Manneskja í rými

STUTT LÝSING

Nemendur velta fyrir sér hlutföllum í umhverfinu og vinna mynd af manneskju í ákveðnu rými.

HÆFNIVIÐMIÐ

Sameiginleg hæfniviðmið fyrir list- og verkgreinar

Við lok 7. bekkjar getur nemandi t.d.:

  • útskýrt og sýnt vinnuferli sem felur í sér þróun frá hugmynd til afurðar,
  • hagnýtt leikni og þekkingu sem hann hefur öðlast til að takast á við fjölbreytt viðfangsefni,
  • haft sjálfbærni að leiðarljósi í vinnu sinni,
  • gert grein fyrir menningarlegu hlutverki list- og verkgreina,
  • gert grein fyrir helstu hugtökum sem tengjast viðfangsefni hans,
  • sýnt ábyrga og örugga umgengni við vinnu og frágang á vinnusvæði,
  • lagt mat á eigin verk og sýnt skilning á vönduðum vinnubrögðum.

Hæfniviðmið fyrir sjónlistir

Við lok 7. bekkjar getur nemandi t.d.:

  • notað mismunandi efni, verkfæri og miðla á skipulagðan hátt í eigin sköpun,
  • nýtt sér grunnþætti myndlistar í eigin sköpun,
  • unnið hugmynd frá skissu að lokaverki bæði fyrir tví- og þrívíð verk,
  • byggt eigin listsköpun á hugmyndavinnu tengdri ímyndun, rannsóknum og reynslu,
  • beitt hugtökum og heitum sem tengjast aðferðum verkefna hverju sinni,
  • fjallað um eigin verk og verk annarra í virku samtali við aðra nemendur,
  • greint og fjallað um áhrif myndmáls í umhverfinu og samfélaginu.

Hæfniviðmið fyrir stærðfræði

Við lok 7. bekkjar getur nemandi t.d.:

Tölur og reikningur

  • skráð hlutföll og brot á ólíka vegu.

Kveikja

Sýnið nemendum mynddæmi af landslagi og rifjið upp það sem þau kunna í sambandi við fjarvídd og dýpt, s.s. sjóndeildarhring, hvarfpunkt, forgrunn, miðrými, bakgrunn, rýmissköpun með stærðarhlutföllum, skörun, litun o.fl.

Skoðið t.d. þessi verk og ræðið hvernig atriðin hér að framan birtast í myndunum:

  • Self-Portrait (1630) eftir Judith Leyster
  • A Sunday Afternoon on the Island of La Grande Jatte (1884) eftir Georges Seurat
  • South Beach Bathers (1907-08) eftir John Sloan

Framkvæmd

Nemendur blaða í gegnum tímarit og velja sér myndir af manneskjum og hlutum og klippa út. Þau ákveða síðan hvar og í hvers konar umhverfi manneskjurnar eiga að vera. Umhverfið teikna þau á stórt blað. Á umhverfismyndinni á að koma fram sjónhæðarlína og hvarfpunktur. Úrklippunum er síðan raðað umhverfis myndina þannig að staðsetning, stærðarhlutföll og skaranir mynda trúverðuga heild og rýmistilfinningu. Áður en úrklippurnar eru límdar á umhverfisteikninguna er hún lituð og/eða máluð og þá þarf að hafa í huga áhrif lita á rýmissköpun.

Gott er að geyma úrklippurnar á milli tíma, t.d. í plastumslögum.

UMRÆÐUSPURNINGAR

Hvað er það sem gefur mynd dýpt?

Í lok verkefnisins:
Hvað hafið þið lært af þessu verkefni?
Sýnir myndin dýpt þó hún sé á tvívíðum fleti? Ef ekki, hvað er hægt að gera til að svo verði? Ef svo er, hvað gerir það að verkum?
Er dæmi um skörun í myndinni sem gefur dýpt til kynna?

ÍTAREFNI

Leitarorð: depth and perspective in art | landscapes in art | linear and aerial perspective | perspective drawing

Rými – veggspjald í myndmennt

Form – veggspjald í myndmennt

Litir – veggspjald í myndmennt

Kveikjur fyrir skapandi skólastarf

ALDUR

Unglingastig

GRUNNÞÆTTIR

Læsi, sköpun

FJÖLDI KENNSLUSTUNDA

2 x 80 mínútur

ÞVERFAGLEG TENGING

T.d. samþættingarverkefni sjónlista og stærðfræði

EFNI OG ÁHÖLD

blýantar (og strokleður ef þarf)
límstifti
pappír (ca. 32 x 45 cm eða A3)
skæri
tímarit og blöð
trélitir

HUGTÖK

bakgrunnur
dýpt
fjarvídd
forgrunnur
hlutföll
hvarfpunktur
miðrými
sjónhæðarlína
skörun

LISTAMENN

T.d. Georges Seurat, John Sloan

LISTASAGA

Að eigin vali

HÖFUNDUR

ⓒ Sigrún Ólafsdóttir
Menntamálastofnun 2022