Kristín Ísleifsdóttir, Tungumál veraldar, 2000.

um aðferðina

Leirlist nær yfir gerð skúlptúra, skrautmuna og nytjahluta úr brenndum leir en annað orð yfir brenndan leir er keramik. Leirmunagerð hefur fylgt manninum frá ómunatíð. Hún þekktist í Japan frá Jomon tímabilinu (14.000–300 f.Kr.) og átti sér blómaskeið meðal annars á tímum forngrikkja, í Kína á 6.–10. öld e.Kr. og á endurreisnartímanum á Ítalíu. Leirmunir segja líka mikið um sögu Grikkja og fleiri þjóða fyrir botni Miðjarðarhafs.[1]
[1] Íslenska alfræðiorðabókin, Bókaútgáfan Örn og Örlygur, 1990, 375

Japönsk leirstytta frá Jomon tímabilinu, 1000–300 f.Kr.
Wikimedia

Grískur vasi frá 530–520 f.Kr.
Wikimedia

Leirmunir hafa alltaf verið mikilvægur þáttur daglegs lífs, til dæmis sem matarílát, diskar og bollar. Á dögum Grikkja og Rómverja og allt fram á miðaldir voru ofnar og baðker gerð úr brenndum og skreyttum leir. Leirskrín voru notuð til að geyma ösku látinna manna og stór blómaker voru höfð bæði innan húss og utan.[1]
[1] Aðalsteinn Ingólfsson, „Umherfismótandi leirlist“, Dagblaðið – Vísir 29. maí 1991, 11

Leirmunir hafa jafnframt verið mikilvægir í ástundun trúarbragða og rekja má sögu margra þjóða í gegnum þróun leirlistar, til dæmis í Austurlöndum og Suður-Ameríku. Forn leirlistaverk teljast til þjóðargersema í mörgum löndum og eru varðveitt í söfnum. Nú á tímum er algengast að leirmunir séu hannaðir til daglegrar notkunar eða skrauts á heimilum svo sem styttur, kertastjakar, vasar eða skálar.

Múmínbolli.
Wikimedia

Leir og leirmunagerð

Leir finnst víða í náttúrunni en hann er ekki allur hæfur til mótunar á leirmunum.

Leir til leirmunagerðar er leifaleir eða setleir en hann þarf að hreinsa, bleyta upp, sigta og loks blanda öðrum jarðefnum svo gott sé að móta hann. Hann er síðan mótaður, þurrkaður og að lokum brenndur. Leifaleir er blanda af leirsteindum, bergbrotum, leirvatni og öðrum steindum sem hafa brotnað niður og umbreyst á sama svæði. Setleir er hins vegar leir sem hefur borist milli staða með vatni, jöklum eða jarðskjálftum og molnað í agnarsmáar eindir. Leirmunir eru mótaðir með höndum, í vélum eða steyptir í mót. Hluti, sem gerðir eru úr leir, þarf alltaf að brenna til að herða þá, nema sjálfharðnandi leir en hann er mjög brothættur.

Leir sem fundist hefur á Íslandi þykir ekki mjög góður til mótunar þar sem hann hefur t.d. lítinn sveigjanleika. Fundist hefur setleir í jörðu við Búðardal og þar um kring.[1] Kaolín nefnist efni sem er aðaluppistaðan í postulíni en það hefur umbreyst úr líparíti og hefur fundist við Torfajökul.
[1] Kristín Ísleifsdóttir, Leirmótun – keramik fyrir alla, Námsgagnastofnun, 2014, 9

Í leirmunagerð má forma leirinn á margskonar hátt og með ýmsum aðferðum. Einfaldast er að rúlla, hnoða og klípa leirinn með höndunum. Skálar og vasa er hægt að renna á sérstöku snúningshjóli þar sem leirklumpurinn er mótaður á meðan hjólið snýst. Leirtegundir til leirmótunar eru flokkaðar í jarðleir, steinleir og postulín eftir eiginleikum og því hve hátt hitastig þær þola.

