A

Alfreð Flóki Nielsen

(1938–1987)

Fæddur í Reykjavík

Miðlar: málaralist

Þegar Alfreð Flóki var lítill langaði hann að verða trúður í fjölleikahúsi þegar hann yrði stór. (1) Það gekk ekki eftir en í staðinn bjó hann til sína eigin ævintýraveröld gegnum myndirnar sem hann teiknaði. Fyrsta sýning Alfreðs Flóka vakti mikla athygli í Reykjavík enda líktist hún engu sem fólk hafði séð áður. Hún var haldin árið 1959 í Bogasal Þjóðminjasafnsins og voru bæði stíllinn og viðfangsefnin framandi. Meðal gesta á sýningunni var Kjarval sem horfði víst vel og lengi á hvert verk og sagði að myndirnar væru alveg gilligogg.(2) Hvað Kjarval átti við vitum við ekki en víst er að myndlistin hreyfði við fólki sem bæði dáðist og hneykslaðist á listamanninum og myndlistinni hans. Alfreð Flóki klæddist iðulega grænum flauels jakkafötum og stórri þverslaufu. 

Alfreð Flóki stundaði nám í myndlist í Reykjavík og Kaupmannahöfn þar sem hann bjó lengi. Hann var feiminn að eðlisfari en fór sínar eigin leiðir í myndlistinni. Í myndum hans eru konur oft í forgrunni, myndirnar eru stundum ógnvekjandi og dálítið grófar. Furðuverur, dulspeki, dauðinn, vísar í kynlíf og ýmis tákn koma fyrir í myndunum. Alfreð Flóki varð fyrir áhrifum frá hreyfingum í málaralist sem kenndar eru við súrrealima og expressionisma, meðal þeirra sem talið er að hann hafi orðið fyrir innblæsti af eru Otto Dix, Salvador Dalí, Aubrey Beardsley og Rene Margitte

Blóm flagarans er teikning í eigu Listasafns Íslands eftir Alfreð Flóka sem ber öll helstu höfundareinkenni hans: mynd af konu þar sem fegurð og ljótleiki kallast á og myndin er dularfull og myrk.

Alfreð Flóki, Blóm flagarans, blek á pappír, 41 x 38 cm, 1966.
LÍ 1326

 

  1. Jóhann Hjálmarsson. Alfreð Flóki Teikningar. 1963. Reykjavík.
  2. Nína Björk Árnadóttir, sýningarskrá Listasafns Reykjavíkur, Alfreð Flóki, verk úr eigu Listasafns Reykjavíkur ágúst – október 1992.

Anna Líndal

(1957)

Fædd að Lækjarmóti í Víðidal

Miðlar: textíllist, skúlptúr, vídeólist, innsetningar.

Anna Líndal lærði myndlist í Reykjavík, Antwerpen, London og Berlín eftir að hafa klárað fataiðn í Iðnskólanum í Reykjavík árið 1978. Framan af ferli sínum vann hún mikið með heimilislíf og hversdagsleikann í verkum sínum og tvinnaði saman textíl og umfjöllun um samfélagið. Íslensk hannyrðahefð og kynjahlutverk voru áberandi. Sem dæmi er verkið Eldhúslíf þar sem gafflar eru vafðir með tvinna í mörgum litum. Verkið minnir okkur á mikilvægi vinnu kvenna inni á heimilunum í áranna rás. 

Á síðari árum hefur náttúran og náttúruvísindi orðið fyrirferðameiri í verkum Önnu en hún hefur farið með náttúruvísindamönnum á hálendi Íslands frá árinu 1986, fylgst með vinnu þeirra og fengið hugmyndir og efnivið í ný verk. Árið 2017 var yfirlitssýning á 30 ára myndlistarferli Önnu í Listasafni Reykjavíkur sem bar heitið Leiðangur. Þar gat að líta verk sem urðu til í kjölfar jöklaleiðangra þar sem hún bjó til handsaumuð landakort.

Anna Líndal, Eldhúslíf, skúlptúr, blönduð tækni, 1994.
LÍ 7312

J

Jóhann Briem

(1907–1991)

Fæddur að Stóra Núpi í Gnúpverjahreppi

Miðlar: málaralist

Jóhann ólst upp í sveit þar sem hann sinnti sveitastörfum á sumrin en gekk í skóla á veturna. Einar Jónsson myndhöggvari ólst upp á næsta bæ og Ásgrímur Jónsson málari var tíður gestur á heimilinu. Jóhann hafði því nálægar fyrirmyndir í æsku en hann byrjaði snemma að teikna og mála. 13 ára flutti hann til Reykjavíkur og byrjaði í teiknitímum hjá Jóni bróður Ásgríms. Eftir stúdentspróf árið 1927 stundaði hann nám í málaralist fyrst í Reykjavík en svo í Dresden í Þýskalandi. Árið 1934 flutti Jóhann heim til Íslands og hélt sína fyrstu sýningu í Góðtemplarahúsinu sem vakti mikla athygli. Þá stofnaði hann málaraskóla ásamt Finni Jónssyni sem var rekinn til ársins 1940.

Miklar hræringar voru í listalífinu í Reykjavík á þessum tíma. Jóhann var formaður nýstofnaðs Bandalags íslenskra listamanna (BÍL) á árunum 1941-3. Hann ásamt fleiri myndlistarmönnum háði ritdeilu við Jónas frá Hriflu sem hafði ráðist á málara sem voru að prófa sig áfram með nýja hluti í málaralistinni. Jónas setti upp háðssýningu á verkum nokkurra listamanna í Alþingishúsinu og upp spratt Listamannadeilan, deila milli þjóðlegra gilda Jónasar og kröfu listamanna um frelsi til að gera það sem þeim sýndist í listinni. 

Árið 1944 var Jóhann fenginn til að gera málverk í forsal Laugarnesskóla og áttu þau að vera úr íslensku þjóðlífi og þjóðsögum. Auk þess málaði hann altaristöflur í nokkrar kirkjur og myndskreytti fjölda bóka. Jóhann málaði frá mars og fram á haust, aldrei á veturna en hann lét dagsbirtuna stýra ferðinni. Á veturna kenndi hann teikningu í gagnfræðaskóla Vesturbæjar. Verk Jóhanns eru litrík og frekar einföld ásýndar. Litavalið var oft óvenjulegt, grænir hestar eða bleikt gras. Hann málaði sveitalíf, dýr og fólk við vinnu en leitaði líka í brunn ævintýra og þjóðsagna í myndum sínum. Jóhann ferðaðist til Palestínu árið 1951 sem var svo óvenjulegt á þeim tíma að um það var skrifað í blöðin. Hann ferðaðist líka til Sýrlands, Líbanon og Egyptalands.  Á ferðalögunum sá hann nýja liti og öðruvísi líf sem hann notaði sem efnivið í þó nokkur málverk. Í safneign Listasafns Íslands eru  19 verk eftir Jóhann. Eitt þeirra kallast Svört fjöll og er frá árinu 1963. Verkið er í Safnahúsinu á sýningunni Fjársjóður þjóðar.

Jóhann Briem, Svört fjöll, olíumálverk, 70 x 65 cm, 1963.
LÍ 1252

Jóhanna Kristín Ingvadóttir

(1953–1991)

Fædd í Reykjavík

Miðlar: málaralist

Þegar Jóhanna hélt sína fyrstu sýningu í Reykjavík árið 1983 vöktu verk hennar mikla athygli. Hún hafði lært myndlist í Myndlistar- og handíðaskólanum og síðar í Ríkisakademíunni í Amsterdam. Hún bjó líka vetrarlangt í Svíþjóð og Sikiley. Jóhanna sagðist vera alltaf að mála sjálfa sig og tilfinningar sínar en myndirnar hennar eru óvenju dökkar og oft drungalegar. Hún hefði ekkert um verkin að segja, þau töluðu sínu máli sjálf. Hún sagðist ekki vera orðsins manneskja og feimin að eðlisfari. (1) 

Jóhanna Kristín var virk í sýningahaldi á 9. áratugnum og hélt sig alla tíð við expressíónískan stíl og málaði fólk, aðallega konur og börn. Hún glímdi við veikindi og lést fyrir aldur fram aðeins 37 ára árið 1991. Þrátt fyrir stutta ævi skildi hún eftir sig stórt safn verka með mjög sterk og sérstök höfundareinkenni. Yfirlitssýningar á verkum hennar voru haldnar á Kjarvalsstöðum árið 1992, í Gerðarsafni árið 2013 og á Listasafni Íslands árið 2019. Listasafn Reykjavíkur og Listasafn Íslands gáfu út bækur í tilefni af sýningunum um Jóhönnu og verk hennar. Í safneign Listasafns Íslands eru fimm verk eftir Jóhönnu Kristínu. Eitt þeirra er í Safnahúsinu á sýningunni Fjársjóður þjóðar og kallast Á ögurstundu

  1. Heimsmynd. 6. tbl. 2. árg. November 1987

Jóhanna Kristín Ingvadóttir, Á ögurstundu, olía á striga, 190 x 190 cm, 1987.
LÍ 5602

Jóhannes Sveinsson Kjarval

(1882–1972)

Fæddur í Meðallandi í V-Skaftafellssýslu

Miðlar: málaralist

Þegar Jóhannes Sveinsson Kjarval var fimm ára var hann sendur í fóstur til Borgarfjarðar Eystri en foreldrar hans voru fátækir og áttu 13 börn. Þar var hann umkringdur náttúru og fór snemma að teikna. Hann flutti til Reykjavíkur árið 1902 og sameinaðist þar fjölskyldu sinni. Jóhannes réði sig á skútu árið 1905 og málaði víst mikið á sjónum. 1911 sigldi hann til London og þaðan ári síðar til Kaupmannahafnar þar sem hann stundaði nám í myndlist. Hann giftist danskri konu sem hét Tove og þau fluttu heim til Íslands árið 1922. Þau eignuðust tvö börn sem Tove tók með sér til Danmerkur eftir að þau skildu árið 1924.

Þegar lesið er um Kjarval í blöðum og bókum er hann iðulega ávarpaður meistari Kjarval og segir það sögu um hversu mikil virðing var borin fyrir honum. Meistari Kjarval var sérstakur maður og dálítill sérvitringur. Hann notaði orðið gillígogg við ýmis tækifæri, t.d. þegar hann var yfir sig hrifinn af einhverju, og sagði aðspurður að þetta væri alíslenskt orð þótt hann hafi búið það til yfir allt það „sem gott er, halló, húrra og bravó, glym hill og bikini“. (1) Kjarval tók oft leigubíl á Þingvöll eða annað út fyrir bæjarmörkin og setti upp trönurnar sínar til að mála. Svo biðu leigubílstjórarnir heilu og hálfu dagana eftir að hann væri búinn að mála. Á sumrin var hann margar vikur úti á landi, bjó oft í tjaldi og málaði úti í öllum veðrum. 

Í ævisögu sinni segir Erró frá því hvað Kjarval hafði mikil áhrif á hann í æsku. Hann lýsir því hvernig var að fá Kjarval í heimsókn í sveitina á sumrin og sagði að það hafi ævinlega verið uppi fótur og fit þegar Kjarval mætti á drossíu frá Reykjavík, rétt eins og þjóðhöfðingi væri á ferð. (2)

Kjarval sagði að íslensk náttúra yrði sinn skóli og eftir 1930 einbeitti hann sér nær eingöngu að náttúrunni í sínum myndum. Auk þess teiknaði hann andlitsmyndir. Sagt er að Kjarval hafi kennt Íslendingum að meta náttúru landsins. Hann horfði niður á landið og málaði mosa og steina og stundum læddust furðuverur inn í málverkin. Kjarval er ástsælasti málari þjóðarinnar og þegar fyrsta byggingin var reist í Reykjavík fyrir myndlist, var hún nefnd eftir Kjarval, Kjarvalsstaðir sem tilheyra Listasafni Reykjavíkur. 

Eitt af verkum Kjarvals sem er í eigu Listasafns Íslands kallast Reginsund og er málað eftir draum sem konunni hans dreymdi. Myndin er þakklætisvottur Kjarvals til Tove og var máluð árið 1938. (3)

  1. Morgunblaðið. (8. september 1965). Gilligogg.
  2. Aðalsteinn Ingólfsson. (1991). Erró. Margfalt líf. Mál og menning: Reykjavík
  3. Dagný Heiðdal, Halldór Björn Runólfsson, Steinar Örn Erluson, Svanfríður Franklínsdóttir. 130 verk úr safneign Listasafns Íslands. (2019). Reykjavík: Listasafn Íslands.

Kjarval, Reginsund, olía á striga, 161 x 115 cm, 1938.
LÍ 1146

Jón Engilberts

(1908–1972)

Fæddur í Reykjavík

Miðlar: málaralist

Jón Engilberts byrjaði að hugsa um myndlist þegar hann var mjög lítill og sá alltaf fyrir sér myndir þegar amma hans las fyrir hann sögur um álfa og huldufólk. Jón lærði fyrst myndlist hjá Muggi, í Teikniskóla Guðmundar Thorsteinssonar en hélt síðar til Kaupmannahafnar og Osló þar sem hann hélt áfram námi. Málverkin hans voru undir áhrifum stéttabaráttu og þjóðfélagshræringa þess tíma á Norðurlöndunum en seinna meir breyttust viðfangsefni hans, fyrst í átt að náttúrunni, síðar urðu þau meira abstrakt.

Árið 1943 hélt hann sína fyrstu sýningu í Reykjavík eftir dvölina í útlöndum. Auk þess voru verk hans sýnd á Norðurlöndunum og greindu íslensk dagblöð frá því að þau hafi vakið mikla athygli. Verkin væru ævintýraleg, fögur og ljómandi var skrifað um þau í Kaupmannahöfn árið 1952. (1)

Eitt af verkum Listasafns Íslands eftir Jón fjallar um vinnandi fólk en það málaði hann á námsárunum í Kaupmannahöfn. Verkið kallast Fólk að koma frá vinnu, og var málað árið 1936. 

  1.  (Verk Jón Engilberts vekja mikla athygli á sýningu í Kaupmannahöfn, Þjóðviljinn 24. nóv, 1952).

Jón Engilberts, Fólk að koma frá vinnu, olía á striga, 126 x 175 cm, 1936.
LÍ 794

Ó

Ólafur Elíasson

(1967)

Fæddur í Kaupmannahöfn.

Miðlar: Höggmyndalist, innsetningar, ljósmyndun, málaralist, hönnun og arkitektúr.

Myndlistarmaðurinn Ólafur Elíasson hefur notið mikillar hylli á alþjóðlegum vettvangi. Hann hefur haldið sýningar ýmist einn eða í félagi við aðra víða um heim og unnið stór verk í almannarými. Foreldrar hans eru íslenskir og Ólafur ólst upp bæði á Íslandi og í Danmörku en hann hefur sagt að hann líti á sig sem alþjóðlegan listamann. Árið 1995 stofnaði hann Studio Olafur Eliasson í Berlín. Þar starfar nú fjöldi sérfræðinga á ýmsum sviðum sem taka þátt í listsköpun Ólafs með einum eða öðrum hætti, svo sem handverksmenn, arkitektar, rannsakendur, rekstrarfólk, matreiðslumenn, forritarar, listfræðingar og tæknimenntað fólk. Auk þess starfar hann með hönnunarteymum og arkitektum að stærri verkefnum.

Verk Ólafs eru ákaflega fjölbreytt en fela flest í sér sterk höfundareinkenni og sýn. Snemma á ferli sínum vann Ólafur verk út frá ljósmyndum þar sem hann ýmist ljósmyndaði sjálfur eða notaði ljósmyndir annarra og raðaði upp svo ljósmyndirnar mynda nýtt heildrænt samhengi. Ljósmyndaverk hans af fyrirbærum úr íslenskri náttúru og menningu kallar hann Iceland series og eru sumar slíkar enn í vinnslu. Má nefna The Glacier series eða Jöklamyndröðina. Árið 1999 tók hann myndir af jöklum á Íslandi og raðaði upp í myndröð sem þekja heilan vegg. Tuttugu árum síðar, árið 2019, fór Ólafur aftur á staðina sem hann hafði áður myndað og tók nýjar myndir á nákvæmlega sömu stöðum svo greinilegt er hve mikið jöklarnir hafa hörfað á tuttugu árum. Þannig hefur hann bætt nýrri vídd við fyrra verk sitt og ekki útilokað að árið 2039 heimsæki hann sömu staði aftur og bæti við verkið.

Eitt af þeim verkum sem fyrst vakti athygli á Ólafi á alþjóðavísu var innsetningin The Weather Project í túrbínusal listasafnsins Tate Modern í London. Þar notaði Ólafur búnað á borð við ljós, rakatæki til að framleiða „þoku“ og spegla til að líkja eftir sólarupprás eða sólsetri. Verkið var sýnt í hálft ár og um tvær milljónir gesta sáu það. Viðbrögð áhorfenda voru sterk og margir þeirra lögðust niður eða dvöldu í rýminu í langan tíma. Síðan þá hefur Ólafur unnið fjölmörg verk sem fela í sér manngerfingu á náttúrulegum fyrirbærum. Má þar nefna fossa sem settir voru upp í New York borg en verk af svipuðum toga hefur Ólafur sett upp víðar, svo sem í tengslum við sýningu í London og Versölum. Þá lagði Ólafur í verkinu „Riverbed“ læk í gegnum sýningarsali Louisiana safnsins í Danmörku og þakti gólfin með jarðvegi. Manngerða þoku má einnig finna í mörgum verka Ólafs og í sumum slíkum verkum hefur hann áhrif á skynjun áhorfandans svo hann missir áttaskyn eins og „Din Blinde Passager“ sem eru 90 m löng göng, full af manngerðu þokulofti og lituðu ljósi sem áhorfendur þurfa að fikra sig í gegnum en þeir sjá einungis um einn og hálfan metra frá sér og þurfa því að treysta á önnur skilningavit til að koma sér í gegnum göngin. Ljós, speglar og stærðfræðileg form eru meðal meginstefa í mörgum verka Ólafs.

Einnig fela mörg verka hans í sér þátttöku áhorfandans sem þarf að feta sig í gegnum rými, horfa í gegnum kviksjá, ganga í gegnum verk eða jafnvel byggja eitthvað úr hvítum legókubbum.

Ólafur hefur unnið með fjölda hönnuða og arkítekta og hefur sett mark sitt á mannvirki og byggingar víða um heim. Hér á Íslandi hannaði Ólafur glerhjúpinn á tónlistarhúsið Hörpu í Reykjavík. Einn af fyrstu samstarfsmönnum Ólafs var arkitektinn Einar Þorsteins (Einar Þorsteinn Ásgeirsson, 1942–2015) en hann vann mikið með stærðfræðileg form eins og sést í mörgum verkanna. Glerhjúpinn á Hörpu byggir Ólafur einmitt á tilraunum Einars með fimmfalda symmetríu eða form sem hann kallaði gullinfang og byggir á gullinsniði.

Heimildir:

https://olafureliasson.net/

https://glaciermelt.is

Downs-Rose, Dagný Heiðdal, Halldór Björn Runólfsson, Steinar Örn Erluson, Svanfríður Sigrún Franklínsdóttir, Kristín Dagmar Jóhannesdóttir, Ragna Sigurðardóttir, Rakel Pétursdóttir, & Anna Yates. (2019). 130 verk úr safneign Listasafns Íslands: 130 works from the collection of the National Gallery of Iceland. Listasafn Íslands.

Ólöf Nordal

(1961)

Fædd í Kaupmannahöfn, Danmörku.

Miðlar: Verk í almannarými, skúlptúrar, ljósmyndun og innsetningar, auk þverfaglegrar vinnu með arkitektum, tónskáldum og leikhúsfólki.

Ólöf Nordal lærði við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1981-85, við Gerrit Rietvelt Academie í Hollandi 1985, við Cranbrook Academy of Art 1989-91 í Bandaríkjunum og við höggmyndadeild Yale háskóla í Bandaríkjunum 1991-93. Hún hefur sýnt víða hér á landi og erlendis. Samhliða listsköpun starfar hún sem prófessor við myndlistardeild Listaháskóla Íslands.

Í verkum sínum vinnur Ólöf með þjóðlega- og menningarlega arfleifð, oft á óvæntan og jafnvel kaldhæðinn hátt. Hún vísar gjarnan til þjóðsagna og hefur sagt að hún hefjist „varla handa við verk nema blaða fyrst í þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar.“1 Skipti þá engu þótt hún sé ekki að nota þann arf í verkinu.

Náttúran er Ólöfu hugleikin og ekki síður tengsl mannsins við hana og fjölbreytileika hennar. Má þar nefna verk eins og ljósmyndaverkin Íslenskt dýrasafn þar sem hún ljósmyndar meðal annars hami ýmissa íslenskra fugla sem allir eiga það sammerkt að hafa skriðið úr eggi sem albínóar og vera litlausir eða hvítir og skeytir saman við myndir af himni og skýjum eins og fuglarnir svífi um með vængina meðfram síðum. Í sömu seríu eru ljósmyndir af síðasta geirfuglinum uppstoppuðum og eftirgerð af geirfugli, meintu skoffíni og tvíhöfða lömbum. Margbreytileiki náttúrunnar og stundum ófullkomleiki verður að listaverkum sem spyrja okkur spurninga um gildi okkar, vísindalega nálgun og stundum græðgi.

Ólöf hefur einnig stundað listrannsóknir þar sem hún dregur fram söguleg gögn sem beinast ekki síst að sjálfsmynd þjóðar á eftir-nýlendutímum. Má þar nefna verk hennar sem tengjast mannfræðirannsóknum fyrri alda. Hún skoðar jöfnum höndum þjóðsagnaminni og það sem einu sinni taldist vísindalegar rannsóknir sem stundum renna saman í verkum hennar. Í verkum sínum nýtir hún þekkingu á íslenskri menningu til að fjalla um mikilvægt viðfangsefni samtímans.

Verk Ólafar eru fjölbreytt og nokkur þeirra eru áberandi í almannarými, jafnt utan dyra sem innan. Má þar nefna Þúfuna sem stendur úti á Granda og sést víða að.

Heimildir:

Ólöf Nordal, Ólöf Kristín Sigurðardóttir, Ármann Agnarsson, Anna Yates, Ingunn Snædal, Friðrik Rafnsson, Vigfús Birgisson, Spessi, Grímur Bjarnason, Árni Árnason, Gunnar Karlsson, Welch, C., Ragnar Helgi Ólafsson, Æsa Sigurjónsdóttir, & Semin, D. (2019). Úngl. Listasafn Reykjavíkur.

1 Úngl, bls. 31

https://www.lhi.is/person/olof-nordal

https://listasafnreykjavikur.is/syningar/olof-nordal-ungl

Á

Ásgerður Búadóttir

(1920–2014)

Fædd í Borgarnesi

Miðill: textíllist, vefnaðarlist

Ásgerður Búadóttir lærði myndlist í Reykjavík og við Konunglega listaháskólann í Kaupmannahöfn. Á ferðalagi um Frakkland árið 1949 kynntist hún vefnaði sem listformi og heillaðist svo að hún keypti sér vefstól og flutti með sér heim til Íslands. Ásgerður notaði ull til að vefa sem hún litaði sjálf með náttúrulegum litum. Hún teiknaði fyrst upp það sem hún ætlaði sér að vefa og vefaði svo. Það tók hana aldrei minna en tvo mánuði að gera hverja mynd.

Árið 1956 vann Ásgerður til gullverðlauna á alþjóðlegri list- og handverkssýningu í Munchen í Þýskalandi sem var hvati fyrir hana að halda áfram á braut sinni með vefnaðinn.

Þrátt fyrir að vefnaður væri ein elsta listgrein á Íslandi voru nær engir myndlistarmenn að vefa á þessum tíma en Ásgerður átti stóran þátt í því að opna augu almennings fyrir listvefnaði. Ásgerður leitaði sífellt nýrra leiða í vefnaðinum og þróaði persónulegan stíl, meðal annars notaði hún hrosshár í verkin en í vefnaði sínum tengdi hún nýjar og gamlar aðferðir. Verkin eru mörg hver í rauðum og bláum tónum með skírskotun í íslenska náttúru. Þetta verk eftir Ásgerði er frá árinu 1981 og kallast Tenning með tilbrigði ll og er búið til úr ull og hrosshárum.

Ásgerður Búadóttir, Tenning með tilbrigði II, ull og hrosshár, 63 x 55 cm, 1981.
LÍ 4156

Ásgrímur Jónsson

(1876–1958)

Fæddur í Suðurkoti í Rútsstaðahverfi í Flóa

Miðlar: Málaralist

Ásgrímur Jónsson var heillaður af náttúrunni og má rekja áhuga hans strax til ársins 1878 þegar hann var aðeins tveggja ára. Þá hófst eldgos í Kötlu og sá hann gosið af bæjarhlaðinu heiman frá sér. Hann var upp frá því upptekinn af náttúrunni, bæði fegurð hennar og líka því hvað hún getur verið ógnvekjandi. 

Þegar Ásgrímur var 21 árs ákvað hann að gerast listmálari og flutti stuttu síðar til Kaupmannahafnar til að læra myndlist. Hann  dvaldi 11 ár í Danmörku og eitt ár á Ítalíu og sneri aftur heim til Íslands árið 1909 reynslunni ríkari. Ásgrímur hóf strax handa við að mála íslenska náttúru sem hann hafði hugsað svo mikið um en líka tröll, skessur, álfa og huldufólk. Hann teiknaði og málaði mikið upp úr íslensku þjóðsögunum meðal annars þessa mynd sem ber heitið Nátttröllið á glugganum.

Ásgrímur var brautryðjandi í íslenskri myndlist og hafði mikil áhrif á þá listamenn sem á eftir komu. Hann var líka sá fyrsti til að hafa myndlist að aðalstarfi á Íslandi. Ásgrímur var upptekinn af litum og birtu í íslenskri náttúru, ljósaskiptum, sumarnóttum, bjarma af eldgosum og öðrum slíkum blæbrigðum. Hann var alla tíð heillaður af eldgosum eftir lífsreynsluna á bæjarhlaðinu og gerði um 50 verk af eldgosum um ævina.

Ásgrímur gaf íslenska ríkinu allar eigur sínar árið 1952 en hann átti ekki maka og börn. Við Bergstaðastræti 74, þar sem Ásgrímur bjó og starfaði, rekur Listasafn Íslands safn honum til heiðurs þar sem hægt er að kynnast verkum hans.

Ásgrímur Jónsson, Nátttröllið á glugganum, vatnslitur, 1950–1955.
LÍÁJ-311/122

Áslaug Jónsdóttir

(1963)
Fædd á Akranesi
Miðlar: bóklist, grafísk hönnun, myndlýsing

Áslaug Jónsdóttir kallar sig bókverkakonu en auk þess að gera bókverk starfar hún sem rithöfundur, myndlýsir og grafískur hönnuður. Hún gekk í Myndlistar- og handíðaskólann í Reykjavík og síðar í Konunglega listaháskólann í Kaupmannahöfn þar sem hún lærði myndlist og grafíska hönnun. Áslaug hefur unnið til fjölda verðlauna fyrir verk sín, bæði skrif og myndlýsingar, hér heima og í útlöndum. Í bóklistinni hefur hún gert handgerðar bækur af ýmsum toga meðal annars þessa hér sem ber heitið Þangað og er frá árinu 2008.

Áslaug Jónsdóttir, Þangað, bókverk, 2008.
https://aslaugjonsdottir.com/

Ásmundur Sveinsson

(1893–1982)

Fæddur að Kolsstöðum í Dölunum

Miðill: skúlptúr

Ásmundur Sveinsson ólst upp í sveit og hafði gaman af því að smíða þegar hann var barn. Hann vildi fara til Reykjavíkur að læra tréskurð en kveið því að segja pabba sínum frá því enda hélt hann að pabbi hans ætlaðist til þess að Ásmundur yrði bóndi. En pabbi hans tók vel í hugmyndina því það væri hvort sem er ekkert bóndaefni í Ásmundi. Ásmundur hélt því til Reykjavíkur og árið 1919 lauk hann prófi frá Iðnskólanum en þar hafði Ríkharður Jónsson kennt honum tréskurð. Eftir það fór hann til Kaupmannahafnar, Stokkhólms og Parísar að læra meira og kynnast straumum og stefnum í myndlist í Evrópu. Hann flutti aftur heim árið 1929.

Ásmundur vildi að list væri sem víðast meðal fólks enda eru mörg verka hans í almenningsrýmum í Reykjavík. Hann var stöðugt að þróa stíl sinn og vann skúlptúrana með mismunandi efnum, tré, leir og síðar málmum. Ásmundur var mjög vinnusamur og sagði að að enginn skapaði neitt sem væri í fýlu því listin yrði að vera full af gleði og lífsfögnuði. (1)

Ásmundur byggði tvö hús um ævina sem eru bæði mjög sérstök. Fyrra húsið er við Freyjugötu þar sem nú er Ásmundarsalur. Seinna húsið sem hann byggði er við Sigtún en þar er nú Ásmundarsafn sem er hluti af Listasafni Reykjavíkur. Þar er hægt að skoða höggmyndir hans, bæði innan og utanhúss. Helreiðin er verk sem Ásmundur gerði þegar seinni heimsstyrjöldin gekk yfir Evrópu. Hann lét sig dreyma um að gera útfærslu af henni sem væri svo stór að bílaumferð kæmist í gegnum hana. Ásmundur lifði lengi og skildi eftir sig gríðarlega mikið höfundarverk. Þegar hann var beðinn um að lýsa því í viðtali hvað væri höggmyndalist svaraði hann að hún væri að „taka efni, forma það og láta ljósið leika við það. Hún er leikur að ljósi. Ljós og efni tala saman í höggmyndum”. (2)

  1. Bókin um Ásmund. Matthías Johannessen. Helgafell. Reykjavík. 1971.
  2. Bókin um Ásmund. Matthías Johannessen. Helgafell. Reykjavík. 1971. Bls 54.

Ásmundur Sveinsson, Helreiðin, tréskúlptúr, 56,50 x 71 cm, 1944.
Listasafn Íslands: LÍ 7072

Ásta Ólafsdóttir

(1948)

Fædd í Reykjavík

Miðlar: nýir miðlar, fjöltækni

Ásta Ólafsdóttir stundaði kennaranám í Reykjavík og París áður en hún lærði myndlist. Eftir myndlistar- og handíðaskólann (sem heitir nú Listaháskólinn) fór hún til Maastricht í Hollandi (19811984) þar sem hún kynntist vídeólistinni sem var að verða til sem listform á þeim tíma. Hún var ein af frumkvöðlunum á Íslandi í vídeólist. 

Ásta á mjög fjölbreyttan feril sem myndlistarmaður, en hún hefur líka kennt, skrifað bækur, verið sýningarstjóri og unnið ýmis félagsstörf tengd myndlist. Verk Ástu hafa verið sýnd víða um Evrópu og í Kína. Að útskýra list Ástu í stuttu máli er dálítið flókið því hún hefur unnið listina í alla mögulega miðla; málverk, vídeó, gjörninga og skúlptúr svo nokkuð sé nefnt. Sjálf segist hún vilja hafa verkin sín einföld og tær, og að um þau leiki loft. Hún hefur sagt að skynjun sé mikilvægari en skilningur þegar kemur að list. Að hverjum og einum sé frjálst að sjá myndirnar hennar með sínum augum og að listin væri í eðli sínu opin, hún væri spurning en ekki svar. Hún segir myndlistina fjalla um það sem orð ná ekki yfir, að hún sé til því tungumálið henti ekki. (1)

Þ. (1993, 20. febrúar). Listin að skynja án þess að skilja. Morgunblaðið B, Menning og listir bls. 2B.

Ásta Ólafsdóttir, Kyrralíf, vídeóverk, 1992.
LÍ-7361/361

F

Finnbogi Pétursson

(1959)

Fæddist í Reykjavík 

Miðlar: Hljóðskúlptúrar

 

Þegar Finnbogi Pétursson var lítill dvaldi hann í sveit á sumrin þar sem hann gerði mikið af því að skrúfa í sundur rafmagnstæki og raða upp á nýtt, búa til hljóð, rafmagn og finna út hvernig þau fyrirbæri virka. Hann var líka flinkur teiknari. Hann fór í Myndlistar- og handíðaskólann í Reykjavík þar sem Dieter Roth hafði mikil á hann en hann var þá kennari við skólann. Auk Dieters var kennari að nafni Hermann Nitsch við skólann og í sameiningu kenndu þeir Finnboga það með óbeinum hætti að myndlistinni væru engin takmörk sett. (GK bls 1) Eftir myndlistar- og handíðaskólann í Reykjavík fór Finnbogi til Maastricht í Hollandi þar sem hann segist hafa fundið sína hillu og áhugi hans á hljóði, rafmagni og hátölurum varð efniviður í myndlistarverk. Síðan hefur Finnbogi fundið ýmsar leiðir til að sjóngera það sem við sjáum vanalega ekki, hljóð- og ljósbylgjur sem loftið er fullt af. Sjálfur segir Finnbogi að verkin hans séu hljóðmynd af núinu og fjalli um tímann. Verkið Pendúlar er frá árinu 1993 og var sýnt í Menningarmiðstöðinni Gerðuberg í Breiðholti. Í gagnrýni um sýninguna veltir greinarhöfundur fyrir sér hvort hljóð geti verið myndlist. Verkið er dæmigert fyrir aðferð Finnboga en þar sveiflast þrír pendúlar með hátalara á endanum og myndar hljóð sem magnast þegar pendúlarnir nálgast hátalara á gólfinu. Verkið er eftirminnilegt og var sterk upplifun að mati gagnrýnanda sem endar grein sína á því að segja að myndlist Finnboga sé með því áhugaverðasta sem fram hafi komið í íslenskri myndlist á síðasta áratug. Verkið Pendúlar er nú í eigu Listasafns Íslands. Finnbogi var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum árið 2001, alþjóðlegri myndlistarsýningu sem haldin er í Feneyjum annað hvert ár. 

Heimildir:

Gunnar Kristjánsson. (2006) Hljóðmynd af núinu. Viðtal við Finnboga Pétursson. Kunst und Kirche. 

Hannes Sigurðsson. (1997) Sjónþing Vlll, Finnbogi Pétursson. Reykjavík: Menningarmiðstöðin Gerðuberg.

Ólafur Gíslason. (1997, 17. febrúar) Myndlistin sem atburður. DV.

FInnbogi Pétursson, Pendúlar, 465 x 755 x 350 cm, 1993.
LÍ 7360

Finnur Jónsson

(1892–1993)

Fæddur í Hamarsfirði

Miðlar: málaralist

Finnur Jónsson var á sjó á unglingsárum, stundaði járnsmíði og þegar hann flutti til Reykjavíkur árið 1915 fór hann að læra gullsmíði. Hann fékk tilsögn í teikningu en hugur hans beindist að málaralistinni. Finnur hélt til Kaupmannahafnar eftir gullsmíðanámið og lærði málaralist um tíma. Þaðan fór hann til frekara náms til Berlínar og Dresden í Þýskalandi en á þeim árum var svo mikið að gerast í myndlist í Evrópu að í raun var um byltingu að ræða. Finnur varð eðlilega fyrir áhrifum frá því sem var að gerast í kringum sig en skólinn sem hann stundaði í Dresden var undir miklum áhrifum frá Bauhaus. Bauhaus var skóli sem arkitektinn Walter Gropius stofnaði í Weimar og starfaði á árunum 1919-1933. Bauhaus boðaði nýja tíma í hönnun, hreinleika, einföld form og sameinaði hugmyndir og aðferðir úr heimum tækni og lista. Skólanum var lokað af fasistum árið 1933 en skólinn, og stefnan sem við hann er kennd er ein sú áhrifamesta á 20. öld. Í kennaraliði skólans voru nokkrir af þekktustu myndlistarmönnum 20. aldarinnar, Paul Klee, Vassily Kandinsky og László Maholy-Nagy. Tveir síðarnefndu tilheyrðu útgáfu og galleríi sem kallaðist Der Sturm, eða storminn, en Finni hlotnaðist sá heiður að eiga 8 verk á sýningu á vegum gallerísins sem fór um Evrópu árið 1925. Það segir mikla sögu um hversu áhugaverð verk hans voru. 

Finnur drakk í sig áhrif umhverfisins og málaði í abstrakt stíl. Á slíkum myndum er engin fyrirmynd, ekkert sem við þekkjum eins og náttúra, hús eða manneskja heldur eitthvað sem kemur úr ímyndunarafli þess sem málar. Þegar Finnur kom heim til Íslands með abstrakt myndir sínar skildi fólk ekki myndirnar og vildi sjá eitthvað kunnuglegt eins og sjómenn, fjöll og hús. Fólk gerði því grín að myndunum og Finnur skynjaði að það væri ekki tímabært að sýna Íslendingum abstrakt verk. Hann fór því að mála sjómenn, náttúru og annað sem fólk skildi betur. Löngu síðar fór hann aftur að mála abstrakt myndir, þegar fólk var búið að venjast því að horfa á eitthvað sem var ekki kunnuglegt. Þrátt fyrir það má segja að það sem er merkilegast við arfleifð Finns Jónssonar í myndlist eru abstrakt myndir hans frá 3. áratugnum enda var hann fyrsti Íslendingurinn til að sýna abstrakt verk á sýningu. 

Örlagateningurinn er eitt af þekktustu verkum Finns og er í eigu Listasafns Íslands. Í myndinni gætir áhrifa rússnesku myndlistarmannanna Malevich og Kandinsky sem voru að brjóta upp hefðbundin form myndlistar nokkru áður en Örlagateningurinn var málaður. 

Heimildir:

Brittanica. (2021). Bauhaus. https://www.britannica.com/topic/Bauhaus

Dagný Heiðdal, Halldór Björn Runólfsson, Steinar Örn Erluson, Svanfríður Franklínsdóttir. 130 verk úr safneign Listasafns Íslands. (2019). Reykjavík: Listasafn Íslands. 

Selma Jónsdóttir. (1976). Finnur Jónsson. Yfirlitssýning okt-nóv 1976. Sýningarskrá. Reykjavík: Listasafn Íslands.

K

Karl Kvaran

(1924–1989)

Fæddur á Borðeyri við Hrútafjörð

Miðill: málaralist

Karl Kvaran lærði teikningu og málun þegar hann var 15 ára gamall í einkaskólum í Reykjavík hjá ýmsum listamönnum. Þaðan fór hann í Handíða- og myndlistarskólann þar sem Þorvaldur Skúlason var hans aðalkennari. Síðan lá leiðin í Konunglega listaháskólann í Kaupmannahöfn þar sem hann var í þrjú ár en samtímis lærði hann teikningu í einkaskóla þar sem sérstök áhersla var á að teikna eftir klassískum afsteypum.

Fyrstu verkin sem Karl málaði að námi loknu árið 1948 voru hlutbundin verk sem byggðu þó á einfölduðum formum og skýrum línum, svo sem uppstillingar og húsaþyrpingar. Upp úr 1950 fór hann að vinna geómetrísk abstraktverk. Á þeim tíma vann hann verk sín með olíu, vatnslitum og samklippi. Síðar fór hann að nota gvassliti og voru þeir ráðandi í listsköpun hans um 18 ára skeið eða þar til hann tók aftur upp þráðinn með olíulitina.

Karl lagði ávallt mikla áherslu á teikningu og teiknaði mikið. Hann gerði ekki skissur að stærri verkum sínum sem hann vann í olíu eða gvass, heldur teiknaði beint á strigann eða pappírinn. Svarti liturinn og svört lína er áberandi í mörgum verka Karls framan af ferlinum. Hann notaði hana sem uppistöðu þar sem lóðrétt og lárétt form komu við sögu og síðar með mýkri formum. Hann sagði sjálfur að hann hefði gaman af því að láta mjúka liti spila á móti harðri uppistöðunni í svarta litnum.1

Litanotkun Karls einkenndist af sterkum og fáum litum, gjarnan í samspili við svart og eða hvítt. Framan af var svarta línan nánast alltaf ekki bara greinanleg heldur burðarvirki hvers verks en undir lok ferilsins var hún stundum fjarverandi en litsterk formin svifu um myndflötinn á hvítum grunni. Þótt rætur Karls sem málara liggi í hinu geómetríska abstraktverki, sem byggir á sterkum reglum stærðfræðinnar, þróaðist myndlist hans á ljóðrænan hátt. Mörg verka hans, sérstaklega frá seinni hluta ferilsins, vísa í tónsmíðar og sjálfur var hann mikill áhugamaður um ýmsa tónlist. Fyrir honum var óhlutbundin myndlist náskyld tónlist. Hann átti til að líkja verkum sínum við nútímatónlist og hreyfingu á myndfleti við hrynjandi lags.

 

Heimild:

1 Karl Kvaran, Halldór Björn Runólfsson, Svanfríður Sigrún Franklínsdóttir, Ásdís Ólafsdóttir, Uggi Jónsson, Benassi, A. C., & Danto, A. C. (2010). Karl Kvaran. Listasafn Íslands. Bls. 16.

Katrín Sigurðardóttir

(1967)

Fædd í Reykjavík

Miðill: skúlptúr, teikningar, ljósmyndir, innsetningar

Katrín Sigurðardóttir vinnur oftast þrívíð verk og eru skúlptúrar hennar fjölbreyttir. Í mörgum verkanna er eins og hún sé að kortleggja staði og tíma. Listaverkin eru þess eðlis að áhorfandinn upplifir þau misjafnlega eftir því hvar hann er staðsettur.

Katrín hefur á ferli sínum sýnt skúlptúra, teikningar, ljósmyndaverk og stórar innsetningar sem eru til þess fallin að umbreyta reynslu og upplifun áhorfandans. Verk hennar hafa verið sýnd hér heima og víða erlendis en hún hefur m.a. verið fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum, Sao Paulo Tvíæringnum í Brasilíu, Momentum í Noregi og Rabat tvíæringnum í Marokkó. Einkasýning hennar í Metropolitan safninu í New York borg árið 2010 vakti mikla athygli.

Verkin eru til þess fallin að áhorfandinn sér heiminn út frá nýjum og óvæntum vinkli, þar sem oft á tíðum byggingalist, korta- og módelgerð mætast.

Frétt af vef Hornafjarðar, 2021: https://www.hornafjordur.is/stjornsysla/sveitarfelagid/frettasafn/katrin-synir-verk-i-svavarssafni
Frétt af vef Listasafns Reykjavíkur, 2015: https://listasafnreykjavikur.is/syningar/katrin-sigurdardottir-horft-inni-hvitan-kassa-skulpturar-og-model

Kjartan Guðjónsson

(1921-2010)

Fæddur í Reykjavík.

Miðlar: Málaralist og grafík.

Kjartan Guðjónsson var frá unga aldri áhugasamur um myndlist og átti þess kost að sækja myndlistarnám í Handíðaskólanum í tvö ár meðfram menntaskólanámi. Eftir það hélt hann til Bandaríkjanna þar sem hann nam við hinn virta listaháskóla Art Institude of Chicago í tvö ár.

Heim kominn frá Bandaríkjunum lét hann strax til sín taka í sýningarhaldi og var einn af forvígismönnum Septemberhópsins sem vakti mikla athygli fyrir róttæka nálgun og framsetningu en á fyrstu sýningu hópsins í í Listamannaskálanum árið 1947 voru abstraktverk í öndvegi. Sýningin markaði upphaf framúrstefnu í íslenskri myndlist, ekki einungis vegna verkanna heldur einnig vegna þess að hópurinn setti fram ákveðnar stefnuyfirlýsingar um breytt myndlistarlandslag á Íslandi til framtíðar. Í tilefni sýningarinnar skrifaði Kjartan greinina „Hvað á þetta að vera?“ sem fjallaði um abstraktlistina og gildi hennar þar sem hann fullyrti að myndlist sem væri bundin við fyrirmyndir af nákvæmni væri úr sér gengin.

 

Á þeim tíma kynnti Kjartan sér einnig nýjustu strauma í París sem þá var miðstöð róttækrar listar í Evrópu. Um 1950 hélt hann svo út til frekara náms í Flórens á Ítalíu. Í kjölfar þeirrar námsdvalar snéri hann sér að geómetrískri abstraktlist og á fyrstu einkasýningu hans árið 1953 sýndi hann slík verk. Síðar snéri hann baki við geómetríunni og málaði expressjónísk abstraktverk en á einkasýningu hans árið 1966 voru verk í þeim anda. Síðar urðu málverk hans fígúratívari þótt hann héldi í krafmikla tjáningu expressjónismans og sterka liti.

Kjartan vann einnig grafíkverk, við hönnun og ritstörf, auk þess sem hann kenndi myndlist í rúman aldarfjórðung í Myndlista- og handíðaskóla Íslands og hafði áhrif á fjölda ungra myndlistarmanna þar.

Heimild: Íslensk listasaga

Kjarval - Jóhannes Sveinsson Kjarval

(1882–1972)

Fæddur í Meðallandi í V-Skaftafellssýslu

Miðlar: málaralist

Þegar Jóhannes Sveinsson Kjarval var fimm ára var hann sendur í fóstur til Borgarfjarðar Eystri en foreldrar hans voru fátækir og áttu 13 börn. Þar var hann umkringdur náttúru og fór snemma að teikna. Hann flutti til Reykjavíkur árið 1902 og sameinaðist þar fjölskyldu sinni. Jóhannes réði sig á skútu árið 1905 og málaði víst mikið á sjónum. 1911 sigldi hann til London og þaðan ári síðar til Kaupmannahafnar þar sem hann stundaði nám í myndlist. Hann giftist danskri konu sem hét Tove og þau fluttu heim til Íslands árið 1922. Þau eignuðust tvö börn sem Tove tók með sér til Danmerkur eftir að þau skildu árið 1924.

Þegar lesið er um Kjarval í blöðum og bókum er hann iðulega ávarpaður meistari Kjarval og segir það sögu um hversu mikil virðing var borin fyrir honum. Meistari Kjarval var sérstakur maður og dálítill sérvitringur. Hann notaði orðið gillígogg við ýmis tækifæri, t.d. þegar hann var yfir sig hrifinn af einhverju, og sagði aðspurður að þetta væri alíslenskt orð þótt hann hafi búið það til yfir allt það „sem gott er, halló, húrra og bravó, glym hill og bikini“. (1) Kjarval tók oft leigubíl á Þingvöll eða annað út fyrir bæjarmörkin og setti upp trönurnar sínar til að mála. Svo biðu leigubílstjórarnir heilu og hálfu dagana eftir að hann væri búinn að mála. Á sumrin var hann margar vikur úti á landi, bjó oft í tjaldi og málaði úti í öllum veðrum. 

Í ævisögu sinni segir Erró frá því hvað Kjarval hafði mikil áhrif á hann í æsku. Hann lýsir því hvernig var að fá Kjarval í heimsókn í sveitina á sumrin og sagði að það hafi ævinlega verið uppi fótur og fit þegar Kjarval mætti á drossíu frá Reykjavík, rétt eins og þjóðhöfðingi væri á ferð. (2)

Kjarval sagði að íslensk náttúra yrði sinn skóli og eftir 1930 einbeitti hann sér nær eingöngu að náttúrunni í sínum myndum. Auk þess teiknaði hann andlitsmyndir. Sagt er að Kjarval hafi kennt Íslendingum að meta náttúru landsins. Hann horfði niður á landið og málaði mosa og steina og stundum læddust furðuverur inn í málverkin. Kjarval er ástsælasti málari þjóðarinnar og þegar fyrsta byggingin var reist í Reykjavík fyrir myndlist, var hún nefnd eftir Kjarval, Kjarvalsstaðir sem tilheyra Listasafni Reykjavíkur. 

