonur og menn því fyrirmyndir þurfa að vera af báðum kynjum. Í listum er ekki ein rétt útkoma, allir geta lagt eitthvað af mörkum, þrátt fyrir mismikla andlega eða líkamlega getu. Margir listamenn hafa nýtt jafnréttisgleraugu í sinni listsköpun með því að hjálpa áhorfendum að koma auga á mismunun þar sem hún er til staðar.

Sköpun: Sköpun felst í því að gera tilraunir, geta sjálf búið til litina sem unnið er með, fá að mistakast. Að prófa mismunandi efni og aðferðir. Lögð er áhersla á að nemendur fái alltaf eitthvað frelsi til velja sjálfir, hvort sem það er viðfangsefni, aðferð eða efni sem þeir nota.

Skipulag og uppbygging verkefna

Val á fyrirbæri: Farsælast er að velja þema í samvinnu við aðra kennara í árganginum. Hugmyndin getur skarast á allar greinar eða fáar allt eftir því hvað hentar hverju sinni.

Skoða/rannsaka: Nemendur fá tækifæri til að skoða fyrirbærið út frá eigin áhugasviði og reynslu.

Hugleiðing: Nemendur fá tækifæri til að þróa eigin hugmyndir sem tengjast völdu fyrirbæri.

Listsköpun: Ferill sem byggir á vali nemenda. Nemendur hafa í huga við valið fjölbreyttar leiðir:

Grunnþættir
jafnvægi
andstæður
hreyfing
áherslur
endurtekning
Ólíkar aðferðir
klippimyndir
málverk
teiknun
skúlptúr
textíll
prentun
Formfræði
áferð
lína
form
litur
rými

Skipulag og framkvæmd: Nemendur setja fram skipulag fyrir eigin vinnu með því að skoða verkið sjálft og ræða það bæði út frá tilfinningu og gagnrýni. Endurskoða vinnuferlið og velta fyrir sér ólíkum leiðum að sama markmiði.

Sköpunarferli nemendanna í hópnum getur því bæði verið fjölbreytt og ólíkt innan hvers verkefnis og milli verkefna.

Námsmat

Ferilmappa (stafræn) fyrir hvert fyrirbæri sem rannsakað hefur verið er góð leið til að stuðla að því að nemendur geti haldið utan um eigin námsframvindu. Í ferilmöppuna ættu nemendur að safna allri þeirri vinnu sem tengist völdu fyrirbæri. Dæmi um efni í ferilmöppu eru:

 • Tilbúin verk s.s. teikningar, prent, ljósmyndir og málverk (vel teknar ljósmyndir).
 • Vinnuferli sem sýnir skissur og tilraunir. Umfjöllun sem útskýrir ferlið skref fyrir skref.
 • Skrif og hugleiðingar um eigin verk og rannsóknarvinnu (hægt er að leyfa nemendum með lestrarörðugleika að taka upp eigin hugleiðingar).
 • Gagnrýni á eigin verk og verk annarra.
 • Spurningar og hugleiðingar sem vöknuðu við vinnuna sem geta leitt til fleiri verkefna.
 • Vangaveltur um styrkleika og þau tækifæri sem felast í að þróa þá áfram; um veikleika og hvernig hægt er að vinna með þær ógnir sem nemandi upplifði í tengslum við verkefnið.