Það er fátt í tilverunni sem hefur jafn mikil áhrif á okkur og tíminn en samt eigum við oft erfitt með að skilja tímann til hlítar. Hann er einhvers konar einstefnugata sem við ferðumst eftir; við getum litið til baka og rifjað upp fortíðina en við getum ekki stoppað og snúið til baka ef við hefðum viljað gera eitthvað öðruvísi. Okkar eini kostur er að halda áfram að ganga tímans veg og þá er gott að geta horfst í augu við tímann, sæst við það sem liðið er frekar en að streitast á móti. Þannig getum við lært af reynslu okkar í fortíðinni og haft áhrif á hvaða stefnu framtíð okkar tekur, því þekking og skilningur færir okkur ákveðið vald yfir lífi okkar.

Tíminn hefur á sér tvær hliðar; hina áþreifanlegu, mælanlegu annars vegar og hina skynjuðu, huglægu hins vegar. Hina mælanlegu hlið tímans má sjá til dæmis í skólagöngu okkar þar sem tíminn birtist okkur sem skólaár, annir, vikur, kennslustundir og frímínútur. Tíminn er einnig sýnilegur í öllu umhverfi okkar. Hann birtist okkur sem hrörnun og niðurbrot; ryð á bílum, fallinn torfbær, slitinn klæðnaður, veðrun, öldrun og úrelt tækni svo sem gamall skífusími. En tíminn birtist okkur einnig sem uppvöxtur og framrás; tré stækka, börn þroskast og tækninýjungar skjóta upp kollinum. Þessar tvær sýnilegu birtingarmyndir tímans, sú skynjaða og sú mælanlega, mynda hina óstöðvandi hringrás alls sem er.

Lífi okkar er skipt niður í hólf; við teljum aldur okkar í árum sem við mælum með árstíðunum. Árstíðunum er skipt upp í mánuði sem hver hefur sinn blæ, mánuðir líða áfram viku fyrir viku sem aftur eru samsettar af sólarhringum sem líklega eru sá hluti framvindu tímans sem við dveljum mest við; nýr dagur, nýtt líf. Sérhverjum degi er skipt niður í smærri einingar; klukkustundir, mínútur, sekúndur og jafnvel millisekúndur. Við krýnum gullverðlaunahafa í spretthlaupi á grundvelli sekúndubrota; andartaks sem líður hjá áður en við áttum okkur á því að það hafi komið. 

Hver kannast ekki við að finna fyrir þyngd tímans (e. weight of time). Þegar við glímum við viðfangsefni sem falla ekki að hinni hröðu framvindu hans finnum við hvernig mínúturnar silast áfram: biðstofa hjá lækni, daufleg kennslustund, strætóferð og uppvaskið eru dæmi um fyrirbæri sem mörgum virðast hægja á framrás tímans. Okkur fer að leiðast og við verðum skyndilega meðvituð um okkur sjálf, við seilumst eftir símanum í vasanum, tímaritinu á borðinu eða lítum endurtekið á klukkuna; fer þessu ekki að ljúka? Á hinn bóginn virðist tíminn stundum þyngdarlaus, einkum þegar við erum að fást við verkefni sem vekja hjá okkur ánægju og eru hæfilega krefjandi. Þetta er kallað að komast í flæði en það er ástand þar sem við rennum saman við viðfangsefni okkar, skynjun okkar á tímanum dofnar eða hverfur og nánasta umhverfi virðist gufa upp. Ungverski sálfræðingurinn Mihály Csíkszentmihályi skilgreindi fyrirbærið fyrstur manna og tengdi það við hina æðstu reynslu (1990). Talið er að innihaldsríkt og merkingarbært nám fari fram þegar nemendur komast í flæðisástand. Til þess að nemendur komist í flæði er talið mikilvægt að skapa aðstæður fyrir þá svo þeir nái að tengja við eigin reynslu bæði utan skóla sem og milli ólíkra námsgreina. 

Breytist gildi hluta með tímanum?

