Flísar – mynstur

STUTT LÝSING

Nemendur rannsaka mynstur og hvernig þau eru byggð upp. Síðan búa þau til sínar eigin flísar, annaðhvort á gólf eða veggi, innan dyra eða utan.

HÆFNIVIÐMIÐ

Hæfniviðmið fyrir sjónlistir
Við lok 7. bekkjar getur nemandi …
• byggt eigin listsköpun á hugmyndavinnu tengdri ímyndun, rannsóknum og reynslu
• unnið hugmynd frá skissu að lokaverki bæði fyrir tví- og þrívíð verk
• fjallað um eigin verk og annarra í virku samtali við aðra nemendur
Við lok 10. bekkjar getur nemandi …
• sýnt og útskýrt vinnuferli frá hugmynd að lokaverki sem felur m.a. í sér upplýsingaöflun,
tilraunir og samtal
• skrásett og sett fram hugmyndir á fjölbreyttan hátt byggðar á eigin ímyndunarafli og/eða
rannsókn, myndrænt eða í texta

Hæfniviðmið fyrir stærðfræði
Við lok 7. bekkjar getur nemandi …
• rannsakað og sett fram talnamynstur á skipulegan hátt og unnið með regluleika í rúmfræði,
lýst mynstrum og venslum með tölum, myndum, orðum og á táknmáli algebrunnar
• speglað, snúið og hliðrað flatarmyndum við rannsóknir á mynstrum sem þekja flötinn
Við lok 10. bekkjar getur nemandi …
• rannsakað mynstur og alhæft um þau, leyst jöfnur, notað breytistærðir og lýst sambandi
þeirra með stæðum og föllum

KVEIKJA

Sjáið þið einhver mynstur hér í skólastofunni? Mynstur er að finna alls staðar í kringum okkur,
hvort sem það er á fötum, veggjum eða gólfum í byggingum, borðbúnaði, textíl eins og gardínum
og dúkum, listaverkum, bíldekkjum og svo mætti lengi telja. Mynstur er líka að finna úti í
náttúrunni á dýrum og jurtum.
Nú eigið þið að búa til ykkar eigin mynstur og hugsa að það sé fyrir flísar, annaðhvort á gólf eða
veggi, innan dyra eða utan. Áður en þið gerið það þurfið þið að rannsaka mynstur og hvernig þau
eru byggð upp.

FRAMKVÆMD

Nemendur kynna sér mynsturbúta, þökun í myndsköpun, mynstur með hringfara, boga og línur, mynstureiningar og fleira ef tími vinnst til. Hver nemandi velur sér þá aðferð sem hann óskar.
Hér er gefið dæmi um flísagerð út frá mynstri hollenska listamannsins M.C. Escher fuglfiskur (e.birdfish). Sjá mynstrið hér.

Mynstrið er teiknað á blað og miðað er við að leirflís eða flísar séu unnar út frá hluta mynstursins eins og hér sést. Sá hluti er teiknaður upp og klipptur út sem snið fyrir leirflís. Mynstrið er málað með þekjulitum í þeim lit sem flísin á að vera.

Mynstrið er teiknað á blað og miðað er við að leirflís eða flísar séu unnar út frá hluta mynstursins eins og hér sést. Sá hluti er teiknaður upp og klipptur út sem snið fyrir leirflís. Mynstrið er málað með þekjulitum í þeim lit sem flísin á að vera.

1.

Hnoðaður leirinn er skorinn niður í plötur fyrir hvern nemanda (sjá hér til hliðar) eða skorinn út í leirplötu, sjá plötuaðferð bls. 34 Leirmótun-keramik fyrir alla. Hægt er að gera það með eftirfarandi hætti:

2.

Nemendur vinna sínar flísar með því að skera út form þeirra í leirplötuna, vinna áferð eða teikna mynd með oddhvössu
verkfæri eða slétta hana vel, ef mála á mynd á hana eftir hrábrennslu.

Flísin er látin þorna undir viðarplötu svo að hún beyglist ekki. Þegar hún er orðin þurr eða eftir hrábrennslu er hún máluð með
leirlit, sjá á bls. 45–47, og glerjuð með glærum glerung. Það má líka mála hana með pensilglerung, bls. 50–51.

UMRÆÐUSPURNINGAR

Segið nú frá mynstrunum ykkar. Hvers konar mynstur völdið þið að vinna með eða búa til?
Eru flutningar í mynstrum ykkar t.d. speglun, hliðrun eða snúningur í þeim?
Ef ekki hvað viljið þið segja um þau?

ÍTAREFNI

Vefsíða M.C.Escher.

ALDUR

Miðstig
Unglingastig

GRUNNÞÆTTIR

Læsi, sjálfbærni og sköpun

FJÖLDI KENNSLUSTUNDA

Ca. 2 x 80 mínútur

ÞVERFAGLEG TENGING

Samþættingarverkefni sjónlista og stærðfræði

EFNI OG ÁHÖLD
  • akrýllitir
  • blýantur
  • glerungar
  • hnífur
  • hringfari, reglustika (ef með þarf)
  • hvítur steinleir; magn eftir stærð og aðferð
  • kefli
  • leirlitir
  • netið og stærðfræðibókin Mynstur
  • pappír
  • penslar
  • skæri
  • sköfur
  • viðarplata
HUGTÖK

Glerungur
Hrábrennsla
Leirlitur
Mynstur
Pensilglerungur
Plötuaðferð

LISTAMENN

M.C. Escher

LISTASAGA

Að eigin vali

HÖFUNDUR

ⓒ Kristín Ísleifsdóttir
Menntamálastofnun 2022