LISTASAGA

Inngangur

Listsköpun virðist hafa fylgt mannkyninu frá örófi alda. Myndlist er ein af mörgum listgreinum sem allar eiga það sameiginlegt að endurspegla hina eilífu leit manneskjunnar að merkingu og tilgangi lífsins. Þannig þjóna þær mikilvægu hlutverki í daglegu lífi. Við tjáum tilfinningar okkar í tónlist og dansi, setjum hugmyndir okkar um lífið niður á blað eða striga, mótum þær í leir eða reisum hús. List er þess eðlis að hver og einn leggur sína eigin merkingu í hana. Þessi ólíka merking skapar oft skemmtilegar umræður og við getum lært heilmikið af slíkum skoðanaskiptum og öðlast þannig dýpri skilning á tilverunni.

Þótt myndlistin, eða sjónlistin eins og hún er stundum nefnd, sé sérstök listgrein þá skiptist hún í ótal undirflokka. Teikningin er oftast talin undirstaða myndlistar en hún er einnig grunnur annarrar sköpunar. Hvert sem við lítum í kringum okkur eru hlutir sem eiga upphaf sitt á teikniborðinu. Fötin okkar, bíllinn, tölvan, húsin, húsgögnin, bækurnar og blöðin. Allt á þetta sér upphaf á hvítum blöðum sem eru fyllt af blýantsstrikum, kroti og pári. Áhrif myndlistarinnar eru svo víðtæk að við losnum sjaldan undan þeim.

Myndlist er einnig kjarninn í öðrum sjónrænum miðlum og má segja að teikning hafi getið af sér skriftina. Skriftin er ákveðin tegund af teikningu sem lýsir sér vel í orðasambandinu „að draga til stafs“. Margar mikilvægar starfsgreinar eins og skipulagsfræði, verkfræði, fata- og textílhönnun, húsagerðarlist og iðnhönnun byggjast á teikningu.

Mikilvægi teikningar

Á tímum endurreisnarinnar á Ítalíu á 15. og 16. öld var ekki mikill munur á listamönnum, arkitektum og verkfræðingum. Filippo Brunelleschi var gott dæmi um það. Hann var gullsmiður, arkitekt og myndhöggvari. Honum tókst að byggja voldugt hvolfþak á dómkirkjuna í Flórens en það var tilbúið árið 1436. Það afrek kom honum á spjöld sögunnar sem föður endurreisnarinnar. Dómkirkjan er um 115 metra há og gnæfir yfir umhverfi sitt en til samanburðar er Hallgrímskirkjuturn 74 metrar á hæð. Brunelleschi var sextán ár að glíma við verkefnið. Hann teiknaði á ævi sinni margar aðrar byggingar sem höfðu mikil áhrif á byggingarlist í Evrópu. Hann uppgötvaði líka fjarvíddarteikninguna en hún sýnir okkur hvernig staðsetning hluta í umhverfinu hefur áhrif á það hvernig við sjáum þá. 

Brunelleschi var fær á mörgum sviðum og sýndi gott dæmi um það hvernig teikning getur verið undirstaða einhvers stærra og meira. Það sem fyrst er blýantsstrik eða pensilfar getur orðið að stórfenglegum byggingum, hellamálverkum eða hlutum.

Hér að neðan er m.a. fjallað um myndlist, húsagerðarlist og höggmyndalist frá fornöld fram til dagsins í dag. Þegar listasagan er skoðuð má sjá að hvert tímabil hefur sitt yfirbragð, sinn stíl og stefnu. Áhugavert er að velta fyrir sér hvað einkennir hvern tíma og skoða hver þróunin hefur verið í aldanna rás.

Hellalist

U.þ.b. 40.000–10.000 f.Kr.

Gluggi til fortíðar

Elstu minjar um manninn sem vitsmunaveru eru listaverk sem eru að minnsta kosti 40.000 ára gömul. Þessi listaverk eru ýmist smáar útskornar styttur, bergristur, hellamálverk eða nytjahlutir. Þau segja frá frumstæðum samfélögum og gefa nútímafólki hugmyndir um líf á forsögulegum tíma. 

Dularfulli fjársjóðurinn – spennusaga frá Suður-Frakklandi

Í september árið 1940 voru fjórir unglingsstrákar úti í skógi ásamt hundinum Robot að leita að dularfullum neðanjarðargöngum sem þeir höfðu heyrt að væru til og geymdu mikinn fjársjóð. Robot fann djúpa gjótu sem var hulin gróðri og greinum. Gjótan kom í ljós vegna þess að risastórt tré hafði fallið og skilið eftir sig djúpa holu. Strákarnir klifruðu spenntir niður um þröngt opið, kveiktu á luktunum sínum og fundu þá miklar hvelfingar með stórkostlegum málverkum allt um kring. Loft og veggir hellanna voru prýddir nærri 600 málverkum og 1500 ristum. Hellarnir voru síðar nefndir Lascaux [Laskó]. Þeir eru í Dordogne héraði í Suður-Frakklandi. Flest málverkin eru af dýrum en margar tegundir þeirra eru núna útdauðar eða horfnar frá Evrópu. Þar má til dæmis sjá nashyrning og vísund.

Hellarnir vöktu strax mikla athygli og árið 1948 komu 1200 gestir daglega til að dást að listaverkunum. Þær heimsóknir höfðu fljótt áhrif á hellamálverkin. Rakinn sem myndaðist vegna öndunar gestanna varð til þess að málverkin fóru að skemmast. Hellunum var lokað almenningi árið 1963. Enn þann dag í dag berjast Frakkar gegn eyðingu málverkanna af völdum sveppagróðurs. Aðeins örfáir útvaldir vísindamenn fá að heimsækja Lascaux hellana. Einn af þeim var yngsti strákurinn úr hópnum sem uppgötvaði þá. Hann hét Jacques Marsal og var fjórtán ára þegar ævintýrið hófst. Hann helgaði líf sitt varðveislu hellanna en lést árið 1989. 

Rannsóknir leiddu í ljós að hellamálverkin eru meira en 17 þúsund ára gömul. Margir urðu undrandi að sjá hversu listamenn steinaldar voru snjallir að mála, teikna og rista þar sem líkamsbygging og hreyfingar dýranna voru svo eðlilegar og lifandi að halda mætti að þau myndu hlaupa af stað á hverri stundu.

En hvers vegna voru öll þessi listaverk gerð? Margar hugmyndir hafa skotið upp kollinum til að útskýra tilurð myndanna en enginn veit í raun hver ástæðan var. Listamennirnir lifðu á að veiða dýr, til matar og vegna skinnanna. Kannski tengdust myndirnar einhvers konar töfrum og áttu að hjálpa til við veiðarnar eða trúariðkun. 

Víða um heim hafa fundist fornar myndir, allt frá einföldum línudrætti eða ristum upp í flóknar myndir eins og í Lascaux. Hver sem ástæðan var hljóta myndirnar að hafa verið mikilvægar því mikil vinna var lögð í þær. 


Hellamálverk í Lascaux.


Málverk úr hellinum Chauvet. Árið 1994 fannst hellir nálægt Avignon í Frakklandi með elstu málverkum og teikningum sem fundist hafa eða yfir 30.000 ára gömlum. Þar má sjá myndir af ljóni, birni og hlébarða auk annarra rándýra sem ekki eru lengur til í Evrópu.

Stein- og bronsöld

U.þ.b. 30.000–2500 f.Kr.

Línur í berg

Í Norður-Noregi hafa fundist margar ristur frá nýsteinöld á klettaveggjum. Þó að ísaldarjökullinn hafi verið horfinn á þessum tíma, eða fyrir um 4500 árum, þá er merkilegt að finna elstu leifar norrænnar menningar langt norðan við heimskautsbaug. Ólíkt eldri hellamálverkum í Suður-Frakklandi eru risturnar í Noregi og víðar mjög stílfærðar. Það þýðir að aðeins eru teiknuð þau atriði sem einkenna hlutinn á myndinni. Gott dæmi er Óli prik sem dugar til að sýna manneskju. 

Við vitum ekki hvers vegna myndir frá steinöld eru stílfærðari en nákvæmu hellamálverkin en mögulega skiptir efnið og áhöld miklu. Erfitt er að rista nákvæmar myndir í stein en auðveldara að gera línur. Þá er mögulegt að steinaldarfólkið hafi líka málað myndir ofanjarðar sem hafa horfið í tímans rás, ólíkt hellamálverkunum sem varðveittust neðanjarðar.

Hér er von um veiði

Listaverk, rist á stein, er oft að finna nærri góðum fiskimiðum eða vatnsbólum dýra. Steinaldarfólkið hefur kannski viljað merkja sér góða veiðistaði og eigna sér þannig staðinn, svona eins og það vildi segja: „Ég kom hingað fyrst!“ Risturnar eru miklu einfaldari og stílfærðari en hellamálverkin. Hugsanlega hafa þær verið einskonar skilaboð eða veggjakrot og eru jafnvel dæmi um einfalda samskiptatækni. Þessar stílfærðu ristur benda til að meira skipulag hafi verið komið á samfélag þeirra sem teiknuðu þær en hjá þeim sem gerðu hellamyndirnar í Suður-Frakklandi á fornsteinöld. Sumar bergristurnar í Norður-Noregi gefa til kynna að hirðingjabúskapur hafi verið hafinn þar. Samar í Finnlandi og Norður-Noregi stunda enn í dag slíkan búskap. Hér að neðan má sjá stílfærða mynd af hreindýri sem er um 11.000 ára gömul. Hún er frá JoSarseklubben í Norður-Noregi og er 1,8 m á lengd.


Stílfært hreindýr.

Risavaxnir bautasteinar

Steinaldarfólkið gerði ekki bara myndir á veggi, það reisti líka stóreflis mannvirki. Stonehenge í Wiltshire á Suður-Englandi er frægast þeirra. Þar er risavöxnum bautasteinum sem eru jafn þungir og stór vörubíll fullur af grjóti eða nærri 25 tonn, raðað saman. Bautasteinarnir eru rúmlega 4 metrar á hæð og mynda 33 metra stóran hring. Ofan á sumum þeirra hvíla enn aðrir steinar sem tengja þá saman. Stonehenge er dularfullur staður og ekki vitað til hvers hann var. Ein kenning er að þar hafi verið stjörnurannsóknarstöð en aðrir telja að þar hafi verið trúarhof eða miðstöð lækninga. Enginn veit hvaða tækni var notuð við bygginguna.


Stonehenge í Wiltshire á Suður-Englandi.

Bronsöld í Norður-Evrópu – Sólvagninn 

Sólvagninn frá Trundholm fannst í Danmörku árið 1902. Hann hafði legið í mógröf í 3600 ár. Hann er eitt elsta minnismerki sem fundist hefur í Evrópu um notkun hesta. Sólvagninn er úr bronsi og er gulli sleginn hægra megin. Hann sýnir okkur hvernig mennirnir hafa alltaf leitað skýringa á náttúrulegum fyrirbærum, svo sem hvaðan sólin kæmi og hvert hún færi. Sjálf sólin er dregin af hesti yfir himininn. Að morgni fer hesturinn frá austri til vesturs, þá snýr gyllta hliðin að Jörðinni og til baka um nætur frá vestri til austurs. Gripurinn er 60 sentímetra langur en sólarskjöldurinn er 25 sentímetrar að þvermáli.


Sólvagninn frá Trundholm í Danmörku.

Çatal Hüyük – Gengið á húsþökum

Hugsaðu þér að bærinn þinn eða borgin hefði engar götur. Ef þú vildir heimsækja vini þína þá yrðir þú að klifra upp stiga, fara út um op á loftinu og hlaupa yfir þakið á húsinu þínu, niður á næsta þak og þannig áfram og loks niður um gat á þakinu heima hjá vini þínum. 

Þannig var bærinn Çatal Hüyük [Tsjatahl Hujugh] en hann var í sunnanverðu Tyrklandi fyrir 7–9 þúsund árum. Allur bærinn var byggður eins og ein stór blokk og fyrir vikið fengu veggir húsanna stuðning hver af öðrum. Vísindamenn hafa fundið margt athyglisvert við rannsóknir á Çatal Hüyük. Þar er til dæmis eitt elsta landslagsmálverk sem vitað er um en það sýnir eldfjallið Hasan Dag gjósa. Neðan við eldfjallið má sjá yfirlitsmynd af bænum og segja sumir að það sé fyrsta landakortið í heiminum. Húsin í Çatal Hüyük voru með miklum skreytingum og var algengt að fólk hefði hauskúpur af nautgripum á veggjunum. Það segir okkur mikið um mikilvægi húsdýra. Eitt það merkilegasta sem fundist hefur í Çatal Hüyük er stytta af sitjandi frjósemisgyðju úr brenndum leir. Hlébarðar sitja sinn hvorum megin við hana og sýna vald hennar. Sjá hér til hliðar.


Eldfjallið Hasan Dag.

Mesópótamía

U.þ.b. 3500–539 f.Kr

Upphaf borgarmenningar

Mesópótamía er á milli stórfljótanna Efrat og Tígris, nafnið er komið úr grísku og merkir „milli fljóta“. Í dag er landið Írak á þessum slóðum. Margir gripir hafa fundist við fornleifarannsóknir á svæðinu þar sem Mesópótamía var fyrir ævalöngu. Þeir bera vitni um fágun og siðmenningu eins og Drottningarlýran, gullslegið hljóðfæri sem er myndskreytt með eðalsteinum og skeljum, sem fannst í borginni Úr. Einnig má nefna hið svonefnda Veldisskrín frá Úr (sjá hér að neðan). Það er skreytt myndum á annarri hliðinni sem líklega tákna stríð þar sem fjórhjóla stríðsvagnar og hermenn eru allsráðandi. Á hinni hliðinni eru myndir sem líklega tákna frið, þar má sjá sitjandi fólk og dýr. 

Íbúar svæðisins nefndust Súmerar og voru þeir brautryðjendur á mörgum sviðum svo sem í ritlist, stjörnufræði og stærðfræði og hafa haft varanleg áhrif á þá menningu sem á eftir kom.


Veldisskrín frá Úr.

Ritlistin

Hinir fornu Súmerar fundu upp fyrsta ritmálið sem kallað er fleygrúnir. Þeir skrifuðu eða stimpluðu með fleyglaga verkfærum í rakan leir. Þegar leirinn þornaði stóð fleygletrið eftir og leirplöturnar geymdust lengi, miklu lengur en pappírinn sem við notum í dag. Fleygrúnirnar voru einfaldaðar táknmyndir og þróuðust smám saman í hrein rittákn. Þessi aðferð breiddist hratt út og átti skrift Egypta rætur sínar að rekja til fleygrúna Súmera. Kínverjar og Japanir nota enn í dag letur sem líkist fleygrúnum Súmera. 

Áður höfðu menn tjáð hugsanir sínar með myndum, t.d. hellamálverkum eða ristum í stein, og aðrir séð verkin, skilið þau og meðtekið. Ritlistin eða skriftin er í raun myndræn skilaboð sem búið er að setja upp í kerfi sem margir skilja. Þá er hægt að raða saman mörgum táknum og gera skilaboðin efnismeiri og flóknari.

Ritlistin hefur fært okkur ómetanlegar upplýsingar um líf fólks í fornöld. Elsta hetjuljóð veraldar er sagnabálkurinn um Gilgamesh. Hann var konungur í Úrúk fyrir 4700 árum. Í dag er Úrúk þekkt sem landið Írak. Í Gilgamesh segir í fyrsta sinn frá flóðinu mikla sem þekkt er úr Biblíunni sem Nóaflóðið. Þannig má sjá hvernig sögur og hugmyndir ferðast manna á meðal og um langa vegu. Gilgamesh-ljóðin fundust greypt á tólf brotnar leirtöflur í Norður-Írak. Þar kemur í ljós að höfundur ljóðanna hét Sin-leqi-uninni og er hann elsti þekkti rithöfundurinn.

Gilgamesh ljóðin.

Babelsturninn

Goðsagnir eru táknsögur sem eru notaðar til að útskýra heiminn og það sem fólki hefur þótt dularfullt. Ein slík goðsögn er af Babelsturninum sem mennirnir reistu til þess að ná til himins. Hann átti að vera kennileiti til dýrðar mönnunum. Samkvæmt Biblíunni reiddist Guð vegna þessa verkefnis og hroka mannanna. Hann tvístraði þeim með því að rugla tungumálið en, samkvæmt goðsögninni, töluðu allir menn sama mál á þessum tíma. Mennirnir hættu að skilja hver annan, gátu ekki lokið verkinu, fóru hver í sína áttina og til urðu margar þjóðir. Samkvæmt Biblíunni stóð Babelsturninn í borginni Babýlon. Turninn var 92 metrar á hæð og var stallahof (Ziggúrat) en slík hof var að finna í öllum borgum hinnar fornu Mesópótamíu. Margir listamenn hafa spreytt sig á því að mála Babelsturninn. Ein frægasta myndin af turninum er eftir hollenska málarann Pieter Bruegel (1525–1569), sjá hér til hliðar. Myndin sýnir hæð turnsins og óendanlega innviði hans. Arkitektar Evrópuþingsins voru undir sterkum áhrifum af Bruegel þegar þeir reistu 60 metra háan turn Evrópuþingsins í Strasbourg í Frakklandi árið 1999. Kjörorð byggingarinnar „Margar tungur – ein rödd“ er greinileg vísun í goðsögnina um Babelsturninn.

Forn-Egyptar

U.þ.b. 3100–30 f.Kr.

Formfesta og eilíft líf

Menning Forn-Egypta hefur haft mikil áhrif á heimsmenninguna og þar með okkar norrænu menningu. Egypsk menning fór að þróast fyrir 5000 árum og tók 500 ár að mótast. Eftir það breyttist hún nærri ekkert í 3000 ár en það er tíminn sem forn-egypska konungsdæmið var við lýði. Það leið undir lok á annarri öld eftir Krist. 

Sérkenni forn-egypskrar menningar

Forn-egypski stíllinn var mjög formfastur og einkenni hans svo sterk að hann þekkist strax. Sýna átti mannslíkamann frá eins dæmigerðu sjónarhorni og hægt var. Þetta þýddi að ekki voru allir hlutar líkamans sýndir frá sama sjónarhorninu. Höfuðið var ávallt sýnt frá hlið. Slík vangamynd sýndi aðeins annað augað og þá framan frá. Þessi sérstaka samsetning gaf forn-egypskum andlitum það svipmót sem við þekkjum í dag. Efri hluti líkamans neðan við hálsinn var sýndur framan frá en neðri hlutinn, frá mitti og niður, var sýndur frá hlið. Yfirleitt voru fæturnir sýndir sem tveir vinstri fætur eða tveir hægri fætur, allt eftir því í hvaða átt manneskjan sneri. Hlutföll mannslíkamans voru stöðluð og notuðu forn-egypskir listamenn ferningslaga reiti til að skipuleggja myndirnar. 


Mannslíkaminn út frá forn-egypsku sjónarhorni.

Stærð fólksins á myndunum fór eftir virðingarstöðu. Höfðingjar voru stórir og miklir í samanburði við eiginkonur sínar, þjónustufólk var enn minna og þrælar og ambáttir voru minnst. Dýrin voru svo nákvæmlega teiknuð að hver tegund er auðþekkjanleg.

Forn-Egyptar höfðu mikinn áhuga á dauðanum. Þeir reistu grafhýsi sem voru einhver mestu og stærstu mannvirki sem reist hafa verið, það eru píramídarnir í Giza í Egyptalandi. Þeir voru grafhýsi fyrir valdamikla konunga sem kallaðir voru Faraóar. Sá stærsti, Keópspíramídinn, er nærri 150 metra hár og var reistur á tuttugu ára tímabili fyrir rúmum 4500 árum. 


Giza píramídi.

Ekki er vitað með vissu hvaða tækni var notuð við byggingarnar en vitað er að steinana í píramídana þurfti að flytja um langan veg, suma meira en 700 kílómetra leið, álíka langt og frá Egilsstöðum til Reykjavíkur. 

Forn-Egyptar kappkostuðu að verk þeirra skyldu vera varanleg og minjar þeirra hafa varðveist mun betur en minjar fólksins í Mesópótamíu. Forn-Egyptar lögðu einnig áherslu á varðveislu líkama hinna látnu. Það gerðu þeir með því að fjarlægja innyflin og þurrka líkin með sérstöku salti. Líkamsleifar sem hafa verið meðhöndlaðar með þessum hætti eru kallaðar múmíur. Síðan var þeim komið fyrir í steinkistum sem höfðu form mannslíkamans.

Þessar kistur (sarcophagus) voru síðan settar inn í grafhýsi ásamt dauðabókinni sem hafði að geyma ráðleggingar fyrir hina látnu í framhaldslífinu. Styttur af þjónustufólki, þrælum og ambáttum voru settar umhverfis líkkistuna til þess að hin látnu nytu áfram þjónustu þrátt fyrir að hafa lokið jarðvist sinni.

Hugmyndir Forn-Egypta um varanleika tengdust eilífðinni. Þeir trúðu því að til þess að eiga möguleika á eilífu lífi yrði að varðveita mannslíkamann eftir andlátið. Það gerðu þeir með því að breyta hinum látnu í múmíur sem myndu aldrei eyðast. 


Píramídi í nærmynd.

Hver var Imhótep?

Húsameistarinn Imhótep er líklega fyrsti listamaðurinn sem er þekktur með nafni. Hann þjónaði Djóser konungi sem komst til valda fyrir um 4600 árum. Hann var fjölfræðingur og gegndi mörgum mismunandi hlutverkum. Hann var meðal annars ráðgjafi konungs, læknir, æðstiprestur, húsameistari, yfirsmiður, yfirmyndhöggvari og vasagerðarmaður. Hann var einn af fáum almennum borgurum sem var tekinn í guðatölu eftir andlát sitt. Talið er að hann hafi stjórnað gerð fyrsta píramídans í Egyptalandi sem var grafhýsi Djósers og nefnist Þrepapíramídinn í Sakkara. Hann varð fyrirmynd annarra píramída. Imhótep notaði aðeins mjög hart grjót og þess vegna urðu forn-egypsk mannvirki afar sterk og traust. Dæmi um það er Keópspíramídinn en hann er eina mannvirkið af sjö undrum veraldar í fornöld sem enn stendur. Imhótep reisti sjálfum sér leynilegt grafhýsi og er það enn þann dag í dag ófundið.

Hin sjö undur veraldar

Hin fornu menningarsamfélög við Miðjarðarhafið og í Miðausturlöndum reistu bæði byggingar og höggmyndir sem voru mikil afrek. Keópspíramídinn í Giza er það eina sem er uppistandandi en hin voru Hengigarðarnir í Babýlon, Seifsstyttan í Ólympíu, Artemisarhofið í Efesos, Mausoleusarhofið í Halikarnassos, Risinn á Ródos og Vitinn í Faros við Alexandríu.

Krít

U.þ.b. 3650–1100 f.Kr.

Léttleikandi eyjamenning

Sunnarlega í Miðjarðarhafinu er eyjan Krít, fögur og sólrík. Fyrir 3500–4000 árum voru íbúar hennar lífsglaðir og kraftmiklir eyjarskeggjar. Þeir stunduðu siglingar og áttu mikil viðskipti við Forn-Egypta. Þó að menning Forn-Egypta hafi haft áhrif á Krít var yfirbragð krítverskrar listar léttara og fjörlegra, öfugt við stöðlun og fastheldni Forn-Egypta.

Menningin á Krít var upphafið að hinni glæsilegu forngrísku menningu. Í litfögrum veggmálverkum sem kallaðar eru freskur fara Krítverjar heljarstökk á nautum og höfrungar synda um höfin. Á einni myndinni er stúlka með farða og varalit sem þótti svo lífleg og þokkafull, þegar hún fannst í upphafi 20. aldar, að hún hlaut viðurnefnið Parísardaman – La Parisienne.


Paradísardaman.

Freskur

Ein af ástæðunum fyrir léttleika krítverska stílsins var freskutæknin. Þá var málað á blautan kalkmúr en ekki þurran líkt og Forn-Egyptar gerðu. Þarna er komin skýringin á hinu alþjóðlega heiti; „Fresco“ sem er ítalska og þýðir ferskur eða nýr. Aðferðin byggist á því að fyrst er múrhúðin dregin á vegginn en aðeins á lítil svæði í einu. Meðan múrinn er blautur málar listamaðurinn með litarefnum sem hann hefur leyst upp í vatni. Litarefnin ganga í efnasamband við kalkið og renna saman við yfirborðið. Þetta þýðir að listamaðurinn þarf að vera snar í snúningum áður en múrinn þornar.


Freska, stokkið yfir naut.

