Guðmundur Thoroddsen, Frímínútur, samklipp, vatnslitur og blek, 76,5 x 57 cm, 2017.
Listasafn Íslands: LÍ 9179
SAMKLIPP
UM AÐFERÐINA
Samklipp (collage) er miðill og aðferð í myndlist þar sem úrklippum úr dagblöðum, tímaritum, auglýsingabæklingum eða öðru prentuðu efni, lituðum pappír, miðum og jafnvel umbúðum er raðað saman og það svo límt á tvívíðan flöt. Franska orðið „collage“ er alþjóðlegt heiti yfir samklipp eða klippimynd en límmynd væri þó nákvæmari þýðing því að orðið „coller“ þýðir að líma á frönsku. Tæknin er í eðli sínu einföld og margir hafa gaman að því að spreyta sig á samsetningum klippimynda, það eina sem þarf eru allskonar pappírsúrklippur eða annars konar efni, skæri og lím. Eins hefur stafrænt samklipp færst í aukana.
Gerð klippimynda má rekja langt aftur í tímann og þær má meðal annars finna í japanskri skrautritun frá 12. öld og talið er að evrópskir munkar hafi notað samklipp í handritslýsingum á miðöldum.[1] Það var þó ekki fyrr en í byrjun 20. aldar sem tæknin öðlaðist sess í listasögunni. Flestallir framúrstefnulistamenn á fyrri hluta 20. aldar sem unnu verk undir merkjum dadaisma, súrrealisma og kúbisma heilluðust af samklippinu og þeim möguleikum sem það bauð upp á og fóru að bæta inn í verk sín dagblaðaúrklippum, pappírsbútum úr daglega lífinu eins og lestarmiðum, spilum, kortum, rifnum umbúðapappír og öðru sem féll til. Aðferðin hentaði vel viðfangsefnum þeirra sem sneru gjarnan að þjóðfélagsgagnrýni og beindust gegn hefðbundnum viðhorfum til lista með nýrri efnisnotkun og aðferðum. Klippimyndin bauð upp á nýja möguleika, nýtt myndmál og mörg sjónarhorn þar sem hlutir voru settir í nýtt samhengi.
Upphaf samklipps í myndlist er rakið til þess þegar kúbistarnir Pablo Picasso (1881–1973) og George Braque (1882–1963) fóru að líma aðskotahluti inn á myndflötinn árið 1912 en aðferðina nefndu þeir „papiers collés“ eða álímda pappíra.[2]
Eitt af fyrstu samklippsverkunum sem vitað er um er Uppstilling með tágafléttuðum stól (Nature-morte à la chaise cannée) frá 1912. Þar notar Picasso utanaðkomandi efni eins og bút af fléttaðri stólsetu sem hann bætir inn í kyrralífsmynd í kúbískum stíl og rammar svo sporöskjulaga myndina inn með kaðli.[3]
Í lítilli klippimynd eftir Picasso er nefnist á ensku „bottle of vieux marc glass guitar and newspaper“ má sjá hvernig hann blandar saman úrklippum, pappírsbútum og línuteikningu. Formin eru sýnd frá mörgum sjónarhornum í anda kúbisma.
[1] Laufey Helgadóttir, „Klippimyndasmiðurinn Erró“, Tímarit máls og menningar. 73.árg. 3. hefti, 2010, 53
[2] Sama heimild
[3] Sama heimild, 54
Jean Hans Arp, Klippimynd raðað eftir lögum tilviljanna, 48,6 x 34,6 cm, 1916–1917.
Scalarchives, Digital image, The Museum of Modern Art, New York/Scala, Florence.
Abstrakt samklipp „Án titils“ eftir fransk/þýska listamanninn Jean Hans Arp (1886-1966) er annars eðlis þar sem hann notar ekki úrklippur eða annað prentefni heldur klippir úr bláa og hvíta fleti sem hann raðar á gráan grunn.
Þýski myndlistarmaðurinn Kurt Schwitters (1887–1948) vann í marga miðla á sínum ferli en hann er þekktastur fyrir samklipp. Hann var frumvöðull þess að blanda saman úrklippum og abstrakt formum. Schwitters notaði alls konar pappírsrusl í verk sín sem hann vann í anda dadaisma en í þeim fólst oft ádeila á þjóðfélagsmál og ekki síst grimmdarverk fyrri heimstyrjaldarinnar. Í sumum verka hans sést hvernig hann raðar saman dagblaðaúrklippum, miðum og bréfasnifsum á skipulagðan hátt svo útkoman verður abstrakt og letur og texti leikur mikilvægt hlutverk.
Kurt Schwitters, Án titils, klippimynd, 21.6 x 16.8 cm, 1926.
Scalaarchives, Christie’s Images, London/Scala, Florence.
Henri Matisse, Memory of Oceania, 284.4 x 286.4 cm, 1952-1953.
Scalarchives, Digital image, The Museum of Modern Art, New York/Scala, Florence.