Steinleirinn er grá- eða brúnleitur og hann má nota í alla leirmótun. Hann er oftast brenndur við hita á bilinu 1240-1290°C. Þessi hái hiti styrkir leirinn og gerir hann vatnsheldan.

Jarðleir er rauður, gulur eða hvítur en rauður leir er algengastur. Hann er brenndur við lægsta hitastig af öllum leirtegundum. Ef hitastigið verður of hátt bráðnar leirinn. Hann er yfirleitt brenndur við 1060°C.

Postulín er hreinasta leirtegundin og hvítt á litinn. Aðaluppistaðan í postulíni er leirsteindin kaolin sem myndast við niðurbrot graníts og líparíts. Postulín er brennt við hátt hitastig, yfirleitt 1300° en iðnaðarpostulín við 1400° eða hærra og er því mjög sterkt.

Til þess að skreyta leirmunina, gera þá sterkari, áferðarfallegri eru þeir glerjaðir með glerungi. Glerungur er gerður úr gleri og öðrum steinefnum sem blandað er saman í ákveðnum hlutföllum. Samsetning glerungsins ræður lit og gljáa hans en hann getur verið gegnsær, hálfgegnsær eða þekjandi. Glerjunin og glerungagerðin er vandasöm og byggist á mikilli efnafræði og þjálfun en þó má gera skemmtileg listaverk með einföldum glerungum.[1]

Leirvinnslan skiptist í þrjá þætti. Fyrst er hluturinn mótaður og þurrkaður og kallast hrár áður en brennslan hefst. Síðan fer fram fyrsta brennsla og þá er talað um að hluturinn sé hrábrenndur og tilbúinn til skreytingar og glerjunar. Gljábrennsla er síðasta stigið, en með henni er leirinn hertur enn meira og glerungurinn bræddur og kallast þá keramik.[2]

Þróun í leirmunagerð hefur fyrst og fremst falist í því að bæta leirinn og gera hann sterkari svo hann þoli hærra hitastig en leirmunir voru óglerjaðir fram eftir öldum. Elsti vitnisburður um glerjaða veggsteina er frá því um 1400 f.Kr. í Elamitehofinu í Gogha Zanbil þar sem nú er Íran. Kínverjar þróuðu glerung, celadon, sem hægt var að brenna við 1285°C á tímabilinu 25–220 e.Kr. Glerungar á nytjahlutum úr postulíni voru brenndir allt upp í 1300°C þegar leið á tuttugustu öldina og hærra í Asíu, Norður-Ameríku og Evrópu.[3]
[1] Kristín Ísleifsdóttir, Leirmótun – keramik fyrir alla, Námsgagnastofnun, 2014, 13
[2] Sama heimild, 14
[3] Sama heimild, 15

Árið 1974 fundu verkamenn sem voru að grafa skurð fyrir utan borgina Xian í Kína leirstyttu af hermanni í fullri stærð. Þegar fornleifafræðingar könnuðu svæðið komu í ljós þúsundir leirhermanna sem hver um sig er sjálfstætt listaverk. Þetta er einn merkasti fornleifauppgröftur mannkynssögunnar en verkið er kallað Terracotta Army eða leirherinn (terracotta þýðir jarðleir) og er frá 3. öld f.Kr. Fyrsti keisari Kína, Qin Shi Huang, lét vinna verkið til minningar um sjálfan sig og afrek sín en herinn átti líka að vernda framhaldslíf hans. Leirherinn í Xian er nú á heimsminjaskrá Menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO.[1] Upphaflega voru leirhermennirnir listilega málaðir en liturinn hefur máðst af og því eru þeir nú í gráum tónum.