Byggingarlist gefur tóninn

Byggingar Krítverja segja okkur heilmikið um menningu þeirra. Húsin voru ekki eins sterkbyggð og í Egyptalandi, þau voru léttari tilsýndar og féllu betur að umhverfinu. 

Rannsóknir á höllinni í Knossos á Krít hafa veitt miklar upplýsingar um lífið þar. Höllin er sannkallað völundarhús með nærri 1300 herbergjum umhverfis fallegan hallargarð. Í höllinni var frárennsliskerfi, skólpveita og vatnsveita en það var alveg óþekkt á þessum tíma. Korn, olía og vín var geymt í stórum leirkerum. Veggir hallarinnar voru skreyttir listaverkum og veggmálverkum sem lýsa fjörlegu lífi fólksins sem bjó þar. Trjábolir mynduðu burðarsúlur hallarinnar, sem og fleiri bygginga. Krítverjar létu trjábolina standa á hvolfi til þess að koma í veg fyrir að greinar færu að vaxa á nýjan leik út úr trjábolunum.


Höllin í Knossos.

Á Krít höfðu konur meira að segja um mál á opinberu sviði en þekktist í Evrópu á þessum tíma. Segja má að þar hafi verið móðurættarsamfélag, eignir erfðust frá móður til dóttur og frjósemisgyðjur voru dýrkaðar. Eyjan var einangruð og fyrir vikið var samfélagið bundið sterkum fjölskylduböndum. Það hefur þótt merkilegt hve mikil áhersla er lögð á kvenlega fegurð í krítverskri list og voru konur oft sýndar afar vel til hafðar í klæðaburði og hárgreiðslu. Líklegt er að sumar þessar konur tákni gyðjur fremur en dauðlegar konur. Þó er ljóst að uppábúnar konur, líka þær dauðlegu, eru að jafnaði sýndar berbrjósta. Það er ekki einsdæmi í myndlist fornaldar en þó hvergi eins áberandi og á Krít.

Annað sem einkenndi krítverska menningu eru „nautastökkin“ en talsvert er af þeim í krítverskri myndlist og íþróttafólk sýnt stökkva yfir mannýg naut.

Forn-Grikkir

U.þ.b. 3000–27 f.Kr.

Manneskjan er mælikvarði alls

Við heyrum oft orðið „klassík“. Stundum er það notað um tónlist og stundum til að lýsa einhverju sem er sérlega gott, jafnvel fyrsta flokks. Öll sú myndlist sem kölluð er klassísk á rætur að rekja til Forn-Grikkja. Orðið er dregið af latneska heitinu classis sem þýðir flokkur eða stétt. Það verður viðmið annarra hluta því ekki er talið að hægt sé að gera betur.

Samræmi (harmonia) var kjörorð Forn-Grikkja. Þeir notuðu stærðfræði til að finna út klassísk tónbil og form. Þeim fannst manneskjan vera æðsta og flóknasta lífveran og bjuggu til mælieiningar út frá líkamanum; þumlung, fet og alin.


Þumlungur.


Fet.


Alin.

Þó stærðfræðilegt samræmi væri mikilvægt þá var sjónrænt jafnvægi mikilvægara í huga Forn-Grikkja. Munurinn á stærðfræðilegu og sjónrænu jafnvægi er fólginn í þeim þrívíða veruleika sem við búum í. Það þurfti stundum að svindla á stærðfræðilega jafnvæginu til að fullnægja þörfum hins sjónræna jafnvægis. Þetta má sjá á því hvernig súlnaraðir Parþenonhofsins á Akrópólishæð í Aþenu sveigjast inn á við að ofanverðu. Ef súlurnar hölluðust ekki inn myndi okkur finnast sem hofið væri að gliðna út á við og hrynja í sundur.


Dórískar súlur höfðu engan fót en ferkantað höfuð. Þær gildnuðu lítið eitt um miðjuna og mjókkuðu síðan upp. Þetta var gert til að láta þær sýnast hærri.

Jónískar súlur voru heldur skrautlegri en þær dórísku og voru grennri en þær. Þær voru með snúða á súluhöfðinu og höfðu hringlaga fót.

Korinþusúlurnar líktust þeim jónísku nema þær voru heldur grennri.
Helsti munurinn er fólginn í mjög skrautlegu súluhöfði með sveigðum laufblöðum og blómum.

Þekking á trúarbrögðum Forn-Grikkja er nauðsynleg til að skilja forn-grískri myndlist. Guðir og gyðjur voru í mannsmynd og áttu sér mannlegar hliðar og sýndu tilfinningar, ástríður og breyskleika. Til að draga fram mannlegt eðli guðanna lögðu Forn-Grikkir áherslu á nákvæma túlkun líkamans í listaverkum sínum. Íþróttamenn voru fullkomnastir allra í hugum Forn-Grikkja og margar fegurstu styttur þeirra sýna íþróttamenn. Með fullkomnum styttum af þeim vildu þeir sýna hið guðlega eðli þeirra. En með því að gera guðina mennska og mennina guðlega missti grísk list trúarlegt inntak sitt.

Það tímabil í sögu Grikkja sem hafði mest áhrif á þróun vestrænna samfélaga er kallað klassíska tímabilið. Það varði í aðeins tvö hundruð ár á fimmtu og fjórðu öld fyrir Kristsburð. Í hópi fremstu listamanna Forn-Grikkja var myndhöggvarinn Pólýkleitos (480–420 f.Kr.). Hans frægasta verk er Spjótberinn. Hann skrifaði bók um fagurfræði sem hann grundvallaði á stærðfræðilegu jafnvægi.


Spjótberinn eftir Pólýkleitos. Jafnvægi er náð með því að láta Spjótberann standa í annan fótinn og með því að sveigja hrygginn lítið eitt og lyfta gagnstæðri öxl.

Forn-Grikkir á klassíska tímanum gerðu fleira en styttur. Þeir reistu líka glæsileg hof. Þeir notfærðu sér forna byggingartækni frá Krít þar sem trésúlur héldu uppi veggjum og þökum. Í stað timburs notuðu Forn-Grikkir marmara sem hafði meira burðarþol.

Eitt fegursta dæmi um þessa byggingaraðferð er Parþenonhofið. Höfundur þess var Feidías (490–430 f.Kr.) en hann er talinn mesti listamaður þessa tímabils. Hann var myndhöggvari, málari og arkitekt. Súlurnar sem halda uppi þakinu á Parþenonhofinu eru kallaðar dórískar súlur. Þær eru elsta útgáfan af súlnagerð Forn-Grikkja. Feidías gerði einnig hina frægu risastyttu af Seifi sem var í borginni Ólympíu en þar voru fyrstu Ólympíuleikarnir haldnir 700 árum fyrir Krist. Styttan var eitt af sjö undrum veraldar í fornöld og talin hafa verið 12 metrar á hæð. Hún eyðilagðist í eldi árið 462 e.Kr. Feidías gerði einnig risastyttu af gyðjunni Aþenu sem stóð í Parþenonhofinu. Styrjaldir, skemmdarverk og tímans tönn hafa máð þessi listaverk af yfirborði jarðar.


Parþenonhofið.


Dórískar súlur.

Tengsl norrænna, grískra og rómverskra trúarbragða

Greinilegar hliðstæður eru milli trúarbragða. Hinn gríski Seifur, rómverski Júpíter og norræni Óðinn eiga of margt sameiginlegt til þess að það geti verið tilviljun. Hið sama gildir um Afródítu, Venus og Freyju. Afródíta var gyðja ástar og fegurðar hjá Forn-Grikkjum. Hún var líka gyðja alls þess góða og kyrra í hafinu. Eins og sést á myndunum er Venus þeirra Rómverja sláandi lík Afródítu. Freyja var gyðja ástar og frjósemi í norrænni goðafræði. Guðir og gyðjur Forn-Grikkja bjuggu á Ólympustindi í góðu yfirlæti eins og goð norrænna manna í Valhöll.


Afródíta.


Venus.


Freyja.

Róm

U.þ.b. 900 f.Kr.–476 e.Kr.

Hið mikla herveldi

Öfugt við hina forvitnu Forn-Grikki  sem höfðu mestan áhuga á heimspeki, vísindum og listum þá kraumaði mikið hernaðarveldi norður á Ítalíuskaga. Rómverjar lögðu undir sig öll lönd við Miðjarðarhaf og þar á meðal Grikkland. Þeir hrifust svo mjög af grískri menningu að þeir gerðu hana að sinni eigin. Þeir fluttu inn listamenn frá Grikklandi og létu þá vinna fyrir sig. Flestar forn-grískar styttur sem við þekkjum í dag eru einungis eftirgerðir sem Rómverjar létu gera eftir frummyndunum. Í mörgum tilfellum eru frummyndirnar löngu týndar en eftir standa eftirgerðir Rómverja. 

Styrkur hringbogans

Rómverjar gerðu margt mikilvægt á listasviðinu. Þeir notuðu bogaform frá Mesópótamíumönnum í stað grísku súlnanna sem voru frekar notaðar til skrauts. Þannig gátu þeir aukið burðarþolið. Bogaformið er kallað rómanskur bogi og var hann uppistaðan í hinu mikla hringleikahúsi í Róm, Colosseum, sem var reist á árabilinu 70–80 eftir Krist. Á sama tíma fundu þeir upp steinsteypuna sem jók möguleika þeirra í húsagerðarlist. Steinsteypan gerði þeim kleift að byggja vatnsbrýr víða í Evrópu til að tryggja aðgengi að vatni og er vatnsbrúin í Segovia á Spáni dæmi um slíkt mannvirki. Líkt og sönnu heimsveldi sæmir lögðu Rómverjar mikla áherslu á skipulag og samgöngur. Til að auðvelda samgöngur lögðu þeir vandaða vegi um alla Evrópu, allt norður til Skotlands, suður til Spánar og austur að Asíu.
Colosseum í Róm á Ítalíu.

Segovia vatnsveitan á Spáni.

Pantheonhofið

Annað fagurt dæmi um byggingarlist Rómverja er Pantheonhofið í Róm. Það var reist á annarri öld eftir Krist. Framhlið þess er í anda Forn-Grikkja með Korinþusúlum en yfir sjálfu hofinu er risavaxið hvolfþak með hringlaga gati fyrir miðju. Hvolfþakið er úr ójárnbentri steinsteypu og er meira en sex metrar að þykkt neðst en ríflega einn metri efst. Í efstu lögum steinsteypunnar eru léttari steinar til að draga úr þyngd hvolfþaksins. Þessi nýja tækni Rómverja varð til þess að öll húsagerðarlist tók miklum breytingum og sýnir vel hvernig verkfræði getur haft áhrif á þróun listarinnar.


Pantheonhofið í Róm.


Hvolfþakið á Pantheonhofinu.

Kristni

Jesús Kristur fæddist á þeim tíma þegar Rómverjar voru valdamestir allra þjóða í Evrópu. Fæðing hans hafði mikil áhrif á þróun menningarinnar. Skýrt dæmi um það er tímatal okkar en það miðast við fæðingu Krists. Fylgjendur hans neituðu að beygja sig undir vald rómversku keisaranna og sögðust aðeins hlýða Guði. Í huga þeirra þýddi þetta að lífið væri aðeins undirbúningur undir dvölina í himnaríki. Þetta hafði mikil áhrif á alla list í Evrópu næstu aldir.

Photo by CEphoto, Uwe Aranas

Germanir

U.þ.b. 500–900

Gullöld mósaíkmyndanna

Fyrstu aldirnar eftir fæðingu Krists einkenndust af miklum styrjöldum og átökum um landamæri. Ríki Rómverja klofnaði endanlega í austrómverska ríkið og vestrómverska ríkið árið 395. Vestrómverska ríkið leið undir lok árið 476 en hið austrómverska stóð allt til ársins 1453. Hnignun vestrómverska ríkisins átti rætur sínar að rekja til farsótta, slæmrar hagstjórnar og stöðugra innrása þjóðflokka sem nefndust Germanir. 

Borgin Ravenna á Norður-Ítalíu varð stjórnstöð mikils germansks konungs. Hann hét Þjóðrekur og var konungur Austgota. Skömmu eftir árið 500 lét hann reisa þar mikla kirkju af basilíkugerð, Nýju Apolloníusarkirkjuna. Basilíkur eru stórar kirkjur með svokölluðu miðskipi en það er aðalsalurinn í kirkjunni. Til hliðar eru minni salir og eru þeir aðskildir miðskipinu með súlum. Okkar kirkjur eru enn með sama sniði, hvort heldur er Dómkirkjan eða Skálholtskirkja. Til forna voru þessar byggingar ekki eingöngu fyrir trúarlegt starf heldur var þar fjölbreytt starfsemi.

Þegar komið er inn í Nýju Apolloníusarkirkjuna blasa við mósaíkmyndir af englum og dýrlingum í beinni röð. Mósaík er fagur og glitrandi efniviður og gefur listaverkunum léttan og andlegan blæ. Það sem vekur athygli er að listamaðurinn lagði enga áherslu á persónuleika þessara himnesku herskara. Svipur flestra er sá sami og stellingar sömuleiðis. Allir snúa fram með hlutlausan andlitssvip. Á þessum tíma átti fólk að beina augliti sínu til himins, snúa baki við veraldlegum gæðum og huga að sælunni eftir dauðann. Öll hin forna goðaveröld Forn-Grikkja og Rómverja þótti á þessum tíma sýna guðleysi og heiðni. Þess vegna voru mörg forn listaverk eyðilögð.

Hugmynd í stað raunveruleika

Stundum sýnir listin ekki bara hlut heldur hugmynd. Þá er talað um óhlutbundna list. Listin vísar þá til einhvers sem er ósýnilegt. Þannig verður til táknheimur og er stafrófið og ritlistin ágætt dæmi um þetta. Gyðingar bönnuðu hlutbundna tjáningu því þeir litu á náttúruna sem verk Guðs. Listamaður sem gerði mynd af manneskju væri að setja sig á sama stall og Guð. Að dást að slíku listaverki var skurðgoðadýrkun. Það þótti hið argasta guðlast og því voru allar myndir harðbannaðar. Múslimar fylgdu fordæmi gyðinga og innan kristnu kirkjunnar voru skiptar skoðanir um málið. Löngu síðar höfðu þessar hugmyndir áhrif á Martein Lúther (1483–1546) sem var upphafsmaður þess að hin kristna kirkja klofnaði í tvennt, annars vegar hina rómversk-kaþólsku kirkju og hins vegar kirkju mótmælenda. Þetta varð til þess að kirkjur mótmælenda voru hreinsaðar af myndum og óþarfa skrauti. Íslenskar kirkjur eru gott dæmi; þar er lítið um skraut og oftast er altaristaflan eina myndin.

Oto Metz og höll Karlamagnúsar

Oto Metz var fyrsti þekkti arkitektinn í Norður-Evrópu. Nafn hans er frægt en ekkert er vitað um manninn sjálfan. Hann tók að sér að reisa höll fyrir Karlamagnús í borginni Aachen sem í dag er í Þýskalandi rétt við landamæri Frakklands. Lítið er eftir af höllinni nema dómkirkjan með áttstrendri kapellu. Hún er kölluð Palatínska kapellan og er talin vera eitt mesta meistaraverk miðalda á sviði húsagerðarlistar og jafnvel allra tíma. Í dag er Palatínska kapellan orðin hluti af dómkirkjunni í Aachen. Stærð kapellunnar er í samræmi við fullkomnu borgina sem Opinberunarbók Biblíunnar segir frá.

Photo by CEphoto, Uwe Aranas
Dómkirkjan í Aachen.
„Photo by CEphoto, Uwe Aranas“ Wikimedia.


Palatínska kapellan í Aachen.

Að forminu til er kapellan skyld Nýju Apolloníusarkirkjunni í Ravenna en hinir mislitu steinar í burðarbogunum benda til arabískra áhrifa, einkum frá Klettamoskunni í Jerúsalem sem var byggð einni öld fyrr.

Væntingar um endurreisn Rómaveldis 

Leo III páfi krýndi Karlamagnús sem keisara árið 800. Páfinn vildi endurreisa rómverska ríkið sem var nefnt „Hið heilaga rómverska keisaradæmi“. Karlamagnús hafði þau áhrif að Evrópubúum fannst þeir tilheyra einu og sama ríkinu. Hann var því kannski fyrsti Evrópusinninn. Engu að síður urðu til þjóðir innan Evrópu eftir hans dag og þannig skiptist Evrópa hægt og sígandi upp í mörg ríki og þjóðir eins og við þekkjum hana í dag.

Keltar og Norrænir menn, Lindesfarne minnisvarði.

Keltar og norrænir menn

U.þ.b. 800–1300

Í Norður-Evrópu

Enda þótt mikil gróska hafi verið í löndunum við Miðjarðarhaf þróaðist einnig menning norðar í Evrópu. Hún var nokkuð ólík þeirri suðrænu en hefur engu að síður haft mikla þýðingu fyrir þróun vestrænnar menningar. Þjóðirnar sem um ræðir voru norrænir menn og Keltar. Við Íslendingar eigum rætur okkar að rekja til þeirra.

Norrænir menn fóru víða og voru miklir siglingakappar. Handrit okkar Íslendinga greina frá ferðum þeirra þegar þeir fóru „í víking“. Það voru ekki skoðunarferðir um ókunn lönd eins og við þekkjum sjálf í dag heldur miklar ránsferðir þar sem engu var hlíft. Árið 793 hélt floti norrænna manna til Bretlands og eyddi samfélagi einsetumanna og munka á flæðieyjunni Lindisfarne. Eftir stóðu mannvirki og handrit sem munkarnir höfðu ritað. Eyjan er miðja vegu milli Edinborgar í Skotlandi og Newcastle á Englandi. 

Hundrað árum fyrr hafði Eadfrith, sem þá var biskup á Lindisfarne, átt stóran þátt í gerð Lindisfarne-guðspjallanna. Þau eru ein fegurstu og frumlegustu handrit sem miðaldir hafa eftirlátið okkur. Með þeim varð til ný og sérstæð listgrein, bókverkið, sem blómstraði á miðöldum. Handrit okkar Íslendinga, einkum eftir árið 1300, nálgast slíka bókagerð vegna ríkulegra skreytinga. Handritateikningar af þessari gerð eru kallaðar „lýsingar“. Lindisfarne-guðspjöllin eru glæsilegt dæmi um svokallaða fléttulist sem sýnir gróður og plöntumynstur. 


Lindisfarne.


Lindisfarne guðspjöllin.

Keltar og Norrænir menn, Lindesfarne minnisvarði.
Minnisvarði í Lindisfarne.

Oseberg skipið

Keltneska fléttulistin hafði mikil áhrif á norræna list. Drekahöfuðið á norska Oseberg skipinu sýnir vel keltneskt fléttumynstur. Þannig mynstur má einnig sjá á íslenskum útskurði. Norrænir menn kynntust fléttulistinni á ferðum sínum til Bretlandseyja.


Oseberg skipið.

 

Rómönsk list

U.þ.b. 900–1200

Risavaxnar kirkjur

Miklir konungar hafa gjarnan viljað reisa sér voldug minnismerki. Hið sama á við um afkomendur Karlamagnúsar. Þeir sóttust eftir að hafa í þjónustu sinni afburðamenn sem gætu hrint í framkvæmd hugmyndum sínum. Einn fyrsti þekkti listunnandinn á miðöldum var slíkur maður. Það var Bernvarður biskup í Hildesheim í Þýskalandi. Við skulum aðeins kynnast verkum hans nánar.

Bernvarður lét reisa tvær kirkjur í Hildesheim og eru þær báðar athyglisverð listaverk, hvor á sinn hátt. Sú fyrri er Mikjálskirkjan sem var reist á árunum 1001–1031. Hin síðari er Maríudómkirkjan, byggð á árunum 1010–1020. Mikjálskirkjan er ein elsta kirkjan í hinum rómanska stíl og markar upphaf nýrra hugmynda í byggingarlist. Maríudómkirkjan hefur hins vegar að geyma merkilegar bronshurðir og bronssúlu sem mörkuðu tímamót í listasögunni. Tæknin sem var notuð við að steypa bronshurðirnar er kölluð „horfið vax“.


Mikjálskirkjan í Hildesheim í Þýskalandi.

Bronshurðirnar í Maríudómkirkjunni

Á vinstri hurðinni eru átta myndir er tengjst Gamla testamentinu. Þar má sjá sköpun mannsins, Adam og Evu undir skilningstré góðs og ills, brottreksturinn úr aldingarðinum og dráp Kain á Abel, bróður sínum. Söguna má lesa frá efsta ramma til hins neðsta.

Á hægri hurðinni eru einnig átta myndir, þær sýna ævi Krists, allt frá boðun Maríu til upprisu Frelsarans. Öfugt við vinstri hurðina þá er sagan lesin frá neðstu mynd til þeirrar efstu. Lágmyndirnar á hurðunum eru svo frábærlega vel gerðar að þær voru fyrirmynd margra slíkra bronshurða allt fram að endurreisninni.


Bronshurðirnar í Maríudómkirkjunni í Hildesheim í Þýskalandi.

Refillinn frá Bayeux – Fyrsta teiknimyndasagan 

Refillinn er mikilvægur fyrir okkur Íslendinga því refilsaumur er handverk sem einungis hefur varðveist hér á Íslandi með einni norskri undantekningu. Refillinn er varðveittur í Dómkirkjunni í Bayeux á Normandí-skaga í Frakklandi. Refillinn, eða veggteppið, er sjötíu metra langur og hálfur metri að breidd. Hann er í raun myndasaga sem segir frá innrás Vilhjálms hertoga af Normandí inn í Bretland árið 1066. Það var í síðasta sinn sem nokkrum tókst að hernema Bretlandseyjar. 

Textinn er á latínu en myndirnar, herklæðin og skipin eru norræn. Í raun er Bayeux-refillinn nákvæmasta heimild sem til er um daglegt líf, klæðnað, vopn, siglingar og orustur norrænna manna. Ástæða þess að refillinn hefur varðveist jafn vel og raun ber vitni er sú að hann var aðeins tekinn fram við hátíðleg tækifæri en geymdur þess á milli á dimmum og þurrum stað. Ekki er vitað með vissu hverjir saumuðu refilinn en hann er markverðasta veraldlega listaverkið sem varðveist hefur frá miðöldum.


Refillinn frá Bayeux.

Gotnesk list

U.þ.b. 1140–1500

Borgir verða til 

Rómanski stíllinn (um 900–1200) var stíll dreifbýlisins og margar tígulegar rómanskar kirkjur er að finna í litlum og afskekktum þorpum Evrópu. Gotneski stíllinn var hins vegar stíll vaxandi borgarmenningar sem dafnaði frá 12. til 15. aldar. Gotneski stíllinn er með oddboga í stað hringboga. Oddurinn myndast þegar tveir hringbogar skerast. Tæknilega er oddbogi sterkari en hringbogi því álagið sem myndast leitar meira niður á við en til hliðanna. Þess vegna þarf ekki eins mikinn ytri stuðning við oddboga og við hringboga. Því var hægt að gera veggina léttari og koma fyrir gluggum. Gotneskar byggingar eru þar af leiðandi mun bjartari en rómanskar byggingar. Fyrir vikið varð glerlistin vinsæl og steindir gluggar bættust við freskurnar sem prýddu rómönsku kirkjurnar.

Hin gamla höfuðborg okkar Íslendinga, Kaupmannahöfn, er gott dæmi um gotneska borg. Innan þröngra virkisveggja sem reistir voru um 1170 röðuðu handverksmenn sér niður eftir götum sem voru nefndar eftir þeim. Nöfn eins og Vognmagergade (Vagnsmiðagata), Møntergade (Myntsláttugata) og Købmagergade (Kaupmannsgata) má enn finna í Kaupmannahöfn. 

Flestar borgir í Evrópu eiga sér svipaða skipulagssögu. Dómkirkjan var miðja og stolt flestra miðaldaborga og var turnum hennar ætlað að gnæfa yfir allar aðrar byggingar og sýna hversu rík borgin væri. Tækniframfarir í landbúnaði undir lok 11. aldar breyttu búskaparháttum mjög í þorpum og bæjum. Markaðirnir voru lifandi og fjörlegir, fólk kom saman og verslun og viðskipti efldust og handverksmenningin tók mikinn fjörkipp.

Gotneski oddboginn gerði arkitektum kleift að reisa enn hærri byggingar. Hæsta bygging heimsins nú er Burj-turninn í furstadæminu Dubai á Arabíuskaga. Hann er 828 metrar á hæð, næstum eins hár og Esjan. Hann hefur gotneskt yfirbragð sem er táknrænt því talið er að gotneski oddboginn sé arabískur að uppruna.


Sívaliturninn við Købmagergade í Kaupmannahöfn.