Eins og fram hefur komið þá virðist tíminn hafa tvær víddir; hinn innri afstæða tíma annars vegar sem er upplifaður og hinn ytri hlutbundna tíma sem lesa má af náttúrulegum ferlum og þróun. Í aðalnámskrá grunnskóla (2013, bls. 147) segir: „Að rýna í listaverk hjálpar okkur að skilja sögu, menningu og samfélagið í heild á sama tíma og það hjálpar okkur að eflast sem persónur.“ Ennfremur segir að list- og verkgreinar geti […] „stuðlað að bættu siðferði og þjóðfélagslegri ábyrgð nemenda“ (Aðalnámskrá grunnskóla, 2013, bls. 141). Hægt er að vekja fólk til meðvitundar um tímann með því að fá það til að ígrunda eigin upplifun af tímanum og rannsaka ummerki hans á okkar nánasta umhverfi og viðhorf í samfélaginu. Til að mynda þá er algengt að gildi hluta breytist með tímanum og aukinni þekkingu. Sem dæmi um það er bókin Tíu litlir negrastrákar sem kom út árið 1922 með myndskreytingum listamannsins Muggs (1891–1924). Á sínum tíma þótti bókin falleg og viðeigandi saga fyrir börn. Nú gerir fólk sér grein fyrir því að bókin er meiðandi fyrir fólk af afrískum uppruna þar sem hún lýsir úreltum og fordómafullum viðhorfum. Þannig má einnig velta fyrir sér viðhorfi til kynjanna og stöðu kvenna í samfélaginu og skoða hvernig þau hafa þróast. Breski listfræðingurinn John Berger (1926–2017) fjallaði um það árið 1972 hvernig konur voru hlutgerðar í málverkum fyrri tíma. Horfa má á sjónvarpsþætti Bergers á BBC á netinu, Ways of Seeing, en annar þáttur fjallar sérstaklega um þetta. Leitarorð: John Berger ways of seeing episode 2 

Samband listaverka/listamanna við tímann

Líf okkar einkennist oft af togstreitu milli tíma sem okkur virðist þjóta áfram og tíma sem virðist standa í stað. Margir kannast við þá upplifun að tíminn fljúgi áfram í amstri hversdagsins en spurning er hvort það megi sigrast á þessum hraða með þolinmæðinni og jafnvel stöðva tímann um stundarsakir. 

Gretar Reynisson (1957) er meðal þeirra íslensku listamanna sem hafa unnið með tímann á athyglisverðan hátt og stjórnað honum. Árið 2016 sýndi hann á myndlistarhátíðinni Sequences verkið Áratugur. „Þetta er skráning á minni tilveru, sem myndlistarmaður og manneskja. Þetta er dagleg iðja tíu ára“ (Einar Falur Ingólfsson, 2013). Verkið vann Gretar á hverjum degi í 10 ár og því var það viðeigandi að sýna það á hátíð sem sýnir tímatengd verk og líðandi stund. Vinnan við verkið er þess eðlis að það er erfitt að greina á milli þess hvenær um listrænan gjörning er að ræða og hvenær um athöfn daglegt lífs. „Ég í tímanum … Ég stjórnaði hvað ég gerði á hverjum degi. Tíminn er svo afstæður, og hvað maður gerir mikið, þarna er ég að vissu leyti að eigna mér tímann og skrá mig í tímanum“ (Einar Falur Ingólfsson, 2013). Skrásetningin krefst mikils aga frá hendi listamannsins því til að verkið virki þurfti hann að skrásetja daglega eigið líf.

