Áslaug Jónsdóttir, Handbók í útilegu (how to do it), 2007.
Vefsíða

UM AÐFERÐINA

Munurinn á bók og bókverki er ekki alltaf augljós. Segja má að bók sé umgjörð eða form sem inniheldur sögur, frásagnir eða upplýsingar á meðan bókverk er myndlistarverk í bókarformi þar sem bókin er sjálft verkið og formið órjúfanlegur hluti af hugmynd verksins. Bóklist getur sameinað mismunandi listform og verið á mörkum hefðbundinna bóka og bókverka og brotið upp hefðbundnar hugmyndir manna um prentlist og myndlist.

Aðferðir við bókagerð eru margvíslegar, það geta verið pappírsbrot, klippitækni og skurður, textílaðferðir, málun og teikning, þrykkaðferðir og margar greinar þrívíðrar sköpunar og höggmyndalistar. Verkin geta verið óvenjuleg að lögun, síðurnar skornar eða gataðar, efniviðurinn óhefðbundinn og jafnvel haft ákveðna lykt. Bókverkin innihalda myndir, texta eða hvort tveggja sem er hluti af formi og hugmyndalegu markmiði verksins og enn önnur hafa ekkert innihald nema hugmyndina sjálfa og formið sem í því felst. Verkin eru oftast unnin og gefið út af listamanninum sjálfum eða litlum forlögum sem sérhæfa sig í gerð bókverka. Margir listamenn hafa gert frumlegar og skemmtilegar tilraunir með bókarformið og teygt og togað mörk þess. 

Tengsl bóka og myndlistar eiga sér langa sögu sem kemur helst fram í skreytingum og myndlýsingum í bland við texta. Bækur voru þá gjarnan metnar eftir útliti, hvernig þær voru skreyttar eða búnar eins og til dæmis íslensku skinnbækurnar og handritalýsingar fyrr á öldum.[1] Það var þó ekki fyrr en á 19. öld sem menn fóru að tengja bókarformið við hugmynd verksins. Þetta kom fram í tilraunum skálda og myndlistarmanna með letur, leturstærðir og uppsetningu bókanna.
[1] Gunnar Harðarson, Smásmíðar, Tilraunir um bóklist og myndmenntir, „Trönurnar fljúga“, Bjartur 1998, 14

Fyrstu tilraunir með bóklist má rekja til fútúrista á Ítalíu og Rússlandi á öðrum áratug tuttugustu aldar en þeir vildu meðal annars leysa tungumálið undan ofurvaldi bókmenntahefðarinnar. Þeir myndskreyttu með orðum og bókstöfum frekar en að nota merkingarbæran texta, léku sér með orðin sem þeir stækkuðu og minnkuðu á víxl og röðuðu á síðurnar þannig að þau mynduðu ákveðin form. Efnið var svo gefið út handskrifað eða prentað.[1] Á sjötta og sjöunda áratug tuttugustu aldar má segja að bókverk verði að sjálfstæðum listmiðli og stór þáttur í starfsemi flúxushreyfingarinnar enda féllu vinnubrögð bóklistarinnar vel að hugmyndafræði flúxuslistamanna.
[1] Jón Gunnar Þorsteinsson. „Hvað var rússneski fútúrisminn?“ Vísindavefurinn, 12. febrúar 2008. Sótt 11. nóvember 2022. http://visindavefur.is/svar.php?id=7062

flúxus (úr lat. fluxus flæði) (Íslenska alfræðiorðabókin)
óformleg, alþjóðleg hreyfing fjöllistamanna; hafði sig mest í frammi í Bandaríkjunum, Japan og V-Evrópu um 1960. Í uppákomum flúxusmanna fóru saman þættir úr tónlist, leiklist, myndlist og kvikmyndum. Á Íslandi gætti áhrifa frá flúxus í myndverkum SÚM áhangenda 1965-'70 þ.á.m. Dieter Roth, Þórðar Ben Sveinssonar og Sigurðar og Kristjáns Guðmundssona.

oplist, optísk list (Íslensk alfræðiorðabók)
listastefna sem kom fram upp úr 1960. Í oplist er lögð áhersla á að kalla fram sjónvillu hjá áhorfendum með flóknu samspili óhlutbundinna forma eða munstra. Meðal þeirra listamanna sem sérhæfðu sig í oplist voru Victor Vasarely, Bridget Riley og Jesus Raphael Soto. Á Íslandi gerðu Dieter Roth og Eyborg Guðmundsdóttir verk í anda oplistar.