Gotneskir bogar i Landakotskirkju.


Burj-turninn í furstadæminu Dubai á Arabíuskaga.

Notre Dame

Gamlar gotneskar kirkjur hafa mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn. Notre Dame kirkjan í París er gott dæmi um það. Það tók hundrað ár að byggja hana. Hún var tilbúin árið 1260. Hún er fræg fyrir 28 svifstoðir utan á veggjunum sem halda við útveggina allan hringinn og fullkomna þannig burðarþolsfræði oddbogakerfisins. Rósettan á gafli kirkjunnar er glæsilegt dæmi um kunnáttu glerlistamanna á miðöldum. Í apríl 2019 kviknaði í þaki kirkjunnar og logaði eldurinn í 15 klukkustundir. Kirkjan skemmdist mikið við brunann og strax var ákveðið að ráðast í endurbyggingu.


Notre Dame kirkjan í París.

Tilfinningahyggja

Í gotneskri list er Kristur sýndur sem mannlegur á krossinum í þjáningu sinni. Hann færist þannig nær almenningi sem átti því auðveldara með að gera sér grein fyrir þjáningu frelsarans. Þetta hefur verið kölluð tilfinningahyggja en hún gerði skáldum og listamönnum síðar meir fært að tjá mannlegar tilfinningar og þjáningu af meiri dýpt.

Á miðöldum unnu listamenn líkt og iðnaðarmenn. Þeir byggðu kirkjurnar en fátt er vitað um þá. Einu mennirnir sem eitthvað er vitað um eru konungar, biskupar og höfðingjar sem létu reisa byggingarnar. Þess vegna eru fáir listamenn nafngreindir frá tímum Forn-Grikkja til miðalda. Þetta átti eftir að breytast með endurreisninni en þá varð listamaðurinn sjálfstæður.

Endurreisn

U.þ.b. 1400–1500

Tímabilið sem nefnt hefur verið endurreisn (Renaissance) hófst á Ítalíu. Vanalega er miðað við að það hafi staðið frá 1400–1600. Borgaryfirvöld í Flórens á Ítalíu héldu samkeppni um gerð bronshurða á austurhlið Skírnarkapellunnar í byrjun 15. aldar. Árið 1336 hafði gullsmiðurinn Andrea Pisano (1290–1348) lokið við samskonar hurðir á suðurhliðinni. Þær hurðir fjölluðu um ævi Jóhannesar skírara en núna vildu Flórensbúar fá hurðir sem byggðu á Gamla testamentinu.

Samkeppnin var hörð milli tveggja ungra metnaðarfullra gullsmiða. Þeir hétu Lorenzo Ghiberti (1378–1455) og Filippo Brunelleschi (1377–1446). Þeir skiluðu báðir lágmynd af fórn Abrahams á syni sínum Ísak. 

Dómnefndarmönnunum fannst líkamsbygging og stelling Ísaks í tillögu Ghiberti glæsilegri og vann hann keppnina. Honum hafði tekist að endurvekja næstum gleymda rómverska bronssteypuaðferð sem kölluð er „horfið vax“.

Ghiberti var alla ævina að vinna að verkefnum fyrir Skírnarkapelluna í Flórens. Það tók hann tuttugu og eitt ár að ljúka við bronshurðirnar en þær eru samsettar úr 28 einingum. Þegar því lauk fékk hann annað stórt verkefni fyrir Skírnarkapelluna. Frá 1425–1452 mótaði hann 10 stórar lágmyndir úr Gamla testamentinu og þótti takast svo vel til að Michelangelo (1475–1564) kallaði þær Paradísarhliðið.

Ósigur Brunelleschi varð til þess að hann fór frá Flórens til Rómar með vini sínum, listamanninum Donatello (1386–1466). Saman fóru þeir að rannsaka rómverskar húsarústir. Niðurstaða rannsóknanna leiddi til betri skilnings á rómverskri verkfræði og hlutföllum mannslíkamans og bygginga. Merkilegust var kannski lausnin á ráðgátunni um fjarvíddina því hún varð upphafið að nýrri tilfinningu fyrir rými í myndlistinni.

Til gamans má velta því fyrir sér hvort Brunelleschi hefði getað reist hvolfþakið á Dómkirkjuna í Flórens og enduruppgötvað fjarvíddina ef hann hefði eytt ævi sinni í að skreyta Skírnarkapelluna í Flórens líkt og Ghiberti gerði.


Paradísarhliðið.

Lágmyndir

Lágmyndir eru höggmyndir sem eru gerðar á flatt yfirborð þannig að myndin virðist koma út úr bakgrunninum. Öfugt við hefðbundnar höggmyndir þá eru lágmyndir aðeins skoðaðar framan frá líkt og málverk og eru gerðar til þess að skapa sjónhverfingu fyrir áhorfandann. Krónupeningurinn er ágætt dæmi um lágmynd. Þorskurinn á framhliðinni er lítið eitt upphleyptur þannig að hann verður raunverulegri en ef hann hefði bara verið teiknaður með línum. Stundum eru lágmyndirnar þannig að manneskjurnar koma nánast út úr myndinni líkt og við sjáum í bronshurðunum í Skírnarkapellunni.


Lágmynd eftir Ghiberti á bronshurðinni á Skírnarkapellunni í Flórens.

Horfið vax

Horfið vax er forn aðferð til að búa til afsteypur úr málmi af höggmyndum eða nytjahlutum. Fyrst er höggmyndin mótuð í leir eða tálguð úr tré. Síðan er búið til mót af henni úr gifsi. Ef myndin er einföld er gifsmótið í tveimur hlutum en stundum þarf mótið að vera samsett úr mörgum einingum. Upprunalega höggmyndin er tekin innan úr gifsmótinu og það sett saman á nýjan leik. Þá er bráðnu vaxi hellt ofan í mótið, ekki ólíkt því hvernig páskaeggin eru búin til. Þannig verður til afsteypa af upprunalegu höggmyndinni úr vaxi. Við vaxmyndina er bætt greinum úr vaxi sem verða síðar að aðfærsluæðum fyrir bráðinn málminn. Síðan er steypt mót utan um vaxmyndina úr hitaþolnu efni en ólíkt fyrra mótinu er þetta mót ekki með samskeytum. Síðan er mótið hitað í brennsluofni þannig að vaxið bráðnar og rennur burt og eftir stendur mótið tómt, tilbúið til að taka við bráðnum málminum sem oftast er brons. Þegar málmurinn hefur kólnað er mótið brotið utan af, aðfærsluæðarnar skornar burt og höggmyndin slípuð og lagfærð. Styttan af Jóni Sigurðssyni á Austurvelli eftir Einar Jónsson var einmitt búin til með þessari aðferð.


Stytta af Jóni Sigurðssyni á Austurvelli í Reykjavík eftir Einar Jónsson.

Lausnir á aldalöngum vanda 

Endurreisnin var merkileg fyrir fleira en að veita hinum klassíska stíl Forn-Grikkja uppreisn æru. Hún snerist um það hvernig fólk hugsaði. Listamenn einsettu sér að leysa vanda sem áður var talinn óleysanlegur. Tengsl vísinda og lista efldust og stærðfræði varð leiðarljós þeirra sem vildu láta taka mark á sér. 

Þó að opinbert upphaf endurreisnar sé talið vera um 1400 þá röktu Flórensbúar hana allt aftur til ítalska málarans og arkitektsins Giottos di Bondone (1266–1337). Giotto var orðinn svo frægur í lifanda lífi að þjóðskáld Ítala, Dante (1265–1321) sagði frá honum í Guðdómlega gleðileiknum. Dante er oft talinn standa á mörkum miðalda og endurreisnar. Giotto var fyrstur listamanna á miðöldum til að teikna og mála eftir raunverulegu umhverfi. Hann vildi sýna menn og dýr eins eðlileg og hægt væri. Þannig varð til það takmark endurreisnarmanna að fá sem skýrasta mynd af heiminum. Giotto málaði fleiri en 40 freskur í Scrovegni-kapelluna í Padúa á Norðaustur-Ítalíu. Freskurnar eru byggðar á ævi Maríu guðsmóður og þekja veggi og loft þannig að gesturinn er umvafinn átakamikilli myndasögu Giottos.

Töfrar Giottos fólust í því að hann notaði blæbrigði og skugga til að draga fram persónuleika fyrirmyndanna. Hann sýndi líka sérkenni þeirra, ólíkt hinum eldri málurum, sem sýndu sviplausa menn. Hann braut upp myndflötinn og persónurnar voru jafnvel á hreyfingu. Þá birtist á nýjan leik tilfinning þeirra, ást, sorg, svik og gleði. Hið mannlega var komið aftur inn í myndlistina.

Giotto var mikill húmoristi

Til er saga af því þegar páfinn leitaði að listamanni til að mála myndir fyrir Péturskirkjuna. Sendiboði kom á vinnustofu Giottos og bað hann um sýnishorn af kunnáttu sinni. Giotto tók pensil og rauða málningu, lagði stórt blað á gólfið, setti vinstri höndina meðfram síðunni og málaði í einni samfelldri hreyfingu fullkominn hring án hjálpartækja. „Hérna er teikningin þín!“ sagði Giotto við sendiboðann. Sendiboðinn varð afar móðgaður og fannst lítið til koma. „Fæ ég ekki aðra teikningu?“ spurði sendiboðinn. „Þetta er alveg nóg. Sýndu páfanum myndina“, sagði Giotto, „og hann skilur verkið“.

Þegar sendiboðinn sýndi páfanum verkið og sagði honum að Giotto hefði teiknað það fríhendis ákvað páfinn strax að ráða Giotto.

Sagan segir að Giotto hafi verið afar ófríður. Hann átti mörg börn og þau þóttu ekkert sérlega falleg á að líta. Þegar Dante kom til Giottos á vinnustofuna sá hann börnin hans leika sér í kring og spurði hissa: „Hvernig getur maður sem býr til fegurstu málverk í heimi búið til svona venjuleg börn?“ „Ég bjó þau til í myrkri!“ svaraði Giotto að bragði.


Harmakvein Krists eftir Giotto.


Freskan Brúðkaup í Kana eftir Giotto. Kana var fornt þorp í N-Ísrael þar sem Jesú gerði sitt fyrsta kraftaverk og breytti vatni í vín.


Giotto di Bondone.

Arnolfine

Fágun og fínleiki

U.þ.b. 1400–1500

Olíulitirnir uppgötvaðir – listmálarar koma til sögunnar

Árið er 1400 í Niðurlöndum eins og Holland, Belgía og Lúxemborg voru kölluð. Íbúarnir voru kallaðir Flæmingjar eftir landsvæðinu Flandri sem núna tilheyrir Belgíu. Í Niðurlöndum voru listamenn á þessum tíma að myndskreyta handrit af mikilli nákvæmni og smekkvísi. Fagurt dæmi um það er eitt dýrmætasta handrit heimsins: Ríkustu tíðir hertogans af Berry, sem flæmsku bræðurnir Herman, Paul og Johan frá Limburg myndskreyttu. Handritið er 416 blaðsíður með 131 málaðri síðu og 300 skreyttum upphafsstöfum. Það er í svokölluðum gotneskum alþjóðastíl og var málað á árunum 1410 til 1416. Handritið er dagatal sem birtir texta og myndir fyrir bænastundir hvers einasta dags á árinu. 


Hluti af handritinu Ríkustu tíðir hertogans af Berry.

Til þess að auka raunsæi í málverkum fóru hollenskir listamenn að nota olíuliti í stað egg-temperalita. Þannig litir þekktust en voru ekki vinsælir þar sem þeir voru svo lengi að þorna. Hinn langi þurrktími varð seinna að spennandi eiginleika því þannig fékk listamaðurinn tækifæri til að dýpka blæbrigði og mála smáatriði með mun meiri nákvæmni en áður.

Brúðkaup Arnolfinis

Glæsilegt dæmi um málaralist af þessu tagi er málverkið Brúðkaup Arnolfinis eftir flæmska listamanninn Jan van Eyck (1395–1441) sem var þekktasti málari Norður-Evrópu. Málverkið sameinar allt það besta í flæmskri málaralist, frumlega myndhugsun, nákvæma útfærslu, nýjan skilning á innanhússbirtu og mikið vald á túlkun smáatriða.

Arnolfini var ítalskur kaupmaður sem settist að í Brugge í Hollandi árið 1419. Takið eftir ljósakrónunni fyrir ofan hjónin. Við höfuð brúðgumans er logandi kerti en við höfuð brúðarinnar er kertið útbrunnið. Merking þess er talin vera sú að þegar myndin var máluð hafði konan verið látin af barnsförum en hún var ólétt eins og greinilega má sjá. Myndin var þá saknaðarverk um hana. Áritun málarans á vegginn bakvið hjónin, „Jan van Eyck var hér“ og spegillinn sem sýnir baksvip hjónanna og málarann hafa alla tíð valdið sérfræðingum miklum heilabrotum.


Brúðkaup Arnolfinis eftir flæmska listamanninn Jan van Eyck.
Arnolfine
Baksvipur hjónanna og málarann sést í speglinum.

Flórens á Ítalíu á 15. öld

Eftir því sem við færumst nær samtíma okkar fjölgar listamönnunum sem hafa áhrif á framvinduna. Flórensbúar höfðu forskot á aðra Evrópubúa lengst af á 15. öld og voru þar í fararbroddi nokkrir listamenn. Það voru Brunelleschi, Donatello (1386–1466) og málarinn Masaccio (1401–1428).

Donatello var fær með hamarinn og meitilinn og var harður marmarinn eins og mjúkt smjör í höndum hans. Stytta hans af Davíð með höfuð Golíats við fætur sér var fyrsta nakta styttan sem gerð var síðan á tímum Rómverja. Auk þess var styttan frístandandi og án allrar tengingar við byggingarlist en það var alger nýjung. Masaccio var yngstur brautryðjendanna. Hann lést langt fyrir aldur fram og sumir halda að hann hafi verið myrtur af öfundarmönnum sínum með eitri. Hans síðasta verk var sex og hálfs metra há freska af Heilagri þrenningu. Verkið er í Nýju Maríukirkjunni í Flórens. Þar má sjá Krist á krossinum, Föðurinn, Maríu Guðsmóður og Jóhannes skírara. Hjónin sem gáfu verkið krjúpa fremst á myndinni en algengt var að efnað fólk gæfi listaverk til kirkju sinnar. Auk þess er beinagrind neðst, eins og hún sé í grafhýsi undir gólfinu. Ofan við beinagrindina er ritað: „Ég var eitt sinn það sem þér eruð og það sem ég er munið þér einnig verða.“


Davíð eftir Donatello.

Heilög þrenning

Málverk Masaccios af heilagri þrenningu var fyrsta sjónblekkingarverk endurreisnar. Áhorfendum finnst þeir sjá inn í raunverulega bogahvelfingu því Masaccio notaði fjarvíddartæknina sem Brunelleschi hafði uppgötvað.


Heilög þrenning eftir Masaccio.

Háendurreisn

U.þ.b. 1400–1550

Fortíðin rannsökuð vandlega

Ekki voru allir listamenn á endurreisnartímanum sáttir við þróun listarinnar. Þeirra frægastur var Sandro Botticelli (1444–1510). Hann var hrifnari af hinum gotneska stíl. Verk hans fjalla ekki um kristna trú heldur heiðni, þar sem gyðjur og skógarvættir dansa um myndflötinn. Það þurfti mikið hugrekki til að mála myndir í andstöðu við hugmyndir kirkjunnar. Botticelli hafði kynnst skáldum og heimspekingum endurreisnarinnar sem hvöttu hann til að endurvekja hina fornu goðafræði. Málverk Botticellis eru mjög nákvæm þótt listamaðurinn reyni ekki að sýna dýpt eða fjarvídd. Umhverfið er skáldsagnakennt. Í málverkinu Vorið má telja 500 mismunandi jurtir og þar af eru 190 blóm. Grasafræðingar hafa nafngreint 130 þeirra. Hávaxnar gyðjurnar svífa um, sveipaðar gegnsæju híalíni sem myndar bylgjuhreyfingar í takti við sítt hár stúlknanna. Samnemandi Botticellis, Leonardo da Vinci, var ekki hrifinn af hugmyndum hans. Þó viðurkenndi Leonardo að málverk Botticellis væru afar fögur. Botticelli gleymdist í 400 ár og var enduruppgötvaður í lok nítjándu aldar.


Vorið eftir Sandro Botticelli.

Egg-tempera

Botticelli notaði egg-temperaliti til að mála með en slíkir litir höfðu verið notaðir í margar aldir. Til að búa þá til þarf eggjarauðu, vatn og litarefni. Litirnir þornuðu mjög hratt og það hafði áhrif á tæknina sem málarinn notaði. Komið hefur í ljós að þessir litir hafa varðveist betur en nokkur önnur málning sem notuð var á þessum tíma. Litirnir eru gjarnan mjög bjartir og skærir og dökkna ekki með tímanum. Olíulitir leystu egg-tempera litina af hólmi á endurreisnartímanum en þó voru nokkrir listamenn sem héldu áfram að nota þá gömlu aðferð.

Hinn fjölhæfi maður

Þegar nær dró lokum 15. aldar fór sú hugmynd að verða algengari að listamenn væru annað og meira en handverksmenn. Listamenn væru hugsuðir rétt eins og skáld og heimspekingar. Einn þeirra sem hélt þessu fram var Leonardo da Vinci (1452–1519). Hann var mörgum gáfum gæddur og forvitinn um allt milli himins og jarðar. Hann var svo frábær listmálari að meistari hans, Verrocchio, lét hann stjórna málaraverkstæðinu svo hann sjálfur gæti einbeitt sér að höggmyndalist. Auk þess að mála og teikna sinnti Leonardo rannsóknum á sviði náttúrufræði, líffræði, eðlisfræði og verkfræði. Hann var grænmetisæta og hafði svo mikla ást á fuglum að stundum keypti hann lifandi fugla í búrum á markaðinum til þess að sleppa þeim frjálsum á nýjan leik. Þessi áhugi hans á fuglum og flugi birtist í rannsóknum hans á eðlisfræði og gerði hann teikningar af allskyns svifflugum og flugvélum. Síðari tíma tilraunir hafa sýnt fram á að sumt af því sem Leonardo teiknaði hefði getað flogið ef það hefði verið smíðað. 


Teikning eftir Leonardo da Vinci.

Leonardo var örvhentur og skrifaði spegilskrift og segja sumir að það hafi hann gert til þess að gera öðrum erfitt fyrir að lesa það sem hann setti niður á blað. 

Leonardo málaði aðeins fimmtán málverk en vinnubækur hans prýða 13 þúsund síður af teikningum, textum og athugasemdum. Frægustu málverk Leonardos eru Síðasta kvöldmáltíðin frá 1495–1498 og Mona Lisa frá 1503–1505 sem er líklega frægasta málverk í heimi. 

Myndin Síðasta kvöldmáltíðin, er máluð á steinvegg í matsal Santa Maria delle Grazie-klaustursins í Mílanó á Ítalíu. Hún sýnir andartakið þegar Jesú segir við lærisveina sína: „Einn af ykkur mun svíkja mig“. Yfirleitt voru veggmálverk máluð með freskutækni. Þá er ekki hægt að breyta neinu eftir á en Leonardo notaði egg-tempera til þess að hafa frelsi til að breyta og lagfæra eftir því sem verkinu miðaði áfram. Afleiðingarnar urðu skelfilegar því málverkið fór strax að skemmast vegna þess að veggurinn sem það er málað á var oft rakur. Myndin er kveikja margra samsæriskenninga og var hún notuð sem hugmynd í frægri bók Dans Brown, „Da Vinci lykillinn“. 


Síðasta kvöldmáltíðin eftir Leonardo da Vinci.

Dularfullt bros Monu Lisu og augnsvipur hafa verið mönnum ráðgáta um aldir. Konan sem sat fyrir á myndinni hét Lisa del Giocondo. Hún var eiginkona efnaðs kaupsýslumanns í Flórens. Það sem gerir bros Monu Lisu dularfullt og augu hennar leyndardómsfull er málaratækni sem Leonardo þróaði og kallast Sfumato eða „reyking“. Tæknin byggist á því að andstæður ljóss og skugga eru í lágmarki og engar skýrar útlínur sýnilegar. Þetta gerir myndina dularfulla og gefur ímyndunarafli áhorfandans lausan tauminn. Þess vegna finnst sumum, sem horfa á myndina í smástund, Mona Lisa horfa á móti og brosa til þeirra. Leonardo tók myndina með sér hvert sem hann fór og þess vegna er hún núna í Frakklandi því þangað flúði hann á gamals aldri þegar höfðingjarnir á Ítalíu voru orðnir honum andsnúnir.


Mona Lisa eftir Leonardo da Vinci.

Háendurreisn í Feneyjum

Sumum þótti Leonardo seinvirkur í lifanda lífi. Kannski vildu menn einfaldlega fá að sjá meira eftir hann. En engu að síður vakti málaratækni hans svo mikla athygli að listamenn um alla Evrópu reyndu að ná tökum á aðferðum hans. Sérhver borg á Ítalíu átti þó sína meistara og sinn stíl. Ólíkt listamönnum í Flórens notuðu málararnir í Feneyjum gjarnan landslag í bakgrunni og sem sviðsmynd fyrir persónurnar á málverkunum. Litanotkun feneyskra listamanna var líka mildari en málaranna frá Flórens svo og birtan í verkunum. Listamenn í Feneyjum notuðu striga til að mála á í stað tréplatna. Auk þess seldu þeir verk sín á opnum markaði frekar en að vinna eftir pöntunum. 

Frægasti listamaður Feneyja á 15. öld var Giovanni Bellini (1430–1516). Hann var líka frábær kennari því tveir af nemendum hans komust í hóp merkilegustu listamanna sögunnar. Það voru Giorgione (1477–1510) og Tizian (1490–1576). Þeir höfðu mikla tilfinningu fyrir litum, áferð og andrúmslofti og höfðu áhrif á mikilvægi málaralistarinnar næstu aldirnar. 

Bellini byrjaði að mála Veislu guðanna þegar hann var orðinn háaldraður. Hann var undir áhrifum frá Giorgione sem var nemandi hans en þeir dóu báðir áður en verkinu lauk. Tizian tók að sér að ljúka myndinni og bætti við hinu stórbrotna klettalandslagi og skýjafari bakvið bændurna sem halda uppskeruhátíð ásamt heiðnum vættum. Sjá má viss áhrif frá Vorinu eftir Botticelli þótt fólk Bellinis sé ekki eins draumkennt og goðsagnaverur hans.


Veisla guðanna eftir Bellini.

Háendurreisn í Róm

Á endurreisnartímanum var Ítalía ekki sameinað ríki heldur mörg smærri sjálfstæð ríki. Vald Rómarborgar óx jafnt og þétt í skjóli Vatíkansins enda voru páfarnir jafnframt veraldlegir leiðtogar líkt og konungar og keisarar. Þeir voru stórtækir listkaupendur og menningarfrömuðir og fengu til sín færustu listamenn hvaðanæva af Ítalíuskaga. Enginn gat neitað kalli páfa og skömmu eftir aldamótin 1500 gengu tveir frægir listamenn í þjónustu páfans. Það voru Rafael Sanzio (1483–1520) og Michelangelo Buonarroti (1475–1564). 

Rafael var listmálari en páfinn setti hann einnig yfir húsagerð Vatíkansins. Rafael sá meðal annars um smíði Péturskirkjunnar í Róm. Hann málaði einnig risavaxnar freskur í fjórum einkaherbergjum páfans. Freskurnar voru allt að sex metrar á hæð og átta metrar á breidd. Þeirra þekktust er Skólinn í Aþenu. Sumir halda því fram að myndin sé eitt fullkomnasta listaverk háendurreisnarinnar. Bakgrunnur myndarinnar er risahvelfingar Péturskirkjunnar í fullkominni fjarvídd með hópum af heimspekingum og stærðfræðingum fornaldar á stéttinni framan við hvelfingarnar. Fyrir miðju má sjá Platón og Aristóteles. Þetta verk Rafaels varð helsta fyrirmynd allrar klassískrar myndlistar fram undir miðja 19. öldina.


Skólinn í Aþenu eftir Rafael.

Ný viðmið Sveitabrúðkaup

Ný viðmið

16. öldin, u.þ.b. 1500–1600

Tilfinningar, lífið og tilveran

Um það leyti sem Leonardo (1519) og Rafael (1520) létust má segja að háendurreisnin hafi náð hápunkti sínum. Jafnvel þó Michelangelo (1475–1564) teljist háendurreisnarmaður voru hugmyndir hans ólíkar hugmyndum annarra endurreisnarmanna. Michelangelo sóttist ekki eftir jafnvægi né réttum hlutföllum í listinni heldur tjáningu tilfinninga og hugmynda um lífið og tilveruna.