Eitt af verkum Kjarvals sem er í eigu Listasafns Íslands kallast Reginsund og er málað eftir draum sem konunni hans dreymdi. Myndin er þakklætisvottur Kjarvals til Tove og var máluð árið 1938. (3)

  1. Morgunblaðið. (8. september 1965). Gilligogg.
  2. Aðalsteinn Ingólfsson. (1991). Erró. Margfalt líf. Mál og menning: Reykjavík
  3. Dagný Heiðdal, Halldór Björn Runólfsson, Steinar Örn Erluson, Svanfríður Franklínsdóttir. 130 verk úr safneign Listasafns Íslands. (2019). Reykjavík: Listasafn Íslands.

Kjarval, Reginsund, olía á striga, 161 x 115 cm, 1938.
LÍ 1146

Kolbrún Björgólfsdóttir – Kogga

(1952)

Fædd á Stöðvarfirði.

Miðlar: Leirlist og höggmyndalist.

Kolbrún Björgólfsdóttir (Kogga) lærði í Myndlista- og handíðaskóla Íslands en hélt svo í framhaldsnám við Danmarks Designskole í Kaupmannahöfn og við Haystack Mountain School of Art í Maine í Bandaríkjunum. Hún hefur einnig sótt sér framhaldsmenntun hjá leirlistamönnum í Danmörku síðar.

Kogga hefur unnið nytjahluti úr leir jafnt sem listmuni og stærri skúlptúra. Hún hefur sérstakan stíl, vinnur gjarnan með hvítt postulín og stillir litanotkun í hóf. Á móti hvítu postulíninu teflir hún gjarnan dökkum línum sem mynda andstöðu. Í mörgum gripa sinna vinnur hún með gráskalann en þegar hún notar liti eru þeir áberandi og til áherslu. Hún vinnur mikið með ákveðin form. Í upphafi ferils hennar voru píramídar, keilur og kassar áberandi en í seinni tíð hafa formin orðið mýkri og náttúrulegri. Áferð verka Koggu er yfirleitt hrá en þó fínleg og yfirborðið slétt. Eggið er henni hugleikið og má sjá í einni eða annarri mynd í mörgum verka hennar.

Kogga bjó með myndlistarmanninum Magnúsi Kjartanssyni og þau störfuðu mikið saman. Magnús myndskreytti fjölda muna hennar, bæði nytjahluti og listmuni.

Kogga hefur haldið fjölmargar einkasýningar á Íslandi og tekið þátt í samsýningum víða um heim og hlotið verðlaun og viðurkenningar. Verk hennar eru í eigu fjölmargra listasafna og opinberra stofnanna. Kogga hefur rekið samnefnt keramíkgallerí í miðborg Reykjavíkur um áratuga skeið þar sem verk hennar eru til sýnis og sölu. Þá hefur hún kennt myndlist samhliða eigin listsköpun en einnig unnið rannsóknir á íslenskum leir.

Heimild: Kogga.is

Kristín G. Gunnlaugsdóttir

(1963)

Fædd á Akureyri.

Miðlar: Málaralist, íkonagerð og textíll.

Kristín Gunnlaugsdóttir stundaði nám í málaradeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands eftir að hafa sótt myndlistarnámskeið á Akureyri frá barnsaldri. Að námi loknu fór hún í klaustur í Róm þar sem hún dvaldi í eitt ár og málaði. Þar kynntist hún íkonamálun og fékk áhuga á henni. Síðar hélt hún til Flórens í framhaldsnám. Þar nam hún ekki aðeins við listaháskóla því hún lærði einnig að vinna með og leggja blaðgull með gamalli tækni á verkstæði í borginni sem gerðu við forn listaverk.

Þegar Kristín kom heim úr námi og fór að sýna verk sín á Íslandi vöktu þau strax mikla athygli. Þau voru afar ólík því sem aðrir íslenskir myndlistarmenn voru að gera á þeim tíma. Hún notaði aðferðir miðaldamálara; eggtempura og blaðgyllingu, og sótti einnig í táknmál trúarlegrar myndlistar fyrri alda. Hún málaði íkona en flest verk hennar frá þeim tíma voru þó frjálslegri þegar kom að myndefni og úrvinnslu hugmynda þótt trúarleg tákn væru sjaldnast skammt undan. Verkin einkenndust af tæknilegri fullkomnun og fágun og voru gjarnan draumkennd og tímalaus.

Það kvað því við annan tón þegar Kristín sýndi í fyrsta sinn, árið 2010, veggteppi þar sem hún saumaði einfaldar og hráar útlínur á grófan striga. Verkin sýndu berskjaldaðar konur, stundum á kynferðislegan en húmorískan hátt. Þessi umskipti urðu í kjölfar efnahagshrunsins þegar samfélagið var allt í sjálfsskoðun. Veggteppi Kristínar eru einföld og hrá en einnig kraftmikil og hrífandi og vísa í handverkshefðir kvenna.

Í kjölfar þessarar breyttu stefnu rataði hið nýja myndefni; kvenorkan og hversdagslegt líf kvenna, inn í málverk Kristínar. Í stað hinna fáguðu vera birtust þar líttklæddar konur með bónuspoka, einstæðar mæður, gyðjur jafnt sem konur sem eru búnar á því. Hún notar þar aðferðir miðaldalista, eggtempura og blaðgyllingu, í glænýju samhengi.

Hver sem aðferðin er eða myndefnið þá spyrja verk Kristínar gjarnan tilvistarlegra spurninga um veru manneskjunnar í heiminum, tilgang hennar og hlutverk.

Heimildir:

Kristín Gunnlaugsdóttir, Páll Valsson, & Ásdís Ólafsdóttir. (2011). Undir rós. Eyja.

Downs-Rose, Dagný Heiðdal, Halldór Björn Runólfsson, Steinar Örn Erluson, Svanfríður Sigrún Franklínsdóttir, Kristín Dagmar Jóhannesdóttir, Ragna Sigurðardóttir, Rakel Pétursdóttir, & Anna Yates. (2019). 130 verk úr safneign Listasafns Íslands: 130 works from the collection of the National Gallery of Iceland. Listasafn Íslands.

Kristín Jónsdóttir

(1888-1959)

Fædd við Eyjafjörð.

Miðill: Málaralist.

Kristín Jónsdóttir var fyrsta íslenska konan sem gerði myndlist að ævistarfi sínu. Þegar hún var að alast upp var ekki sjálfgefið að stúlkur gætu menntað sig, hvað þá haldið til útlanda í skóla. Það gerði Kristín, þótt hún væri ekki af efnafólki komin.

Kristín bjó í Danmörku í 15 ár og þar málaði hún verkið Fiskverkun við Eyjafjörð árið 1914, enn í námi. Verkið er fyrsta íslenska málverkið sem sýnir störf verkafólks í landinu en það átti eftir að vera algengt viðfangsefni listamanna. Eftir að hún flutti heim til Íslands gerði hún vinnandi fólk aftur að yrkisefni sínu í verkinu Við Þvottalaugarnar frá 1931. Á þeim tíma fóru konur enn að heitu laugunum í Reykjavík til að þvo þvott en sú iðja var að leggjast af.

Kristín ferðaðist um land allt, bæði fótgangandi og á hestum, til að teikna og mála. Á þeim tíma voru ferðalög erfið og Kristín lagði oft mikið á sig til að komast á staði sem fáir höfðu séð og ná rétta sjónarhorninu. Á sínum yngri árum fór hún út með trönur, striga, málningu og pensla og málaði undir berum himni en þegar hún var eldri lét hún sér oft nægja að skissa myndir úti í náttúrunni en fullvinna þær heima.

Eftir að Kristín eignaðist börn varð erfiðara fyrir hana að ferðast um til að mála enda engir leikskólar til á þeim tíma. Hún málaði því meira heima, það sem hún sá út um gluggann á Laufásvegi þar sem hún bjó eða uppstillingar, gjarna með blómum. Hún ræktaði ýmis framandi blóm í garðinum sínum gagngert til að mála þau.

Kristín hafði umtalsverð áhrif á myndlistarlífið í landinu. Hún átti marga listamenn að vinum vingaðist við marga aðra listamenn og heimili hennar varð einskonar félagsmiðstöð myndlistarmanna.

Heimildir:

Bera Nordal, Aðalsteinn Ingólfsson, & Karla Kristjánsdóttir. (1988). Kristín Jónsdóttir: kyrra líf: Listasafn Íslands 29. október – 27. nóvember 1988. Listasafn Íslands.

Aðalsteinn Ingólfsson, & Kristján Pétur Guðnason. (1987). Kristín Jónsdóttir: listakona í gróandanum. Þjóðsaga.

Kristín Jónsdóttir frá Munkaþverá

(1933)

Fædd á Munkaþverá í Eyjafirði.

Miðlar: Textíll og málaralist.

Kristín Jónsdóttir kynntist myndlist fyrst sem unglingur í Menntaskólanum á Akureyri. Þar kynntist hún starfi frístundamálara og ákvað að hætta í menntaskóla og fara í myndlistarnám. Hún flutti því 16 ára gömul til Reykjavíkur og stundaði nám í Handíða- og myndlistaskólanum í Reykjavík 1949-1952 og 1954-1957 var hún nemandi við textíldeild Kunsthåndværkerskolen í Kaupmannahöfn. Hún hafði reyndar ætlað að læra leirlist þar en heillaðist af textíldeildinni þegar hún skoðaði skólann. Síðar nam hún í listaskólum í Frakklandi og á Ítalíu. Kristín var kennari í Myndlista- og handíðaskóla Íslands og tók þátt í stofnun sérstakrar textíldeildar við skólann. Hún hefur haldið fjölda sýninga á Íslandi og annars staðar og hlotið verðlaun og viðurkenningar fyrir störf sín.

Kristín var einna fyrst hér á landi til að nota þæfða ull í nútímalistaverk en þæfing ullar er aldagömul aðferð. Í sumum verka sinna vinnur hún með gjörólík efni, svo sem ull og plexígler. Orðið textíll er náskylt orðinu texti. Í textílverkum blandar listamaðurinn saman þráðum svo úr verður klæði eða annars konar verk en segja má að texti sé vefur úr orðum. Í sumum verkum sínum samþættir Krisín veflist og ritlist með því að vísa til bókmenntaarfsins, auk þess sem hún notar gjarna orð eða textabrot í verk sín. Textinn er greiptur í gegnsæar plötur úr plexígleri og varpa skuggum á bakgrunn verkanna. Mörg verka hennar tengjast einnig náttúru Íslands og fjalla um ár og vötn. Hún beinir sjónum áhorfenda gjarnan að viðkvæmri náttúrunni og hverfugleika hennar. Framlag hennar til íslenskrar listasögu liggur einnig í notkun íslenskrar ullar á nýstárlegan hátt í samtímalist.

Heimild:

Sýningarskrár og fleira.

P

Pablo Picasso

(1881-1973)

Fæddur í Malaga á Spáni.

Miðlar: Málaralist, keramík, höggmyndir og leikmyndir.

Pablo Picasso var einn áhrifamesti myndlistarmaður 20. aldarinnar og frumkvöðull á ýmsum sviðum myndlistar. Hann, ásamt Georges Braque, voru upphafsmenn kúbismans og höfðu með því gríðarlega áhrif á þróun myndlistar.

Faðir Picassos var málari og listkennari og hóf að segja syni sínum til þegar hann var ungur að árum. Þegar Picasso var 13 ára kenndi faðir hans við listaháskóla í Barcelóna og sannfærði stjórnendur um að leyfa drengnum að þreyta inntökupróf sem hann stóðst. Þegar hann var 16 ára var hann svo sendur í einn virtasta listaskóla Spánar í Madríd. Picasso leiddist formlegt nám og hætti að mæta í tíma stuttu síðar og fannst hann læra meira af því að skoða verk eldri meistara á söfnum borgarinnar.

Pablo Picasso er þekkastur fyrri kraftmikil og hrá verk sín, einkum málverk, en þær myndir sem hann vann sem unglingur og ungur maður eru í klassískum stíl og bera vott um gríðarlega tæknilega færni. Hann bjó lengi og starfaði í París í Frakklandi.

Picasso sótti sér innblástur í verk afrískra listamanna og hefðbundna afríska grímugerð eins og sjá má á verkinu Les Demoiselles d’Avignon (Stúlkurnar frá Avignon) frá 1907. Picasso vann einnig fjölmargar höggmyndir á ferli sínum og leirmuni. Hann var gríðarlega afkastamikill og eftir hann liggja yfir 20.000 verk.

Heimild: https://www.pablopicasso.org

Peter Henry Emerson

(1856-1936)

Fæddur á Kúbu.

Miðlar: Ljósmyndun og ritstörf.

Peter Henry Emerson fæddist og ólst upp á plantekru foreldra sinna á Kúbu en faðir hans var bandarískur og móðir hans bresk. Ungur að árum missti hann föður sinn og fluttist til Bretlands og lærði læknisfræði, gifti sig og hóf ritstörf.

Emerson var sterkefnaður og árið 1881 eða 1882 keypti hann sér myndavél sem hann hugðist nýta til fuglaskoðunar. Hann varð fljótlega mjög virkur í heimi ljósmyndunar og fljótlega hætti hann læknisstörfum til að einbeita sér að ljósmyndun og ritstörfum. Hans er helst minnst fyrir skrif sín frá 1886 um að ljósmyndun eigi að flokkast sem listgrein en ekki iðnaður.

Heimildir: https://www.moma.org/artists/1724

V/W

Valtýr Pétursson

(1919-1988)

Fæddur á Grenivík.

Miðlar: Málaralist og mósaík.

Leið Valtýs Péturssonar að listinni var ekki bein. Sem unglingur var hann í teikniskóla og sýndi hæfileika en var ráðlagt af kennara sínum að fást frekar við eitthvað annað því nær ómögulegt væri að lifa af listinni. Valtýr reyndi það lengi vel. Hann var til sjós og vann ýmis störf áður en hann hélt til Bandaríkjanna í verslunarskóla vorið 1944. Í Bandaríkjunum sótti hann listasöfn oft í viku, æfði sig í teikningu og komst að lokum í listnám samhliða verslunarnáminu. Síðar lærði hann á Ítalíu og dvaldi í París með öðrum íslenskum listamönnum til að bæta við þekkinguna og fylgjast með straumum og stefnum í myndlistinni.

Í fyrstu voru verk Valtýs fígúratíf og í upphafi ferilsins vann hann verk í anda súrrealismans. Hann varð svo einn af helstu boðberum geómetrískrar abstraktlistar á Ísland. Valtýr var hluti af Septemberhópnum sem starfaði í kringum 1950. Hann samanstóð af ungum og róttækum listamönnum sem vildu snúa baki við ríkjandi hefð og feta nýjar slóðir í listinni. Árið 1951 sýndi Valtýr fyrstur Íslendinga málverk sem eingöngu byggðu á geómetrískum formum og var í takti við þá strauma og stefnu sem Valtýr og félagar hans höfðu kynnst í dvöl sinni í París árin á undan.

Á 6. áratugnum fór Valtýr að vinna mósaíkverk og notaði til þess íslenska steina sem hann hjó niður í litla teninga og raðaði upp í myndflöt. Mörg mósaíkverka Valtýs eru óhlutbundin og stundum vann hann sama mótíf bæði í málverki og mósaík. Stærsta mósaíkverk hans er jafnframt stærsta veggmynd sem gerð hafði verið í íslensku húsi og ber heitið Kosmos og er 19 m2. Það er í byggingu við Stakkahlíð sem byggt var yfir Kennaraháskólann en alls gerði Valtýr tíu mósaíkmyndir í húsið.  

Abstraktverk Valtýs urðu ljóðrænni er leið á feril hans og hann sótti gjarnan innblástur í náttúruna. Á síðustu árum ferils síns fór hann svo aftur að vinna fígúratíf verk sem einkenndust þó af sterkum formum og litum.

Eins og Valtý var bent á var erfitt að lifa af listsköpun. Hann vann því stundum ýmis önnur störf, meðal annars við listkennslu auk þess sem hann var afkastamikill listgagnrýnandi um langt skeið og tók þátt í að reka sýningarskála listamanna. Þannig hafði hann áhrif á myndlistarlífið í landinu á fjölbreyttan hátt.

Heimildir:

Valtýr Pétursson, Downs-Rose, K., Dagný Heiðdal, Uggi Jónsson, Mörður Árnason, Helgi Grímsson, Halldór Björn Runólfsson, Anna Jóhannsdóttir, Jón Bergmann Kjartansson, Halla Hauksdóttir, & María Helga Guðmundsdóttir. (2016). Valtýr Pétursson: 24.9.2016 – 12.2.2017. Listasafn Íslands.

Downs-Rose, Dagný Heiðdal, Halldór Björn Runólfsson, Steinar Örn Erluson, Svanfríður Sigrún Franklínsdóttir, Kristín Dagmar Jóhannesdóttir, Ragna Sigurðardóttir, Rakel Pétursdóttir, & Anna Yates. (2019). 130 verk úr safneign Listasafns Íslands : 130 works from the collection of the National Gallery of Iceland. Listasafn Íslands.

William Morris

(1834-1896)

Fæddur í Walthamstow í Essex á Englandi.

Miðlar: Myndlistarmaður, hönnuður, handverksmaður, rithöfundur og aktívisti.

William Morris er minnst fyrir fallega hönnun sína, einkum á textílmynstrum og veggfóðri sem enn eru notuð í hönnun og framleiðslu. Eftir hann liggja málverk, steindir gluggar, útsaumsverk, húsgögn, myndskreyttar bækur, veggteppi og veggflísar svo eitthvað sé nefnt. Ævistarf hans er þó mun umfangsmeira. Hann var myndlistarmaður, rithöfundur og skáld en kannski síðast en ekki síst samfélagsrýnir og aðgerðarsinni.

Morris barðist gegn iðnvæðingu og fjöldaframleiðslu sem þá var að ryðja sér til rúms á öllum sviðum og vildi hverfa aftur til vandaðs gæðahandverks og frá fjöldaframleiðslu. Hann taldi að fólki liði betur í fallegu umhverfi þar sem húsbúnaður væri unninn úr góðum efnum, af alúð og í höndunum fremur en í verksmiðjum. Í hans huga var vönduð, aðgengileg og falleg hönnun nauðsynleg í velferðarsamfélagi.

Tengsl Morris við Ísland voru allnokkur en hann hafði mikinn áhuga á norrænum fornbókmenntum og menningu. Hann kunni íslensku og vann að þýðingum og útgáfu Íslendingasagnanna yfir á ensku. Hann heimsótti Ísland tvisvar, ferðaðist um landið og skráði upplifun sína í dagbækur sem hafa komið út á íslensku og vann að hagsmunum landsins og menningarinnar.

Heimild:

https://wmgallery.org.uk/collection/about-william-morris/

https://timarit.is/files/44022204#search=%22Morris%20Morris%20Morris%20Morris%22

B

Barbara Árnason

(1911–1975)

Fædd í Englandi

Miðill: grafík, textíll o.fl.

Barbara Moray Williams fæddist í Englandi og kom til Íslands í námsferð þegar hún var að læra hönnun og grafík í London árið 1936. Hún var fengin til að myndskreyta íslensk fornrit og hitti tilvonandi eiginmann sinn í Íslandsferðinni, myndlistarmanninn Magnús Á. Árnason. Hún flutti til Íslands í kjölfarið. Verk Barböru eru fjölbreytt en auk grafíkverka, málaði hún, teiknaði, gerði textílverk og vatnslitaþrykkjur. Í Melaskóla gerði hún veggmynd og saumaði leiksviðstjald. Hún var afkastamikil og vann meðal annars mikið með íslenska ull sem hún notaði í veggteppi. Barbara myndskreytti fjölda bóka, m.a. passíusálma Hallgríms Péturssonar og síðar sagði hún í viðtali að af öllu sem hún hefði gert væri hún ánægðust með myndirnar í Passíusálma Hallgríms. (1)

Barbara Árnason, Þvottur á snúru, 19 x 23 cm, 1935.
Gerðarsafn: LKG 1663

(1) Sigríður Thorlacius. (1961, 20. apríl). Ég er ánægðust með myndirnar í Passíusálma Hallgríms. Tíminn. Bls. 1.

Benedikt Gröndal

(1826-1907)

Fæddur á Álftanesi

Miðlar: teikning, málaralist, skáld

Benedikt Gröndal var margt til lista lagt, hann var skáld, málari og náttúruáhugamaður. Hann lærði norræn fræði í Kaupmannahöfn og kenndi við Lærða skólann (nú MR). Bölsýni þjakaði Benedikt sem skrifaði sjálfsævisöguna Dægradvöl um skrautlega ævi sína. Þar rekur hann ævi sína, þvæling um heiminn, námsár í Kaupmannahöfn og samskipti sín við fólk sem reyndust honum oft erfið. Barlómur er áberandi í bókinni en þar segir hann sig hafa skort ást og hlýju, stuðning og skilning í lífinu. Hann missti konu sína árið 1881 og tvær dætur og eftir það varð hann dapur og vonlaus. Hann fór að drekka óhóflega mikið brennivín og missti kennarastöðu sína fyrir vikið árið 1883. 

Benedikt sat þó ekki auðum höndum. Hann skrifaði, teiknaði, skoðaði náttúruna og málaði hana. Fáir ef einhverjir voru að rannsaka náttúruna á þessum tíma á Íslandi og þegar Benedikt fór með teikningar sínar af fuglum til Alþingis í þeirri von að fá styrk til að halda áfram vinnunni fékk hann ekki áheyrn. Rúmum 100 árum síðar, árið 2011, var gefin út vegleg bók með teikningunum hans sem eru geymdar í Náttúruminjasafni Íslands. Bókin vakti mikla athygli og fögnuð enda mikill dýrgripur. 

Árið 2018 kom svo út bókin Reykjavík um 1900 með augum Benedikts Gröndal. Reykjavíkurborg lét gera upp hús Benedikts sem var opnað árið 2017 í Grjótaþorpinu undir nafninu Gröndalshús þar sem minningu hans er haldið á lofti. Það má því segja að á síðustu áratugum hefur Benedikt sannarlega hlotið uppreist æru. Um meðfylgjandi verk sagði Benedikt: „Árið fyrir þjóðhátíðina fór mér að detta ýmislegt í hug, hvurt ég ekki mundi geta teiknað eitthvað eða gert einhverja minningarmynd að gamni mínu, og var ég að þessu frá því í ágúst og þangað til í desember; þá var ég búinn með uppkastið, sem mér þó ekki líkaði; samt lét ég setja það í umgjörð og ánafnaði Magdalenu litlu það í tannfé“ Dægradvöl, 275.

Benedikt Gröndal, Til minningar um Íslands þúsund ára byggingu, vatnslitur, 55 x 75 cm, 1873.
LÍ 461

Björg Þorsteinsdóttir

(1940–2019)

Fædd í Reykjavík

Miðlar: grafík, samklipp, málaralist

Björg Þorsteinsdóttir stundaði myndlistarnám í Reykjavík, Stuttgart og París. Hún var afkastamikill myndlistarmaður og sýndi verk sín víða um heim á yfir 200 sýningum. Verkin eru í eigu listasafna á Norðurlöndunum, Frakklandi, Spáni, Póllandi og víðar. Björg var um tíma undir áhrifum frá japanskri fagurfræði og notaði handunninn japanskan pappír sem hún litaði sjálf af mikilli natni með vatnslitum, olíulitum eða gvasslitum. 

Björg var spurð í viðtali hvort listin ætti að þjóna einhverjum tilgangi og hún svaraði því til að listin gæti eytt hversdagsleika og gráma og lyft okkur upp og veitt okkur aðra sýn á tilveruna. (1) Í safneign Listasafns Íslands er verkið Óskasteinn I frá 1986, þar sjáum við áferð steinsins og fínlegt mynstur. Í fyrstu verkum Bjargar eru abstrakt áherslur en síðar bættust við ýmiss konar form og tilvísanir í himingeiminn og óravíddir hans.

Björg Þorsteinsdóttir, Óskasteinn ll, 60 x 49 cm, 1986.
LÍ 11456

  1. EKJ. (1989, 14. október). …að segja eitthvað með öðrum orðum. Morgunblaðið, bls. ?

Björn Grímsson

(1575–1635)

Miðlar: málaralist

Einn fyrsti nafngreindi listamaður þjóðarinnar var Björn Grímsson sem er talinn hafa fengið tilsögn í málaralist í Þýskalandi árið 1597. Meðal merkra gripa sem varðveittir eru í Þjóðminjasafninu eru málverk eftir Björn á predikunarstól Bræðratungukirkju. Það eru líklega elstu málverk sem varðveist hafa eftir íslenskan listamann. Björn var titlaður málari og sýslumaður en hann var líka góður teiknari.

Björn Grímsson, málverk á predikunarstól úr Bræðratungukirkju, 1630.
6274/1912-52

(https://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=327479)

Bragi Ásgeirsson

(1931–2016)

Fæddur í Reykjavík

Miðlar: grafík, málaralist

Þegar Bragi Ásgeirsson var lítill strákur dreymdi pabba hans að einn sona hans yrði listmálari. Í framhaldinu keypti hann listaverkabækur til að kveikja áhuga hjá börnum sínum. Bragi var sá eini sem sýndi bókunum áhuga og sagði Bragi að bækurnar hafi verið örlagavaldar í lífi sínu. (1) Bragi var heyrnarlaus frá 9 ára aldri en hann hóf nám í myndlist 16 ára gamall í Reykjavík. Þegar hann var 19 ára fór hann til Kaupmannahafnar og síðan Osló og Munchen í frekara listnám. Hann dvaldi á Ítalíu frá 1953-4. Bragi var víðförull og sótti áhrif víða að í myndlistinni. Bragi hélt sína fyrstu sýningu í Reykjavík í Listamannaskálanum árið 1955 en þá var hann enn að prófa sig áfram í listinni og ekki búinn að finna sinn stíl. Bragi var góður teiknari, vann mikið með grafík, gerði þrívíð málverk með hlutum sem hann fann á víðavangi og var einnig ötull við að mála. Hann var afkastamikill listamaður og listamannsferill hans spannar 60 ár. Hann vann einnig sem kennari í Myndlistar- og handíðaskólanum og listgagnrýnandi Morgunblaðsins. Bragi málaði og teiknaði margar konur á ferli sínum og ein þeirra er Frúin ófeimna frá árinu 1975. Í verkinu eru fundnir hlutir svo sem þang, snæri og dúkka. 

Bragi Ásgeirsson, Ófeimna frúin, fundnir hlutir, málning og epoxy-plastefni, 1975.
LÍ 3555

Þóroddur Bjarnason. (2008). Augnasinfónía. Myndlist Braga Ásgeirssonar í 60 ár. Reykjavík: Opna.

Brynja Baldursdóttir

Brynja Baldursdóttir (1964)

Fædd í Reykjavík

Miðlar: Bóklist

Brynja lærði myndlist og hönnun í Reykjavík og London og er þekktust fyrir bóklistaverk en hún segir bóklistina bræða saman bók og myndlist. Listformið bjóða upp á aðra möguleika en list sem hengd er á vegg, til dæmis megi snerta bókverk og því er áhorfandinn meiri þátttakandi í verkinu. Í safneign Listasafn Íslands er verkið Rúnaljóðabók sem hún gerði árið 1992. Á þeim tíma voru gömlu rúnirnar Brynju hugleiknar og hún gerði hringlaga bækur með rúnum framan á en myndskreytingum við ljóð innan í. Frú Vigdís Finnbogadóttir gaf Noregskonungi eina slíka bók eftir Brynju árið 1993. 

Brynja Baldursdóttir, Rúnaljóðabók, 29 x 26 x 2,2 cm, 1994.
LÍ 5620

Brynjar Sigurðsson

(1986)

Fæddur í Reykjavík

Miðlar: hönnun og smíði

 

Brynjar Sigurðsson lærði vöruhönnun í Listaháskólanum í Reykjavík og Lausanne í Sviss. Þegar hann vann lokaverkefnið sitt í Listaháskólanum dvaldist hann í Vopnafirði í mánuð og kynntist staðháttum og menningu. Eitt af því sem hann lærði var að hnýta hnúta af gömlum hákarlasjómanni. Þekkinguna nýtti hann sér síðar í að hanna húsgagnalínuna Þögult þorp en þar blandar hann saman hnútum og fyrirbærum úr sjávarþorpi við hefðbundin húsgögn. Þannig nýtti hann gamla verkþekkingu í nútímahönnum en einnig er að finna fundna hluti eins og flotholt, fjöður og nælongirni. Brynjar nýtir menningararfinn og sagnaarfinn og reynir að koma á óvart með efnisval í verkum sínum. 

Brynjar Sigurðsson, Galerie Kreo, 2013. Ljósmynd eftir Fabrice Gousset.

G

Gabríela Friðriksdóttir

(1971)

Fædd í Reykjavík

Miðlar: málaralist, teikning, skúlptúr, vídeólist, innsetningar, gjörningar

 

Gabríela vinnur fjölbreytt verk sín í ólíka miðla. Verk hennar einkennast af ævintýralegum furðuverum og furðuheimum þar sem þjóðsagnir og ýmiss konar tákn koma mikið við sögu. Teiknimyndastíll er ríkjandi í teikningum hennar og málverkum. Verk Gabríelu hafa sterk einkenni og hún segir sjálf að hún búi til veröld í kringum hvert og eitt verk sem á að vera sjálfstæð. Hún segir aðalatriðið að vera ekki hrædd og taka sig ekki hátíðlega. Í viðtali árið 2008 sagði Gabríela að hún væri upptekin af ævintýrum og spuna og að henni þætti ekkert sérlega gaman að herma eftir raunveruleikanum, nóg væri af honum. Hún sagði líka að henni þætti vænt um þegar fólk upplifði verkin hennar í líkamanum, ekki með hugsun.

 

Í málverkum Gabríelu eru oft skærir litir en í innsetningum sem hún hefur gert er stundum eins og miðaldir vakni til lífsins í brúnum tónum, mold, heyi og brúntóna búningum dansara og leikara sem hún fær til liðs við sig. Gabríela hefur unnið með fjölbreyttum og stórum hópi fólks úr öðrum listgreinum, t.d. dönsurum og tónlistarfólki. Hún og tónlistarkonan Björk hafa unnið mikið saman. Gabríela gerði plötuumslög fyrir Björk og Björk lék og gerði tónlist fyrir vídeóverk Gabríelu en Gabríela var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum árið 2005. Síðan hefur hún sýnt verk sín víða um heiminn. Eftir Feneyjar bjó hún í 3 ár í kastala í Belgíu sem var með risastórum garði og síki í kring. Gabríela lærði myndlist í Reykjavík og Prag og kláraði BA próf frá skúlptúrdeild Myndlistar- og handíðaskóla Íslands (MHÍ) árið 1998. Eitt af verkum Gabríelu í safneign Listasafns Íslands er Skugginn frá árinu 2007. Þar er furðuvera eða einhvers konar sambland af veru og tré og bleiki liturinn sem er í dálitlu uppáhaldi hjá Gabríelu.

Heimildir: 

Dagný Heiðdal, Halldór Björn Runólfsson, Steinar Örn Erluson, Svanfríður Franklínsdóttir. 130 verk úr safneign Listasafns Íslands. (2019). Reykjavík: Listasafn Íslands. 

Hanna Björk Valsdóttir. (2005, 17. nóvember) Um töfrandi tilgangsleysi myndlistarinnar. Málið/Morgunblaðið, bls. 12.

Kolbrún Bergþórsdóttir. (2008, 4. mars). Ævintýrið og spuninn. 24 Stundir, bls. 18.

Ólafur Kvaran. (2011). Íslensk listasaga frá síðari hluta 19. aldar til upphafs 21. Aldar. Reykjavík: Listasafn Íslands & Forlagið.

www.gabriela.is

Gabríela Friðriksdóttir, Skugginn, MDF, akrýllitur, blek, blýantur. 90 x 90 x 2,2 cm, 2007.
LÍ 8507

Georg Guðni Hauksson

(1961–2011)

Fæddur í Reykjavík

Miðlar: málaralist

 

Náttúran er eflaust algengasta viðfangsefni málara gegnum söguna, ekki síst á Íslandi þar sem náttúran er allt um lykjandi. Þegar Georg Guðni var í Myndlistar- og handíðaskólanum á árunum 1980–85 þótti það mjög hallærislegt að mála náttúruna, þá var í tísku að vinna myndlist út frá hugmyndum. Eitt sinn í skólanum varð honum litið út um gluggann þar sem Esjan stóð í öllu sínu veldi. Hann fór að mála fjallið og upp frá því, þótt Georg Guðni hafi ekki stefnt í þá átt, gerðist það af sjálfu sér að hann fór að gera náttúruna að sínu viðfangsefni. Málverk Georgs Guðna eru ekki eins og flest náttúrumálverk sem við þekkjum sem eru af ákveðnum stað eða fyrirbæri heldur fanga þau órætt landslag eða tilfinningu um landslag. Hann hélt sínu striki og fullkomnaði stíl sinn með tímanum. Málverkin hans snúast um birtu og landslag sem er að miklu leyti byggt í huga þess sem horfir á verkið. Þau eru einföld en sterk á sama tíma og hafa fáa liti. Georg Guðni er í hópi ástsælustu landslagsmálara Íslands og er talinn hafa komið með eitthvað alveg nýtt og einstakt í það gamla form, landslagsmálverkið. Georg Guðni varð bráðkvaddur árið 2011, aðeins 50 ára að aldri. Í safneign Listasafns Íslands er verk án titils sem ber öll hans helstu höfundareinkenni. Friður ríkir í myndinni, hún er ekki af neinum ákveðnum stað, himinn og jörð mætast, litir eru fáir, myndin er draumkennd, og á sama tíma einföld og sterk. 

Georg Guðni, Án titils, olía á striga, 185 x 200 x 3,5 cm, 1994.
LÍ 5649

Gerður Helgadóttir

(1928–1975)

Fædd í Neskaupstað

Miðlar: skúlptúr, glerlist

 

Í vonskuveðri á haustmánuðum árið 1947 sigldi Gerður Helgadóttir á frystiskipi til Ítalíu, 19 ára gömul. Nokkru fyrr var hún á leið til Kaupmannahafnar í myndlistarnám en á síðustu stundu þurfti að hætta við 1þar sem bræður hennar voru í námi erlendis og foreldrar hennar gátu ekki kostað hana líka til náms. Þetta voru mikil vonbrigði fyrir alla en þegar vinnufélagar pabba hennar sáu sorgina sem þetta olli honum ákváðu þeir að hjálpa til með samskoti og að redda ókeypis fari til Ítalíu með skipi. Gerður var fyrst Íslendinga til að fara til náms í myndlist á Ítalíu og fyrst íslenskra kvenna til að leggja höggmyndalist fyrir sig. Fyrst lærði hún klassíska höggmyndalist í Flórens á Ítalíu og þótt það væri góður grunnur vildi hún ekki stunda það að herma eftir fyrirmyndum heldur fylgja eigin hugmyndum. Eftir tvö ár á Ítalíu fór hún til Parísar til að vera í hringiðu listalífsins. Um tíma sótti hún einkaskóla rússneska myndhöggvarans Ossip Zadkine en fór svo að fylgja sinni sýn og hætti að þiggja leiðsögn annarra. Gerður var á þessum tíma að átta sig á því að málmar væru hennar uppáhalds efni. Gerður vann mikið. Hún var fjölhæf, einbeitt og vandvirk. Hún áorkaði ótrúlega miklu á sinni stuttu ævi. Hún hélt sína fyrstu sýningu í París aðeins ári eftir komuna þangað. 

 

Árið 1954 skrifaði Michel Ragon, myndlistargagnrýnandi grein sem ber titilinn Galdramaðurinn Gerður. Hann sagði að París hafi þegar tekið Gerði í fóstur og álíti hana einn sinn besta myndhöggvara. Hann skrifaði líka að hún væri eini kvenmyndhöggvarinn sem hafi þorað að ráðast á járnið og að hæfileikar hennar væru furðulegir, hún hafi hoggið svo meistaralega úr steini en að hún hafi strax náð ákveðnari stíl með járninu. (1) Gerður hélt margar sýningar á fyrstu árum sínum í  París og víða í Evrópu. Á þessum tíma voru gjaldeyrishöft og meiriháttar mál að senda peninga milli landa. Það var erfitt að fá laun fyrir skúlptúra á þessum tíma svo hún sinnti líka verkefnum sem voru pöntuð hjá henni. Hún gerði brjóstmyndir, glerverk í glugga á nokkrum kirkjum á Íslandi, hannaði skartgripi og húsgögn. Hún gerði stórt mósaíkverk á Tollhúsið í Tryggvagötu þar sem Listaháskóli Íslands verður með húsnæði sitt innan fárra ára. Gerður tilheyrði hópi í París sem stundaði andlega leit og var það henni innblástur í verkin hennar. Hún fór til Egyptalands árið 1966 til að skoða forn-egypska skúlptúra og varð það henni líka innblástur. Elín Pálmadóttir vinkona Gerðar sem einnig skrifaði ævisögu hennar sagði að Gerður hafi trúað því alla tíð að einhvers staðar væri einhver kjarni, eitthvað hreint og fagurt og satt, sem væri þess virði að lifa fyrir. Í þessari heimspeki hafi Gerður fundið leiðir fyrir sína eigin leit sem endurspeglast í verkum hennar. (2) Verk eftir Gerði eru dreifð víða, í kirkjum, á torgum, í söfnum og á heimilum víða um heiminn. Erfingjar Gerðar gáfu Kópavogsbæ 1400 verk eftir hana árið 1977 og árið 1994 var Listasafn Kópavogs – Gerðarsafn opnað þar sem hægt er að kynnast verkum hennar. Eitt af verkum Gerðar í safneign Listasafns Íslands ber heitið Abstraction og er frá árinu 1952. 

Verkið er gert úr svartmáluðu járni.

  1. Dagný Heiðdal, Halldór Björn Runólfsson, Steinar Örn Erluson, Svanfríður Franklínsdóttir. 130 verk úr safneign Listasafns Íslands. (2019). Reykjavík: Listasafn Íslands. 
  2. Michel Ragon (1954, 2. júní) Galdramaðurinn Gerður. Morgunblaðið. 
  3. Guðbjörg Kristjánsdóttir. Gerður – meistari glers og málma. (2010). Kópavogur: Listasafn Kópavogs – Gerðarsafn.

Gerður Helgadóttir, Abstraction, járn, 91 cm, 1952.
LÍ 7079

Guðjón Ketilsson

(1956)

Fæddur í Reykjavík

Miðlar: nýir miðlar, fjöltækni, skúlptúr

 

Listin má ekki vera hátíðleg sagði Guðjón Ketilsson eitt sinn í viðtali og bætti því við að þar ætti að finnast lífsneisti, ekki eitthvað fyrirfram ákveðið. Nær allir sem hafa skrifað um verk Guðjóns Ketilssonar dást að því hversu vel hann gerir verk sín. Guðjón þykir afar flinkur og vandvirkur handverksmaður og hann vinnur með ýmis efni, mikið með tré en líka járn, gifs, pappír og postulín. Flest verka Guðjóns eru einföld ásýndar en mikil vinna liggur að baki þeim þrátt fyrir það. Það tekur mikinn tíma að móta skúlptúra úr tré enda vill hann gera sem mest í höndum. Guðjón er flinkur teiknari og byrjar vinnuferlið á teikningu sem leiðir hann oft í að vinna teikninguna í þrívíðan hlut, oftast úr tré. Guðjón hefur unnið mikið með fundna hluti, húsbyggingar og húsgögn sem hann setur í nýtt samhengi og spyr um leið að hlutverki og tilgangi. Guðjón lærði myndlist í Reykjavík og Halifax í Kanada og hefur sýnt myndlist sína á fjölmörgum sýningum hér heima og úti í löndum. 

Í safneign Listasafn Íslands er verk eftir Guðjón sem ber titilinn Yfirborð–Mannvirki en verkið er til sýnis á sýningunni Fjársjóður þjóðar í Safnahúsinu við Hverfisgötu. 

Einar Örn Gunnarsson. (1991, 21. september) Einfalt og kyrrt. Morgunblaðið.

Guðjón Ketilsson, Yfirborð–Mannvirki, viður, 195 x 340 x 62 cm, 2011.
LÍ 8862

Guðmunda Andrésdóttir

(1922–2002) 

Fædd í Reykjavík

Miðill: málaralist

 

Guðmunda Andrésdóttir varð fyrir opinberun á sýningu Svavars Guðnasonar veturinn 1945–6. Sýningin hafði svo mikil áhrif á hana að hún ákvað að gerast málari og dreif sig til Stokkhólms í myndlistarnám ári eftir að hún sá sýninguna. Sýning Svavars fékk litlar undirtektir í Reykjavík en Guðmunda sagði að hún hafi verið eins og sprengja inn í okkar litla heim en hann málaði abstrakt myndir, myndir sem voru ekki af landslagi, húsi eða öðru sem við þekkjum. Guðmunda lærði myndlist í Stokkhólmi og var tvo vetur í París 1951–3. Þá ferðaðist hún mikið um Evrópu og skoðaði söfn og sýningar. Í París varð hún fyrir miklum áhrifum frá málurum sem stunduðu geómetríska abstrakt list sem byggir á þeirri hugmynd að listin eigi ekki að vera eftirmynd veruleikans heldur eigi listamaðurinn að skapa nýjan veruleika í verkum sínum sem hægt er að njóta á eigin forsendum. (1) Í París eftirstríðsáranna fór fram uppgjör við stríðið og fortíðina og málverkið átti að vera „hreint og klárt og án allra aukaatriða“.(2) Á Íslandi höfðu landslagsmálverk verið allsráðandi fram að þessu og almenningur á Íslandi átti stundum erfitt með að taka abstrakt málverk í sátt. Guðmunda sagði í viðtali að oft nálgaðist andúð almennings á abstraktverkum sjúklegt hatur en hún hélt sig alla tíð við abstrakt málverk. Hún fór gegnum mismunandi skeið í málaralistinni og sagði að myndirnar væru rannsóknarferli, „rannsókn á formi, hreyfingu og litum“.(3) 

Árið 1990 var haldin yfirlitssýning á verkum Guðmundu á Kjarvalsstöðum. Í viðtali tengdu sýningunni sagði Guðmunda að myndlistin væri henni sem ólæknandi sjúkdómur og að hún fengi sömu óþreyjuna að mála og þegar hún sá verk Svavars 45 árum áður. Guðmunda er í hópi þeirra listamanna sem ruddu brautina í abstraktlist á Íslandi. Hún dó árið 2002 og erfði Listasafn ÍSlands, Listasafn Reykjavíkur og Listasafn Háskólans að verkum sínum. Með erfðafé lét hún stofna Styrktarsjóð Guðmundu Andrésdóttur, til að styrkja unga myndlistarmenn til náms. 

  1. Dagný Heiðdal. (2004) List Guðmundu Andrésdóttur, þróun og gagnrýni. Guðmunda Andrésdóttir. Tilbrigði við stef. Reykjavík: Listasafn Íslands. 
  2. Ólafur Gíslason. (1990) Myndlist er ólæknandi sjúkdómur. Guðmunda Andrésdóttir. Reykjavík: Listasafn Reykjavíkur 
  3. Ólafur Gíslason. (1990) Myndlist er ólæknandi sjúkdómur. Guðmunda Andrésdóttir. Reykjavík: Listasafn Reykjavíkur 

Guðmunda Andrésdóttir, Átrúnaður, olía á striga, 110 x 120 cm, 1971.
LÍ 1605

Guðmundur Einarsson frá Miðdal

(1895–1963)

Fæddur í Miðdal í Mosfellssveit

Miðlar: málaralist, leirlist

 

Guðmundur ólst upp í Miðdal í Mosfellssveit og var elstur 11 systkina. Hann var handlaginn og fjölhæfur, sótti sjóinn, vann öll sveitastörf og byrjaði snemma að mála. Hann var mikill íþróttamaður og fjallagarpur en hugur hans beindist að myndlist. Árið 1919 bauð Einar Benediktsson athafnamaður Guðmundi að koma til sín í Kaupmannahöfn og var hann þar um skeið. 1921 fór hann til Þýskalands að læra höggmyndalist en þar lærði hann líka leirbrennslu. Guðmundur ferðaðist víða um Evrópu og skoðaði söfn og sýningar. Hann sýndi og seldi þónokkuð af verkum sínum úti í löndum og var boðin kennarastaða í Þýskalandi en hann sagðist ekki hafa fest yndi neins staðar annars staðar en á Íslandi, ekki síst útaf því hvað hér væri mikið frelsi.(1) Hann flutti því heim. Guðmundur gerðist brautryðjandi í leirmunagerð en hann kom sér upp brennsluofni fyrstur manna árið 1927, auk þess fann hann sjálfur jarðefni í munina. 

Guðmundur var afkastamikill listamaður, gerði höggmyndir af Jóni Arasyni biskup, Skúla fógeta, steindi glugga ásamt Finni Jónssyni í Bessastaðakirkju og vann hvelfingar með steinum í Þjóðleikhúsið og Háskóla Íslands svo eitthvað sé nefnt. Hann hélt reglulega sýningar á málverkum, höggmyndum og leirmunum og seldi vel en hann sendi fréttatilkynningar í blöðin með tölum um aðsókn á sýningar og fjölda seldra verka. Eftir því sem leið á 6. áratuginn fannst listgagnrýnendum í Reykjavík ekki mikið til Guðmundar koma enda var abstrakt málverkið í algleymingi. Guðmundur svaraði fyrir sig og átti í hörðum ritdeilum þar sem hann varði sína afstöðu til listarinnar sem hann hélt út lífið. Virðing fyrir náttúru, þjóðlegum gildum og klassískri myndlist skipti hann miklu. Hann taldi nútímalist vera tískufyrirbrigði. Í bréfi til sonar síns, Erró, árið 1955 sagði hann íslenska list í algjörum ógöngum og áréttaði að listamaðurinn er ábyrgur gagnvart þjóðinni. (2) Guðmundur hélt sínu striki allt til enda þrátt fyrir árásir gagnrýnenda og leyfði náttúrunni að vera sitt helsta viðfangsefni. Þekktasta arfleifð hans í dag eru leirmunir sem nú seljast dýrum dómi á uppboðum af rjúpu, fálka og öðrum dýrum. Verkið Loki og Sigyn byggir á sögu úr norrænni goðafræði og er í safneign Listasafns Íslands. (3)

  1. JB. (1944, 11.apríl) Á veltandi steini vex ekki mosi. Þjóðviljinn
  2. Illugi Jökulsson.(1997) Guðmundur frá Miðdal. Seltjarnarnes: Ormstunga. 
  3. Dagný Heiðdal, Halldór Björn Runólfsson, Steinar Örn Erluson, Svanfríður Franklínsdóttir. 130 verk úr safneign Listasafns Íslands. (2019). Reykjavík: Listasafn Íslands. 

Guðmundur Einarsson frá Miðdal, Loki og Sigyn, bronsmálað gifs, H 71,5 cm, 1926.
LÍ 6233

Gunnlaugur Scheving

(1904–1972)

Fæddur í Reykjavík

Miðlar: málaralist

Gunnlaugur Scheving byrjaði snemma á mála og hafði mikinn áhuga á myndum frá barnsaldri, bæði að búa þær til sjálfur en líka að skoða myndir annarra. (1) Hann lærði fyrst að teikna hjá Einari Jónssyni myndhöggvara og Muggi (Guðmundi Thorsteinssyni) áður en hann sigldi til Kaupmannahafnar árið 1923 og fór í Listakademíuna þar. Hann flutti heim eftir námið og einbeitti sér að málaralistinni. Viðfangsefni hans var fólk við störf, bændur og sjómenn. Gunnlaugur var heillaður af sjónum og málaði gjarnan stórar myndir af sjómönnum við vinnu. Í þeim myndum er hreyfing en í sveitamyndunum af bændum og þeirra dýrum er friðsæld og ró. Þjóðlífið varð hans aðalsmerki sem málara en hann vildi fara aðra leið en að mála hefðbundin landslagsmálverk. Stundum notaði hann þjóðsagnararfinn sem grunn í verkum sínum. Málverkin hans voru oft mjög stór, þau voru litrík og stíllinn auðþekkjanlegur. 

