BOX MEÐ LOKI – boxið hennar Pandóru

STUTT LÝSING

Nemendur hanna og útbúa hirslu sem á að geyma ákveðnar tilfinningar. Með því að opna boxið streyma tilfinningarnar fram.

HÆFNIVIÐMIÐ

Hæfniviðmið fyrir sjónlistir
Við lok 7. bekkjar og 10. bekkjar getur nemandi
• gert grein fyrir margvíslegum tilgangi myndlistar og hönnunar
og sett hann í persónulegt, menningarlegt og sögulegt samhengi.

Hæfniviðmið fyrir samfélagsgreinar
Við lok 7. bekkjar getur nemandi
• lýst margvíslegum tilfinningum og áttað sig á áhrifum þeirra á hugsun og hegðun
• tjáð þekkingu sína og viðhorf með fjölbreyttum hætti, einn sér og í samstarfi við aðra
• Við lok 10. bekkjar getur nemandi
• lýst margbreytileika tilfinninga og bent á víxlverkun tilfinninga, hugsunar og hegðunar
og samskipta
• komið þekkingu sinni og viðhorfum á framfæri með fjölbreyttum og markvissum hætti,
einn sér og í samstarfi við aðra

KVEIKJA

Þekkið þið söguna um boxið hennar Pandóru?
Pandóra var grísk gyðja, sem var svo forvitin að vita hvað var í boxi (öskju með loki), sem henni
var gefið. Hún mátti ekki opna það en hún gerði það samt. Í boxinu var geymt allt það vonda í
heiminum eins og hatur, ósætti, rifrildi, mannvonska og margt fleira vont. Þegar hún opnaði boxið
er sagt að allt hið illa hafi sloppið út í heiminn. Kannski er hann eins og hann er vegna þess að
gyðjan Pandóra opnaði boxið eða hvað haldið þið?
Verkefnið ykkar er að búa til box og tileinka það ákveðinni tilfinningu eða tilfinningum, þær þurfa
ekki að vera vondar eins og hjá Pandóru. Þið búið til ykkar box og það er að sumu leyti eins og
hennar, því það á að geyma tilfinningar og þegar þið opnið boxið þá er það til að hleypa þeim út í
heiminn. Aðrir þurfa ekki að vita hvaða tilfinningar þetta eru og hver veit nema það fyllist aftur og
aftur, þó að það sé opnað.

FRAMKVÆMD

Byrjað er á kveikju.

Eftir umræður um boxið hennar Pandóru teikna nemendur sitt box og ákveða stærð þess nokkurn veginn í hæð, breidd og lengd. Teikninguna hafa nemendur hjá sér þegar þeir móta og skreyta boxið.

• Huga þarf jafnframt að áferð, lit og skreytingu og teikna jafnvel sama boxið með mismunandi skreytingum eða myndum. Síðar þegar mótaða boxið verður tilbúið til skreytingar getur nemandinn valið eina af hugmyndum sínum. Kennari ákveður hvort ítarefni verði notað eða hvort nemendur teikna út frá sínum hugarheimi/ímyndunarafli.

• Hver nemandi fær leirklump í hendur og kastar honum til á spónaplötu til þess að ná úr honum lofti og jafna rakann í leirnum. Gæta þarf þess að leirklumpurinn sé í rúmlega þeirri stærð sem boxið á að vera.

• Því næst er klumpsaðferðin notuð, sjá um hana á bls. 37–39 í bókinni Leirmótun-keramik fyrir alla.

• Þegar boxið er tilbúið er það látið þorna í nokkra daga og þegar það er orðið vel þurrt, sjá bls. 42, er það hrábrennt.

• Fjallað er um leirliti og glerunga á bls. 45–51 í áðurnefndri bók.

• Tillögur að skreytingum, sem nemendur hafa áður teiknað, er hægt að útfæra á marga vegu. T.d. er hægt að grafa mynd inn í leirinn með oddhvössu verkfæri en það þarf að gera fyrir hrábrennslu. Einnig er hægt að mála með leirlitum á hrátt boxið eða eftir hrábrennslu, sjá um leirliti bls. 46–47. Ein önnur leið er að mála það með pensilglerungum eftir hrábrennslu, sjá um pensilglerunga á bls. 50.

• Teikna má á leirinn með blýanti því pensilförin brenna burt.

• Ef boxið hefur verið málað með leirlit þarf að glerja yfir leirlitinn fyrir gljábrennslu.

• Gæta þarf þess að glerungur sé alls ekki þar sem lokið liggur á boxinu, því þá verður ekki hægt að opna það.

UMRÆÐUSPURNINGAR

Hvað finnst ykkur um söguna um boxið hennar Pandóru?
Í því var geymt allt það vonda í heiminum, hvað er það vonda í heiminum
og hvað er það góða í heiminum?

Hvað eru tilfinningar?
Hvaða tilfinningar settuð þið í ykkar box, viljið þið ræða þær?

ÍTAREFNI

Vísindavefurinn: Hver var Pandóra, og hver er sagan á bak við öskjuna hennar?
Finna má fleiri upplýsingar um box Pandóru með leitarorðunum „Myth of Pandora’s Box“

ALDUR

Miðstig
Unglingastig

GRUNNÞÆTTIR

Heilbrigði- og velferð, læsi og sköpun

FJÖLDI KENNSLUSTUNDA

2 x 80 mínútur

ÞVERFAGLEG TENGING

Samþættingarverkefni sjónlista, samfélagsgreina, hönnunar og smíði

EFNI OG ÁHÖLD

• 1–2 lykkjur
• 2–3 módelpinnar
• dagblað
• hnífur
• leir 700 grömm fyrir lítið box, u.þ.b. 10 x 10 cm
• leirlitir og glerungar
• penslar
• plastpoki
• skafa (eða kreditkort)
• skál með vatni
• skurðarvír
• svampur
• viðarplata
• viðarspaði

HUGTÖK

Áferð
Gljábrennsla
Hrábrennsla
Leirlitir
Klumpsaðferð
Pensilglerungur

LISTAMENN

Að eigin vali

LISTASAGA

Að eigin vali

HÖFUNDUR

ⓒ Kristín Ísleifsdóttir
Menntamálastofnun 2022