GRUNNFORM – klippimynd

STUTT LÝSING

Nemendur útbúa klippimynd úr grunnformum og skoða muninn á heitum og köldum litum.

HÆFNIVIÐMIÐ

Sameiginleg hæfniviðmið fyrir list- og verkgreinar

Við lok 4. bekkjar getur nemandi t.d.:

  • unnið eftir einföldu ferli frá hugmynd til afurðar,
  • hagnýtt þá leikni sem hann hefur öðlast í einföldum verkefnum,
  • tjáð sig á einfaldan hátt um viðfangsefni sitt,
  • gengið frá eftir vinnu sína,
  • lagt mat á eigin verk.

Hæfniviðmið fyrir sjónlistir

Við lok 4. bekkjar getur nemandi t.d.:

  • nýtt sér í eigin sköpun einfaldar útfærslur sem byggja á færni í meðferð lita- og formfræði og myndbyggingar,
  • skapað myndverk í ýmsum tilgangi með margvíslegum aðferðum,
  • útskýrt og sýnt vinnuferli sem felur í sér þróun frá hugmynd að myndverki.

KVEIKJA

Kennari sýnir nemendum verk eftir listamenn sem nota grunnform. Rætt um hvaða grunnform sjáist á myndunum, stærð lögun, litanotkun, litatóna og/eða heita og kalda liti.

FRAMKVÆMD

Nemendum er skipt í þrjá hópa.

Einn hópur fær bakka með gulum og rauðum þekjulit og hver nemandi málar eins marga appelsínugula litatóna og hægt er á A3 pappír og fyllir algerlega út allt blaðið. Óþarfi er að blanda tónana í bakkanum heldur má dýfa penslinum í litina og blanda þeim um leið og málað er. Þau sem eru snögg geta gert fleiri blöð, jafnvel bara í grunnlitum. Annar hópurinn fær gulan og bláan og gerir græna litatóna og þriðji hópurinn fær rauðan og bláan og gerir fjólubláa litatóna. Blöðin eru látin þorna þar til í næsta tíma.

Fyrir næsta tíma sker kennarinn máluðu arkirnar niður í ca A5 eða A4 stærð (fer eftir nemendafjölda). Nemendur fá allir eina örk í hverjum lit. Þau teikna grunnform á bakhlið blaðanna og klippa út (nýta blöðin vel). Síðan raða nemendur grunnformunum á karton og líma niður með límstifti. Einnig má nota málað undirlag í stað kartons.

Útfærsla klippimyndanna getur verið mismunandi t.d.:

Áhersla á litatóna: Nemendur nota grunnform í einum litatóni og líma á karton í sama litatóni eða andstæðum lit.
Áhersla á heita og kalda liti: Nemendur velja sér grunnform, annað hvort í heitum eða köldum litum og líma á heitt eða kalt karton. Sumir geta verið með heit form á heitum grunni eða heit form á köldum grunni eða öfugt.
Nemendur hafa frjálsar hendur með það hvernig þeir raða formunum, hvort þeir vinni hlutbundið eða óhlutbundið.

GÓÐ RÁÐ:

Gott er að nemendur hafi lítið box til að safna útklipptu formunum í.
Gott er að safna máluðum afklippum og gömlum ómerktum þekjulitamyndum og nýta í klippiverkefni.

UMRÆÐUSPURNINGAR

ALDUR

Yngsta stig

GRUNNÞÆTTIR

Læsi, sköpun

FJÖLDI KENNSLUSTUNDA

2-3 x 80 mínútur

ÞVERFAGLEG TENGING

Samþættingarverkefni sjónlista og annarra greina eftir því hvernig verkefnið er útfært

EFNI OG ÁHÖLD

A2 karton í litatónum og/eða heitum og köldum litum
breiðir penslar
hvít blöð 120-170 gr., stærð 32 × 45 cm eða A3 til að mála á
litahringur til útprentunar (ef vill)
límstifti
skæri
þekjulitir í grunnlitum

HUGTÖK

grunnform
heitir litir
kaldir litir
litatónn

LISTAMENN

Að eigin vali

LISTASAGA

Að eigin vali

HÖFUNDUR

ⓒ Sigrún Ólafsdóttir
Menntamálastofnun 2022