Dieter Roth, kinderbuch, 32 x 32,3 cm, 1957.
Listasafn Íslands:  LÍ 8909

Þýsk-svissneski myndlistarmaðurinn Dieter Roth (19301998) var einn af frumkvöðlum bókverkagerðar í heiminum. Hann lærði grafíska hönnun og prenttækni í Bern í Sviss. Hann settist að á Íslandi árið 1957 og flutti með sér nýja strauma inn í íslenskt listalíf og hafði mikil áhrif hér á landi. Með fyrstu bókverkum Dieters, sem hann vann á 6. áratugnum, ruddi hann brautina fyrir bókverkagerð íslenskra listamanna. Kinderbuch eða barnabók er eitt af fyrstu bókverkum hans.

Með því að klippa saman hreina litafleti og form skapast ákveðin sjónhverfingaráhrif í anda oplistar þegar bókinni er flett.

Dieter klippti einnig niður teiknimyndasögur úr dagblöðum og setti myndirnar saman svo þær mynda litla, þykka bók. Þannig verður til einskonar endurgerð teiknimyndasagnanna og ný saga verður til. Dieter gerði fjölda dagbóka undir áhrifum frá flúxus hreyfingunni sem hafði það að markmiði að afmá mörkin milli lífs og listar. Hann kannaði rými bókarinnar og gerði ýmiss konar tilraunir með tungumálið og hlutverk þess.

Magnús Pálsson (1929) sem aðallega hefur fengist við skúlptúrverk undir merkjum flúxuslistar, gerði fyrsta bókverk sitt Pappírsást árið 1966.

Magnús gerði fjögur eintök af verkinu sem hvert um sig er tilbrigði við sömu hugmynd og byggist á því að móta blaðsíðurnar eftir ákveðnu kerfi sem byggist á endurtekningu. Hugmyndir Magnúsar í bókagerð virðast takmarkalausar. Hann gerði til dæmis skúlptúrbókina Automobil árið 1970 sem er gerð úr bíldekki og slöngu sem skorin eru í tvennt. Hjólbarðinn myndar kápu bókarinnar og slöngubútarnir blaðsíður.

Á árunum 1979–1980 hélt Magnús námskeið í bókagerð í fjöltæknideild Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Þar vann hann ásamt ellefu nemendum sínum bókverkið Bók um bók og fleira. „Hugmyndin var að skilgreina bók í samræðuformi og reyna að komast að niðurstöðu um hvað væri bók og hvað ekki. Hvaða eiginleika þarf hlutur að hafa til þess að geta kallast bók?“ segir í inngangi bókarinnar. Þar segir líka: „Þessi bók hefur breyst gífurlega frá því að við byrjuðum á henni og það hafði í raun enginn gert sér grein fyrir því að við værum virkilega að búa til bók fyrr en á lokastigum gerðar hennar. Hún eins og seytlaði í gegn um hendurnar á okkur. Hálfgerð flúxusbók.“[1] Nemendurnir skrifuðu greinar og myndskreyttu verkið og þar eru meðal annars þessar útskýringar: „Kjölur er hverfiás sem heldur saman síðum. Síða er hreyfanlegur flötur. Upplýsingar eru vitneskja sem hlutur gefur um annað en sitt eigið form, ástand eða eðli. Flettanleiki. Flytjanleiki er að færa hlut úr stað án þess að losa hann í sundur.“[2]
[1] Bók um bók og fleira.
[2] Sama heimild

Magnús Pálsson, Pappírsást I, 29 x 55 cm, 1966.
Listasafn Íslands: LÍ 4791

Kristján Guðmundsson: Punktar í ljóðum Halldórs Laxness, 18 x 15 x 0,3 cm, 1972.
Listasafn Íslands: LÍ 8766

Kristján Guðmundsson (1941) er þekktur fyrir fjölbreytt verk sem hann vinnur í anda hugmyndalistar. Bókverk hans eiga það sameiginlegt að varpa nýju ljósi á bókina sem grip, inntak hennar og form. Skrásetning tímans og myndgerð hugmynda í ýmsum formum einkenna verk hans. Bókverkið Punktar í ljóðum Halldórs Laxness frá 1972 sýnir eins og nafnið bendir til punkta úr ljóðasafni Halldórs sem hafa verið ljósmyndaðir og stækkaðir upp. Á hverri síðu er einn punktur eða stór óreglulega lagaður, hringlaga flötur sem fyllir síðuna. Í verkinu leikur Kristján með margræðni tungumálsins þar sem orðið punktur getur haft ólíka merkingu í íslensku. Hann getur táknað lok setningar eða margföldunarmerki en orðið getur líka táknað athugasemd, minnispunkt eða tímapunkt. [1] Verkið felur í sér vísun í skáldskapinn þar sem allur textinn er samankominn í þessum eina punkti.
[1] Ólafur Gíslason, Hugrúnir, Tómið og fylling þess, „Yfirlitsgrein um myndlist Kristjáns Guðmundssonar,“ 2016. Sótt 13. nóv. 2018

