BOLLI

STUTT LÝSING

Hver og einn nemandi hannar bolla út frá notagildi og ákveður hvernig hann á að vera skreyttur áður en farið er í að útbúa bollann úr leir.

HÆFNIVIÐMIÐ

Hæfniviðmið fyrir sjónlistir
Verkefnið stuðlar að því að við lok 7. bekkjar geti nemandi …
• gert grein fyrir margvíslegum tilgangi hönnunar.
Verkefnið stuðlar að því að við lok 10. bekkjar geti nemandi …
• túlkað hönnun með tilvísun í eigin reynslu, nærumhverfi, samtímann, siðfræði og fagurfræði. Jafnframt eiga þeir að geta gert grein fyrir margvíslegum tilgangi hönnunar.

KVEIKJA

Notið þið einhvern tíma bolla? Hvað haldið þið að til séu margir bollar heima hjá ykkur? Hvernig er
góður bolli? Þarf bolli kannski ekki að vera góður, er nóg að hann sé fallegur eða með skemmtilega
skreytingu? Notið þið bolla til að gera eitthvað annað en að drekka úr þeim, geymið þið kannski
penna og verkfæri í bollum?

KENNSLUSTUNDIR

Byrjað er á kveikju.
Um leið og farið er að hanna eða búa til bolla þarf að spá í hvernig hann virkar og huga þarf að eftirfarandi atriðum áður en ráðist er í gerð hans. Gott er að hafa nokkra bolla til að skoða með þessi atriði í huga og ræða þau.
• Hvað á hann að taka mikinn vökva?
• Situr hann vel eða er hann valtur?
• Er gott að halda á honum þegar maður drekkur?
• Er gott að drekka úr honum, rennur vökvinn vel úr honum?
Í þessu verkefni er miðað við bolla sem er af hentugri stærð og sem er þægilegur í vinnslu, hæð 9 cm og breidd 9 cm.
Þó kennari velji að láta nemendur spreyta sig á sama grunnforminu reynir samt á að huga að notagildi bollans og skreytingu hans. Reynst hefur vel að teikna skissur fyrir skreytingu þegar búið er að vinna bollann og er það gert í lýsingunni hér á eftir.

1.

Fyrst þarf að hafa tilbúinn hólk að þeirri stærð sem bollinn á að vera. Hann getur verið úr tré, pappír, gifsi, áli eða hrábrenndum leir. Snið úr pappír er búið til eftir hólknum.

2.

Sniðið fyrir aðalformið þarf að vera 1,5 cm lengra en hólkurinn.

Dæmi um snið fyrir bolla:
Pappírssniðið fyrir aðalformið hér er lengd 27,5 cm, breidd 9 cm.
Botnsniðið er 9 x 9 cm.
Sniðið fyrir hankann er 12 x 1,5 cm.

3.-4.

Leirplata er flött út og sniðið skorið út í leirinn. Sjá plötuaðferð bls. 34 í bókinni Leirmótun-keramik fyrir alla.

5.-6.

Skera þarf botn og hanka nákvæmlega eins og pappírssniðið.

7.

Leirplatan er lögð í kringum hólkinn, endunum þrýst vel saman og krafsað í samskeytin með gaffli.

8.

Jafna þarf samskeytin út með módelpinna eða sköfu þar til þau sjást ekki. Ef samskeytin skarast ekki er hægt að bæta það upp með því að líma mjóa leirslöngu meðfram þeim.

9.-10.

Næst þarf að draga hólkinn varlega út úr leirnum og leggja á spónaplötu. Gæta þarf þess að formið skekkist ekki. Sumir nemendur gætu þurft aðstoð við þetta.

11.-12.

Samskeytin eru líka jöfnuð út að innan og þá þarf að halda utanvert við formið svo það skekkist ekki.

13.-14.

Botninn er festur á með því að krafsa í hann og neðri brún aðalformsins með gaffli og leirlím, sjá bls. 27, síðan borið á.

15.

Aðalformið er nú sett þétt kringum botninn og þrýst vel utan frá allan hringinn.

Til að vera öruggur um að bollinn muni ekki leka er gott að þrýsta mjórri leirslöngu meðfram allan hringinn að innanverðu. Leirinn er jafnaður út með fingrunum eða módelpinna.

16.

Staðsetning hankans er mikilvæg. Það er hægt að „máta“ bollann með því að þykjast vera að drekka úr honum, án þess að reyna mikið á hankann.

17.

Þegar búið er að staðsetja hankann er krafsað í enda hans og í aðalformið þar sem samskeytin eiga að vera. Áður en hankinn er festur á (saumaður á) þarf að bera á hann smávegis af leirlími. Leirlímið sem stendur út af er slétt út með fingrum eða módelpinna. Til að tryggja festinguna má setja leirslöngu kringum samskeytin og jafna út með módelpinna og/eða fingrum.

18.

Ef brúnin er þykk þarf að þrýsta henni saman svo að hún mjókki því þá er auðveldara að drekka úr bollanum. Gæta þarf þess að hún verði samt ekki of hvöss.

19.

Til að tryggja að hankinn haldist vel á er ráðlagt að láta bollann þorna rólega í nokkra daga í dagblaðsörk og plastpoka. Gætið þess að loft komist hvergi að. Að lokum er hann látinn fullþorna á spónaplötu og því næst hrábrenndur, sjá bls. 42.

20.-21.

Þegar leirmótuninni eða hrábrennslu er lokið er hægt að snúa sér að skissum að skreytingu bollans og ákveða lit hans. Hins vegar ef það á að skera út í hann, eins og hér er gert, þarf að gera það áður en hann er hrábrenndur, m.ö.o. í hráan leirinn.

22.-23.

Eftir hrábrennslu var bollinn málaður með blágrænum leirlit, sjá bls. 45–47, og glerjaður með glærum pensilglerungi, sjá bls. 50.

24.

Hér er búið að brenna bollann við 1060 gráður C og réttir litir komnir fram. Hér má sjá samskonar bolla en hann er málaður með þunnum svörtum leirlit og glerjaður með því að dýfa í glæran glerung, sjá bls. 49.

UMRÆÐUSPURNINGAR

Hvaða lýsingarorð hafið þið yfir bollana ykkar?

Er gott að drekka úr þeim?

Hvernig bolla mynduð þið gera næst, ef þið ættuð aftur að búa til bolla?

ÍTAREFNI

Finna má meira efni með leitarorðunum: cup design | cup design clay

ALDUR

Miðstig

Unglingastig

 

GRUNNÞÆTTIR

Læsi, sjálfbærni og sköpun.

FJÖLDI KENNSLUSTUNDA

ca. 4 x 40 mínútur

ÞVERFAGLEG TENGING

Samþættingarverkefni sjónlista og t.d. heimilisfræði og hönnunar og smíði.

EFNI OG ÁHÖLD

500 g fíngerður leir og leirlím
blýantur
dagblaðsörk
gaffall
glær glerungur
leirlitir
módelpinni
pappír
penslar
plastpoki
prjónn til að skera með
reglustika
skæri
spónaplata, s.s. 30 x 30 cm

HUGTÖK

Glerungur

Hrábrennsla

Leirlitur

Leirlím

Pensilglerungur

Plötuaðferð

LISTAMENN

Að eigin vali

LISTASAGA

Að eigin vali

HÖFUNDUR

ⓒ Kristín Ísleifsdóttir
Menntamálastofnun 2022