Tímans tönn

STUTT LÝSING

Verkefnið byggir á rannsókn nemenda á varanleika og hverfulleika í tengslum við rannsókn á tímanum.

MARKMIÐ

 • vekja nemendur til meðvitundar um varanleika hluta og hverfulleika tilverunnar.
 • þróa með nemendum tilfinningu fyrir því hvernig tíminn hefur áhrif á meðvitund okkar um varanleika og hverfulleika.
 • nemendur geti tjáð skynjun sína á varanleika og hverfulleika í listaverki.

HÆFNIVIÐMIÐ

Verkefnið stuðlar að því að við lok 7. bekkjar geti nemandi …

 • notað mismunandi efni, verkfæri og miðla á skipulagðan hátt í eigin sköpun (bls. 148 – hæfniviðmið fyrir sjónlistir)
 • nýtt sér grunnþætti myndlistar í eigin sköpun (bls. 149 – hæfniviðmið fyrir sjónlistir)
 • tjáð skoðanir eða tilfinningar í eigin sköpun með tengingu við eigin reynslu (bls. 149 – hæfniviðmið fyrir sjónlistir)
 • unnið hugmynd frá skissu að lokaverki bæði fyrir tví- og þrívíð verk (bls. 149 – hæfniviðmið fyrir sjónlistir)
 • byggt eigin listsköpun á hugmyndavinnu tengdri ímyndun, rannsóknum og reynslu (bls. 149 – hæfniviðmið fyrir sjónlistir)
 • beitt hugtökum og heitum sem tengjast aðferðum verkefna hverju sinni (bls. 149 – hæfniviðmið fyrir sjónlistir)
 • fjallað um eigin verk og verk annarra í virku samtali við aðra nemendur (bls. 149 – hæfniviðmið fyrir sjónlistir)
 • útskýrt og sýnt vinnuferli sem felur í sér þróun frá hugmynd til afurðar (bls. 142 – sameiginleg hæfniviðmið fyrir list- og verkgreinar)
 • hagnýtt leikni og þekkingu sem hann hefur öðlast til að takast á við fjölbreytt viðfangsefni (bls. 142 – sameiginleg hæfniviðmið fyrir list- og verkgreinar)
 • tekið tillit til annarra í hópvinnu og sýnt frumkvæði (bls. 142 – sameiginleg hæfniviðmið fyrir list- og verkgreinar)
 • haft sjálfbærni að leiðarljósi í vinnu sinni (bls. 142 – sameiginleg hæfniviðmið fyrir list- og verkgreinar)
 • beitt helstu tækni sem námsgreinin býr yfir (bls. 142 – sameiginleg hæfniviðmið fyrir list- og verkgreinar)
 • gert grein fyrir helstu hugtökum sem tengjast viðfangsefni hans (bls. 142 – sameiginleg hæfniviðmið fyrir list- og verkgreinar)
 • sýnt ábyrga og örugga umgengni við vinnu og frágang á vinnusvæði (bls. 142 – sameiginleg hæfniviðmið fyrir list- og verkgreinar)
 • lagt mat á eigin verk og sýnt skilning á vönduðum vinnubrögðum (bls. 142 – sameiginleg hæfniviðmið fyrir list- og verkgreinar)
 • hvaðeina sem hentar sköpunarkrafti nemenda og kennari hefur handbært

Varanleiki – hverfulleiki

Allt breytist með tímanum, hlutir koma og fara. Sumarið líður hjá og eftir situr tilfinning eða minning. Þrátt fyrir hverfulleikann þá er ákveðinn varanleiki til staðar. Þó sumarið líði hjá og öll ævintýri þess hverfi í þoku minninganna að hausti, þá býr sumarið sem fyrirbæri yfir varanlegum eiginleikum sem gera það að verkum að við þekkjum sumarið frá öðrum árstíðum jafnvel þótt um sé að ræða splunkunýtt sumar.

KVEIKJA

Getið þið hugsað beint á blað?

Listakonan Harpa Árnadóttir (1965) skrifaði hugleiðingar um það sem fyrir augu bar þegar hún dvaldist á Bæ á Höfðaströnd árið 2011. Hún skrifaði þær í litlar minnisbækur og málaði vatnslitamyndir upp úr reynslu sinni. Bókin samanstendur af textabrotum og myndum, texti sem oft er í raun mynd. Harpa segir um bókina:

„Þetta eru persónulegar og hversdagslegar hugleiðingar sem endurspegla augnablik sem ég upplifði og minningar sem streyma fram. Svona eins og að hugsa beint á blöðin. Það má kannski segja að þetta sé tilraun til að fanga andblæ sumarsins, ilm, birtu og veðrabrigði, að lýsa hverfandi andrá; hvernig maður upplifir augnablikið og rennur saman við það. Þetta snýst um að lifa í núinu og að njóta þess.“ (Harpa Árnadóttir, 2011, bls. ??)