Verkin í Áratug áttu sér aðdraganda í verkum sem unnin voru á fjórum árum fyrir aldamótin og sýnd þá á fjórum sýningum. Um verkin á sýningunni segir Gretar: „Ég vann að verkunum á hverjum degi. Eitt af því birtist á krossviðsplöttum þar sem ég teiknaði hring eftir hring með blýanti en allt er þetta framhald af þessum fjórum sýningum sem ég hélt á árunum 1998 til 2001. Þá teiknaði ég fyrsta árið á lítinn krossviðarplatta, einn á dag; 365 lagði ég saman á hillu og sýndi ásamt jafn mörgum sjálfsmyndum. Árið eftir vann ég vikuverk, 52 stærri platta, og setti upp brauðskáp með 365 brauðum á móti. Þriðja árið sýndi ég mánaðarverk úr kaffiblettum og grafítblýi og loks tók ég fyrir heilt ár og vann einn platta sem ég sýndi á Kjarvalsstöðum ásamt handklæðum. En ég gat ekki hætt, einhver þráhyggja eða löngun dró mig áfram. Það er ánægjulegt að vinna svona á hverjum degi. Þetta er mikil vinna en hún er skemmtileg, þó að efakaflarnir komi oft, með hæðum og lægðum. Þegar ég kláraði síðustu árssýninguna þá var ný öld að hefjast og það var spennandi. Ég ákvað að vinna með tímaeininguna áratug. Ég byrjaði að vinna daglega í stórum platta úr mörgum minni og ég er að enda það ferli nú á þessari sýningu, á tímatengdri listahátíð sem er við hæfi“ (Einar Falur Ingólfsson, 2013). 

Á sama tíma og Gretar vann plattana bjó hann til verk sem tengjast daglegum athöfnum hans. Árið 2001 klæddist hann hvítri skyrtu í hverri viku ársins. „Þær hanga hérna á slá, 52 talsins. Sviti undir höndum, málningar- og matarslettur, þetta er allt í þeim, rétt eins og sumir nota olíu á striga“ (Einar Falur Ingólfsson, 2013). Hin daglega iðja er efnið í tauið. 365 vatnsglös á borði með tilheyrandi blettum sýna glös sem hann drakk úr á hverjum degi í eitt ár. 

„Svo smíðaði ég hátt í hundrað trékassa fyrir verk sem ég kalla „Geymt en gleymt“ og setti í hvern þeirra hlut sem ég er hættur að nota. Þetta eru persónulegir hlutir, sumir tilfinningatengdir og aðrir ekki, og ég loka kössunum svo enginn veit hvað er í þeim. En það er hægt að taka þá upp og hrista, þá heyrist endurhljómur fortíðar. Þetta eru einskonar „tímastokkar“. Þarna stoppaði tími þessara hluta; ég pakkaði inn tíma sem var“ (Einar Falur Ingólfsson, 2013).

Hluti af Áratug eru einnig ljósmyndir sem Gretar tók, ein mynd á dag í 10 ár. Hann sýndi þær í bunkum sem skipt var upp í mánuði. Hver mánuður fékk sitt þema. Samtals eru þetta 3.652 myndir sem sýndar voru á sex metra löngu borði. Leitarorð: Gretar Reynisson Sequences

Verk pólsk-franska listamannsins Roman Opalka (1931–2011) eru af svipuðum meiði og verk Gretars. Hann hóf að skrá framvindu eigin lífs með því að mála tölur kerfisbundið á striga; hann var að telja andartökin sem hann ætti eftir af ævinni. Opalka lét sér ekki nægja að mála tölurnar á strigann heldur lýsti hann bakgrunninn um eitt prósent með hvítum lit þegar hann hóf vinnu við nýtt listaverk. Þannig urðu verk hans daufari á að líta þegar fram liðu stundir, rétt eins og minningar okkar verða óljósari með tímanum. Opalka dýfði penslinum í hvítan lit við upphaf hverrar tölu og fyrir vikið myndast athyglisvert mynstur sem gefur hverju verki sterka áferð. Í lok hvers vinnudags tók hann af sér ljósmynd sem sýndi útlit hans á þeim tímapunkti. Þegar æviverk hans er skoðað má sjá hvernig tíminn hefur sett mark sitt á listamanninn. Síðasta talan sem hann málaði var 5607249. Leitarorð: Roman Opalka detail