Michelangelo tók að sér að gera marmarastyttu af Davíð fyrir Dómkirkjuna í Flórens. Styttan er meira en fimm metrar á hæð og var höggvin út úr marmarablokk sem margir héldu að væri of mjó fyrir verkið. En Michelangelo tókst svo vel til að höggva styttuna út að margir telja hana glæsilegustu höggmynd allra tíma. Michelangelo fór frjálslega með hlutföllin, höfuð og hendur eru óvenju stór miðað við grannvaxinn líkamann.


Davíð eftir Michelangelo.

Michelangelo var fyrst og fremst myndhöggvari. Meðan hann var í þjónustu páfans vildi páfinn þó að hann málaði loftið á Sixtínsku kapellunni en hún er aðalkapella Páfagarðs (Vatíkansins). Hvelfingin yfir kapellunni er engin smásmíði. Hún er 40 metrar á lengd og 14 metrar á breidd, samtals 560 fermetrar, hér um bil eins og handboltavöllur. Að auki er hún í 20 metra hæð frá gólfinu. Michelangelo vildi alls ekki taka verkið að sér því hann var fyrst og fremst myndhöggvari. Honum fannst svona stórt verkefni trufla einbeitingu sína við höggmyndalistina. En páfinn gaf sig ekki og Michelangelo byrjaði að mála hvolfþakið árið 1508 og lauk því 1512. Þar má sjá myndir úr sköpunarsögunni og eru 300 mannverur sýnilegar í verkinu.

Síðar málaði Michelangelo gafl kapellunnar með Dómsdagsfreskunni (1534–1541). Þar má sjá Krist dæma lifendur og dauða. Freskan var fyrirboði um átök innan kirkjunnar milli mótmælenda og kaþólikka en hún sýndi einnig sálarangist höfundarins.


Drottinn gefur Adam líf eftir Michelangelo. Þetta er ein frægasta mynd í heimi. Þar má sjá Drottin gefa Adam líf með snertingu fingurs. Táknrænt fyrir samband manneskjunnar við Guð sem gefur henni líf.

Michelangelo var margt til lista lagt. Hann endurhannaði Kapítóltorgið í Róm og hallirnar umhverfis. Auk þess lauk hann við hönnun hvolfþaks Péturskirkjunnar í Róm. Hann var margbrotin og hrjáð sál sem leitaði svölunar í listsköpun. Enginn listamaður náði jafn miklum árangri og hann á jafn ólíkum sviðum í höggmynda-, málara- og húsagerðarlist auk þess að vera mikið ljóðskáld.


Hvolfþak Péturskirkjunnar í Róm.

Konur hasla sér völl 

Konur sem vildu verða listamenn stóðu frammi fyrir miklum erfiðleikum varðandi listnám. Þær fengu ekki inngöngu í opinbera listaháskóla fyrr en um 1880. Fyrir þann tíma gátu aðeins konur af yfirstétt eða dætur listamanna stundað listnám og þá í einkaskólum.

Sofonisba Anguissola (1532–1625) var ein sex systra sem allar voru listamenn. Þær fæddust í Cremona á Norður-Ítalíu. Sofonisba ruddi braut kvenna þar sem hún var fyrsta konan til að öðlast myndlistarmenntun þrátt fyrir að vera hvorki af yfirstétt né dóttir listamanns. Hún var jafnframt fyrsta listakona sögunnar til að öðlast alþjóðafrægð. Filippus II Spánarkonungur kallaði hana í þjónustu sína sem hirðmálara. Sofonisba var meðal fyrstu listmálara sögunnar til að túlka innileik hversdagslífsins og gera þannig nánasta umhverfi sitt að meginviðfangsefni sínu. Þessi raunsæja afstaða hennar vakti aðdáun og forvitni ýmissa listamanna. 

Á þessum tíma þótti óviðeigandi að konur lærðu anatómíu (líffærafræði) með því að teikna naktar fyrirsætur. Fyrir vikið þróaði Sofonisba sérstaka tækni í andlitsmyndum. Helsta tekjulind hennar voru mannamyndir af hefðarfólki en bestu verkin eru án efa málverk hennar af eigin fjölskyldu og sjálfri sér. Sjálfsmynd hennar frá 1556 gefur áhugaverða túlkunarmöguleika. Hún sjálf horfir til áhorfandans og snýr frá málverki sem sýnir Maríu Guðsmóður og Jesúbarnið. Málverk af málverki gefur til kynna fjarlægð og hugsanlega er Sofonisba að leggja áherslu á hvernig félagsleg staða hennar sem konu meinar henni að takast á við trúarleg viðfangsefni.


Sjálfsmynd eftir Sofonisbu Anguissola.

Lavinia Fontana (1552–1614) var dóttir vel metins listmálara í Bologna á Ítalíu. Sem nemandi föður síns hlaut hún alhliða menntun í faginu svo sem í módelteikningu eftir nakinni fyrirsætu en slíkt var konum bannað allt fram til loka 19. aldar. Lavinia varð því fyrst kvenna til að mála bæði kynin klæðalaus í goðsögulegum málverkum sínum. Hún varð doktor við Háskólann í Bologna og er af mörgum talin fyrsti kvenkyns atvinnulistamaðurinn. Hún var afkastamikill listmálari og skynjaði mikilvægi þess að styrkja ímynd kvenna í listum. Það kemur m.a. fram í bréfum hennar þar sem hún fer fögrum orðum um málverk starfssystur sinnar, Sofonisbu Anguissola.

Lavinia Fontana hafði áhuga á sérkennum tilverunnar. Hún hreifst af öllu sem var óvenjulegt. Ein af eftirlætis fyrirsætum hennar var Antonietta González. Hún var frá Kanaríeyjum og var kafloðin í framan. Faðir Antoniettu var fyrsta þekkta tilfellið í heiminum sem þjáðist af varúlfaveiki (hypertrichosis).


Antonietta González eftir Laviniu Fontana.

Endurreisn norðan Alpafjalla

Upphaf endurreisnarinnar var í Flórens á Ítalíu en hún breiddist út um Evrópu. Norðar í Evrópu var annar blær á myndlistinni vegna ólíkrar menningar ólíkra þjóða. Hieronymus Bosch (1450–1516) var hollenskur listmálari sem var uppi á mörkum miðalda og nýaldar. Talið er að Bosch hafi tilheyrt kristnum söfnuði sem aðhylltist hugmyndir Erasmusar frá Rotterdam (1466–1536). Hann var guðfræðingur og húmanisti sem hélt því fram að endurreisa þyrfti kirkjuna innan frá og útrýma spillingu og siðleysi. Hugmyndir hans áttu sinn þátt í siðaskiptunum sem Marteinn Lúther var upphafsmaður að. Bosch hafði fjörugt ímyndunarafl og sýndi spillinguna í heiminum og syndir mannanna sem hrikaleg skrímsli að kúga viljalausan allsnakinn almenning. Í málverkunum getur að líta risavaxna ávexti, mennsk skorkvikindi, fljúgandi fiska, ummyndaðar ófreskjur og ógnvænleg hljóðfæri. Hann málaði í smæstu smáatriðum með fjarvídd og glæsilegum formfléttum þannig að allt rennur saman í eina stóra heild, hvert sem augað eygir. Lítið er vitað um þróun Bosch sem listamanns því hann dagsetti ekki verk sín en hann málaði aðeins 25 myndir en hann hafði sannarlega fjörlegt hugmyndaflug.

Mynd Bosch, Garður jarðneskra lystisemda, er risastór þrískipt altaristafla, 220 sentímetrar á hæð og 398 á breidd, máluð með olíulitum á tréplötur. Í miðju verkinu má sjá hinar jarðnesku lystisemdir sem eina allsherjar veislu. Á vinstri vængnum er Drottinn að tala við Adam og Evu en á hægri vængnum má sjá vítisdvöl hinna fordæmdu. Talið er að myndin sé viðvörun til fólks um að forðast lystisemdirnar því annars bíði manna dvöl í Víti. Hægt er að loka altaristöflunni með því að leggja hliðarvængina að miðjunni og sést þá grátóna málverk af sköpun heimsins. Undirstaða þessara fínlegu vinnubragða var mikil teiknikunnátta Bosch. Hann var ekki einn um slíka kunnáttu því þýski listmálarinn Albrecht Dürer (1471–1528) var einnig frábær teiknari. Hann þekkti Bellini frá Feneyjum og skiptist á teikningum við Rafael árið 1515. Dürer var sennilega fyrsti listamaðurinn frá Norður-Evrópu sem varð þekktur á Ítalíu og hafði áhrif á ítalska málaralist. Talið er að landslagið í málverkum Giorgiones sé undir áhrifum frá Dürer. Bestu dæmin um teiknihæfileika Dürers eru vatnslitamynd hans af ungum héra (1502) og blýantsteikningin af móður hans (1514).


Garður jarðneskra lystisemda eftir Bosch.


Hérinn eftir Albrecht Dürer.
Dürer var svo nákvæmur í vinnubrögðum að hann málaði hvert einasta hár á feldi hérans. Þó hérinn virðist hreyfingarlaus býr svo mikil spenna í vöðvum dýrsins að hann getur stokkið af stað á hverri stundu.


Móðir listamannsins eftir Albrecht Dürer. Dürer gerði enga tilraun til að fegra móður sína. Myndin er teiknuð hratt og af miklu öryggi.

Annar áhrifamikill þýskur teiknari, Hans Holbein yngri (1497–1543) fór til Englands vegna vaxandi trúarátaka heimafyrir. Þar var mikill áhugi á mannamyndum og Hans Holbein var snjall á því sviði. 

Ambassadorarnir frá 1533 sýnir tvo herramenn standa við borð hlaðið alls konar siglingatækjum, hnöttum og hljóðfærum. Annar maðurinn er sendiherra Frakkakonungs og hinn er biskup; sendiherra Drottins. Hlutirnir á borðinu eru táknmyndir fyrir trú, vísindi og listir. Mennirnir eru sendiherrar hins veraldlega valds annars vegar og guðlega hins vegar. Neðst á málverkinu má sjá undarlegt form koma skáhallt inn í myndflötinn. Skoðað frá hlið að ofan má sjá að þetta er hauskúpa sem er máluð í sérstakri fjarvídd. Hans Holbein yngri hefur laumað þeim skilaboðum inn í myndina að þrátt fyrir allan glæsileik mannlegs samfélags þá eigi dauðinn síðasta orðið. Hauskúpan gæti þó líka verið undirskrift hans: Holt bein? Bein sem er holt að innan.


Ambassadorarnir eftir Hans Holbein yngri.


Erasmus frá Rotterdam eftir Hans Holbein yngri.

Hollenski málarinn Pieter Bruegel eldri (1525–1569) var þekktasti teiknari og málari Hollendinga á seinni hluta 16. aldar. Hann hafði mikinn áhuga á menningu alþýðunnar og málaði margar myndir sem sýna líf og störf bændafólks og leiki barna. Þetta hafði enginn gert áður og eru málverk Bruegel einstök heimild um líf venjulegs fólks á þessum tíma. Hann málaði einnig táknræn verk í anda Bosch sem sýna hinar dökku hliðar mannlífsins.

Bruegel málaði myndina Sveitabrúðkaup einu ári fyrir andlát sitt. Hún sýnir sveitabrúðkaup í heyhlöðu. Brúðurin situr með sælusvip framan við grænt áklæði. Barnið neðst á myndinni sem sleikir baunadiskinn sinn er í allt of stórum fötum og fyrir vikið er myndin kímin og full af ástúð og hlýju sem Bruegel hefur borið til sveitunga sinna.


Sveitabrúðkaup eftir Pieter Bruegel.

Barokk

U.þ.b. 1600–1750

Óregluleg perla

Í myndlistarsögunni er sautjánda öldin gjarnan kennd við barokk. Á ítölsku og portúgölsku þýðir barokk „óregluleg perla“. Helstu einkenni barokktímans í myndlist eru þau að í málaralist urðu birtuskil skarpari en áður. Sjónarhornið færðist neðar, líkt og horft væri upp til fólksins á myndinni. Alþýðufólk og öldungar voru oftar fyrirsætur. Auk þess varð hreyfing og frásögn mikilvægari í málverkunum. Höggmyndalistin tengdist að nýju húsagerðarlist og borgarskipulagi eins og hún hafði gert fyrir endurreisnartímann. Fellingar í klæðum sýndu meiri hreyfingu og ólík efni voru notuð saman til að auka tilfinningu fyrir raunveruleika. Ennfremur urðu áberandi tilfinningarík svipbrigði, reiði, sorg og gleði. Í húsagerðarlist var farið að nota skraut og prjál. Form urðu sporöskjulaga fremur en hringlaga og áherslur í hlutföllum urðu samhverfar fremur en dreifðar. Listgreinarnar þrjár; málaralist, húsagerðarlist og höggmyndalist urðu aftur samhangandi eins og verið hafði á miðöldum. 

Caravaggio

Þekktasti málari Ítala á barokktímanum var Caravaggio (1571–1610). Hann var skapbráður og kraftmikill og málaði beint á strigann án þess að teikna fyrst á hann. Hann varð valdur að dauða manns árið 1606 vegna veðmáls og furða margir sig á því hvernig ofstopamaður eins og Caravaggio gat málað jafn fagrar myndir. 

Caravaggio var umdeildur í lifanda lífi og vöktu verk hans oft hörð viðbrögð. Árið 1602 málaði hann mynd af Tómasi, lærisveininum vantrúaða sem varð að snerta síðusár Krists til að trúa. Myndin er raunsæ og sýnir lærisveininn sem utangarðsmann en það vakti mikla hneykslun að nota utangarðsmenn sem fyrirsætur. Caravaggio var frægur sem málari á 17. öldinni en gleymdist þar til 20. öldin tók hann í sátt. 


Tómas lærisveinninn vantrúaða eftir Caravaggio.


Afneitun Péturs postula eftir Caravaggio.

Artemisia

Artemisia Gentileschi (1593–1652) var einn áhrifamesti málari sinnar kynslóðar. Artemisia var heillandi persóna og öðlaðist frægð langt út fyrir Ítalíu. Hún lifði sjálfstæðu og athafnasömu lífi sem konum á þeim tíma bauðst almennt ekki. Tjáningarmáti Artemisiu var kröftugur og dramatískur. Hún var mjög fær í að sýna áhrif ljóss og skugga í myndum sínum en slík dramatísk myndbirting náði hámarki með Rembrandt. Artemisia málaði mörg málverk af blóðugu myndefni úr Gamla testamentinu sem líklega á rætur sínar í erfiðri lífsreynslu sem hún varð fyrir á yngri árum. Konur voru oft viðfangsefni hennar.


Júdith drepur Hólófernes eftir Artemisiu. Málverkið vekur upp hugrenningatengsl við fréttaljósmyndir samtímans og þá skefjalausu grimmd sem blasir við áhorfandanum.

Rembrandt

Hollenski listamaðurinn Rembrandt Harmenszoon frá Rín (1606–1669) dýpkaði hugmyndir Caravaggios. Hann notaði skuggaspil hans og leikræn tilþrif og sótti sér fyrirsætur í hverfi gyðinga í Amsterdam, þegar hann málaði persónur úr Gamla testamentinu.

Hæfileikar Rembrandts fólust í því frelsi sem hann tók sér sem persónulegur listamaður. Hann teiknaði, málaði og vann grafíkverk. Í stað þess að fullvinna hvert atriði lét hann nægja að gefa hlutina í skyn. Þetta gaf áhorfendum meira svigrúm til þess að túlka sjálfir það sem fyrir augu bar. Þess vegna eru sjálfsmyndir hans einar þær tilfinningaríkustu í allri listasögunni hvað varðar túlkun og persónulýsingar. Rembrandt málaði ótal sjálfsmyndir, fleiri en nokkur annar listamaður hefur gert. Þær eru til vitnis um skilning hans á sálarlífi mannanna, þar sem þær endurspegla tilfinningar hans. 


Sjálfsmynd eftir Rembrandt. Sjálfsmyndir hans eru einstakar í sinni röð og vekja upp spurningar um það hvort listræn iðkun hans hafi verið öðrum þræði leit að sjálfsþekkingu og sjálfsrannsókn.

Málverkið Samsæri Batava (1661) er tveir og hálfur metri á hæð og þrír metrar á breidd. Niðurlendingar kölluðust Batavar. Myndin sýnir uppreisnarmennina, sem sigruðu hersveitir Rómverja árið 69, leggja á ráðin um samsærið og er sáttmáli þeirra aðalatriði myndarinnar. Rembrandt málaði myndina fyrir Ráðhúsið í Amsterdam en ráðamönnum fannst hann mála of frjálslega og höfnuðu verkinu. Hið listræna frelsi sem Rembrandt tók sér varð stundum til þess að fólk hætti við að kaupa af honum myndir sem það hafði pantað og hann einangraðist með tímanum.


Samsæri Batava eftir Rembrandt. Tækni hans er afar sérstök því úr fjarlægð virðast málverk hans beinlínis vera lifandi en við nánari skoðun er málningunni smurt á strigann í þykkum klessum; hann gaf hlutina í skyn. Þessi aðferð skapar óvenjulega tilfinningu fyrir þrívídd, efniskennda áferð og gefur áhorfandanum mikið svigrúm til að fylla sjálfur í eyðurnar. 

Bernini

Barokkið var stíll sem átti auðvelt með að miðla miklum tilfinningum, glæsileika og spennu með lifandi myndbyggingu, hreyfingu og smáatriðum. Kaþólska kirkjan og páfagarður ýttu undir útbreiðslu barokksins og brugðust þannig við vaxandi fylgi mótmælendatrúar. Stíllinn varð til í Róm og helsti upphafsmaður hans var myndhöggvarinn, arkitektinn og listmálararinn, Gian Lorenzo Bernini (1598–1680).

Bernini sá um byggingu Péturstorgsins í Róm. Þar gefur að líta tröllaukinn súlnafaðm á sporöskjulöguðu torgi. Á miðju torginu má sjá obelísku (uppmjóa steinsúlu) í anda Forn-Egypta og tvo gosbrunna. Konungar og einvaldar líktu eftir Péturstorginu þegar þeir skipulögðu hallir sínar og skrúðgarða, þar sem torgið var álitið nafli alheims og vildu þeir endurspegla það. Dæmi um þetta er Versalahöllin í nágrenni Parísar en hún sýnir vel hvernig konungurinn, Lúðvík 14. (1638–1715), líkti eftir sólkerfinu og alheiminum með sjálfan sig í miðjunni. Enda var hann kallaður Sólkonungurinn.


Péturstorgið í Róm sem Bernini hannaði.


Versalahöllin í Frakklandi.

Leiðarstjarnan

Hollenska listakonan Judith Leyster (1609–1660) var svokallaður tegundamálari en það er listamaður sem sérhæfir sig í ákveðnu viðfangsefni, t.d. blómamyndum, mannamyndum eða náttúrumyndum. Leyster sérhæfði sig í mannamyndum, kyrralífsmyndum og skemmtimyndum með hljóðfæraleikurum. Hún var samtímakona listamannsins Frans Hals (1582–1666) og átti honum margt að þakka hvað tæknikunnáttu varðar. 

Leyster var frábær málari og verk hennar full af lífskrafti. Margir hafa ruglað verkum hennar saman við verk eftir Frans Hals. Það var algengt að listaverk kvenna og listnema væru eignuð kennurum þeirra. Á sumum söfnum hanga enn þá myndir uppi undir nöfnum kennaranna þrátt fyrir að búið sé að leiðrétta hver málaði þær. Judith merkti verkin sín ávallt með stjörnu því Leyster þýðir „leiðarstjarna“ á flæmsku. 


Sjálfsmynd eftir Judith Leyster.

Málarar málaranna

17. öldin markaði tímamót með borgarskipulagi, höllum og lystigörðum. Einnig fór skilningur á vísindum, heimspeki og samfélagslegri vitund vaxandi. Þá grófu kaþólikkar og mótmælendur stríðsöxina árið 1648 eftir 30 ára stríðið. 

Þótt ósætti ríkti milli Hollands og Spánar var ekki mikill munur á Rembrandt og fremsta listmálara Spánverja á 17. öld, Diego Velázques (1599–1660). Staða Velázques og Rembrandt var reyndar ólík, því Rembrandt var sjálfstæður listamaður en Velázques í öruggri stöðu sem hirðmálari Filippusar IV Spánarkonungs. Þekktasta málverk hans, Hirðmeyjarnar frá 1656 sýnir óvænta komu konungshjónanna inn í vinnustofu listamannsins þar sem listmálarinn er að mála málverk af prinsessunni. 

Verkið er jafn óvenjulegt og málverk Jan van Eyck af Brúðkaupi Arnolfinis því að í báðum þessum verkum sést listamaðurinn sjálfur. Í málverki Jan van Eyck sést hann í speglinum í miðjunni en í málverki Velázques sést hann sjálfur líta snöggvast upp bakvið málverkið á trönunum. Sjálf konungshjónin sjást í spegli vinstra megin við miðju myndarinnar. Sjónarhorn áhorfandans er því það sama og konungshjónanna. Margar spurningar vakna þegar verkið er skoðað. Hvern var Velázques að mála? Var hann að mála sjálfan sig? Var hann að mála prinsessuna? Eða var hann ef til vill að mála sjálf konungshjónin? Heiti verksins, Hirðmeyjarnar, gefur til kynna að hann hafi verið að mála þær en ekki er allt sem sýnist. Það er þessi dæmalausa flétta sem gerir málverk Velázques að uppsprettu endalausrar umræðu. 

Hirðmeyjarnar eftir Diego Velázques.

17. öldin gaf af sér fleiri listamenn. Hollenski listmálarinn Johannes Vermeer (1632–1675) málaði Matseljuna, eitt sitt þekktasta verk tveimur árum eftir að Velázques málaði Hirðmeyjarnar

Líf og störf Vermeer eru listfræðingum mikil ráðgáta. Hann átti sæg af börnum og var fátækur allt sitt líf. Aðeins eru til 34 málverk eftir hann svo vitað sé. Málverkin eru agnarsmá í samanburði við risastór málverk Rembrandts og Velázques en titra af lífi og fegurð. Í verkum sínum sýnir Vermeer einfalt líf venjulegra borgarbúa öfugt við konunglegt líf Velázques og stjórnmálamenn Rembrandts. Hið hversdagslega, eins og að hella mjólk í skál, er skyndilega orðið að mikilvægu andartaki í listasögunni. Fyrirsætur Vermeer líta við með álíka undrunarsvip og við gerum sjálf þegar einhver nefnir nafn okkar og smellir af um leið með myndavélum nútímans. 


Matseljan eftir Johannes Vermeer.


Stúlka með perlueyrnalokka eftir Johannes Vermeer.

Rókókó og nýklassík

U.þ.b. 1750–1850

Byltingar, vísindi og tækni

Átjánda öldin var tími mikilla framfara í vísindum og tækni. Öld upplýsingar og byltinga í stjórnarfari. Franska byltingin hófst árið 1789 og breytti miklu í evrópskum samfélögum. Tónlistin varð fremst allra listgreina. Starfsævi tónskáldsins mikla Jóhanns Sebastíans Bach (1685–1750) var einmitt á fyrri hluta átjándu aldar. Í myndlistinni var þó ekki eins mikið að gerast. Átjándu öldinni hefur verið skipt í tvennt; rókókóstílinn sem er hástig skreytilistar sem kennd er við barokkstílinn og nýklassíska stílinn sem hafnaði alfarið skrauti og prjáli rókókótímans en vildu hverfa aftur til grísk-rómverskarar hófsemdar. 

Rosalba Carriera, málari kónga og keisara

Rosalba Carriera (1675–1757) var feneyskur mannamyndamálari sem náði þeim árangri að verða meðal eftirsóttustu listamanna sinnar kynslóðar. Hún varð eftirlæti kónga og keisara og sat Friðrik IV. konungur Dana og Íslendinga fyrir hjá henni. Rosalba hafði mikil áhrif á listamenn rókókótímans, sérstaklega með því að kynna fyrir þeim pasteltæknina, miðil sem liggur mitt á milli teikningar og málaralistar. Með þeirri tækni gátu listamenn leyft sér meira frjálsræði og bjartari litanotkun.


Danski konungurinn Frederik IV eftir Rosölbu Carriera, 1709.
Wikipedia

Auglýsing fyrir listsölu

Færri listamenn vekja athygli okkar á tíma rókókóstílsins en á sautjándu öldinni. Engu að síður skal fjallað um nokkra. Fyrstan má nefna franska listmálarann Antoine Watteau (1684–1721). Hann málaði glaðværar myndir af lautarferðum ungs fólk í París. Verk hans eru ljúfsár því líf hans sjálfs var ekki jafn þægilegt. 