Seint á ferli sínum fór franski listmálarinn Henri Matisse (1869–1954) að gera klippiverk þar sem hann notaði pappír og gvassliti í litrík verk þar sem plöntur, dýr, fígúrur og form spruttu fram. Hann málaði litafleti í ótal litbrigðum á pappírsarkir og klippti út form sem hann svo límdi á blað.
Íslenskir myndlistarmenn voru ekki eins áhugasamir um samklipp og erlendir kollegar þeirra á þessum tíma. Þó eru dæmi um að listamenn hafi unnið klippimyndir samhliða annarri listsköpun eða við undirbúning málverka. Þeirra á meðal voru Gunnlaugur Scheving, Þorvaldur Skúlason og fleiri sem unnu samklipp á árunum í kringum 1950.
Það voru því nýmæli þegar Nína Tryggvadóttir (1913–1968) sýndi eingöngu samklipp í geómetrískum stíl á sýningu í Listvinasalnum í Reykjavík árið 1952. Í verkunum raðar hún saman marglitum pappírsbútum á hvítan grunn og málar svartar línur milli litaflatanna sem mynda þannig eins konar grind utanum þá. Þessi vinnubrögð lögðu grunninn að gerð steindra glugga sem hún hóf að vinna árið 1953 þar sem blýbönd glermyndanna koma í stað máluðu línanna í pappírsverkunum.[1]
[1] Hanna Guðlaug Guðmundsdóttir, „Sýningar á geómetrískri list“, Íslensk listasaga III, Forlagið og Listasafn Íslands, 2011, 84
Mynd: Nína Tryggvadóttir, Abstraktsjón, samklipp og tusk á pappír, 31,5 x 30,5 cm, 1955.
Listasafn Íslands: LÍ 5942
Eitt elsta samklippið sem þekkt er hér á landi er verkið Sjöundi dagur í Paradís frá 1920 eftir Guðmundur Thorsteinsson (1891–1924) eða Mugg eins og hann var jafnan kallaður. Verkið er gert aðeins átta árum eftir að Picasso og Braque fundu upp formið og því gæti það frekar verið skyldara eldri klippiverkum frekar en samklippi. Eins og t.d. klippimyndum H.C. Andersen sem vann slík verk næstum 100 árum fyrr.
Verkið er sett saman úr lituðum og mynstruðum pappír bæði möttum og glansandi, myndefnið er trúarlegt og sýnir síðasta dag sköpunarinnar. Klipptir pappírsbútarnir, form og litafletir mynda fallegt samspil sem sýnir vel þá möguleika sem felast í samklippinu. Muggur var fjölhæfur listamaður sem vann með alls konar efni eins og til dæmis bútasaum, útskurð og fleira auk þes að gera málverk og teikningar.
Popplist
Popplist er listastefna eða hreyfing í listum sem kom fyrst fram í Bandaríkjunum og síðar í Bretlandi á árunum 1950–1960. Hún beindist að neyslumenningu og því sem var vinsælast í borgarmenningunni á þeim tíma. Samklipp hafði sterka tengingu við popplist enda hentaði það vel hugmyndum og vinnuaðferðum þeirra listamanna sem tengdust hreyfingunni, þeir tóku því aðferðinni fagnandi og fóru að klippa saman alls konar búta og úrklippur þar sem lífshættir nútímamannsins, tækninýjungar og neysla var aðalinntakið.
Samklipp breska listmálarans Richards Hamiltons (1922–2011) Just what is it that makes today´s homes so different, so appealing? frá árinu 1956 er talið eitt af fyrstu popplistaverkunum. Þar má sjá úrklippur sem sýna tækninýjungar þess tíma eins og til dæmis sjónvarp og segulbandstæki eins og annað sem tengist lífsstíl nútímamannsins.
Richard Hamilton, Just what is it that makes today´s homes so different, so appealing? 1992. Prentun af upprunalegu verkinu sem er frá 1956.
Scalarchives, Image copyright The Metropolitan Museum of Art/Art Resource/Scala, Florence.
Robert Rauschenberg, Factum I, 155.9 x 90.2 cm, 1957.
Scalarchives, Digital image, The Museum of Modern Art, New York/Scala, Florence.
Bandaríski listmálarinn og skúlptúristinn Robert Rauschenberg (1925–2008) var einn af forsprökkum popplistarinnar. Í verkinu Factum I blandar hann saman málverki, úrklippum og ljósmyndum sem hann átti svo eftir að þróa enn frekar síðar í verkum sem hann vann með þrykktækni eins og verkið Signs er gott dæmi um. Þar klippir hann saman ljósmyndir og blaðaúrklippur sem sýna það sem efst var á baugi í heimsmálunum og blandar saman vísunum í stjórnmál, hermennsku og geimferðir.
Robert Rauschenberg, Signs, 109.2 x 86.4 cm, 1970.
Scalarchives, Digital image, The Museum of Modern Art, New York/Scala, Florence.
Erró, án titils, samklipp, 32,2 x 24,8 cm, 1958.