Japanski konsept listamaðurinn On Kawara (1932–2014) hefur einnig unnið með tímann og tölur í sínum verkum. Hann hefur mikinn áhuga á tímanum. Árið 1966 hóf hann að vinna að syrpunni „Today“. Kawara staðfesti og dagsetti tilvist sína með því að mála dagsetningu hvers dags á eintóna myndflöt sem oft var svartur með hvítum tölustöfum. Leturgerðinni breytti hann til samræmis við það land sem hann var staddur hverju sinni. Hann gerði sér að vinnureglu að taka aldrei meira en sólarhring í að mála hvert verk. Ef hann náði ekki að klára verkið innan tiltekins tíma þá eyðilagði hann verkið. Leitarorð: On Kawara today

Gjörningar og tími

Eitt af megineinkennum gjörninga er að vinna markvisst með athafnir sem viðfangsefni en samtímis eru gjörningar athöfn í sjálfu sér (Schechner, 2002). Tíminn er lykilatriði í gjörningum. Listamaðurinn vinnur með hann þegar hann skapar félagslegt samspil milli sín og áhorfandans. Áhorfandinn er í núinu á meðan framkvæmd gjörningsins fer fram. Það er ekki fyrr en að gjörningi loknum, sem ígrundun og samantekt upplýsinga fer fram (Goffman, 1959).

Fjölmargir listamenn hafa unnið með gjörningaformið á Íslandi.

Rúrí (1951) er sá gjörningalistamaður sem unnið hefur með þemað tími í mörgum af sínum verkum auk þess hafa verk hennar gjarnan verið tileinkuð náttúruvernd og afstæði heimsins. Verk hennar eru hugmyndafræðilegs eðlis og snerta fyrirbærið tími á fjölbreyttan máta. Eitt dæmi er innsetningargjörningurinn Regnbogi frá árinu 1983. „Regnboginn birtist fyrirvaralaust, varir í nokkur augnablik og hverfur jafn óvænt og hann birtist. Enginn getur höndlað hann eða nálgast hann. Samt sem áður hefur hann ómetanlegt gildi fyrir flesta sem sjá hann“ (Rúrí, 1983). Grunnmynd verksins er regnbogi, sem Rúrí setti upp við Korpúlfstaði, hann er m.a. gerður úr næfurþunnu bómullarefni. Þegar kviknar í regnboganum og hann fuðrar upp endurspeglar Rúrí hverfulleika regnbogans sem varir í hvert sinn einungis í stuttan tíma þegar samspil sólarinnar og regndropa í lofthjúpnum er rétt. Leitarorð: Rúrí innsetning regnbogi | vefsíða

Serbneski listamaðurinn Marina Abramovic (1946) bauð gestum MOMA að staldra við og horfast í augu við hana sjálfa í gjörningnum The Artist is Present árið 2010. Gjörningurinn stóð í sjö vikur. Marina mætti til leiks á hverjum morgni og settist við borð í miðju sýningarrýminu. Gestum bauðst að setjast til borðs með henni og horfast í augu við hana um stundarsakir. Að horfast í augu við ókunnuga manneskju lengur en eitt andartak virtist draga eilífðina upp úr djúpi hugans. Sjá má á netinu myndbandsbrot af því þegar fyrrverandi unnusti Marinu, Ulay, kom óvænt og settist á móti henni. Þau höfðu átt í stormasömu sambandi en ekki hist frá 1988. Leitarorð: Marina Abramovic Ulay MoMA 2010

Sumir listamenn hafa unnið með tímamörk. Verkið Söngskemmtun (1998) eftir Þorvald Þorsteinsson (1960–2013) er rýmisverk sem samanstendur af fataslá með yfirhöfnum og hljóði. Í verkinu erum við minnt á hvað það er stutt á milli raunveruleikans og listarinnar. Verkið gefur til kynna að við séum stödd á söngskemmtun þar sem búið er að loka dyrum tónleikasalarins; við mættum of seint. Í innsetningunni heyrist daufur ómur tónlistarinnar sem flutt er. Við sjáum ekki tónleikagestina en við sjáum yfirhafnir þeirra sem hanga á fatahenginu fyrir utan lokaðar dyrnar. En verkið býr einnig yfir ákveðinni margræðni. Annars vegar er verkið vísun í liðinn tíma því söngurinn hljómar gamaldags; það er eins og maður hafi farið í tímavél og lent úti í sveit í innanverðum Eyjafirði um miðja tuttugustu öldina. Hins vegar hvetur verkið okkur til þess að íhuga hvernig smekkur okkar hefur breyst í tímans rás og þannig má ætla að sérhver ný kynslóð geti skilið listaverkið á ferskan og nýjan hátt. Leitarorð: Þorvaldur Þorsteinsson söngskemmtun

