ANNARS STIGS LITIR

MARKMIÐ – ÁHERSLA

Nemendur:

  • vinni myndræna frásögn úr nánasta umhverfi, upplifunum og ímyndunum með því að nota á fjölbreytilegan hátt viðeigandi efni, verkfæri og tækni
  • þekki muninn á grunnformum og náttúrulegum formum
  • fjalli um hvaða gildi myndverk getur haft fyrir hvern og einn
  • lýsi myndverki og skoðun sinni á því
  • læri að teikna afmörkuð form og teikna stórt og skýrt
  • læri að lita og fylla upp í fleti
  • læri vönduð vinnubrögð

HÆFNIVIÐMIÐ

Sameiginleg hæfniviðmið fyrir list- og verkgreinar

Við lok 4. bekkjar getur nemandi t.d.:

  • unnið eftir einföldu ferli frá hugmynd til afurðar,
  • hagnýtt þá leikni sem hann hefur öðlast í einföldum verkefnum,
  • tjáð sig á einfaldan hátt um viðfangsefni sitt,
  • gengið frá eftir vinnu sína,
  • lagt mat á eigin verk.

Hæfniviðmið fyrir sjónlistir

Við lok 4. bekkjar getur nemandi t.d.:

  • nýtt sér í eigin sköpun einfaldar útfærslur sem byggja á færni í meðferð lita- og formfræði og myndbyggingar,
  • skapað myndverk í ýmsum tilgangi með margvíslegum aðferðum,
  • útskýrt og sýnt vinnuferli sem felur í sér þróun frá hugmynd að myndverki.

 

Hæfniviðmið fyrir heimilisfræði

Við lok 4. bekkjar getur nemandi t.d.:

  • valið hollan mat og útskýrt áhrif hans á líkama og líðan,

KVEIKJA

Nemendur skoða hluti sem eru í frumlitum, þau skoða og ræða um litina. Velta fyrir sér af hverju þeir heiti frumlitir og á hvaða hátt þeir séu ólíkir öðrum litum.

 

Síðan eru sýndir hlutir í annars stigs litum og rætt um að hægt sé að fá fram litinn á þeim hverjum fyrir sig með því að blanda saman tveimur af frumlitunum. Nemendur eru hvattir til að segja frá hvernig þau telji að blanda eigi grænan, appelsínugulan og fjólubláan lit. Að því loknu er verkferlið framundan útskýrt fyrir nemendum.

FRAMKVÆMD

Hægt er að láta nemendur vinna verkefnið á marga vegu, allt eftir aðstæðum og nemendahóp. Hér eru dæmi um tvær útfærslur.

 

Teikna fyrst og mála svo … (stöðvavinna)
Nemendur teikna ávexti og grænmeti á A3 blað og þau minnt á að teikna stórt og fylla vel út í blaðið. Til hagræðingar geta þau skipt blaðinu í 6 hólf, eitt fyrir hvern lit. Þegar þau hafa lokið við að teikna er nemendum skipt í þrjá hópa sem hver um sig fær einn frumlit. Nemendur mála þá ávexti og grænmeti sem eru í frumlitunum og færa sig á milli borða. Að því loknu fær hver hópur frumlit nr. 2 þannig að t.d. guli hópurinn blandar appelsínugulan, rauði hópurinn blandar fjólubláan og blái hópurinn blandar grænan. Síðan færa þau sig á milli á sama hátt og áður og klára að mála hlutina á sínu blaði. Þegar myndirnar eru þurrar klippa nemendur út ávextina og grænmetið og raða því upp í sex lita hring á karton í hlutlausum lit. Best er að segja nemendum að líma ekki fyrr en þau eru búin að raða öllum formunum og láta kennarann fara yfir.

 

Mála fyrst og teikna svo … (hópavinna)
Byrjað er á að skipta nemendum í þrjá hópa sem hver um sig fær einn frumlit. Nemendur mála heilt A3 blað með sínum lit. Að því loknu fær hver hópur frumlit nr. 2 þannig að t.d. guli hópurinn blandar appelsínugulan, rauði hópurinn fjólubláan og blái hópurinn grænan. Aftur mála nemendur heilt A3 blað. Þegar máluðu blöðin eru orðin þurr eru þau skorin niður þannig að hver nemandi fær 6 arkir (u.þ.b. A6-A5); 3 frumliti og 3 annars stigs liti. Nemendur teikna 2-3 ávexti á bakhlið blaðsins (muna að nýta blaðið vel), klippa út og raða þeim upp í sex lita hring á karton í hlutlausum lit. Best er að segja nemendum að líma ekki fyrr en þau eru búin að raða formunum og láta kennarann fara yfir.

UMRÆÐUSPURNINGAR

Hvaða litir eru frumlitir?

Hvaða ávextir og grænmeti eru í frumlitum?

ALDUR

Yngsta stig

GRUNNÞÆTTIR

Læsi, sköpun

FJÖLDI KENNSLUSTUNDA

2-3 x 80 mínútur

ÞVERFAGLEG TENGING

T.d. samþættingarverkefni sjónlista og heimilisfræði

EFNI OG ÁHÖLD

Litahringur til útprentunar (ef vill)
A3 karton hvítt
A3 karton í hlutlausum lit (skorið í ferning)
Blýantar (og strokleður ef þarf)
Þekjulitir í frumlitum
Penslar (stærð fer eftir útfærslu)
Málningarbakkar

HUGTÖK

annars stigs litir
frumlitir
litahringur

LISTAMENN

Að eigin vali

LISTASAGA

Að eigin vali

HÖFUNDUR

ⓒ Sigrún Ólafsdóttir
Menntamálastofnun 2022