Leirbrennsla hefur verið hagnýtt á margvíslegan hátt. Vísindamenn hafa t.d. nýtt sér þekkingu á eiginleikum leirs og glerunga til þess að brenna leirflísar sem vörn á geimflaugar. Háþróuð lasertækni er þá notuð til þess að bræða efnin líkt og grískir leirkerasmiðir gerðu fyrr á öldum við eld.[2]
[1] https://mymodernmet.com/terracotta-warriors/
[2] Leirmótun fyrir alla, 8

Leirlist á Íslandi

Leirmunagerð var víða þekkt í Evrópu fyrr á öldum en barst þó ekki til Íslands. Þau leirmunabrot sem hafa fundist hér á landi eru öll af innfluttum gripum.[1]

Saga leirlistar á Íslandi er stutt en hún hófst þegar Guðmundur Einarsson frá Miðdal (1895–1963) setti fyrstu leirmunagerðina á fót hér á landi um 1930.
[1] Sama heimild, 7

Guðmundur er þekktastur sem myndhöggvari og listmálari en var mjög fjölhæfur listamaður. Í tæpa tvo áratugi var hann eini listamaðurinn sem fékkst við leirlist á Íslandi. Hann lærði myndskurð hér á landi áður en hann hélt til Kaupmannahafnar og síðar Þýskalands þar sem hann stundaði fjölþætt listnám, aðallega höggmyndalist. Að námi loknu stofnaði Guðmundur leirverkstæði á Skólavörðuholtinu í Reykjavík sem nefndist Listvinahúsið, þar sem hann bjó og hélt sýningar. Hann setti upp kolaofn til leirbrennslunnar og rannsakaði íslenskan leir sem hráefni til leirmunagerðar. Lengi vel var leirmunagerð Guðmundar sú eina hér á landi og framleiðslan náði miklum vinsældum. Fyrstu munirnir voru unnir undir áhrifum frá Þýskalandi, renndir vasar voru skreyttir með útskurðarmunstri og málun gripanna einkenndi þá. Fljótlega fór Guðmundur að móta smástyttur af íslenskum sjómönnum, þjóðsagnaverum og dýrum en fuglamyndir hans, rjúpan, hrafninn og fálkinn urðu afar vinsælar og til á mörgum heimilum. Í Listvinahúsinu voru einnig unnir nytjahlutir eins og könnur, vasar og skálar af ýmsum stærðum og gerðum.[1]
[1] Leirlist á Íslandi,

Hjónin Gestur Þorgrímsson (1920-2003) og Sigrún Guðjónsdóttir (1926) eða Gestur og Rúna eins og þau eru jafnan kölluð eru meðal frumkvöðla íslenskrar leirlistar. Þau hófu listnám við Handíða- og myndlistaskólann á stríðsárunum og fóru að því loknu til Kaupmannahafnar þar sem þau dvöldu í eitt ár. Gestur stundaði nám í höggmyndalist en Rúna var í málaradeild. Að námi loknu kom Gestur upp leirkeragerð á heimili sínu í Reykjavík sem fékk nafnið Laugarnesleir. Hann smíðaði brennsluofn og rennibekk eftir forskrift úr danskri bók en sjálfur hafði hann ekki áður komið inn á leirverkstæði. Fyrstu árin fóru því í að gera tilraunir bæði með leir og glerunga og að kynnast vinnutækjunum. Gestur gerði tilraunir með íslenska leirinn eins og Guðmundur frá Miðdal og naut aðstoðar jarðfræðings. Fljótlega komst sú verkaskipting á að Gestur mótaði hlutina og renndi en Rúna sá um skreytingar á þeim.

Auk hjónanna unnu á verkstæðinu bæði innlendir og erlendir listamenn.