Vídeó er tímatengdur miðill

Vídeó er í eðli sínu tímatengdur miðill. Verkin eru tekin á ákveðnum tíma þó gjarnan séu þau sýnd í hringferli sem er spilað út í það óendanlega; ekki endilega með fast markað upphaf eða endi. 

Innsetning Tuma Magnússonar (1957) í Hafnarborg árið 2015 kallaðist Largo – presto. Um er að ræða stóra innsetningu sem einkenndist af vídeói af fyrirbærum sem mynda reglubundin hljóð og hreyfingu. Sem dæmi má nefna hamarshögg, bank í borð, skell í hliði og fótatak. Innsetningin samanstóð af átta aðskildum sjónvarpskjám og hátölurum sem raðað var í hring og af þeim voru spiluð vídeó sem sýndu ólíka takta, ýmist hæga eða hraða. Þegar verkin voru spiluð þá sameinuðust þau og urðu að einum takti sem einkenndist af síbylju og kyrrð. Tumi hefur frá upphafi ferils síns unnið með hversdagslega hluti eða athafnir sem hann gjarnan sýnir á frumlegan máta, gjarnan full af húmor. Leitarorð: Tumi Magnússon largo presto

Tumi Magnússon, vefsíða.

Listaverk sem eru háð tíma

Sumir listamenn setja upp sýningar sem eru þess eðlis að verkin þróast á meðan sýningunni stendur. Slík listaverk eru gjarnan háð líffræðilegum ferlum þar sem t.d. hlutirnir geta umbreyst. Sveppur sem étur mengun eftir Sigrúnu Thorlacius (1968) líffræðing og iðnhönnuð er dæmi um slíkt verk.

Sigrún Thorlacius | vefsíða.

Á útskriftarsýningu Listaháskóla Íslands 2015 setti hún upp verk þar sem hún notaði svepp til að hreinsa Renault Megane bílvél sem var löðrandi í eitri. Breytti mengandi efnum í meinlaus. Leitarorð: Sigrún Thorlacius sveppir

Verkið Búgarður eftir Elsu Dórótheu Gísladóttur (1961) er unnið út frá fræjum sem hún fann í eldhússkápnum hjá sér. Hún byggði hringlaga form úr gamalli eldhúsinnréttingu. Í það setti hún gróðurmold og gróðursetti fræ sem hún hafði fundið í eldhússkápunum hjá sér, matvæli úr daglegu lífi Elsu s.s. linsubaunir, kjúklingabaunir, sólblómafræ, hörfræ, hampfræ o.s.frv. Í upphafi sýningartímans var gróðurinn lítill en smám saman stækkuðu plönturnar með hjálp innilýsingar og vökvunar. Leitarorð: Elsa Dóróthea Gísladóttir búgarður | vefsíða

Elsa Dóróthea Gísladóttir, Búgarður | Vefsíða

Er skynjun okkar á tímanum afstæð?