Listasafn Íslands: LÍ 4826
Sá íslenski myndlistarmaður sem hefur verið afkastamestur við gerð samklippsverka er Guðmundur Guðmundsson, Erró (1932). Hann gerði fyrstu klippimyndirnar árið 1958 og síðan þá hefur samklipp verið mikilvægur þáttur í listsköpun hans bæði við vinnslu og endanlega gerð málverka. Ferð Errós til New York árið 1963 þar sem hann kynntist popplist og helstu forsprökkum hennar varð til þess að hann ákvað endanlega að nota klippimyndir sem grunn fyrir málverkin. Sjálfur hefur hann sagt að klippimyndin sé frummyndin og málverkið eftirmyndin.[1] Hann líkti gerð þeirra við ósjálfráða skrift og segir að samklippin verði til eins og í algleymi á mörkum draums og veruleika.[2] Hann hélt klippimyndunum lengi vel aðeins fyrir sjálfan sig og leit ekki á þær sem sjálfstæð listaverk heldur sem undirbúning við gerð málverkanna. Síðar breyttist þessi afstaða hans og árið 2009 gaf hann stórt safn samklippsverka til Pompidou safnsins í París.[3] Við vinnslu verkanna safnar Erró saman alls konar myndefni og úrklippum og skeytir saman skylt og óskylt efni sem hann svo ljósmyndar og yfirfærir á málarastrigann. Þannig verður til ný margslungin og litrík frásögn sem varpar ljósi á stríð, pólitík, listasögu og liðna viðburði í heimssögunni.
[1] Laufey, 59
[2] Laufey, 58
[3] Laufey, 55
Á fyrstu SÚM-sýningunni sem haldin var í Ásmundarsal árið 1965 sýndi Sigurjón Jóhannsson (1939) verk sem unnin voru með samklippstækni í anda popplistar. Sigurjón hafði kynnst popplist þegar hann var við nám í Bretlandi og hann leitar greinilega í smiðju breska listamannsins Richard Hamilton (1922–2011) í verkinu Hvað er að? Eins og Hamilton setur hann saman úrklippur úr tímaritum, aðallega auglýsingar, þar sem nútímaheimilið og lífið innan þess er viðfangsefnið og vísað er til neyslumenningar samtímans.
Sigurjón Jóhannsson, Hvað er að? Olía og samklipp á spónaplötu, 70 x 100 cm, 1965.
Listasafn Íslands: LÍ 4398
Magnús Kjartansson, Tvö SS í morgunleikfimi, samklipp, 122 x 110 cm, 1976.
Listasafn Íslands: LÍ 3842
Um miðjan áttunda áratug 20. aldar varð samklippið nokkuð vinsælt meðal ungra listamanna á Íslandi. Magnús Kjartansson (1949–2006) var einn þeirra sem nýtti sér tæknina í fjölbreyttum verkum. Hann safnaði gjarnan saman pappírsbútum sem tengdust honum persónulega, eins og úrklippum úr blöðum, sporvagnamiðum, bútum úr veggfóðri, gosdrykkjamiðum og kaffipokum. Hann klippti, raðaði og límdi á málaðan grunn með tilliti til myndbyggingar og lita.[1] Í sumum verka hans má finna vísanir í landslag en í öðrum birtast einskonar myndasögur þar sem ólíkum myndbrotum er skeytt saman. Kunnugleg tákn úr umhverfinu og auglýsingaheiminum vísa í hlutveruleikann, ofneyslu og margbreytileika þjóðfélagsins á gagnrýninn hátt.[2]
[1] Aðalsteinn Ingólfsson, „Um samklippingar Magnúsar að Kjarvalsstöðum“. Dagblaðið 8. nóvember 1976
[2] sama heimild
Björg Þorsteinsdóttir (1940–2019) sem er þekktust fyrir grafíkverk og málverk notaði handunninn japanskan pappír sem hún litaði sjálf í samklipp eða „collage“ verk sem hún sýndi í Ásmundarsal árið 1985. Pappírinn litaði hún sjálf með vatnslitum, olíulitum eða gvasslitum. Áður hafði hún notar aðferðina við undirbúning annarra verka sinna en ekki sem sjálfstæð verk. Sum verkanna eru stór og pappírsbútarnir hanga lausir sem gefur verkunum ákveðinn léttleika.[1]
[1] „Eldflugan bálar“, Björg Þorsteinsdóttir segir frá verkum sínum. DV.18. apríl 1985
Björg Þorsteinsdóttir, Svif í grænu, samklipp, 1984.
Listasafn Íslands: LÍ 9444
Guðmundur Thoroddsen, Steggjun, Samklipp, 76,5 x 57 cm, 2017.
Listasafn Íslands: LÍ 9178
Guðmundur Thoroddsen (1980) er þekktur fyrir málverk og pappírsverk sem hann vinnur með klippitækni en hann vinnur líka skúptúra úr leir. Hann klippir út form, fígúrur og hluti sem hann hefur teiknað, litað og málað og límir á myndflötinn. Þannig skapar hann líflegar og óræðar frásagnir sem fjalla á spaugilegan hátt um karlmennsku og karlmennskuímyndir.