Árið 1950 var haldin fyrsta sýningin á leirmunum frá Laugarnesleir. Þau leituðu fyrirmynda í danskt keramík og formin og skreytingarnar báru keim af suður-amerískri leirkerasmíð frá tímum Inka, Asteka og Maya sem var vinsælt í listum Evrópu á þessum tímum en nýr myndheimur á Íslandi. Rúna fór síðar að mála á postulínsflísar og veggskildi/platta og hún fékk verðlaun þjóðhátíðarnefndar árið 1974 fyrir þannig verk. Rúna vann veggskreytingar fyrir hið þekkta postulínsverkstæði Bing og Gröndahl í Danmörku. Hún vann einnig myndir á veggflísar fyrir þýska fyrirtækið Villeroy og Boch.[1]
[1] Sama heimild, 13

Rúna; Sigrún Guðjónsdóttir, Bergið blátt, steinleir, lágmynd, 1980.
Listasafn Íslands: LÍ 4141

Ragnar Kjartansson, Höfrungahlaup, steinleir, 41 x 26,5 x 16,5 cm, 1983.
Listasafn Íslands: LÍ 7208

Ragnar Kjartansson (1923–1989) hóf nám í leirkerasmíði hjá Guðmundi frá Miðdal haustið 1939 aðeins fimmtán ára gamall. Að námi loknu árið 1944 starfaði hann áfram í Listvinahúsinu en fór síðan til Svíþjóðar þar sem hann kynntist nýjungum á sviði leirlistar sem hann bar með sér til Íslands. Við heimkomuna gerðist hann meðeigandi í nýrri leirmunagerð sem kallaðist Funi. Næstu tvo áratugi var leirmunagerð helsti starfsvettvangur Ragnars og þar hafði hann mikil áhrif. Unnið var úr íslenskum leir, bæði skrautmuni og nytjahluti sem urðu mjög vinsælir. Hlutirnir voru nútímalegir og einkenndust af léttu og fáguðu yfirbragði.

Árið 1957 stofnaði Ragnar fyrirtækið Glit hf ásamt fleirum. Margir listamenn unnu um lengri eða skemmri tíma í Glit. Einn þeirra var Dieter Roth (1930–1998) sem var af þýskum og svissneskum ættum og bjó á Íslandi um árabil. Hann var þekktur listamaður sem hafði mikil áhrif á íslenskt listalíf. Hann gerði m.a. kaffistell á meðan hann vann hjá Glit. [1]
[1] http://www.honnunarsafn.is/is/taxonomy/term/209

Í Glit var mest notaður mattur glerungur og skreytingin sem oft var abstrakt lá ekki aðeins á yfirborðinu heldur gekk einnig ofan í hann.[1] Lögð var áhersla á að nota íslenskan leir og íslensk jarðefni eins og hraun. Ragnar fór að blanda blágrýtishrauni í leirinn þannig að hann varð grófkornóttur og þannig munir nutu mikilla vinsælda. Ragnar gerði marga veggskildi og vann stórar veggmyndir á byggingar í Reykjavík þar sem hann sameinaði kosti leirvinnslunnar og listrænan metnað höggmyndalistarinnar sem hann helgaði sig síðar alfarið. Hann var lengi í forsvari fyrir keramikdeild Myndlista-og handíðaskólans.
[1] Leirlist á Íslandi, 17

Dieter Roth, kaffistell, 1960
Hönnunarsafn Íslands

Steinunn Marteinsdóttir, vasi.
Hönnunarsafn Íslands

Steinunn Marteinsdóttir (1936) stundaði nám í leirlist í Þýskalandi í þrjú ár og flutti aftur til Íslands árið 1960. Hún vann í eitt ár hjá Glit en setti fljótlega upp eigið verkstæði og notaði frá upphafi innfluttan leir í verk sín sem þá var nýjung. Hún gerði í fyrstu hefðbundna nytjahluti eins og bolla og skálar en fór síðar að vinna stór verk á mörkum nytjalistar og skúlptúrs. Haldin var stór einkasýning á verkum Steinunnar á Kjarvalsstöðum árið 1975 sem markaði tímamót í íslenskri leirlistasögu. Leirlistaverk hennar bera sterk höfundareinkenni og hún hefur á löngum ferli sínum skapað sér persónulegan stíl. Steinunn gerðist brautryðjandi í íslenskri leirlist með verkum sem unnin eru út frá íslensku landslagi. Þannig mótar hún stóra og smáa leirmuni þar sem fjöll, klettabelti, sandur og grös myndgerast í leirnum. Steinunn er einn af stofnfélögum Leirlistafélagsins og sat í stjórn frá stofnun þess á árunum 1981-1989.