Watteau dó úr berklum 37 ára gamall og ári áður en hann lést málaði hann myndina Skilti listverslunar Gersaints. Myndin sýnir þegar verið er að pakka niður myndum eftir hann sjálfan, líkt og hann hafi vitað að hverju stefndi og hafi ekki haft neina trú á að nafn sitt myndi lifa. 


Skilti listverslunar Gersaints eftir Antoine Watteau, olía á striga, 163 cm × 308 cm, 1720-1721.
Wikipedia

Annar snjall listamaður var hinn ítalski Giovanni Battista Tiepolo (1696–1770). Hann einbeitti sér að því að mála risastórar freskur af trúarlegum toga. Tiepolo er stundum kallaður síðasti veggskreytismeistarinn. Samvinna hans við arkitektinn Balthasar Neumann sýnir vel áherslu barokk- og rókókótímans á sameiningu listgreina. Saman áttu þeir stóran þátt í byggingu biskupssetursins í Würzburg nyrst í Bæjaralandi þar sem núna er Þýskaland. Löngu síðar, þegar Napóleon Boneparte Frakklandskeisari kom þangað, varð honum að orði að þetta væri huggulegasta biskupssetur í Evrópu.


Scipio Africanus Freeing Massiva eftir Giovanni Battista Tiepolo, olía á striga, 279,4 cm × 487,6 cm, 1719-1721.
Wikipedia

Afturhvarf til forns hreinleika

Upp úr miðri átjándu öld varð rókókóstíllinn fyrir æ meiri gagnrýni fyrir óhóf og skraut. Fyrsti listfræðingurinn, Jóhann Jóakim Winckelmann (1717–1768) frá Þýskalandi, vakti athygli á hinum forn-gríska stíl með ritum sínum Vangaveltur um eftirlíkingar á grískum verkum í málara og höggmyndalist, árið 1755 og Sögu fornlistar, árið 1764. Skrif hans höfðu mikil áhrif á þróun nýklassíska stílsins sem tók að birtast upp úr miðri átjándu öldinni. Landi Winckelmanns, heimspekingurinn Alexander Gottlieb Baumgarten (1714–1762) skrifaði merkilega bók sem hét Fagurfræði. Baumgarten hélt því fram að menn skildu listina aðeins með smekkvísinni og tilfinningum. Annaðhvort þætti mönnum listaverk þægileg eða óþægileg.


Málverk af Jóhanni Jóakim Winckelmann eftir Angelicu Kauffman,  olía á striga 97 cm × 71 cm, 1764.

List handa almenningi

Listin fór að þróast í ýmsar áttir á þessum tíma. Listamenn leituðu oft til eldri listamanna eftir hvatningu og innblæstri. Það gerði franski listmálarinn Jean-Siméon Chardin (1699–1779). Hann leitaði til Vermeer og samlanda hans í Hollandi að einfaldleika í málverkum í stað þess að segja eingöngu frá stórum atburðum. Hann horfði til þess smáa og einfalda. Hann málaði ótal myndir af hlutum, matvælum og veiðibráð sem stillt var upp á borði. Þarna sýnir Chardin mikilvægi hins einfalda. Hann var fyrsti listamaðurinn á þessum tíma til þess að snúa baki við skrautlegum og ofhlöðnum rókókóstílnum. Rókókóstíllinn er táknmynd fyrir lífsins lystisemdir sem aðeins konungar og yfirstétt gátu leyft sér.

Það var samt annar listamaður sem jarðsöng rókókóstílinn. Þetta var Jacques-Louis David (1748–1825). Það gerði hann árið 1784 með málverkinu Óður Hórasarbræðra. Málverkið var talið vera myndbirting á Samfélagssáttmálanum eftir svissneska heimspekinginn Jean-Jacques Rousseau (1712–1778). Rousseau var mikilvægur hugsuður upplýsingarstefnunnar og innblástur fyrir þá sem hófu frönsku byltinguna. Myndin sýnir hvernig Hórasarbræður og faðir þeirra gera með sér sáttmála um einingu manna og samfélags. Í frönsku byltingunni var konunginum steypt af stóli ásamt allri yfirstéttinni. Í kjölfarið var komið á fót nýju stjórnskipulagi í Frakklandi undir kjörorðunum „Frelsi, jafnrétti, bræðralag“. David gekk til liðs við forsprakka frönsku byltingarinnar árið 1789.

Angelica Kauffmann (1741–1807) var svissnesk-austurrískur listmálari sem hóf feril sinn tíu ára gömul þegar faðir hennar, listmálarinn Johann Joseph Kauffmann (1707–1782), uppgötvaði einstæða listgáfu hennar. Fjölskyldan flutti til Austurríkis og síðan Ítalíu þar sem Angelica sló strax í gegn sem undrabarn. Hún var ekki bara frábær myndlistarmaður heldur hafði hún einstaka söngrödd og lærði ítölsku, frönsku og ensku með undraverðum hraða. Frá unga aldri vann hún með föður sínum að myndskreytingum í kirkjum víða um Evrópu. Hún eignaðist marga aðdáendur meðal lista- og fræðimanna. Hún var einnig einn af stofnendum Konunglegu listakademíunnar í Lundúnum. Angelica kynntist skáldinu Goethe þegar hún settist að í Róm. Hann sagði síðar að hann hefði aldrei kynnst jafn atorkumiklum listamanni og Angelicu Kauffmann.


Hinn ungi Goethe eftir Angelicu Kaufmann.
Wikimedia

Við Íslendingar eigum dálítið í þekktum listamanni nýklassískrar höggmyndalistar. Það er Bertel Thorvaldsen (1770–1844). Íslenskur faðir hans, Gottskálk Þorvaldsson vann í skipasmíðastöð danska flotans. Gottskálk skar út stafnlíkneski sem prýddu stefni skipanna. Frá unga aldri aðstoðaði Bertel stundum föður sinn og varð áhugasamur um höggmyndalist. Hann var tekinn inn í Konunglegu akademíuna í Kaupmannahöfn og fékk skólastyrkt til að fara til Rómar. Þar stofnaði hann stórt verkstæði með mörgum aðstoðarmönnum og nemendum. Bertel bjó í Róm til ársins 1838 með konu sinni og börnum. Hann gerði 550 höggmyndir, þrjár afsteypur eru í Reykjavík og ein í Akureyrarkirkju. Thorvaldsens safnið í Kaupmannahöfn var opnað 1848 og í innri garði þess er listamaðurinn grafinn.


Sjálfsmynd Thorvaldsens með Vonargyðjunni eftir Bertel Thorvaldsen, 1817.
Fyrsta útilistaverkið á Íslandi. Það var sett upp á Austurvelli árið 1875 en flutt í Hljómskálagarðinn árið 1931. Sjá fleiri verk eftir Bertel Thorvaldsen á Sarpur.is

Rómantík

U.þ.b. 1780–1850

Ævintýrin gerast enn

Um aldamótin 1800 var ekki gerður mikill greinarmunur á rómantíska stílnum og nýklassík. Stundum er talað um rómantíska klassík þegar um er að ræða þrá eftir fortíðinni. Þetta sést vel í ljóði Jónasar Hallgrímssonar (1807–1845), „Ísland“ frá árinu 1835. Kvæðið er klassískt að formi til en rómantískt að innihaldi og lýsir söknuði eftir glæstum ljóma miðalda. 

Rómantíska stefnan birtist með samblandi af nýklassískum stíl og gotneskri eða rómantískri draugatrú. Gott dæmi um þetta er frægasta málverk svissnesk-enska listmálarans Henry Fuseli (1741–1825), Martröð. Konan sem liggur sofandi er í dæmigerðum nýklassískum kjól. Ófreskjan sem situr ofan á henni hefur verið túlkuð sem listamaðurinn sjálfur því hann lagði ofurást á konuna sem hét Anna Landholdt. Hún giftist öðrum manni og því má velta fyrir sér hvort Fuseli hafi upplifað sig sem möru á henni. 

Draugar, tröll og forynjur eru vinsælt yrkisefni listamanna rómantísku stefnunnar.  Þetta þekkjum við Íslendingar vel í þjóðsögum okkar. Ásgrímur Jónsson (1876–1958) sem var fyrstur Íslendinga til að gera myndlistina að aðalstarfi sótti efnivið í íslenskar þjóðsögur í verkum sínum. Leit í þjóðsögur og þjóðtrú að áhrifamiklum efniviði er eitt af höfuðeinkennum rómantísku stefnunnar.


Martröð eftir Henry Fuseli, olía á striga, 101,6 cm x 127 cm, 1871.
Wikipedia

Breyttir lifnaðarhættir

Iðnbyltingin í Bretlandi, franska stjórnarbyltingin og bandaríska sjálfstæðisbaráttan breyttu lífi fólks mikið. Til þess að túlka þessar miklu breytingar leituðu listamenn rómantísku stefnunnar að því sem einkennir manneskjuna, hinu mannlega. Á þessum tíma voru landbúnaðarsamfélög að hverfa og borgir tóku að myndast. Fólkið fór úr sveit í borg til þess að vinna í verksmiðjum. Listamenn voru vantrúaðir á þessa þróun og óttuðust að náttúran myndi bíða skaða af hinu nýja skipulagi. Svissneski heimspekingurinn Jean-Jacques Rousseau skrifaði margar bækur um þetta og í skáldverkum hans var óspillt svissnesk náttúrufegurð í forgrunni. Bækur hans náðu miklum vinsældum í Evrópu og urðu til þess að áhugi á fjallgöngum og ferðalögum til ósnortinna staða eins og Alpanna, Skotlands og Íslands jókst til muna. Leiðöngrum erlendra landkönnuða til Íslands fjölgaði alla nítjándu öldina. Einn sá þekktasti sem hingað kom var W.G. Collingwood (1854–1932). Hann var afbragðsgóður vatnslitamálari sem ferðaðist um allt Ísland árið 1897 og málaði mikinn fjölda mynda af sveitum landsins. Þær myndir eru góð heimild um lifnaðarhætti Íslendinga á nítjándu öld.


Höggmynd af Jean-Jacques Rousseau en hann var franskur heimspekingur.
Jean-Baptiste-Eugène Farochonen (1812–1871) gerði verkið fyrir árið 1853.
Wikipedia


Alþingi eftir W.G.Coolingwood.

Birta og veðrabrigði

Áhrif rómantísku stefnunnar lýstu sér í Norður-Evrópu í miklum áhuga fólks á landslagsmálverkum. Þetta var nýjung því að lítið fer fyrir landslagi í listasögu fyrri alda nema sem bakgrunnur. Í Hollandi komu að vísu fram svokallaðir tegundamálarar á sautjándu öld en sumir þeirra sérhæfðu sig í landslagi. Í Feneyjum á átjándu öld sérhæfðu málarar sig í  lýsingum á skipum, gondólum og höllum við síki borgarinnar. 

Fremsti málari þessa tímabils er ótvírætt enski málarinn Joseph Mallord William Turner (1775–1851). Landslagsmálverk hans höfðu mikil áhrif á aðra listamenn. Turner var hugfanginn af dramatískum veðrabrigðum þar sem sólin brýst gegnum rigningu eða kafaldsbyl. Hann var líka heillaður af sjónum, endurkasti birtunnar af haffletinum og hvernig stormurinn ýfir upp hafflötinn uns skipin hverfa inn í öldurótið. Til þess að ná þessu með sem mestum tilþrifum fór Turner með póstskipinu yfir Ermarsundið í aftakaveðri og málaði vatnslitamyndir á meðan skipið skoppaði á öldunum. Öldugangurinn var mikill og þegar sjávarlöðrið skall á myndunum fannst Turner sem náttúruöflin væru að hjálpa sér við að mála myndina. Hann fór í nokkrar slíkar ferðir og lét stundum binda sig fastan við siglutréð til þess að skolast ekki útbyrðis í hamaganginum.

Staffa, Fingalshellir eftir Turner.

Í upphafi ferilsins dáði Turner hinn franska sautjándu aldar málara Claude Lorrain (1600–1682). Lorrain lýsti hafinu með örlagaþrungnum hætti í málverkum af sólarlagi þar sem draumkennd birtan naut sín til hins ýtrasta. Turner tók þessar sólarlagslýsingar Claude Lorrains og leysti upp í magnaðar litasinfóníur svo myndefnið sjálft varð aukaatriði. Sumir segja að Turner hafi vakið áhuga impressjónistanna á nýjum möguleikum í listinni. Þessar stefnur eiga það sameiginlegt að myndefnið hverfur í skuggann af birtubrigðum sem snúast um liti, andrúmsloft og blæbrigði ljóss og skugga. 


Drottningin af Saba stígur á skipsfjöl eftir Claude Lorrain.

En líkt og Turner dáði Claude Lorrain, þá hafði Jóhannes Sveinsson Kjarval (1885–1972) Turner í hávegum. Til er sjónvarpsupptaka af Kjarval þar sem hann er spurður hvað hafi fengið hann til að halda á braut listarinnar. „Turner!“ svaraði Kjarval að bragði. Það kemur ekki á óvart því túlkun Turners á sólsetri við hafflötinn var nokkuð sem Kjarval hafði margoft upplifað sjálfur sem ungur skútusjómaður.


Freigátan Temeraire dregin til niðurrifs eftir Turner.

Svefn skynseminnar

Hafi einhver listamaður mótað rómantíska myndlist öðrum fremur þá var það spænski listmálarinn og grafíkmeistarinn Francisco Goya (1746–1828). Ólíkt norður-evrópskum listmálurum hafði Goya takmarkaðan áhuga á landslagi en þeim mun meiri á mannlífinu eins og það birtist honum í sinni fjölbreyttustu og afkáralegustu mynd. 

Goya hóf feril sinn í þjónustu spænsku konungsfjölskyldunnar og sýndi strax mjög persónuleg tilþrif. Hann var framúrskarandi mannamyndamálari og var gerður að fyrsta hirðmálara Karls IV Spánarkonungs. Goya veiktist af dularfullum sjúkdómi árið 1793 og missti heyrnina í kjölfarið. Eftir það urðu myndir hans drungalegri með hverju árinu sem leið. Sum málverkin eru hrollvekjukenndar lýsingar á alþýðuskemmtunum og nornasamkomum.

Árið 1808 hrundi konungsdæmið og herir Napóleons Frakklandskeisara lögðu Spán undir sig. Goya brást við með því að gera röð grafíkmynda sem hann kallaði Hörmungar stríðsins og lýsti stríði í fyrsta skipti eins og það er í raun og veru, sem viðbjóðslegu blóðbaði en ekki með glæsiljóma eins og áður tíðkaðist. 

Þegar Frakkar voru hraktir frá Spáni vonaðist Goya eftir lýðræði í landinu. Hann fékk taugaáfall þegar konungsdæmið var endurreist og dró sig í hlé. Hann málaði á veggina í íbúð sinni drungalegustu martraðarmyndir sínar, meðal annars Satúrnus étur son sinn. Þegar spænski rannsóknarrétturinn fór að gagnrýna sum verka hans flúði Goya til Frakklands og lést þar í hárri elli.

„Svörtu myndirnar“ eins og þær eru kallaðar voru fjarlægðar af veggjum íbúðarinnar og komið fyrir á Prado-safninu í Madríd. Þangað laða þær til sín milljónir listunnenda á hverju ári.


Aftaka franskra hermanna á spænskum andspyrnumönnum eftir Goya. Þessi mynd gjörbreytti margra alda evrópskri stríðsmyndahefð. Hryllingur mannanna á myndinni jafnast á við blóðugustu frétta myndir okkar tíma.

Raunsæisstefnan

U.þ.b. 1850–1870

Hin áþreifanlega tilvera

Raunsæi er stefna eins og rómantík en öfugt við hana þá fjallaði hún um það almenna fremur en hið sérstæða. Raunsæisstefnan hafnaði trúarlegum, sögulegum og goðsögulegum viðfangsefnum. Þess í stað var samtímanum lýst með beittri gagnrýni á yfirstéttina en hinar lægri stéttir fengu vinsamlegri umfjöllun. Þannig varð raunsæisstefnan að verkfæri í pólitískri baráttu. Raunsæisstefnan varð ekki langlíf en hún rann saman við impressjónismann eftir 1860.

Ádeiluháðfuglinn Honoré Daumier

Hið vaxandi hlutverk myndlistarinnar í samfélagslegri umræðu birtist í verkum franska skopteiknarans Honoré Daumier (1808–1879). Hann gerði fleiri en 4000 steinþrykksmyndir fyrir utan málverk og höggmyndir. Hann var miskunnarlaus þegar hann teiknaði myndir af yfirstéttarfólki og gerði óspart grín að snobbi og tilgerð. Hins vegar var hann nærgætinn þegar hann málaði almúgafólk. Hann var líka mjög gagnrýninn á valdakerfi Frakklands sem hann taldi vera spillt og ólýðræðislegt.


Rue Transnonain 1834 eftor Honoré Daumier.
Þessi steinþrykksmynd eftir Daumier er nokkurskonar fréttamynd sem birtist í ádeilublaðinu „La Caricature“. Myndin sýnir aðkomuna eftir að öryggisverðir ríkisins ruddust inn í fjölbýlishús í fátækrahverfi í París og skutu á allt sem hreyfðist.

Listmálun er glíma við raunveruleikann

Franski listmálarinn Gustave Courbet (1819–1877) er oft kallaður faðir raunsæisstefnunnar. Hann var stórlyndur að eðlisfari og hafnaði öllum viðteknum venjum. Hann vildi aðeins mála það sem hann gat séð. Á heimssýningunni í París árið 1855 fannst honum sér úthlutað ómerkilegu plássi og ákvað að reisa sinn eigin sýningarskála beint á móti hinum opinbera. Sýninguna kallaði hann „Raunsæi“ og sýndi þar 50 málverk.

Courbet var mikill hugsjónamaður og barðist fyrir bættu samfélagi. Hann stofnaði einkaskóla fyrir listamenn og fleygði út öllum gifsstyttum í grísk-rómverskum stíl sem notaðar voru á þessum tíma til að kenna teikningu. Þess í stað máluðu nemendurnir bændur, nautpening, svín eða hross. Þó að Parísarbúar hafi skellihlegið að þessum tilraunum Courbets, sem stóðu í nokkra mánuði, þá tóku hinir ungu listnemar þær mjög alvarlega og hafði það mikil áhrif á það hvernig listin þróaðist í framhaldinu.


Vinnustofa listamannsins eftir Gustave Courbet.
Þetta ristastóra málverk (359 x 598 cm á stærð) sem Courbet málaði árið 1855 fjarllar um þróun hans sem listamanns. Hann sýndi myndina á einkasýningunni „Raunsæi“. Courbet var mjög ánægður með sjálfan sig og hélt því fram að hann væri mesti listmálari í Frakklandi. Til þess að leggja áherslu á það stillti hann sjálfum sér upp fyrir miðju listaverksins við að mála landslag. Nakin fyrirsæta, drengur og hundur fylgjast hugfangin með handbragði málarans. Flestir hlógu að málverkinu en rómantíski listmálarinn Eugéne Delacroix (1787–1863) skoðaði málverkið í klukkustund á sýningunni og taldi myndina vera meistaraverk.

Franska listakonan Rosa Bonheur (1822–1899) sérhæfði sig í túlkun dýra í náttúrulegu umhverfi. Hún var ein fjögurra systkina sem öll lærðu að teikna og mála, einkum húsdýr. Faðir þeirra taldi að börnin sín ættu öll að fá sama uppeldi og möguleika í lífinu óháð kyni. Þannig byrjaði Rosa að læra myndlist undir handleiðslu föður síns þegar hún var 12 ára. Hún sætti sig aldrei við að ganga inn í hefðbundið hlutverk kvenna, gekk oft í karlmannsfötum og klippti hárið stutt sem var fáheyrt á hennar tíma. 

Eitt stærsta málverk Rosu Bonheur, Hrossasýningin (1853–1855), er yfir fimm metra breitt. Hún málaði einnig margar myndir af kúrekanum víðfræga Buffalo Bill þegar hann kom í heimsókn til Parísar. Rosa Bonheur var einn dáðasti listamaður sinnar samtíðar.


Hrossasýningin eftir Rosu Bonheur.


Buffalo Bill eftir Rosu Bonheur.

Natúralismi í Ameríku

Heimsálfurnar Norður-Ameríka og Evrópa höfðu vaxandi áhuga hvor á annarri. Á þessum tíma var mikill uppgangur í Bandaríkjunum í menningu og listum og hefur sú þróun haldið áfram allt fram á okkar daga.

Listmálarinn Thomas Eakins (1844–1916) er af mörgum talinn merkasti listamaður Bandaríkjanna á 19. öld. Hann bjó og lærði í París frá 1866–1870. Eakins hafði kynnst ljósmyndatækni og nýtti sér hana með því að semja við enska ljósmyndarann Eadweard Muybridge (1830–1904) um að taka myndir af hestum, hundum, körlum og konum á hreyfingu við leik og störf. Þessar ljósmyndir notaði hann sér til að skilja betur hreyfingar og sú kunnátta skilað sér í málverkum hans. Það var í anda natúralisma en svo kallast listastefna sem leggur áherslu á að líkja eftir fyrirmyndum náttúrunnar og einkennist oft af mjög nákvæmum lýsingum á raunveruleikanum.


Myndaraðir Muybridge af fólki og dýrum á hlaupum eða hreyfingu höfðu mikil áhrif í myndlistarheiminum en einnig á framgang kvikmyndagerðar.

Þrátt fyrir tilraunir Eakins til að ná vísindalegu valdi yfir málverkinu átti hann erfitt uppdráttar. Meistaraverk hans Gross sjúkrahúsið, frá árinu 1875, sýnir uppskurð á læri karlmanns og olli það miklu fjaðrafoki. Menn settu mikið út á myndefnið og var viðkvæmum sérstaklega ráðlagt að halda sig frá málverkinu.


Gross sjúkrahúsið eftir Thomas Eakins.

Impressjónismi

U.þ.b. 1865–1885

Hughrifin taka völdin

Impressjónisminn er oftast talinn vera fyrsta nútímalistastefnan. Impressjónistarnir voru franskir málarar sem bjuggu í París og nágrenni. Þeir yfirgáfu vinnustofur sínar og fóru að mála utandyra. Hin nýja uppfinning, að setja tilbúna olíuliti í túpur, auðveldaði listamönnum slíkt. Fyrir vikið varð litavalið mun bjartara. Þeir máluðu hratt því þeir vildu fanga augnablikið og birtubrigðin. Það þýddi að í myndunum var ekki mikið um smáatriði og pensilförin voru þykk og öll á iði. Almenningur hló að myndum þeirra, fannst þær vera ókláruð klessumálverk. Á þessum tíma hafði ljósmyndatæknin rutt sér til rúms og gerði listamönnum auðveldara að skilja eðli sjónarinnar. Það eina sem listmálarar höfðu framyfir ljósmyndara voru litirnir því ljósmyndirnar voru enn þá bara svarthvítar.

Að fanga augnablikið

Claude Monet (1840–1926) er frægasti impressjónistinn. Ungur kynntist hann listamanninum Eugène Boudin (1824–1898) sem var einn sá fyrsti til að mála utandyra. Boudin kenndi Monet meðferð olíulita og listmálun í náttúrulegu umhverfi. Faðir Monet var ekki hrifinn en ekkert gat stöðvað Monet í ástríðu hans fyrir listinni. Faðir Monet vildi að sonurinn færi í viðurkenndan listaskóla. Ef hann gerði það ekki myndi hann senda hann í hina alræmdu frönsku útlendingahersveit í Alsír. Monet var þrjóskur og kaus frekar að fara í herþjónustu í eyðimörkinni. Þar fékk hann taugaveiki en frænka hans bjargaði honum heim og taldi hann á að fara á eitt námskeið í klassískri málaralist til að sættast við föður sinn. Það var mikið gæfuspor fyrir Monet því þar kynntist hann listamönnunum Auguste Renoir (1841–1919), Alfred Sisley (1839–1899) og Camille Pissarro (1830–1903) sem urðu vinir hans og samstarfsmenn. Þetta var árið 1862 og áður en langt um leið var hann orðinn óskoraður leiðtogi þeirra. 


Hughrif, sólarupprás (Impression, levée du soleil) eftir Claude Monet.
Monet málaði þessa mynd snemma að morgni við fjölfarna höfn við ána Signu árið 1872. Hann sóttist eftir að mála í þoku og mistri þegar öll smáatriði hverfa inn í heildarmyndina. Þetta er í fyrsta sinn sem nafnið „impressjón“ var notað í tengslum við myndlist. Gagnrýnendur voru ekki seinir á sér að uppnefna Monet og félaga „impressjónista“. Það heiti var í fyrstu skammaryrði en Monet og vinir hans gengust við því og fóru að kalla sjálfa sig impressjónista og slógu þannig öll vopn úr höndum andstæðinga sinna.