Gunnlaugur vandaði sig mikið við að mála og teiknaði alltaf skissur fyrst. Þetta gerði hann til þess að spá í myndbyggingu málverksins. Hann hélt ekki margar sýningar en þegar það gerðist var mikið skrifað í blöðin og verkunum hrósað. Gunnlaugur var ástsæll og á stórafmælum hans skrifaði fólk miklar þakkarræður í blöðin, ekki bara vegna verka hans en líka vegna mannkosta. Hann hafði mikla frásagnargáfu og kímnigáfu og var traustur vinur. Listunnandinn Ragnar Jónsson sagði um Gunnlaug á fimmtugsafmæli hans að ekki mundi hann eftir skemmtilegri manni og að hann haldi að til séu fáir betri málarar í heiminum en Gunnlaugur þó leitað sé víða um lönd. (2)  

Gunnlaugur lést árið 1972 og þá stóð í Morgunblaðinu að konungur íslenskrar myndlistar væri allur. Hann arfleiddi Listasafn Íslands að mörgum verkum, eitt þeirra er Hákarlinn tekinn inn

  1. 1 Þar er lífsást og húmanisni í hverju pensilfari. Morgunblaðið 13. nóvember 1966
  2. 2 Stórveldin þrjú og Scheving. Ragnar Jónsson. Morgunblaðið 7. Júní 1964

Gunnlaugur Scheving, Hákarlinn tekinn inn, olía, 255 x 405 cm, 1965.
LÍ 1674

L

Leonardo da Vinci

(1452-1519)

 

Fæddur í Vinci á Ítalíu.

Miðlar: Málaralist, teikningar og fleira.

Oft er sagt að Leonardo frá Vinci sé snillingur og hann var ótrúlega fjölhæfur. Hann var einn af mikilvægustu endurreisnarmönnunum en ef ekki væri fyrir myndlistarverk hans gæti hann allt eins hafa gleymst.

Leonardo fæddist í smábænum Vinci á ítalíu árið 1452. Hann var ekki bara myndlistarmaður, hann lagði líka stund á vísindi og fann upp fjölda tækja og tóla sem fæst voru nokkurn tímann búin til í raun og veru svo eitthvað sé nefnt. Leonardo skrifaði um allar athuganir sínar, hugmyndir og teiknaði uppfinningar í ótal minnisbækur með spegilskrift sem erfitt er að lesa. Eftir hann liggur því mikið og fjölbreytt ævistarf þótt málverkin séu fá. Leonardo bjó lengst af í Flórens en einnig í Feneyjum, Mílanó og í Frakklandi.

Hefðbundin skólaganga Leonardos var ekki löng en á unglingsárum sínum flutti hann til Flórens sem þá var miðpunktur nýrra hugmynda, menningar og lista. Fjölskylda hans kom honum að í læri hjá myndhöggvaranum Andrea del Verrocchio en algengt var í þá daga að ungir myndlistarmenn væru í læri hjá meistara frekar en í myndlistarskólum. Þótt vitað sé að Leonardo hafi lært höggmyndalist hafa engin slík verk eftir hann varðveist.

Leonardo lagði mikla áherslu á anatómíska teikningu. Hann krufði lík og teiknaði líkamana upp, vöðva fyrir vöðva. Þannig lagði hann grunn að þekkingu á mannslíkamanum en listamenn allar götur síðan hafa glímt við mannslíkamann í námi sínu, þótt fyrirmyndirnar hafi yfirleitt verið lifandi fólk.

Leonardo er þekktastur fyrir málverk sín þótt aðeins örfá þeirra hafi varðveist. Þá hafa sum þeirra, til dæmis Síðasta kvöldmáltíðin sem er eitt þeirra frægustu, varðveist illa því við gerð hennar reyndi Leonardo nýja tækni sem gafst því miður ekki vel. Myndin var máluð beint ofan á gifs á vegg í Il Cenacolo klaustrinu í Mílanó þar sem það er enn og flinkir forverðir fá reglulega að bjarga henni frá enn frekari skemmdum.

Móna Lísa eftir Leonardo er af mörgum talin frægasta andlitsmynd listasögunnar. Þótt hann hafi líklega málað myndina eftir pöntun lét hann hana ekki af hendi og tók hana með sér hvert sem hann fór. Hún var einmitt með honum í Frakklandi þegar hann dó. Því er Móna Lísa í Louvre listasafninu í París.

Heimildir:

Zuffi. (2003). The Renaissance. Collins.

Vísindavefurinn

R

Ragnar Axelsson (RAX)

(1958)

Fæddur í Kópavogi.

Miðill: Ljósmyndun.

Ragnar Axelsson eða RAX hefur starfað sem ljósmyndari frá því hann var 18 ára gamall en hann var ljósmyndari Morgunblaðsins frá 1976 til 2020. Sem fréttaljósmyndari og síðar heimildaljósmyndari hefur hann þróað sterkt og áhrifamikið myndmál. Ragnar hefur einnig starfað sem heimildaljósmyndari á eigin vegum og ferðast víða um heiminn til að skrásetja líf og kjör fólks með myndum sínum. Myndir hans hafa verið sýndar víða um heim og hafa birst í fjölmiðlum á borð við LIFE, Newsweek, Stern, GEO, National Geographic, Time og Polka. Hann hefur einnig gefið út nokkrar bækur með verkum sínum og fengið fjölda verðlauna fyrir framlag sitt til ljósmyndunar.

Ragnar hefur í áratugi fylgst með lífi fólks í afskekktum byggðum á norðurslóðum og skrásett skipulega með myndum sínum en hann kom fyrst til Grænlands um miðjan 9. áratuginn. Myndir hans hafa gríðarlegt heimildargildi enda eru hefðbundnir lifnaðarhættir fólks á þessum slóðum að breytast hratt og aldagömul menning samfélaga veiðimanna að líða undir lok. Með loftslagsbreygingum á lífríkið allt undir högg að sækja en breytingarnar er sjáanlegar í myndaröðum Ragnars.

Í verkum sínum skrásetur Ragnar ekki aðeins hverfandi menningarheima og náttúru því hann heldur á lofti listrænni sýn á viðfangsefni sín, fegurðinni í hrikalegri náttúrunni og fólkinu sem glímir við hana.

Heimildir:

Ragnar Axelsson, Nuttall, M., & Haraldur Ólafsson. (2010). Veiðimenn norðursins. Crymogea.

https://rax.is

Ragnar Kjartansson

(1923-1989)

Fæddur á Staðastað á Snæfellsnesi.

Miðlar: Leirlist og höggmyndalist.

Ragnar Kjartansson steig sín fyrstu spor á listabrautinni sem lærlingur í leirkerasmíði í Listvinahúsinu hjá Guðmundi Einarssyni frá Miðdal og Lydiu Zeitner, þá 16 ára gamall. Þar voru búnir til bæði nytjahlutir, sumir í stóru upplagi, sem og einstakir listmunir. Þar starfaði hann að námi loknu og beið þess að seinni heimsstyrjöldinni lyki. Loks komst hann til Svíþjóðar til að fullnema sig í leirkeragerð. Þegar hann kom heim aftur stofnaði hann Leirmunaverkstæðið Funa með öðrum og þar hóf hann framleiðslu á listmunum og nytjahlutum úr íslenskum leir.

Á fimmta áratug 20. aldar voru ströng gjaldeyrishöft á Íslandi og innflutningur lítill. Það var meðal annars vegna þess sem íslenskir leirkerasmiðir og leirlistamenn þróuðu leiðir til að nota íslenskan leir en ekki innfluttan eins og flestir gera nú en einnig vegna þess að þeir vildu vera sjálfbærir. Önnur afleiðing haftanna var að lítið úrval var af innfluttum skrautmunum og hlutum. Því var mikil eftirspurn eftir íslenskum leirmunum á þeim tíma, ekki bara vegna þess að þeir voru fallegir og vel gerðir heldur líka vegna þess að fátt annað fékkst í búðum. Á þeim tíma voru rekin sex leirverkstæði á Íslandi, sum hver fjölmennir vinnustaðir.

Um 1952 losnaði um höftin og erlendir skrautmunir og borðbúnaður urðu algeng vara í verslunum og eftirspurnin eftir íslensku leirmununum minnkaði. Mörg leirverkstæðin lögðu upp laupanna. Ragnar hélt þá til Svíþjóðar og vann þar í keramikverksmiðju og stundaði nám í höggmyndalist í kvöldskóla. Þegar hann kom aftur heim til Íslands og hélt áfram að vinna við leirlist lagði hann áherslu á listmuni frekar en nytjahluti, fyrst hjá Funa en 1957 stofnaði hann Leirmunaverkstæðið Glit. Hann lagði mikið upp úr samstarfi við aðra listamenn við hönnun og gerð gripanna. Hann heillaðist af abstrakt list og mörg verka hans bera þess vitni. Hann gerði ýmsar tilraunir með íslenska leirinn og blandaði meðal annars hrauni í hann sem gaf sérstæða áferð sem nefnd hefur verið hraunkeramík.

Ragnar starfaði einnig sem myndhöggvari og víða um land eru útilistaverk eftir hann. Hann var einnig mikilvirkur myndmenntakennari í Myndlistarskólanum í Reykjavík og stýrði skólanum um tíma.

Heimilid:

Inga Ragnarsdóttir, & Kristín G. Guðnadóttir. (2021). Deiglumór: keramik úr íslenskum leir 1930-1970. Minningarsjóður um Ragnar Kjartansson.

Ragnar Kjartansson

(1976)

Fæddur í Reykjavík.

Miðlar: Gjörningalist, innsetningar, tónlist, myndbandsverk og málaralist.

Ef það er eitthvað eitt sem einkennir fjölbreytta list Ragnars Kjartanssonar þá eru það endurtekningarnar sem eru eins og rauður þráður í svo mörgum verka hans. Ragnar ólst upp í leikhúsinu því báðir foreldrar hans voru leikarar og leikstjórar. Hann segist vera hugfanginn af leikæfingum sem byggja oft á samhengislausum endurtekningum og leiksviðum án leikara þar sem leikmunir, tæki og tól fá að njóta sín.1

Ragnar byrjaði feril sinn sem tónlistarmaður á unglingsaldri og var í ýmsum hljómsveitum, sú þekktasta er hljómsveitin Trabant. Hann lærði myndlist í listaháskólum í Stokkhólmi og Reykjavík. Hann hefur sýnt verk sín í virtum listasöfnum um heim allan og er sennilega sá íslenski myndlistarmaður sem hefur náð hvað lengst á heimsvísu.

Leikhús og óperur eru oft efniviður í innsetningum og myndbandsverkum Ragnars en einnig bókmenntir, dægurmenning eins og sjónvarpsþættir og kvikmyndir. Oft eru gjörningar hans langir og reyna mikið á hann og samstarfsfólk hans, svo sem söngvara og leikara. Gjörningurinn Sæla (e. Bliss) sem fluttur var í New York árið 2011 tók tólf klukkutíma í flutningi og þurfti aðalsöngvarinn, óperusöngvarinn Kristján Jóhannsson, að syngja lokaaríuna úr óperunni Brúðkaup Fígarós stöðugt allan tímann. Aðrir gjörningar hafa tekið vikur eða mánuði, svo sem Endir (e. The End) í Feneyjum þar sem Ragnar málaði myndir af vini sínum á sundskýlu á hverjum degi í sex mánuði. Alls urðu málverkin 144 og söfnuðust upp í sýningarrýminu ásamt tómum bjórflöskum og sígarettustubbum.

Sum verka Ragnars eru gríðarlega umfangsmikil og flókin í framkvæmd, svo sem gjörningurinn Santa Barbara sem fór fram í listasafni í Mosku í Rússlandi2. Í safninu var smíðað heilt kvikmyndaver og daglega í 100 daga átti rússneskur leikhópur að setja upp einn þátt af bandarísku sápuóperunni Santa Barbara. Sýningin og gjörningurinn hófst 3. desember 2021 en Ragnar stöðvaði sýninguna í febrúar árið eftir þegar Rússland hafði ráðist inn í Úkraínu.

Heimildir:

  1. Ragnar Kjartansson, Markús Þór Andrésson, Hasham, L., Sölvi Björn Sigurðsson, Helga Soffía Einarsdóttir, Mörður Árnason, Hermann Stefánsson, & Ingunn Snædal. (2017). Ragnar Kjartansson. Listasafn Reykjavíkur. Bls. 180.
  2. https://www.ruv.is/frettir/innlent/2021-12-03-pabbi-ragnars-sagdi-honum-ad-vara-sig-a-santa-barbara

Ragnhildur Jóhanns

(1977)

Fædd í Reykjavík.

Miðlar: Bókverk, samklipp, gjörningar og málaralist.

Ragnhildur Jóhanns útskrifaðist úr myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2010 en áður hafði hún stundað myndlistarnám á listnámsbraut Fjölbrautarskólans í Garðabæ og í Myndlistarskólanum í Reykjavík.

Í verkum sínum vinnur hún með tungumálið, texta, bækur og staðalímyndir kvenna á margvíslegan hátt. Hún hefur unnið bókverk á fjölbreytta máta. Hún notar gjarnan fundna hluti, einkum gamlar bækur og gefur þeim nýtt og óvænt hlutverk. Ragnhildur hefur unnið skúlptúra og innsetningar úr gömlum bókum, meðal annars með því að stilla bókum upp á óhefðbundinn hátt, taka bækur í sundur og sýna okkur þær í óvæntu ljósi og með því að klippa út og draga fram það sem í þeim stendur, oftar en ekki á ljóðrænan hátt. Hún hefur einnig unnið ljósmyndaverk af bókverkum sínum og þannig umbreytt þrívíðum verkum í tvívíð á nýjan leik og fest sjónarhorn áhorfandans. Þá hefur hún gert tvívíð samklippsverk þar sem orð og setningar mynda nýjar merkingarheildir.

Staða kvenna í samfélaginu er Ragnhildi hugleikin. Meðal verka hennar eru máluð portrett af þekktum íslenskum femínistum sem hafa verið umdeildar og áberandi í umræðunni. Þar er bókin sem samfélagsspegill þó ekki langt undan því allar eru konurnar að lesa ástarsögur – bókmenntir sem samfélagið lítur gjarna á sem lágmenningarleg kvennarit. Mörg verka Ragnhildar skoða stöðu kvenna í dægurmenningu og hvernig samfélagið reynir að móta konur að staðalímyndum feðraveldisins. Hún vinnur með hugmyndir um kvenleika, oft á ögrandi en einnig gamansaman hátt og hefur unnið samklipp, m.a. úr gömlum auglýsingum og leiðbeiningum til kvenna um hegðun, háttsemi og útlit.

Ragnhildur hefur haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í samsýningum hérlendis og erlendis.

 

Heimildir:

https://hugras.is/2016/07/diktur/

Sýningarskrá „Hin brennandi konusál – Hugleiðing um verk Ragnhildar Jóhanns og sýninguna Freistingin 5. mars – 3. apríl 2022“ eftir Dr. Yndu Eldborg

https://ragnhildurjohanns.com/

Roni Horn

(1955)

Fædd í New York í Bandaríkjunum.

Miðlar: Ljósmyndun, málaralist, höggmyndalist og innsetningar.

Roni Horn var skírð Rose eftir báðum ömmum sínum en breytti nafni sínu í Roni því hún vildi nota kynhlutlaust nafn. Þótt hún sé bandarísk tengjast mörg verka hennar Íslandi með einum eða öðrum hætti og hún býr og starfar jafnt í New York og Reykjavík. Á Íslandi er hún einna þekktust fyrir Vatnasafn sitt í Stykkishólmi en það er innsetning í gamla bókasafnshúsinu sem staðsett er efst í bænum með útsýni yfir hafið og þorpið. Innsetningin samanstendur af 24 glersúlum fylltum af vatni úr mörgum af helstu jöklum Íslands. Glersúlurnar brjóta ljós og endurvarpa því á gúmmígólf en á því eru orð, bæði á ensku og íslensku sem tengjast veðrinu. Innsetningin er nánast eins og helgur staður þar sem gestum er gert að fara úr skóm áður en inn er haldið og þar býðst áhorfendum líka að hlusta á frásagnir fólks af veðrinu. Verkið sjálft er síbreytilegt eftir birtu og veðri utandyra og staðsetningu áhorfandans.

Bókverkið To Place (1990-) er ritröð með ljósmyndum, teikningum og texta sem Roni Horn tengir Íslandi með einum eða öðrum hætti. Efni sumra bókanna hefur listamaðurinn einnig notað á annan hátt. Má þar nefna verkið You are the Weather eða Þú ert veðrið en þar birtir hún ljósmyndir af íslenskri listakonu í hinum ýmsu sundlaugum á Íslandi en myndirnar hefur hún einnig notað í samnefndri ljósmyndainnsetningu. Roni Horn er líka þekkt fyrir skúlptúra sína og ritstörf. Hún hefur unnið til fjölda verðlauna víða um heim.

Heimildir:

https://www.west.is/is/thjonustur/vatnasafn

i8.is

Rósa Sigrún Jónsdóttir

(1962)

Fædd á Fremstafelli í Ljósavatnshreppi.

Miðlar: Höggmyndalist, textíll, málaralist, vídeó og innsetningar.

Rósa Sigrún Jónsdóttir lauk kennaraprófi árið 1987 og prófi frá skúlptúrdeild Listaháskóla Íslands árið 2001. Í verkum sínum sækir hún gjarnan innblástur í íslenska náttúru með einum eða öðrum hætti.

Rósa Sigrún vakti fyrst athygli fyrir prjónaðar og heklaðar innsetningar sínar þar sem áhorfandanum var gefinn kostur á að skyggnast inn í rými yfirtekið af litríku prjóni og þráðum sem teygðu sig í allar áttir. Skúlptúrar hennar eru iðulega frumlegir og óhefðbundnir og vísa í íslenska náttúru. Rósa hefur einnig unnið innsetningar og vídeóverk í þeim anda eins og verkið Horfðu djúpt frá 2005 sem vísar til Hálslóns sem varð til við gerð Kárahnjúkavirkjunar. Landið sjálft er henni hugleikið og hún beinir athygli sinni jafnt að hinu smáa, svo sem blómum og smásteinum, sem og hinu stórbrotna, svo sem fjöllum og landslagsheildum.

Verk Rósu Sigrúnar byggja oft á hefðbundnu og seinlegu handverki sem einkum hefur verið stundað af konum í gegnum tíðina. Hún vinnur með handverkið á óvæntan máta, t.d. með því að sauma krosssaumsspor í teikningar og vatnslitaverk, hekla lækningajurtir eða prjóna svokallaða „svelgi“ sem ná yfir heil herbergi eða sýningarsali. Þannig hefur hún heklað og stífað lækningajurtir og raðað saman í stóra sem smá skúlptúra, innsetningar og lágmyndir.

Heimild: https://rosasigrun.wordpress.com

X

C

H

Helgi Þorgils

(1953)

Fæddur í Búðardal

Miðlar: málaralist

Helgi Þorgils fæddist í Búðardal og flutti til Reykjavíkur 15 ára gamall. Eftir myndlistarnám í Reykjavík fór hann til Hollands í framhaldsnám og sneri til baka árið 1979. Hann hefur verið virkur í sýningahaldi síðan þá og hafa verkið hans farið víða um heiminn. Hann var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum árið 1990 en það er stór alþjóðleg myndlistarsýning sem haldin er annað hvert ár í Feneyjum á Ítalíu.

Helgi er einn þeirra sem endurreisti málverkið til virðingar eftir að það datt úr tísku á 8. áratugnum. 

Viðfangsefni hans í myndlistinni er samband manns og náttúru. Á Listasafni Íslands er verkið Fiskar sjávar en það er í Safnahúsinu á sýningunni Fjársjóður þjóðar. Í verkinu koma höfundareinkenni Helga vel í ljós, þar ríkir ákveðið tímaleysi, þar er nakinn maður, dýr og náttúra en hann notar þau viðfangsefni mikið í myndlist sinni. 

Helgi Þorgils, Fiskar sjávar, olía, 236 x 205 cm, 1995.
LÍ 6100

Hrafnhildur Arnardóttir, Shoplifter

(1969) 

Fædd í Reykjavík

Miðlar: textíll, skúlptúr

Hrafnhildur Arnardóttir flutti til New York árið 1994 og hefur búið þar síðan. Listamannanafnið Shoplifter er tilkomið eftir að einhver misskildi nafnið hennar þegar hún kynnti sig. Hún greip það á lofti og hefur notað það síðan. Hrafnhildur er þekkt fyrir skúlptúra sína sem hún vinnur úr hári, bæði alvöru hári og gervihári. Þegar hún var lítil geymdi amma hennar fléttu úr hári Hrafnhildar í skúffunni og upp frá því fór hún að spá í hári en nær öll hennar list notar hár sem efnivið. 

Hrafnhildur tekur sjálfa sig og listina ekki mjög hátíðlega og er húmor stór hluti af hennar verkum. List Hrafnhildar eru á mörkum hönnunar, myndlistar og tísku en hún hefur unnið með ýmsum listamönnum og hönnuðum í gegnum tíðina t.d. tónlistarkonunni Björk og japanska hönnunarfyrirtækinu Comme des Garcons. Verk Hrafnhildar Cromo sapiens sem sýnt var á Feneyjatvíæringnum árið 2019 er nú til sýnis í Höfuðstöðinni  í Ártúnsbrekku sem áður var kartöflugeymsla.

Í safneign Listasafns Íslands eru þrjú verk eftir Hrafnhildi, eitt þeirra nefnist Study for a Opera l, og eru höfundareinkenni hennar augljós í verkinu; litagleði og fléttur úr hári.  

Hrafnhildur Arnardóttir, Shoplifter, Study for a Opera l, hár, 164 X 217 cm, 2009.
LÍ 9198

Hreinn Friðfinnsson

(1943) 

Fæddur í Dalasýslu

Miðlar: nýir miðlar, fjöltækni

Í sveitinni þar sem Hreinn ólst upp var ekkert myndefni nema hjá prestinum, þar var eitt málverk. Hreinn drakk í sig það litla myndefni sem kom með fólki í sveitina og teiknaði mikið. 15 ára gamall flutti hann til Reykjavíkur og hóf myndlistarnám. Með viðkomu í listnámi í London og Róm flutti Hreinn til Amsterdam árið 1971 og hefur búið þar síðan. Árið 1965 stofnaði hann SÚM hópinn ásamt þeim Sigurði Guðmundssyni, Kristjáni Guðmundssyni og fleiri myndlistarmönnum. Listamennirnir í hópnum vildu frelsa myndlistina frá abstrakt hreyfingunni en fyrir þeim var hægt að búa til listaverk úr hverju sem er og setja það fram hvernig sem er. Fyrir þeim var hugmyndin aðalatriði en verkið aukaatriði. 

Myndlist Hreins er einföld ásýndar, hún fjallar oft um hið smáa, þar er kímni og líka mikil hugsun. Hreinn hefur aldrei verið mikið fyrir að tala um verkin, vill að þau tali fyrir sig sjálf. Hann er hógvær og segist ekki vera með nein sérstök skilaboð til áhorfenda. (Ath quote) Þegar hann fékk Ars Fennica verðlaunin í Finnlandi árið 2000 fannst honum óþægilegt umstangið og athyglin þótt hann væri þakklátur. Við það tækifæri var sagt að hann hefði þann einstaka hæfileika að gera allt svo einfalt, en um leið svo áhrifamikið, náið og tilfinningaríkt. (1) Í umsögn um sýningu Hreins árið 1999 komst Áslaug Thorlacius svo að orði að það væri nautn að skoða verk Hreins Friðfinnssonar. Þau væru myndlist í sinni hreinustu mynd, heimspeki sem orkar á skynjunina, beint og orðalaust. 

Það er áhugavert hvað einfaldleikinn getur verið áhrifamikill. Verk Hreins hafa hreyft við mörgum og verið sýnd í virtum söfnum og galleríum um víða veröld, t.d. á Pompidou safninu í París, í Serpentine galleríinu í London og á Feneyjatvíæringnum en hann var fulltrúi Íslands þar árið 1993. 

Í safneign Listasafns Íslands eru nokkur verk eftir Hrein, eitt þeirra er ljósmyndaverk frá árinu 1973 og heitir Attending.

  1. Morgunblaðið 13. október 2000. Mestu myndlistarverðlaun Norðurlanda afhent í gær. Hreinn Friðfinnsson hlýtur finnsku Ars Fennica-verðlaunin.
  2. 2. Áslaug Thorlacius. (13. apríl 1999). Hreinn tónn. Dagblaðið.

Hreinn Friðfinnsson, Attending, ljósmyndun, 55 x 70 cm, 1973.
LÍ 8048

M

Magnús Kjartansson

(1949-2006)

Fæddur í Reykjavík.

Miðlar: Málaralist, höggmyndalist, grafík, blönduð tækni og leirlist.

Magnús Kjartansson sótti sér fyrst listmenntun 18 ára gamall. Þá var hann nemandi í Menntaskólanum í Reykjavík og skráði sig á námskeið á vegum skólans. Svo vildi til að hann var einn um að sækja námskeiðið en það kenndu tveir merkir myndlistarmenn sem sinntu þessum eina nemanda vel. Í kjölfarið sótti hann í Myndlista- og handíðaskóla Íslands en eftir að hafa lokið námi þar fór hann í framhaldsnám í Konunglega listaháskólanum í Kaupmannahöfn.

Magnús var gríðarlega fjölhæfur listamaður og ekki auðvelt að skilgreina ævistarf hans. Í upphafi ferils síns var hann undir áhrifum frá Bandarískri myndlist en hann dvaldi þar í landi og kynnti sér helstu strauma og stefnur. Á þeim tíma einkenndust verk hans gjarnan af einföldum geometrískum formum og hreinum litum, einkum málverkin. Eftir nám sitt í Danmörku tók við tímabil þar sem hann gerði tilraunir með form og efni og fjarlægðist um stund hin hreinu form. Mörg verka hans vann hann með blandaðri tækni; málaði, klippti og límdi og vann með fundið myndefni – einhvers konar úrgang úr neyslusamfélaginu. Þar fann hann ýmis tákn úr samtímanum, svo sem þekkt vörumerki íslenskra fyrirtækja. Síðar átti hann eftir að vinna verk sem byggðu á ljósmyndatækni án þess þó að notaðar væru myndavélar. Hann notaði ljósnæm efni, ýmsa hluti og jafnvel eigin líkama og líkamshluta til að festa myndefnið á myndflötinn. Hann málaði svo ofan í myndirnar sem framkölluðust á pappírinn. Þessar sérstöku sjálfsmyndir líkjast stundum frumstæðum hellamálverkum og tengjast tilvistarlegum spurningum.

Magnús vann áfram með einfaldar mannsmyndir – sem stundum líktust frekar öpum eða öndum – og einföldum línum sem tákna kynjaverur í mörgum verka sinna. Stundum þakti hann myndflötinn svo úr varð eitthvað sem við fyrstu sýn líktist mynstri en þegar nánar var að gáð mátti sjá fólk, verur og dýr í mynstrinu.

Sambýliskona Magnúsar var Kolbrún Björgólfsdóttir – Kogga leirlistarkona. Þau deildu gjarnan vinnustofu og urðu fyrir áhrifum af verkum hvors annars. Magnús vann t.d. að skreytingum á fjölmörgum verkum Koggu, stórum sem smáum en leirinn leitaði einnig til hans með öðrum hætti. Um 1980 vann hann til að mynda skúlptúra úr rauðleir og fundnu efni með Árna Páli Jóhannssyni. Síðar átti hann eftir að vinna skúlptúra úr fundnum hlutum.

Á síðasta áratug síðustu aldar endurnýjaði Magnús sig nánast algjörlega sem myndlistarmann er hann tók að mála gríðarstór verk, mörg með trúarlegum þemum. Áhrif frá leirlistinni eru áberandi í áferð verkanna sem unnin voru með blandaðri tækni en Magnús notaði sag, lím og tré í bland við olíumálningu til að ná fram sérstæðri áferð á strigann.

Á síðustu árum ferils síns sagði Magnús skilið við málverkið en vann vatnslitamyndir og leirverk með Koggu. Hann lést úr bráðahvítblæði einungis 57 ára gamall.

Heimild:

Magnús Kjartansson, Svanfríður Sigrún Franklínsdóttir, Laufey Helgadóttir, Kolbrún Björgólfsdóttir, Uggi Jónsson, Anna Yates, Halldór Björn Runólfsson & María Helga Guðmundsdóttir. (2014). Magnús Kjartansson. Listasafn Íslands og JPV Útgáfa.

Magnús Ólafsson

(1862-1937)

Fæddur í Dalasýslu.

Miðill: Ljósmyndun.

Magnús nam verslunarfræði og vann í kjölfarið sem verslunarstjóri á Akranesi í 15 ár. Árið 1901 fluttist hann til Reykjavíkur með fjölskylduna sína en hélt svo til Kaupmannahafnar til að nema ljósmyndun og útvega sér nauðsynlegan búnað. Að því loknu hélt hann heim og stofnaði ljósmyndastofu í Reykjavík.

Ferill Magnúsar stóð frá aldamótum 1900 fram undir miðja 20. Öldina. Segja má að Magnús hafi verið ljósmyndari Reykjavíkur enda veita myndir hans einstaka sýn á borgarsamfélag í örum vexti, tækniframfarir og þjóðfélagsbreytingar.

Magnús tók þó ekki bara myndir í Reykjavík heldur ferðaðist hann um landið. Hann var fyrstur hér á landi til að fjöldaframleiða svokallaðar stereóskópmyndir sem voru þrívíddarmyndir til að skoða í sérstökum kíki. Þær myndir hans urðu gríðarlega vinsælar hér á landi en einnig erlendis og sýndu íslenska náttúru og mikilfenglegt landslag sem var flestum framandi á tímum þar sem fæstir áttu kost á skemmtiferðalögum.

Magnús var einnig fyrstur Íslendinga til að lita stækkaðar ljósmyndir en til þess notaði hann vatnsliti. Magnús var líka frumkvöðull í kvikmyndasýningum hér á landi og tók sjálfur kvikmyndir.

Ljósmyndir Magnúsar af borginni, landinu, atvinnuvegum og þjóðlífi eru varðveittar á Ljósmyndasafni Reykjavíkur og má skoða á myndavef safnsins. Magnús tók líka myndir af fólki á ljósmyndastofu sinni en stærstur hluti þess safns hefur glatast.

Heimildir:

Inga Lára Baldvinsdóttir, Maclean, H. S., Ívar Brynjólfsson, & Anna Yates. (2001). Ljósmyndarar á Íslandi 1845-1945: Photographers of Iceland 1845-1945. JPV.

https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1465251/?dags=2013-05-10&item_num=82&t=120890482&_t=1690904697.0000393

https://borgarsogusafn.is/ljosmyndasafn-reykjavikur/syningar/magnus-olafsson-ljosmyndari

Magnús Pálsson

(1929)

Fæddur á Eskifirði.

Miðlar: Skúlptúrar, samklipp, gjörningar, myndbandsverk og hugmyndalist.

Eftir menntaskóla hélt Magnús Pálsson til Birmingham á Englandi þar sem hann lærði leikmynda- og búningagerð. Hann hafði kynnst leikhúsuppsetningum í Menntaskólanum í Reykjavík og fengið áhuga á að starfa í leikhúsi. Heim kominn fékk hann vinnu hjá Leikfélagi Reykjavíkur og starfaði við leikmynda- og búningagerð. Svo lá leið hans í Myndlista- og handíðaskólann þar sem hann tók myndlistarkennarapróf en hélt svo til Vínarborgar árið 1957 í frekara myndlistarnám.

Magnús telst til frumkvöla í íslenskri nýlist, ekki aðeins vegna eigin sköpunar heldur veitti hann nýlistardeild Myndlista- og handíðaskólans forstöðu frá stofnun hennar í tæpan áratug og hafði áhrif á nemendur skólans.

Mörg verka hans eru náskyld leikhúsinu og fela í sér einhvers konar sviðsetningu. Sumir gjörningar hans byggja á þátttöku fólks eða leikara, samspili þeirra og spuna. Sum verka hans minna einnig á leikmynd, svo sem verkið Í minningu Njálsbrennu (1977) þar sem hann raðaði upp í þríhyrning tíu renndum viðarstólpum, hverjum og einum með ritvél ofan á og arfa ofan á hverri og einni þeirra. Fyrir framan þær var svo stólpi með bílnúmeraplötunni L 1010 en bókstafurinn L einkenndi bíla úr Rangárvallasýslu á þeim tíma sem verkið var unnið. Númerið 1010 vísar til ártals Njálsbrennu og arfinn til þess að menn Flosa í Njálssögu notuð arfa til að tendra brennuna. Aftan við ritvélarnar var málverk af söguslóðum. Verkið var upphaflega sett upp á samsýningu í Norræna húsinu en síðar setti Magnús verkið upp á söguslóðum Njálu og ljósmyndaði það.

Mörg verka Magnúsar hafa verið unnin með gifsi. Sum þeirra eru afleiðingar gjörninga og innsetninga eins og verkið Barcarolle í Fís-dúr (1981) en í því tók hann gifsafsteypu af ungmennum að hlusta á tónverk. Afsteypan var eingöngu af setflöt fólksins og var verkinu eytt eftir sýninguna. Afsteypan fangaði gjörningin en var undarleg á að líta og laut ekki hefðbundnum lögmálum fagurfræðinnar. Magnús hefur reyndar sagt að hann hafni formfræðinni og að fyrir honum séu öll form jafngild. Með gifsinu frystir hann augnablik, jafnt raunveruleg sem ímynduð.

Leikurinn er aldrei langt ungan í verkum Magnúsar og mörg þeirra eru bæði fyndin og ögrandi. Stundum fá fundnir hlutir nýja merkingu og vísa í menningararfinn eða samfélagið með óvæntum hætti. Magnús hefur einnig nýtt myndbönd í verkum sínum, m.a. magnaðri innsetningu Viðtöl um dauðann (2003) þar sem hann blandaði saman listum og vísindum.

Heimildir:

Ólafur Kvaran, Guðmundur Ingólfsson, Júlíana Gottskálksdóttir, Gunnar J. Árnason, Hrafnhildur Schram, Æsa Sigurjónsdóttir, Ásdís Ólafsdóttir, Hanna Guðlaug Guðmundsdóttir, Jón Proppé, Dagný Heiðdal, Halldór Björn Runólfsson, Laufey Helgadóttir, Heisler, E., Gunnar B. Kvaran, & Harpa Þórsdóttir. (2011). Íslensk listasaga: frá síðari hluta 19. aldar til upphafs 21. aldar. Listasafn Íslands. IV bindi.

http://hillbilly.is/magnus-palsson/

S

Sandro Botticelli

(um 1445-1510)

Fæddur í Flórens á Ítalíu.

Miðill: Málaralist.

Endurreisnarmálarinn Sandro Botticelli hét í raun Alessandro di Mariano di Vanni Filipepi en fékk ungur viðurnefnið Botticelli sem þýðir lítil flaska sem festist við hann. Ekkert í uppvexti hans benti til þess að hann yrði einn fremsti málari flórensku endurreisnarinnar. Pabbi hans var sútari en kom honum í læri hjá gullsmið. Sandro var enn á unglingsaldri þegar hann rambaði inn á verkstæði listamannsins Fra Filippo Lippi og komst í læri hjá honum. Síðar lærði hann einnig með ungum en færum listamönnum endurreisnarinnar sem endurgerðu mannslíkamann í verkum sínum af mikilli nákvæmni – eins og Botticelli átti síðar eftir að gera.

Hin auðuga og valdamikla Medici ætt var mikill áhrifavaldur í listferli Botticelli því fjölskyldan fékk hann til að mála fjölmargar myndir af fjölskyldufólkinu. Hann var í uppáhaldi hjá þeim sem þýddi að hann gat lifað af list sinni.

Snemma á ferli sínum vann Botticelli mörg málverk af trúarlegum toga eins og flestir listamenn þess tíma gerðu enda var stærsti kaupandi listaverk þá kaþólska kirkjan. Hann var meira að segja meðal þeirra ítölsku listamanna sem kallaðir voru til Rómar til að skreyta Sixtínsku kapelluna í Vatíkaninu.

Botticelli er þó þekktastur fyrir þau verk sín sem ekki eru af trúarlegum toga, Vorið (um 1480) og Fæðing Venusar (um 1485). Í þeim verkum sækir hann innblástur til goðafræði Grikkja og Rómverja. Það þurfti mikið hugrekki til að mála myndefni sem ekki var kirkjunni þóknanlegt á þeim tíma. Botticelli hélt þó áfram að mála trúarleg verk til æviloka en sótti gjarna efnistök til málara fyrri alda. Hann gleymdist að mestu eftir dauða sinn en þá var Medici ættin í útlegð. Hann var enduruppgötvaður á 19. öld og er nú talinn til helstu meistara endurreisnarinnar.

Heimild:

Zuffi. (2003). The Renaissance. Collins.

Sigfús Eymundsson

(1837-1911)

Fæddur á Borgum í Vopnafjarðarhreppi.

Miðill: Ljósmyndun.

Sigfús Eymundsson lærði bókbandsiðn á Vopnafirði og starfaði við þá iðn. Hann hélt í framhaldsnám í Kaupmannahöfn hjá konunglegum bókbindara 1857-59. Þaðan hélt hann til Osló eða Kristjaníu eins og borgin hét þá til að vinna við bókband en þar kynntist hann ljósmyndatækninni og vorið 1864 hóf hann nám í ljósmyndun, þótt hann ynni enn við bókbandið. Árið eftir hélt hann aftur til Kaupmannahafnar og starfrækti ljósmyndastofu þar í eitt ár. Síðan hélt hann til Íslands og var fyrstur Íslendinga til að gera ljósmyndun að ævistarfi.

Sigfús rak ljósmyndastofur í Reykjavík, fyrst í leiguhúsnæði en síðar á heimili sínu þar sem hann reisti sérstakan myndaskála við húsið sitt. Sigfús ferðaðist líka víða um landið til að taka myndir af fólki og fyrirbærum sem og viðburðum á borð við konungskomur og þjóðhátíðir. Það er meðal annars honum að þakka að við getum séð á ljósmyndum hvernig Ísland var á síðustu áratugum 19. aldar og hvernig það þróaðist.

Í lok 19. aldar var eingöngu hægt að taka ljósmyndir við góð birtuskilyrði og engin ljós voru notuð hér á landi á þeim tíma við myndatökur. Á Íslandi þýddi það að ljósmyndarar tóku gjarnan myndir utandyra þar sem birtan var betri eða inni við stóra glugga. Það þýddi lítið að stunda ljósmyndun í svartasta skammdeginu. Sigfús starfaði því við ljósmyndun á sumrin en bókband á veturna þegar birtan var ekki nægilega góð. Hann stundaði líka viðskipti og stofnaði bókaverslun sem hann rak í mörg ár.

Fjölmargir nemar lærðu ljósmyndun á ljósmyndastofu Sigfúsar og því var hann ekki aðeins frumkvöðull í ljósmyndun sjálfur heldur einnig í ljósmyndakennslu en fram að því þurftu flest að fara til útlanda til að læra að taka myndir.

Heimild:

Inga Lára Baldvinsdóttir, Maclean, H. S., Ívar Brynjólfsson, & Anna Yates. (2001). Ljósmyndarar á Íslandi 1845-1945: Photographers of Iceland 1845-1945. JPV.

Sigrún Eldjárn

(1954)

Fædd í Reykjavík.

Miðlar: Málaralist, bókverk og grafík.

Sigrún Eldjárn lauk prófi frá grafíkdeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1977. Árið eftir dvaldi hún sem gestanemandi í listaskólum í Póllandi þar sem hún lærði grafíktækni sem kallast akvatinta og fáir íslenskir listamenn höfðu tileinkað sér. Sigrún hefur starfað sem myndlistarmaður frá 1978 og sýnt grafíkverk, vatnslitamyndir og málverk hér á landi og víða um heim. Sigrún er þó ekki síður þekkt fyrir ritstörf og myndlýsingar í eigin verkum og annarra höfunda, svo sem Þórarins Eldjárns bróður hennar en hún hefur ljóðskreytt fjölda bóka hans. Hún hefur einnig myndlýst bækur Guðrúnar Helgadóttur og Magneu frá Kleifum. Sjálf hefur hún ritað og myndlýst um 50 bækur fyrir börn en myndlýsingar eru ómissandi þáttur í margverðlaunuðum bókum Sigrúnar.

Sigrún tók virkan þátt í samstöðu listakvenna á áttunda og níunda áratugnum um að skapa rými fyrir list kvenna og listgreinar sem áður voru heldur taldar til handverks og nytjalista. Hún sýndi ásamt fleiri listakonum í Galleríi Langbrók sem rekið var frá 1978-1986 og var vettvangur kvennalistar og var ein af stofnendum gallerísins. Hún var einnig virk í félagsskapnum Íslensk grafík.

Mörg verka Sigrúnar tengjast íslenskum menningararfi á óvæntan hátt. Í mörgum verka hennar, jafnt málverka sem grafíkmynda, má sjá konur með skotthúfur eða í íslenskum þjóðbúningum, gjarnan í óvæntum og fyndnum aðstæðum svo sem að borða banana, dansa eða lesa bók.

Málverk og vatnslitamyndir Sigrúnar eru oft málaðar í hreinum og sterkum litum. Grafíkverkin eru hins vegar oftar en ekki þrykkt í svörtum lit eða með örfáum litum til áhersluauka þótt meginliturinn sé svartur. Verk hennar eru fígúratíf og einkennast gjarnan af húmor og leik með tungumálið eða óvæntar vísanir í önnur verk. Bernskan er henni hugleikin. Árið 2004 sýndi hún portrett sem hún málaði af ýmsum gömlum og lúnum leikföngum. Þar fylgdi hún hefðinni sem skapast hefur í málun viðhafnarportretta í gegnum tíðina þótt viðföngin hafi verið gamlir vinir barna í fjölskyldu hennar og hennar sjálfrar. Hvert leikfang hefur sinn skýra persónuleika og með verkunum vildi hún votta þessum vinum virðingu sína.

Heimildir: arkiv.is og fleira.

Sigurður Guðumundsson

(1942)

Eftir nám í Myndlista- og handíðaskóla Íslands hélt Sigurður Guðmundsson til Hollands í framhaldsnám. Þar bjó hann og starfaði lengi en síðar hefur hann búið í Kína hluta úr ári og starfað þar, á Íslandi og Hollandi. Hann hefur sýnt verk sín um heim allan og skapað sér nafn í hinum alþjóðlega listaheimi.

Sigurður er frumkvöðull í hugmyndalist á Íslandi og var meðal virkustu félaga í SÚM-hópnum, hópi listamanna sem hóf að starfa saman um 1965 og byggðu listsköpun sína fremur á hugmyndum en fagurfræði.

Á árunum 1971-1982 vann Sigurður fjölda ljósmyndaverka sem hann kallaði Situations eða Aðstæður. Þau verk eiga mun meira sameiginlegt með gjörningum eða skúlptúrum en hefðbundnum listljósmyndum eða málaralist. Á þeim tíma skjalfestu gjörningalistamenn gjarnan verkin sín með ljósmyndum og myndir Sigurðar frá þessum tíma minna nokkuð á slíka skjalfestingu en engir áhorfendur eru sjáanlegir og hann sjálfur gjarnan hluti verkanna sem fást gjarna við tilvistalegar spurningar á óvæntan og fyndinn hátt. Síðar vann Sigurður fleiri ljósmyndaverk sem unnin voru með öðrum fyrirsætum en honum sjálfum.

Verk Sigurðar eru fjölbreytt og hann hefur jöfnum höndum fengist við gjörninga, ljósmyndaverk, höggmyndir, teikningar, grafík og ritstörf en hann hefur sent frá sér skáldsögur og ljóð.

Heimildir:

Sigurður Guðmundsson, Hafþór Yngvason, Magnea J. Matthíasdóttir, & Brownsberger, S. M. (2008). Mutes: Mállausir kjarnar. Forlagið.

Sigurður Guðmundsson, Kluyfhout, S., Unterdörfer, M., Guðbergur Bergsson, & Magnús Diðrik Baldursson. (2000). Situations. Mál og menning.

Downs-Rose, Dagný Heiðdal, Halldór Björn Runólfsson, Steinar Örn Erluson, Svanfríður Sigrún Franklínsdóttir, Kristín Dagmar Jóhannesdóttir, Ragna Sigurðardóttir, Rakel Pétursdóttir, & Anna Yates. (2019). 130 verk úr safneign Listasafns Íslands: 130 works from the collection of the National Gallery of Iceland. Listasafn Íslands.

Anna Cynthia Leplar, & Margrét Tryggvadóttir. (2006). Skoðum myndlist : heimsókn í Listasafn Reykjavíkur. Mál og menning.

Sigurður Guðumundsson málari

(1833-1874)

Fæddur í Hellulandi í Skagafirði.

Miðlar: Teikning og málaralist, fatahönnun og leiktjaldagerð.

Sigurður Guðmundsson, sem síðar átti eftir að vera kallaður Sigurður málari og stundum Siggi genie (sjení), sýndi óvenjulega hæfileika til listsköpunar sem barn. Hann fékk því að fara, þrátt fyrir að foreldrar hans væru ekki efnamikil, til náms í Kaupmannahöfn. Faðir hans hafði reyndar komið því svo fyrir að Sigurður yrði í læri hjá málara en þó ekki listmálara eins og var draumur Sigurðar heldur húsa- og húsgagnamálara. Sigurður var lærlingur þar í eina viku en fór svo úr vistinni. Með aðstoð Íslendinga í borginni komst hann í læri hjá prófessor við Listaháskólann og loks í skólann sjálfann.

Sigurður bjó í Kaupmannahöfn í níu ár og þótt honum gengi vel í náminu voru það önnur hugðarefni en myndlistin sem urðu fyrirferðarmeiri hjá honum eftir því sem árin liðu. Hann varði miklum tíma í að skoða handrit fornsagnanna á Árnastofnun í Kaupmannahöfn, ekki síst lýsingar á klæðnaði, húsagerð, vopnum og fleiru og rýndi í myndlýsingar í sama tilgangi. Hann skrifaði um kvenbúning eða fatnað íslenskra kvenna að fornu og nýju og vildi að Íslendingar tækju aftur að ganga í þjóðbúningum fyrri alda. Þegar hann flutti aftur til Íslands og bjó í Reykjavík hannaði hann nýja kvenbúninga, byggða á þeim eldri. Hann sinnti líka teiknikennslu en nemendur hans voru einkum ungar stúlkur efnameiri borgara og þær létu hann teikna upp búninga og útsaumsmynstur sín.

Sigurður var þjóðernissinni eins og algengt var í þá daga og vildi að Ísland yrði menningarlega sjálfstæðara frá Danmörku. Hann hafði mikinn áhuga á fornminjum og stofnaði Forngripasafnið sem var forveri Þjóðminjasafns Íslands. Það gerði hann meðal annars til að koma í veg fyrir að íslenskir fornmunir væru fluttir til Danmörku á dönsk söfn.

Sigurður hafði líka mikinn áhuga á leiklist og hafði kynnst leikhúsunum í Kaupmannahöfn. Hann taldi að góð leikrit væru kjörin leið til þess að mennta þjóðina. Í Reykjavík höfðu um langt bil verið sýndar ýmsar leiksýningar en yfirleitt á dönsku. Það þótti Sigurði ótækt og hvatti til leikritunar á íslensku. Sjálfur sá hann um leiktjöld og búninga. Hann gerði meðal annars leiktjöld fyrir leikrit Matthíasar Jochumssonar Útilegumenn árið 1862, leiktjöld sem sýndu náttúru og hafa af ýmsum verið talin fyrstu íslensku landslagsmálverkin.