Tíminn er framvinda, þróun, þroskaferli; eitthvað kemur og eitthvað fer. Hverfulleikinn er fingrafar tímans. Fortíðin er í huga okkar, svart-hvít, líkt og gömul ljósmynd. Ef við sjáum gamla ljósmynd í lit færist hún nær okkur í tíma því okkar samtími er tími litarins. Að sama skapi má segja að samtíminn sé tími hraðans og hreyfimyndanna. Leitarorð: 40 Must-See Historic Photos In Color

Pétur Thomsen (1973) vinnur á ljóðrænan hátt með tímann. Í ljósmyndum sínum fangar hann hvernig tíminn hefur sett mark sitt á lífið í kringum hann og breytingar í náttúrunni dag frá degi. Í mörgum verka hans vinnur hann með áhrif manns á náttúruna en í verkinu Tíð sjáum við jólatré sem Pétur henti út í bakgarð hjá sér í byrjun janúar. Ljósmyndina tók hann á miðnætti og notaði tækni flóðlýsingar og stillir stafræna vélina á mikla fókusdýpt. Verkið fjallar bæði um náttúruna sjálfa og smáatriðin sem við tökum sjaldan eftir í daglegu flæði tímans. Pétur tók að jafnaði tvær ljósmyndir á mánuði á nákvæmlega sama stað, alltaf á miðnætti. Ljósmyndirnar í verkinu eru 18 og sýna þær breytinguna sem á sér stað í náttúrunni. Áhorfandinn merkir ekki mikla breytingu milli mánaða en þegar lengra tímabil er skoðað má merkja verulegan mun bæði á gróðri og birtu. Verk Péturs fjalla gjarnan um inngrip mannsins í náttúruna. Hvernig maðurinn, meðvitað eða ómeðvitað, hefur áhrif á náttúruna eins og segir í texta Sigrúnar Ölbu um sýningu hans Tíð/Periode (2016). Í þessu verki sjáum við hvernig jólatréð sem upprunalega var tekið úr sínu náttúrulega umhverfi inn í hús og skreytt en er hér í myndaröðinni orðið að aðskotahlut í náttúrunni, gulnað og visið meðal gróðurs í blóma. Leitarorð: Pétur Thomsen Tíð/Periode

Pétur Thomsen, Tíð/Periode, 2016.
Vefsíða

Þýski listamaðurinn Joseph Beuys (1921–1986) kom með mikilvægt innlegg í pólitíska umræðu um náttúru og náttúruvernd í verki sínu 7000 eikur (7000 Oak Trees) sem hann vann fyrir Dokumenta hátíðina 1982 í Kassel. Í verkinu gróðursetti hann 7000 eikarplöntur í borginni. Hverri plöntu fylgdi ein basaltsúla sem hann stillti upp við hlið hverrar plöntu. Basaltsteinarnir urðu einskonar mælieiningar á tímann. Meðan tréð vex og eldist, heldur steinninn formi sínu. Leitarorð: Joseph Beuys 7000 Oak Trees

Rússneski rithöfundurinn Fyodor Dostoyevsky (1821–1881) segir frá því í bók sinni Fávitinn þegar dauðadæmdur maður drakk í sig hvert andartak ferðalagsins frá fangaklefanum til aftökupallsins líkt og um væri að ræða heila mannsævi; hann drakk í sig umhverfið og gaumgæfði nákvæmlega alla skynjun. Á áfangastað, undir gálganum, var fanginn náðaður en reynsla hans af afstæðum tíma bjó með honum áfram. Talið er að Dostoyevsky sé að lýsa sinni eigin reynslu en hann var dæmdur til dauða fyrir landráð á sínum tíma en náðaður frammi fyrir böðlinum.

Sigurður Guðjónsson (1975) hefur meðal annars búið til ágeng vídeóverk og verk sem sameina vídeó, rafhljóð og lifandi flutning. Vídeó, tími, tímaskeið, framvinda og endurtekning einkenna verk hans. Sigurður var fulltrúi Íslands á Feneyjartvíæringnum 2022 með verkið Ævarandi hreyfing. Efniviðurinn er málmryk sem kastað er í kringum segul sem tengdur er við mótor, hann er síðan filmaður og umbreytt í tölvu. Leitarorð: Sigurður Guðjónsson Ævarandi hreyfing| vefsíða