Brú yfir tjörn með vatnaliljum eftir Claude Monet.
Monet gamlan draum sinn rætast og eignaðist dálitla landareign utan við París. Þar gat hann sinnt garðrækt en hún hafði alla tíð verið honum mikið áhugamál. Í garðinum var allstór tjörn með vatnaliljum og málaði Monete myndir af þeim á öllum tímum sólarhringsins. Monet málaði líka nokkur ægistór málverk þar sem hann smurði litunum þykkt á strigann. Ef þú skoðar verkin í návígi sérðu eiginlega bara málningarklessur en þegar þú fjarlægist þau birtist þér tjörnin með vatnaliljum á floti allt um kring. Sólskinið glitrar á yfirborðinu og þér finnst þú heyra dauft öldugjálfur, jafnvel fuglasöng.

Umbrotatímar

Þetta voru miklir umbrotatímar í menningunni. Margir aðrir listamenn vöktu athygli og þótt þeir hafi staðið lítið eitt til hliðar við impressjónistana þá voru þeir hluti af vinahópnum. Þetta voru Edouard Manet (1832–1883) og Edgar Degas (1834–1917). Þeir voru nokkru eldri en hinir og töldust betri borgarar. Þeir höfðu engu að síður meiri áhuga á skrautlegu mannlífinu en náttúrunni. Manet þráði viðurkenningu samborgara sinna og gerði tilraunir til að færa goðsögulegt myndefni í nútímabúning með tveimur málverkum sem hann málaði árið 1863. Þetta voru Morgunverður í skóginum og Ólympía. Bæði verkin ollu hneykslun og fyrirlitningu. Einkum var það hispurslaus málaratækni hans og blygðunarlausar naktar fyrirsætur sem fóru fyrir brjóstið á Parísarbúum. 


Morgunverður í skóginum eftir Manet.


Barinn á Les Folies Bergére eftir Manet.
Manet var næmur fyrir hinu mannlega eins og þessi mynd ber með sér. Myndin sýnir afgreiðslustúlku á þekktasta næturklúbbi Parísar innan um áfengisflöskur. Manet túlkar þarna lífsleiða nútímamannsins með afar nærfærnum hætti. Stúlkan er sviplaus, hugur hennar er ekki á staðnum. Það er engu líkara en hún óski sér að vera einhverstaðar allt annarsstaðar en við barinn á þessari stundu.

Franska listakonan Berthe Morisot (1841–1895) var meðal þeirra listamanna sem voru í fararbroddi impressjónistana. Hún var af ætt listamanna og lærði hjá franska landslagsmálaranum Camille Corot (1796–1875) sem var einn virtasti undanfari impressjónismans. Berthe Morisot kynntist Manet sem hafði djúp áhrif á hana. Sumir segja að hún hafi kennt Manet að mála utandyra og kynnt honum ýmsar nýjungar, eins og að raða litunum í hring á litaspjaldinu. Hún sýndi mikla teiknihæfileika og djörfung í tjáningu. Léttleikandi málverk hennar og vatnslitamyndir vísa langt út fyrir impressjónismann sem stílbrigði. Í sumum verkum nálgast hún sjálfsprottna abstraktlist


Stúlka með hund eftir Berthe Morisot.
Berthe Morisot málaði þessa mynd af dóttur sinni Julie Manet sem hún átti með eiginmanni sínum Eugene Manet en hann var yngri bróðir listamannsins Edouard Manet.

Edgar Degas var einnig lauslega tengdur impressjónistunum. Hann var næmur á samtíma sinn rétt eins og Manet. Hann túlkaði sambandsleysið milli einstaklinga í borgarsamfélaginu meistaralega í Absintuglasinu. Spænski listmálarinn Pablo Picasso (1881–1973) var einlægur aðdáandi Degas og gerði fjölmörg listaverk sem fjalla um Degas á einn eða annan hátt.

Mary Cassatt (1844–1926) var fædd í Bandaríkjunum en ferðaðist til Evrópu og kynntist Edgar Degas sem hreifst af verkum hennar. Cassatt og Morisot voru einu konurnar sem tilheyrðu hópi impressjónista. Þær voru báðar af stétt betri borgara en það þótti óviðeigandi að fólk úr efri stétt legði stund á listir. Cassatt lagði áherslu á skýrar og fastmótaðar línur í verkum sínum öfugt við Morisot sem vildi léttar og lifandi línur. 


Ung móðir saumar eftir Mary Cassatt, 92,4 × 73,7 cm, 1900.
Wikipedia


Absintuglasið eftir Degas. Í þessu málverki túlkar Degas einmanaleika og fyrringu nútímamannsins. Tómleiki tilverunnar endurspeglast í vonleysislegum svip konunnar á myndinni. Myndin olli talsverðu fjaðrafoki og var sett í geymslu í nokkur ár.

 

Síð-impressjónismi

U.þ.b. 1885–1900

Ný myndhugsun gerjast

Margir héldu að impressjónisminn væri kominn til að vera sem stefna en hann var aðeins upphafið á löngu ferli formbreytinga sem enn þá stendur yfir. 

Gegn impressjónískum skyndihrifum

Suðurfranski listmálarinn Paul Cézanne (1839–1906) gagnrýndi impressjónistana fyrir skort á traustri myndbyggingu. Hann vildi að myndlistin yrði yfirveguð líkt og áður fyrr og draga úr augnabliksáhrifum síbreytilegrar birtu. 

Fáir erlendir listamenn hafa haft jafn mikil áhrif á íslenska myndlist og Cézanne. Síðustu málverk hans af „Mt. Sainte Victoire“ eða Sigurfjalli sem rís yfir fæðingarborg hans Aix-en-Province varð landslagsmeisturum okkar Íslendinga leiðarljós í túlkun íslensks fjallalandslags. Eitt að því sem Cézanne þróaði var litafjarvídd. Í stað þess að láta hluti sem eru langt í burtu verða daufa að lit, líkt og við sjáum í landslagsmálverkum rómantíska tímabilsins, þá notaði Cézanne samspil heitra og kaldra lita þess í stað. Kaldir litir færa hluti fjær áhorfandanum en heitir litir færa þá að sama skapi nær. Þetta notfærði Cézanne sér óspart í verkum sínum og hafði mikil áhrif á listamenn í upphafi tuttugustu aldar. Jón Stefánsson (1881–1962) leit mjög til Cézanne í málverkum sínum. Fjarlægðin gerir fjöllin blá!


Sigurfjall eftir Paul Cézanne.

Handan evrópskrar menningar

Paul Gauguin (1848–1903) var verðbréfasali í París og frístundamálari. Árið 1883 gaf hann starf sitt upp á bátinn til þess að helga sig myndlistinni. Hann hætti ekki bara í vinnunni heldur yfirgaf hann danska konu sína og börn og tók upp einfaldara líferni. Hann fór fyrst til Bretagne-skaga í Frakklandi en síðar til eyjunnar Tahiti í sunnanverðu Kyrrahafi. Þar hafnaði hann evrópskri menningu.

Gauguin hafði mikil áhrif á nútímamyndlist með jákvæðum viðhorfum sínum til evrópskrar miðaldalistar og listar frumstæðra þjóða. Honum fannst sú list einfaldari og heiðarlegri tjáning en raunsæi tilgerðarlegt og persónulaust og hafnaði þar með fyrstur manna vísvitandi arfleifð endurreisnarinnar


Reiðmenn á ströndinni eftir Paul Gauguin.

Kraftmiklar tilfinningar 

Annar listamaður sem kenndur er við síð-impressjónisma er Hollendingurinn Vincent van Gogh (1853–1890). Van Gogh kynntist impressjónismanum í gegnum föðurbróður sinn og alnafna sem var umsvifamikill listmunasali í stærstu borgum Evrópu. Um tíma starfaði Van Gogh hjá frænda sínum í London og sá þar í fyrsta sinn málverk impressjónistanna. Þegar Van Gogh settist að í París nokkru síðar kynntist hann Pissarro (1830–1903), Degas, Gauguin, Georges Seurat (1859–1891) og Henri de Toulouse-Lautrec (1864–1901). Í febrúar árið 1888 settist Van Gogh að í Arles syðst í Frakklandi. Þar tók geðheilsu hans að hraka en hann hélt listsköpun sinni áfram þrátt fyrir að hafa verið lagður inn á sjúkrahús. Ári síðar fluttist hann til Norður-Frakklands til að vera nær bróður sínum Theo sem þá var nýkvæntur. Theo var aðalstuðningsmaður hans. Í júlílok 1890 varð Van Gogh fyrir voðaskoti og lést af sárum sínum. Síðustu tvö æviárin málaði hann nærri 500 málverk, að ótöldum hundruða teikninga og vatnslitamynda. 

Fáum listamönnum tókst að móta jafn persónulegan stíl og Van Gogh gerði á aðeins tíu ára löngum ferli. Hröð, ólgandi og þykkt smurð pensilför í sterkum gulum, bláum, grænum og rauðum litum bera vott um ótrúlega færni og tjáningarþörf. Franski málarinn Henri Matisse (1869–1954) lýsti verkum Van Gogh þannig: „Í verkum hans er enga geðveiki að finna; aðeins fullkomið vald yfir því sem hann vildi sagt hafa.“


Stjörnunótt eftir Vincent Van Gogh, 1889.

Ný-impressjónismi

Franska málaranum Georges Seurat (1859–1891) er eignuð heil listastefna; ný-impressjónismi. Þessi stefna var stundum köllum pointillisme eða punktastefna. Seurat fannst impressjónisminn ónákvæmur og óvísindalegur. Hann málaði þess í stað með hreinum litum og byggði myndir sínar upp á punktum sem hann lagði á strigann með stuttum og mjóum penslum. Ólíkt skyndimyndum impressjónistanna urðu verk Seurat og fylgismanna hans frosin og tímalaus þar sem engin hreyfing er í myndum hans.

Sunnudagssíðdegi á Grande Jatte frá árinu 1884 er frægasta verk ný-impressjónismans. Öllu fólkinu, dýrunum og trjánum er komið fyrir með stærðfræðilegu jafnvægi – rétt eins og í freskum endurreisnartímans frá 15. öld. Seurat lést langt fyrir aldur fram og lét fá verk eftir sig. Aðferðir hans höfðu engu að síður mikil áhrif á síðari tíma listamenn á borð við Kúbistana, Fútúristana á Ítalíu og Fauvistanna í Frakklandi.


Sunnudagssíðdegi á Grande Jatte eftir Georges Seurat.

Norðurlönd – Skagen málararnir

Franski impressjónisminn hafði áhrif um allan heim og þau áhrif vara enn í dag. Hugmyndin um ljúft og afslappað líf á sunnudagssíðdegi sem birtist í verkum þeirra fær fólk til að lygna aftur augunum og láta hugann reika. Hópur listamanna kom sér fyrir á Skagen í norðanverðri Danmörku í kringum árið 1870. Þeir dvöldust þar yfir sumartímann og fönguðu hina norrænu birtu sem umvafði allt. Þar lifðu og störfuðu listamenn í anda frönsku impressjónistanna. Margir þeirra dvöldu þar reglubundið yfir sumartímann langt fram á tuttugustu öldina. Þeirra á meðal voru Anna Ancher (1859–1935), Michael Ancher eiginmaður hennar (1849–1927) og P.S. Krøyer (1851–1909).


Herbergi með rauðum valmúa eftir Önnu Ancher.

Sigríður Zoega

Myndlist á Íslandi fyrr á öldum

Frá landnámi fram á 19. öld

Á Íslandi hefur listsköpun verið samofin lífi þjóðarinnar alla tíð, rétt eins og í öðrum löndum. Hér hafa varðveist merkilegir gripir frá landnámsöld, m.a. lítið Þórslíkneski sem fannst við Eyjafjörð og lítið mannslíkan úr hvalbeini sem fannst í heiðnu kumli frá 10. öld. Munirnir eru varðveittir á Þjóðminjasafninu en við vitum ekki hvar þeir voru búnir til.

Þórslíkneski
Þórslíkneski.
Þjóðminjasafnið: 10880/1930-287

Hér á landi voru ellefu klaustur á kaþólskum tíma frá um 1000–1550. Ætla má að þar hafi verið vísir að listnámi eða fólk deilt þekkingu á myndsköpun. Í klaustrunum voru eflaust skrifaðar bækur og afritaðar á skinn eins og í klaustrum Evrópu en slíkt var líka gert á stórbýlum. Í íslenskum handritum er víða að finna lýsingar en svo kallast myndskreytingar handrita, t.d. af upphafsstöfum en einnig myndir sem tengjast efni þeirra. Af öðrum listmunum sem varðveist hafa frá öldunum eftir landnám eru kirkjugripir í meiri hluta.

Eftir siðaskiptin lögðust klaustrin af en kirkjurnar héldu þó áfram að vera helsti staður myndlistar. Margir listmunir sem varðveist hafa eru ómerktir og ekki vitað hverjir gerðu þá en þó eru varðveittir gripir eftir nokkra þekkta íslenska listamenn sem voru uppi á 16., 17. og 18. öld. Gripir þessir eru frekar myndverk en skraut og ýmist málaðir eða útskornir. Þá hefur varðveist listfengur myndvefnaður og útsaumur en sjaldnast er vitað hvaða listamenn unnu þau verk. 

Einn þekktra íslenskra listamanna frá þessum tíma var séra Hjalti Þorsteinsson í Vatnsfirði (1665–1754). Hann naut tilsagnar í teikningu þegar hann var ungur en lærði svo til prests í Kaupmannahöfn en vitað er að þar varði hann frítíma sínum til að læra hljóðfæraslátt, höggmyndalist og málaralist. Eftir séra Hjalta hafa varðveist bæði málverk og útskornir gripir en talið er að mun fleiri verk séu eftir hann.

Predikunarstóll
Predikunarstóll úr kirkjunni í Vatnsfirði við Ísafjarðardjúp sem séra Hjalti gerði.
Þjóðminjasafnið: 10476/1929-12

Sveinn Pálsson

Brautryðjendur á Íslandi

19. öld og byrjun 20. aldar

List á tímum breytinga

Í lok 19. aldar fóru að myndast þéttbýlisstaðir á Íslandi, meðal annars í Reykjavík, og borgarastétt sem vildi njóta lista og menningar í meira mæli en áður hafði þekkst. Á þeim tíma höfðu aðeins sárafáir Íslendingar átt þess kost að sækja nám í teikningu eða myndlist. Einn þeirra var Sæmundur Magnússon Hólm (1749–1821) sem lagði stund á nám í Konunglega listaháskólanum í Kaupmannahöfn. Hann hélt utan árið 1774 og lærði fyrst heimspeki áður en hann hóf listnám. Hann lærði líka guðfræði og lögfræði. Sæmundur teiknaði ýmsa samferðamenn sína og það er því honum að þakka að við vitum hvernig ýmist mektarfólk sem lifði fyrir daga ljósmyndatækninnar leit út. Eftir að heim var komið gerðist Sæmundur prestur.

Sveinn Pálsson eftir Sæmund Hólm
Rauðkrítarmynd af Sveini lækni Pálssyni eftir Sæmund Magnússon Hólm 1749-1821.
Þjóðminjasafnið: Mms-43

Sigurður Guðmundsson málari (1833–1874) sem, aðeins 16 ára gamall, hóf nám í Konunglega listaháskólanum árið 1848 átti eftir að hafa meiri áhrif á lista- og menningarlíf Íslendinga en flestir. Þótt Sigurður hafi oftast verið kenndur við menntun sína og hafi sannarlega málað töluvert, einkum þó altaristöflur, og kennt teikningu þá hafði hann enn meiri áhrif á öðrum sviðum. Hann hafði mikinn áhuga á þjóðbúningum og það var honum kappsmál að íslenskar konur klæddust þeim. Hann hannaði meira að segja skautbúninginn sem er hátíðarbúningur kvenna. Hann var líka áhrifamaður í leiklist, málaði leiktjöld og vann að búningum og gervi leikaranna. Annað sem mun halda nafni hans á lofti um ókomna tíð var stofnun Forngripasafnsins árið 1863 sem síðar fékk heitið Þjóðminjasafn Íslands.

Sigurður Guðmundsson málari
Sigurður Guðmundsson, Gamall maður, blý, 50,5 x 40,5 cm, 1852.
Listasafn Íslands: LÍ 1416

Á 19. öld fór staða kvenna að taka breytingum, sérstaklega þeirra sem tilheyrðu yfirstéttinni í samfélaginu. Konum gáfust nú tækifæri til menntunar sem áður höfðu ekki þekkst. Á seinni hluta 19. aldar og upphafi þeirrar 20. hófu fjölmargar íslenskar konur listnám. Sumar sóttu tíma hjá Sigurði málara og öðrum sem síðar kenndu teikningu en tíu konur héldu utan til náms. Engin þeirra gerði myndlistina að ævistarfi en margar höfðu þó mikil áhrif á listalíf Íslendinga, t.d. með teiknikennslu, sölu á listvarningi og postulínsmálun. Þótt þessar konur hafi verið frumkvöðlar hafa þær ekki verið fyrirferðamiklar í listasögunni en á síðustu árum hafa verk þeirra og saga verið rannsökuð og dregin fram í dagsljósið. Vegna þess að tilvera þeirra innan listarinnar var flestum hulin eru þær stundum nefndar „huldukonurnar“ í íslenskri myndlist. 

Ein þeirra var Þóra Pétursdóttir Thoroddsen (1847–1917) sem var fyrst kvenna til að halda utan til náms árið 1873 en hún lærði í teikniskóla málarans Vilhelms Kyhn því á þeim tíma máttu konur ekki læra við Konunglega listaháskólann. Þóra varð fyrsti Íslendingurinn sem málaði Þingvelli með kirkjunni og gamla bænum en Þingvellir hafa æ síðan verið vinsælt myndefni íslenskra málara. Hún stofnaði teikniskóla í Reykjavík og meðal nemenda hennar var Þórarinn B. Þorláksson. Önnur huldukona, Sigríður Björnsdóttir (1879–1942), nam líka í Kaupmannahöfn en átti erfitt með að framfleyta sér af málaralist. Hún fékk vinnu við að mála postulín hjá fyrirtækinu Bing & Grøndahl en síðar á lífsleiðinni átti hún eftir að vinna leirmuni í Listvinahúsinu hjá Guðmundi Einarssyni frá Miðdal (1895–1963) og varð þar með fyrst íslenskra kvenna til að vinna að leirlist. Um árabil kenndi hún líka teikningu og handavinnu. 

Þingvellir eftir Þóru Pétursdóttur Thoroddsen, olíumálverk, 1883.
Þjóðminjasafnið: Þ_ÞTh-53

Frumherjar íslenskrar myndlistar

Frá 1900

Árið 1900 opnaði Þórarinn B. Þorláksson (1867–1924) fyrstu einkasýningu sína í Reykjavík. Sýningin var jafnframt fyrsta sýning íslensks listamanns hér á landi og markaði þannig upphaf íslenskrar nútímamyndlistar. Þar sýndi hann ýmis verk úr listnámi sínu í Danmörku en einnig myndir sem hann málaði á Íslandi, meðal annars frá Þingvöllum. Þórarinn nam hjá Þóru Pjetursdóttur áður en hann hélt utan til náms. Hann var teiknikennari að aðalstarfi næstu áratugi og þannig leiddi hann marga myndlistarmenn fyrstu skrefin í myndlistinni. Helsta viðfangsefni verka hans er íslenskt landslag, oft í rómantískum stíl þar sem birtan er sérstök og kyrrð svífur yfir vötnum. 


Þórarinn B. Þorláksson, Þingvellir, olía á striga, 57,5 x 81,5 cm, 1900.
Listasafn Íslands: LÍ 1051

Oft er talað um að frumherjar íslenskrar myndlistar séu fjórir og er Þórarinn elstur þeirra. Hinir eru Ásgrímur Jónsson (1876–1958), Jón Stefánsson (1881–1962) og Jóhannes Sveinsson Kjarval (1885–1972). Þessi gamla skilgreining er vafasöm enda listasagan flóknari en svo. Sannarlega settu þessir málarar allir mark sitt á myndlistararfinn en það gerðu aðrir líka, svo sem huldukonurnar sem voru forverar þeirra og myndlistarmenn sem unnu í aðra miðla.

Einar Jónsson (1874–1954) hélt til náms í Kaupmannahöfn árið 1895, rétt eins og Þórarinn B. Þorláksson, en hann lærði höggmyndlist og var frumherji á því sviði. Verk hans setja svip á Reykjavíkurborg en margar af þekktustu höggmyndum borgarinnar eru eftir hann, svo sem styttan af Ingólfi Arnarsyni á Arnarhóli, Útlagar við gamla kirkjugarðinn við Suðurgötu og Jón Sigurðsson á Austurvelli. Safn Einars Jónssonar á Skólavörðuholti var opnað árið 1923 og var fyrsta listasafnsbyggingin á Íslandi.


Útlagar eftir Einar Jónsson, gifsmynd, hæð 228 cm, 1901.
Listasafn Íslands: LÍ 7007

Ásgrímur Jónsson (1876–1958) kom fram á sjónarsviðið nokkrum árum síðar en Þórarinn. Hann málaði líka íslenskt landslag en í myndum hans voru meiri átök en hjá Þórarni, náttúran hrikalegri og sjónarhorninu stundum beint að ógnarafli náttúrunnar og margbreytileika hennar. Frá því á námsárunum vann hann einnig myndir sprottnar úr íslenskum þjóðsögum eins og margir norrænir myndlistarmenn gerðu á þeim tíma. Bæði Ásgrímur og Þórarinn fóru víða um landið til að mála, meðal annars upp á hálendið sem fæstir áttu þess kost að sjá með berum augum. Þannig færðu þeir áhorfendum nýja sýn á landið sitt og mótuðu á þann hátt viðhorf landsmanna til náttúrunnar. 


Nátttröllið á glugganum eftir Ásgrímur Jónsson, 1905.
Listasafn Íslands: LÍÁJ-27/91

Jón Stefánsson (1881–1962) var að læra verkfræði í Kaupmannahöfn þegar hann ákvað að helga sig myndlistinni. Hann lærði í einkaskóla og hjá kennurum sem voru nútímalegri en í Konunglega listaháskólanum sem margir höfðu sótt. Síðar hélt hann til Parísar til frekara náms í skóla Henri Matisse (1869–1954) á árunum 1908–1911. Matisse var þá leiðtogi fávistanna svokölluðu, eins helsta framúrstefnuhópsins í París. Kennslan var þó hefðbundin en þar kynntist Jón list Cézannes fyrir alvöru sem átti eftir að hafa mikil áhrif á feril hans. Ströng myndbygging og skýr form sem skapa spennu á myndfletinum einkenna mörg verka Jóns. Hann málaði gjarna landslag en myndbyggingin og formin skiptu hann meira máli en endursköpun á raunverulegu landslagi. 

Jón Stefánsson, sumarnótt, lómar
Sumarnótt (Lómar við Þjórsá)
eftir Jón Stefánsson, olíumálverk, 100 x 130 cm, 1929.
Listasafn Íslands: LÍ-366

Jóhannes Kjarval (1885–1972) þykir sérstæðastur frumherjanna fjögurra. Eftir hefðbundið og nokkuð gamaldags myndlistarnám í Konunglega listaskólanum í Kaupmannahöfn leyfði hann sér að verða fyrir áhrifum af helstu straumum og stefnum sem þá voru ríkjandi. Hann heillaðist af kúbisma og expressjónisma og áhrifa af þeim gætti í verkum hans með afar persónulegum hætti er heim var komið og hann tók til við túlkun á íslensku landslagi, oft í bland við fantasíu og önnur viðfangsefni. Eitt af því sem Kjarval gerði í verkum sínum var að breyta sjónarhorninu. Í stað þess að horfa á landslag í fjarska beindi hann sjónum áhorfenda að því sem nær var; mosa, blómum og öðrum gróðri, hrauni og klettum, smásteinum og hrjóstrugum jarðveginum. Hann málaði oft sömu staðina á ólíkum tímum og sýndi hvernig birtan, veðrið og árstíðirnar skapa ólík hughrif. Í sumum verkanna má sjá verur í hrauninu sem hann kallaði stundum „bergmál frá öðrum tíma“. Jóhannes Kjarval átti langa starfsævi og varð goðsögn í lifanda lífi. Hann hafði með verkum sínum mikil áhrif á samferðafólk sitt, aðra listamenn og viðhorf Íslendinga til náttúrunnar, m.a. hraunsins sem eins af einkennum landsins. 