Sigurður vann mikið starf en fékk sjaldnast sanngjarna greiðslu fyrir. Til að framfleyta sér málaði hann altaristöflur fyrir kirkjur um land allt. Flestar þeirra eru nokkuð svipaðar enda fannst honum leiðinlegt að mála þær og vissi að þess væri ekki krafist að þær væru sérlega frumlegar.

Heimild: Jón Auðuns. (1972). Sigurður Guðmundsson málari ([2. útgáfa]). Leiftur.

Sigurjón Jóhannsson

(1939-2023)

Fæddur á Siglufirði.

Miðlar: málaralist, samklipp og leikmyndahönnun.

Eftir að hafa lokið stúdentsprófi hélt Sigurjón Jóhannsson í myndlistarnám, fyrst við Handíða- og myndlistaskólann en hélt svo til námsdvalar í Bretlandi og hann lærði einnig á Ítalíu bæði myndlist og arkítektúr. Síðar hélt hann til Kaupmannahafnar þar sem hann lærði leikmynda- og búningahönnun

Áhrif Sigurjóns á íslenskt listalíf eru margvísleg. Hann var einn af fjórum stofnendum SÚM-hópsins sem hafði mikil áhrif á íslenska myndlist frá fyrstu sýningu hópsins árið 1965 og átti hópurinn eftir að vera einn aðalboðberi framúrstefnu í listum hér á landi næstu árin. Á þeim tíma vann Sigurjón verk í anda popplistarinnar, málaði en notaði einnig prentað efni í samklippsmyndir. Hann nýtti gjarnan úrklippur út erlendum tímaritum, sérstaklega auglýsingum og vakti þannig áhorfandann til umhugsunar um neyslusamfélagið. Í öðrum verka hans má sjá ádeilu á hernaðarbrölt og styrjaldir.

Stóran hluta af starfsævi sinni varði Sigurjón í leikhúsum sem einn helsti leikmyndahönnuður þjóðarinnar á síðustu áratugum 20. aldarinnar. Hann vann yfir 100 leikmyndir fyrir hinar ýmsu leiksýningar í helstu leikhúsum landsins en vann einnig leikmyndir fyrir fjölmargar kvikmyndir og vann að sýningarhönnun.

Undir lok 20. aldarinnar sótti Sigurjón sér efnivið fyrir vatnslitamyndir á æskuslóðir sínar á Siglufirði en á þeim tíma sem hann var að vaxa úr grasi snérist allt þar um síldveiðar og vinnslu. Myndir Sigurjóns frá því tímabili eru í senn fjörleg og leikræn uppsetning á síldarævintýrinu og mikilvæg skráning á horfnum atvinnuháttum.

Heimildir:

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2023/02/11/andlat_sigurjon_johannsson/

Ólafur Kvaran, Guðmundur Ingólfsson, Júlíana Gottskálksdóttir, Gunnar J. Árnason, Hrafnhildur Schram, Æsa Sigurjónsdóttir, Ásdís Ólafsdóttir, Hanna Guðlaug Guðmundsdóttir, Jón Proppé, Dagný Heiðdal, Halldór Björn Runólfsson, Laufey Helgadóttir, Heisler, E., Gunnar B. Kvaran, & Harpa Þórsdóttir. (2011). Íslensk listasaga: frá síðari hluta 19. aldar til upphafs 21. aldar. Listasafn Íslands. IV bindi.

Sigurjón Ólafsson

(1908-1982)

Fæddur á Eyrarbakka.

Miðill: Höggmyndalist.

Sigurjón Ólafsson var heppinn því hann ólst upp á Eyrarbakka þar sem var blómlegra menningarlíf en í öðrum bæjum landsins á þeim tíma. Þar starfaði einnig elsti barnaskóli landsins og það sem meira var þar var kennd teikning en á þeim tíma var yfirleitt engin myndmenntakennsla í skólum landsins. Óvíst er að Sigurjón hefði lagt myndlistina fyrir sig ef hann hefði ekki lært að teikna svo ungur að árum.

Sigurjón fór þó ekki strax í myndlistarnám. Hann byrjaði á að læra húsamálun en hélt svo til Danmerkur til að læra höggmyndalist og þar bjó hann í 17 ár. Sigurjón var mikils metinn í Danmörku, bæði af kennurum sínum í náminu en einnig af samfélaginu. Hann var fenginn til að vinna stórar höggmyndir sem enn setja svip sinn á bæi og torg í Danmörku.

Þótt Sigurjóni gengi vel í Danmörku hafði hann heimþrá og eftir að hafa verið innlyksta í Danaveldi í seinni heimsstyrjöldinni hélt hann aftur til Íslands. Á þeim tíma var hann ekki þekktur hér á landi því hann hafði ekki sýnt hér og flest verka hans voru í Danmörku enda svo stór og þung að erfitt var að flytja þau á milli landa. Verk Sigurjóns eru bæði í hefðbundnum, klassískum stíl en einnig framúrstefnuleg og hann er einn af frumkvöðlum þrívíðrar abstraktlistar á Norðurlöndunum. Hann notaði ýmsar aðferðir; mótaði verk, hjó þau úr fjölbreyttum efnivið eða sauð þau saman.

Sigurjón átti við vanheilsu að stríða og var lungnaveikur. Eftir að hann flutti til Íslands fór hann að höggva verk sín í íslenskt grjót á borð við grástein. Hann þoldi illa steinrykið sem fylgdi höggmyndagerðinni og varð að hætta því. Þá tók hann til við að vinna verk úr tré, málmum, leir og að lokum frauðplasti sem hann skar til en plastið var notað til að steypa lágmyndir á fjölda bygginga í Reykjavík og víðar um land.

Sigurjón ólst upp við sjóinn á Eyrarbakka og þegar hann flutti aftur til Íslands kom hann sér upp vinnustofu við sjóinn í Laugarnesi í Reykjavík þar sem hann réri reglulega til fiskjar. Þar er nú Listasafn Sigurjóns Ólafssonar og verk hans sýnd bæði inni og úti.

Heimildir:

Ólafur Kvaran, Guðmundur Ingólfsson, Júlíana Gottskálksdóttir, Gunnar J. Árnason, Hrafnhildur Schram, Æsa Sigurjónsdóttir, Ásdís Ólafsdóttir, Hanna Guðlaug Guðmundsdóttir, Jón Proppé, Dagný Heiðdal, Halldór Björn Runólfsson, Laufey Helgadóttir, Heisler, E., Gunnar B. Kvaran, & Harpa Þórsdóttir. (2011). Íslensk listasaga: frá síðari hluta 19. aldar til upphafs 21. aldar. Listasafn Íslands.

Aðalsteinn Ingólfsson, Funder, L., & Birgitta Spur. (1998-9). Sigurjón Ólafsson: ævi og list I og II. Listasafn Sigurjóns Ólafssonar.

Steina (Steinunn Briem Bjarnadóttir-Vasulka)

(1940)

Fædd í Reykjavík.

Miðill: Myndbandslist.

Steina hóf listferil sinn sem fiðluleikari en hún hélt ung til náms í Prag til að fullnema sig í fiðluleik og tónfræði. Þar kynntist hún sínum helsta samstarfsmanni, verkfræðingnum og kvikmyndagerðarmanninum Woody Vasulka. Þau giftu sig og fluttu til Íslands þar sem Steina starfaði sem fiðluleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Ári síðar fluttu þau til New York í Bandaríkjunum og settust þar að. Þar kynntust þau ýmsu framsæknu listafólki sem var að vinna við nýja miðla. Á þeim tíma komu fram smærri kvikmyndatökuvélar en áður höfðu þekkst, vélar sem jafnvel var hægt að halda á. Árið 1969 hófu Steina og Woody að vinna með þessa nýju tækni.

Steina og Woody voru frumkvöðlar í myndbandalist og talin til merkilegustu tilraunalistamanna á heimsvísu. Þau unnu saman að rannsóknum á miðlinum og rafrænum boðum. Stundum voru upptökutækin sjálf og virkni þeirra hluti af listaverkinu. Þau smíðuðu jafnvel einskonar vélmenni og annars konar tæki sem hafa haft mikil áhrif í myndbandalist allar götur síðan. Síðar nýttu Steina og Woody stafræna tækni í listsköpun sinni.

Steina og Woody stofnuðu og ráku um tíma The Kitchen sem var fyrsti vettvangur vídeólistafólks í heiminum og bæði samkomu- og sýningarstaður. Árið 1973 stóðu þau fyrir fyrsta námi í nýmiðlalistum í Bandaríkjunum í háskólanum í Buffaló, New York.

Bakgrunnur Steinu í tónlist er áberandi í mörgum verka hennar og samspil mynda og hljóðheims oft áhrifamikið. Þótt Steina hafi búið í útlöndum frá því hún var ung kona þá er Ísland, í fjölbreyttum birtingarmyndum, fyrirferðarmikið í mörgum verka hennar. Hún var árið 1997 fyrsta konan til að vera fulltrúi Íslands á Feneyjartvíæringnum og hafa verk hennar verið sýnd á söfnum og á kvikmyndahátíðum um heim allan.

Heimildir:

Listasafn.is

Vasulka.org

Steinunn Marteinsdóttir

(1936)

Fædd í Reykjavík.

Miðlar: Leirlist og málaralist.

Eft­ir stúd­ents­próf var Steinunn Marteinsdóttir einn vet­ur í Mynd­lista- og hand­íða­skól­an­um en hélt síð­an til Berlín­ar og var þar við nám 1957-1960 við Hochschule für Bild­ende Kün­ste. Þegar hún kom úr námi vann hún hjá Leirmunaverkstæðinu Glit við að renna og skreyta listmuni og sýndi listmuni meðal annars í Bandaríkjunum og Þýskalandi ásamt Ragnari Kjartanssyni.

Steinunn stofnaði sitt eigið leirverkstæði árið 1962 og var einna fyrst í að stofna einmenningsverkstæði í leirlist. Hún bauð einnig fyrst upp á námskeið í leirmótun fyrir almenning.

Árið 1969 keypti Steinnunn, ásamt manni sínum listmálaranum Sverr­i Har­alds­syni (1930-1985), Huldu­hóla í Mos­fellsveit. Þau endurbyggðu hlöðu og fjós og komu þar upp vinnustofum. Þar hef­ur Stein­unn unn­ið leir­verk og mál­verk, rek­ið kera­mik­skóla og hald­ið fjölda sýn­inga, bæði einka­sýn­ing­ar og sam­sýn­ing­ar með öðr­um lista­mönn­um.

Leirverk Steinunnar eru fjölbreytt að gerð. Eftir hana liggja nytjahlutir á borð við skálar, kertastjaka og vasa en einnig lágmyndir, sumar gríðarstórar. Þá hefur hún einnig málað töluvert, einkum vatnslitaverk. Náttúran og upplifun af henni hefur verið henni innblástur í gegnum tíðina, bæði er kemur að áferð og myndefni.

Heimildir:

https://mos.is/mannlif/menning/baejarlistamadur/steinunn-marteinsdottir

Inga Ragnarsdóttir, & Kristín G. Guðnadóttir. (2021). Deiglumór: keramik úr íslenskum leir 1930-1970. Minningarsjóður um Ragnar Kjartansson.

Sæmundur Magnússon Hólm

(1749-1821)

Fæddur í Meðallandi í Vestur-Skaftafellssýslu

Miðill: Einkum teikning og kortagerð.

Sæmundur Magnússon Hólm var fyrstur Íslendinga til að stunda myndlistarnám í háskóla en hann hóf nám í Konunglega listaháskólanum í Kaupmannahöfn árið 1776 eftir að hafa stundað háskólanám í heimspeki í tvö ár. Síðar lauk hann einnig námi í guðfræði en nam einnig lögfræði. Hann gerðist prestur á Helgafelli á Snæfellsnesi.

Sæmundur málaði ekki mikið eftir að hann fluttist aftur til Íslands en hann vann þó fjölmargar andlitsmyndir af íslenskum fyrirmönnum sem munu halda nafni hans á lofti um ókomna tíð. Það er þeim að þakka að við vitum hvernig ýmsar persónur úr íslandssögunni litu út, fólk sem fæddist löngu áður en myndavélin var fundin upp. Hann teiknaði líka myndir í Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar.

Sæmundur dró einnig upp landakort, meðal annars nákvæmt kort af Reykjavík árið 1783. Hann var einnig skáld og fræðimaður og skrifaði mikið um náttúruna, meðal annars um Skaftárelda.

Heimildir:

Íslandskort.is

Ólafur Kvaran, Guðmundur Ingólfsson, Júlíana Gottskálksdóttir, Gunnar J. Árnason, Hrafnhildur Schram, Æsa Sigurjónsdóttir, Ásdís Ólafsdóttir, Hanna Guðlaug Guðmundsdóttir, Jón Proppé, Dagný Heiðdal, Halldór Björn Runólfsson, Laufey Helgadóttir, Heisler, E., Gunnar B. Kvaran, & Harpa Þórsdóttir. (2011). Íslensk listasaga: frá síðari hluta 19. aldar til upphafs 21. aldar. Listasafn Íslands. I. bindi.

Y

D

Daði Guðbjörnsson

 (1954)

Fæddur í Reykjavík

Miðill: málaralist

 

Daði Guðbjörnsson er einn þeirra listamanna sem endurvakti málverkið til virðingar í upphafi 9. áratugarins eftir að það datt úr tísku að gera hefðbundin málverk. Daði lærði fyrst húsgagnasmíði en sneri sér síðan að myndlist og grafík sem hann lærði í Reykjavík og Hollandi. Málverk Daða eru litrík og í þeim er glaðværð. Daði þróaði með sér sérstakan stíl sem einkennist af flúri og skrauti sem nánast dansar á myndfletinum. Um stefnur í myndlist sagði Daði í viðtali að hann vildi útmá stefnur og strauma og vildi að listamenn einbeittu sér fyrst og fremst að því að rækta sinn eigin garð. Með þessu átti hann við að hver og einn fyndi sína eigin rödd í listinni í stað þess að horfa til annarra. Í safneign Listasafns Íslands er verkið Sjávarljóð, gert árið 1994 sem sýnir vel einkenni Daða, léttleika, hringlaga form og litagleði.  

Daði Guðbjörnsson, Sjávarljóð, 46 x 68,5 cm, 1994.
LÍ 5707

Davíð Örn Halldórsson

(1976)

Fæddist í Reykjavík

Miðill: málaralist

Breiðhyltingurinn Davíð Örn kom inn í myndlistina með látum eftir útskrift frá Listaháskólanum árið 2002. Verk hans vöktu strax mikla athygli og hrifningu en Davíð Örn málar mikið á fundna hluti svo sem viðarplötur, bakka, ljósmyndir eða húsgögn. Hann notar skæra liti, marga liti og ekki endilega liti sem fólk er vant að sjá saman. Myndmál hans er sterkt og eftirminnilegt og það ríkir gleði í myndunum hans. Verkin eru unnin með spreybrúsum, iðnaðarlakki og tússi. Davíð Örn hefur unnið myndir á veggi í Reykjavík og víðar, m.a Ræktaðu garðinn þinn á húsgafli á Seljavegi sem hann vann með Söru Riel árið 2012. Davíð Örn fékk virta viðurkenningu frá Carngie Art awards árið 2013 sem besti ungi listamaðurinn á Carnegie sýningunni. Þá var sagt um verkin að í þeim væru sjálfstæðir og vel mótaðir heimar.  

Í safneign Listasafns Íslands er verkið Royal, gert árið 2008.

Davíð Örn Halldórsson, Royal, lakk, túss, viður, 80 x 128 cm, 2008.
LÍ 8062

Dieter Roth

(1930–1998)

Fæddur í Basel, Þýskalandi

Miðlar: bóklist, grafík, leirlist, skúlptúr

Þýsk-svissneski myndlistarmaðurinn Dieter Roth sagði eitt sinn að hann gerði myndlist til að styðja við þann vana sinn að gefa út bækur. Dieter var einna fyrstur til að gera listaverk úr bók en hann gerði líka skúlptúra úr súkkulaði og öðrum mat sem hefur reynst forvörðum dálítið erfitt því matur rotnar með tímanum. Dieter lærði grafíska hönnun og prenttækni í Bern í Sviss. Hann settist að á Íslandi árið 1957 eftir að hann kynntist íslenskri konu. Dieter flutti með sér nýja strauma inn í íslenskt listalíf og hafði mikil áhrif hér á landi. Með fyrstu bókverkum Dieters ruddi hann brautina fyrir bókverkagerð íslenskra listamanna. Dieter gerði fjölda dagbóka undir áhrifum frá flúxus hreyfingunni sem hafði það að markmiði að afmá mörkin milli lífs og listar. Hann kannaði rými bókarinnar og gerði ýmiss konar tilraunir með tungumálið og hlutverk þess. Dieter var stöðugt að rannsaka og kanna í listinni allt fram á síðasta dag og notaði alla mögulega miðla til þess. Dieter Roth er eitt af stóru nöfnunum í listasögu seinni hluta 20. aldar og hafa verk hans verið sýnd í mörgum stærstu listasöfum heims, til dæmis í MoMA í New York og Tate í London. Í Munchen í Þýskalandi er safn tileinkað honum sem rekið er af Rieter Roth estate, en verk listamannsins eru einnig á mála hjá hinu virta galleríi Hauser & Wirth. Verk eftir Dieter eru í nokkrum safneignum á Íslandi, flest í Nýlistasafninu. Í Listasafni Íslands er bókverkið Kinderbuch sem þýðir barnabók á þýsku. Bókin er 13 blöð og samanstendur af geometrískum myndum eftir Dieter. 

Dieter Roth, kinderbuch, 32 x 32 cm, pappír, 1957.
LÍ 8909

Dröfn Friðfinnsdóttir

(1946-2000)

Fædd í Reykjavík

Miðlar: grafík

Dröfn lærði myndlist í Reykjavík, Akureyri og Lahti í Finnlandi. Hún bjó eftir nám á Akureyri þar sem hún stundaði list sína auk þess sem hún vann sem kennari. Í grafíkinni sótti hún form og liti í náttúruna og landið. Dröfn hélt fjölda sýninga hérlendis og erlendis og fékk ýmsar viðurkenningar fyrir list sína, m.a. menningarverðlaun finnska sjónvarpsins. Í safneign Listasafns Íslands er verkið Kundalini ll eftir Dröfn sem er unnið með þrykkaðferð. 

Dröfn Friðfinnsdóttir, Kundalini ll, grafík, tréristur, 1999.
LÍ-6140

I

N

Nína Sæmundsson

(1892-1965)

Fædd í Fljótshlíð.

Miðlar: Höggmyndalist, teikning og málaralist.

Jónína Sæmundsdóttir, sem var alltaf kölluð Nína, fæddist í Fljótshlíð en átti eftir að vinna að list sinni víða um heim. Hún var fyrsti íslenski kvenmyndhöggvarinn og verk hennar Móðurást var fyrsta höggmyndin eftir konu sem reist var hér á landi en hún stendur í Mæðragarðinum í Reykjavík.

Nína lærði í Listaháskólanum í Kaupmannahöfn en lauk ekki námi því hún veiktist af berklum. Eftir að hún náði sér af veikindunum hélt hún til Parísar þar sem hún vann og sýndi verkið Móðurást. Síðar hélt hún til Bandaríkjanna þar sem hún bjó í þrjá áratugi. Þegar hún bjó í New York vann hún meðal annars verkið Afrekshug sem sett var upp á Waldorf Astoria hótelinu sem þá var það stærsta í heimi. Afsteypa af verkinu hefur nú verið sett upp á Hvolsvelli. Síðan fluttist Nína til Hollywood og bjó þar með sambýliskonu sinni Peggy.

Verk Nínu einkenndust af klassískum módernisma framan af en stíll hennar var þó persónulegur og sameinar hið stórbrotna og innilega. Mörg verka hennar sýna manneskjuna sem viðkvæma veru. Í Bandaríkjunum vann hún einnig margar brjóstmyndir en þar kynntist hún líka myndlist frumþjóða eyja Kyrrahafsins sem hafði áhrif á verk hennar. Í kjölfar þess fór hún að vinna í tré og stein. Þau verk hennar urðu jafnframt einfaldari og óhlutbundnari.

Nína bjó stærstan hluta ævi sinnar í útlöndum og sýndi verk sín ekki á Íslandi fyrr en árið 1947. Það eru þó útilistaverk hennar á Íslandi sem munu halda nafni hennar á lofti um ókomna tíð.

Heimild:

Hrafnhildur Schram. (2015). Nína S.: Nína Sæmundsson 1892-1965: fyrsti íslenski kvenmyndhöggvarinn. Crymogea.

Nína Tryggvadóttir

(1913-1968)

Fædd á Seyðisfirði.

Miðlar: Málaralist, myndlýsingar og skrif, gler og mósaík.

Jónína Tryggvadóttir, sem var alltaf kölluð Nína, kynntist myndlist fyrst sjö ára gömul þegar hún flutti til Reykjavíkur því í næsta húsi bjó frændi hennar, málarinn Ásgrímur Jónsson. Ung að árum hélt hún svo til Kaupmannahafnar til að læra málaralist og þaðan fór hún til Parísar sem þá var suðupunktur heimslistarinnar. Þegar síðari heimsstyrjöldin skall á kom hún til Íslands og hóf feril sinn í hópi íslensks listafólks. Hún staldraði þó ekki lengi við en hélt til Ameríku og átti eftir að búa og starfa í útlöndum til æviloka. Hún gat þó ekki alltaf búið þar sem hún vildi því Bandarísk stjórnvöld sökuðu hana um að vera kommúnisti og vísuðu henni úr landi. Hún bjó í París og London þar til hún fékk aftur að fara til Bandaríkjanna.

Snemma á ferli sínum málaði Nína oft fólk og mannlíf en á fimmta áratugnum hættu verk hennar að vera fígúratíf og urðu abstrakt. Þá var það birtan, litirnir og formin sem skiptu höfuðmáli og mynduðu sterka heild. Síðar á ferli sínum tengdi hún abstraktverk sín oft náttúrunni.

Nína var ekki eingöngu málari. Hún samdi og myndlýsti nokkrar barnabækur sem eru einstakar í íslenskri bókmenntasögu. Undir lok ferils síns vann hún líka stórar veggmyndir úr mósaík og glerverk. Þótt Nína hafi búið í útlöndum allan starfsferil sinn tók hún virkan þátt í listalífinu á Íslandi og sýndi meðal annars með Septemberhópnum. Hún sýndi einnig í þeim borgum sem hún bjó í; New York, London og París. Nína lést úr krabbameini langt fyrir aldur fram í New York árið 1968 en var jarðsett í Reykjavík.

Heimild:

Hrafnhildur Schram, Seuphor, M., & Halldór Laxness. (1982). Nína í krafti og birtu. Almenna bókafélagið.

T

Tryggvi Ólafsson

(1940-2019)

Fæddur í Neskaupstað.

Miðlar: Málaralist og grafík.

Tryggvi Ólafsson varð snemma áhugasamur um teikningu og myndlist þótt flestir í hans nærumhverfi hafi starfað við sjómennsku, smíðar eða aðrar hefðbundnari atvinnugreinar. Hann átti þess þó kost að fylgjast með Jóhannesi Kjarval mála utandyra og lýsti því síðar hve mikil áhrif það hefði haft á hann ungan, ekki síst að sjá að hægt væri að gera myndlist að ævistarfi. Tryggvi flutti með fjölskyldu sinni til Reykjavíkur þegar hann var 16 ára gamall en starfaði sem sjómaður á Norðfirði á sumrin. Í Reykjavík lærði hann teikningu hjá Hringi Jóhannessyni meðfram menntaskólanámi en fór svo í Myndlista- og handíðaskólann að loknu stúdentsprófi. Hann lauk þó ekki námi þar heldur hélt til Kaupmannahafnar til að læra við Konunglega listaháskólann þar í borg. Tryggvi var sex ár í skólanum en átti eftir að búa í Danmörku í 47 ár.

Í námi sínu hafði Tryggvi lagt mesta áherslu á abstraktmálun en að námi loknu fannst honum hann vera búin að fullkanna það sem hægt væri að gera innan þeirrar stefnu. Fyrstu árin eftir námið vann Tryggvi ýmis störf til að framfleyta sér en hóf einnig myndlistarferil. Þar lagði hann grunn að persónulegum stíl sínum sem kenndur hefur verið við popplistina en einnig módernisma. Í upphafi voru myndir hans oft pólitískar en síðar vék pólitíski boðskapurinn fyrir leik með liti og form. Í verkum sínum raðaði hann saman ýmsum brotum sem hann fann í öðru myndefni eða áhugaverðum hlutum sem urðu á vegi hans. Vinnubrögðum sínum líkti hann við djasssóló þar sem spunnin væri upp laglína án áreynslu. Hann telfdi saman óvæntum hlutum og skapaði myndheim sem lýtur eigin lögmálum.

Tryggvi nýtti aðferðir samklippsins til undirbúnings flestra verka sinna en stækkaði myndirnar svo upp og málaði með akríllitum sem honum fannst henta verkum sínum betur en olíulitir. Hann vann einnig litógrafíur og notaði til þess svipaðar aðferðir til undirbúnings.

Tryggvi hafði ákveðnar skoðanir á mikilvægi myndlistar í hversdegi fólks. Hann vildi að listin væri venjulegu fólki aðgengileg og stillti verði verka sinna í hóf. Hann gaf einnig verk sín í alla leik- og grunnskóla í Reykjavík því honum fannst mikilvægt að myndlist væri hluti af lífi barna og ungs fólks.

Heimildir:

Tryggvi Ólafsson, Aðalsteinn Ingólfsson, Hornung, P. M., & Kristján Pétur Guðnason. (2007). Málverk í 20 ár = malerier i 20 år = 20 years of painting. Mál og menning.

https://tryggvasafn.is/tryggvi/

E

Einar Falur Ingólfsson

(1966)

Fæddur í Keflavík

Miðill: ljósmyndun

Einar Falur Ingólfsson stundaði nám í ljósmyndun í School of Visual Arts í New York en fyrir það kláraði hann BA gráðu í bókmenntafræði. Einar hefur starfað sem blaðamaður á Morgunblaðinu auk þess sem hann sinnir ljósmyndun og kennslu. Hann hefur haldið og stýrt sýningum, ritstýrt ljósmyndabókum, kennt og haldið fyrirlestra um ljósmyndun. Hann hefur  fetað í fótspor W.G. Collingwood sem ferðaðist um Ísland á síðari hluta 19. aldar og málaði vatnslitamyndir af sögustöðum á Íslandi. Einar Falur tók röð ljósmynda á sömu slóðum sem hann nefnir Sögustaðir þar sem ummerki samtímans eins og skilti, skurðir, malbik, hús og fólk hafa bæst við sögusviðið og landslagið. Gefin var út bók um verkefnið samhliða sýningu í Þjóðminjasafninu. Í myndröðinni Skjól frá 2010 myndar Einar Falur ýmiss konar skjól í náttúrunni sem skepnur nýta sér og gerir þau að táknmyndum skjólsins sem þjóðin leitaði að í kjölfar efnahagshrunsins 2008.

Einar Hákonarson

(1945)

Fæddist í Reykjavík

Miðlar: grafík, málaralist

 

15 ára gamall hóf Einar nám í Myndlistar- og handíðaskólanum og eftir það lá leiðin til Svíþjóðar í meira nám í myndlist. 1968 flutti hann heim og tók með sér djúpþrykk pressu sem hann kom fyrir í Myndlistar- og haldíðaskólanum en hann fór að kenna við skólann í kjölfarið. Sama ár hélt hann sýningu í Bogasal Þjóðminjasafnsins og sagt er að með sýningunni hafi kveðið nýjan tón í íslenskri myndlist en málverkin á sýningunni voru fígúratíf sem var í andstöðu við ríkjandi abstrakt stefnu flestra myndlistarmanna á þeim tíma. Auk þess að starfa að myndlist gegndi hann ýmsum störfum t.d. var hann um tíma skólastjóri Myndlistar- og handíðaskólans, var listrænn stjórnandi Kjarvalsstaða og var fyrsti aðilinn til að byggja og reka menningarmiðstöð, Listaskálann í Hveragerði sem nú er Listasafn Árnesinga. Á sjötugsafmæli Einars árið 2015 var haldin yfirlitssýning á verkum hans á Kjarvalsstöðum og segir í sýningarskrá að íslensk menning og náttúra hafi verið Einari hugleikin og að sem myndlistarmaður hafi hann í verkum sínum tekið púlsinn á Íslandi með manneskjuna í forgrunni. Í safneign Listasafns Íslands er verkið Púls tímans sem hann málaði árið 1968.

Einar Hákonarson, Púls tímans, masónít, olíulitur, 150 x 115 cm, 1968.
LÍ 1420

Einar Jónsson

(1874–1954)

Fæddist að Galtafelli í Árnessýslu

Miðill: skúlptúr

 

Einar var mjög ungur þegar hann ákvað að verða listamaður en samt hafði hann enga list séð. Hann hafði ríkt ímyndunarafl og sá alls kyns verur fyrir sér sem hann stundum tálgaði í tré. 19 ára gamall sigldi hann til Kaupmannahafnar til að láta drauminn rætast. Hann lærði fyrst tréskurð og teikningu og kláraði nám árið 1899. Eftir námið starfaði hann í Kaupmannahöfn og einnig í Róm, Berlín, London og Bandaríkjunum. Einar var fyrsti Íslendingurinn til að gera listina að atvinnu. Það var óvenjulegt á þessum tíma fyrir Íslending að ferðast jafn mikið og Einar. Þegar hann hafði skoðað heiminn og flutti heim til Íslands reisti hann sér hús sem stendur á Skólavörðuholti þar sem hann bjó og starfaði. Ekkert var á Skólavörðuholti þegar húsið var reist. Enn er húsið eitt af þeim fallegustu og óvenjulegustu í borginni en það var opnað sem safn árið 1923, fyrsta safn á Íslandi sem var opið almenningi. Einari fannst að listin ætti ekki að vera eftirlíking af einhverju heldur alltaf frumsköpun. Mörg af verkum Einars eru orðin hluti af borgarlandslagi Reykjavíkur, til dæmis styttan af Jóni Sigurðssyni á Austurvelli, styttan af Jónasi Hallgrímssyni í Hljómskálagarðinum og styttan af Ingólfi Arnarsyni á Arnarhóli. Auk þess að gera mannamyndir leitaði Einar gjarnan myndefnis í þjóðsögur, goðsagnir, trúarlegar hugmyndir og náttúruform. Einar sýndi fyrsta verk sitt á sýningu í Kaupmannahöfn árið 1901. Það var verkið Útlagar sem nú stendur við Hólavallakirkjugarð í Reykjavík. Myndefnið er sótt í íslenskar þjóðsögur og sýnir útlaga sem arkar áfram með látna konu sína á herðunum og barn sitt í fanginu og hundurinn þeirra fylgir þeim. 

Einar Jónsson, Útlagar, gifs, 15 x 11 x 10 cm, 1901.
LÍ 8868

Erró, Guðmundur Guðmundsson

(1932)

Fæddist í Ólafsvík

Miðlar: málaralist, samklipp

Guðmundur Guðmundsson er sonur listamannsins Guðmundar frá Miðdal og hann ólst upp á Kirkjubæjarklaustri. Hann tók sér síðar listamannsnafnið Ferró en þegar hann bjó á Ítalíu við nám gat enginn sagt Guðmundur. Síðar datt f-ið út og eftir stendur Erró. Þegar Erró var lítill kom Kjarval í sveitina hans til að mála úti í náttúrunni. Það var hátíð í sveitinni þegar Kjarval renndi í hlað líkt og hann væri þjóðhöfðingi. Erró segir að Kjarval hafi kveikt hjá sér áhugann á að mála og síðar þegar hann var sjálfur orðinn listamaður rifjaði hann upp í bréfi til mömmu sinnar hversu mikil áhrif Kjarval hafði á sýn hans á myndlist. (1) 

Erró lærði myndlist í Reykjavík, Flórens, Ravenna og Osló og flutti til Parísar árið 1958 og hefur búið þar síðan. Hann dvelur í Tælandi á vetrum en í húsi sínu á Spáni á sumrin. Árið 1989 gaf Erró Listasafni Reykjavíkur 2.000 verk eftir sig en nú eru þau orðin 4.000. Viðfangsefni hans eru oftast samfélagið sjálft, ádeilur og viðfangsefni líðandi stundar; neyslusamfélagið, stríðsrekstur, oftrú á tækninni. List hans flokkast undir svokallaða popplist. Erró er fyrst og fremst málari en hefur mikið notað klippimyndir í list sinni. Verkin eru auðþekkjanleg enda litrík og hafa sterk höfundareinkenni. Erró er lífsglaður og orkumikill og hefur verið gríðarlega afkastamikill listamaður. Líf hans hefur verið mjög viðburðaríkt og ævintýralegt eins og lesa má í ævisögu hans. Í safneign Listasafns Íslands er verk án titils sem sýnir konu sem hefur orðið tæknivæðingunni að bráð og persónueinkenni hennar hafa máðst út. Verkið er gert árið 1958 en stíll hans átti eftir að breytast mikið eftir það.

Heimild:
Aðalsteinn Ingólfsson. (1991). Erró, margfalt líf. Reykjavík: Mál og Menning.

Erró, Án titils, samklipp, 32 x 25 cm, 1958.
LÍ 4830

Eyborg Guðmundsdóttir

(1924–1977)

Fæddist í Reykjavík 

Miðlar: málaralist, skúlptúr

Eyborg ólst upp hjá ömmu sinni og afa í Ingólfsfirði vestur á fjörðum. Hún veiktist af berklum þegar hún var 16 ára og í stað þess að fara í menntaskóla eyddi hún fjórum árum á spítala. Eftir spítalavistina flutti hún til Reykjavíkur þar sem hún kynntist Dieter Roth, Sigríði Björnsdóttur og fleiri listamönnum en Dieter kenndi henni myndlist um tíma. Hann hvatti Eyborgu til að fara til Parísar að læra myndlist sem hún og gerði árið 1959, 35 að aldri. Skólinn átti illa við hana en þess í stað fékk hún einkakennslu hjá listamanninum Victor Vasarely. Hún fékk inngöngu í listahópinn Groupe Mesure og tók þátt í sýningum með hópnum víða um Evrópu á næstu árum. Eyborg vann til verðlaun fyrir list sína í París árið 1964. Hún flutti heim árið 1965 og hélt margar sýningar næstu árin, m.a. Í Bogasal Þjóðminjasafnsins og á Mokka árið 1966. Í glugganum á Mokka hangir enn verk eftir hana af þeirri sýningu. 

Árið 2019 var haldin yfirlitssýning á verkum Eyborgar á Kjarvalsstöðum. Þar voru verk frá öllum ferli hennar, sem var frekar stuttur en þrátt fyrir það náði hún að gera hátt í 200 verk. Eyborg sagði að hrein form og línur höfðuðu til hennar í listinni. Einfaldleikinn á bezt við mitt hugarfar, sagði hún í viðtali við Morgunblaðið árið 1965, „fyrst og fremst er ég að reyna að koma reglu á í mínum eigin hugarheimi.“ Mörg verka Eyborgar eru gerð í op-stíl, optical þýðir sjón og vísar í það þegar áhorfandinn upplifir sjónvillu eða sjónhverfingu við það að horfa á verk. Þetta á sér í lagi við um þrívíð verk sem hún gerði á 7.áratugnum úr plexigleri. Verk Eyborgar eru einföld og sterk á sama tíma. Þau eru geómetrísk, en það er hugtak sem kemur úr stærðfræði og þýðir að verkin hennar fáist við frumformin; hring, ferhyrning og línu. 

Í safneign Listasafn Íslands er verkið Titrandi strengir, málað árið 1974.

Eyborg Guðmundsdóttir, Titrandi strengir, olía á striga, 101 x 101 cm, 1974.
LÍ 3824

Heimildir:

Dagný Heiðdal, Halldór Björn Runólfsson, Steinar Örn Erluson, Svanfríður Franklínsdóttir. 130 verk úr safneign Listasafns Íslands. (2019). Reykjavík: Listasafn Íslands. 

Gengi geometrískar listar fer sívaxandi. Morgunblaðið. 17. janúar 1965.

Mér finnst allt merkilegt sem vel er gert og af einlægni. Morgunblaðið. 29. Nóvember 1975.

(greinar teknar úr safni Listasafns ÍSlands og eru ekki með blaðsíðutali né höfundi)

Ólöf Kristín Sigurðardóttir. (2019) Eyborg Guðmundsdóttir, hringur, ferhyrningur og lína. Reykjavík: Listasafn Reykjavíkur.

Eyborg Guðmundsdóttir

(1924–1977)

Fæddist í Reykjavík 

Miðlar: málaralist, skúlptúr

Eyborg ólst upp hjá ömmu sinni og afa í Ingólfsfirði vestur á fjörðum. Hún veiktist af berklum þegar hún var 16 ára og í stað þess að fara í menntaskóla eyddi hún fjórum árum á spítala. Eftir spítalavistina flutti hún til Reykjavíkur þar sem hún kynntist Dieter Roth, Sigríði Björnsdóttur og fleiri listamönnum en Dieter kenndi henni myndlist um tíma. Hann hvatti Eyborgu til að fara til Parísar að læra myndlist sem hún og gerði árið 1959, 35 að aldri. Skólinn átti illa við hana en þess í stað fékk hún einkakennslu hjá listamanninum Victor Vasarely. Hún fékk inngöngu í listahópinn Groupe Mesure og tók þátt í sýningum með hópnum víða um Evrópu á næstu árum. Eyborg vann til verðlaun fyrir list sína í París árið 1964. Hún flutti heim árið 1965 og hélt margar sýningar næstu árin, m.a. Í Bogasal Þjóðminjasafnsins og á Mokka árið 1966. Í glugganum á Mokka hangir enn verk eftir hana af þeirri sýningu. 

Árið 2019 var haldin yfirlitssýning á verkum Eyborgar á Kjarvalsstöðum. Þar voru verk frá öllum ferli hennar, sem var frekar stuttur en þrátt fyrir það náði hún að gera hátt í 200 verk. Eyborg sagði að hrein form og línur höfðuðu til hennar í listinni. Einfaldleikinn á bezt við mitt hugarfar, sagði hún í viðtali við Morgunblaðið árið 1965, „fyrst og fremst er ég að reyna að koma reglu á í mínum eigin hugarheimi.“ Mörg verka Eyborgar eru gerð í op-stíl, optical þýðir sjón og vísar í það þegar áhorfandinn upplifir sjónvillu eða sjónhverfingu við það að horfa á verk. Þetta á sér í lagi við um þrívíð verk sem hún gerði á 7.áratugnum úr plexigleri. Verk Eyborgar eru einföld og sterk á sama tíma. Þau eru geómetrísk, en það er hugtak sem kemur úr stærðfræði og þýðir að verkin hennar fáist við frumformin; hring, ferhyrning og línu. 

Í safneign Listasafn Íslands er verkið Titrandi strengir, málað árið 1974.

Eyborg Guðmundsdóttir, Titrandi strengir, olía á striga, 101 x 101 cm, 1974.
LÍ 3824

Heimildir:

Dagný Heiðdal, Halldór Björn Runólfsson, Steinar Örn Erluson, Svanfríður Franklínsdóttir. 130 verk úr safneign Listasafns Íslands. (2019). Reykjavík: Listasafn Íslands. 

Gengi geometrískar listar fer sívaxandi. Morgunblaðið. 17. janúar 1965.

Mér finnst allt merkilegt sem vel er gert og af einlægni. Morgunblaðið. 29. Nóvember 1975.

(greinar teknar úr safni Listasafns ÍSlands og eru ekki með blaðsíðutali né höfundi)

Ólöf Kristín Sigurðardóttir. (2019) Eyborg Guðmundsdóttir, hringur, ferhyrningur og lína. Reykjavík: Listasafn Reykjavíkur.

O

U

Þ

Þóra Pjetursdóttir Thoroddsen

(1847-1917)

Fædd í að Staðarstað á Snæfellsnesi.

Miðlar: Teikning og málaralist.

Á seinni hluta 19. aldar gafst stúlkum fleiri tækifæri til menntunar en áður, sérstaklega stúlkum úr efri stéttum. Áður en þeir sem kallaðar hafa verið frumherjar íslenskrar myndlistar héldu til náms í lok 19. aldar og byrjun þeirrar 20. lærðu nokkrar ungar konur að teikna og mála. Sumar lærðu hjá Sigurði málara eða öðrum kennurum en nokkrar héldu til náms í útlöndum. Elst þeirra var Þóra Pjetursdóttir Thoroddsen en hún hélt til Kaupmannahafnar árið 1873 og lærði í dönskum teikniskóla fyrir dömur. Kennarinn þeirra leit ekki svo á að námið væri til að undirbúa þær undir starfsframa sem myndlistarmenn heldur gerði þær að fjölhæfum fyrirmyndareiginkonum. Á þeim tíma fengu konur ekki að læra í Konunglega listaháskólanum og því hélt Þóra heim á leið eftir tveggja ára nám í teikniskólanum.

Heima í Reykjavík stofnaði Þóra teikniskóla með vinkonu sinni. Sjálf kenndi hún teikningu og málun en vinkona hennar útsaum. Nemendur Þóru voru ungar konur – nema einn og sá var sá eini sem átti eftir að helga sig málaralist en það var listmálarinn Þórarinn B. Þorláksson sem lærði hjá Þóru áður en hann hélt út í frekara nám.

Þóra teiknaði og málaði töluvert fyrstu árin eftir að hún kom heim úr námi. Hún málaði einkum umhverfi sitt í Reykjavík en líka á ferðalögum en hún var óvenju víðförul á hennar tíma mælikvarða. Eitt verka hennar er frá Þingvöllum árið 1881 og sýnir gamla Þingvallabæinn og er sennilega elsta málverkið eftir Íslending með því vinsæla mótífi. Eftir hana liggja líka fjöldi teiknibóka og dagbækur. Þóra sýndi verk sín opinberlega, m.a. á Iðnsýningunni í Reykjavík árið 1883 og á norrænni kvennasýningu í Kaupmannahöfn árið 1895.

Þóra virðist hafa hætt að mála og teikna að mestu eftir að hún gifti sig og stofnaði heimili. Síðar flutti hún til Kaupmannahafnar og bjó þar til æviloka. Hún ferðaðist víða með manni sínum sem var vísindamaður, talaði fjölmörg tungumál og var af mörgum talin best menntuð íslenskra kvenna á sínum tíma.

Heimildir:

Downs-Rose, Dagný Heiðdal, Halldór Björn Runólfsson, Steinar Örn Erluson, Svanfríður Sigrún Franklínsdóttir, Kristín Dagmar Jóhannesdóttir, Ragna Sigurðardóttir, Rakel Pétursdóttir, & Anna Yates. (2019). 130 verk úr safneign Listasafns Íslands: 130 works from the collection of the National Gallery of Iceland. Listasafn Íslands.

Arndís S. Árnadóttir, Hrafnhildur Schram, & Anna Yates. (2006). Huldukonur í íslenskri myndlist: Invisible women in Icelandic art. Þjóðminjasafn Íslands.

Þórarinn B. Þorláksson

(1867-1924)

Fæddur í Vatndal.

Miðill: Málaralist.

Þórarinn B. Þorláksson hélt árið 1900 fyrstur Íslendinga myndlistarsýningu hér á landi en áður höfðu þó verið sýnd erlend málverk á sýningum. Áður en hann hóf myndlistarnám í Kaupmannahöfn 28 ára gamall hafði hann lært bókband og starfað við það í Reykjavík. Þar sá hann í fyrsta sinn málverk. Hann hafði teiknað frá unga aldri en í Reykjavík sótti hann í fyrsta sinn teiknitíma hjá Þóru Pjetursdóttur Thoroddsen.

Þórarinn hafði fyrir fjölskyldu að sjá og náði aldrei að lifa af listinni enda fáir á Íslandi í þá daga sem gátu leyft sér að kaupa myndlistarverk. Hann starfaði sem teiknikennari og skólastjóri Iðnskólans í Reykjavík en rak einnig verslun með myndlistarvörum, pappír og bókum.

Á fyrstu sýningu Þórarins sýndi hann landslagsverk, meðal annars frá Þingvöllum, sem hann hafði málað sumarið áður. Íslensk náttúra var honum hugleikið mótíf alla starfsævina. Kyrrð og ró einkenna mörg verka hans.

Þórarinn átti sumarhús að Laugarvatni þar sem hann dvaldi á sumrin og teiknaði mikið og málaði og safnaði sér efnivið. Hann fullvann svo myndir sínar á veturna. Hann lést í einni sumardvöl sinni aðeins 56 ára gamall.

Heimildir:

Þórarinn B. Þorláksson, Scudder, B., Ólafur Kvaran, Júlíana Gottskálksdóttir, Kristján Pétur Guðnason, Viktor Smári Sæmundsson, & Halldór J. Jónsson. (2000). Þórarinn B. Þorláksson: brautryðjandi í byrjun aldar: sýning = pioneer at the dawn of a century: exhibition: 14. október – 26. nóvember 2000. Listasafn Íslands.

Þorvaldur Þorsteinsson

(1960-2013)

Fæddur á Akureyri.

Miðlar: Innsetningar, ljósmyndir, teikning, myndbandsverk og hugmyndalist.

Þorvaldur Þorsteinsson var ákaflega fjölhæfur og afkastamikill listamaður sem nýtti flesta miðla í listsköpun sinni. Hann vann jöfnum höndum sem myndlistarmaður, rithöfundur og listkennari og sem slíkur hafði hann mikil áhrif á yngri listamenn. Eftir hann liggja klassískar barnabækur á borð við Skilaboðaskjóðuna og bækurnar um Blíðfinn. Auk þess skrifaði hann nokkur leikrit og ljóð. Hann nam myndlist í Myndlistaskólanum á Akureyri og í Myndlista- og handíðaskóla Íslands en hélt svo í framhaldsnám í Hollandi.

Hlutverk og hlutskipti listamannsins var Þorvaldi hugleikið sem og mörk listarinnar og veruleikans. Í verkinu Íslensk myndlist frá 1997 vísar hann til dæmis í hlutverk myndlistarinnar í samfélaginu. Verkið birtir tólf tölvuprentaðar skjámyndir úr sjónvarpsviðtölum við þekkta stjórnmálamenn fyrir framan verk íslenskra myndlistarmanna. Þannig sýnir verkið okkur hvernig íslensk myndlist er notuð sem skreyting og uppfylling í sjálfsmynd stjórnmálamannsins.

Leikur og húmor einkenna mörg verka Þorvaldar og þau ögra gjarnan áhorfandanum og spyrja hann spurninga um lífssýn sína og skynjun. Hann sagði eitt sinn: „List fyrir mér er augnablikið þegar ég uppgötva einhver tengsl, andartakið þegar einhver sýnir mér eitthvað sem opnar hjartað, hjálpar mér að skilja eitthvað eða sjá í nýju ljósi. Listhugtakið rúmar þannig allt sem gerir veruleikann að verðmæti í sjálfu sér, hvort sem það gerist innan ramma hefðbundinna menningarstofnana eða utan.“1

Fjölmörg verka Þorvaldar, bæði myndlistarverk og textar, byggja á ímyndunarafli áhorfandans eða lesendans. Hann nýtti gjarna eitthvað úr hversdeginum sem efnivið í verk sín og sagði að ef listin tengdist ekki veruleika fólks væri hún marklaus.2

Þorvaldur hélt fjölda einkasýninga hér á landi og í Evrópu og tók þátt í samsýningum og listahátíðum víða um heim.

Heimildir:

Downs-Rose, Dagný Heiðdal, Halldór Björn Runólfsson, Steinar Örn Erluson, Svanfríður Sigrún Franklínsdóttir, Kristín Dagmar Jóhannesdóttir, Ragna Sigurðardóttir, Rakel Pétursdóttir, & Anna Yates. (2019). 130 verk úr safneign Listasafns Íslands: 130 works from the collection of the National Gallery of Iceland. Listasafn Íslands.