Harpa gaf út bók um þessa reynslu sína sem nefnist Júní og er nátengt sýningu hennar Mýrarljós. Báðar byggja þær á dagbókarbrotum Hörpu frá því hún dvaldist á Höfðaströnd þetta sumar. Leitarorð: Harpa Árnadóttir Júní

Hvernig lítur tíminn út?

William Kentridge (1955) er listamaður frá Suður Afríku. Í verkum sínum vinnur hann með marga ólíka miðla og blandar þeim oft saman. Í verkinu Refusal of Time (2012) veltir hann fyrir sér hvernig tíminn lítur út. Leitarorð: William Kentridge Refusal of Time

VINNUSTOFA

Tíminn

ALDUR

Miðstig

GRUNNÞÆTTIR

Læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti, sköpun.

ÞVERFAGLEG TENGING

Íslenska: Nemendur skrifa handrit að stillukvikmynd. Nákvæm handritsvinna er mikilvæg í þessu samhengi. Einnig eru nokkrar smásögur eftir Gyrði Elíasson sem virðast gerast samtímis í tveimur tímaskeiðum. 

Samfélagsfræði: Rannsaka hvernig menningarminjar og mannvistarleifar hverfa og renna saman við umhverfið. Hlutir sem eitt sinn stóðu traustum fótum eru nú rústir einar. Þetta má einnig ræða í samhengi við menningarsögu og viðhorf sem hafa breyst í tímans rás.

Náttúrufræði: Setja aldur jarðlaga og nánasta umhverfis í samhengi við þann stutta tíma sem við höfum verið á Jörðinni. Hvers vegna fjöllin eyðast ekki hraðar, á meðan sumt annað í umhverfi okkar virðist brotna hratt niður.

Textílmennt: Tíminn er mikilvægt atriði þegar um er að ræða sköpun, t.d. við vefnað eða prjón.

FJÖLDI KENNSLUSTUNDA

8 x 40 mínútur (gætu orðið 10 x 40 mínútur)

EFNI OG ÁHÖLD
 • myndavél (snjallsími, spjaldtölva)
 • tölva
 • hugbúnaður til að vinna hreyfimynd (e. stop motion)
 • þrífótur 
 • kennslumyndband um hreyfimyndagerð t.d. https://www.wikihow.com/Create-a-Stop-Motion-Animation
 • fundnir hlutir úr umhverfinu
 • plastleir til að búa til persónur
 • pappír
 • litir 
 • hvaðeina sem hentar sköpunarkrafti nemenda og kennari hefur handbært
LISTAMENN / HÖNNUN

Harpa Árnadóttir
William Kentridge

VERKEFNIÐ

Kennslustund 1–2


Kennari kynnir markmið og hugmyndir verkefnisins og sýnir nemendum verk eftir valda listamenn. Kennari ræðir við nemendur um varanleika hluta og hverfulleika alls sem er. Nemendur velta því fyrir sér í hverju varanleiki felst; hvað einkennir hluti sem eru varanlegir? Hvað eiga þeir sameiginlegt? Sama er uppi á teningnum hvað varðar hverfulleikann. Mikilvægt er að ræða við nemendur um bæði varanleika og hverfulleika efnislegra hluta sem og óefniskenndra hluta á borð við tilfinningar og hugsanir. Nemendur vinna saman að hugarkorti í 3–4 manna hópum út frá hugtökunum varanleiki/hverfulleiki og hvernig tímans tönn vinnur á öllu. Nemendur skrá niður hvað þeim sýnist vera varanlegt – hvernig tímans tönn vinnur ekki á hlutnum – og síðan hvað teljist vera hverfult. Þeir byrja að gera handrit að hreyfimyndar verkefni. Til dæmis með því að vinna frumgerð (e. prototype).

Kennslustund 3–4


Hreyfimyndagerð er hægfara tækni sem krefst nákvæmni en laun erfiðisins eru oft ríkuleg. Kennari sýnir nemendum stutt kynningarmyndband um hvernig hreyfimynd er unnin. Nemendur byrja að skipuleggja vinnuna, en góður undirbúningur er afar mikilvægur, þeir setja upp svið fyrir hreyfimyndina og hefja framkvæmd hugmynda sinna.

Kennslustund 5–6


Nemendur vinna áfram að hreyfimyndum sínum en eins og áður segir er slík vinna afar tímafrek.

Kennslustund 7–8


Kennari kynnir fyrir nemendum hverju hljóð og/eða tónlist getur bætt við verkefnið. Nemendur klára tökur og vinna hljóð fyrir verkið. Þeir kynna myndirnar sínar hver fyrir öðrum. Myndirnar eru líka sýndar t.d. á bekkjarkvöldi eða á heimasíðu skólans. Hugsanlegt er að það þurfi að gefa verkefninu meiri tíma en hér er lagt upp með. Það er í höndum hvers kennara að skipuleggja verkefnið með hliðsjón af umfangi þess.