Haukur Dór Sturluson (1940) lærði leirlist í Edinborg og sneri þaðan árið 1964. Hann flutti með sér til landsins brennsluofn sem gerði það mögulegt að vinna steinleir á Íslandi í fyrsta sinn en áður höfðu leirlistamenn eingöngu unnið í jarðleir. Steinleirinn er brenndur við hærra hitastig sem gerir hann sterkari en jarðleirinn. Haukur Dór setti upp eigið verkstæði og var mikilvirkur í leirmunagerð á áttunda og níunda áratug tuttugustu aldar. Hann er þekktur fyrir nytjahluti sína sem hafa náttúrulegt yfirbragð. Sterkleg form einkenna leirmuni hans, sem eru í blæbrigðaríkur jarðlitum, en steinleirinn útilokar sterka liti. Síðar lagði Haukur Dór leirlistina á hilluna og sneri sér alfarið að málverki.

Haukur Dór Sturluson, vasi.

Jónína Guðnadóttir, Blóm í hvítum glugga, postulín, steinleir, 49 x 38 cm, 1979.
Listasafn Íslands: LÍ 7192

Jónína Guðnadóttir (1943) lærði leirlist í Stokkhólmi og kom á fót eigin verkstæði árið 1969. Hún var fyrsti umsjónarkennari keramikdeildar Myndlista- og handíðaskóla Íslands sem stofnuð var 1969 og eini kennari deildarinnar fyrstu árin. Stofnun deildarinnar leiddi til þess að margir lögðu fyrir sig nám í leirlist og fóru í framhaldsnám við erlenda skóla. Jónína telst til brautryðjenda í nýsköpun í leirlist á Íslandi. Verk hennar hafa þróast frá nytjalist til skúlptúra sem hún vinnur með aðferðum leirlistarinnar en hún vinnur líka í önnur efni.

Kolbrún Björgólfsdóttir eða Kogga (1952) hefur starfrækt leirlistavinnustofu í Reykjavík frá 1985. Hún lærði leirlist í Kaupmannahöfn og hefur verið mikilvirk í leirlistinni síðan. Kogga vinnur bæði nytjahluti og skúlptúra með sterkum stíleinkennum. Hún leggur áherslu á yfirborð og áferð hlutanna og oft bregður fyrir teikningum og munstri í verkunum. Kogga blandar stundum saman steinleir og postulíni í spennandi samspili en hún var einmitt fyrsti íslenski leirlistamaðurinn til þess að nota postulín í verk sín. Hún býr til glerungana sjálf, bæði matta og gljáandi og litar leirinn.[1]
[1] Guðbrandur Gíslason, „Hátíðlegt að opna ofninn“, Lesbók Morgunblaðsins, 7. des. 1985, 4

Kolbrún Björgólfsdóttir (Kogga) og Edda Jónsdóttir, Lament, 1996.
Listasafn Íslands: LÍ 7339

Kristín Ísleifsdóttir, Tungumál veraldar, 2000.

Kristín Ísleifsdóttir (1952) lærði leirlist í Japan á árunum 1977-1980. Í verkum hennar blandast norrænt formskyn japönskum áhrifum, bæði í nytjahlutum og skúlptúrum. Hún endurskoðar form ýmissa nytjahluta og hefur t.d. gert öskjur úr leir og ýmsa leirhluti sem má handfjatla. Skálar og kúlur fá nýtt yfirbragð þegar hún þrykkir með sáldþrykki letur á yfirborðið eða líkir með glerungnum eftir bráðnun í vorleysingum. Verk hennar, Tungumál veraldar, þar sem postulínskúlum hefur verið komið fyrir í hnattlaga stálbúri eins og lottókúlum, er eins konar óður til tungumálanna. Þannig táknar hver kúla eitt tungumál þar sem ekkert telst öðru æðra.[1]
[1] Hulda Stefánsdóttir, „Náttúra leirsins“, Morgunblaðið, 19. mars. 2000, 20

