Tölur og hnappar

STUTT LÝSING

Nemendur búa til listaverk (lágmynd) með því að líkja eftir tölu.

HÆFNIVIÐMIÐ

Hæfniviðmið fyrir sjónlistir
Við lok 7. bekkjar getur nemandi

  • notað mismunandi efni, verkfæri og miðla á skipulagðan hátt í eigin sköpun
  • unnið hugmynd frá skissu að lokaverki bæði fyrir tví- og þrívið verk

Við lok 10. bekkjar getur nemandi

  • valið á milli mismunandi aðferða í sköpun, prófað sig áfram og unnið hugmyndir í fjölbreytta miðla
  • sýnt og útskýrt vinnuferli frá hugmynd að lokaverki sem felur m.a. í sér upplýsingaöflun, tilraunir og samtal

Hæfniviðmið fyrir stærðfræði

Við lok 7. bekkjar getur nemandi

  • tjáð stærðir og hlutföll, reiknað með ræðum tölum, tekið þátt í að þróa lausnaleiðir við útreikninga, skráð svör sín með tugakerfisrithætti, nýtt sér samhengi og tengsl reikniaðgerðanna
  • leyst viðfangsefni sem sprottin eru úr daglegu lífi og umhverfi, með hugarreikningi, vasareikni, tölvuforritum og skriflegum útreikningum

Við lok 10. bekkjar getur nemandi

  • leyst viðfangsefni sem sprottin eru úr daglegu lífi og umhverfi, með hugarreikningi, vasareikni, tölvuforritum og skriflegum útreikningum

KVEIKJA

Getur tala verið listaverk? Ef við stækkum tölu í einum á móti hundrað og búum hana til í tré, gifs eða leir er hún þá orðin listaverk?

FRAMKVÆMD

Nemendur koma með tölur að heiman eða fá úthlutað í skólanum.

Eftir umræður um tölur ákveða nemendur hversu mikið þeir ætla að stækka tölurnar sínar. 1:5 er yfirleitt hæfilegt fyrir byrjendur í leirmótun. Stærðir og hlutföll á tölunum eru reiknaðar út og vinnuteikning gerð með málum. Aðalformið er síðan klippt út úr pappírnum sem snið fyrir leirinn.

Leirplata er búin til, sjá plötuaðferð bls. 34 í bókinni Leirmótunkeramik fyrir alla. Leirplatan er lögð á spónaplötu og pappírssniðið er lagt á leirplötuna og formið skorið út með prjóni. Göt eru skorin út og línur eða mynstur skissað á leirplötuna með prjóni. Látið töluna liggja kyrra á spónaplötunni annars skekkist hún. Þegar verið er að vinna með töluna er betra að snúa spónaplötunni og enn betra að hafa hana á snúningsdiski. Á þessari tölu er leirslanga vafin upp og lögð allan hringinn á leirplötuna. Leir af slöngunni er þrýst niður á plötuna með fingrum, bæði að utan og innan. Ef leirinn er ekki vel rakur þarf að nota leirlím, sjá bls. 27.

UMRÆÐUSPURNINGAR

Hvernig gekk ykkur að stækka töluna? Er hún í réttum hlutföllum?
Var einhverju breytt frá fyrirmyndinni? Er talan ykkar orðin að listaverki?

ÍTAREFNI

Hringur 3 – Mælingar

Hringur 3 – Prósentur og hlutföll

Hugrún – Sögur og samræðuæfingar. Sigurður Björnsson. 2010.
Nemendabók
Verkefnabók

Listasaga, kennsluleiðbeiningar

ALDUR

Miðstig
Unglingastig

GRUNNÞÆTTIR

Læsi og sköpun

FJÖLDI KENNSLUSTUNDA

2 x 80 mínútur

ÞVERFAGLEG TENGING

T.d. samþættingarverkefni sjónlista og stærðfræði

EFNI OG ÁHÖLD
  • blað
  • blýantur
  • glerungar
  • hvítur steinleir, magn eftir stærð
  • kefli
  • leirlitir
  • módelpinni
  • penslar
  • plastskafa (plastkort)
  • prjónn eða oddhvasst verkfæri
  • reglustika
  • skurðarvír
  • skæri
  • snúningsdiskur
  • svampur
  • tala eða hnappur að eigin vali
  • viðarplata
  • viðarspaði
HUGTÖK

Glerungur
Hrábrennsla
Leirlím
Pensilglerungur
Plötuaðferð

LISTAMENN

Að eigin vali

LISTASAGA

Að eigin vali

HÖFUNDUR

ⓒ Kristín Ísleifsdóttir
Menntamálastofnun 2022