SKÁL OG MYNSTURGERÐ

STUTT LÝSING

Nemendur skoða mynstur frá ýmsum þjóðum eða listamönnum og búa til munstraða skál.

HÆFNIVIÐMIÐ

Hæfniviðmið fyrir sjónlistir
Við lok 7. og 10. bekkjar getur nemandi

  • gert grein fyrir margvíslegum tilgangi myndlistar og hönnunar og sett hann í persónulegt, menningarlegt og sögulegt samhengi.

KVEIKJA

Skoðið myndina Himinn eftir Henri Matisse (1869–1954). Leitarorð: The sky Matisse
Hvað sjáið þið á myndinni? Fljúgandi fugla eða form af fuglum? Er þetta mynd eða mynstur?

Hver er munurinn á mynstri og mynd?

Nú ætlum við að skoða mynstur. Fólk hefur skreytt hús, föt og nytjahluti með mynstri í langan tíma. Mynstur getur oft verið einhvers konar tákn og haft merkingu, þ.e. táknræna merkingu. Það getur verið tákn fyrir t.d. öldur hafsins og laufblöð skóganna. Sum mynstur eru upphaflega myndir sem hafa verið einfaldaðar og hafa jafnvel þróast í að vera stærðfræðileg mynstur.

FRAMKVÆMD

  • Nemendur skoða mynstur frá ýmsum þjóðum eða listamönnum. Þeir vinna hver og einn eða tveir og tveir saman að þekkingaröflun á netinu eða í bókum.
  • Við skoðun á að leggja sig fram við að fylgja línum í mynstrinu og skoða t.d. hvort þær skarast, skerist eða bindist öðrum línum og þá á hvaða hátt, t.d. með einhvers konar hnútum.
  • Ýmsar tegundir mynsturs er jafnframt hægt að kanna, t.d. mynsturbekki, símynstur, speglun og stærðfræðileg mynstur.
  • Nemendur velja mynstur, hluta úr mynstri eða þróa sitt eigið frá eigin hugmynd til að vinna með, en þeir þurfa að kynna sér uppruna mynstursins, frá hvaða landi eða listamanni það er.
  • Því næst teikna nemendur upp mynstrið í þeirri stærð sem þeir ætla að setja á skálina og klippa það út. Hrein og frekar stór mynstur er þægilegt að vinna með í byrjun.
  • Næst þarf að teikna skál sem passar fyrir mynstrið. Hún þarf að vera með áætluð mál í hæð og breidd.
  • Nú tekur við mótun á skál. Sjá nánar um slönguaðferð á bls. 31 í bókinni Leirmótun-keramik fyrir alla.
  • Eftir að skálin hefur verið hrábrennd er mynstrið teiknað á hana með blýanti (blýantsförin hverfa í brennslunni).
  • Mynstrið er málað á skálina með undirglerungslit, oxíðum eða leirlit, sjá bls. 45–47. Athugið að oxíð geta smitast aðeins út.
  • Þá er glerjað yfir með því að dýfa í glæran glerung eða mála með pensilglerungi. Einnig er hægt að mála mynstrið á með mismunandi lituðum pensilglerungum, sjá bls. 50–51.
  • Ef það á ekki að vera mynstur innan í skálinni þá er hægt að hella glerung í hana að innan, sjá bls. 49.
  • Þegar búið er að gljábrenna allar skálarnar halda nemendur kynningu á sínu mynstri/skál, þar sem skálarnar og teikningar af mynstrinu eru til sýnis.
  • Verkefnið hentar einnig vel fyrir þá sem vilja búa til vasa.

UMRÆÐUSPURNINGAR

Hvaðan er mynstrið þitt? Táknar það eitthvað ákveðið? Hvers konar mynstur er það, er það mynsturbekkur, símynstur, speglað mynstur eða stærðfræðilegt? Hugsaðir þú formið fyrir mynstrið eða mynstrið fyrir formið? Finnst þér formið og mynstrið ganga vel saman hjá þér?

ÍTAREFNI

Leitarorð: Yayoi Kusama | pattern | artistic geometric patterns | mandala

ALDUR

Miðstig

Unglingastig

GRUNNÞÆTTIR

T.d. læsi, lýðræði og mannréttindi, sjálfbærni, sköpun

FJÖLDI KENNSLUSTUNDA

3 x 80 mínútur

ÞVERFAGLEG TENGING

T.d. samþættingarverkefni sjónlista og samfélagsgreina (landafræði, samfélagsfræði). Einnig hægt að tengja við stærðfræði.

EFNI OG ÁHÖLD
  • 1–2 dagblaðsarkir
  • blað
  • blýantur
  • bækur um myndlist og handverk með mynsturgerð eða netið
  • glerungar
  • hvasst verkfæri eða gaffall
  • hvítur steinleir ca. 1 kg í skál sem er 15 x 15 sm
  • kefli
  • leirlitir
  • leirlím
  • módelpinni
  • penslar
  • plastpoki
  • skál með vatni eða úðabrúsi
  • skurðarvír
  • sköfur, ein mjúk og ein hörð
  • snúningsdiskur (má sleppa)
  • viðarplata
  • viðarspaði
HUGTÖK

Glerungur
Gljábrennsla
Leirlitur
Mynstur
Oxíðum
Pensilglerungur
Slönguaðferð
Speglun
Undirglerungslitur

LISTAMENN

S.s. Yayoi Kusama

LISTASAGA

T.d. Keltar og norrænir menn, Samtímalist

HÖFUNDUR

ⓒ Kristín Ísleifsdóttir
Menntamálastofnun 2022