Kjarval
Jóhannes Kjarval, Mosi á Þingvöllum, olía, 105 cm x 130 cm, 1937.
Listasafn Íslands: LÍ-509

Fleiri listamenn fylgdu í kjölfarið. Þar mætti nefna Guðmund Thorsteinsson (1891–1924) sem kallaður var Muggur og skrifaði og myndskreytti meðal annars bókina Sagan af Dimmalimm, Júlíönu Sveinsdóttur (1889–1966) og Kristínu Jónsdóttur (1888–1959) en öll stunduðu þau nám í Konunglega listaskólanum í Kaupmannahöfn á sama tíma á árunum 1912–1917. Muggur lést fyrir aldur fram en skapaði sér sérstöðu á stuttri starfsævi með fjölhæfni og efnistökum sem voru ólík öðrum íslenskum listamönnum á þeim árum. 

Muggur
Muggur, Stúlkan og huldusveinninn, blýantsteikning, 24,5 cm x 16,5 cm, 1915.
Listasafn Íslands: LÍ-1094

Júlíana ólst upp í Vestmannaeyjum en settist að í Danmörku. Hún sótti samt innblástur í íslenska náttúru, einkum í heimahaga sína í Vestmannaeyjum. Júlíana var ekki bara mikils metin fyrir málverk sín því hún vann einnig textílverk og var álitin einn helsti myndvefari Danmerkur. Eftir því sem leið á feril hennar urðu verk hennar huglægari og einkenndust af glímu við form og liti fremur en nákvæmar landslagsmyndir en ef til vill gætti þar áhrifa frá veflistinni. Hún og Kristín Jónsdóttir voru fyrstar íslenskra kvenna til að gera myndlistina að atvinnu sinni. 


Júlíana Sveinsdóttir, Frá Vestmannaeyjum (Elliðaey), olía á striga, 82 x 90 cm, 1946.
Listasafn Íslands: LÍ 778

Segja má að ferill Kristínar Jónsdóttur sé tvískiptur eftir að hún lauk námi. Á fyrri hluta ferils síns málaði hún töluvert landslagsmyndir frá heimaslóðum sínum á Norðurlandi þar sem myndir hennar þróast í átt til impressjónisma þar sem tær birta er áberandi. Síðar gifti hún sig og stofnaði fjölskyldu í Reykjavík og eftir það valdi hún myndefni úr nærumhverfi sínu. Hún málaði gjarna í garðinum við hús fjölskyldunnar við Laufásveginn en einnig við Reykjavíkurtjörn og Hljómskálann. Kristín var líka þekkt fyrir uppstillingar og blómamyndir sem voru afar vinsælar. Eins sótti hún myndefni í reynsluheim kvenna, t.d. í verki sínu Við þvottalaugarnar frá 1931 þar sem hún fangar strit nafnlausra þvottakvenna við gömlu laugarnar í Laugardal. Fram að árum seinni heimsstyrjaldarinnar var Kristín eina konan á Íslandi sem hafði málaralist að atvinnu. 


Kristín Jónsdóttir, Við Þvottalaugarnar, olía á striga, 100 x 123 cm, 1931.
Listasafn Íslands: LÍ 459

Jón Engilberts

Expressjónismi

U.þ.b. 1900–1940

Listastefnan Expressjónismi varð til í lok nítjándu aldar. Á ensku og fleiri málum þýðir sögnin „express“ bæða að tjá og sýna svipbrigði og það er einmitt það sem expressjónistarnir vildu gera. Þeir vildu tjá tilfinningar sínar, líðan og reynslu. Þegar búið var að finna upp ljósmyndatæknina höfðu margir listamenn ekki lengur áhuga á að mála raunveruleikann enda gæti ljósmyndin tekið við því hlutverki. 

Til að tjá tilfinningar sína, hugsanir og viðbrögð í málverki notuðu expressjónistar oft sterka liti og gróf pensilför. Litirnir í myndunum þurftu ekki að vera eins og í raunveruleikanum. Þeir máluðu himininn rauðan, hafið gult og blá andlit ef það fangaði þær tilfinningar sem þeir vildu lýsa. Þannig fengu litirnir táknræna merkingu og þessir málarar eru því einnig kallaðir symbólistar.

Expressjónistarnir einfölduðu það sem þeir máluðu og í myndum þeirra er yfirleitt lítið um smáatriði. Þeir notfærðu sér lítið birtu og skugga en máluðu frekar fleti með hreinum samhliða litum, oft með dökkum útlínum. Þeir töldu miklu mikilvægara að túlka myndefnið eins og þeir skynjuðu það út frá eigin tilfinningum en að myndefnið liti raunverulega eða fallega út. 

Síð-impressjónistinn Vincent Van Gogh og Norðmaðurinn Edvard Munch (1863–1944) eru meðal þeirra sem lögðu grunninn að expressjónismanum. Munch og fleiri expressjónistar vildu takast á við þá staðreynd að lífið er ekki bara dans á rósum heldur einnig fullt af þjáningu, grimmd og fátækt. Mörgum fannst það hræsni og óheiðarlegt að túlka aðeins það sem er fagurt og fágað. Þessi hugmyndafræði féll í frjóan jarðveg í Þýskalandi og þar þróaðist sérstakur angi af stefnunni sem kallast þýskur expressjónismi.

expressjonismi
Ópið eftir norska listamanninn Edvard Munch frá 1893. Þarna sést vel hvernig skyndileg spenna eða ótti getur breytt allri okkar skynjun. Greinilegt er á mannverunni og umhverfinu að eitthvað hræðilegt hefur gerst. Umhverfið virðist taka þátt í angist hennar sem æpir eins og sést á flæðandi línunum í kringum andlitið sem er afskræmt af ótta.

Aðrir mikilvægir listamenn á þessu tímabili eru Henri Matisse (1869–1954) og Paul Gauguin en af íslenskum málurum sem hafa unnið í anda expressjónismans má nefna Jón Engilberts (1908–1972), Snorra Arinbjarnar (1901–1958), Gunnlaug Scheving (1904–1972) og Jóhann Briem (1907–1991) en allir urðu þeir fyrir miklum áhrifum frá stefnunni en einnig mætti nefna Nínu Tryggvadóttur (1913–1968) snemma á ferli hennar. Hér á landi birtist hún líka í átökum á milli náttúru og manngerðs umhverfis og á milli þéttbýlis og sveita. Greina má áhrif expressjónisma í litanotkun og tækni hjá mun fleiri íslenskum málurum, svo sem hjá Jóhannesi Kjarval, Ásgrími Jónssyni og Finni Jónssyni (1892–1993) þótt þeirra list sé almennt ekki flokkuð undir stefnuna. 

Gunnlaugur Scheving, Sumarnótt, 1959.
Listasafn Íslands: LÍ-1168

Jón Engilberts
Jón Engilberts, Fólk að koma frá vinnu, 1936.
Listasafn Íslands: LÍ 794

Nína Tryggvadóttir, Séð frá Unuhúsi, 1943.
Listasafn Íslands: LÍ 8913

Í Evrópu fjöruðu áhrif expressjónismans út á þriðja áratugnum en á Íslandi og á hinum Norðurlöndunum hafa þau varað lengur og eru enn áberandi. Ein af þeim stefnum sem eru afsprengi expressjónismans er abstrakt expressjónisminn en hann varð sérlega vinsæll í Bandaríkjunum eftir seinni heimstyrjöld.

Kúbismi

U.þ.b. 1907–1920

Kúbismi er listastefna sem kom fram í kringum árið 1907. Það ár var haldin sýning til minningar um listmálarann Paul Cézanne. Cézanne hafði skoðað hvernig unnt væri að lýsa náttúrunni með geómetrískum formum eins og ferningum, kúlum og keilum. Margir listamenn hrifust af þessu, ekki síst spænski listamaðurinn Pablo Picasso (1881–1973). Árið 1907 málaði hann myndina Ungfrúrnar frá Avignon sem oftast er talin vera fyrsta kúbíska málverkið. Nafnið kúbismi er dregið af gríska orðinu „kybos“ sem þýðir teningur en  það tengist líka enska orðinu „cube“.

Ungfrúrnar frá Avignon eftir Picasso.
Wikipedia

Picasso og félagi hans, franski málarinn Georges Braque (1882–1963), þróuðu kúbismann með því að mála hluti og manneskjur í brotum sem raðað var saman á myndfletinum, þar sem hvert brot var málað frá ólíku sjónarhorni. Kúbísku málverkin þeirra virðast uppbyggð af kössum, þríhyrningum og keilum sem áhorfendum er ætlað að púsla saman í huganum. Sum verka þeirra frá þessum tíma eru svo áþekk að það er næstum eins og sami listamaðurinn hafi málað þau.

Kona með gítar eftir Georges Braque, 1913.
Wikipedia

Myndir kúbistanna gengu þvert gegn hefðbundinni framsetningu mannslíkamans og reglum um fjarvídd. Þeir máluðu oft hluti séða að ofan og frá hlið á sömu myndinni. Glas gat til dæmis verið málað séð ofan frá, frá hlið og að neðan á einni og sömu myndinni.

Picasso hreifst mjög af afrískri list, svo sem ristum og grímum. Honum fannst eins og hún byggi yfir frumkrafti sem evrópsk list hefði glatað. Picasso blandaði einföldum formum þeirra og kraftmiklum litum við hugmyndafræði kúbismans svo úr urðu frumleg og nýstárleg verk. Konurnar á mynd Picassos, Ungfrúrnar frá Avignon, eru með andlit sem minna á afrískar grímur. Þær voru með strengda andlitsdrætti og skrumskælda líkama. Það hefur sjálfsagt ekki verið ætlunin að myndin væri falleg og margir voru einmitt þeirrar skoðunar að myndir Picassos væru hræðilega ljótar. Nú er myndin talin meistaraverk. 

Picasso var mjög hæfileikaríkur og kom það fram strax á unga aldri. Hann varð langlífur en málaði aðeins í kúbískum anda hluta af löngum ferli sínum.

Margir íslenskir listamenn hrifust af kúbismanum og þótt engir hafi helgað sig honum má sjá áhrif stefnunnar í verkum þeirra. Sumar höggmyndir Ásmundar Sveinssonar eru undir greinilegum áhrifum af brotakenndum kúbismanum og Jóhannes S. Kjarval málaði myndir í kúbískum anda fljótlega eftir að hann lauk námi. Áhrifa kúbismans gætti þó í verkum hans mun lengur, til að mynda í hrauninu sem síðar varð eitt af höfundaeinkennum hans. 

Kjarval, Hvítasunnudagur
Jóhannes Kjarval, Hvítasunnumorgunn (Pinsemorgen), olíulitur og gullgrunnur á lérefti, 100 cm x 113 cm, 1917-19.

Abstraktlist

frá u.þ.b. 1910

Abstraklist er listastefna sem varð til í upphafi 20. aldar. Það að mynd sé abstrakt þýðir að hún sé óhlutbundin, þ.e. á henni eru engir þekkjanlegir hlutir eða verur. Málverkin eru oft máluð sterkum litum og með geómetrísk form. Abstraktlistin þróaðist aðallega út frá expressjónisma og kúbisma. Listamenn sem aðhyllast þessa stefnu vilja að litirnir og formin myndi verkið ein og sér og halda því fram að verkin hafi sitt eigið listræna gildi þótt þau líktust engu ákveðnu.

Rússneski listmálarinn Wassily Kandinsky (1866–1944) er oft sagður hafa málað fyrsta abstraktmálverkið árið 1910 en það er verkið Kósakkar. Með litríkum samsetningum reyndi hann að láta málverk sín vekja svipuð áhrif og tónlist.

Wassily Kandinsky

Wassily Kandinsky, Cossacks, 1910-1.
Wikipedia

Annar abstraktmálari er hollenski listamaðurinn Piet Mondrian (1872–1944). Hann bjó til myndir með ferhyrndum litaflötum í hreinum litum. Hann er talinn hafa lagt grundvöllinn að því sem kallast geómetrísk abstraktlist.

Piet Mondrian,  Movement in Squares, 1961.
Wikiart

Margir listamenn um heim allan aðhyllast enn abstraktlistina og hafa gert margvíslegar tilraunir með stefnuna. Í verkum sumra má sjá móta fyrir einhverju þekkjanlegu eins og landslagi eða fólki en aðrir listamenn, svo sem breska listakonan Bridget Riley (1931), hafa unnið verk sem kalla fram  sjónræn blekkingaráhrif þannig að verkin virðast víbra eða tindra. Þessi tegund abstraktlistar nefnist  optísk list eða oplist. Listakonan Eyborg Guðmundsdóttir (1924–1977) vann líka þannig verk. 

Abstrakt expressjónismi

Frá 1950

Eftir að seinni heimsstyrjöldinni lauk árið 1945 var margt breytt í heiminum. Í Evrópu, sem hafði verið vagga nýrra strauma í myndlist, var víða mikil eyðilegging og samfélagið í sárum en í Bandaríkjunum var efnahagslegur uppgangur og bjartsýni ríkti. Mörgum listamönnum þar fannst sem nýir tímar væru að renna upp og leituðu nýrra leiða til að túlka þá. Margir evrópskir listamenn flúðu stríðsástandið í Evrópu og settust að í Bandaríkjunum.  Abstraktmálverkin, með sínum sterku litum og formum, virtust fanga tíðarandann. Í New York í Bandaríkjunum var hópur málara þessarar skoðunar og sumir þeirra höfðu flúið Evrópu í stríðinu. Þeir vildu nota abstrakt málverkin til að tjá tilfinningar og líðan og er sú stefna því kölluð abstrakt expressjónismi. Listamenn sem aðhylltust þetta listform áttu það sameiginlegt að leggja mikla áherslu á frelsi og ósjálfráð vinnubrögð í listsköpun sinn. Einn þekktasti þeirra var Jackson Pollock (1912–1956) sem málaði stórar myndir með því að sletta, sprauta og hella málningunni á strigann. Þegar málað var á þennan hátt þurfti það að gerast hratt og án yfirvegunar og áherslan var á athöfnina sjálfa að mála. Þetta hefur verið kallað „action painting“ á ensku en athafnamálverk á íslensku. Verk málarans Mark Rothko (1903–1970) eru líka talin til stefnunnar þótt þau séu gerólík verkum Pollocks og hann hafi ekki viljað flokka þau með neinni listastefnu sjálfur. Það sem þau eiga sameiginlegt er að þeim er ætlað að miðla tilfinningum, á óhlutbundinn hátt og með greinilegum slettum í verkum Pollocks og pensilförum hjá Rothko beina þau athyglinni að sköpunarferlinu. 

Hér á Íslandi hefur listamaðurinn JBK Ransú (1967) gert tilraunir með abstrakt expressjónísk verk þar sem unnið er með slettur í bland við geomatrísk og stílhrein form.


Jackson Pollock, frímerki með verkinu Convergence frá 1952.

Sunset Over the Caribbean eftir Mark Rothko.

Abstraktlist á Íslandi

Frá um 1940

Ísland breyttist mikið og hratt í og eftir seinni heimsstyrjöldinni. Myndlistin endurspeglaði bæði þær breytingar sem og þau átök sem áttu sér stað í samfélaginu. Ýmsir listamenn höfðu unnið verk sem endurspegluðu þær listastefnur sem spruttu upp í Evrópu, þar á meðal abstraktverk, svo sem Finnur Jónsson sem sýndi fyrst slík verk árið 1925. Flestir íslenskir listamenn máluðu engu að síður landslag eða önnur fígúratíf verk sem telja má fremur hefðbundin. Það breyttist hratt á eftirstríðsárunum. 

Svavar Guðnason (1909–1988) sem búið hafði og unnið með róttækum listamönnum í Danmörku sem síðar mynduðu Cobra-hópinn hélt framsækna sýningu á abstraktverkum sínum á Íslandi árið 1945. Sú sýning vakti mikla athygli og misjöfn viðbrögð enda fannst mörgum landsmönnum og áhugafólki um myndlist að myndir ættu að vera af einhverju en ekki bara skapa hughrif með litum og formum. 


Svavar Guðnason, Íslandslag, abstrakt, 88 cm x 100 cm, 1944.
Listasafn Íslands: LÍ719

Tveimur árum síðar var opnuð sýning hóps listamanna sem kallaði sig Septemberhópinn en sú sýning olli straumhvörfum. Í hópnum voru framsæknir listamenn í yngri kantinum, svo sem Kjartan Guðjónsson (1921–2010), Nína Tryggvadóttir (1913–1968), Jóhannes Jóhannesson (1921–1998) og Kristján Davíðsson (1917–2013), auk eldri listamanna en á sýningunni voru abstraktverk í öndvegi. Á næstu árum hélt hópurinn þrjár sýningar til viðbótar. Áratugum síðar átti hluti hópsins eftir að vinna saman aftur undir merkjum Septemhópsins en þá voru listamennirnir orðnir eldri og list þeirra þótt ekki lengur sérlega róttæk. Hópurinn kallaði sig Septemhópinn en ekki Septemberhópinn þegar hann kom aftur saman í breyttri mynd.

Á síðustu sýningu hópsins í óbreyttri mynd, árið 1952, sýndu átta listamenn geometrísk abstraktverk, það eru verk sem byggja á ákveðnum stærðfræðilegum formum og stórum hreinum litaflötum. Geometrísk abstraktlist og önnur strangflatarverk urðu áberandi á Íslandi, einkum á 6. áratug 20. aldar. Meðal listamanna sem unnu verk í þeim anda má nefna Þorvald Skúlason (1906–1984), Gerði Helgadóttur (1928–1975), Karl Kvaran (1924–1989), Jóhannes Jóhannesson (1921–2015), Guðmundu Andrésdóttur (1922–2002) og Braga Ásgeirsson (1931–2016).


Þorvaldur Skúlason, Komposition, 1948.
Listasafn Íslands: LÍ968

Gerður Helgadóttir
Gerður Helgadóttir, orgelfúga, 1960.
Listasafn Íslands: LÍ7094/94

Guðmunda Andrésdóttir
Guðmunda Andrésdóttir, Komposition, 1955.
Listasafn Íslands: LÍ1155


Nína Tryggvadóttir, Gos, abstrakt,
Listasafn Íslands: LÍ1383

Í lok 6. áratugarins fór að bera á verkum sem kalla má ljóðræna abstraktlist. Verkin voru enn að mestu óhlutbundin en túlkuðu fremur hughrif og tilfinningar eins og verk expressjónista frekar en að fylgja ströngum formreglum geometrísku verkanna. Listamennirnir fóru heldur ekki dult með innblásturinn sem þeir sóttu gjarna í náttúruna eða tíðarandann, ólíkt hinum bandarísku abstrakt expressjónistum. Heiti verkanna gáfu gjarna vísbendingu um myndefnið og stundum voru þau ljóðræn og gáfu verkunum skáldlegan blæ. Í mörgum ljóðrænum abstraktverkum má sjá greinilegt landslag, fólk eða hluti. Kristján Davíðsson, Nína Tryggvadóttir og Svavar Guðnason eru meðal þeirra listamanna sem unnu verk í þessum anda og Kristján, Elías B. Halldórsson og veflistakonan Ásgerður Búadóttir héldu sig við stefnuna fram á 21. öldina.

Abstraktlistin hafði ekki aðeins mikil áhrif á málaralist heldur einnig höggmyndalist og arkitektúr og þeirra áhrifa gætir enn.

Marcel Duchamp

Dadaismi

U.þ.b. 1916–1923

Dadaismi varð til sem listastefna sem andóf gegn fyrri heimsstyrjöldinni en dada merkir rugguhestur á frönsku. Upphafsfólki stefnunnar ofbauð hryllingur stríðsins en fundu ekki hjá sér neina rökrétta leið til að túlka hana svo þeir gerðu verk sem virtust merkingarlaus, undarleg eða fólu í sér háðsádeilu. Einn frægasti dadaistinn var Marcel Duchamp (1887–1968) og eitt frægasta listaverk hans er hlandskál sem hann kallar Gosbrunninn. Duchamp bjó hlandskálina ekki til sjálfur heldur var hún framleidd í verksmiðju með þúsundum annarra og var þeim ekkert frábrugðin. Slík listaverk eru kölluð „ready-made“, þ.e. þau eru gerð úr hlutum sem framleiddir hafa verið til annarra nota. 

Til að undirstrika hugmyndir dadaistanna skrifar Duchamp ekki sitt eigið nafn á listaverkið eins og vaninn er að gera heldur nafnið R. Mutt sem er nafnið á klósettskálaframleiðandanum. Fjarstæðukennd verk dadaistanna hristu upp í hugmyndum fólks um það hvað væri list og hvers virði hún væri og segja má að dadaisminn hafi verið nokkurs konar andlistastefna. Verk Dadaistanna höfðu mikil áhrif á samtímalist síðar á 20. öldinni.

Marcel Duchamp

Marcel Duchamp, Gosbrunnur, 1917.
Wikipedia

Rene Magritte

Súrrealismi

U.þ.b. 1920–1940

Á árunum milli heimstyrjaldanna fyrri og síðari varð til hreyfing í bókmenntum og listum sem bar nafnið súrrealismi sem á íslensku mætti kalla ofurveruleiki þar sem orðið „sur“ á frönsku þýðir „fyrir ofan“. Segja má að súrrealisminn hafi sprottið út frá dadaismanum.

Súrrealisminn varð formlega til í París árið 1924 þegar rithöfundurinn og ljóðskáldið André Breton (1896–1966) skrifaði stefnuskrá hreyfingarinnar. Súrrealistar vildu, líkt og dadaistarnir, hrista upp í hugmyndum fólks en ekki bara um list heldur einnig um lífið sjálft, upplifanir okkar og skynjun. Þeir vildu gera uppreisn gegn ríkjandi hugsunarhætti og afmá öll mörk á milli draums og vöku, ímyndunar og veruleika og koma þannig á svonefndum „ofurveruleika“.

Meðal þess sem hafði áhrif á súrrealistana voru kenningar sálgreinandans Sigmund Freuds (1856–1939) um merkingu drauma og fullyrðing dadaistanna um að listin væri of bundin hefðum. Súrrealistar héldu því fram að uppsprettu sköpunarinnar væri að finna í undirmeðvitundinni, draumum og eðlisávísuninni en ekki frá upplifunum og reynslu. Súrrealistar gerðu furðulegar myndir sem fá áhorfendur til að skoða hluti í nýju samhengi. Þeir voru hrifnir af tilviljanakenndri og óvæntri samsetningu hluta og fyrirbæra.

Einn fremsti súrrealistinn var Salvador Dalí (1904–1989). Á verkum hans eru hlutir oft í eyðilegu landslagi sem minnir á eyðimörk. Hann setti einnig ólíklegustu hluti saman eins og þegar hann skellti stórum humri ofan á síma svo úr varð „ready-made“ verkið Humarsíminn.

Annar þekktur málari þessa tímabils var belgíski listamaðurinn René Magritte (1898–1967). Hann málaði hversdagslega hluti í smæstu smáatriðum og bætti við hlutum úr raunveruleikanum eða úr mannkynssögunni á nýjan og óvæntan hátt. Eitt frægasta verk Magritte er líklega málverk af pípu en undir henni stendur „ceci n’est pas une pipe“ eða „þetta er ekki pípa“.

Rene Magritte
René Magritte, „þetta er ekki pípa“,
Wikipedia

Súrrealisminn náði aldrei fótfestu í íslensku listalífi en þó gætir áhrifa af honum hjá listamönnum á borð við Alfreð Flóka (1938–1987) og Erró (1932) snemma á ferli hans. 

Andy Warhal

Popplist

U.þ.b. 1950–1970

Margir tengja popplistina við Bandaríkin en stefnan er þó upprunnin í Bretlandi í kringum 1950. Eftir lok seinni heimstyrjaldarinnar urðu heilmiklar breytingar á lifnaðarháttum í hinum vestræna heimi. Fjöldaframleiðsla alls kyns neysluvarnings jókst og flestir gátu nú eignast hluti eins og ísskáp, þvottavél, plötuspilara og bíla. En fólk keypti ekki aðeins fleiri hluti heldur horfði meira á sjónvarp, fór oftar í bíó og hlustaði á nýja tónlist. Skemmtanaiðnaðurinn blómstraði. Til varð svokölluð dægurmenning sem á ensku kallast „popular culture“ sem þýðir „vinsæl menning“ og var stytt í „pop culture“. Popp-menningin höfðaði til fjöldans ólíkt hinni hástemmdu list sem aðeins virtist ná til fárra útvaldra og auðugra. Þessi nýja samfélagsgerð gat af sér nýja tegund neytenda: unglinga. Auglýsingar kynntu það sem unga fólkið varð að eignast til að öðlast vinsældir.

