Skjaldbökur, slöngur og snákar

STUTT LÝSING

Fjallað er um skriðdýr og nemendur velja sér dýr til að móta í leir.

HÆFNIVIÐMIÐ

Hæfniviðmið fyrir sjónlistir
Við lok 4. bekkjar getur nemandi

nýtt sér í eigin sköpun einfaldar útfærslur sem byggja á færni í meðferð lita- og formfræði og myndbyggingar, skapað myndverk í ýmsum tilgangi með margvíslegum aðferðum

KVEIKJA

Hvaða dýr eru mjög hægfara og ganga með húsið sitt á bakinu? Hvaða dýr eru ekki með fætur og sveigjast til hliðar þegar þau hreyfa sig?

FRAMKVÆMD

 • Nemendur skoða myndir í bókum eða á netinu áður en þeir ákveða hvaða dýr þeir ætla að móta.
 • Kennari leiðir umræðu um form og lögun dýranna. Skýrir út eða er með sýnikennslu á hvernig  nemendur eiga að byggja upp sín form með kúlum.
 • Hver og einn teiknar sitt dýr á blað.
 • Því næst móta nemendur nokkrar litlar leirkúlur með því að rúlla þeim á milli handanna.  Gott er að hafa frekar mjúkan og blautan leir.
 • Til að festa kúlurnar saman er krafsað aðeins í þær með gaffli þar sem þær eiga að snertast. Síðan er formið byggt upp með því að raða kúlunum einni af annarri saman, annaðhvort á lengd eða breidd. Sjá myndir efst.
 • Næst er höfuð dýrsins mótað. Þá er búin til kúla og módelpinni notaður til að móta andlit. Höfuðið er síðan fest á búkinn á sama hátt og kúlurnar voru límdar saman. Sama er gert með fæturna á skjaldbökunum. Ráð! Ef kúlurnar eru þurrar þarf að nota leirlím til að festa þær saman, sjá um leirlím á bls. 27 í bókinni Leirmótun-keramik fyrir alla.
 • Hægt er að mála leirinn strax eða þegar hann er orðinn þurr eða jafnvel hrábrenndur, sjá um leirliti á bls. 47. Best er að leyfa hverjum og einum að velja lit úr þremur litum á sitt dýr. Uppskriftir að t.d. tveimur grænum litum og einum brúnum eru á sömu blaðsíðu í bókinni. Ef hluturinn er hrábrenndur er glerjað yfir með glærum glerungi.

UMRÆÐUSPURNINGAR

Af hverju valdir þú að gera slöngu/skjaldböku? Hefur þú séð skjaldböku, snák eða slöngu?
Er skröltormur snákur eða slanga? Skjaldbökur eru hryggdýr en eru snákar það líka?
Í þessu verkefni er líka tækifæri til að auka orðaforða nemenda á hugtökum og orðum sem tengjast formum. Dæmi má nefna orð eins og grannur, mjór, breiður, ávalur og ílangur. Eins má ræða orðaforða sem tengist hreyfingum þessara dýra, s.s. hægfara, skröltandi og skríðandi.

ÍTAREFNI

Leitarorð: turtle | snake

Sjá upplýsingar á Vísindavefnum um skjaldbökur og um snáka.

ALDUR

Yngsta stig

GRUNNÞÆTTIR

T.d. læsi, sjálfbærni og sköpun

FJÖLDI KENNSLUSTUNDA

2 x 80 mínútur

ÞVERFAGLEG TENGING

T.d. samþættingarverkefni sjónlista, náttúrufræði og íslensku

EFNI OG ÁHÖLD
 • blað
 • blýantur
 • fíngerður leir
 • gaffall
 • leirlím (ef þarf)
 • módelpinni
 • spónaplata
HUGTÖK

Glerungur
Hrábrennsla
Leirlitur
Leirlím

LISTAMENN

S.s. Bernini
Caravaggio

LISTASAGA

T.d.
Forn-Egyptar
Barokk

HÖFUNDUR

ⓒ Kristín Ísleifsdóttir
Menntamálastofnun 2022