Myndbandagerð og leirmótun

STUTT LÝSING

Farið er í hugmyndavinnu og gert uppkast að handriti. Í framhaldi af því er leikmynd skissuð og persónurnar búnar til. Farið er yfir tækniatriði við myndbandagerð.

HÆFNIVIÐMIÐ

Hæfniviðmið fyrir sjónlistir
Við lok 7. bekkjar getur nemandi …
• byggt eigin listsköpun á hugmyndavinnu tengdri ímyndun, rannsóknum og reynslu
Við lok 10. bekkjar getur nemandi …
• skrásett og sett fram hugmyndir á fjölbreyttan hátt byggðar á eigin ímyndunarafli
og/eða rannsókn, myndrænt og/eða í texta

Hæfniviðmið fyrir upplýsinga- og tæknimennt
Við lok 7. bekkjar getur nemandi …
• nýtt hugbúnað/forrit við myndvinnslu, gerð stuttmynda og hljóð- og tónvinnslu
• nýtt hugbúnað/forrit við miðlun þekkingar á skapandi og skýran hátt
Við lok 10. bekkjar getur nemandi …
• nýtt sér til fullnustu möguleika margvíslegs tæknibúnaðar á hagkvæman og markvissan hátt
• nýtt hugbúnað/forrit við myndvinnslu, hljóðvinnslu og gerð myndbanda
• nýtt hugbúnað við forritun og miðlun þekkingar á fjölbreyttan og skapandi hátt

KVEIKJA

Hver er uppáhalds karakter ykkar í þeim teiknimyndum sem þið hafið séð?

FRAMKVÆMD

Til að byrja með fer fram hugmyndavinna um hvað verkefnið á að innihalda og gert uppkast að handriti. Í framhaldi af því er leikmynd skissuð eða umhverfi ákveðið og persónurnar búnar til. Taka þarf tillit til að það tekur tíma að þurrka og brenna leirinn eða u.þ.b. 5–15 daga eftir stærð, brennslustigi og aðstæðum. Á meðan er hægt að fullvinna handrit og leikmynd og setja sig inn í tækniatriðin við myndbandagerðina.

1.-2.
Fingraaðferð er notuð við mótun á kettinum, sjá Leirmótun – keramik fyrir alla bls. 28. Skottið og eyrun eru toguð út frá búknum og formuð.

3.
Módelpinni er notaður til að jafna út veggina og þynna þá og síðan er áfram mótað með höndum þar til endanlegt form er komið.

4.-5.
Augu, munnur og nef eru skorin út með prjóni og/eða módelpinna. Litlar kúlur eru rúllaðar upp og settar inn í augnholurnar sem augu. Festið þau vel í, t.d. með leirlími. Höfuðið er skorið af og leir bætt við hálsinn, til að lengja hann þannig að höfuðið detti ekki af þegar verið er að hreyfa það. Efsta brúnin á búknum er löguð til þannig að haus sitji vel á honum og auðvelt verði að snúa honum.

6.-7.
Yfirborð er því næst sléttað með rökum svampi, fingrum eða módelpinna og látið þorna á viðarplötu í u.þ.b. eina viku og þá hrábrennt.
Þessi köttur er málaður með svörtum og gulum leirlit, sjá um leirliti á bls. 46 og glær tilbúinn pensilglerungur málaður yfir leirlitinn.
Brennt við 1060 °C.

Mótun á einfaldri fígúru, karaktersköpun – skósveinn
Fingraaðferð er notuð við mótun á skósveininum, sjá bls. 28. Auga, handleggir og búkur eru mótuð og hrábrennd hvert í sínu lagi, sjá bls. 42–44. Allir partar eru síðan málaðir með akrýllitum. Gleraugun eru gerð úr álpappír og límd á með svörtu rafmagnslímbandi og hendurnar festar saman með því að setja sterka teygju inn í búkinn og tengja hendurnar saman.

UMRÆÐUSPURNINGAR

Hvernig tókst að koma efni handritsins til skila í gegnum alla vinnuna; frá leikmynd, til karaktersköpunar og loks til myndbandagerðar?

ÍTAREFNI

Myndbandagerð
Margmiðlun, sjá hér.
Myndbandagerð, sjá hér.
Stop-motion, sjá hér.
Að búa til fígúrur/karaktera
Leitarorð á netinu eftir einföldum fígúrum sem margir kannast við eru t.d. „infinity figure“

ALDUR

Miðstig
Unglingastig

GRUNNÞÆTTIR

T.d. læsi, sjálfbærni og sköpun

FJÖLDI KENNSLUSTUNDA

Ca. 6 x 80 mínútur

ÞVERFAGLEG TENGING

Samþættingarverkefni sjónlista og upplýsinga- og tæknimennt

EFNI OG ÁHÖLD
  • Akrýllitir (ef leirlitir og glerungar eru ekki notaðir)
  • Blað og blýantur ef formið er teiknað áður, sem er æskilegt.
  • Glerungar
  • Leir, magn eftir stærð
  • Leirlitir
  • Módelpinnar
  • Penslar
  • Plastskafa
  • Svampur
  • Viðarplata
  • Viðarprjónn
  • Viðarspaði
HUGTÖK

Akrýllitur
Fingraaðferð
Hrábrennsla
Leirlitur
Margmiðlun
Pensilglerungur

LISTAMENN

Að eigin vali

LISTASAGA

T.d. samtímalist

HÖFUNDUR

ⓒ Kristín Ísleifsdóttir
Menntamálastofnun 2022