Hópi listamanna í London ofbauð þessi vægðarlausa neysluhyggja. Einn þeirra var Richard Hamilton (1922–2011). Gagnrýni hans á neyslusamfélagið kemur vel fram á klippimynd hans Just what is it that makes today’s homes so different, so appealing? sem mætti þýða sem „Hvað er það eiginlega sem gerir nútímaheimilin svona öðruvísi, svona aðlaðandi?“ Verkið er stundum sagt fyrsta popplistaverkið.

Richard Hamilton, Just what is it that makes today´s homes so different, so appealing?
Richard Hamilton, Just what is it that makes today´s homes so different, so appealing?, samklipp, 26 cm x 25 cm, 1956.

Í New York upp úr 1960 voru Andy Warhol (1928–1987), Roy Lichtenstein (1923–1997) og fleiri listamenn að hugsa og vinna á svipuðum nótum. Verk þeirra gerðu skilin á milli hálistar og grafískrar hönnunar eða auglýsingateikningar ógreinileg. List þeirra var nútímaleg og þeir notuðu djarfa og skæra liti, myndmál sem allir þekktu og skildu, ekki ósvipað og gert er í auglýsingum og auglýsingaskiltum.

Warhol, sem sennilega er þekktasti popplistamaðurinn, vann áður við auglýsingateiknun og gluggaútstillingar en sneri sér síðan að eigin listsköpun. Hann var heillaður af frægðinni og sagði eitt sinn að „í framtíðinni munu allir verða frægir í 15 mínútur“. Mörg verk hans fjalla um frægðina og hverfulleika hennar. Þekkt er myndasería hans af Marilyn Monroe (1926–1962) sem hann gerði stuttu eftir dauða hennar. Hann notaði, án leyfis, þekkta ljósmynd af henni og gerði meira en 20 stórar silkiþrykkmyndir þar sem hann litaði andlit hennar í skærum litum og voru engar tvær þeirra eins. Hann gerði svipuð portrett af fleiru frægu fólki. Önnur þekkt verk Warhols eru silkiþrykkmyndir hans af Campbell súpudósum og Coca Cola flöskum. Andy Warhol kallaði vinnustofu sína „The Factory“ eða „Verksmiðjuna“ til að undirstrika að hann fjöldaframleiddi myndir sínar en ólíkt fjöldaframleiðslu, þar sem mannleg hönd kemur sjaldnast nærri, eru öll verk Warhol unnin í höndum.

Andy Warhal
Andy Warhol, Campbell súpudósir, 51 cm × 41 cm, 1962.
Wikipedia

Roy Lichtenstein nýtti sér myndmál teiknimyndasagna í risastór olíumálverk sín. Fyrir tíma stafrænnar prentunar voru prentaðar myndir samsettar úr litlum litapunktum. Lichtenstein málaði alla þessa litlu punkta til að gera málverkin sem líkust myndum í teiknimyndabókum.

Roy Lichtenstein, M-Maybe, 152,4 cm × 152,4 cm, 1965.
Wikipedia

Popplistin hafði áhrif á íslenska listamenn þótt neyslumenningin hafi ekki verið jafnlangt komin hér á landi í upphafi hennar og í Bandaríkjunum. Bragi Ásgeirsson (1931–2016) notaði til að mynda um tíma hluti í verk sín sem hann fann í göngutúrum í fjöru eða víðavangi. Þannig nýtti hann hluti úr neyslumenningunni sem hafði skolað á land. Tryggvi Ólafsson (1940–2019) málaði hluti og tákn úr ýmsum áttum á strigann með sterkum og þekjandi litum. Þekktasti íslenski popplistamaðurinn er þó Erró (1932). Mörg verka hans eru unnin með samklippi, þ.e. úrklippum úr ýmsum áttum sem hann setur saman og málar á strigann. Hann sækir vísanir í dægurmenningu, stjórnmál teiknimyndasögur og auglýsingar, svo eitthvað sé nefnt.


Erró, Desert Storm (Gulf War), málun, 260 cm x 200 cm, 1991.
Listasafn Íslands: LÍ-5583

Shoplifter

Samtímalist

Frá 1950

Hugtakið samtímalist nær yfir list samtímans. Helsta einkenni hennar er frelsi listamannsins til þess að beita ólíkum stíl og tæknibrögðum. Þess vegna er hugtakið samtímalist fremur safnheiti en nafn á tiltekinni stefnu eða stíl.

Listamenn dagsins í dag hafa nánast ótakmarkað val um efnivið og efnistök. Þeir geta málað hefðbundin olíumálverk, tekið ljósmyndir, sýnt gjörninga, unnið vídeóverk eða jafnvel notað demanta og dýrahræ í verk sín eins og listamaðurinn Damien Hirst (1965). Margir samtímalistamenn nota nýja tækni í listsköpun sinni.

Damien Hirst
Damien Hirst, Mother and Child (Divided), hér sést hluti af verkinu. Frumgerðin er frá 1993.

Samtímalist er, rétt eins og eldri list, oft andsvar við eða þróun frá eldri stefnum eða stílum. Listamenn geta tjáð afstöðu sína með verkum sínum eða vakið áhorfendur til umhugsunar. Það gerði listamaðurinn Ólafur Elíasson (1967) þegar hann tók myndir af íslenskum jöklum með 20 ára millibili svo áhorfendur gátu séð hve mikið þeir höfðu bráðnað á þeim tíma. Hann hefur einnig gert verk sem byggja á þátttöku áhorfenda. Stundum virðist samtímalist aðallega ætlað að skapa hughrif og jafnvel skemmta áhorfendum. Verk japönsku listakonunnar Yayoi Kusama (1929) eru auðþekkt á doppunum sem einkenna skúlptúra hennar, málverk, innsetningar, myndskreytingar og jafnvel hana sjálfa. Íslenska listakonan Hrafnhildur Arnardóttir (1969), sem kallar sig Shoplifter, hefur skapað verk úr gervihári sem reyna á skynjun og skilningarvit áhorfenda sem geta stundum farið inn í verkin.

Ólafur Elíasson, Ice Watch,
Ólafur Elíasson, ice Watch, 2014. Innsetning á Place du Panthéon, París, 2015.
Ljósmynd: Martin Argyroglo. Birt með leyfi listamannsins og i8 gallerís.
Vefsíða


Yayoi Kusama, Infinity room, innsetning, 2012.
Vefsíða

Shoplifter
Shoplifter, Hrafnhildur Arnardóttir, Study for an Opera I, hár, textíll, 2009.
Listasafn Íslands: LÍ-9198
Vefsíða

 

Róska

Hugmyndalist á Íslandi

Frá 1960

Í listasögunni bárust nýjustu straumar og stefnur framan af seinna til Íslands en margra nágrannaþjóða. Eftir því sem leið á 20. öldina og íslenskir listamenn ferðuðust meira, lærðu og bjuggu í útlöndum eða unnu með erlendum listamönnum styttist tíminn sem tók nýjustu bylgjur að berast til landsins. Það þýddi þó ekki að allir landsmenn tækju þeim fagnandi. Í lok 6. áratugarins bárust byltingarkenndar hugmyndir um myndlist til landsins einkum með tveimur mönnum sem báðir bjuggu og störfuðu í útlöndum. Annar var Erró (1932) en hinn var Dieter Roth (1930–1998), þýsk-svissneskur listamaður sem átti eftir að hafa gríðarleg áhrif á íslenska samtímalist og bjó á Íslandi um árabil. Hann starfaði með mörgum íslenskum listamönnum í ýmsum kimum lista og handverks og í gegnum hann kynntust þeir áhrifafólki í evrópskri samtímalist og straumum sem kenndir eru við Flúxus sem var alþjóðleg nýtónlistarhátíð sem tengdi saman ýmsar listgreinar. Erró er þekktastur fyrir popplist en á þessum árum vann hann mörg verk í anda hugmyndalistar; tilraunakennd kvikmyndaverk, m.a. með listakonunni Carolee Schneemann (1939–2019) og tók þátt í og stóð fyrir gjörningum, eða því sem á ensku kallast „happenings“.

Ýmsir ungir og róttækir íslenskir listamenn fylgdu í kjölfarið og margir störfuðu og sýndu saman undir undir merkjum SÚM-hópsins frá 1965 og fram á áttunda áratuginn en meðlimir hans voru frumkvöðlar í gjörningum og hugmyndalist hér á landi. Hreyfingin var fremur óformleg en rak um tíma gallerí og stóð fyrir ýmsum sýningum, bæði einkasýningum róttækra listamanna sem og samsýningum. Margir sem störfuðu með hópnum vildu breyta hugmyndum fólks um myndlist og litu á list sem lífsmáta fremur en skrautmuni. Listamenn sem sýndu með hópnum unnu í marga ólíka miðla og kröfðust meira frelsis í listsköpun sinni en almennt tíðkaðist í listsköpun á þeim tíma. Nýlistasafnið var stofnað árið 1978 eftir að SÚM hafði hætt starfsemi og varð þá til nýr vettvangur fyrir róttæka listamenn á Íslandi. 

Einn þeirra sem hefur verið leiðandi í nýlist á Íslandi er Magnús Pálsson (1929) sem vann verk sín í afar fjölbreytt form og tók þátt í starfi SÚM-hópsins um tíma. Hann hefur staðið fyrir gjörningum, búið til skúlptúra, vídeó-verk, bókverk og jafnvel veggfóður. Mörg verka hans eru fyndin og tjá andóf gegn því sem almennt þykir fagurt. Verk hans Bestu stykkin frá 1965 er gott dæmi um slíkt verk en það er gert út gömlum flíkum sem Magnús tróð út með pappír og herti með lími. Pappírsfyllingin var fjarlægð svo ekkert stóð eftir nema innantómar flíkurnar svo úr urðu sérstæðir skúlptúrar. Alls voru þeir 24 talsins og fékk minnsta flíkin og sú slitnasta nafnið Besta stykkið, sú næsta Næstbesta stykkið og sú síðasta Tuttugasta og þriðja besta stykkið. Magnús veitti nýlistadeildinni við Myndlista- og handíðaskólann forstöðu frá stofnun hennar árið 1975 til 1984 og hafði því mikil áhrif á marga upprennandi listamenn.


Magnús Pálsson, Bestu stykkin, þrír skúlptúrar – uppistaða vír, gifsi, pappi og fatnaður, allir holir að innan, 1965.
Nýlistasafnið: N-277

Bræðurnir Kristján (1941) og Sigurður Guðmundssynir (1942) voru meðal þeirra sem tóku þátt í starfi SÚM en báðir settust þeir að í Hollandi. Þeir, ásamt Hreini Friðfinnssyni (1943) áttu mikinn þátt í að tengja SÚM við hollenska samtímalistamenn. Sigurður er þekktastur fyrir ljósmyndaverk sín og skúlptúra. Kristján hefur unnið skúlptúra en er einnig þekktur fyrir teikningar sínar þar sem hann rannsakar tengsl tíma og teikningar og hvernig hægt er að lýsa tíma með línum dregnum á pappír. Ef línan er dreginn hratt dregur pappírinn minna blek í sig en ef hún er dregin hægt. Í verkinu 1440 einnar mínútu línur dró Kristján 60 línur á 24 arkir af A4 blöð en eina mínútu tók að draga hverja línu. Verkið sýnir því heilan sólarhring á myndrænan hátt, þar sem hver lína er ein mínúta, hvert blað klukkustund. 

Sigurður Guðmundsson
Sigurður Guðmundsson, Study for horizon, 1975.

Annar listamaður sem starfaði með SÚM var Róska (Ragnhildur Óskarsdóttir 1940–1996) en hún var ein fárra kvenna sem lét til sín taka í tilraunalist á sjöunda áratugnum. Hún var í andstöðu gegn abstraktlistinni sem var ráðandi hér á landi en vann málverk og teikningar sem fléttuðu saman stjórnmál og list. Konan og hlutverk hennar í samfélaginu er áberandi umfjöllunarefni í verkum Rósku. 

Róska
Róska, Tíminn og ég, akrýlmálverk, 153,5 cm x 170 cm, 1967.
Nýlistasafnið: N234

Rúrí (1951) vakti athygli fyrir gjörninga sína strax á áttunda áratugnum. Verk hennar hafa frá upphafi verið gagnrýnin og hvetja áhorfendur til umhugsunar um gildismat samfélagsins, náttúruna, ofbeldi og ranglæti. Gjörningur hennar og innsetning á verkinu Tileinkun fór fram í og við Drekkingarhyl á Þingvöllum. Gjörningurinn tók 90 mínútur í flutningi og minnti á atburði þegar fjöldagrafir eru opnaðar eftir styrjaldir, en kafarar sóttu stóra poka í hylinn, sem listakonan tók við og kom á börur. Börunum var raðað upp, pokarnir opnaðir en í þeim voru táknrænar líkamsleifar og „kennsl borin“ á þær stúlkur og konur sem líflátnar voru þar á 17. og 18. öld fyrir þunganir og barneignir utan hjónabands.

Rúrí, Tileinkun, gjörningur og innsetning, 2006.
Vefsíða

 

Daði Guðbjörnsson

Málverkið snýr aftur

Frá 1980

Með hinu svokallaða Nýja málverki sem spratt fram á árunum kringum 1980 varð málverkið að aðallistformi margra ungra myndlistarmanna á Íslandi en segja má að það hafi ekki átt upp á pallborðið hjá þeim á tíma hugmyndalistarinnar. Nýja málverkið hafði blómstrað víða í Evrópu sérstaklega í Þýskalandi en þangað fóru margir íslenskir listamenn til náms, auk Spánar, Ítalíu og Frakklands en líka til Bandaríkjanna. Meðal þeirra listamanna sem vöktu að nýju upp málverkið meðal yngri myndlistarmanna voru Helgi Þorgils Friðjónsson, Daði Guðbjörnsson, Jóhanna Kristín Ingvadóttir og Kjartan Ólason. Tjáning listamannanna var hispurslaus þar sem tilvist mannsins og tilvistarkreppa var aðalviðfangefnið. Málverkin voru oft stór og vinnubrögðin groddaleg og kraftmikil. Segja má að nýja málverkið hafi stuðlað að endurkomu málverksins því það opnaði fyrir frjálsa tjáningu og frelsi til þess að fara eigin leiðir í málverkinu. Nýja málverkið var ærslafullt, hrátt og pönkað í nokkur ár en svo fundu flestir listamannanna sinn persónulega stíl og stefnu, ýmist í hefðbundnu málverki, máluðum myndum sem einkenndust af frásögn eða hugmyndamálverkum þar sem hugmyndalist er sett fram í myndrænni framsetningu í málverki. 

Einn þeirra málara sem kom fram á sjónarsviðið í byrjun níunda áratugarins með kraftmikil fígúratíf málverk var Daði Guðbjörnsson (1954). Efnismeðferðin og viðfangsefnið var í anda nýja málverksins, sjálfsprottin tjáning og sterkir litir eins og við sjáum í verkinu Rauð tunga (1982). Síðar átti Daði eftir að þróa með sér persónulegan og mildari stíl sem einkennist af flúri og skrauti sem hann tvinnar saman við stílbrögð sem hann sækir til eldri málara eins og Kjarvals og Svavars Guðnasonar.


Daði Guðbjörnsson, Rauð tunga, olía á striga, 128 x 108 cm, 1982.
Listasafn Íslands: LÍ 8028

Jóhanna Kristín Ingvadóttir (1953–1991) málaði einlæg og tjáningarfull fígúratív málverk sem sýna innri baráttu manneskjunnar, ótta og sorg. Málverk hennar voru oft dökk og jafnvel drungaleg, máluð í anda expressjónisma þar sem kraftmikil teikning, litameðferð og viðfangsefni haldast í hendur. Hún lærði myndlist á Íslandi og í Hollandi og vakti strax mikla athygli fyrir verk sín en listferill hennar var stuttur því hún lést aðeins þrjátíu og sjö ára gömul árið 1991. 

Jóhanna Kristín
Jóhanna Kristín Ingvadóttir, Lára, olía á striga, 150 x 75 cm, 1981.
Listasafn Íslands: LÍ 4300

Helgi Þorgils Friðjónsson (1953) hóf feril sinn með hráum og krafmiklum verkum í anda nýja málverksins. Síðar urðu verk hans margslungnari og vinnubrögðin agaðri. Oft má sjá í verkum hans svífandi naktar mannverur í óræðu landslagi innan um dýr, blóm og ávexti. 


Helgi Þorgils Friðjónsson. Fiskar sjávar, olía á striga, 236 x 205,2 cm, 1995.
Listasafn Íslands: LÍ 6100

Georg Guðni Hauksson (1961–2011) hóf að mála landslagsmálverk um miðjan níunda áratug 20. aldar. Þó að myndefni verkanna sé mannlaus náttúra, fjöll, dalir og heiðalandslag, þá er það þó umfram allt málverkið sjálft sem er markmiðið í list Georgs Guðna. Verkin eru byggð upp með nákvæmri litameðferð og skapa dýpt og birtu í marglaga myndflötinn með hnitmiðuðum pensilstrokum. Muskuleg þoka, mistur og jafnvel drungaleg birta einkenna mörg verka hans sem sum eru stór og dökk. Sjóndeildarhringurinn sem aðskilur himin og haf er áberandi í síðari verkum hans sem hann kemur til skila með næmri tilfinningu fyrir einkennum landsins. Það er óhætt að segja að Georg Guðni hafi með verkum sínum endurvakið íslenska landslagsmálverkið með nýrri sýn á landið. 

Georg Guðni
Georg Guðni Hauksson, Án titils, olía á striga, 210 x 200 cm, 2008.
Listasafn Íslands: LÍ 8916

Kristín G. Gunnlaugsdóttir (1963) stundaði myndlistarnám í Flórens þar sem hún lærði meðal annars aðferðir miðaldamálverksins. Blaðgull, sterkir litir og goðsagnakenndar verur einkenna verk hennar frá níunda áratugnum sem hafa tilvísun í ítalska miðaldamálverkið. Síðar tók við mannlaust og ímyndað landslag sem virðist af öðrum heimi. Þannig sameinaði Kristín aldagamla hefð málverksins og hugmyndalega nálgun samtímans í persónulegri túlkun sem hefur skapað henni sérstöðu í listinni. Seinna vann Kristín hrárri verk, meðal annars útsaumsverk, þar sem hlutverk konunnar er í aðalhlutverki.

Enn þróast málverkið og þeir málarar sem hófu myndlistarferil sinn í kringum aldamótin 2000 fást við afar fjölbreytt viðfangsefni í málverkum sínum og leita í hefðina um leið og þeir fara nýjar leiðir. Stílar og stefnur eru ekki leiðandi heldur hafa listamennirnir frjálsar hendur. Þessi kynslóð listamanna ólst upp með nýja málverkinu og þeirri sjónrænu menningu sem mótuð er af teiknimyndum, teiknimyndasögum, tölvugrafík og götulist. Úðabrúsinn hefur jafnvel tekið við af penslunum í bland við hefðbundnar vinnuaðferðir málverksins.  

 

List um allan heim

259 f.Kr. - ca.1300 e.Kr. Kína, Indland, Ameríka og Afríka

Sú listasaga sem er rakin á þessum vef greinir að mestu frá þjóðum sem flestar eiga það sameiginlegt að hafa búið umhverfis Miðjarðarhaf. Rekja má söguna frá menningarsamfélögum fornaldar við Miðjarðarhaf til samtímalistar. Menning og listir þróuðust engu að síður annars staðar og nægir að líta til Ameríku, Kína og Indlands til þess að gera sér í hugarlund margbreytileikann. Yfirleitt er talið að þessir menningarheimar hafi þróast sjálfstætt og varla vitað hver af öðrum nema í gegnum goðsagnir. Áhrif þeirra á menningu og listir okkar hér á Vesturlöndum eru flókin og margslungin. Hér eru nokkur dæmi um merkilega list í öðrum heimshlutum.

Leirhermennirnir í Kína

259 f.Kr.210 f.Kr.

Leirhermennirnir 8000 í Kína fundust árið 1974 en það var fyrsti keisari ríkisins sem lét útbúa þá og gríðarlegt grafhýsi sem er eins og neðanjarðarhöll. Margt er líkt með grafhýsinu og píramídunum í Egyptalandi en keisarinn ætlaði að lifa þar eftir dauðann. Hermennirnir eru allir í fullri stærð, um 1,70-1,90 cm og úr brenndum leir. Hver og einn þeirra hefur sín sérkenni en hlutverk þeirra var að verja gröfina. Þar er líka að finna leirhesta, þjónustufólk og jafnvel fjöllistafólk og tónlistarmenn sem keisarinn taldi nauðsynlega í handanlífinu. Allar stytturnar eru úr brenndum leir og var hver og ein gerð úr nokkrum hlutum sem voru steyptir í mót en svo var hver stytta sett saman. Leirhermennirnir eru nú dökkir á lit en upphaflega voru stytturnar málaðar og hefur málningin eflaust gert þá enn raunverulegri. Þeir litir hurfu á nokkrum mínútum þegar stytturnar voru grafnar út úr þurrum jarðveginum og komust í tæri við súrefni á ný. Þeir leirhermenn sem þegar hafa verið grafnir upp og skoða má nærri Xi´an í Kína eru aðeins hluti af þeim sem gerðir voru og vitað er að fleiri grafhýsi finnast í nágrenninu.

Ajanta-hellarnir á Indlandi

2. öld f.Kr. – 480 e.Kr.

Mörg af elstu siðmenningarsamfélögum heims voru á Indlandi og á svæðum þar sem nú eru nágrannaríki Indlands. Á svæðinu eru einnig fjögur af stærstu trúarbrögðum heims upprunnin og augljóst að þar hefur verið mikil menningarleg gerjun. Þar er að finna yfir 10.000 ára gamlar hellaristur og list- og fornmuni allt frá þeim tíma. Af mörgu er að taka en hér skoðum við sérstaklega Ajanta-hellana, um 30 manngerða hella sem mynda einskonar þorp í klettum í fjallshlíð í Maharashtra-héraði. Í hellunum er fjöldi höggmynda sem eru höggnar í klettaveggina og aðra steina en einnig málaðar veggmyndir eða freskur. Hellarnir tengjast búddisma sterkum böndum og voru gerðir af munkum. Margar veggmyndirnar segja frá lífi Búdda og kenningum hans en einnig greina þær frá fyrri lífum hans. Listaverkin eru talin undirstaða þeirrar búddísku listar sem við þekkjum fram á okkar daga. Hellarnir fundust aftur árið 1819 og höfðu þá verið huldir sjónum manna í aldir.


Ajanta-hellarnir.

Píramídinn í Chichen Itzá

8. öld–12. öld e.Kr.

Í Ameríku bjó fólk sem kallað hefur verið frumbyggjar álfunnar áður en Evrópumenn námu þar land. Ameríka nær nánast á milli heimsskautanna svo aðstæður á ólíkum svæðum eru afar mismunandi. Nyrst er afar kalt en annars staðar eyðimerkur, regnskógar eða sléttur. Efniviður til listsköpunar var því afar ólíkur eftir svæðum og ekki hægt að segja að ein gerð sé dæmigerðari en önnur. Hér skoðum við píramídann í Chichen Itzá, einni af stærstu borgum Maya en svæðið tilheyrir Mexíkó nú.

Píramídinn var byggður einhvern tímann á milli 8. og 12. aldar e.Kr. og var musteri guðsins Kukulkan sem var fiðraður snákur. Píramídinn sem er byggður í stöllum er 30 m á hæð með musterinu sem er á toppnum. Á hverri af fjórum hliðum hans er 91 þrep og efst er pallur þannig að samtals eru þrepin 365 eða eitt fyrir hvern dag ársins.


Chichen Itza píramídinn í Mexíkó.

Bronshöfuðið frá Ife í Nígeríu

Um 1300 e.Kr.

Elstu listaverk Afríku eru hellaristur eins og víða annars staðar en þar hefur list og sköpun þróast og blómstrað eins og annars staðar. Hér beinum við sjónum okkar að einu af átján bronshöfðum sem fundust í Nígeríu á fyrri hluta 20. aldar en eru talin vera frá um 1300 e.Kr. Ólíkt stílfærðum afrískum grímum á borð við þær sem veittu Picasso innblástur eru bronshöfuðin afar raunverulegar eftirmyndir fólks. Talið er að þau séu af höfðingjanum Oni frá Ife í Nígeríu. Bronshöfuðið er steypt með aðferð sem er kölluð „horfið vax“ og var vel þekkt í Evrópu en ekkert bendir þó til þess að sú verkþekking hafi borist til Nígeríu á þessum tíma. 


Bronshöfuð.