Í bókverkinu Once around the Sun (1975–´76) myndgerir Kristján tímann sem það tekur Jörðina að fara eina umferð á braut sinni umhverfis sólu í tveimur bindum. Í fyrra bindinu eru 31.556.926 punktar þar sem hver punktur táknar eina sekúndu. En í síðara bindi verksins er vegalengdin sem Jörðin ferðast á hverri sekúndu mæld með línum sem mælast 29.771 metrar á 720 blaðsíðum.[1] Kristján blandar þannig saman list og vísindum með aðferðum táknmálsins.[2]
[1] Dagný Heiðdal, Halldór Björn Runólfsson, Laufey Helgadóttir, Íslensk listasaga, IV, Forlagið, Listasafn Íslands, 2011, 177
[2] Ólafur Gíslason, Hugrúnir

Kristján Guðmundsson, Once around the Sun, 27 x 27 x 4 cm, 1975–1976.
Listasafn Íslands: LÍ 8771

Niels Hafstein, bókverk, 17 x 17 cm, 1975.
Úr safni Nýlistasafnsins / Collection of The Living Art Museum: N 3143

Niels Hafstein (1947) var einn af upphafsmönnum Nýlistasafnsins en þar var haldin fyrsta sýning á bóklist á Íslandi árið 1981. Á sýningunni voru bækur eftir yfir hundrað listamenn, íslenska og erlenda. Flestar bækurnar voru gerðar af ungum listamönnum sem höfðu verið við nám í myndlist í Hollandi en þar hafði bóklistin sterkar rætur. Formrænar rannsóknir af ýmsu tagi eru aðalinntak í mörgum verka Níelsar sem hann vinnur í fjölbreytta miðla í anda hugmyndalistar. Bókverk Níelsar frá 1975 er samsett úr 12 bókum sem settar eru saman af kjölum á tvo vegu sem gerir það að verkum að ekki er hægt að flétta þeim. Þarna er áherslan lögð á liti og formfræði í bókarformi frekar en innihaldið sjálft.

Bókverk Guðrúnar Erlu Geirsdóttur, Gerlu (1951), er nefnist Veðrað tau, brennt tau, þvegið tau hefur skírskotun í textíllist. Gerla lærði listrænan textíl og búningahönnun í Hollandi á áttunda áratug tuttugustu aldar. Verkið samanstendur af þremur mismunandi bókum. Þær innihalda nöfn á efnum sem skrifuð eru á gegnsæjan pappír, t.d. baðmull, hör, ull og sex efnisbútum sem hafa verið viðraðir utandyra. Kápan er úr gráum spjöldum sem eru bundin saman með snæri. Verkið vísar í hefðbundin heimilisstörf sem í gegnum tíðina hafa einkum verið unnin af konum eins og að þvo þvott og viðra en Gerla hefur verið ötul baráttukona fyrir kvenréttindum og kvenfrelsi sem kemur gjarnan fram í verkum hennar.

Gerla, Veðrað tau/Brennt tau/Þvegið tau, 14 x 25 x 1 cm, 1979.
Listasafn Íslands: LÍ 11639

Helgi Þorgils Friðjónsson, Dagbók, 21 x 15 x 1 cm, 1981.
Listasafn Íslands: Lí 8745

Helgi Þorgils Friðjónsson (1955) hefur gert mörg bókverk samhliða málverki og annarri listsköpun. Bókverk hans Dagbók frá 1981 er byggð upp af skissum og ýmiss konar rissi en það er einmitt það sem einkennir margar bækur Helga Þorgils. Mannverum og kynjaverum í alls kyns vandræðalegum aðstæðum bregður oft fyrir í bókunum sem tengjast þannig viðfangsefnum málverka hans. Sögur og textar sem hafa tilvísun í teiknimyndasögur koma líka víða fyrir í bókverkunum.[1]
[1] Gunnar Harðarson, 33

Rúrí (1951) sem er þekkt fyrir gjörninga, stórar innsetningar og skúlptúra hefur líka unnið bókverk. Bókverk hennar Heild (1983) er 18 blaðsíður og samanstendur af gegnsæjum pappírsstafla. Eitt orð er prentað á hvert blað. Kápan er gerð úr þykkum hvítum vatnslitapappír sem hefur verið brotinn eins og mappa og síðan er bundið utan um með bandi.