1https://listasafnreykjavikur.is/sites/default/files/syningarskra/2004thorvaldurthorsteinssoneggerdithettaekki.pdf

2Sama.

Þorgerður Sigurðardóttir

(1945-2003)

Fædd á Grenjaðarstað í Suður-Þingeyjasýslu.

Miðlar: Grafíklist, málaralist og stafræn tækni.

Þorgerður Sigurðardóttir stundaði nám við grafíkdeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands og útskrifaðist þaðan árið 1989. Hún lærði líka við Háskóla Íslands og Listaháskólann.

Þorgerður var þekktust fyrir grafíkverk sín, einkum tréristur, en hún málaði einnig, teiknaði og beitti stafrænni tækni. Mörg verka hennar voru af trúarlegum og heimspekilegum toga. Hún rannsakaði trúarlegan myndlistararf á Íslandi allt frá miðöldum og notaði í verk sín. Hún lærði einnig að gera íkona og nýtti þá tækni í sum verk sín. Mörg verka hennar eru nútímaleg en byggja á gömlum hefðum eða mótífum sem hún setur í nýtt samhengi þar sem þau öðlast nýja merkingu.

Heimild:

Arkiv.is

Þorvaldur Skúlason

(1906-1984)

Fæddur á Borðeyri.

Miðill: Málaralist.

Þorvaldur Skúlason varð sjómaður á unglingsaldri. Hann starfaði á millilandaskipi og sigldi bæði til Danmerkur og Skotlands á tímum sem fæstir komust nokkru sinni til útlanda. Þar gafst honum færi á að skoða stór listasöfn og heillaðist af myndlist. Nokkru síðar fótbrotnaði hann illa og gat ekki unnið. Þá stytti hann sér stundir með því að teikna og þar með voru örlög hans ráðin. Hann fékk listamenn til að kenna sér undirstöðuatriði í teikningu en hélt svo til Osló í Noregi þar sem hann lærði við listaháskólann þar. Hann stundaði myndlistarnám í Osló, París og Kaupmannahöfn á árunum 1928-1939.

Þorvaldur hafði metnað til þess að verða alþjóðlegur listamaður og fylgdist vel með helstu stefnum og staumum í Evrópu. Hann settist að í Frakklandi en flúði með fjölskylduna sína til Íslands þegar nasistar réðust inn í landið í seinni heimsstyrjöldinni.

Þorvaldur var frumkvöðull í framsækinni málaralist á Íslandi og mætti nokkurri andstöðu á sínum tíma. Sumir héldu jafnvel að hann málaði eins og hann gerði af því að hann kynni ekki teikningu almennilega. Þegar fram liðu stundir ávann hann sér þó þá virðingu sem hann átti skilið.

Þorvaldur hafnaði þeirri landslagshefð sem var ríkjandi í málaralist á Íslandi í stríðslok. Snemma á ferli hans voru verk hans oftast í anda exspressjónisma. Þau voru fígúratíf en einkenndust engu að síður af sterkum formum og litum, ljósi og skugga. Hann málaði gjarna uppstillingar, fólk og umhverfi en síðar urðu verk hans óhlutbundnari og fyrirmyndin hætti að skipta máli. Um tíma voru abstraktverk hans geómetrísk og hann var einn af forystumönnum þeirrar stefnu hér á landi. Þá notaði hann fáa liti og byggði verk sín upp á stærðfræðilegum formum. Hann leit á myndsköpun sem rannsókn á litum og formum. Í lok starfsævinnar vann hann abstaktverk sem byggðu á náttúrulegri formum, svo sem árstraumum og iðum í vatni.

Heimildir:

Björn Th. Björnsson, & Kristján Pétur Guðnason. (1983). Þorvaldur Skúlason: brautryðjandi íslenzkrar samtímalistar. Þjóðsaga.

Downs-Rose, Dagný Heiðdal, Halldór Björn Runólfsson, Steinar Örn Erluson, Svanfríður Sigrún Franklínsdóttir, Kristín Dagmar Jóhannesdóttir, Ragna Sigurðardóttir, Rakel Pétursdóttir, & Anna Yates. (2019). 130 verk úr safneign Listasafns Íslands: 130 works from the collection of the National Gallery of Iceland. Listasafn Íslands.

A

Alfreð Flóki Nielsen

(1938–1987)

Fæddur í Reykjavík

Miðlar: málaralist

Þegar Alfreð Flóki var lítill langaði hann að verða trúður í fjölleikahúsi þegar hann yrði stór. (1) Það gekk ekki eftir en í staðinn bjó hann til sína eigin ævintýraveröld gegnum myndirnar sem hann teiknaði. Fyrsta sýning Alfreðs Flóka vakti mikla athygli í Reykjavík enda líktist hún engu sem fólk hafði séð áður. Hún var haldin árið 1959 í Bogasal Þjóðminjasafnsins og voru bæði stíllinn og viðfangsefnin framandi. Meðal gesta á sýningunni var Kjarval sem horfði víst vel og lengi á hvert verk og sagði að myndirnar væru alveg gilligogg.(2) Hvað Kjarval átti við vitum við ekki en víst er að myndlistin hreyfði við fólki sem bæði dáðist og hneykslaðist á listamanninum og myndlistinni hans. Alfreð Flóki klæddist iðulega grænum flauels jakkafötum og stórri þverslaufu. 

Alfreð Flóki stundaði nám í myndlist í Reykjavík og Kaupmannahöfn þar sem hann bjó lengi. Hann var feiminn að eðlisfari en fór sínar eigin leiðir í myndlistinni. Í myndum hans eru konur oft í forgrunni, myndirnar eru stundum ógnvekjandi og dálítið grófar. Furðuverur, dulspeki, dauðinn, vísar í kynlíf og ýmis tákn koma fyrir í myndunum. Alfreð Flóki varð fyrir áhrifum frá hreyfingum í málaralist sem kenndar eru við súrrealima og expressionisma, meðal þeirra sem talið er að hann hafi orðið fyrir innblæsti af eru Otto Dix, Salvador Dalí, Aubrey Beardsley og Rene Margitte

Blóm flagarans er teikning í eigu Listasafns Íslands eftir Alfreð Flóka sem ber öll helstu höfundareinkenni hans: mynd af konu þar sem fegurð og ljótleiki kallast á og myndin er dularfull og myrk.

Alfreð Flóki, Blóm flagarans, blek á pappír, 41 x 38 cm, 1966.
LÍ 1326

 

  1. Jóhann Hjálmarsson. Alfreð Flóki Teikningar. 1963. Reykjavík.
  2. Nína Björk Árnadóttir, sýningarskrá Listasafns Reykjavíkur, Alfreð Flóki, verk úr eigu Listasafns Reykjavíkur ágúst – október 1992.

Anna Líndal

(1957)

Fædd að Lækjarmóti í Víðidal

Miðlar: textíllist, skúlptúr, vídeólist, innsetningar.

Anna Líndal lærði myndlist í Reykjavík, Antwerpen, London og Berlín eftir að hafa klárað fataiðn í Iðnskólanum í Reykjavík árið 1978. Framan af ferli sínum vann hún mikið með heimilislíf og hversdagsleikann í verkum sínum og tvinnaði saman textíl og umfjöllun um samfélagið. Íslensk hannyrðahefð og kynjahlutverk voru áberandi. Sem dæmi er verkið Eldhúslíf þar sem gafflar eru vafðir með tvinna í mörgum litum. Verkið minnir okkur á mikilvægi vinnu kvenna inni á heimilunum í áranna rás. 

Á síðari árum hefur náttúran og náttúruvísindi orðið fyrirferðameiri í verkum Önnu en hún hefur farið með náttúruvísindamönnum á hálendi Íslands frá árinu 1986, fylgst með vinnu þeirra og fengið hugmyndir og efnivið í ný verk. Árið 2017 var yfirlitssýning á 30 ára myndlistarferli Önnu í Listasafni Reykjavíkur sem bar heitið Leiðangur. Þar gat að líta verk sem urðu til í kjölfar jöklaleiðangra þar sem hún bjó til handsaumuð landakort.

Anna Líndal, Eldhúslíf, skúlptúr, blönduð tækni, 1994.
LÍ 7312

Á

Ásgerður Búadóttir

(1920–2014)

Fædd í Borgarnesi

Miðill: textíllist, vefnaðarlist

Ásgerður Búadóttir lærði myndlist í Reykjavík og við Konunglega listaháskólann í Kaupmannahöfn. Á ferðalagi um Frakkland árið 1949 kynntist hún vefnaði sem listformi og heillaðist svo að hún keypti sér vefstól og flutti með sér heim til Íslands. Ásgerður notaði ull til að vefa sem hún litaði sjálf með náttúrulegum litum. Hún teiknaði fyrst upp það sem hún ætlaði sér að vefa og vefaði svo. Það tók hana aldrei minna en tvo mánuði að gera hverja mynd.

Árið 1956 vann Ásgerður til gullverðlauna á alþjóðlegri list- og handverkssýningu í Munchen í Þýskalandi sem var hvati fyrir hana að halda áfram á braut sinni með vefnaðinn.

Þrátt fyrir að vefnaður væri ein elsta listgrein á Íslandi voru nær engir myndlistarmenn að vefa á þessum tíma en Ásgerður átti stóran þátt í því að opna augu almennings fyrir listvefnaði. Ásgerður leitaði sífellt nýrra leiða í vefnaðinum og þróaði persónulegan stíl, meðal annars notaði hún hrosshár í verkin en í vefnaði sínum tengdi hún nýjar og gamlar aðferðir. Verkin eru mörg hver í rauðum og bláum tónum með skírskotun í íslenska náttúru. Þetta verk eftir Ásgerði er frá árinu 1981 og kallast Tenning með tilbrigði ll og er búið til úr ull og hrosshárum.

Ásgerður Búadóttir, Tenning með tilbrigði II, ull og hrosshár, 63 x 55 cm, 1981.
LÍ 4156

Ásgrímur Jónsson

(1876–1958)

Fæddur í Suðurkoti í Rútsstaðahverfi í Flóa

Miðlar: Málaralist

Ásgrímur Jónsson var heillaður af náttúrunni og má rekja áhuga hans strax til ársins 1878 þegar hann var aðeins tveggja ára. Þá hófst eldgos í Kötlu og sá hann gosið af bæjarhlaðinu heiman frá sér. Hann var upp frá því upptekinn af náttúrunni, bæði fegurð hennar og líka því hvað hún getur verið ógnvekjandi. 

Þegar Ásgrímur var 21 árs ákvað hann að gerast listmálari og flutti stuttu síðar til Kaupmannahafnar til að læra myndlist. Hann  dvaldi 11 ár í Danmörku og eitt ár á Ítalíu og sneri aftur heim til Íslands árið 1909 reynslunni ríkari. Ásgrímur hóf strax handa við að mála íslenska náttúru sem hann hafði hugsað svo mikið um en líka tröll, skessur, álfa og huldufólk. Hann teiknaði og málaði mikið upp úr íslensku þjóðsögunum meðal annars þessa mynd sem ber heitið Nátttröllið á glugganum.

Ásgrímur var brautryðjandi í íslenskri myndlist og hafði mikil áhrif á þá listamenn sem á eftir komu. Hann var líka sá fyrsti til að hafa myndlist að aðalstarfi á Íslandi. Ásgrímur var upptekinn af litum og birtu í íslenskri náttúru, ljósaskiptum, sumarnóttum, bjarma af eldgosum og öðrum slíkum blæbrigðum. Hann var alla tíð heillaður af eldgosum eftir lífsreynsluna á bæjarhlaðinu og gerði um 50 verk af eldgosum um ævina.

Ásgrímur gaf íslenska ríkinu allar eigur sínar árið 1952 en hann átti ekki maka og börn. Við Bergstaðastræti 74, þar sem Ásgrímur bjó og starfaði, rekur Listasafn Íslands safn honum til heiðurs þar sem hægt er að kynnast verkum hans.

Ásgrímur Jónsson, Nátttröllið á glugganum, vatnslitur, 1950–1955.
LÍÁJ-311/122

Áslaug Jónsdóttir

(1963)
Fædd á Akranesi
Miðlar: bóklist, grafísk hönnun, myndlýsing

Áslaug Jónsdóttir kallar sig bókverkakonu en auk þess að gera bókverk starfar hún sem rithöfundur, myndlýsir og grafískur hönnuður. Hún gekk í Myndlistar- og handíðaskólann í Reykjavík og síðar í Konunglega listaháskólann í Kaupmannahöfn þar sem hún lærði myndlist og grafíska hönnun. Áslaug hefur unnið til fjölda verðlauna fyrir verk sín, bæði skrif og myndlýsingar, hér heima og í útlöndum. Í bóklistinni hefur hún gert handgerðar bækur af ýmsum toga meðal annars þessa hér sem ber heitið Þangað og er frá árinu 2008.

Áslaug Jónsdóttir, Þangað, bókverk, 2008.
https://aslaugjonsdottir.com/

Ásmundur Sveinsson

(1893–1982)

Fæddur að Kolsstöðum í Dölunum

Miðill: skúlptúr

Ásmundur Sveinsson ólst upp í sveit og hafði gaman af því að smíða þegar hann var barn. Hann vildi fara til Reykjavíkur að læra tréskurð en kveið því að segja pabba sínum frá því enda hélt hann að pabbi hans ætlaðist til þess að Ásmundur yrði bóndi. En pabbi hans tók vel í hugmyndina því það væri hvort sem er ekkert bóndaefni í Ásmundi. Ásmundur hélt því til Reykjavíkur og árið 1919 lauk hann prófi frá Iðnskólanum en þar hafði Ríkharður Jónsson kennt honum tréskurð. Eftir það fór hann til Kaupmannahafnar, Stokkhólms og Parísar að læra meira og kynnast straumum og stefnum í myndlist í Evrópu. Hann flutti aftur heim árið 1929.

Ásmundur vildi að list væri sem víðast meðal fólks enda eru mörg verka hans í almenningsrýmum í Reykjavík. Hann var stöðugt að þróa stíl sinn og vann skúlptúrana með mismunandi efnum, tré, leir og síðar málmum. Ásmundur var mjög vinnusamur og sagði að að enginn skapaði neitt sem væri í fýlu því listin yrði að vera full af gleði og lífsfögnuði. (1)

Ásmundur byggði tvö hús um ævina sem eru bæði mjög sérstök. Fyrra húsið er við Freyjugötu þar sem nú er Ásmundarsalur. Seinna húsið sem hann byggði er við Sigtún en þar er nú Ásmundarsafn sem er hluti af Listasafni Reykjavíkur. Þar er hægt að skoða höggmyndir hans, bæði innan og utanhúss. Helreiðin er verk sem Ásmundur gerði þegar seinni heimsstyrjöldin gekk yfir Evrópu. Hann lét sig dreyma um að gera útfærslu af henni sem væri svo stór að bílaumferð kæmist í gegnum hana. Ásmundur lifði lengi og skildi eftir sig gríðarlega mikið höfundarverk. Þegar hann var beðinn um að lýsa því í viðtali hvað væri höggmyndalist svaraði hann að hún væri að „taka efni, forma það og láta ljósið leika við það. Hún er leikur að ljósi. Ljós og efni tala saman í höggmyndum”. (2)

  1. Bókin um Ásmund. Matthías Johannessen. Helgafell. Reykjavík. 1971.
  2. Bókin um Ásmund. Matthías Johannessen. Helgafell. Reykjavík. 1971. Bls 54.

Ásmundur Sveinsson, Helreiðin, tréskúlptúr, 56,50 x 71 cm, 1944.
Listasafn Íslands: LÍ 7072

Ásta Ólafsdóttir

(1948)

Fædd í Reykjavík

Miðlar: nýir miðlar, fjöltækni

Ásta Ólafsdóttir stundaði kennaranám í Reykjavík og París áður en hún lærði myndlist. Eftir myndlistar- og handíðaskólann (sem heitir nú Listaháskólinn) fór hún til Maastricht í Hollandi (19811984) þar sem hún kynntist vídeólistinni sem var að verða til sem listform á þeim tíma. Hún var ein af frumkvöðlunum á Íslandi í vídeólist. 

Ásta á mjög fjölbreyttan feril sem myndlistarmaður, en hún hefur líka kennt, skrifað bækur, verið sýningarstjóri og unnið ýmis félagsstörf tengd myndlist. Verk Ástu hafa verið sýnd víða um Evrópu og í Kína. Að útskýra list Ástu í stuttu máli er dálítið flókið því hún hefur unnið listina í alla mögulega miðla; málverk, vídeó, gjörninga og skúlptúr svo nokkuð sé nefnt. Sjálf segist hún vilja hafa verkin sín einföld og tær, og að um þau leiki loft. Hún hefur sagt að skynjun sé mikilvægari en skilningur þegar kemur að list. Að hverjum og einum sé frjálst að sjá myndirnar hennar með sínum augum og að listin væri í eðli sínu opin, hún væri spurning en ekki svar. Hún segir myndlistina fjalla um það sem orð ná ekki yfir, að hún sé til því tungumálið henti ekki. (1)

Þ. (1993, 20. febrúar). Listin að skynja án þess að skilja. Morgunblaðið B, Menning og listir bls. 2B.

Ásta Ólafsdóttir, Kyrralíf, vídeóverk, 1992.
LÍ-7361/361

B

Barbara Árnason

(1911–1975)

Fædd í Englandi

Miðill: grafík, textíll o.fl.

Barbara Moray Williams fæddist í Englandi og kom til Íslands í námsferð þegar hún var að læra hönnun og grafík í London árið 1936. Hún var fengin til að myndskreyta íslensk fornrit og hitti tilvonandi eiginmann sinn í Íslandsferðinni, myndlistarmanninn Magnús Á. Árnason. Hún flutti til Íslands í kjölfarið. Verk Barböru eru fjölbreytt en auk grafíkverka, málaði hún, teiknaði, gerði textílverk og vatnslitaþrykkjur. Í Melaskóla gerði hún veggmynd og saumaði leiksviðstjald. Hún var afkastamikil og vann meðal annars mikið með íslenska ull sem hún notaði í veggteppi. Barbara myndskreytti fjölda bóka, m.a. passíusálma Hallgríms Péturssonar og síðar sagði hún í viðtali að af öllu sem hún hefði gert væri hún ánægðust með myndirnar í Passíusálma Hallgríms. (1)

Barbara Árnason, Þvottur á snúru, 19 x 23 cm, 1935.
Gerðarsafn: LKG 1663

(1) Sigríður Thorlacius. (1961, 20. apríl). Ég er ánægðust með myndirnar í Passíusálma Hallgríms. Tíminn. Bls. 1.

Benedikt Gröndal

(1826-1907)

Fæddur á Álftanesi

Miðlar: teikning, málaralist, skáld

Benedikt Gröndal var margt til lista lagt, hann var skáld, málari og náttúruáhugamaður. Hann lærði norræn fræði í Kaupmannahöfn og kenndi við Lærða skólann (nú MR). Bölsýni þjakaði Benedikt sem skrifaði sjálfsævisöguna Dægradvöl um skrautlega ævi sína. Þar rekur hann ævi sína, þvæling um heiminn, námsár í Kaupmannahöfn og samskipti sín við fólk sem reyndust honum oft erfið. Barlómur er áberandi í bókinni en þar segir hann sig hafa skort ást og hlýju, stuðning og skilning í lífinu. Hann missti konu sína árið 1881 og tvær dætur og eftir það varð hann dapur og vonlaus. Hann fór að drekka óhóflega mikið brennivín og missti kennarastöðu sína fyrir vikið árið 1883. 

Benedikt sat þó ekki auðum höndum. Hann skrifaði, teiknaði, skoðaði náttúruna og málaði hana. Fáir ef einhverjir voru að rannsaka náttúruna á þessum tíma á Íslandi og þegar Benedikt fór með teikningar sínar af fuglum til Alþingis í þeirri von að fá styrk til að halda áfram vinnunni fékk hann ekki áheyrn. Rúmum 100 árum síðar, árið 2011, var gefin út vegleg bók með teikningunum hans sem eru geymdar í Náttúruminjasafni Íslands. Bókin vakti mikla athygli og fögnuð enda mikill dýrgripur. 

Árið 2018 kom svo út bókin Reykjavík um 1900 með augum Benedikts Gröndal. Reykjavíkurborg lét gera upp hús Benedikts sem var opnað árið 2017 í Grjótaþorpinu undir nafninu Gröndalshús þar sem minningu hans er haldið á lofti. Það má því segja að á síðustu áratugum hefur Benedikt sannarlega hlotið uppreist æru. Um meðfylgjandi verk sagði Benedikt: „Árið fyrir þjóðhátíðina fór mér að detta ýmislegt í hug, hvurt ég ekki mundi geta teiknað eitthvað eða gert einhverja minningarmynd að gamni mínu, og var ég að þessu frá því í ágúst og þangað til í desember; þá var ég búinn með uppkastið, sem mér þó ekki líkaði; samt lét ég setja það í umgjörð og ánafnaði Magdalenu litlu það í tannfé“ Dægradvöl, 275.

Benedikt Gröndal, Til minningar um Íslands þúsund ára byggingu, vatnslitur, 55 x 75 cm, 1873.
LÍ 461

Björg Þorsteinsdóttir

(1940–2019)

Fædd í Reykjavík

Miðlar: grafík, samklipp, málaralist

Björg Þorsteinsdóttir stundaði myndlistarnám í Reykjavík, Stuttgart og París. Hún var afkastamikill myndlistarmaður og sýndi verk sín víða um heim á yfir 200 sýningum. Verkin eru í eigu listasafna á Norðurlöndunum, Frakklandi, Spáni, Póllandi og víðar. Björg var um tíma undir áhrifum frá japanskri fagurfræði og notaði handunninn japanskan pappír sem hún litaði sjálf af mikilli natni með vatnslitum, olíulitum eða gvasslitum. 

Björg var spurð í viðtali hvort listin ætti að þjóna einhverjum tilgangi og hún svaraði því til að listin gæti eytt hversdagsleika og gráma og lyft okkur upp og veitt okkur aðra sýn á tilveruna. (1) Í safneign Listasafns Íslands er verkið Óskasteinn I frá 1986, þar sjáum við áferð steinsins og fínlegt mynstur. Í fyrstu verkum Bjargar eru abstrakt áherslur en síðar bættust við ýmiss konar form og tilvísanir í himingeiminn og óravíddir hans.

Björg Þorsteinsdóttir, Óskasteinn ll, 60 x 49 cm, 1986.
LÍ 11456

  1. EKJ. (1989, 14. október). …að segja eitthvað með öðrum orðum. Morgunblaðið, bls. ?

Björn Grímsson

(1575–1635)

Miðlar: málaralist

Einn fyrsti nafngreindi listamaður þjóðarinnar var Björn Grímsson sem er talinn hafa fengið tilsögn í málaralist í Þýskalandi árið 1597. Meðal merkra gripa sem varðveittir eru í Þjóðminjasafninu eru málverk eftir Björn á predikunarstól Bræðratungukirkju. Það eru líklega elstu málverk sem varðveist hafa eftir íslenskan listamann. Björn var titlaður málari og sýslumaður en hann var líka góður teiknari.

Björn Grímsson, málverk á predikunarstól úr Bræðratungukirkju, 1630.
6274/1912-52

(https://sarpur.is/Adfang.aspx?AdfangID=327479)

Bragi Ásgeirsson

(1931–2016)

Fæddur í Reykjavík

Miðlar: grafík, málaralist

Þegar Bragi Ásgeirsson var lítill strákur dreymdi pabba hans að einn sona hans yrði listmálari. Í framhaldinu keypti hann listaverkabækur til að kveikja áhuga hjá börnum sínum. Bragi var sá eini sem sýndi bókunum áhuga og sagði Bragi að bækurnar hafi verið örlagavaldar í lífi sínu. (1) Bragi var heyrnarlaus frá 9 ára aldri en hann hóf nám í myndlist 16 ára gamall í Reykjavík. Þegar hann var 19 ára fór hann til Kaupmannahafnar og síðan Osló og Munchen í frekara listnám. Hann dvaldi á Ítalíu frá 1953-4. Bragi var víðförull og sótti áhrif víða að í myndlistinni. Bragi hélt sína fyrstu sýningu í Reykjavík í Listamannaskálanum árið 1955 en þá var hann enn að prófa sig áfram í listinni og ekki búinn að finna sinn stíl. Bragi var góður teiknari, vann mikið með grafík, gerði þrívíð málverk með hlutum sem hann fann á víðavangi og var einnig ötull við að mála. Hann var afkastamikill listamaður og listamannsferill hans spannar 60 ár. Hann vann einnig sem kennari í Myndlistar- og handíðaskólanum og listgagnrýnandi Morgunblaðsins. Bragi málaði og teiknaði margar konur á ferli sínum og ein þeirra er Frúin ófeimna frá árinu 1975. Í verkinu eru fundnir hlutir svo sem þang, snæri og dúkka. 

Bragi Ásgeirsson, Ófeimna frúin, fundnir hlutir, málning og epoxy-plastefni, 1975.
LÍ 3555

Þóroddur Bjarnason. (2008). Augnasinfónía. Myndlist Braga Ásgeirssonar í 60 ár. Reykjavík: Opna.

Brynja Baldursdóttir

Brynja Baldursdóttir (1964)

Fædd í Reykjavík

Miðlar: Bóklist

Brynja lærði myndlist og hönnun í Reykjavík og London og er þekktust fyrir bóklistaverk en hún segir bóklistina bræða saman bók og myndlist. Listformið bjóða upp á aðra möguleika en list sem hengd er á vegg, til dæmis megi snerta bókverk og því er áhorfandinn meiri þátttakandi í verkinu. Í safneign Listasafn Íslands er verkið Rúnaljóðabók sem hún gerði árið 1992. Á þeim tíma voru gömlu rúnirnar Brynju hugleiknar og hún gerði hringlaga bækur með rúnum framan á en myndskreytingum við ljóð innan í. Frú Vigdís Finnbogadóttir gaf Noregskonungi eina slíka bók eftir Brynju árið 1993. 

Brynja Baldursdóttir, Rúnaljóðabók, 29 x 26 x 2,2 cm, 1994.
LÍ 5620

Brynjar Sigurðsson

(1986)

Fæddur í Reykjavík

Miðlar: hönnun og smíði

 

Brynjar Sigurðsson lærði vöruhönnun í Listaháskólanum í Reykjavík og Lausanne í Sviss. Þegar hann vann lokaverkefnið sitt í Listaháskólanum dvaldist hann í Vopnafirði í mánuð og kynntist staðháttum og menningu. Eitt af því sem hann lærði var að hnýta hnúta af gömlum hákarlasjómanni. Þekkinguna nýtti hann sér síðar í að hanna húsgagnalínuna Þögult þorp en þar blandar hann saman hnútum og fyrirbærum úr sjávarþorpi við hefðbundin húsgögn. Þannig nýtti hann gamla verkþekkingu í nútímahönnum en einnig er að finna fundna hluti eins og flotholt, fjöður og nælongirni. Brynjar nýtir menningararfinn og sagnaarfinn og reynir að koma á óvart með efnisval í verkum sínum. 

Brynjar Sigurðsson, Galerie Kreo, 2013. Ljósmynd eftir Fabrice Gousset.

D

Daði Guðbjörnsson

 (1954)

Fæddur í Reykjavík

Miðill: málaralist

 

Daði Guðbjörnsson er einn þeirra listamanna sem endurvakti málverkið til virðingar í upphafi 9. áratugarins eftir að það datt úr tísku að gera hefðbundin málverk. Daði lærði fyrst húsgagnasmíði en sneri sér síðan að myndlist og grafík sem hann lærði í Reykjavík og Hollandi. Málverk Daða eru litrík og í þeim er glaðværð. Daði þróaði með sér sérstakan stíl sem einkennist af flúri og skrauti sem nánast dansar á myndfletinum. Um stefnur í myndlist sagði Daði í viðtali að hann vildi útmá stefnur og strauma og vildi að listamenn einbeittu sér fyrst og fremst að því að rækta sinn eigin garð. Með þessu átti hann við að hver og einn fyndi sína eigin rödd í listinni í stað þess að horfa til annarra. Í safneign Listasafns Íslands er verkið Sjávarljóð, gert árið 1994 sem sýnir vel einkenni Daða, léttleika, hringlaga form og litagleði.  

Daði Guðbjörnsson, Sjávarljóð, 46 x 68,5 cm, 1994.
LÍ 5707

Davíð Örn Halldórsson

(1976)

Fæddist í Reykjavík

Miðill: málaralist

Breiðhyltingurinn Davíð Örn kom inn í myndlistina með látum eftir útskrift frá Listaháskólanum árið 2002. Verk hans vöktu strax mikla athygli og hrifningu en Davíð Örn málar mikið á fundna hluti svo sem viðarplötur, bakka, ljósmyndir eða húsgögn. Hann notar skæra liti, marga liti og ekki endilega liti sem fólk er vant að sjá saman. Myndmál hans er sterkt og eftirminnilegt og það ríkir gleði í myndunum hans. Verkin eru unnin með spreybrúsum, iðnaðarlakki og tússi. Davíð Örn hefur unnið myndir á veggi í Reykjavík og víðar, m.a Ræktaðu garðinn þinn á húsgafli á Seljavegi sem hann vann með Söru Riel árið 2012. Davíð Örn fékk virta viðurkenningu frá Carngie Art awards árið 2013 sem besti ungi listamaðurinn á Carnegie sýningunni. Þá var sagt um verkin að í þeim væru sjálfstæðir og vel mótaðir heimar.  

Í safneign Listasafns Íslands er verkið Royal, gert árið 2008.

Davíð Örn Halldórsson, Royal, lakk, túss, viður, 80 x 128 cm, 2008.
LÍ 8062

Dieter Roth

(1930–1998)

Fæddur í Basel, Þýskalandi

Miðlar: bóklist, grafík, leirlist, skúlptúr

Þýsk-svissneski myndlistarmaðurinn Dieter Roth sagði eitt sinn að hann gerði myndlist til að styðja við þann vana sinn að gefa út bækur. Dieter var einna fyrstur til að gera listaverk úr bók en hann gerði líka skúlptúra úr súkkulaði og öðrum mat sem hefur reynst forvörðum dálítið erfitt því matur rotnar með tímanum. Dieter lærði grafíska hönnun og prenttækni í Bern í Sviss. Hann settist að á Íslandi árið 1957 eftir að hann kynntist íslenskri konu. Dieter flutti með sér nýja strauma inn í íslenskt listalíf og hafði mikil áhrif hér á landi. Með fyrstu bókverkum Dieters ruddi hann brautina fyrir bókverkagerð íslenskra listamanna. Dieter gerði fjölda dagbóka undir áhrifum frá flúxus hreyfingunni sem hafði það að markmiði að afmá mörkin milli lífs og listar. Hann kannaði rými bókarinnar og gerði ýmiss konar tilraunir með tungumálið og hlutverk þess. Dieter var stöðugt að rannsaka og kanna í listinni allt fram á síðasta dag og notaði alla mögulega miðla til þess. Dieter Roth er eitt af stóru nöfnunum í listasögu seinni hluta 20. aldar og hafa verk hans verið sýnd í mörgum stærstu listasöfum heims, til dæmis í MoMA í New York og Tate í London. Í Munchen í Þýskalandi er safn tileinkað honum sem rekið er af Rieter Roth estate, en verk listamannsins eru einnig á mála hjá hinu virta galleríi Hauser & Wirth. Verk eftir Dieter eru í nokkrum safneignum á Íslandi, flest í Nýlistasafninu. Í Listasafni Íslands er bókverkið Kinderbuch sem þýðir barnabók á þýsku. Bókin er 13 blöð og samanstendur af geometrískum myndum eftir Dieter. 

Dieter Roth, kinderbuch, 32 x 32 cm, pappír, 1957.
LÍ 8909

Dröfn Friðfinnsdóttir

(1946-2000)

Fædd í Reykjavík

Miðlar: grafík

Dröfn lærði myndlist í Reykjavík, Akureyri og Lahti í Finnlandi. Hún bjó eftir nám á Akureyri þar sem hún stundaði list sína auk þess sem hún vann sem kennari. Í grafíkinni sótti hún form og liti í náttúruna og landið. Dröfn hélt fjölda sýninga hérlendis og erlendis og fékk ýmsar viðurkenningar fyrir list sína, m.a. menningarverðlaun finnska sjónvarpsins. Í safneign Listasafns Íslands er verkið Kundalini ll eftir Dröfn sem er unnið með þrykkaðferð. 

Dröfn Friðfinnsdóttir, Kundalini ll, grafík, tréristur, 1999.
LÍ-6140

E

Einar Falur Ingólfsson

(1966)

Fæddur í Keflavík

Miðill: ljósmyndun

Einar Falur Ingólfsson stundaði nám í ljósmyndun í School of Visual Arts í New York en fyrir það kláraði hann BA gráðu í bókmenntafræði. Einar hefur starfað sem blaðamaður á Morgunblaðinu auk þess sem hann sinnir ljósmyndun og kennslu. Hann hefur haldið og stýrt sýningum, ritstýrt ljósmyndabókum, kennt og haldið fyrirlestra um ljósmyndun. Hann hefur  fetað í fótspor W.G. Collingwood sem ferðaðist um Ísland á síðari hluta 19. aldar og málaði vatnslitamyndir af sögustöðum á Íslandi. Einar Falur tók röð ljósmynda á sömu slóðum sem hann nefnir Sögustaðir þar sem ummerki samtímans eins og skilti, skurðir, malbik, hús og fólk hafa bæst við sögusviðið og landslagið. Gefin var út bók um verkefnið samhliða sýningu í Þjóðminjasafninu. Í myndröðinni Skjól frá 2010 myndar Einar Falur ýmiss konar skjól í náttúrunni sem skepnur nýta sér og gerir þau að táknmyndum skjólsins sem þjóðin leitaði að í kjölfar efnahagshrunsins 2008.

Einar Hákonarson

(1945)

Fæddist í Reykjavík

Miðlar: grafík, málaralist

 

15 ára gamall hóf Einar nám í Myndlistar- og handíðaskólanum og eftir það lá leiðin til Svíþjóðar í meira nám í myndlist. 1968 flutti hann heim og tók með sér djúpþrykk pressu sem hann kom fyrir í Myndlistar- og haldíðaskólanum en hann fór að kenna við skólann í kjölfarið. Sama ár hélt hann sýningu í Bogasal Þjóðminjasafnsins og sagt er að með sýningunni hafi kveðið nýjan tón í íslenskri myndlist en málverkin á sýningunni voru fígúratíf sem var í andstöðu við ríkjandi abstrakt stefnu flestra myndlistarmanna á þeim tíma. Auk þess að starfa að myndlist gegndi hann ýmsum störfum t.d. var hann um tíma skólastjóri Myndlistar- og handíðaskólans, var listrænn stjórnandi Kjarvalsstaða og var fyrsti aðilinn til að byggja og reka menningarmiðstöð, Listaskálann í Hveragerði sem nú er Listasafn Árnesinga. Á sjötugsafmæli Einars árið 2015 var haldin yfirlitssýning á verkum hans á Kjarvalsstöðum og segir í sýningarskrá að íslensk menning og náttúra hafi verið Einari hugleikin og að sem myndlistarmaður hafi hann í verkum sínum tekið púlsinn á Íslandi með manneskjuna í forgrunni. Í safneign Listasafns Íslands er verkið Púls tímans sem hann málaði árið 1968.

Einar Hákonarson, Púls tímans, masónít, olíulitur, 150 x 115 cm, 1968.
LÍ 1420

Einar Jónsson

(1874–1954)

Fæddist að Galtafelli í Árnessýslu

Miðill: skúlptúr

 

Einar var mjög ungur þegar hann ákvað að verða listamaður en samt hafði hann enga list séð. Hann hafði ríkt ímyndunarafl og sá alls kyns verur fyrir sér sem hann stundum tálgaði í tré. 19 ára gamall sigldi hann til Kaupmannahafnar til að láta drauminn rætast. Hann lærði fyrst tréskurð og teikningu og kláraði nám árið 1899. Eftir námið starfaði hann í Kaupmannahöfn og einnig í Róm, Berlín, London og Bandaríkjunum. Einar var fyrsti Íslendingurinn til að gera listina að atvinnu. Það var óvenjulegt á þessum tíma fyrir Íslending að ferðast jafn mikið og Einar. Þegar hann hafði skoðað heiminn og flutti heim til Íslands reisti hann sér hús sem stendur á Skólavörðuholti þar sem hann bjó og starfaði. Ekkert var á Skólavörðuholti þegar húsið var reist. Enn er húsið eitt af þeim fallegustu og óvenjulegustu í borginni en það var opnað sem safn árið 1923, fyrsta safn á Íslandi sem var opið almenningi. Einari fannst að listin ætti ekki að vera eftirlíking af einhverju heldur alltaf frumsköpun. Mörg af verkum Einars eru orðin hluti af borgarlandslagi Reykjavíkur, til dæmis styttan af Jóni Sigurðssyni á Austurvelli, styttan af Jónasi Hallgrímssyni í Hljómskálagarðinum og styttan af Ingólfi Arnarsyni á Arnarhóli. Auk þess að gera mannamyndir leitaði Einar gjarnan myndefnis í þjóðsögur, goðsagnir, trúarlegar hugmyndir og náttúruform. Einar sýndi fyrsta verk sitt á sýningu í Kaupmannahöfn árið 1901. Það var verkið Útlagar sem nú stendur við Hólavallakirkjugarð í Reykjavík. Myndefnið er sótt í íslenskar þjóðsögur og sýnir útlaga sem arkar áfram með látna konu sína á herðunum og barn sitt í fanginu og hundurinn þeirra fylgir þeim. 

Einar Jónsson, Útlagar, gifs, 15 x 11 x 10 cm, 1901.
LÍ 8868

Erró, Guðmundur Guðmundsson

(1932)

Fæddist í Ólafsvík

Miðlar: málaralist, samklipp

Guðmundur Guðmundsson er sonur listamannsins Guðmundar frá Miðdal og hann ólst upp á Kirkjubæjarklaustri. Hann tók sér síðar listamannsnafnið Ferró en þegar hann bjó á Ítalíu við nám gat enginn sagt Guðmundur. Síðar datt f-ið út og eftir stendur Erró. Þegar Erró var lítill kom Kjarval í sveitina hans til að mála úti í náttúrunni. Það var hátíð í sveitinni þegar Kjarval renndi í hlað líkt og hann væri þjóðhöfðingi. Erró segir að Kjarval hafi kveikt hjá sér áhugann á að mála og síðar þegar hann var sjálfur orðinn listamaður rifjaði hann upp í bréfi til mömmu sinnar hversu mikil áhrif Kjarval hafði á sýn hans á myndlist. (1) 

Erró lærði myndlist í Reykjavík, Flórens, Ravenna og Osló og flutti til Parísar árið 1958 og hefur búið þar síðan. Hann dvelur í Tælandi á vetrum en í húsi sínu á Spáni á sumrin. Árið 1989 gaf Erró Listasafni Reykjavíkur 2.000 verk eftir sig en nú eru þau orðin 4.000. Viðfangsefni hans eru oftast samfélagið sjálft, ádeilur og viðfangsefni líðandi stundar; neyslusamfélagið, stríðsrekstur, oftrú á tækninni. List hans flokkast undir svokallaða popplist. Erró er fyrst og fremst málari en hefur mikið notað klippimyndir í list sinni. Verkin eru auðþekkjanleg enda litrík og hafa sterk höfundareinkenni. Erró er lífsglaður og orkumikill og hefur verið gríðarlega afkastamikill listamaður. Líf hans hefur verið mjög viðburðaríkt og ævintýralegt eins og lesa má í ævisögu hans. Í safneign Listasafns Íslands er verk án titils sem sýnir konu sem hefur orðið tæknivæðingunni að bráð og persónueinkenni hennar hafa máðst út. Verkið er gert árið 1958 en stíll hans átti eftir að breytast mikið eftir það.

Heimild:
Aðalsteinn Ingólfsson. (1991). Erró, margfalt líf. Reykjavík: Mál og Menning.

Erró, Án titils, samklipp, 32 x 25 cm, 1958.
LÍ 4830

Eyborg Guðmundsdóttir

(1924–1977)

Fæddist í Reykjavík 

Miðlar: málaralist, skúlptúr

Eyborg ólst upp hjá ömmu sinni og afa í Ingólfsfirði vestur á fjörðum. Hún veiktist af berklum þegar hún var 16 ára og í stað þess að fara í menntaskóla eyddi hún fjórum árum á spítala. Eftir spítalavistina flutti hún til Reykjavíkur þar sem hún kynntist Dieter Roth, Sigríði Björnsdóttur og fleiri listamönnum en Dieter kenndi henni myndlist um tíma. Hann hvatti Eyborgu til að fara til Parísar að læra myndlist sem hún og gerði árið 1959, 35 að aldri. Skólinn átti illa við hana en þess í stað fékk hún einkakennslu hjá listamanninum Victor Vasarely. Hún fékk inngöngu í listahópinn Groupe Mesure og tók þátt í sýningum með hópnum víða um Evrópu á næstu árum. Eyborg vann til verðlaun fyrir list sína í París árið 1964. Hún flutti heim árið 1965 og hélt margar sýningar næstu árin, m.a. Í Bogasal Þjóðminjasafnsins og á Mokka árið 1966. Í glugganum á Mokka hangir enn verk eftir hana af þeirri sýningu. 

Árið 2019 var haldin yfirlitssýning á verkum Eyborgar á Kjarvalsstöðum. Þar voru verk frá öllum ferli hennar, sem var frekar stuttur en þrátt fyrir það náði hún að gera hátt í 200 verk. Eyborg sagði að hrein form og línur höfðuðu til hennar í listinni. Einfaldleikinn á bezt við mitt hugarfar, sagði hún í viðtali við Morgunblaðið árið 1965, „fyrst og fremst er ég að reyna að koma reglu á í mínum eigin hugarheimi.“ Mörg verka Eyborgar eru gerð í op-stíl, optical þýðir sjón og vísar í það þegar áhorfandinn upplifir sjónvillu eða sjónhverfingu við það að horfa á verk. Þetta á sér í lagi við um þrívíð verk sem hún gerði á 7.áratugnum úr plexigleri. Verk Eyborgar eru einföld og sterk á sama tíma. Þau eru geómetrísk, en það er hugtak sem kemur úr stærðfræði og þýðir að verkin hennar fáist við frumformin; hring, ferhyrning og línu. 

Í safneign Listasafn Íslands er verkið Titrandi strengir, málað árið 1974.

Eyborg Guðmundsdóttir, Titrandi strengir, olía á striga, 101 x 101 cm, 1974.
LÍ 3824

Heimildir:

Dagný Heiðdal, Halldór Björn Runólfsson, Steinar Örn Erluson, Svanfríður Franklínsdóttir. 130 verk úr safneign Listasafns Íslands. (2019). Reykjavík: Listasafn Íslands. 

Gengi geometrískar listar fer sívaxandi. Morgunblaðið. 17. janúar 1965.

Mér finnst allt merkilegt sem vel er gert og af einlægni. Morgunblaðið. 29. Nóvember 1975.

(greinar teknar úr safni Listasafns ÍSlands og eru ekki með blaðsíðutali né höfundi)

Ólöf Kristín Sigurðardóttir. (2019) Eyborg Guðmundsdóttir, hringur, ferhyrningur og lína. Reykjavík: Listasafn Reykjavíkur.

Eyborg Guðmundsdóttir

(1924–1977)

Fæddist í Reykjavík 

Miðlar: málaralist, skúlptúr

Eyborg ólst upp hjá ömmu sinni og afa í Ingólfsfirði vestur á fjörðum. Hún veiktist af berklum þegar hún var 16 ára og í stað þess að fara í menntaskóla eyddi hún fjórum árum á spítala. Eftir spítalavistina flutti hún til Reykjavíkur þar sem hún kynntist Dieter Roth, Sigríði Björnsdóttur og fleiri listamönnum en Dieter kenndi henni myndlist um tíma. Hann hvatti Eyborgu til að fara til Parísar að læra myndlist sem hún og gerði árið 1959, 35 að aldri. Skólinn átti illa við hana en þess í stað fékk hún einkakennslu hjá listamanninum Victor Vasarely. Hún fékk inngöngu í listahópinn Groupe Mesure og tók þátt í sýningum með hópnum víða um Evrópu á næstu árum. Eyborg vann til verðlaun fyrir list sína í París árið 1964. Hún flutti heim árið 1965 og hélt margar sýningar næstu árin, m.a. Í Bogasal Þjóðminjasafnsins og á Mokka árið 1966. Í glugganum á Mokka hangir enn verk eftir hana af þeirri sýningu. 

Árið 2019 var haldin yfirlitssýning á verkum Eyborgar á Kjarvalsstöðum. Þar voru verk frá öllum ferli hennar, sem var frekar stuttur en þrátt fyrir það náði hún að gera hátt í 200 verk. Eyborg sagði að hrein form og línur höfðuðu til hennar í listinni. Einfaldleikinn á bezt við mitt hugarfar, sagði hún í viðtali við Morgunblaðið árið 1965, „fyrst og fremst er ég að reyna að koma reglu á í mínum eigin hugarheimi.“ Mörg verka Eyborgar eru gerð í op-stíl, optical þýðir sjón og vísar í það þegar áhorfandinn upplifir sjónvillu eða sjónhverfingu við það að horfa á verk. Þetta á sér í lagi við um þrívíð verk sem hún gerði á 7.áratugnum úr plexigleri. Verk Eyborgar eru einföld og sterk á sama tíma. Þau eru geómetrísk, en það er hugtak sem kemur úr stærðfræði og þýðir að verkin hennar fáist við frumformin; hring, ferhyrning og línu. 

Í safneign Listasafn Íslands er verkið Titrandi strengir, málað árið 1974.

Eyborg Guðmundsdóttir, Titrandi strengir, olía á striga, 101 x 101 cm, 1974.
LÍ 3824

Heimildir:

Dagný Heiðdal, Halldór Björn Runólfsson, Steinar Örn Erluson, Svanfríður Franklínsdóttir. 130 verk úr safneign Listasafns Íslands. (2019). Reykjavík: Listasafn Íslands. 

Gengi geometrískar listar fer sívaxandi. Morgunblaðið. 17. janúar 1965.

Mér finnst allt merkilegt sem vel er gert og af einlægni. Morgunblaðið. 29. Nóvember 1975.

(greinar teknar úr safni Listasafns ÍSlands og eru ekki með blaðsíðutali né höfundi)

Ólöf Kristín Sigurðardóttir. (2019) Eyborg Guðmundsdóttir, hringur, ferhyrningur og lína. Reykjavík: Listasafn Reykjavíkur.