Ljósmyndaserían Þá, þegar eftir Þorgerði Ólafsdóttur (1985) 2016 samanstendur af ljósmyndum af fjöldamörgum plasthlutum sem fundist hafa í jörðu víðsvegar um Ísland. Plasthlutirnir eru í vörslu Þjóðminjasafnsins en á undanförnum árum hafa plasthlutir öðlast aukinn sess í gripasafni þess, þó um núminjar sé að ræða. Verkið á upphaf sitt í vinnuferð á vegum Fornleifastofnunar Íslands, þar sem Þorgerði var boðið að fylgjast með og aðstoða við skráningu muna sem fundust í Mývatnssveit sumarið 2014. Rauður plastbútur sem fannst í efsta lagi öskuhaugs við Helluvað vakti mikinn áhuga listamannsins og leiddi til samstarfsins við rannsóknarsvið Þjóðminjasafnsins. Plastbúturinn var skráður og er varðveittur í Þjóðminjasafninu. Áhuginn á plastbútnum á sér líklega tvær hliðar. Annars vegar tilheyrir plastið samtíma okkar og því er óvænt að finna slíkan hlut meðal fornminja. Hins vegar er það skelfilegt að hugsa til þess hversu plastið er óforgengilegt og varanlegt. Samkvæmt skilgreiningu fornleifafræðinnar teljast hlutir ekki til fornminja nema að þeir séu 100 ára eða eldri. Í uppgreftri þurfa fornleifafræðingar samt sem áður að taka tillit til alls þess sem finnst á hverju rannsökuðu svæði. Það verður sífellt erfiðara að vísa þeim hlutum strax frá sem sorpi, þó svo mörgu sé vissulega hent og mikið deilt um hverju skal halda eftir. Fornleifafræðingurinn hefur því mikið vald og ákvarðanir hans móta óhjákvæmilega söguna. Þorgerður vann rannsóknarvinnu sýningarinnar í samstarfi við Þjóðminjasafnið og tók að sér að ljósmynda plastgripi úr safneigninni og þar með ljúka skráningu munanna svo hægt væri að hafa þá sýnilega í gagnagrunni safnsins – sarpur.is. Þessar minjar, sem eru nálægt samtímanum og eru oft taldar rusl, eru því orðnar aðgengilegar sem partur af hlutasögu okkar. Plast er hrein iðnaðarafurð sem brotnar afar hægt niður í náttúrunni og agnir þess dreifast um heiminn með vatni, lífverum og eftir öðrum leiðum. Ört vaxandi hlutfall plasts í umhverfi okkar ásamt þeirri staðreynd að plast er (næstum) orðið gjaldgengt sem fornminjar, krefur okkur um að taka afstöðu til þess hvar beri að draga línu; hvenær söfnun hefst og hvenær henni lýkur. Hvenær ber að safna? Leitarorð: Þorgerður Ólafsdóttir þá–þegar | vefsíða

Heimildir

Aðalnámskrá grunnskóla 2011 – greinasvið 2013. (2013). Reykjavík: Mennta- og menningarmálaráðuneytið.
Berger, J. (1972). Ways of seeing. London: Penguin.
Csíkszentmihályi, M. (1990). Flow: the psychology of optimal experience. New York: Harper Perennial.
Einar Falur Ingólfsson. (2013, 7. apríl). „Þetta er skráning á minni tilveru“ Morgunblaðið, Sótt af: https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1461179/
Goffman, E. (1959). The presentation of the self in everyday life. New York: Anchor Books.
Harpa Árnadóttir. (2011). Júní. Reykjavík: Crymogea.
Rúrí. (1983). Regnbogi 1. Heimasíða listamanns https://ruri.is/is/2011/10/18/regnbogi-i/
Schechner, R. (2002). Fundamentals of performance studies (formáli). Í N. Stucky og C. Wimmer (ritstjórar), Teaching Performance Studies (bls. ix–xii). Carbondale: Southern Illinois University Press.
Sigrún Alba Sigurðardóttir. (2016). Tíð/Hvörf [sýningaskrá] Listasafn Árnesinga.
Tumi Magnússon. (2015). http://www.tumimagnusson.com/largo-presto/