ASKUR

STUTT LÝSING

Nemendur kynna sér sögu aska, hvernig þeir voru notaðir sem og form þeirra og mynstur. Þeir útbúa síðan sína eigin aska.

HÆFNIVIÐMIÐ

Hæfniviðmið fyrir sjónlistir
Við lok 7. bekkjar getur nemandi
• notað mismunandi efni, verkfæri og miðla á skipulagðan hátt í eigin sköpun
• unnið hugmynd frá skissu að lokaverki bæði fyrir tví- og þrívíð verk
• byggt eigin listsköpun á hugmyndavinnu tengdri ímyndun, rannsóknum og reynslu

Hæfniviðmið fyrir stærðfræði
Við lok 7. bekkjar getur nemandi
• rannsakað og sett fram talnamynstur á skipulegan hátt og unnið með regluleika í rúmfræði,
lýst mynstrum og venslum með tölum, myndum, orðum og á táknmáli algebrunnar
• speglað, snúið og hliðrað flatarmyndum við rannsóknir á mynstrum sem þekja flötinn

Hæfniviðmið fyrir samfélagsgreinar
Við lok 7. bekkjar getur nemandi
• aflað sér, metið og hagnýtt upplýsingar um menningar- og samfélagsmálefni í
margvíslegum gögnum
• dregið upp mynd af afmörkuðum efnisþáttum stórrar og smárrar sögu, nálægrar
eða fjarlægrar
• greint hvernig sagan birtist í textum og munum, hefðum og minningum

KVEIKJA

Vitið þið hvað er askur? Hann var um aldir helsta matarskál Íslendinga. Hann var úr tré með hanka
á hliðinni og útskornu loki. Lokið var þá oft notað fyrir kjötbita og slíkt en grautur eða annar
spónamatur hafður í skálinni sjálfri. Vitið þið af hverju Íslendingar fóru að borða úr aski? Vegna
kólnandi veðurfars færði heimilisfólkið sig úr framhúsum og inn í baðstofuna þar sem var hlýrra.
En hún varð því svefn-, vinnu- og dvalarstaður þess. Þá kom sér vel að vera með matarílát eins og
ask, því ekki var rými fyrir fast matarborð. Fólk borðaði úr öskunum á rúmi sínu en geymdi þá á
hillu ofan við þau á milli mála.

KENNSLUSTUND 1

Byrjað er á kveikju.
Nemendur skoða myndir af öskum, kynna sér sögu þeirra og hvernig þeir voru notaðir. Jafnframt skoða þeir vel form þeirra og mynstur. Gagnlegt er að kynna sér ýmsa mynsturgerð frá víkingatímanum, t.d. keltnesk dreka- og fléttumynstur, sjá ítarefni hér að neðan.
Að þessari athugun lokinni teikna nemendur og lita aska og fléttumynstur sem síðar verða ristuð í lok askanna þegar búið er að móta þá í leir. Útbúa má síðan myndir með því að klippa mynstrin út úr hvítum pappír og líma á svartan pappír.

KENNSLUSTUND 2-3

Nú færa nemendur verkefnið úr tvívídd í þrívídd með því að móta askana í leir. Huga þarf vel að hönnun asksins svo hægt verði að opna hann og loka. Byrjað er á að móta kúptan botn með fingraaðferð, sjá bls. 28 í bókinni Leirmótun- keramik fyrir alla. Hliðarveggir asksins eru mótaðir með slönguaðferð, sjá bls. 31 í sömu bók. Lokið er jafnframt mótað með slönguaðferð og vanda þarf vel til verka þannig að það falli vel að opi asksins.
Göt fyrir tvöfaldan blómavír þarf að gera á lok og ask en hann verður settur í eftir gljábrennslu. Þegar búið er að forma askinn og lokið, er mynstrið strax skorið út í leirinn meðan hann er blautur með viðarpinna eða oddhvössu verkfæri.
Askurinn er látinn þorna í a.m.k. viku, vafinn í dagblað í vel lokuðum plastpoka, þá er hann látinn þorna alveg á viðar- eða spónaplötu þar til hægt er að hrábrenna hann. Gott er að hafa dagblaðsörk undir lokinu í þurrkunarferlinu.

KENNSLUSTUND 4-5

Eftir hrábrennslu er askurinn og/eða lokið málað með pensilglerungi. Það er líka hægt að láta hann vera alveg óglerjaðan eða að hluta til glerjaðan, t.d. að hafa aðeins lokið glerjað. Pensilglerungar hæfa vel í þessari skreytingu/glerjun, sjá pensilglerungar bls. 50. Eftir gljábrennslu er tvöföldum blómavír stungið í gegnum götin til þess að halda lokinu á. Áður en vírinn er settur í gatið er hluta hans vafið upp á skaft á fínum pensli og þá virkar vafningurinn sem stoppari og vírinn rennur ekki úr gatinu, þegar askurinn er opnaður og lokaður.

KENNSLUSTUND 6

Í lokin kynna nemendur verk sín á sýningu eða kynningu í stofu og segja frá mynstrunum sem þeir völdu að vinna með. Á kynningu er lærdómsríkast að hafa bæði skissur, teikningar og askana.

UMRÆÐUSPURNINGAR

Hvað getið þið nú sagt mér um aska?
Gætuð þið hugsað ykkur að borða úr askinum ykkar?
Hvaða notagildi hefur askurinn ykkar í dag?

ÍTAREFNI

• Leitarorð á netinu eru t.d.: askur ílát | celtic design
Komdu og skoðaðu íslenska þjóðhætti. Sigrún Helgadóttir og Sólrún Harðardóttir. 2009.
• Sjá um mataráhöld og handverk á vef Menntamálastofnunar.
• Vísindavefurinn – leitarorð: höfðaletur

ALDUR

Miðstig

GRUNNÞÆTTIR

Heilbrigði og velferð, læsi, sjálfbærni og sköpun

FJÖLDI KENNSLUSTUNDA

6 x 40 mínútur

ÞVERFAGLEG TENGING

Samþættingarverkefni sjónlista, samfélagsgreina og stærðfræði

EFNI OG ÁHÖLD

blað
blómavír
blýantur
dagblað
gaffall
klippur fyrir blómavír
leirlím (ef leirinn er frekar þurr)
módelpinni
pensilglerungar
penslar
plastpoki
rauður jarðleir
spónaplata
svampur
trélitir
úðabrúsi
viðarpinni eða oddhvasst verkfæri

HUGTÖK

Fingraaðferð
Fléttumynstur
Hrábrennsla
Keltnesk dreka- og fléttumynstur/Keltnesk list
Mynstur
Pensilglerungur
Slönguaðferð
Tvívídd
Þrívídd

LISTASAGA

T.d. Keltar og norrænir menn

HÖFUNDUR

ⓒ Kristín Ísleifsdóttir, Kolbrún Sigurðardóttir (Tálknafjarðarskóli)
Menntamálastofnun 2022