F

Finnbogi Pétursson

(1959)

Fæddist í Reykjavík 

Miðlar: Hljóðskúlptúrar

 

Þegar Finnbogi Pétursson var lítill dvaldi hann í sveit á sumrin þar sem hann gerði mikið af því að skrúfa í sundur rafmagnstæki og raða upp á nýtt, búa til hljóð, rafmagn og finna út hvernig þau fyrirbæri virka. Hann var líka flinkur teiknari. Hann fór í Myndlistar- og handíðaskólann í Reykjavík þar sem Dieter Roth hafði mikil á hann en hann var þá kennari við skólann. Auk Dieters var kennari að nafni Hermann Nitsch við skólann og í sameiningu kenndu þeir Finnboga það með óbeinum hætti að myndlistinni væru engin takmörk sett. (GK bls 1) Eftir myndlistar- og handíðaskólann í Reykjavík fór Finnbogi til Maastricht í Hollandi þar sem hann segist hafa fundið sína hillu og áhugi hans á hljóði, rafmagni og hátölurum varð efniviður í myndlistarverk. Síðan hefur Finnbogi fundið ýmsar leiðir til að sjóngera það sem við sjáum vanalega ekki, hljóð- og ljósbylgjur sem loftið er fullt af. Sjálfur segir Finnbogi að verkin hans séu hljóðmynd af núinu og fjalli um tímann. Verkið Pendúlar er frá árinu 1993 og var sýnt í Menningarmiðstöðinni Gerðuberg í Breiðholti. Í gagnrýni um sýninguna veltir greinarhöfundur fyrir sér hvort hljóð geti verið myndlist. Verkið er dæmigert fyrir aðferð Finnboga en þar sveiflast þrír pendúlar með hátalara á endanum og myndar hljóð sem magnast þegar pendúlarnir nálgast hátalara á gólfinu. Verkið er eftirminnilegt og var sterk upplifun að mati gagnrýnanda sem endar grein sína á því að segja að myndlist Finnboga sé með því áhugaverðasta sem fram hafi komið í íslenskri myndlist á síðasta áratug. Verkið Pendúlar er nú í eigu Listasafns Íslands. Finnbogi var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum árið 2001, alþjóðlegri myndlistarsýningu sem haldin er í Feneyjum annað hvert ár. 

Heimildir:

Gunnar Kristjánsson. (2006) Hljóðmynd af núinu. Viðtal við Finnboga Pétursson. Kunst und Kirche. 

Hannes Sigurðsson. (1997) Sjónþing Vlll, Finnbogi Pétursson. Reykjavík: Menningarmiðstöðin Gerðuberg.

Ólafur Gíslason. (1997, 17. febrúar) Myndlistin sem atburður. DV.

FInnbogi Pétursson, Pendúlar, 465 x 755 x 350 cm, 1993.
LÍ 7360

Finnur Jónsson

(1892–1993)

Fæddur í Hamarsfirði

Miðlar: málaralist

Finnur Jónsson var á sjó á unglingsárum, stundaði járnsmíði og þegar hann flutti til Reykjavíkur árið 1915 fór hann að læra gullsmíði. Hann fékk tilsögn í teikningu en hugur hans beindist að málaralistinni. Finnur hélt til Kaupmannahafnar eftir gullsmíðanámið og lærði málaralist um tíma. Þaðan fór hann til frekara náms til Berlínar og Dresden í Þýskalandi en á þeim árum var svo mikið að gerast í myndlist í Evrópu að í raun var um byltingu að ræða. Finnur varð eðlilega fyrir áhrifum frá því sem var að gerast í kringum sig en skólinn sem hann stundaði í Dresden var undir miklum áhrifum frá Bauhaus. Bauhaus var skóli sem arkitektinn Walter Gropius stofnaði í Weimar og starfaði á árunum 1919-1933. Bauhaus boðaði nýja tíma í hönnun, hreinleika, einföld form og sameinaði hugmyndir og aðferðir úr heimum tækni og lista. Skólanum var lokað af fasistum árið 1933 en skólinn, og stefnan sem við hann er kennd er ein sú áhrifamesta á 20. öld. Í kennaraliði skólans voru nokkrir af þekktustu myndlistarmönnum 20. aldarinnar, Paul Klee, Vassily Kandinsky og László Maholy-Nagy. Tveir síðarnefndu tilheyrðu útgáfu og galleríi sem kallaðist Der Sturm, eða storminn, en Finni hlotnaðist sá heiður að eiga 8 verk á sýningu á vegum gallerísins sem fór um Evrópu árið 1925. Það segir mikla sögu um hversu áhugaverð verk hans voru. 

Finnur drakk í sig áhrif umhverfisins og málaði í abstrakt stíl. Á slíkum myndum er engin fyrirmynd, ekkert sem við þekkjum eins og náttúra, hús eða manneskja heldur eitthvað sem kemur úr ímyndunarafli þess sem málar. Þegar Finnur kom heim til Íslands með abstrakt myndir sínar skildi fólk ekki myndirnar og vildi sjá eitthvað kunnuglegt eins og sjómenn, fjöll og hús. Fólk gerði því grín að myndunum og Finnur skynjaði að það væri ekki tímabært að sýna Íslendingum abstrakt verk. Hann fór því að mála sjómenn, náttúru og annað sem fólk skildi betur. Löngu síðar fór hann aftur að mála abstrakt myndir, þegar fólk var búið að venjast því að horfa á eitthvað sem var ekki kunnuglegt. Þrátt fyrir það má segja að það sem er merkilegast við arfleifð Finns Jónssonar í myndlist eru abstrakt myndir hans frá 3. áratugnum enda var hann fyrsti Íslendingurinn til að sýna abstrakt verk á sýningu. 

Örlagateningurinn er eitt af þekktustu verkum Finns og er í eigu Listasafns Íslands. Í myndinni gætir áhrifa rússnesku myndlistarmannanna Malevich og Kandinsky sem voru að brjóta upp hefðbundin form myndlistar nokkru áður en Örlagateningurinn var málaður. 

Heimildir:

Brittanica. (2021). Bauhaus. https://www.britannica.com/topic/Bauhaus

Dagný Heiðdal, Halldór Björn Runólfsson, Steinar Örn Erluson, Svanfríður Franklínsdóttir. 130 verk úr safneign Listasafns Íslands. (2019). Reykjavík: Listasafn Íslands. 

Selma Jónsdóttir. (1976). Finnur Jónsson. Yfirlitssýning okt-nóv 1976. Sýningarskrá. Reykjavík: Listasafn Íslands.

G

Gabríela Friðriksdóttir

(1971)

Fædd í Reykjavík

Miðlar: málaralist, teikning, skúlptúr, vídeólist, innsetningar, gjörningar

 

Gabríela vinnur fjölbreytt verk sín í ólíka miðla. Verk hennar einkennast af ævintýralegum furðuverum og furðuheimum þar sem þjóðsagnir og ýmiss konar tákn koma mikið við sögu. Teiknimyndastíll er ríkjandi í teikningum hennar og málverkum. Verk Gabríelu hafa sterk einkenni og hún segir sjálf að hún búi til veröld í kringum hvert og eitt verk sem á að vera sjálfstæð. Hún segir aðalatriðið að vera ekki hrædd og taka sig ekki hátíðlega. Í viðtali árið 2008 sagði Gabríela að hún væri upptekin af ævintýrum og spuna og að henni þætti ekkert sérlega gaman að herma eftir raunveruleikanum, nóg væri af honum. Hún sagði líka að henni þætti vænt um þegar fólk upplifði verkin hennar í líkamanum, ekki með hugsun.

 

Í málverkum Gabríelu eru oft skærir litir en í innsetningum sem hún hefur gert er stundum eins og miðaldir vakni til lífsins í brúnum tónum, mold, heyi og brúntóna búningum dansara og leikara sem hún fær til liðs við sig. Gabríela hefur unnið með fjölbreyttum og stórum hópi fólks úr öðrum listgreinum, t.d. dönsurum og tónlistarfólki. Hún og tónlistarkonan Björk hafa unnið mikið saman. Gabríela gerði plötuumslög fyrir Björk og Björk lék og gerði tónlist fyrir vídeóverk Gabríelu en Gabríela var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum árið 2005. Síðan hefur hún sýnt verk sín víða um heiminn. Eftir Feneyjar bjó hún í 3 ár í kastala í Belgíu sem var með risastórum garði og síki í kring. Gabríela lærði myndlist í Reykjavík og Prag og kláraði BA próf frá skúlptúrdeild Myndlistar- og handíðaskóla Íslands (MHÍ) árið 1998. Eitt af verkum Gabríelu í safneign Listasafns Íslands er Skugginn frá árinu 2007. Þar er furðuvera eða einhvers konar sambland af veru og tré og bleiki liturinn sem er í dálitlu uppáhaldi hjá Gabríelu.

Heimildir: 

Dagný Heiðdal, Halldór Björn Runólfsson, Steinar Örn Erluson, Svanfríður Franklínsdóttir. 130 verk úr safneign Listasafns Íslands. (2019). Reykjavík: Listasafn Íslands. 

Hanna Björk Valsdóttir. (2005, 17. nóvember) Um töfrandi tilgangsleysi myndlistarinnar. Málið/Morgunblaðið, bls. 12.

Kolbrún Bergþórsdóttir. (2008, 4. mars). Ævintýrið og spuninn. 24 Stundir, bls. 18.

Ólafur Kvaran. (2011). Íslensk listasaga frá síðari hluta 19. aldar til upphafs 21. Aldar. Reykjavík: Listasafn Íslands & Forlagið.

www.gabriela.is

Gabríela Friðriksdóttir, Skugginn, MDF, akrýllitur, blek, blýantur. 90 x 90 x 2,2 cm, 2007.
LÍ 8507

Georg Guðni Hauksson

(1961–2011)

Fæddur í Reykjavík

Miðlar: málaralist

 

Náttúran er eflaust algengasta viðfangsefni málara gegnum söguna, ekki síst á Íslandi þar sem náttúran er allt um lykjandi. Þegar Georg Guðni var í Myndlistar- og handíðaskólanum á árunum 1980–85 þótti það mjög hallærislegt að mála náttúruna, þá var í tísku að vinna myndlist út frá hugmyndum. Eitt sinn í skólanum varð honum litið út um gluggann þar sem Esjan stóð í öllu sínu veldi. Hann fór að mála fjallið og upp frá því, þótt Georg Guðni hafi ekki stefnt í þá átt, gerðist það af sjálfu sér að hann fór að gera náttúruna að sínu viðfangsefni. Málverk Georgs Guðna eru ekki eins og flest náttúrumálverk sem við þekkjum sem eru af ákveðnum stað eða fyrirbæri heldur fanga þau órætt landslag eða tilfinningu um landslag. Hann hélt sínu striki og fullkomnaði stíl sinn með tímanum. Málverkin hans snúast um birtu og landslag sem er að miklu leyti byggt í huga þess sem horfir á verkið. Þau eru einföld en sterk á sama tíma og hafa fáa liti. Georg Guðni er í hópi ástsælustu landslagsmálara Íslands og er talinn hafa komið með eitthvað alveg nýtt og einstakt í það gamla form, landslagsmálverkið. Georg Guðni varð bráðkvaddur árið 2011, aðeins 50 ára að aldri. Í safneign Listasafns Íslands er verk án titils sem ber öll hans helstu höfundareinkenni. Friður ríkir í myndinni, hún er ekki af neinum ákveðnum stað, himinn og jörð mætast, litir eru fáir, myndin er draumkennd, og á sama tíma einföld og sterk. 

Georg Guðni, Án titils, olía á striga, 185 x 200 x 3,5 cm, 1994.
LÍ 5649

Gerður Helgadóttir

(1928–1975)

Fædd í Neskaupstað

Miðlar: skúlptúr, glerlist

 

Í vonskuveðri á haustmánuðum árið 1947 sigldi Gerður Helgadóttir á frystiskipi til Ítalíu, 19 ára gömul. Nokkru fyrr var hún á leið til Kaupmannahafnar í myndlistarnám en á síðustu stundu þurfti að hætta við 1þar sem bræður hennar voru í námi erlendis og foreldrar hennar gátu ekki kostað hana líka til náms. Þetta voru mikil vonbrigði fyrir alla en þegar vinnufélagar pabba hennar sáu sorgina sem þetta olli honum ákváðu þeir að hjálpa til með samskoti og að redda ókeypis fari til Ítalíu með skipi. Gerður var fyrst Íslendinga til að fara til náms í myndlist á Ítalíu og fyrst íslenskra kvenna til að leggja höggmyndalist fyrir sig. Fyrst lærði hún klassíska höggmyndalist í Flórens á Ítalíu og þótt það væri góður grunnur vildi hún ekki stunda það að herma eftir fyrirmyndum heldur fylgja eigin hugmyndum. Eftir tvö ár á Ítalíu fór hún til Parísar til að vera í hringiðu listalífsins. Um tíma sótti hún einkaskóla rússneska myndhöggvarans Ossip Zadkine en fór svo að fylgja sinni sýn og hætti að þiggja leiðsögn annarra. Gerður var á þessum tíma að átta sig á því að málmar væru hennar uppáhalds efni. Gerður vann mikið. Hún var fjölhæf, einbeitt og vandvirk. Hún áorkaði ótrúlega miklu á sinni stuttu ævi. Hún hélt sína fyrstu sýningu í París aðeins ári eftir komuna þangað. 

 

Árið 1954 skrifaði Michel Ragon, myndlistargagnrýnandi grein sem ber titilinn Galdramaðurinn Gerður. Hann sagði að París hafi þegar tekið Gerði í fóstur og álíti hana einn sinn besta myndhöggvara. Hann skrifaði líka að hún væri eini kvenmyndhöggvarinn sem hafi þorað að ráðast á járnið og að hæfileikar hennar væru furðulegir, hún hafi hoggið svo meistaralega úr steini en að hún hafi strax náð ákveðnari stíl með járninu. (1) Gerður hélt margar sýningar á fyrstu árum sínum í  París og víða í Evrópu. Á þessum tíma voru gjaldeyrishöft og meiriháttar mál að senda peninga milli landa. Það var erfitt að fá laun fyrir skúlptúra á þessum tíma svo hún sinnti líka verkefnum sem voru pöntuð hjá henni. Hún gerði brjóstmyndir, glerverk í glugga á nokkrum kirkjum á Íslandi, hannaði skartgripi og húsgögn. Hún gerði stórt mósaíkverk á Tollhúsið í Tryggvagötu þar sem Listaháskóli Íslands verður með húsnæði sitt innan fárra ára. Gerður tilheyrði hópi í París sem stundaði andlega leit og var það henni innblástur í verkin hennar. Hún fór til Egyptalands árið 1966 til að skoða forn-egypska skúlptúra og varð það henni líka innblástur. Elín Pálmadóttir vinkona Gerðar sem einnig skrifaði ævisögu hennar sagði að Gerður hafi trúað því alla tíð að einhvers staðar væri einhver kjarni, eitthvað hreint og fagurt og satt, sem væri þess virði að lifa fyrir. Í þessari heimspeki hafi Gerður fundið leiðir fyrir sína eigin leit sem endurspeglast í verkum hennar. (2) Verk eftir Gerði eru dreifð víða, í kirkjum, á torgum, í söfnum og á heimilum víða um heiminn. Erfingjar Gerðar gáfu Kópavogsbæ 1400 verk eftir hana árið 1977 og árið 1994 var Listasafn Kópavogs – Gerðarsafn opnað þar sem hægt er að kynnast verkum hennar. Eitt af verkum Gerðar í safneign Listasafns Íslands ber heitið Abstraction og er frá árinu 1952. 

Verkið er gert úr svartmáluðu járni.

  1. Dagný Heiðdal, Halldór Björn Runólfsson, Steinar Örn Erluson, Svanfríður Franklínsdóttir. 130 verk úr safneign Listasafns Íslands. (2019). Reykjavík: Listasafn Íslands. 
  2. Michel Ragon (1954, 2. júní) Galdramaðurinn Gerður. Morgunblaðið. 
  3. Guðbjörg Kristjánsdóttir. Gerður – meistari glers og málma. (2010). Kópavogur: Listasafn Kópavogs – Gerðarsafn.

Gerður Helgadóttir, Abstraction, járn, 91 cm, 1952.
LÍ 7079

Guðjón Ketilsson

(1956)

Fæddur í Reykjavík

Miðlar: nýir miðlar, fjöltækni, skúlptúr

 

Listin má ekki vera hátíðleg sagði Guðjón Ketilsson eitt sinn í viðtali og bætti því við að þar ætti að finnast lífsneisti, ekki eitthvað fyrirfram ákveðið. Nær allir sem hafa skrifað um verk Guðjóns Ketilssonar dást að því hversu vel hann gerir verk sín. Guðjón þykir afar flinkur og vandvirkur handverksmaður og hann vinnur með ýmis efni, mikið með tré en líka járn, gifs, pappír og postulín. Flest verka Guðjóns eru einföld ásýndar en mikil vinna liggur að baki þeim þrátt fyrir það. Það tekur mikinn tíma að móta skúlptúra úr tré enda vill hann gera sem mest í höndum. Guðjón er flinkur teiknari og byrjar vinnuferlið á teikningu sem leiðir hann oft í að vinna teikninguna í þrívíðan hlut, oftast úr tré. Guðjón hefur unnið mikið með fundna hluti, húsbyggingar og húsgögn sem hann setur í nýtt samhengi og spyr um leið að hlutverki og tilgangi. Guðjón lærði myndlist í Reykjavík og Halifax í Kanada og hefur sýnt myndlist sína á fjölmörgum sýningum hér heima og úti í löndum. 

Í safneign Listasafn Íslands er verk eftir Guðjón sem ber titilinn Yfirborð–Mannvirki en verkið er til sýnis á sýningunni Fjársjóður þjóðar í Safnahúsinu við Hverfisgötu. 

Einar Örn Gunnarsson. (1991, 21. september) Einfalt og kyrrt. Morgunblaðið.

Guðjón Ketilsson, Yfirborð–Mannvirki, viður, 195 x 340 x 62 cm, 2011.
LÍ 8862

Guðmunda Andrésdóttir

(1922–2002) 

Fædd í Reykjavík

Miðill: málaralist

 

Guðmunda Andrésdóttir varð fyrir opinberun á sýningu Svavars Guðnasonar veturinn 1945–6. Sýningin hafði svo mikil áhrif á hana að hún ákvað að gerast málari og dreif sig til Stokkhólms í myndlistarnám ári eftir að hún sá sýninguna. Sýning Svavars fékk litlar undirtektir í Reykjavík en Guðmunda sagði að hún hafi verið eins og sprengja inn í okkar litla heim en hann málaði abstrakt myndir, myndir sem voru ekki af landslagi, húsi eða öðru sem við þekkjum. Guðmunda lærði myndlist í Stokkhólmi og var tvo vetur í París 1951–3. Þá ferðaðist hún mikið um Evrópu og skoðaði söfn og sýningar. Í París varð hún fyrir miklum áhrifum frá málurum sem stunduðu geómetríska abstrakt list sem byggir á þeirri hugmynd að listin eigi ekki að vera eftirmynd veruleikans heldur eigi listamaðurinn að skapa nýjan veruleika í verkum sínum sem hægt er að njóta á eigin forsendum. (1) Í París eftirstríðsáranna fór fram uppgjör við stríðið og fortíðina og málverkið átti að vera „hreint og klárt og án allra aukaatriða“.(2) Á Íslandi höfðu landslagsmálverk verið allsráðandi fram að þessu og almenningur á Íslandi átti stundum erfitt með að taka abstrakt málverk í sátt. Guðmunda sagði í viðtali að oft nálgaðist andúð almennings á abstraktverkum sjúklegt hatur en hún hélt sig alla tíð við abstrakt málverk. Hún fór gegnum mismunandi skeið í málaralistinni og sagði að myndirnar væru rannsóknarferli, „rannsókn á formi, hreyfingu og litum“.(3) 

Árið 1990 var haldin yfirlitssýning á verkum Guðmundu á Kjarvalsstöðum. Í viðtali tengdu sýningunni sagði Guðmunda að myndlistin væri henni sem ólæknandi sjúkdómur og að hún fengi sömu óþreyjuna að mála og þegar hún sá verk Svavars 45 árum áður. Guðmunda er í hópi þeirra listamanna sem ruddu brautina í abstraktlist á Íslandi. Hún dó árið 2002 og erfði Listasafn ÍSlands, Listasafn Reykjavíkur og Listasafn Háskólans að verkum sínum. Með erfðafé lét hún stofna Styrktarsjóð Guðmundu Andrésdóttur, til að styrkja unga myndlistarmenn til náms. 

  1. Dagný Heiðdal. (2004) List Guðmundu Andrésdóttur, þróun og gagnrýni. Guðmunda Andrésdóttir. Tilbrigði við stef. Reykjavík: Listasafn Íslands. 
  2. Ólafur Gíslason. (1990) Myndlist er ólæknandi sjúkdómur. Guðmunda Andrésdóttir. Reykjavík: Listasafn Reykjavíkur 
  3. Ólafur Gíslason. (1990) Myndlist er ólæknandi sjúkdómur. Guðmunda Andrésdóttir. Reykjavík: Listasafn Reykjavíkur 

Guðmunda Andrésdóttir, Átrúnaður, olía á striga, 110 x 120 cm, 1971.
LÍ 1605

Guðmundur Einarsson frá Miðdal

(1895–1963)

Fæddur í Miðdal í Mosfellssveit

Miðlar: málaralist, leirlist

 

Guðmundur ólst upp í Miðdal í Mosfellssveit og var elstur 11 systkina. Hann var handlaginn og fjölhæfur, sótti sjóinn, vann öll sveitastörf og byrjaði snemma að mála. Hann var mikill íþróttamaður og fjallagarpur en hugur hans beindist að myndlist. Árið 1919 bauð Einar Benediktsson athafnamaður Guðmundi að koma til sín í Kaupmannahöfn og var hann þar um skeið. 1921 fór hann til Þýskalands að læra höggmyndalist en þar lærði hann líka leirbrennslu. Guðmundur ferðaðist víða um Evrópu og skoðaði söfn og sýningar. Hann sýndi og seldi þónokkuð af verkum sínum úti í löndum og var boðin kennarastaða í Þýskalandi en hann sagðist ekki hafa fest yndi neins staðar annars staðar en á Íslandi, ekki síst útaf því hvað hér væri mikið frelsi.(1) Hann flutti því heim. Guðmundur gerðist brautryðjandi í leirmunagerð en hann kom sér upp brennsluofni fyrstur manna árið 1927, auk þess fann hann sjálfur jarðefni í munina. 

Guðmundur var afkastamikill listamaður, gerði höggmyndir af Jóni Arasyni biskup, Skúla fógeta, steindi glugga ásamt Finni Jónssyni í Bessastaðakirkju og vann hvelfingar með steinum í Þjóðleikhúsið og Háskóla Íslands svo eitthvað sé nefnt. Hann hélt reglulega sýningar á málverkum, höggmyndum og leirmunum og seldi vel en hann sendi fréttatilkynningar í blöðin með tölum um aðsókn á sýningar og fjölda seldra verka. Eftir því sem leið á 6. áratuginn fannst listgagnrýnendum í Reykjavík ekki mikið til Guðmundar koma enda var abstrakt málverkið í algleymingi. Guðmundur svaraði fyrir sig og átti í hörðum ritdeilum þar sem hann varði sína afstöðu til listarinnar sem hann hélt út lífið. Virðing fyrir náttúru, þjóðlegum gildum og klassískri myndlist skipti hann miklu. Hann taldi nútímalist vera tískufyrirbrigði. Í bréfi til sonar síns, Erró, árið 1955 sagði hann íslenska list í algjörum ógöngum og áréttaði að listamaðurinn er ábyrgur gagnvart þjóðinni. (2) Guðmundur hélt sínu striki allt til enda þrátt fyrir árásir gagnrýnenda og leyfði náttúrunni að vera sitt helsta viðfangsefni. Þekktasta arfleifð hans í dag eru leirmunir sem nú seljast dýrum dómi á uppboðum af rjúpu, fálka og öðrum dýrum. Verkið Loki og Sigyn byggir á sögu úr norrænni goðafræði og er í safneign Listasafns Íslands. (3)

  1. JB. (1944, 11.apríl) Á veltandi steini vex ekki mosi. Þjóðviljinn
  2. Illugi Jökulsson.(1997) Guðmundur frá Miðdal. Seltjarnarnes: Ormstunga. 
  3. Dagný Heiðdal, Halldór Björn Runólfsson, Steinar Örn Erluson, Svanfríður Franklínsdóttir. 130 verk úr safneign Listasafns Íslands. (2019). Reykjavík: Listasafn Íslands. 

Guðmundur Einarsson frá Miðdal, Loki og Sigyn, bronsmálað gifs, H 71,5 cm, 1926.
LÍ 6233

Gunnlaugur Scheving

(1904–1972)

Fæddur í Reykjavík

Miðlar: málaralist

Gunnlaugur Scheving byrjaði snemma á mála og hafði mikinn áhuga á myndum frá barnsaldri, bæði að búa þær til sjálfur en líka að skoða myndir annarra. (1) Hann lærði fyrst að teikna hjá Einari Jónssyni myndhöggvara og Muggi (Guðmundi Thorsteinssyni) áður en hann sigldi til Kaupmannahafnar árið 1923 og fór í Listakademíuna þar. Hann flutti heim eftir námið og einbeitti sér að málaralistinni. Viðfangsefni hans var fólk við störf, bændur og sjómenn. Gunnlaugur var heillaður af sjónum og málaði gjarnan stórar myndir af sjómönnum við vinnu. Í þeim myndum er hreyfing en í sveitamyndunum af bændum og þeirra dýrum er friðsæld og ró. Þjóðlífið varð hans aðalsmerki sem málara en hann vildi fara aðra leið en að mála hefðbundin landslagsmálverk. Stundum notaði hann þjóðsagnararfinn sem grunn í verkum sínum. Málverkin hans voru oft mjög stór, þau voru litrík og stíllinn auðþekkjanlegur. 

Gunnlaugur vandaði sig mikið við að mála og teiknaði alltaf skissur fyrst. Þetta gerði hann til þess að spá í myndbyggingu málverksins. Hann hélt ekki margar sýningar en þegar það gerðist var mikið skrifað í blöðin og verkunum hrósað. Gunnlaugur var ástsæll og á stórafmælum hans skrifaði fólk miklar þakkarræður í blöðin, ekki bara vegna verka hans en líka vegna mannkosta. Hann hafði mikla frásagnargáfu og kímnigáfu og var traustur vinur. Listunnandinn Ragnar Jónsson sagði um Gunnlaug á fimmtugsafmæli hans að ekki mundi hann eftir skemmtilegri manni og að hann haldi að til séu fáir betri málarar í heiminum en Gunnlaugur þó leitað sé víða um lönd. (2)  

Gunnlaugur lést árið 1972 og þá stóð í Morgunblaðinu að konungur íslenskrar myndlistar væri allur. Hann arfleiddi Listasafn Íslands að mörgum verkum, eitt þeirra er Hákarlinn tekinn inn

  1. 1 Þar er lífsást og húmanisni í hverju pensilfari. Morgunblaðið 13. nóvember 1966
  2. 2 Stórveldin þrjú og Scheving. Ragnar Jónsson. Morgunblaðið 7. Júní 1964

Gunnlaugur Scheving, Hákarlinn tekinn inn, olía, 255 x 405 cm, 1965.
LÍ 1674

H

Helgi Þorgils

(1953)

Fæddur í Búðardal

Miðlar: málaralist

Helgi Þorgils fæddist í Búðardal og flutti til Reykjavíkur 15 ára gamall. Eftir myndlistarnám í Reykjavík fór hann til Hollands í framhaldsnám og sneri til baka árið 1979. Hann hefur verið virkur í sýningahaldi síðan þá og hafa verkið hans farið víða um heiminn. Hann var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum árið 1990 en það er stór alþjóðleg myndlistarsýning sem haldin er annað hvert ár í Feneyjum á Ítalíu.

Helgi er einn þeirra sem endurreisti málverkið til virðingar eftir að það datt úr tísku á 8. áratugnum. 

Viðfangsefni hans í myndlistinni er samband manns og náttúru. Á Listasafni Íslands er verkið Fiskar sjávar en það er í Safnahúsinu á sýningunni Fjársjóður þjóðar. Í verkinu koma höfundareinkenni Helga vel í ljós, þar ríkir ákveðið tímaleysi, þar er nakinn maður, dýr og náttúra en hann notar þau viðfangsefni mikið í myndlist sinni. 

Helgi Þorgils, Fiskar sjávar, olía, 236 x 205 cm, 1995.
LÍ 6100

Hrafnhildur Arnardóttir, Shoplifter

(1969) 

Fædd í Reykjavík

Miðlar: textíll, skúlptúr

Hrafnhildur Arnardóttir flutti til New York árið 1994 og hefur búið þar síðan. Listamannanafnið Shoplifter er tilkomið eftir að einhver misskildi nafnið hennar þegar hún kynnti sig. Hún greip það á lofti og hefur notað það síðan. Hrafnhildur er þekkt fyrir skúlptúra sína sem hún vinnur úr hári, bæði alvöru hári og gervihári. Þegar hún var lítil geymdi amma hennar fléttu úr hári Hrafnhildar í skúffunni og upp frá því fór hún að spá í hári en nær öll hennar list notar hár sem efnivið. 

Hrafnhildur tekur sjálfa sig og listina ekki mjög hátíðlega og er húmor stór hluti af hennar verkum. List Hrafnhildar eru á mörkum hönnunar, myndlistar og tísku en hún hefur unnið með ýmsum listamönnum og hönnuðum í gegnum tíðina t.d. tónlistarkonunni Björk og japanska hönnunarfyrirtækinu Comme des Garcons. Verk Hrafnhildar Cromo sapiens sem sýnt var á Feneyjatvíæringnum árið 2019 er nú til sýnis í Höfuðstöðinni  í Ártúnsbrekku sem áður var kartöflugeymsla.

Í safneign Listasafns Íslands eru þrjú verk eftir Hrafnhildi, eitt þeirra nefnist Study for a Opera l, og eru höfundareinkenni hennar augljós í verkinu; litagleði og fléttur úr hári.  

Hrafnhildur Arnardóttir, Shoplifter, Study for a Opera l, hár, 164 X 217 cm, 2009.
LÍ 9198

Hreinn Friðfinnsson

(1943) 

Fæddur í Dalasýslu

Miðlar: nýir miðlar, fjöltækni

Í sveitinni þar sem Hreinn ólst upp var ekkert myndefni nema hjá prestinum, þar var eitt málverk. Hreinn drakk í sig það litla myndefni sem kom með fólki í sveitina og teiknaði mikið. 15 ára gamall flutti hann til Reykjavíkur og hóf myndlistarnám. Með viðkomu í listnámi í London og Róm flutti Hreinn til Amsterdam árið 1971 og hefur búið þar síðan. Árið 1965 stofnaði hann SÚM hópinn ásamt þeim Sigurði Guðmundssyni, Kristjáni Guðmundssyni og fleiri myndlistarmönnum. Listamennirnir í hópnum vildu frelsa myndlistina frá abstrakt hreyfingunni en fyrir þeim var hægt að búa til listaverk úr hverju sem er og setja það fram hvernig sem er. Fyrir þeim var hugmyndin aðalatriði en verkið aukaatriði. 

Myndlist Hreins er einföld ásýndar, hún fjallar oft um hið smáa, þar er kímni og líka mikil hugsun. Hreinn hefur aldrei verið mikið fyrir að tala um verkin, vill að þau tali fyrir sig sjálf. Hann er hógvær og segist ekki vera með nein sérstök skilaboð til áhorfenda. (Ath quote) Þegar hann fékk Ars Fennica verðlaunin í Finnlandi árið 2000 fannst honum óþægilegt umstangið og athyglin þótt hann væri þakklátur. Við það tækifæri var sagt að hann hefði þann einstaka hæfileika að gera allt svo einfalt, en um leið svo áhrifamikið, náið og tilfinningaríkt. (1) Í umsögn um sýningu Hreins árið 1999 komst Áslaug Thorlacius svo að orði að það væri nautn að skoða verk Hreins Friðfinnssonar. Þau væru myndlist í sinni hreinustu mynd, heimspeki sem orkar á skynjunina, beint og orðalaust. 

Það er áhugavert hvað einfaldleikinn getur verið áhrifamikill. Verk Hreins hafa hreyft við mörgum og verið sýnd í virtum söfnum og galleríum um víða veröld, t.d. á Pompidou safninu í París, í Serpentine galleríinu í London og á Feneyjatvíæringnum en hann var fulltrúi Íslands þar árið 1993. 

Í safneign Listasafns Íslands eru nokkur verk eftir Hrein, eitt þeirra er ljósmyndaverk frá árinu 1973 og heitir Attending.

  1. Morgunblaðið 13. október 2000. Mestu myndlistarverðlaun Norðurlanda afhent í gær. Hreinn Friðfinnsson hlýtur finnsku Ars Fennica-verðlaunin.
  2. 2. Áslaug Thorlacius. (13. apríl 1999). Hreinn tónn. Dagblaðið.

Hreinn Friðfinnsson, Attending, ljósmyndun, 55 x 70 cm, 1973.
LÍ 8048

J

Jóhann Briem

(1907–1991)

Fæddur að Stóra Núpi í Gnúpverjahreppi

Miðlar: málaralist

Jóhann ólst upp í sveit þar sem hann sinnti sveitastörfum á sumrin en gekk í skóla á veturna. Einar Jónsson myndhöggvari ólst upp á næsta bæ og Ásgrímur Jónsson málari var tíður gestur á heimilinu. Jóhann hafði því nálægar fyrirmyndir í æsku en hann byrjaði snemma að teikna og mála. 13 ára flutti hann til Reykjavíkur og byrjaði í teiknitímum hjá Jóni bróður Ásgríms. Eftir stúdentspróf árið 1927 stundaði hann nám í málaralist fyrst í Reykjavík en svo í Dresden í Þýskalandi. Árið 1934 flutti Jóhann heim til Íslands og hélt sína fyrstu sýningu í Góðtemplarahúsinu sem vakti mikla athygli. Þá stofnaði hann málaraskóla ásamt Finni Jónssyni sem var rekinn til ársins 1940.

Miklar hræringar voru í listalífinu í Reykjavík á þessum tíma. Jóhann var formaður nýstofnaðs Bandalags íslenskra listamanna (BÍL) á árunum 1941-3. Hann ásamt fleiri myndlistarmönnum háði ritdeilu við Jónas frá Hriflu sem hafði ráðist á málara sem voru að prófa sig áfram með nýja hluti í málaralistinni. Jónas setti upp háðssýningu á verkum nokkurra listamanna í Alþingishúsinu og upp spratt Listamannadeilan, deila milli þjóðlegra gilda Jónasar og kröfu listamanna um frelsi til að gera það sem þeim sýndist í listinni. 

Árið 1944 var Jóhann fenginn til að gera málverk í forsal Laugarnesskóla og áttu þau að vera úr íslensku þjóðlífi og þjóðsögum. Auk þess málaði hann altaristöflur í nokkrar kirkjur og myndskreytti fjölda bóka. Jóhann málaði frá mars og fram á haust, aldrei á veturna en hann lét dagsbirtuna stýra ferðinni. Á veturna kenndi hann teikningu í gagnfræðaskóla Vesturbæjar. Verk Jóhanns eru litrík og frekar einföld ásýndar. Litavalið var oft óvenjulegt, grænir hestar eða bleikt gras. Hann málaði sveitalíf, dýr og fólk við vinnu en leitaði líka í brunn ævintýra og þjóðsagna í myndum sínum. Jóhann ferðaðist til Palestínu árið 1951 sem var svo óvenjulegt á þeim tíma að um það var skrifað í blöðin. Hann ferðaðist líka til Sýrlands, Líbanon og Egyptalands.  Á ferðalögunum sá hann nýja liti og öðruvísi líf sem hann notaði sem efnivið í þó nokkur málverk. Í safneign Listasafns Íslands eru  19 verk eftir Jóhann. Eitt þeirra kallast Svört fjöll og er frá árinu 1963. Verkið er í Safnahúsinu á sýningunni Fjársjóður þjóðar.

Jóhann Briem, Svört fjöll, olíumálverk, 70 x 65 cm, 1963.
LÍ 1252

Jóhanna Kristín Ingvadóttir

(1953–1991)

Fædd í Reykjavík

Miðlar: málaralist

Þegar Jóhanna hélt sína fyrstu sýningu í Reykjavík árið 1983 vöktu verk hennar mikla athygli. Hún hafði lært myndlist í Myndlistar- og handíðaskólanum og síðar í Ríkisakademíunni í Amsterdam. Hún bjó líka vetrarlangt í Svíþjóð og Sikiley. Jóhanna sagðist vera alltaf að mála sjálfa sig og tilfinningar sínar en myndirnar hennar eru óvenju dökkar og oft drungalegar. Hún hefði ekkert um verkin að segja, þau töluðu sínu máli sjálf. Hún sagðist ekki vera orðsins manneskja og feimin að eðlisfari. (1) 

Jóhanna Kristín var virk í sýningahaldi á 9. áratugnum og hélt sig alla tíð við expressíónískan stíl og málaði fólk, aðallega konur og börn. Hún glímdi við veikindi og lést fyrir aldur fram aðeins 37 ára árið 1991. Þrátt fyrir stutta ævi skildi hún eftir sig stórt safn verka með mjög sterk og sérstök höfundareinkenni. Yfirlitssýningar á verkum hennar voru haldnar á Kjarvalsstöðum árið 1992, í Gerðarsafni árið 2013 og á Listasafni Íslands árið 2019. Listasafn Reykjavíkur og Listasafn Íslands gáfu út bækur í tilefni af sýningunum um Jóhönnu og verk hennar. Í safneign Listasafns Íslands eru fimm verk eftir Jóhönnu Kristínu. Eitt þeirra er í Safnahúsinu á sýningunni Fjársjóður þjóðar og kallast Á ögurstundu

  1. Heimsmynd. 6. tbl. 2. árg. November 1987

Jóhanna Kristín Ingvadóttir, Á ögurstundu, olía á striga, 190 x 190 cm, 1987.
LÍ 5602

Jóhannes Sveinsson Kjarval

(1882–1972)

Fæddur í Meðallandi í V-Skaftafellssýslu

Miðlar: málaralist

Þegar Jóhannes Sveinsson Kjarval var fimm ára var hann sendur í fóstur til Borgarfjarðar Eystri en foreldrar hans voru fátækir og áttu 13 börn. Þar var hann umkringdur náttúru og fór snemma að teikna. Hann flutti til Reykjavíkur árið 1902 og sameinaðist þar fjölskyldu sinni. Jóhannes réði sig á skútu árið 1905 og málaði víst mikið á sjónum. 1911 sigldi hann til London og þaðan ári síðar til Kaupmannahafnar þar sem hann stundaði nám í myndlist. Hann giftist danskri konu sem hét Tove og þau fluttu heim til Íslands árið 1922. Þau eignuðust tvö börn sem Tove tók með sér til Danmerkur eftir að þau skildu árið 1924.

Þegar lesið er um Kjarval í blöðum og bókum er hann iðulega ávarpaður meistari Kjarval og segir það sögu um hversu mikil virðing var borin fyrir honum. Meistari Kjarval var sérstakur maður og dálítill sérvitringur. Hann notaði orðið gillígogg við ýmis tækifæri, t.d. þegar hann var yfir sig hrifinn af einhverju, og sagði aðspurður að þetta væri alíslenskt orð þótt hann hafi búið það til yfir allt það „sem gott er, halló, húrra og bravó, glym hill og bikini“. (1) Kjarval tók oft leigubíl á Þingvöll eða annað út fyrir bæjarmörkin og setti upp trönurnar sínar til að mála. Svo biðu leigubílstjórarnir heilu og hálfu dagana eftir að hann væri búinn að mála. Á sumrin var hann margar vikur úti á landi, bjó oft í tjaldi og málaði úti í öllum veðrum. 

Í ævisögu sinni segir Erró frá því hvað Kjarval hafði mikil áhrif á hann í æsku. Hann lýsir því hvernig var að fá Kjarval í heimsókn í sveitina á sumrin og sagði að það hafi ævinlega verið uppi fótur og fit þegar Kjarval mætti á drossíu frá Reykjavík, rétt eins og þjóðhöfðingi væri á ferð. (2)

Kjarval sagði að íslensk náttúra yrði sinn skóli og eftir 1930 einbeitti hann sér nær eingöngu að náttúrunni í sínum myndum. Auk þess teiknaði hann andlitsmyndir. Sagt er að Kjarval hafi kennt Íslendingum að meta náttúru landsins. Hann horfði niður á landið og málaði mosa og steina og stundum læddust furðuverur inn í málverkin. Kjarval er ástsælasti málari þjóðarinnar og þegar fyrsta byggingin var reist í Reykjavík fyrir myndlist, var hún nefnd eftir Kjarval, Kjarvalsstaðir sem tilheyra Listasafni Reykjavíkur. 

Eitt af verkum Kjarvals sem er í eigu Listasafns Íslands kallast Reginsund og er málað eftir draum sem konunni hans dreymdi. Myndin er þakklætisvottur Kjarvals til Tove og var máluð árið 1938. (3)

  1. Morgunblaðið. (8. september 1965). Gilligogg.
  2. Aðalsteinn Ingólfsson. (1991). Erró. Margfalt líf. Mál og menning: Reykjavík
  3. Dagný Heiðdal, Halldór Björn Runólfsson, Steinar Örn Erluson, Svanfríður Franklínsdóttir. 130 verk úr safneign Listasafns Íslands. (2019). Reykjavík: Listasafn Íslands.

Kjarval, Reginsund, olía á striga, 161 x 115 cm, 1938.
LÍ 1146

Jón Engilberts

(1908–1972)

Fæddur í Reykjavík

Miðlar: málaralist

Jón Engilberts byrjaði að hugsa um myndlist þegar hann var mjög lítill og sá alltaf fyrir sér myndir þegar amma hans las fyrir hann sögur um álfa og huldufólk. Jón lærði fyrst myndlist hjá Muggi, í Teikniskóla Guðmundar Thorsteinssonar en hélt síðar til Kaupmannahafnar og Osló þar sem hann hélt áfram námi. Málverkin hans voru undir áhrifum stéttabaráttu og þjóðfélagshræringa þess tíma á Norðurlöndunum en seinna meir breyttust viðfangsefni hans, fyrst í átt að náttúrunni, síðar urðu þau meira abstrakt.

Árið 1943 hélt hann sína fyrstu sýningu í Reykjavík eftir dvölina í útlöndum. Auk þess voru verk hans sýnd á Norðurlöndunum og greindu íslensk dagblöð frá því að þau hafi vakið mikla athygli. Verkin væru ævintýraleg, fögur og ljómandi var skrifað um þau í Kaupmannahöfn árið 1952. (1)

Eitt af verkum Listasafns Íslands eftir Jón fjallar um vinnandi fólk en það málaði hann á námsárunum í Kaupmannahöfn. Verkið kallast Fólk að koma frá vinnu, og var málað árið 1936. 

  1.  (Verk Jón Engilberts vekja mikla athygli á sýningu í Kaupmannahöfn, Þjóðviljinn 24. nóv, 1952).

Jón Engilberts, Fólk að koma frá vinnu, olía á striga, 126 x 175 cm, 1936.
LÍ 794

K

Karl Kvaran

(1924–1989)

Fæddur á Borðeyri við Hrútafjörð

Miðill: málaralist

Karl Kvaran stundaði nám við Handíða- og myndlistaskólann í Reykjavík 1941–45, við Listaháskólann í Kaupmannahöfn og í einkaskóla Rostrub Boegesen 1945–49. Auk þess nam hann hjá Marteini Guðmundssyni, Birni Björnssyni, Jóhanni Briem og Finni Jónssyni.
Karl er þekktur fyrir strangflatarmálverk sín og afgerandi litanotkun þar sem hann notaði oft andstæða liti. Strangflatarlist er abstraktlist (óhlutbundin málaralist) þar sem áhersla er á notkun beinna lína, hornréttra myndflata og órofinna litaflata, nokkurskonar framhald á rannsóknarstefnu kúbisma. Karl byggði á einfaldri, markvissri formbyggingu og var trúr abstraktlistinni allan sinn feril. Málverk hans urðu stærri og útlínur flata skarpari eftir því sem leið á listamannaferil hans. Auk þess sem hann teiknaði bogadregnar línur sem gaf verkum hans meiri hreyfingu.

Grein úr Morgunblaðinu, Merkir Íslendingar: https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1531628/
Frétt í tengslum við Safneign á sunnudegi, Gerðarsafn: https://www.facebook.com/gerdarsafn/posts/4757483994307103/

Katrín Sigurðardóttir

(1967)

Fædd í Reykjavík

Miðill: skúlptúr, teikningar, ljósmyndir, innsetningar

Katrín Sigurðardóttir vinnur oftast þrívíð verk og eru skúlptúrar hennar fjölbreyttir. Í mörgum verkanna er eins og hún sé að kortleggja staði og tíma. Listaverkin eru þess eðlis að áhorfandinn upplifir þau misjafnlega eftir því hvar hann er staðsettur.

Katrín hefur á ferli sínum sýnt skúlptúra, teikningar, ljósmyndaverk og stórar innsetningar sem eru til þess fallin að umbreyta reynslu og upplifun áhorfandans. Verk hennar hafa verið sýnd hér heima og víða erlendis en hún hefur m.a. verið fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum, Sao Paulo Tvíæringnum í Brasilíu, Momentum í Noregi og Rabat tvíæringnum í Marokkó. Einkasýning hennar í Metropolitan safninu í New York borg árið 2010 vakti mikla athygli.

Verkin eru til þess fallin að áhorfandinn sér heiminn út frá nýjum og óvæntum vinkli, þar sem oft á tíðum byggingalist, korta- og módelgerð mætast.

Frétt af vef Hornafjarðar, 2021: https://www.hornafjordur.is/stjornsysla/sveitarfelagid/frettasafn/katrin-synir-verk-i-svavarssafni
Frétt af vef Listasafns Reykjavíkur, 2015: https://listasafnreykjavikur.is/syningar/katrin-sigurdardottir-horft-inni-hvitan-kassa-skulpturar-og-model

Kjartan Guðjónsson

(1921-2010)

Fæddur í Reykjavík.

Miðlar: Málaralist og grafík.

Kjartan Guðjónsson var frá unga aldri áhugasamur um myndlist og átti þess kost að sækja myndlistarnám í Handíðaskólanum í tvö ár meðfram menntaskólanámi. Eftir það hélt hann til Bandaríkjanna þar sem hann nam við hinn virta listaháskóla Art Institude of Chicago í tvö ár.

Heim kominn frá Bandaríkjunum lét hann strax til sín taka í sýningarhaldi og var einn af forvígismönnum Septemberhópsins sem vakti mikla athygli fyrir róttæka nálgun og framsetningu en á fyrstu sýningu hópsins í í Listamannaskálanum árið 1947 voru abstraktverk í öndvegi. Sýningin markaði upphaf framúrstefnu í íslenskri myndlist, ekki einungis vegna verkanna heldur einnig vegna þess að hópurinn setti fram ákveðnar stefnuyfirlýsingar um breytt myndlistarlandslag á Íslandi til framtíðar. Í tilefni sýningarinnar skrifaði Kjartan greinina „Hvað á þetta að vera?“ sem fjallaði um abstraktlistina og gildi hennar þar sem hann fullyrti að myndlist sem væri bundin við fyrirmyndir af nákvæmni væri úr sér gengin.

 

Á þeim tíma kynnti Kjartan sér einnig nýjustu strauma í París sem þá var miðstöð róttækrar listar í Evrópu. Um 1950 hélt hann svo út til frekara náms í Flórens á Ítalíu. Í kjölfar þeirrar námsdvalar snéri hann sér að geómetrískri abstraktlist og á fyrstu einkasýningu hans árið 1953 sýndi hann slík verk. Síðar snéri hann baki við geómetríunni og málaði expressjónísk abstraktverk en á einkasýningu hans árið 1966 voru verk í þeim anda. Síðar urðu málverk hans fígúratívari þótt hann héldi í krafmikla tjáningu expressjónismans og sterka liti.

Kjartan vann einnig grafíkverk, við hönnun og ritstörf, auk þess sem hann kenndi myndlist í rúman aldarfjórðung í Myndlista- og handíðaskóla Íslands og hafði áhrif á fjölda ungra myndlistarmanna þar.

Heimild: Íslensk listasaga

Kolbrún Björgólfsdóttir – Kogga

(1952)

Fædd á Stöðvarfirði.

Miðlar: Leirlist og höggmyndalist.

