Skór – Úr tvívídd í þrívídd

STUTT LÝSING

Nemendur kynna sér skóframleiðslu, teikna síðan og móta skó.

HÆFNIVIÐMIÐ

Hæfniviðmið fyrir sjónlistir
Við lok 7. bekkjar getur nemandi

 • unnið hugmynd frá skissu að lokaverki bæði fyrir tví- og þrívíð verk
 • tjáð skoðanir eða tilfinningar í eigin sköpun með tengingu við eigin reynslu
 • gert grein fyrir margvíslegum tilgangi myndlistar og hönnunar

Við lok 10. bekkjar getur nemandi

 • greint og beitt fjölbreyttum aðferðum og tækni
 • túlkað listaverk og hönnun með tilvísun í eigin reynslu, nærumhverfi, samtímann, siðfræði og fagurfræði

KVEIKJA

Hafið þið átt uppáhaldsskó? Ef svo er, af hverju voru þeir eða eru uppáhaldsskórnir ykkar?
Ræður tíska í hvernig skóm þið eruð? Í hverju felst tíska? Er það formið, efnið, liturinn eða
af því einhverjir frægir nota svoleiðis skó? Hafa allir rétt á að ganga í skóm? Hvað þarf að hafa í huga þegar skór eru búnir til?
Verkefnið er að teikna og móta skó, m.ö.o. að byrja á tvívídd og færa sig yfir í þrívídd.
Með þessu móti eruð þið að kanna hvort þið sjáið hlutina á annan hátt í tvívídd en þrívídd.

FRAMKVÆMD

Teikning og mótun

Teikning af skó. Sami skór mótaður í hvítan steinleir og litaður að innan með oxíði, glerjað með þunnum glerungi yfir hann allan.

Teikning af skó. Sami skór mótaður í rauðleir.

Skórinn málaður með bláum leirlit og glerjaður með glærum glerungi.

 • Hver nemandi kemur með einn skó til að hafa sem fyrirmynd í teikningu og mótun. Skoða á grunnformið vel og önnur form s.s. hæl, tungu eða rennilás og síðan á að teikna hann.
 • Næst er að móta skóinn í leir. Áður en það er gert þarf að skoða betur áferð og ýmis smáatriði t.d. reimar og ákveða hvort öll atriðin verði mótuð í leir eða hvort önnur efni verði notuð með leirnum. Það væri t.d. hægt að nota venjulegar reimar.
 • Skórinn er nú teiknaður í réttri stærð, ef einhverjir vilja minnka hann eða stækka þá er það í lagi svo lengi sem aðalforminu er haldið sem næst fyrirmyndinni.Ef skórinn er unninn í réttri stærð er hann settur á blað og lína dregin eftir skóbotninum og sniðið klippt út.
 • Í mótun hliðanna er hægt að fara tvær leiðir. Ein er að fylgja teikningunni eða skónum sjálfum eftir, önnur er að klippa út snið af hliðunum og bera það við leirskóinn öðru hvoru í mótunarferlinu.
 • Ef skóstærðinni er breytt er aðeins hægt að horfa á skóinn sjálfan eða teikninguna meðan verið er að móta hann.
 • Verkfæri, viðarplata og snúningsdiskur eru tekin fram.
 • Leirinn er hnoðaður, sjá bls. 25 í bókinni Leirmótun-keramik fyrri alla. Hann er því næst flattur út í plötu fyrir botninn, sjá plötuaðferð bls. 34.
 • Sniðið af skóbotninum er lagt á leirinn og skorið út með fram því.
 • Mælt er með að slönguaðferð sé notuð til að forma hliðar skósins, sjá bls. 31, það er líka hægt að nota plötuaðferð og fylla upp í með leirbútum.
 • Ágætt er að setja krumpað dagblað inn í skóinn til að styðja við hann, ef leirinn er mjúkur eða skórinn er þannig í laginu.
 • Þegar skórinn er orðinn nokkuð þurr er farið að vinna smáatriðin, s.s. tungu, smellur eða annað. Það má líka breyta lit eða skreyta hann á einhvern hátt til að gera hann furðulegan eða ævintýralegan, ef hugmyndaflugið nær tökum á viðkomandi.
 • Hægt er að skera út mynstur eða búa til áferð strax eftir mótun eða eftir að hann er orðinn þurr.
 • Skórinn er hrábrenndur eftir nokkra daga eða þegar hann er orðinn vel þurr, sjá bls. 42.
 • Ef nota á leirliti, sjá bls. 45–47, má lita með þeim fyrir eða eftir hrábrennslu.
 • Eftir hrábrennslu er glerjað með pensilgerungi, sjá bls. 50, eða dýft í glæran glerung, sjá bls. 49.
 • Einnig má sleppa gljábrennslu og lita skóinn með skósvertu eða akrýllitum eftir hrábrennslu. Terrago skósverta hefur reynst vel á leir.
 • Nemendur sýna skóinn sinn ásamt teikningu.

UMRÆÐUSPURNINGAR

Hvaða munur fannst þér vera á skónum þegar þú teiknaðir hann eða þegar þú varst að móta hann?

Sástu hann á einhvern annan hátt? Finnst þér skórinn vera öðruvísi núna þegar búið er að teikna hann og móta?

ÍTAREFNI

Leitarorð: shoes | making shoes

Á vefnum er annað verkefni þar sem æfingin felst í því að fylgja nákvæmlega útlínum skós með augunum og teikna hann án þess að líta á blaðið (e. blind contour drawing).

ALDUR

Miðstig
Unglingastig

GRUNNÞÆTTIR

Læsi, heilbrigði og velferð, jafnrétti, sjálfbærni, sköpun

FJÖLDI KENNSLUSTUNDA

6 x 80 mínútur

ÞVERFAGLEG TENGING

T.d. samþættingarverkefni sjónlista, samfélagsgreina og hönnunar og smíði.

EFNI OG ÁHÖLD
 • akrýllitir eða önnur litarefni (ef ekki er glerjað)
 • blað
 • blýantur
 • gaffall eða oddhvasst verkfæri
 • glerungar
 • hnífur
 • leirlitir
 • leirlím
 • módelpinni
 • skæri
 • snúningsdiskur
 • spónaplata
 • steinleir eða rauðleir
HUGTÖK

Akrýllitur
Glerungur
Gljábrennsla
Grunnform
Hrábrennsla
Leirlitur
Mynstur
Pensilglerungur
Plötuaðferð
Slönguaðferð
Tvívídd
Þrívídd

LISTAMENN

S.s.
Andy Warhol

Vincent van Gogh

LISTASAGA

T.d.

Síð-impressjónismi

Popplist

HÖFUNDUR

ⓒ Kristín Ísleifsdóttir
Menntamálastofnun 2022