GRÍMA

STUTT LÝSING

Nemendur búa til grímur með alls kyns mynstrum.

Erro

HÆFNIVIÐMIÐ

Sameiginleg hæfniviðmið fyrir list- og verkgreinar

Við lok 4. bekkjar getur nemandi t.d.:

 • unnið eftir einföldu ferli frá hugmynd til afurðar,
 • hagnýtt þá leikni sem hann hefur öðlast í einföldum verkefnum,
 • útskýrt á einfaldan hátt áhrif vinnu sinnar á umhverfið,
 • tjáð sig á einfaldan hátt um viðfangsefni sitt,
 • gengið frá eftir vinnu sína,
 • lagt mat á eigin verk.

Hæfniviðmið fyrir sjónlistir

Við lok 4. bekkjar getur nemandi t.d.:

 • nýtt sér í eigin sköpun einfaldar útfærslur sem byggja á færni í meðferð lita- og formfræði og myndbyggingar,
 • tjáð tilfinningar, skoðanir og hugmyndaheim sinn í myndverki á einfaldan hátt,
 • útskýrt og sýnt vinnuferli sem felur í sér þróun frá hugmynd að myndverki.
 • þekkt og notað hugtök og heiti sem tengjast lögmálum og aðferðum verkefna hverju sinni,
 • fjallað um eigin verk og annarra.
Hæfniviðmið fyrir samfélagsgreinar

Við lok 4. bekkjar getur nemandi t.d.:

 • bent á tengsl valinna þátta í samfélagi, náttúru, trú og lífsviðhorfi, einkum í nærsamfélaginu (Reynsluheimur)
 • bent á dæmi um hvernig sagan birtist í munum og minningum (Reynsluheimur)

KVEIKJA

Skoðið myndir af grímum frá ýmsum löndum og ræðið um þær. Af hverju ætli þær hafi verið gerðar? Ræðið um hverjir það eru sem ganga með grímur og hvers vegna, Hvernig eru grímurnar skreyttar? Hvaða form sjá þau? Eru það grunnform eða náttúruleg form? Mynda formin mynstur? Ræðið um liti, hvort notaðir séu frumlitir eða blandaðir litir.

FRAMKVÆMD

Nemendur teikna grímu á stíft karton (t.d. úr pappakössum). Hægt er að nota skapalón til að miða út augu, nef og lágmarksstærð til að gríman passi og nemendur teikni ekki of lítið eða of stórt. Þau geta þó breytt laginu á þeim ef þau vilja t.d. með því að teikna horn eða aðra útúrdúra. Nemendur teikna því næst form og mynstur á grímurnar og lita með litum (s.s. Neocolor I). Það er um að gera að vanda sig að lita til að formin og mynstrin njóti sín.

Að þessu loknu klippa nemendur grímurnar út en kennari sér síðan um að skera út fyrir augum og nefi og setja teygju í grímurnar.

Ef tími vinnst til má skreyta grímurnar enn frekar með alls konar hlutum s.s. fjöðrum, baunum, garni o.fl. Þá er best að lakka yfir með glæru vatnslakki. Nemendur geta útbúið leikrit út frá grímunum.

UMRÆÐUSPURNINGAR

Hverjir ganga með grímur?
Hvers vegna ganga sumir með grímur?
Hvernig eru grímur stundum skreyttar?
Hvernig eru grímurnar á litinn?

ALDUR

Yngsta stig

GRUNNÞÆTTIR

Læsi, sjálfbærni, sköpun

FJÖLDI KENNSLUSTUNDA

3 x 80 mínútur

ÞVERFAGLEG TENGING

T.d. samþættingarverkefni sjónlista og samfélagsgreina

EFNI OG ÁHÖLD

blýantar (og strokleður ef þarf)
grímuskapalón (ef vill)
litir s.s. Neocolor I
rúnnuð teygja
skæri
stíft karton (t.d. pappír úr tómum kössum)

HUGTÖK

annars stigs litir
frumlitir
grunnform
mynstur
náttúruleg form
þriðja stigs litir

LISTAMENN

Að eigin vali

LISTASAGA

Að eigin vali

HÖFUNDUR

ⓒ Sigrún Ólafsdóttir
Menntamálastofnun 2022