Kolbrún Björgólfsdóttir (Kogga) lærði í Myndlista- og handíðaskóla Íslands en hélt svo í framhaldsnám við Danmarks Designskole í Kaupmannahöfn og við Haystack Mountain School of Art í Maine í Bandaríkjunum. Hún hefur einnig sótt sér framhaldsmenntun hjá leirlistamönnum í Danmörku síðar.

Kogga hefur unnið nytjahluti úr leir jafnt sem listmuni og stærri skúlptúra. Hún hefur sérstakan stíl, vinnur gjarnan með hvítt postulín og stillir litanotkun í hóf. Á móti hvítu postulíninu teflir hún gjarnan dökkum línum sem mynda andstöðu. Í mörgum gripa sinna vinnur hún með gráskalann en þegar hún notar liti eru þeir áberandi og til áherslu. Hún vinnur mikið með ákveðin form. Í upphafi ferils hennar voru píramídar, keilur og kassar áberandi en í seinni tíð hafa formin orðið mýkri og náttúrulegri. Áferð verka Koggu er yfirleitt hrá en þó fínleg og yfirborðið slétt. Eggið er henni hugleikið og má sjá í einni eða annarri mynd í mörgum verka hennar.

Kogga bjó með myndlistarmanninum Magnúsi Kjartanssyni og þau störfuðu mikið saman. Magnús myndskreytti fjölda muna hennar, bæði nytjahluti og listmuni.

Kogga hefur haldið fjölmargar einkasýningar á Íslandi og tekið þátt í samsýningum víða um heim og hlotið verðlaun og viðurkenningar. Verk hennar eru í eigu fjölmargra listasafna og opinberra stofnanna. Kogga hefur rekið samnefnt keramíkgallerí í miðborg Reykjavíkur um áratuga skeið þar sem verk hennar eru til sýnis og sölu. Þá hefur hún kennt myndlist samhliða eigin listsköpun en einnig unnið rannsóknir á íslenskum leir.

Heimild: Kogga.is

Kristín G. Gunnlaugsdóttir

(1963)

Fædd á Akureyri.

Miðlar: Málaralist, íkonagerð og textíll.

Kristín Gunnlaugsdóttir stundaði nám í málaradeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands eftir að hafa sótt myndlistarnámskeið á Akureyri frá barnsaldri. Að námi loknu fór hún í klaustur í Róm þar sem hún dvaldi í eitt ár og málaði. Þar kynntist hún íkonamálun og fékk áhuga á henni. Síðar hélt hún til Flórens í framhaldsnám. Þar nam hún ekki aðeins við listaháskóla því hún lærði einnig að vinna með og leggja blaðgull með gamalli tækni á verkstæði í borginni sem gerðu við forn listaverk.

Þegar Kristín kom heim úr námi og fór að sýna verk sín á Íslandi vöktu þau strax mikla athygli. Þau voru afar ólík því sem aðrir íslenskir myndlistarmenn voru að gera á þeim tíma. Hún notaði aðferðir miðaldamálara; eggtempura og blaðgyllingu, og sótti einnig í táknmál trúarlegrar myndlistar fyrri alda. Hún málaði íkona en flest verk hennar frá þeim tíma voru þó frjálslegri þegar kom að myndefni og úrvinnslu hugmynda þótt trúarleg tákn væru sjaldnast skammt undan. Verkin einkenndust af tæknilegri fullkomnun og fágun og voru gjarnan draumkennd og tímalaus.

Það kvað því við annan tón þegar Kristín sýndi í fyrsta sinn, árið 2010, veggteppi þar sem hún saumaði einfaldar og hráar útlínur á grófan striga. Verkin sýndu berskjaldaðar konur, stundum á kynferðislegan en húmorískan hátt. Þessi umskipti urðu í kjölfar efnahagshrunsins þegar samfélagið var allt í sjálfsskoðun. Veggteppi Kristínar eru einföld og hrá en einnig kraftmikil og hrífandi og vísa í handverkshefðir kvenna.

Í kjölfar þessarar breyttu stefnu rataði hið nýja myndefni; kvenorkan og hversdagslegt líf kvenna, inn í málverk Kristínar. Í stað hinna fáguðu vera birtust þar líttklæddar konur með bónuspoka, einstæðar mæður, gyðjur jafnt sem konur sem eru búnar á því. Hún notar þar aðferðir miðaldalista, eggtempura og blaðgyllingu, í glænýju samhengi.

Hver sem aðferðin er eða myndefnið þá spyrja verk Kristínar gjarnan tilvistarlegra spurninga um veru manneskjunnar í heiminum, tilgang hennar og hlutverk.

Heimildir:

Kristín Gunnlaugsdóttir, Páll Valsson, & Ásdís Ólafsdóttir. (2011). Undir rós. Eyja.

Downs-Rose, Dagný Heiðdal, Halldór Björn Runólfsson, Steinar Örn Erluson, Svanfríður Sigrún Franklínsdóttir, Kristín Dagmar Jóhannesdóttir, Ragna Sigurðardóttir, Rakel Pétursdóttir, & Anna Yates. (2019). 130 verk úr safneign Listasafns Íslands: 130 works from the collection of the National Gallery of Iceland. Listasafn Íslands.

Kristín Jónsdóttir

(1888-1959)

Fædd við Eyjafjörð.

Miðill: Málaralist.

Kristín Jónsdóttir var fyrsta íslenska konan sem gerði myndlist að ævistarfi sínu. Þegar hún var að alast upp var ekki sjálfgefið að stúlkur gætu menntað sig, hvað þá haldið til útlanda í skóla. Það gerði Kristín, þótt hún væri ekki af efnafólki komin.

Kristín bjó í Danmörku í 15 ár og þar málaði hún verkið Fiskverkun við Eyjafjörð árið 1914, enn í námi. Verkið er fyrsta íslenska málverkið sem sýnir störf verkafólks í landinu en það átti eftir að vera algengt viðfangsefni listamanna. Eftir að hún flutti heim til Íslands gerði hún vinnandi fólk aftur að yrkisefni sínu í verkinu Við Þvottalaugarnar frá 1931. Á þeim tíma fóru konur enn að heitu laugunum í Reykjavík til að þvo þvott en sú iðja var að leggjast af.

Kristín ferðaðist um land allt, bæði fótgangandi og á hestum, til að teikna og mála. Á þeim tíma voru ferðalög erfið og Kristín lagði oft mikið á sig til að komast á staði sem fáir höfðu séð og ná rétta sjónarhorninu. Á sínum yngri árum fór hún út með trönur, striga, málningu og pensla og málaði undir berum himni en þegar hún var eldri lét hún sér oft nægja að skissa myndir úti í náttúrunni en fullvinna þær heima.

Eftir að Kristín eignaðist börn varð erfiðara fyrir hana að ferðast um til að mála enda engir leikskólar til á þeim tíma. Hún málaði því meira heima, það sem hún sá út um gluggann á Laufásvegi þar sem hún bjó eða uppstillingar, gjarna með blómum. Hún ræktaði ýmis framandi blóm í garðinum sínum gagngert til að mála þau.

Kristín hafði umtalsverð áhrif á myndlistarlífið í landinu. Hún átti marga listamenn að vinum vingaðist við marga aðra listamenn og heimili hennar varð einskonar félagsmiðstöð myndlistarmanna.

Heimildir:

Bera Nordal, Aðalsteinn Ingólfsson, & Karla Kristjánsdóttir. (1988). Kristín Jónsdóttir: kyrra líf: Listasafn Íslands 29. október – 27. nóvember 1988. Listasafn Íslands.

Aðalsteinn Ingólfsson, & Kristján Pétur Guðnason. (1987). Kristín Jónsdóttir: listakona í gróandanum. Þjóðsaga.

Kristín Jónsdóttir frá Munkaþverá

(1933)

Fædd á Munkaþverá í Eyjafirði.

Miðlar: Textíll og málaralist.

Kristín Jónsdóttir kynntist myndlist fyrst sem unglingur í Menntaskólanum á Akureyri. Þar kynntist hún starfi frístundamálara og ákvað að hætta í menntaskóla og fara í myndlistarnám. Hún flutti því 16 ára gömul til Reykjavíkur og stundaði nám í Handíða- og myndlistaskólanum í Reykjavík 1949-1952 og 1954-1957 var hún nemandi við textíldeild Kunsthåndværkerskolen í Kaupmannahöfn. Hún hafði reyndar ætlað að læra leirlist þar en heillaðist af textíldeildinni þegar hún skoðaði skólann. Síðar nam hún í listaskólum í Frakklandi og á Ítalíu. Kristín var kennari í Myndlista- og handíðaskóla Íslands og tók þátt í stofnun sérstakrar textíldeildar við skólann. Hún hefur haldið fjölda sýninga á Íslandi og annars staðar og hlotið verðlaun og viðurkenningar fyrir störf sín.

Kristín var einna fyrst hér á landi til að nota þæfða ull í nútímalistaverk en þæfing ullar er aldagömul aðferð. Í sumum verka sinna vinnur hún með gjörólík efni, svo sem ull og plexígler. Orðið textíll er náskylt orðinu texti. Í textílverkum blandar listamaðurinn saman þráðum svo úr verður klæði eða annars konar verk en segja má að texti sé vefur úr orðum. Í sumum verkum sínum samþættir Krisín veflist og ritlist með því að vísa til bókmenntaarfsins, auk þess sem hún notar gjarna orð eða textabrot í verk sín. Textinn er greiptur í gegnsæar plötur úr plexígleri og varpa skuggum á bakgrunn verkanna. Mörg verka hennar tengjast einnig náttúru Íslands og fjalla um ár og vötn. Hún beinir sjónum áhorfenda gjarnan að viðkvæmri náttúrunni og hverfugleika hennar. Framlag hennar til íslenskrar listasögu liggur einnig í notkun íslenskrar ullar á nýstárlegan hátt í samtímalist.

Heimild:

Sýningarskrár og fleira.

L

Leonardo da Vinci

(1452-1519)

 

Fæddur í Vinci á Ítalíu.

Miðlar: Málaralist, teikningar og fleira.

Oft er sagt að Leonardo frá Vinci sé snillingur og hann var ótrúlega fjölhæfur. Hann var einn af mikilvægustu endurreisnarmönnunum en ef ekki væri fyrir myndlistarverk hans gæti hann allt eins hafa gleymst.

Leonardo fæddist í smábænum Vinci á ítalíu árið 1452. Hann var ekki bara myndlistarmaður, hann lagði líka stund á vísindi og fann upp fjölda tækja og tóla sem fæst voru nokkurn tímann búin til í raun og veru svo eitthvað sé nefnt. Leonardo skrifaði um allar athuganir sínar, hugmyndir og teiknaði uppfinningar í ótal minnisbækur með spegilskrift sem erfitt er að lesa. Eftir hann liggur því mikið og fjölbreytt ævistarf þótt málverkin séu fá. Leonardo bjó lengst af í Flórens en einnig í Feneyjum, Mílanó og í Frakklandi.

Hefðbundin skólaganga Leonardos var ekki löng en á unglingsárum sínum flutti hann til Flórens sem þá var miðpunktur nýrra hugmynda, menningar og lista. Fjölskylda hans kom honum að í læri hjá myndhöggvaranum Andrea del Verrocchio en algengt var í þá daga að ungir myndlistarmenn væru í læri hjá meistara frekar en í myndlistarskólum. Þótt vitað sé að Leonardo hafi lært höggmyndalist hafa engin slík verk eftir hann varðveist.

Leonardo lagði mikla áherslu á anatómíska teikningu. Hann krufði lík og teiknaði líkamana upp, vöðva fyrir vöðva. Þannig lagði hann grunn að þekkingu á mannslíkamanum en listamenn allar götur síðan hafa glímt við mannslíkamann í námi sínu, þótt fyrirmyndirnar hafi yfirleitt verið lifandi fólk.

Leonardo er þekktastur fyrir málverk sín þótt aðeins örfá þeirra hafi varðveist. Þá hafa sum þeirra, til dæmis Síðasta kvöldmáltíðin sem er eitt þeirra frægustu, varðveist illa því við gerð hennar reyndi Leonardo nýja tækni sem gafst því miður ekki vel. Myndin var máluð beint ofan á gifs á vegg í Il Cenacolo klaustrinu í Mílanó þar sem það er enn og flinkir forverðir fá reglulega að bjarga henni frá enn frekari skemmdum.

Móna Lísa eftir Leonardo er af mörgum talin frægasta andlitsmynd listasögunnar. Þótt hann hafi líklega málað myndina eftir pöntun lét hann hana ekki af hendi og tók hana með sér hvert sem hann fór. Hún var einmitt með honum í Frakklandi þegar hann dó. Því er Móna Lísa í Louvre listasafninu í París.

Heimildir:

Zuffi. (2003). The Renaissance. Collins.

Vísindavefurinn

M

Magnús Kjartansson

(1949-2006)

Fæddur í Reykjavík.

Miðlar: Málaralist, höggmyndalist, grafík, blönduð tækni og leirlist.

Magnús Kjartansson sótti sér fyrst listmenntun 18 ára gamall. Þá var hann nemandi í Menntaskólanum í Reykjavík og skráði sig á námskeið á vegum skólans. Svo vildi til að hann var einn um að sækja námskeiðið en það kenndu tveir merkir myndlistarmenn sem sinntu þessum eina nemanda vel. Í kjölfarið sótti hann í Myndlista- og handíðaskóla Íslands en eftir að hafa lokið námi þar fór hann í framhaldsnám í Konunglega listaháskólanum í Kaupmannahöfn.

Magnús var gríðarlega fjölhæfur listamaður og ekki auðvelt að skilgreina ævistarf hans. Í upphafi ferils síns var hann undir áhrifum frá Bandarískri myndlist en hann dvaldi þar í landi og kynnti sér helstu strauma og stefnur. Á þeim tíma einkenndust verk hans gjarnan af einföldum geometrískum formum og hreinum litum, einkum málverkin. Eftir nám sitt í Danmörku tók við tímabil þar sem hann gerði tilraunir með form og efni og fjarlægðist um stund hin hreinu form. Mörg verka hans vann hann með blandaðri tækni; málaði, klippti og límdi og vann með fundið myndefni – einhvers konar úrgang úr neyslusamfélaginu. Þar fann hann ýmis tákn úr samtímanum, svo sem þekkt vörumerki íslenskra fyrirtækja. Síðar átti hann eftir að vinna verk sem byggðu á ljósmyndatækni án þess þó að notaðar væru myndavélar. Hann notaði ljósnæm efni, ýmsa hluti og jafnvel eigin líkama og líkamshluta til að festa myndefnið á myndflötinn. Hann málaði svo ofan í myndirnar sem framkölluðust á pappírinn. Þessar sérstöku sjálfsmyndir líkjast stundum frumstæðum hellamálverkum og tengjast tilvistarlegum spurningum.

Magnús vann áfram með einfaldar mannsmyndir – sem stundum líktust frekar öpum eða öndum – og einföldum línum sem tákna kynjaverur í mörgum verka sinna. Stundum þakti hann myndflötinn svo úr varð eitthvað sem við fyrstu sýn líktist mynstri en þegar nánar var að gáð mátti sjá fólk, verur og dýr í mynstrinu.

Sambýliskona Magnúsar var Kolbrún Björgólfsdóttir – Kogga leirlistarkona. Þau deildu gjarnan vinnustofu og urðu fyrir áhrifum af verkum hvors annars. Magnús vann t.d. að skreytingum á fjölmörgum verkum Koggu, stórum sem smáum en leirinn leitaði einnig til hans með öðrum hætti. Um 1980 vann hann til að mynda skúlptúra úr rauðleir og fundnu efni með Árna Páli Jóhannssyni. Síðar átti hann eftir að vinna skúlptúra úr fundnum hlutum.

Á síðasta áratug síðustu aldar endurnýjaði Magnús sig nánast algjörlega sem myndlistarmann er hann tók að mála gríðarstór verk, mörg með trúarlegum þemum. Áhrif frá leirlistinni eru áberandi í áferð verkanna sem unnin voru með blandaðri tækni en Magnús notaði sag, lím og tré í bland við olíumálningu til að ná fram sérstæðri áferð á strigann.

Á síðustu árum ferils síns sagði Magnús skilið við málverkið en vann vatnslitamyndir og leirverk með Koggu. Hann lést úr bráðahvítblæði einungis 57 ára gamall.

Heimild:

Magnús Kjartansson, Svanfríður Sigrún Franklínsdóttir, Laufey Helgadóttir, Kolbrún Björgólfsdóttir, Uggi Jónsson, Anna Yates, Halldór Björn Runólfsson & María Helga Guðmundsdóttir. (2014). Magnús Kjartansson. Listasafn Íslands og JPV Útgáfa.

Magnús Ólafsson

(1862-1937)

Fæddur í Dalasýslu.

Miðill: Ljósmyndun.

Magnús nam verslunarfræði og vann í kjölfarið sem verslunarstjóri á Akranesi í 15 ár. Árið 1901 fluttist hann til Reykjavíkur með fjölskylduna sína en hélt svo til Kaupmannahafnar til að nema ljósmyndun og útvega sér nauðsynlegan búnað. Að því loknu hélt hann heim og stofnaði ljósmyndastofu í Reykjavík.

Ferill Magnúsar stóð frá aldamótum 1900 fram undir miðja 20. Öldina. Segja má að Magnús hafi verið ljósmyndari Reykjavíkur enda veita myndir hans einstaka sýn á borgarsamfélag í örum vexti, tækniframfarir og þjóðfélagsbreytingar.

Magnús tók þó ekki bara myndir í Reykjavík heldur ferðaðist hann um landið. Hann var fyrstur hér á landi til að fjöldaframleiða svokallaðar stereóskópmyndir sem voru þrívíddarmyndir til að skoða í sérstökum kíki. Þær myndir hans urðu gríðarlega vinsælar hér á landi en einnig erlendis og sýndu íslenska náttúru og mikilfenglegt landslag sem var flestum framandi á tímum þar sem fæstir áttu kost á skemmtiferðalögum.

Magnús var einnig fyrstur Íslendinga til að lita stækkaðar ljósmyndir en til þess notaði hann vatnsliti. Magnús var líka frumkvöðull í kvikmyndasýningum hér á landi og tók sjálfur kvikmyndir.

Ljósmyndir Magnúsar af borginni, landinu, atvinnuvegum og þjóðlífi eru varðveittar á Ljósmyndasafni Reykjavíkur og má skoða á myndavef safnsins. Magnús tók líka myndir af fólki á ljósmyndastofu sinni en stærstur hluti þess safns hefur glatast.

Heimildir:

Inga Lára Baldvinsdóttir, Maclean, H. S., Ívar Brynjólfsson, & Anna Yates. (2001). Ljósmyndarar á Íslandi 1845-1945: Photographers of Iceland 1845-1945. JPV.

https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1465251/?dags=2013-05-10&item_num=82&t=120890482&_t=1690904697.0000393

https://borgarsogusafn.is/ljosmyndasafn-reykjavikur/syningar/magnus-olafsson-ljosmyndari

Magnús Pálsson

(1929)

Fæddur á Eskifirði.

Miðlar: Skúlptúrar, samklipp, gjörningar, myndbandsverk og hugmyndalist.

Eftir menntaskóla hélt Magnús Pálsson til Birmingham á Englandi þar sem hann lærði leikmynda- og búningagerð. Hann hafði kynnst leikhúsuppsetningum í Menntaskólanum í Reykjavík og fengið áhuga á að starfa í leikhúsi. Heim kominn fékk hann vinnu hjá Leikfélagi Reykjavíkur og starfaði við leikmynda- og búningagerð. Svo lá leið hans í Myndlista- og handíðaskólann þar sem hann tók myndlistarkennarapróf en hélt svo til Vínarborgar árið 1957 í frekara myndlistarnám.

Magnús telst til frumkvöla í íslenskri nýlist, ekki aðeins vegna eigin sköpunar heldur veitti hann nýlistardeild Myndlista- og handíðaskólans forstöðu frá stofnun hennar í tæpan áratug og hafði áhrif á nemendur skólans.

Mörg verka hans eru náskyld leikhúsinu og fela í sér einhvers konar sviðsetningu. Sumir gjörningar hans byggja á þátttöku fólks eða leikara, samspili þeirra og spuna. Sum verka hans minna einnig á leikmynd, svo sem verkið Í minningu Njálsbrennu (1977) þar sem hann raðaði upp í þríhyrning tíu renndum viðarstólpum, hverjum og einum með ritvél ofan á og arfa ofan á hverri og einni þeirra. Fyrir framan þær var svo stólpi með bílnúmeraplötunni L 1010 en bókstafurinn L einkenndi bíla úr Rangárvallasýslu á þeim tíma sem verkið var unnið. Númerið 1010 vísar til ártals Njálsbrennu og arfinn til þess að menn Flosa í Njálssögu notuð arfa til að tendra brennuna. Aftan við ritvélarnar var málverk af söguslóðum. Verkið var upphaflega sett upp á samsýningu í Norræna húsinu en síðar setti Magnús verkið upp á söguslóðum Njálu og ljósmyndaði það.

Mörg verka Magnúsar hafa verið unnin með gifsi. Sum þeirra eru afleiðingar gjörninga og innsetninga eins og verkið Barcarolle í Fís-dúr (1981) en í því tók hann gifsafsteypu af ungmennum að hlusta á tónverk. Afsteypan var eingöngu af setflöt fólksins og var verkinu eytt eftir sýninguna. Afsteypan fangaði gjörningin en var undarleg á að líta og laut ekki hefðbundnum lögmálum fagurfræðinnar. Magnús hefur reyndar sagt að hann hafni formfræðinni og að fyrir honum séu öll form jafngild. Með gifsinu frystir hann augnablik, jafnt raunveruleg sem ímynduð.

Leikurinn er aldrei langt ungan í verkum Magnúsar og mörg þeirra eru bæði fyndin og ögrandi. Stundum fá fundnir hlutir nýja merkingu og vísa í menningararfinn eða samfélagið með óvæntum hætti. Magnús hefur einnig nýtt myndbönd í verkum sínum, m.a. magnaðri innsetningu Viðtöl um dauðann (2003) þar sem hann blandaði saman listum og vísindum.

Heimildir:

Ólafur Kvaran, Guðmundur Ingólfsson, Júlíana Gottskálksdóttir, Gunnar J. Árnason, Hrafnhildur Schram, Æsa Sigurjónsdóttir, Ásdís Ólafsdóttir, Hanna Guðlaug Guðmundsdóttir, Jón Proppé, Dagný Heiðdal, Halldór Björn Runólfsson, Laufey Helgadóttir, Heisler, E., Gunnar B. Kvaran, & Harpa Þórsdóttir. (2011). Íslensk listasaga: frá síðari hluta 19. aldar til upphafs 21. aldar. Listasafn Íslands. IV bindi.

http://hillbilly.is/magnus-palsson/ 

N

Nína Sæmundsson

(1892-1965)

Fædd í Fljótshlíð.

Miðlar: Höggmyndalist, teikning og málaralist.

Jónína Sæmundsdóttir, sem var alltaf kölluð Nína, fæddist í Fljótshlíð en átti eftir að vinna að list sinni víða um heim. Hún var fyrsti íslenski kvenmyndhöggvarinn og verk hennar Móðurást var fyrsta höggmyndin eftir konu sem reist var hér á landi en hún stendur í Mæðragarðinum í Reykjavík.

Nína lærði í Listaháskólanum í Kaupmannahöfn en lauk ekki námi því hún veiktist af berklum. Eftir að hún náði sér af veikindunum hélt hún til Parísar þar sem hún vann og sýndi verkið Móðurást. Síðar hélt hún til Bandaríkjanna þar sem hún bjó í þrjá áratugi. Þegar hún bjó í New York vann hún meðal annars verkið Afrekshug sem sett var upp á Waldorf Astoria hótelinu sem þá var það stærsta í heimi. Afsteypa af verkinu hefur nú verið sett upp á Hvolsvelli. Síðan fluttist Nína til Hollywood og bjó þar með sambýliskonu sinni Peggy.

Verk Nínu einkenndust af klassískum módernisma framan af en stíll hennar var þó persónulegur og sameinar hið stórbrotna og innilega. Mörg verka hennar sýna manneskjuna sem viðkvæma veru. Í Bandaríkjunum vann hún einnig margar brjóstmyndir en þar kynntist hún líka myndlist frumþjóða eyja Kyrrahafsins sem hafði áhrif á verk hennar. Í kjölfar þess fór hún að vinna í tré og stein. Þau verk hennar urðu jafnframt einfaldari og óhlutbundnari.

Nína bjó stærstan hluta ævi sinnar í útlöndum og sýndi verk sín ekki á Íslandi fyrr en árið 1947. Það eru þó útilistaverk hennar á Íslandi sem munu halda nafni hennar á lofti um ókomna tíð.

Heimild:

Hrafnhildur Schram. (2015). Nína S.: Nína Sæmundsson 1892-1965: fyrsti íslenski kvenmyndhöggvarinn. Crymogea.

Nína Sæmundsson

(1892-1965)

Fædd í Fljótshlíð.

Miðlar: Höggmyndalist, teikning og málaralist.

Jónína Sæmundsdóttir, sem var alltaf kölluð Nína, fæddist í Fljótshlíð en átti eftir að vinna að list sinni víða um heim. Hún var fyrsti íslenski kvenmyndhöggvarinn og verk hennar Móðurást var fyrsta höggmyndin eftir konu sem reist var hér á landi en hún stendur í Mæðragarðinum í Reykjavík.

Nína lærði í Listaháskólanum í Kaupmannahöfn en lauk ekki námi því hún veiktist af berklum. Eftir að hún náði sér af veikindunum hélt hún til Parísar þar sem hún vann og sýndi verkið Móðurást. Síðar hélt hún til Bandaríkjanna þar sem hún bjó í þrjá áratugi. Þegar hún bjó í New York vann hún meðal annars verkið Afrekshug sem sett var upp á Waldorf Astoria hótelinu sem þá var það stærsta í heimi. Afsteypa af verkinu hefur nú verið sett upp á Hvolsvelli. Síðan fluttist Nína til Hollywood og bjó þar með sambýliskonu sinni Peggy.

Verk Nínu einkenndust af klassískum módernisma framan af en stíll hennar var þó persónulegur og sameinar hið stórbrotna og innilega. Mörg verka hennar sýna manneskjuna sem viðkvæma veru. Í Bandaríkjunum vann hún einnig margar brjóstmyndir en þar kynntist hún líka myndlist frumþjóða eyja Kyrrahafsins sem hafði áhrif á verk hennar. Í kjölfar þess fór hún að vinna í tré og stein. Þau verk hennar urðu jafnframt einfaldari og óhlutbundnari.

Nína bjó stærstan hluta ævi sinnar í útlöndum og sýndi verk sín ekki á Íslandi fyrr en árið 1947. Það eru þó útilistaverk hennar á Íslandi sem munu halda nafni hennar á lofti um ókomna tíð.

Heimild:

Hrafnhildur Schram. (2015). Nína S.: Nína Sæmundsson 1892-1965: fyrsti íslenski kvenmyndhöggvarinn. Crymogea.

Ó

Ólafur Elíasson

(1967)

Fæddur í Kaupmannahöfn.

Miðlar: Höggmyndalist, innsetningar, ljósmyndun, málaralist, hönnun og arkitektúr.

Myndlistarmaðurinn Ólafur Elíasson hefur notið mikillar hylli á alþjóðlegum vettvangi. Hann hefur haldið sýningar ýmist einn eða í félagi við aðra víða um heim og unnið stór verk í almannarými. Foreldrar hans eru íslenskir og Ólafur ólst upp bæði á Íslandi og í Danmörku en hann hefur sagt að hann líti á sig sem alþjóðlegan listamann. Árið 1995 stofnaði hann Studio Olafur Eliasson í Berlín. Þar starfar nú fjöldi sérfræðinga á ýmsum sviðum sem taka þátt í listsköpun Ólafs með einum eða öðrum hætti, svo sem handverksmenn, arkitektar, rannsakendur, rekstrarfólk, matreiðslumenn, forritarar, listfræðingar og tæknimenntað fólk. Auk þess starfar hann með hönnunarteymum og arkitektum að stærri verkefnum.

Verk Ólafs eru ákaflega fjölbreytt en fela flest í sér sterk höfundareinkenni og sýn. Snemma á ferli sínum vann Ólafur verk út frá ljósmyndum þar sem hann ýmist ljósmyndaði sjálfur eða notaði ljósmyndir annarra og raðaði upp svo ljósmyndirnar mynda nýtt heildrænt samhengi. Ljósmyndaverk hans af fyrirbærum úr íslenskri náttúru og menningu kallar hann Iceland series og eru sumar slíkar enn í vinnslu. Má nefna The Glacier series eða Jöklamyndröðina. Árið 1999 tók hann myndir af jöklum á Íslandi og raðaði upp í myndröð sem þekja heilan vegg. Tuttugu árum síðar, árið 2019, fór Ólafur aftur á staðina sem hann hafði áður myndað og tók nýjar myndir á nákvæmlega sömu stöðum svo greinilegt er hve mikið jöklarnir hafa hörfað á tuttugu árum. Þannig hefur hann bætt nýrri vídd við fyrra verk sitt og ekki útilokað að árið 2039 heimsæki hann sömu staði aftur og bæti við verkið.

Eitt af þeim verkum sem fyrst vakti athygli á Ólafi á alþjóðavísu var innsetningin The Weather Project í túrbínusal listasafnsins Tate Modern í London. Þar notaði Ólafur búnað á borð við ljós, rakatæki til að framleiða „þoku“ og spegla til að líkja eftir sólarupprás eða sólsetri. Verkið var sýnt í hálft ár og um tvær milljónir gesta sáu það. Viðbrögð áhorfenda voru sterk og margir þeirra lögðust niður eða dvöldu í rýminu í langan tíma. Síðan þá hefur Ólafur unnið fjölmörg verk sem fela í sér manngerfingu á náttúrulegum fyrirbærum. Má þar nefna fossa sem settir voru upp í New York borg en verk af svipuðum toga hefur Ólafur sett upp víðar, svo sem í tengslum við sýningu í London og Versölum. Þá lagði Ólafur í verkinu „Riverbed“ læk í gegnum sýningarsali Louisiana safnsins í Danmörku og þakti gólfin með jarðvegi. Manngerða þoku má einnig finna í mörgum verka Ólafs og í sumum slíkum verkum hefur hann áhrif á skynjun áhorfandans svo hann missir áttaskyn eins og „Din Blinde Passager“ sem eru 90 m löng göng, full af manngerðu þokulofti og lituðu ljósi sem áhorfendur þurfa að fikra sig í gegnum en þeir sjá einungis um einn og hálfan metra frá sér og þurfa því að treysta á önnur skilningavit til að koma sér í gegnum göngin. Ljós, speglar og stærðfræðileg form eru meðal meginstefa í mörgum verka Ólafs.

Einnig fela mörg verka hans í sér þátttöku áhorfandans sem þarf að feta sig í gegnum rými, horfa í gegnum kviksjá, ganga í gegnum verk eða jafnvel byggja eitthvað úr hvítum legókubbum.

Ólafur hefur unnið með fjölda hönnuða og arkítekta og hefur sett mark sitt á mannvirki og byggingar víða um heim. Hér á Íslandi hannaði Ólafur glerhjúpinn á tónlistarhúsið Hörpu í Reykjavík. Einn af fyrstu samstarfsmönnum Ólafs var arkitektinn Einar Þorsteins (Einar Þorsteinn Ásgeirsson, 1942–2015) en hann vann mikið með stærðfræðileg form eins og sést í mörgum verkanna. Glerhjúpinn á Hörpu byggir Ólafur einmitt á tilraunum Einars með fimmfalda symmetríu eða form sem hann kallaði gullinfang og byggir á gullinsniði.

Heimildir:

https://olafureliasson.net/

https://glaciermelt.is

Downs-Rose, Dagný Heiðdal, Halldór Björn Runólfsson, Steinar Örn Erluson, Svanfríður Sigrún Franklínsdóttir, Kristín Dagmar Jóhannesdóttir, Ragna Sigurðardóttir, Rakel Pétursdóttir, & Anna Yates. (2019). 130 verk úr safneign Listasafns Íslands: 130 works from the collection of the National Gallery of Iceland. Listasafn Íslands.

Ólöf Nordal

(1961)

Fædd í Kaupmannahöfn, Danmörku.

Miðlar: Verk í almannarými, skúlptúrar, ljósmyndun og innsetningar, auk þverfaglegrar vinnu með arkitektum, tónskáldum og leikhúsfólki.

Ólöf Nordal lærði við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1981-85, við Gerrit Rietvelt Academie í Hollandi 1985, við Cranbrook Academy of Art 1989-91 í Bandaríkjunum og við höggmyndadeild Yale háskóla í Bandaríkjunum 1991-93. Hún hefur sýnt víða hér á landi og erlendis. Samhliða listsköpun starfar hún sem prófessor við myndlistardeild Listaháskóla Íslands.

Í verkum sínum vinnur Ólöf með þjóðlega- og menningarlega arfleifð, oft á óvæntan og jafnvel kaldhæðinn hátt. Hún vísar gjarnan til þjóðsagna og hefur sagt að hún hefjist „varla handa við verk nema blaða fyrst í þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar.“1 Skipti þá engu þótt hún sé ekki að nota þann arf í verkinu.

Náttúran er Ólöfu hugleikin og ekki síður tengsl mannsins við hana og fjölbreytileika hennar. Má þar nefna verk eins og ljósmyndaverkin Íslenskt dýrasafn þar sem hún ljósmyndar meðal annars hami ýmissa íslenskra fugla sem allir eiga það sammerkt að hafa skriðið úr eggi sem albínóar og vera litlausir eða hvítir og skeytir saman við myndir af himni og skýjum eins og fuglarnir svífi um með vængina meðfram síðum. Í sömu seríu eru ljósmyndir af síðasta geirfuglinum uppstoppuðum og eftirgerð af geirfugli, meintu skoffíni og tvíhöfða lömbum. Margbreytileiki náttúrunnar og stundum ófullkomleiki verður að listaverkum sem spyrja okkur spurninga um gildi okkar, vísindalega nálgun og stundum græðgi.

Ólöf hefur einnig stundað listrannsóknir þar sem hún dregur fram söguleg gögn sem beinast ekki síst að sjálfsmynd þjóðar á eftir-nýlendutímum. Má þar nefna verk hennar sem tengjast mannfræðirannsóknum fyrri alda. Hún skoðar jöfnum höndum þjóðsagnaminni og það sem einu sinni taldist vísindalegar rannsóknir sem stundum renna saman í verkum hennar. Í verkum sínum nýtir hún þekkingu á íslenskri menningu til að fjalla um mikilvægt viðfangsefni samtímans.

Verk Ólafar eru fjölbreytt og nokkur þeirra eru áberandi í almannarými, jafnt utan dyra sem innan. Má þar nefna Þúfuna sem stendur úti á Granda og sést víða að.

Heimildir:

Ólöf Nordal, Ólöf Kristín Sigurðardóttir, Ármann Agnarsson, Anna Yates, Ingunn Snædal, Friðrik Rafnsson, Vigfús Birgisson, Spessi, Grímur Bjarnason, Árni Árnason, Gunnar Karlsson, Welch, C., Ragnar Helgi Ólafsson, Æsa Sigurjónsdóttir, & Semin, D. (2019). Úngl. Listasafn Reykjavíkur.

1 Úngl, bls. 31

https://www.lhi.is/person/olof-nordal

https://listasafnreykjavikur.is/syningar/olof-nordal-ungl

P

Pablo Picasso

(1881-1973)

Fæddur í Malaga á Spáni.

Miðlar: Málaralist, keramík, höggmyndir og leikmyndir.

Pablo Picasso var einn áhrifamesti myndlistarmaður 20. aldarinnar og frumkvöðull á ýmsum sviðum myndlistar. Hann, ásamt Georges Braque, voru upphafsmenn kúbismans og höfðu með því gríðarlega áhrif á þróun myndlistar.

Faðir Picassos var málari og listkennari og hóf að segja syni sínum til þegar hann var ungur að árum. Þegar Picasso var 13 ára kenndi faðir hans við listaháskóla í Barcelóna og sannfærði stjórnendur um að leyfa drengnum að þreyta inntökupróf sem hann stóðst. Þegar hann var 16 ára var hann svo sendur í einn virtasta listaskóla Spánar í Madríd. Picasso leiddist formlegt nám og hætti að mæta í tíma stuttu síðar og fannst hann læra meira af því að skoða verk eldri meistara á söfnum borgarinnar.

Pablo Picasso er þekkastur fyrri kraftmikil og hrá verk sín, einkum málverk, en þær myndir sem hann vann sem unglingur og ungur maður eru í klassískum stíl og bera vott um gríðarlega tæknilega færni. Hann bjó lengi og starfaði í París í Frakklandi.

Picasso sótti sér innblástur í verk afrískra listamanna og hefðbundna afríska grímugerð eins og sjá má á verkinu Les Demoiselles d’Avignon (Stúlkurnar frá Avignon) frá 1907. Picasso vann einnig fjölmargar höggmyndir á ferli sínum og leirmuni. Hann var gríðarlega afkastamikill og eftir hann liggja yfir 20.000 verk.

Heimild: https://www.pablopicasso.org

Peter Henry Emerson

(1856-1936)

Fæddur á Kúbu.

Miðlar: Ljósmyndun og ritstörf.

Peter Henry Emerson fæddist og ólst upp á plantekru foreldra sinna á Kúbu en faðir hans var bandarískur og móðir hans bresk. Ungur að árum missti hann föður sinn og fluttist til Bretlands og lærði læknisfræði, gifti sig og hóf ritstörf.

Emerson var sterkefnaður og árið 1881 eða 1882 keypti hann sér myndavél sem hann hugðist nýta til fuglaskoðunar. Hann varð fljótlega mjög virkur í heimi ljósmyndunar og fljótlega hætti hann læknisstörfum til að einbeita sér að ljósmyndun og ritstörfum. Hans er helst minnst fyrir skrif sín frá 1886 um að ljósmyndun eigi að flokkast sem listgrein en ekki iðnaður.

Heimildir: https://www.moma.org/artists/1724

R

Ragnar Axelsson (RAX)

(1958)

Fæddur í Kópavogi.

Miðill: Ljósmyndun.

Ragnar Axelsson eða RAX hefur starfað sem ljósmyndari frá því hann var 18 ára gamall en hann var ljósmyndari Morgunblaðsins frá 1976 til 2020. Sem fréttaljósmyndari og síðar heimildaljósmyndari hefur hann þróað sterkt og áhrifamikið myndmál. Ragnar hefur einnig starfað sem heimildaljósmyndari á eigin vegum og ferðast víða um heiminn til að skrásetja líf og kjör fólks með myndum sínum. Myndir hans hafa verið sýndar víða um heim og hafa birst í fjölmiðlum á borð við LIFE, Newsweek, Stern, GEO, National Geographic, Time og Polka. Hann hefur einnig gefið út nokkrar bækur með verkum sínum og fengið fjölda verðlauna fyrir framlag sitt til ljósmyndunar.

Ragnar hefur í áratugi fylgst með lífi fólks í afskekktum byggðum á norðurslóðum og skrásett skipulega með myndum sínum en hann kom fyrst til Grænlands um miðjan 9. áratuginn. Myndir hans hafa gríðarlegt heimildargildi enda eru hefðbundnir lifnaðarhættir fólks á þessum slóðum að breytast hratt og aldagömul menning samfélaga veiðimanna að líða undir lok. Með loftslagsbreygingum á lífríkið allt undir högg að sækja en breytingarnar er sjáanlegar í myndaröðum Ragnars.

Í verkum sínum skrásetur Ragnar ekki aðeins hverfandi menningarheima og náttúru því hann heldur á lofti listrænni sýn á viðfangsefni sín, fegurðinni í hrikalegri náttúrunni og fólkinu sem glímir við hana.

Heimildir:

Ragnar Axelsson, Nuttall, M., & Haraldur Ólafsson. (2010). Veiðimenn norðursins. Crymogea.

https://rax.is

Ragnar Kjartansson

(1923-1989)

Fæddur á Staðastað á Snæfellsnesi.

Miðlar: Leirlist og höggmyndalist.

Ragnar Kjartansson steig sín fyrstu spor á listabrautinni sem lærlingur í leirkerasmíði í Listvinahúsinu hjá Guðmundi Einarssyni frá Miðdal og Lydiu Zeitner, þá 16 ára gamall. Þar voru búnir til bæði nytjahlutir, sumir í stóru upplagi, sem og einstakir listmunir. Þar starfaði hann að námi loknu og beið þess að seinni heimsstyrjöldinni lyki. Loks komst hann til Svíþjóðar til að fullnema sig í leirkeragerð. Þegar hann kom heim aftur stofnaði hann Leirmunaverkstæðið Funa með öðrum og þar hóf hann framleiðslu á listmunum og nytjahlutum úr íslenskum leir.

Á fimmta áratug 20. aldar voru ströng gjaldeyrishöft á Íslandi og innflutningur lítill. Það var meðal annars vegna þess sem íslenskir leirkerasmiðir og leirlistamenn þróuðu leiðir til að nota íslenskan leir en ekki innfluttan eins og flestir gera nú en einnig vegna þess að þeir vildu vera sjálfbærir. Önnur afleiðing haftanna var að lítið úrval var af innfluttum skrautmunum og hlutum. Því var mikil eftirspurn eftir íslenskum leirmunum á þeim tíma, ekki bara vegna þess að þeir voru fallegir og vel gerðir heldur líka vegna þess að fátt annað fékkst í búðum. Á þeim tíma voru rekin sex leirverkstæði á Íslandi, sum hver fjölmennir vinnustaðir.

Um 1952 losnaði um höftin og erlendir skrautmunir og borðbúnaður urðu algeng vara í verslunum og eftirspurnin eftir íslensku leirmununum minnkaði. Mörg leirverkstæðin lögðu upp laupanna. Ragnar hélt þá til Svíþjóðar og vann þar í keramikverksmiðju og stundaði nám í höggmyndalist í kvöldskóla. Þegar hann kom aftur heim til Íslands og hélt áfram að vinna við leirlist lagði hann áherslu á listmuni frekar en nytjahluti, fyrst hjá Funa en 1957 stofnaði hann Leirmunaverkstæðið Glit. Hann lagði mikið upp úr samstarfi við aðra listamenn við hönnun og gerð gripanna. Hann heillaðist af abstrakt list og mörg verka hans bera þess vitni. Hann gerði ýmsar tilraunir með íslenska leirinn og blandaði meðal annars hrauni í hann sem gaf sérstæða áferð sem nefnd hefur verið hraunkeramík.

Ragnar starfaði einnig sem myndhöggvari og víða um land eru útilistaverk eftir hann. Hann var einnig mikilvirkur myndmenntakennari í Myndlistarskólanum í Reykjavík og stýrði skólanum um tíma.

Heimilid:

Inga Ragnarsdóttir, & Kristín G. Guðnadóttir. (2021). Deiglumór: keramik úr íslenskum leir 1930-1970. Minningarsjóður um Ragnar Kjartansson.

Ragnar Kjartansson

(1976)

Fæddur í Reykjavík.

Miðlar: Gjörningalist, innsetningar, tónlist, myndbandsverk og málaralist.

Ef það er eitthvað eitt sem einkennir fjölbreytta list Ragnars Kjartanssonar þá eru það endurtekningarnar sem eru eins og rauður þráður í svo mörgum verka hans. Ragnar ólst upp í leikhúsinu því báðir foreldrar hans voru leikarar og leikstjórar. Hann segist vera hugfanginn af leikæfingum sem byggja oft á samhengislausum endurtekningum og leiksviðum án leikara þar sem leikmunir, tæki og tól fá að njóta sín.1

Ragnar byrjaði feril sinn sem tónlistarmaður á unglingsaldri og var í ýmsum hljómsveitum, sú þekktasta er hljómsveitin Trabant. Hann lærði myndlist í listaháskólum í Stokkhólmi og Reykjavík. Hann hefur sýnt verk sín í virtum listasöfnum um heim allan og er sennilega sá íslenski myndlistarmaður sem hefur náð hvað lengst á heimsvísu.

Leikhús og óperur eru oft efniviður í innsetningum og myndbandsverkum Ragnars en einnig bókmenntir, dægurmenning eins og sjónvarpsþættir og kvikmyndir. Oft eru gjörningar hans langir og reyna mikið á hann og samstarfsfólk hans, svo sem söngvara og leikara. Gjörningurinn Sæla (e. Bliss) sem fluttur var í New York árið 2011 tók tólf klukkutíma í flutningi og þurfti aðalsöngvarinn, óperusöngvarinn Kristján Jóhannsson, að syngja lokaaríuna úr óperunni Brúðkaup Fígarós stöðugt allan tímann. Aðrir gjörningar hafa tekið vikur eða mánuði, svo sem Endir (e. The End) í Feneyjum þar sem Ragnar málaði myndir af vini sínum á sundskýlu á hverjum degi í sex mánuði. Alls urðu málverkin 144 og söfnuðust upp í sýningarrýminu ásamt tómum bjórflöskum og sígarettustubbum.

Sum verka Ragnars eru gríðarlega umfangsmikil og flókin í framkvæmd, svo sem gjörningurinn Santa Barbara sem fór fram í listasafni í Mosku í Rússlandi2. Í safninu var smíðað heilt kvikmyndaver og daglega í 100 daga átti rússneskur leikhópur að setja upp einn þátt af bandarísku sápuóperunni Santa Barbara. Sýningin og gjörningurinn hófst 3. desember 2021 en Ragnar stöðvaði sýninguna í febrúar árið eftir þegar Rússland hafði ráðist inn í Úkraínu.

Heimildir:

  1. Ragnar Kjartansson, Markús Þór Andrésson, Hasham, L., Sölvi Björn Sigurðsson, Helga Soffía Einarsdóttir, Mörður Árnason, Hermann Stefánsson, & Ingunn Snædal. (2017). Ragnar Kjartansson. Listasafn Reykjavíkur. Bls. 180.
  2. https://www.ruv.is/frettir/innlent/2021-12-03-pabbi-ragnars-sagdi-honum-ad-vara-sig-a-santa-barbara

Ragnhildur Jóhanns

(1977)

Fædd í Reykjavík.

Miðlar: Bókverk, samklipp, gjörningar og málaralist.

Ragnhildur Jóhanns útskrifaðist úr myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2010 en áður hafði hún stundað myndlistarnám á listnámsbraut Fjölbrautarskólans í Garðabæ og í Myndlistarskólanum í Reykjavík.

Í verkum sínum vinnur hún með tungumálið, texta, bækur og staðalímyndir kvenna á margvíslegan hátt. Hún hefur unnið bókverk á fjölbreytta máta. Hún notar gjarnan fundna hluti, einkum gamlar bækur og gefur þeim nýtt og óvænt hlutverk. Ragnhildur hefur unnið skúlptúra og innsetningar úr gömlum bókum, meðal annars með því að stilla bókum upp á óhefðbundinn hátt, taka bækur í sundur og sýna okkur þær í óvæntu ljósi og með því að klippa út og draga fram það sem í þeim stendur, oftar en ekki á ljóðrænan hátt. Hún hefur einnig unnið ljósmyndaverk af bókverkum sínum og þannig umbreytt þrívíðum verkum í tvívíð á nýjan leik og fest sjónarhorn áhorfandans. Þá hefur hún gert tvívíð samklippsverk þar sem orð og setningar mynda nýjar merkingarheildir.

Staða kvenna í samfélaginu er Ragnhildi hugleikin. Meðal verka hennar eru máluð portrett af þekktum íslenskum femínistum sem hafa verið umdeildar og áberandi í umræðunni. Þar er bókin sem samfélagsspegill þó ekki langt undan því allar eru konurnar að lesa ástarsögur – bókmenntir sem samfélagið lítur gjarna á sem lágmenningarleg kvennarit. Mörg verka Ragnhildar skoða stöðu kvenna í dægurmenningu og hvernig samfélagið reynir að móta konur að staðalímyndum feðraveldisins. Hún vinnur með hugmyndir um kvenleika, oft á ögrandi en einnig gamansaman hátt og hefur unnið samklipp, m.a. úr gömlum auglýsingum og leiðbeiningum til kvenna um hegðun, háttsemi og útlit.