Guðný M. Magnúsdóttir (1953) lærði leirlist á Íslandi og í Helsinki. Hún vinnur bæði með handmótaðan steinleir og steypt postulín á eigin vinnustofu. Verk hennar einkennast af einföldum og leikrænum formum þar sem abstrakt mynstur og form mynda litríkt samspil. Hún vinnur jöfnum höndum nytjahluti og skúlptúra þar sem ímyndunaraflið fer á flug og íslensk náttúra hefur veitt Guðnýju innblástur í stórum þrívíðum verkum.

Kristín Sigfríður Garðarsdóttir, 3 teikningar sem færðar eru yfir í postulín, skál á vegg, skúlptúr á gólfi. Verk á sýningu í Hafnarborg 2019.

Kristín Sigfríður Garðarsdóttir (1959) vinnur m.a. leir- og glermuni og beitir ýmiss konar tækni við gerð skúlptúra og nytjahluta. Hún lærði leirlist á Íslandi og í Danmörku og sækir innblástur í náttúruna, arkitektúr, norræna hönnun og japanska leirmunahefð þar sem hún sameinar fortíð og nútíð. Verk hennar fá oft nýja virkni með notandanum eins og þegar hún mótar puttaför í bolla sem verða að handfangi eða gerir botninn kúptann þannig að bollinn veltur. Þannig máir hún gjarnan út mörkin á milli listaverks og nytjahlutar.

Marga fleiri leirlistamenn mætti nefna sem starfa á Íslandi. Í Leirlistafélaginu eru rúmlega 60 félagsmenn sem vinna margvíslega leirmuni og skúlptúra.

Þó að leirlistin sé yfirleitt tengd nytjalist þá hafa margir leirlistamenn líka unnið skúlptúra með aðferðum leirlistarinnar eins og fram hefur komið. Myndlistarmenn sem þekktir eru fyrir aðra miðla eins og til dæmis málverk hafa svo formað og mótað leirskúlptúra eins og við sjáum dæmi um hér á eftir.

Guðmundur Thoroddsen (1980) myndlistarmaður er þekktur fyrir málverk en gerir einnig leirskúlptúra sem kallast á við málverkin hans. Skúlptúrarnir hafa ekki augljóst notagildi en formin minna stundum á forn ker eða skrín með loki eða fígúrur sem finna má í málverkunum og vísa í leirkerahefðina.

Helgi Þórsson, bjórkrús, 2017.

Helgi Þórsson (1975) gerir málverk og innsetningar þar sem hann blandar gjarnan saman málverkum, skúlptúrum og tónlist. Frjálslega formaðir og litríkir leirvasar og ker með barnslegt yfirbragð, bæði form og skreyti kallast á við málverkin hans.

Leirlistin blómstrar víða um heim og það virðast fá takmörk vera fyrir fjölbreytileika verkanna.

Grayson Perry (1960) frá Englandi er þekktur fyrir leirvasa, veggteppi og myndlist. Leirvasar hans byggjast á klassískum formum með litríkum og áleitnum myndum, ljósmyndum og teikningum. Þannig blandar hann saman gamalli hefð og samtímalist. Hann er fyrsti leirlistamaðurinn sem hlýtur hin virtu Turner verðlaun.

Grayson Perry – Rosetta Vase 2011

Kimiyo Mishima – Another Rebirth 2005-N

Japan á sér langa leirlistarsögu en verk Kimiyo Mishima (1932) eru þó meira í takt við popplist heldur en hefðbundna leirlist. Hún mótar nákvæmar eftirmyndir af hlutum úr samtímanum sem hún síðan þrykkir á með silkiþrykksaðferð svo útkoman verður jafn raunveruleg og hluturinn sjálfur.