Heild, copyright Rúrí

Rúrí, Heild, 11,3 x 15,2 x 0,7 cm, 1983.
Úr safni Nýlistasafnsins / Collection of The Living Art Museum: N-3050

Þorvaldur Þorsteinsson, Án titils, 14,2 x 10,2 cm, 1991.
Listasafn Íslands: LÍ 8833

Í nafnlausu bókverki eftir Þorvald Þorsteinsson (1960–2013) frá 1991 eru síðurnar auðar fyrir utan fyrstu síðu þar sem er mynd af strák á hlaupum og á öftustu síðu er mynd af stelpu á hlaupum. Bókin sem er 16 síður er gott dæmi um þann leik sem oft fylgir bóklistinni.

Bókin Haltu áfram Ísland (2007) eftir Unnar Örn Auðarson (1974) er 124 blaðsíður og inniheldur ýmislegt efni sem hann hefur safnað saman frá listaháskólanemum og endurspeglar hugðarefni þeirra. Verk hans byggjast á skrásetningum ólíkra þátta sem tengjast tilvist mannsins, sögu og lífsbaráttu.

Unnar Örn Auðarson, Haltu áfram Ísland, 29,1 x 21 x 1,4 cm, 2007.
Úr safni Nýlistasafnsins / Collection of The Living Art Museum: N-3162

Í verki sínu 24 rúnaljóð (1992) túlkar Brynja Baldursdóttir (1964) fornt rúnaletur á myndrænan hátt með texta og myndum. Bókin er hálfhringur en myndar heilan hring þegar hún opnast. Kápa bókarinnar er gerð úr þykkum zinkplötum en textinn er úr rúnaljóðum sem túlkuð eru með mynd af rúnaletri. Verkið er gott dæmi um bræðing listgreina en þar tvinnast saman saga, bókmenntir, hönnun og myndlist.

Mynd: Brynja Baldursdóttir, 24 Rúnaljóð, 29,4 x 26 x 2,2 cm, 1992.
Hafnarborg: Hb 819

Ragnhildur Jóhanns (1977) er einn þeirra myndlistarmanna sem fæst við gerð bókverka. Uppistaða bókverka hennar eru gamlar bækur af ýmsu tagi sem hún umbyltir og gerir að sínum með margs konar aðferðum. Í verkinu Varir opnast í ákveðin kynjahljóð (2016) er skorið í blaðsíðurnar og ákveðnar línur látnar standa út svo útkoman verður ljóðræn, eins konar myndljóð í þrívíðu formi.

Ragnhildur Jóhanns, Varir opnast í ákveðin kynjahljóð, 2016.
Vefsíða

Margir listamenn vinna bókverk samhliða öðrum miðlum myndlistar eins og komið hefur fram, enda gefa bókverk aðra möguleika tjáningar og sköpunar en hefðbundnir listmiðlar. Bókverkið má yfirleitt handfjatla sem gefur verkinu persónulega upplifun sem skapast af áferð efniviðarins, letrinu, stærð og þyngd.

Í listahópnum Arkir sem hefur starfað á Íslandi frá árinu 1998 eru listamenn, allt konur, sem sinna margvíslegri listsköpun, t.d. málun, grafík, textíl, hönnun og ritsmíðum en sameiginlegur áhugi á bóklist sem listformi leiddi þær saman. Hópurinn hefur haldið fjölda sýninga og tekið þátt í samsýningum bæði hér á landi og erlendis.

Áslaug Jónsdóttir, Handbók í útilegu (how to do it), 2007.
Vefsíða

Ein þeirra er Áslaug Jónsdóttir (1963) en hún starfar sem rithöfundur, myndlýsir, grafískur hönnuður auk þess að gera bókverk. Í verkum sínum blandar hún saman handverki, skúlptúr og stökum á fjölbreyttan hátt. Í bókverkinu Handbók í útilegu (2007) er leikið með form bókarinnar. Bók með titlinum „How to do it“ sem hefur verið snúið á hvolf eins og tjaldi sem er stagað niður í grænan gróðursælan reit. Heiti bókarinnar í verkinu snýr skemmtilega upp á framsetninguna.

Annar félagi í hópnum, Ingiríður Óðinsdóttir (1960), vinnur aðallega textílverk auk bókverka. Í verkinu Snjókoma I (2010) myndgerir hún orð sem notuð eru um veðurfar á lítil, flettanleg blöð sem komið hefur verið fyrir í tösku auk orðskýringa. Taskan gegnir hlutverki bókarkjalar og hana má opna og loka.

Árið 2016 var stofnaður vefur sem nefnist Dulkápan en markmiðið með honum er að miðla, varðveita og veita upplýsingar um bókverk, gera þau aðgengileg og standa að útgáfu þeirra. Þar er að finna gott yfirlit yfir bókverk á Íslandi.

Ingiríður Óðinsdóttir, Snjókoma I, 2010.
Vefsíða

Verkefni

Verkefni