Ragnhildur hefur haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í samsýningum hérlendis og erlendis.

Heimildir:

https://hugras.is/2016/07/diktur/

Sýningarskrá „Hin brennandi konusál – Hugleiðing um verk Ragnhildar Jóhanns og sýninguna Freistingin 5. mars – 3. apríl 2022“ eftir Dr. Yndu Eldborg

https://ragnhildurjohanns.com/

Rósa Sigrún Jónsdóttir

(1962)

Fædd á Fremstafelli í Ljósavatnshreppi.

Miðlar: Höggmyndalist, textíll, málaralist, vídeó og innsetningar.

Rósa Sigrún Jónsdóttir lauk kennaraprófi árið 1987 og prófi frá skúlptúrdeild Listaháskóla Íslands árið 2001. Í verkum sínum sækir hún gjarnan innblástur í íslenska náttúru með einum eða öðrum hætti.

Rósa Sigrún vakti fyrst athygli fyrir prjónaðar og heklaðar innsetningar sínar þar sem áhorfandanum var gefinn kostur á að skyggnast inn í rými yfirtekið af litríku prjóni og þráðum sem teygðu sig í allar áttir. Skúlptúrar hennar eru iðulega frumlegir og óhefðbundnir og vísa í íslenska náttúru. Rósa hefur einnig unnið innsetningar og vídeóverk í þeim anda eins og verkið Horfðu djúpt frá 2005 sem vísar til Hálslóns sem varð til við gerð Kárahnjúkavirkjunar. Landið sjálft er henni hugleikið og hún beinir athygli sinni jafnt að hinu smáa, svo sem blómum og smásteinum, sem og hinu stórbrotna, svo sem fjöllum og landslagsheildum.

Verk Rósu Sigrúnar byggja oft á hefðbundnu og seinlegu handverki sem einkum hefur verið stundað af konum í gegnum tíðina. Hún vinnur með handverkið á óvæntan máta, t.d. með því að sauma krosssaumsspor í teikningar og vatnslitaverk, hekla lækningajurtir eða prjóna svokallaða „svelgi“ sem ná yfir heil herbergi eða sýningarsali. Þannig hefur hún heklað og stífað lækningajurtir og raðað saman í stóra sem smá skúlptúra, innsetningar og lágmyndir.

Heimild: https://rosasigrun.wordpress.com

Roni Horn

(1955)

Fædd í New York í Bandaríkjunum.

Miðlar: Ljósmyndun, málaralist, höggmyndalist og innsetningar.

Roni Horn var skírð Rose eftir báðum ömmum sínum en breytti nafni sínu í Roni því hún vildi nota kynhlutlaust nafn. Þótt hún sé bandarísk tengjast mörg verka hennar Íslandi með einum eða öðrum hætti og hún býr og starfar jafnt í New York og Reykjavík. Á Íslandi er hún einna þekktust fyrir Vatnasafn sitt í Stykkishólmi en það er innsetning í gamla bókasafnshúsinu sem staðsett er efst í bænum með útsýni yfir hafið og þorpið. Innsetningin samanstendur af 24 glersúlum fylltum af vatni úr mörgum af helstu jöklum Íslands. Glersúlurnar brjóta ljós og endurvarpa því á gúmmígólf en á því eru orð, bæði á ensku og íslensku sem tengjast veðrinu. Innsetningin er nánast eins og helgur staður þar sem gestum er gert að fara úr skóm áður en inn er haldið og þar býðst áhorfendum líka að hlusta á frásagnir fólks af veðrinu. Verkið sjálft er síbreytilegt eftir birtu og veðri utandyra og staðsetningu áhorfandans.

Bókverkið To Place (1990-) er ritröð með ljósmyndum, teikningum og texta sem Roni Horn tengir Íslandi með einum eða öðrum hætti. Efni sumra bókanna hefur listamaðurinn einnig notað á annan hátt. Má þar nefna verkið You are the Weather eða Þú ert veðrið en þar birtir hún ljósmyndir af íslenskri listakonu í hinum ýmsu sundlaugum á Íslandi en myndirnar hefur hún einnig notað í samnefndri ljósmyndainnsetningu. Roni Horn er líka þekkt fyrir skúlptúra sína og ritstörf. Hún hefur unnið til fjölda verðlauna víða um heim.

Heimildir:

https://www.west.is/is/thjonustur/vatnasafn

i8.is

S

Sandro Botticelli

(um 1445-1510)

Fæddur í Flórens á Ítalíu.

Miðill: Málaralist.

Endurreisnarmálarinn Sandro Botticelli hét í raun Alessandro di Mariano di Vanni Filipepi en fékk ungur viðurnefnið Botticelli sem þýðir lítil flaska sem festist við hann. Ekkert í uppvexti hans benti til þess að hann yrði einn fremsti málari flórensku endurreisnarinnar. Pabbi hans var sútari en kom honum í læri hjá gullsmið. Sandro var enn á unglingsaldri þegar hann rambaði inn á verkstæði listamannsins Fra Filippo Lippi og komst í læri hjá honum. Síðar lærði hann einnig með ungum en færum listamönnum endurreisnarinnar sem endurgerðu mannslíkamann í verkum sínum af mikilli nákvæmni – eins og Botticelli átti síðar eftir að gera.

Hin auðuga og valdamikla Medici ætt var mikill áhrifavaldur í listferli Botticelli því fjölskyldan fékk hann til að mála fjölmargar myndir af fjölskyldufólkinu. Hann var í uppáhaldi hjá þeim sem þýddi að hann gat lifað af list sinni.

Snemma á ferli sínum vann Botticelli mörg málverk af trúarlegum toga eins og flestir listamenn þess tíma gerðu enda var stærsti kaupandi listaverk þá kaþólska kirkjan. Hann var meira að segja meðal þeirra ítölsku listamanna sem kallaðir voru til Rómar til að skreyta Sixtínsku kapelluna í Vatíkaninu.

Botticelli er þó þekktastur fyrir þau verk sín sem ekki eru af trúarlegum toga, Vorið (um 1480) og Fæðing Venusar (um 1485). Í þeim verkum sækir hann innblástur til goðafræði Grikkja og Rómverja. Það þurfti mikið hugrekki til að mála myndefni sem ekki var kirkjunni þóknanlegt á þeim tíma. Botticelli hélt þó áfram að mála trúarleg verk til æviloka en sótti gjarna efnistök til málara fyrri alda. Hann gleymdist að mestu eftir dauða sinn en þá var Medici ættin í útlegð. Hann var enduruppgötvaður á 19. öld og er nú talinn til helstu meistara endurreisnarinnar.

Heimild:

Zuffi. (2003). The Renaissance. Collins.

Sigfús Eymundsson

(1837-1911)

Fæddur á Borgum í Vopnafjarðarhreppi.

Miðill: Ljósmyndun.

Sigfús Eymundsson lærði bókbandsiðn á Vopnafirði og starfaði við þá iðn. Hann hélt í framhaldsnám í Kaupmannahöfn hjá konunglegum bókbindara 1857-59. Þaðan hélt hann til Osló eða Kristjaníu eins og borgin hét þá til að vinna við bókband en þar kynntist hann ljósmyndatækninni og vorið 1864 hóf hann nám í ljósmyndun, þótt hann ynni enn við bókbandið. Árið eftir hélt hann aftur til Kaupmannahafnar og starfrækti ljósmyndastofu þar í eitt ár. Síðan hélt hann til Íslands og var fyrstur Íslendinga til að gera ljósmyndun að ævistarfi.

Sigfús rak ljósmyndastofur í Reykjavík, fyrst í leiguhúsnæði en síðar á heimili sínu þar sem hann reisti sérstakan myndaskála við húsið sitt. Sigfús ferðaðist líka víða um landið til að taka myndir af fólki og fyrirbærum sem og viðburðum á borð við konungskomur og þjóðhátíðir. Það er meðal annars honum að þakka að við getum séð á ljósmyndum hvernig Ísland var á síðustu áratugum 19. aldar og hvernig það þróaðist.

Í lok 19. aldar var eingöngu hægt að taka ljósmyndir við góð birtuskilyrði og engin ljós voru notuð hér á landi á þeim tíma við myndatökur. Á Íslandi þýddi það að ljósmyndarar tóku gjarnan myndir utandyra þar sem birtan var betri eða inni við stóra glugga. Það þýddi lítið að stunda ljósmyndun í svartasta skammdeginu. Sigfús starfaði því við ljósmyndun á sumrin en bókband á veturna þegar birtan var ekki nægilega góð. Hann stundaði líka viðskipti og stofnaði bókaverslun sem hann rak í mörg ár.

Fjölmargir nemar lærðu ljósmyndun á ljósmyndastofu Sigfúsar og því var hann ekki aðeins frumkvöðull í ljósmyndun sjálfur heldur einnig í ljósmyndakennslu en fram að því þurftu flest að fara til útlanda til að læra að taka myndir.

Heimild:

Inga Lára Baldvinsdóttir, Maclean, H. S., Ívar Brynjólfsson, & Anna Yates. (2001). Ljósmyndarar á Íslandi 1845-1945: Photographers of Iceland 1845-1945. JPV.

Sigrún Eldjárn

(1954)

Fædd í Reykjavík.

Miðlar: Málaralist, bókverk og grafík.

Sigrún Eldjárn lauk prófi frá grafíkdeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1977. Árið eftir dvaldi hún sem gestanemandi í listaskólum í Póllandi þar sem hún lærði grafíktækni sem kallast akvatinta og fáir íslenskir listamenn höfðu tileinkað sér. Sigrún hefur starfað sem myndlistarmaður frá 1978 og sýnt grafíkverk, vatnslitamyndir og málverk hér á landi og víða um heim. Sigrún er þó ekki síður þekkt fyrir ritstörf og myndlýsingar í eigin verkum og annarra höfunda, svo sem Þórarins Eldjárns bróður hennar en hún hefur ljóðskreytt fjölda bóka hans. Hún hefur einnig myndlýst bækur Guðrúnar Helgadóttur og Magneu frá Kleifum. Sjálf hefur hún ritað og myndlýst um 50 bækur fyrir börn en myndlýsingar eru ómissandi þáttur í margverðlaunuðum bókum Sigrúnar.

Sigrún tók virkan þátt í samstöðu listakvenna á áttunda og níunda áratugnum um að skapa rými fyrir list kvenna og listgreinar sem áður voru heldur taldar til handverks og nytjalista. Hún sýndi ásamt fleiri listakonum í Galleríi Langbrók sem rekið var frá 1978-1986 og var vettvangur kvennalistar og var ein af stofnendum gallerísins. Hún var einnig virk í félagsskapnum Íslensk grafík.

Mörg verka Sigrúnar tengjast íslenskum menningararfi á óvæntan hátt. Í mörgum verka hennar, jafnt málverka sem grafíkmynda, má sjá konur með skotthúfur eða í íslenskum þjóðbúningum, gjarnan í óvæntum og fyndnum aðstæðum svo sem að borða banana, dansa eða lesa bók.

Málverk og vatnslitamyndir Sigrúnar eru oft málaðar í hreinum og sterkum litum. Grafíkverkin eru hins vegar oftar en ekki þrykkt í svörtum lit eða með örfáum litum til áhersluauka þótt meginliturinn sé svartur. Verk hennar eru fígúratíf og einkennast gjarnan af húmor og leik með tungumálið eða óvæntar vísanir í önnur verk. Bernskan er henni hugleikin. Árið 2004 sýndi hún portrett sem hún málaði af ýmsum gömlum og lúnum leikföngum. Þar fylgdi hún hefðinni sem skapast hefur í málun viðhafnarportretta í gegnum tíðina þótt viðföngin hafi verið gamlir vinir barna í fjölskyldu hennar og hennar sjálfrar. Hvert leikfang hefur sinn skýra persónuleika og með verkunum vildi hún votta þessum vinum virðingu sína.

Heimildir: arkiv.is og fleira.

Sigurður Guðmundsson

(1942)

Eftir nám í Myndlista- og handíðaskóla Íslands hélt Sigurður Guðmundsson til Hollands í framhaldsnám. Þar bjó hann og starfaði lengi en síðar hefur hann búið í Kína hluta úr ári og starfað þar, á Íslandi og Hollandi. Hann hefur sýnt verk sín um heim allan og skapað sér nafn í hinum alþjóðlega listaheimi.

Sigurður er frumkvöðull í hugmyndalist á Íslandi og var meðal virkustu félaga í SÚM-hópnum, hópi listamanna sem hóf að starfa saman um 1965 og byggðu listsköpun sína fremur á hugmyndum en fagurfræði.

Á árunum 1971-1982 vann Sigurður fjölda ljósmyndaverka sem hann kallaði Situations eða Aðstæður. Þau verk eiga mun meira sameiginlegt með gjörningum eða skúlptúrum en hefðbundnum listljósmyndum eða málaralist. Á þeim tíma skjalfestu gjörningalistamenn gjarnan verkin sín með ljósmyndum og myndir Sigurðar frá þessum tíma minna nokkuð á slíka skjalfestingu en engir áhorfendur eru sjáanlegir og hann sjálfur gjarnan hluti verkanna sem fást gjarna við tilvistalegar spurningar á óvæntan og fyndinn hátt. Síðar vann Sigurður fleiri ljósmyndaverk sem unnin voru með öðrum fyrirsætum en honum sjálfum.

Verk Sigurðar eru fjölbreytt og hann hefur jöfnum höndum fengist við gjörninga, ljósmyndaverk, höggmyndir, teikningar, grafík og ritstörf en hann hefur sent frá sér skáldsögur og ljóð.

Heimildir:

Sigurður Guðmundsson, Hafþór Yngvason, Magnea J. Matthíasdóttir, & Brownsberger, S. M. (2008). Mutes: Mállausir kjarnar. Forlagið.

Sigurður Guðmundsson, Kluyfhout, S., Unterdörfer, M., Guðbergur Bergsson, & Magnús Diðrik Baldursson. (2000). Situations. Mál og menning.

Downs-Rose, Dagný Heiðdal, Halldór Björn Runólfsson, Steinar Örn Erluson, Svanfríður Sigrún Franklínsdóttir, Kristín Dagmar Jóhannesdóttir, Ragna Sigurðardóttir, Rakel Pétursdóttir, & Anna Yates. (2019). 130 verk úr safneign Listasafns Íslands: 130 works from the collection of the National Gallery of Iceland. Listasafn Íslands.

Anna Cynthia Leplar, & Margrét Tryggvadóttir. (2006). Skoðum myndlist : heimsókn í Listasafn Reykjavíkur. Mál og menning.

Sigurjón Jóhannsson

(1939-2023)

Fæddur á Siglufirði.

Miðlar: málaralist, samklipp og leikmyndahönnun.

Eftir að hafa lokið stúdentsprófi hélt Sigurjón Jóhannsson í myndlistarnám, fyrst við Handíða- og myndlistaskólann en hélt svo til námsdvalar í Bretlandi og hann lærði einnig á Ítalíu bæði myndlist og arkítektúr. Síðar hélt hann til Kaupmannahafnar þar sem hann lærði leikmynda- og búningahönnun

Áhrif Sigurjóns á íslenskt listalíf eru margvísleg. Hann var einn af fjórum stofnendum SÚM-hópsins sem hafði mikil áhrif á íslenska myndlist frá fyrstu sýningu hópsins árið 1965 og átti hópurinn eftir að vera einn aðalboðberi framúrstefnu í listum hér á landi næstu árin. Á þeim tíma vann Sigurjón verk í anda popplistarinnar, málaði en notaði einnig prentað efni í samklippsmyndir. Hann nýtti gjarnan úrklippur út erlendum tímaritum, sérstaklega auglýsingum og vakti þannig áhorfandann til umhugsunar um neyslusamfélagið. Í öðrum verka hans má sjá ádeilu á hernaðarbrölt og styrjaldir.

Stóran hluta af starfsævi sinni varði Sigurjón í leikhúsum sem einn helsti leikmyndahönnuður þjóðarinnar á síðustu áratugum 20. aldarinnar. Hann vann yfir 100 leikmyndir fyrir hinar ýmsu leiksýningar í helstu leikhúsum landsins en vann einnig leikmyndir fyrir fjölmargar kvikmyndir og vann að sýningarhönnun.

Undir lok 20. aldarinnar sótti Sigurjón sér efnivið fyrir vatnslitamyndir á æskuslóðir sínar á Siglufirði en á þeim tíma sem hann var að vaxa úr grasi snérist allt þar um síldveiðar og vinnslu. Myndir Sigurjóns frá því tímabili eru í senn fjörleg og leikræn uppsetning á síldarævintýrinu og mikilvæg skráning á horfnum atvinnuháttum.

Heimildir:

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2023/02/11/andlat_sigurjon_johannsson/

Ólafur Kvaran, Guðmundur Ingólfsson, Júlíana Gottskálksdóttir, Gunnar J. Árnason, Hrafnhildur Schram, Æsa Sigurjónsdóttir, Ásdís Ólafsdóttir, Hanna Guðlaug Guðmundsdóttir, Jón Proppé, Dagný Heiðdal, Halldór Björn Runólfsson, Laufey Helgadóttir, Heisler, E., Gunnar B. Kvaran, & Harpa Þórsdóttir. (2011). Íslensk listasaga: frá síðari hluta 19. aldar til upphafs 21. aldar. Listasafn Íslands. IV bindi.

Sigurjón Ólafsson

(1908-1982)

Fæddur á Eyrarbakka.

Miðill: Höggmyndalist.

Sigurjón Ólafsson var heppinn því hann ólst upp á Eyrarbakka þar sem var blómlegra menningarlíf en í öðrum bæjum landsins á þeim tíma. Þar starfaði einnig elsti barnaskóli landsins og það sem meira var þar var kennd teikning en á þeim tíma var yfirleitt engin myndmenntakennsla í skólum landsins. Óvíst er að Sigurjón hefði lagt myndlistina fyrir sig ef hann hefði ekki lært að teikna svo ungur að árum.

Sigurjón fór þó ekki strax í myndlistarnám. Hann byrjaði á að læra húsamálun en hélt svo til Danmerkur til að læra höggmyndalist og þar bjó hann í 17 ár. Sigurjón var mikils metinn í Danmörku, bæði af kennurum sínum í náminu en einnig af samfélaginu. Hann var fenginn til að vinna stórar höggmyndir sem enn setja svip sinn á bæi og torg í Danmörku.

Þótt Sigurjóni gengi vel í Danmörku hafði hann heimþrá og eftir að hafa verið innlyksta í Danaveldi í seinni heimsstyrjöldinni hélt hann aftur til Íslands. Á þeim tíma var hann ekki þekktur hér á landi því hann hafði ekki sýnt hér og flest verka hans voru í Danmörku enda svo stór og þung að erfitt var að flytja þau á milli landa. Verk Sigurjóns eru bæði í hefðbundnum, klassískum stíl en einnig framúrstefnuleg og hann er einn af frumkvöðlum þrívíðrar abstraktlistar á Norðurlöndunum. Hann notaði ýmsar aðferðir; mótaði verk, hjó þau úr fjölbreyttum efnivið eða sauð þau saman.

Sigurjón átti við vanheilsu að stríða og var lungnaveikur. Eftir að hann flutti til Íslands fór hann að höggva verk sín í íslenskt grjót á borð við grástein. Hann þoldi illa steinrykið sem fylgdi höggmyndagerðinni og varð að hætta því. Þá tók hann til við að vinna verk úr tré, málmum, leir og að lokum frauðplasti sem hann skar til en plastið var notað til að steypa lágmyndir á fjölda bygginga í Reykjavík og víðar um land.

Sigurjón ólst upp við sjóinn á Eyrarbakka og þegar hann flutti aftur til Íslands kom hann sér upp vinnustofu við sjóinn í Laugarnesi í Reykjavík þar sem hann réri reglulega til fiskjar. Þar er nú Listasafn Sigurjóns Ólafssonar og verk hans sýnd bæði inni og úti.

Heimildir:

Ólafur Kvaran, Guðmundur Ingólfsson, Júlíana Gottskálksdóttir, Gunnar J. Árnason, Hrafnhildur Schram, Æsa Sigurjónsdóttir, Ásdís Ólafsdóttir, Hanna Guðlaug Guðmundsdóttir, Jón Proppé, Dagný Heiðdal, Halldór Björn Runólfsson, Laufey Helgadóttir, Heisler, E., Gunnar B. Kvaran, & Harpa Þórsdóttir. (2011). Íslensk listasaga: frá síðari hluta 19. aldar til upphafs 21. aldar. Listasafn Íslands.

Aðalsteinn Ingólfsson, Funder, L., & Birgitta Spur. (1998-9). Sigurjón Ólafsson: ævi og list I og II. Listasafn Sigurjóns Ólafssonar.

Steina (Steinunn Briem Bjarnadóttir-Vasulka)

(1940)

Fædd í Reykjavík.

Miðill: Myndbandslist.

Steina hóf listferil sinn sem fiðluleikari en hún hélt ung til náms í Prag til að fullnema sig í fiðluleik og tónfræði. Þar kynntist hún sínum helsta samstarfsmanni, verkfræðingnum og kvikmyndagerðarmanninum Woody Vasulka. Þau giftu sig og fluttu til Íslands þar sem Steina starfaði sem fiðluleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Ári síðar fluttu þau til New York í Bandaríkjunum og settust þar að. Þar kynntust þau ýmsu framsæknu listafólki sem var að vinna við nýja miðla. Á þeim tíma komu fram smærri kvikmyndatökuvélar en áður höfðu þekkst, vélar sem jafnvel var hægt að halda á. Árið 1969 hófu Steina og Woody að vinna með þessa nýju tækni.

Steina og Woody voru frumkvöðlar í myndbandalist og talin til merkilegustu tilraunalistamanna á heimsvísu. Þau unnu saman að rannsóknum á miðlinum og rafrænum boðum. Stundum voru upptökutækin sjálf og virkni þeirra hluti af listaverkinu. Þau smíðuðu jafnvel einskonar vélmenni og annars konar tæki sem hafa haft mikil áhrif í myndbandalist allar götur síðan. Síðar nýttu Steina og Woody stafræna tækni í listsköpun sinni.

Steina og Woody stofnuðu og ráku um tíma The Kitchen sem var fyrsti vettvangur vídeólistafólks í heiminum og bæði samkomu- og sýningarstaður. Árið 1973 stóðu þau fyrir fyrsta námi í nýmiðlalistum í Bandaríkjunum í háskólanum í Buffaló, New York.

Bakgrunnur Steinu í tónlist er áberandi í mörgum verka hennar og samspil mynda og hljóðheims oft áhrifamikið. Þótt Steina hafi búið í útlöndum frá því hún var ung kona þá er Ísland, í fjölbreyttum birtingarmyndum, fyrirferðarmikið í mörgum verka hennar. Hún var árið 1997 fyrsta konan til að vera fulltrúi Íslands á Feneyjartvíæringnum og hafa verk hennar verið sýnd á söfnum og á kvikmyndahátíðum um heim allan.

Heimildir:

Listasafn.is

Vasulka.org

Steinunn Marteinsdóttir

(1936)

Fædd í Reykjavík.

Miðlar: Leirlist og málaralist.

Eft­ir stúd­ents­próf var Steinunn Marteinsdóttir einn vet­ur í Mynd­lista- og hand­íða­skól­an­um en hélt síð­an til Berlín­ar og var þar við nám 1957-1960 við Hochschule für Bild­ende Kün­ste. Þegar hún kom úr námi vann hún hjá Leirmunaverkstæðinu Glit við að renna og skreyta listmuni og sýndi listmuni meðal annars í Bandaríkjunum og Þýskalandi ásamt Ragnari Kjartanssyni.

Steinunn stofnaði sitt eigið leirverkstæði árið 1962 og var einna fyrst í að stofna einmenningsverkstæði í leirlist. Hún bauð einnig fyrst upp á námskeið í leirmótun fyrir almenning.

Árið 1969 keypti Steinnunn, ásamt manni sínum listmálaranum Sverr­i Har­alds­syni (1930-1985), Huldu­hóla í Mos­fellsveit. Þau endurbyggðu hlöðu og fjós og komu þar upp vinnustofum. Þar hef­ur Stein­unn unn­ið leir­verk og mál­verk, rek­ið kera­mik­skóla og hald­ið fjölda sýn­inga, bæði einka­sýn­ing­ar og sam­sýn­ing­ar með öðr­um lista­mönn­um.

Leirverk Steinunnar eru fjölbreytt að gerð. Eftir hana liggja nytjahlutir á borð við skálar, kertastjaka og vasa en einnig lágmyndir, sumar gríðarstórar. Þá hefur hún einnig málað töluvert, einkum vatnslitaverk. Náttúran og upplifun af henni hefur verið henni innblástur í gegnum tíðina, bæði er kemur að áferð og myndefni.

Heimildir:

https://mos.is/mannlif/menning/baejarlistamadur/steinunn-marteinsdottir

Inga Ragnarsdóttir, & Kristín G. Guðnadóttir. (2021). Deiglumór: keramik úr íslenskum leir 1930-1970. Minningarsjóður um Ragnar Kjartansson.

Sæmundur Magnússon Hólm

(1749-1821)

Fæddur í Meðallandi í Vestur-Skaftafellssýslu

Miðill: Einkum teikning og kortagerð.

Sæmundur Magnússon Hólm var fyrstur Íslendinga til að stunda myndlistarnám í háskóla en hann hóf nám í Konunglega listaháskólanum í Kaupmannahöfn árið 1776 eftir að hafa stundað háskólanám í heimspeki í tvö ár. Síðar lauk hann einnig námi í guðfræði en nam einnig lögfræði. Hann gerðist prestur á Helgafelli á Snæfellsnesi.

Sæmundur málaði ekki mikið eftir að hann fluttist aftur til Íslands en hann vann þó fjölmargar andlitsmyndir af íslenskum fyrirmönnum sem munu halda nafni hans á lofti um ókomna tíð. Það er þeim að þakka að við vitum hvernig ýmsar persónur úr íslandssögunni litu út, fólk sem fæddist löngu áður en myndavélin var fundin upp. Hann teiknaði líka myndir í Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar.

Sæmundur dró einnig upp landakort, meðal annars nákvæmt kort af Reykjavík árið 1783. Hann var einnig skáld og fræðimaður og skrifaði mikið um náttúruna, meðal annars um Skaftárelda.

Heimildir:

Íslandskort.is

Ólafur Kvaran, Guðmundur Ingólfsson, Júlíana Gottskálksdóttir, Gunnar J. Árnason, Hrafnhildur Schram, Æsa Sigurjónsdóttir, Ásdís Ólafsdóttir, Hanna Guðlaug Guðmundsdóttir, Jón Proppé, Dagný Heiðdal, Halldór Björn Runólfsson, Laufey Helgadóttir, Heisler, E., Gunnar B. Kvaran, & Harpa Þórsdóttir. (2011). Íslensk listasaga: frá síðari hluta 19. aldar til upphafs 21. aldar. Listasafn Íslands. I. bindi.

T

Tryggvi Ólafsson

(1940-2019)

Fæddur í Neskaupstað.

Miðlar: Málaralist og grafík.

Tryggvi Ólafsson varð snemma áhugasamur um teikningu og myndlist þótt flestir í hans nærumhverfi hafi starfað við sjómennsku, smíðar eða aðrar hefðbundnari atvinnugreinar. Hann átti þess þó kost að fylgjast með Jóhannesi Kjarval mála utandyra og lýsti því síðar hve mikil áhrif það hefði haft á hann ungan, ekki síst að sjá að hægt væri að gera myndlist að ævistarfi. Tryggvi flutti með fjölskyldu sinni til Reykjavíkur þegar hann var 16 ára gamall en starfaði sem sjómaður á Norðfirði á sumrin. Í Reykjavík lærði hann teikningu hjá Hringi Jóhannessyni meðfram menntaskólanámi en fór svo í Myndlista- og handíðaskólann að loknu stúdentsprófi. Hann lauk þó ekki námi þar heldur hélt til Kaupmannahafnar til að læra við Konunglega listaháskólann þar í borg. Tryggvi var sex ár í skólanum en átti eftir að búa í Danmörku í 47 ár.

Í námi sínu hafði Tryggvi lagt mesta áherslu á abstraktmálun en að námi loknu fannst honum hann vera búin að fullkanna það sem hægt væri að gera innan þeirrar stefnu. Fyrstu árin eftir námið vann Tryggvi ýmis störf til að framfleyta sér en hóf einnig myndlistarferil. Þar lagði hann grunn að persónulegum stíl sínum sem kenndur hefur verið við popplistina en einnig módernisma. Í upphafi voru myndir hans oft pólitískar en síðar vék pólitíski boðskapurinn fyrir leik með liti og form. Í verkum sínum raðaði hann saman ýmsum brotum sem hann fann í öðru myndefni eða áhugaverðum hlutum sem urðu á vegi hans. Vinnubrögðum sínum líkti hann við djasssóló þar sem spunnin væri upp laglína án áreynslu. Hann telfdi saman óvæntum hlutum og skapaði myndheim sem lýtur eigin lögmálum.

Tryggvi nýtti aðferðir samklippsins til undirbúnings flestra verka sinna en stækkaði myndirnar svo upp og málaði með akríllitum sem honum fannst henta verkum sínum betur en olíulitir. Hann vann einnig litógrafíur og notaði til þess svipaðar aðferðir til undirbúnings.

Tryggvi hafði ákveðnar skoðanir á mikilvægi myndlistar í hversdegi fólks. Hann vildi að listin væri venjulegu fólki aðgengileg og stillti verði verka sinna í hóf. Hann gaf einnig verk sín í alla leik- og grunnskóla í Reykjavík því honum fannst mikilvægt að myndlist væri hluti af lífi barna og ungs fólks.

Heimildir:

Tryggvi Ólafsson, Aðalsteinn Ingólfsson, Hornung, P. M., & Kristján Pétur Guðnason. (2007). Málverk í 20 ár = malerier i 20 år = 20 years of painting. Mál og menning.

https://tryggvasafn.is/tryggvi/

V/W

Valtýr Pétursson

(1919-1988)

Fæddur á Grenivík.

Miðlar: Málaralist og mósaík.

Leið Valtýs Péturssonar að listinni var ekki bein. Sem unglingur var hann í teikniskóla og sýndi hæfileika en var ráðlagt af kennara sínum að fást frekar við eitthvað annað því nær ómögulegt væri að lifa af listinni. Valtýr reyndi það lengi vel. Hann var til sjós og vann ýmis störf áður en hann hélt til Bandaríkjanna í verslunarskóla vorið 1944. Í Bandaríkjunum sótti hann listasöfn oft í viku, æfði sig í teikningu og komst að lokum í listnám samhliða verslunarnáminu. Síðar lærði hann á Ítalíu og dvaldi í París með öðrum íslenskum listamönnum til að bæta við þekkinguna og fylgjast með straumum og stefnum í myndlistinni.

Í fyrstu voru verk Valtýs fígúratíf og í upphafi ferilsins vann hann verk í anda súrrealismans. Hann varð svo einn af helstu boðberum geómetrískrar abstraktlistar á Ísland. Valtýr var hluti af Septemberhópnum sem starfaði í kringum 1950. Hann samanstóð af ungum og róttækum listamönnum sem vildu snúa baki við ríkjandi hefð og feta nýjar slóðir í listinni. Árið 1951 sýndi Valtýr fyrstur Íslendinga málverk sem eingöngu byggðu á geómetrískum formum og var í takti við þá strauma og stefnu sem Valtýr og félagar hans höfðu kynnst í dvöl sinni í París árin á undan.

Á 6. áratugnum fór Valtýr að vinna mósaíkverk og notaði til þess íslenska steina sem hann hjó niður í litla teninga og raðaði upp í myndflöt. Mörg mósaíkverka Valtýs eru óhlutbundin og stundum vann hann sama mótíf bæði í málverki og mósaík. Stærsta mósaíkverk hans er jafnframt stærsta veggmynd sem gerð hafði verið í íslensku húsi og ber heitið Kosmos og er 19 m2. Það er í byggingu við Stakkahlíð sem byggt var yfir Kennaraháskólann en alls gerði Valtýr tíu mósaíkmyndir í húsið.  

Abstraktverk Valtýs urðu ljóðrænni er leið á feril hans og hann sótti gjarnan innblástur í náttúruna. Á síðustu árum ferils síns fór hann svo aftur að vinna fígúratíf verk sem einkenndust þó af sterkum formum og litum.

Eins og Valtý var bent á var erfitt að lifa af listsköpun. Hann vann því stundum ýmis önnur störf, meðal annars við listkennslu auk þess sem hann var afkastamikill listgagnrýnandi um langt skeið og tók þátt í að reka sýningarskála listamanna. Þannig hafði hann áhrif á myndlistarlífið í landinu á fjölbreyttan hátt.

Heimildir:

Valtýr Pétursson, Downs-Rose, K., Dagný Heiðdal, Uggi Jónsson, Mörður Árnason, Helgi Grímsson, Halldór Björn Runólfsson, Anna Jóhannsdóttir, Jón Bergmann Kjartansson, Halla Hauksdóttir, & María Helga Guðmundsdóttir. (2016). Valtýr Pétursson: 24.9.2016 – 12.2.2017. Listasafn Íslands.

Downs-Rose, Dagný Heiðdal, Halldór Björn Runólfsson, Steinar Örn Erluson, Svanfríður Sigrún Franklínsdóttir, Kristín Dagmar Jóhannesdóttir, Ragna Sigurðardóttir, Rakel Pétursdóttir, & Anna Yates. (2019). 130 verk úr safneign Listasafns Íslands : 130 works from the collection of the National Gallery of Iceland. Listasafn Íslands.

Wliiam Morris

(1834-1896)

Fæddur í Walthamstow í Essex á Englandi.

Miðlar: Myndlistarmaður, hönnuður, handverksmaður, rithöfundur og aktívisti.

William Morris er minnst fyrir fallega hönnun sína, einkum á textílmynstrum og veggfóðri sem enn eru notuð í hönnun og framleiðslu. Eftir hann liggja málverk, steindir gluggar, útsaumsverk, húsgögn, myndskreyttar bækur, veggteppi og veggflísar svo eitthvað sé nefnt. Ævistarf hans er þó mun umfangsmeira. Hann var myndlistarmaður, rithöfundur og skáld en kannski síðast en ekki síst samfélagsrýnir og aðgerðarsinni.

Morris barðist gegn iðnvæðingu og fjöldaframleiðslu sem þá var að ryðja sér til rúms á öllum sviðum og vildi hverfa aftur til vandaðs gæðahandverks og frá fjöldaframleiðslu. Hann taldi að fólki liði betur í fallegu umhverfi þar sem húsbúnaður væri unninn úr góðum efnum, af alúð og í höndunum fremur en í verksmiðjum. Í hans huga var vönduð, aðgengileg og falleg hönnun nauðsynleg í velferðarsamfélagi.

Tengsl Morris við Ísland voru allnokkur en hann hafði mikinn áhuga á norrænum fornbókmenntum og menningu. Hann kunni íslensku og vann að þýðingum og útgáfu Íslendingasagnanna yfir á ensku. Hann heimsótti Ísland tvisvar, ferðaðist um landið og skráði upplifun sína í dagbækur sem hafa komið út á íslensku og vann að hagsmunum landsins og menningarinnar.

Heimild:

https://wmgallery.org.uk/collection/about-william-morris/

https://timarit.is/files/44022204#search=%22Morris%20Morris%20Morris%20Morris%22

Þ

Þorvaldur Þorsteinsson

(1960-2013)

Fæddur á Akureyri.

Miðlar: Innsetningar, ljósmyndir, teikning, myndbandsverk og hugmyndalist.

Þorvaldur Þorsteinsson var ákaflega fjölhæfur og afkastamikill listamaður sem nýtti flesta miðla í listsköpun sinni. Hann vann jöfnum höndum sem myndlistarmaður, rithöfundur og listkennari og sem slíkur hafði hann mikil áhrif á yngri listamenn. Eftir hann liggja klassískar barnabækur á borð við Skilaboðaskjóðuna og bækurnar um Blíðfinn. Auk þess skrifaði hann nokkur leikrit og ljóð. Hann nam myndlist í Myndlistaskólanum á Akureyri og í Myndlista- og handíðaskóla Íslands en hélt svo í framhaldsnám í Hollandi.

Hlutverk og hlutskipti listamannsins var Þorvaldi hugleikið sem og mörk listarinnar og veruleikans. Í verkinu Íslensk myndlist frá 1997 vísar hann til dæmis í hlutverk myndlistarinnar í samfélaginu. Verkið birtir tólf tölvuprentaðar skjámyndir úr sjónvarpsviðtölum við þekkta stjórnmálamenn fyrir framan verk íslenskra myndlistarmanna. Þannig sýnir verkið okkur hvernig íslensk myndlist er notuð sem skreyting og uppfylling í sjálfsmynd stjórnmálamannsins.

Leikur og húmor einkenna mörg verka Þorvaldar og þau ögra gjarnan áhorfandanum og spyrja hann spurninga um lífssýn sína og skynjun. Hann sagði eitt sinn: „List fyrir mér er augnablikið þegar ég uppgötva einhver tengsl, andartakið þegar einhver sýnir mér eitthvað sem opnar hjartað, hjálpar mér að skilja eitthvað eða sjá í nýju ljósi. Listhugtakið rúmar þannig allt sem gerir veruleikann að verðmæti í sjálfu sér, hvort sem það gerist innan ramma hefðbundinna menningarstofnana eða utan.“1

Fjölmörg verka Þorvaldar, bæði myndlistarverk og textar, byggja á ímyndunarafli áhorfandans eða lesendans. Hann nýtti gjarna eitthvað úr hversdeginum sem efnivið í verk sín og sagði að ef listin tengdist ekki veruleika fólks væri hún marklaus.2

Þorvaldur hélt fjölda einkasýninga hér á landi og í Evrópu og tók þátt í samsýningum og listahátíðum víða um heim.

Heimildir:

Downs-Rose, Dagný Heiðdal, Halldór Björn Runólfsson, Steinar Örn Erluson, Svanfríður Sigrún Franklínsdóttir, Kristín Dagmar Jóhannesdóttir, Ragna Sigurðardóttir, Rakel Pétursdóttir, & Anna Yates. (2019). 130 verk úr safneign Listasafns Íslands: 130 works from the collection of the National Gallery of Iceland. Listasafn Íslands.

1https://listasafnreykjavikur.is/sites/default/files/syningarskra/2004thorvaldurthorsteinssoneggerdithettaekki.pdf

2Sama.

Þóra Pjetursdóttir Thoroddsen

(1847-1917)

Fædd í að Staðarstað á Snæfellsnesi.

Miðlar: Teikning og málaralist.

Á seinni hluta 19. aldar gafst stúlkum fleiri tækifæri til menntunar en áður, sérstaklega stúlkum úr efri stéttum. Áður en þeir sem kallaðar hafa verið frumherjar íslenskrar myndlistar héldu til náms í lok 19. aldar og byrjun þeirrar 20. lærðu nokkrar ungar konur að teikna og mála. Sumar lærðu hjá Sigurði málara eða öðrum kennurum en nokkrar héldu til náms í útlöndum. Elst þeirra var Þóra Pjetursdóttir Thoroddsen en hún hélt til Kaupmannahafnar árið 1873 og lærði í dönskum teikniskóla fyrir dömur. Kennarinn þeirra leit ekki svo á að námið væri til að undirbúa þær undir starfsframa sem myndlistarmenn heldur gerði þær að fjölhæfum fyrirmyndareiginkonum. Á þeim tíma fengu konur ekki að læra í Konunglega listaháskólanum og því hélt Þóra heim á leið eftir tveggja ára nám í teikniskólanum.

Heima í Reykjavík stofnaði Þóra teikniskóla með vinkonu sinni. Sjálf kenndi hún teikningu og málun en vinkona hennar útsaum. Nemendur Þóru voru ungar konur – nema einn og sá var sá eini sem átti eftir að helga sig málaralist en það var listmálarinn Þórarinn B. Þorláksson sem lærði hjá Þóru áður en hann hélt út í frekara nám.

Þóra teiknaði og málaði töluvert fyrstu árin eftir að hún kom heim úr námi. Hún málaði einkum umhverfi sitt í Reykjavík en líka á ferðalögum en hún var óvenju víðförul á hennar tíma mælikvarða. Eitt verka hennar er frá Þingvöllum árið 1881 og sýnir gamla Þingvallabæinn og er sennilega elsta málverkið eftir Íslending með því vinsæla mótífi. Eftir hana liggja líka fjöldi teiknibóka og dagbækur. Þóra sýndi verk sín opinberlega, m.a. á Iðnsýningunni í Reykjavík árið 1883 og á norrænni kvennasýningu í Kaupmannahöfn árið 1895.

Þóra virðist hafa hætt að mála og teikna að mestu eftir að hún gifti sig og stofnaði heimili. Síðar flutti hún til Kaupmannahafnar og bjó þar til æviloka. Hún ferðaðist víða með manni sínum sem var vísindamaður, talaði fjölmörg tungumál og var af mörgum talin best menntuð íslenskra kvenna á sínum tíma.

Heimildir:

Downs-Rose, Dagný Heiðdal, Halldór Björn Runólfsson, Steinar Örn Erluson, Svanfríður Sigrún Franklínsdóttir, Kristín Dagmar Jóhannesdóttir, Ragna Sigurðardóttir, Rakel Pétursdóttir, & Anna Yates. (2019). 130 verk úr safneign Listasafns Íslands: 130 works from the collection of the National Gallery of Iceland. Listasafn Íslands.

Arndís S. Árnadóttir, Hrafnhildur Schram, & Anna Yates. (2006). Huldukonur í íslenskri myndlist: Invisible women in Icelandic art. Þjóðminjasafn Íslands.

Þórarinn B. Þorláksson

(1867-1924)

Fæddur í Vatndal.

Miðill: Málaralist.

Þórarinn B. Þorláksson hélt árið 1900 fyrstur Íslendinga myndlistarsýningu hér á landi en áður höfðu þó verið sýnd erlend málverk á sýningum. Áður en hann hóf myndlistarnám í Kaupmannahöfn 28 ára gamall hafði hann lært bókband og starfað við það í Reykjavík. Þar sá hann í fyrsta sinn málverk. Hann hafði teiknað frá unga aldri en í Reykjavík sótti hann í fyrsta sinn teiknitíma hjá Þóru Pjetursdóttur Thoroddsen.

Þórarinn hafði fyrir fjölskyldu að sjá og náði aldrei að lifa af listinni enda fáir á Íslandi í þá daga sem gátu leyft sér að kaupa myndlistarverk. Hann starfaði sem teiknikennari og skólastjóri Iðnskólans í Reykjavík en rak einnig verslun með myndlistarvörum, pappír og bókum.

Á fyrstu sýningu Þórarins sýndi hann landslagsverk, meðal annars frá Þingvöllum, sem hann hafði málað sumarið áður. Íslensk náttúra var honum hugleikið mótíf alla starfsævina. Kyrrð og ró einkenna mörg verka hans.

Þórarinn átti sumarhús að Laugarvatni þar sem hann dvaldi á sumrin og teiknaði mikið og málaði og safnaði sér efnivið. Hann fullvann svo myndir sínar á veturna. Hann lést í einni sumardvöl sinni aðeins 56 ára gamall.

Heimildir:

Þórarinn B. Þorláksson, Scudder, B., Ólafur Kvaran, Júlíana Gottskálksdóttir, Kristján Pétur Guðnason, Viktor Smári Sæmundsson, & Halldór J. Jónsson. (2000). Þórarinn B. Þorláksson: brautryðjandi í byrjun aldar: sýning = pioneer at the dawn of a century: exhibition: 14. október – 26. nóvember 2000. Listasafn Íslands.

Þorgarður Sigurðardóttir

(1945-2003)

Fædd á Grenjaðarstað í Suður-Þingeyjasýslu.

Miðlar: Grafíklist, málaralist og stafræn tækni.

Þorgerður Sigurðardóttir stundaði nám við grafíkdeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands og útskrifaðist þaðan árið 1989. Hún lærði líka við Háskóla Íslands og Listaháskólann.

Þorgerður var þekktust fyrir grafíkverk sín, einkum tréristur, en hún málaði einnig, teiknaði og beitti stafrænni tækni. Mörg verka hennar voru af trúarlegum og heimspekilegum toga. Hún rannsakaði trúarlegan myndlistararf á Íslandi allt frá miðöldum og notaði í verk sín. Hún lærði einnig að gera íkona og nýtti þá tækni í sum verk sín. Mörg verka hennar eru nútímaleg en byggja á gömlum hefðum eða mótífum sem hún setur í nýtt samhengi þar sem þau öðlast nýja merkingu.

Heimild:

Arkiv.is

Þorvaldur Skúlason

(1906-1984)

Fæddur á Borðeyri.

Miðill: Málaralist.

Þorvaldur Skúlason varð sjómaður á unglingsaldri. Hann starfaði á millilandaskipi og sigldi bæði til Danmerkur og Skotlands á tímum sem fæstir komust nokkru sinni til útlanda. Þar gafst honum færi á að skoða stór listasöfn og heillaðist af myndlist. Nokkru síðar fótbrotnaði hann illa og gat ekki unnið. Þá stytti hann sér stundir með því að teikna og þar með voru örlög hans ráðin. Hann fékk listamenn til að kenna sér undirstöðuatriði í teikningu en hélt svo til Osló í Noregi þar sem hann lærði við listaháskólann þar. Hann stundaði myndlistarnám í Osló, París og Kaupmannahöfn á árunum 1928-1939.

Þorvaldur hafði metnað til þess að verða alþjóðlegur listamaður og fylgdist vel með helstu stefnum og staumum í Evrópu. Hann settist að í Frakklandi en flúði með fjölskylduna sína til Íslands þegar nasistar réðust inn í landið í seinni heimsstyrjöldinni.

Þorvaldur var frumkvöðull í framsækinni málaralist á Íslandi og mætti nokkurri andstöðu á sínum tíma. Sumir héldu jafnvel að hann málaði eins og hann gerði af því að hann kynni ekki teikningu almennilega. Þegar fram liðu stundir ávann hann sér þó þá virðingu sem hann átti skilið.

Þorvaldur hafnaði þeirri landslagshefð sem var ríkjandi í málaralist á Íslandi í stríðslok. Snemma á ferli hans voru verk hans oftast í anda exspressjónisma. Þau voru fígúratíf en einkenndust engu að síður af sterkum formum og litum, ljósi og skugga. Hann málaði gjarna uppstillingar, fólk og umhverfi en síðar urðu verk hans óhlutbundnari og fyrirmyndin hætti að skipta máli. Um tíma voru abstraktverk hans geómetrísk og hann var einn af forystumönnum þeirrar stefnu hér á landi. Þá notaði hann fáa liti og byggði verk sín upp á stærðfræðilegum formum. Hann leit á myndsköpun sem rannsókn á litum og formum. Í lok starfsævinnar vann hann abstaktverk sem byggðu á náttúrulegri formum, svo sem árstraumum og iðum í vatni.

Heimildir:

Björn Th. Björnsson, & Kristján Pétur Guðnason. (1983). Þorvaldur Skúlason: brautryðjandi íslenzkrar samtímalistar. Þjóðsaga.

Downs-Rose, Dagný Heiðdal, Halldór Björn Runólfsson, Steinar Örn Erluson, Svanfríður Sigrún Franklínsdóttir, Kristín Dagmar Jóhannesdóttir, Ragna Sigurðardóttir, Rakel Pétursdóttir, & Anna Yates. (2019). 130 verk úr safneign Listasafns Íslands: 130 works from the collection of the National Gallery of Iceland. Listasafn Íslands.