Fjall, lágmynd

STUTT LÝSING

Hver nemandi velur sér fjall til að rannsaka, teikna og móta.

HÆFNIVIÐMIÐ

Hæfniviðmið fyrir sjónlistir
Við lok 7. bekkjar getur nemandi …
• byggt eigin listsköpun á hugmyndavinnu tengdri ímyndun, rannsóknum og reynslu
• fjallað um eigin verk og annarra í virku samtali við aðra nemendur
Við lok 10. bekkjar getur nemandi …
• sýnt og útskýrt vinnuferli frá hugmynd að lokaverki sem felur m.a. í sér upplýsingaöflun,
tilraunir og samtal
• skrásett og sett fram hugmyndir á fjölbreyttan hátt byggðar á eigin ímyndunarafli og/eða
rannsókn, myndrænt og/eða í texta

Hæfniviðmið fyrir náttúrufræði
Við lok 7. bekkjar getur nemandi …
• útskýrt texta um náttúruvísindi sér til gagns og farið eftir einföldum, munnlegum
og skriflegum leiðbeiningum
• beitt vísindalegum vinnubrögðum við öflun einfaldra upplýsinga innan náttúruvísinda
og útskýrt ferlið
• sett fram og rætt niðurstöður athugana á skýran og skipulegan hátt, hlustað á,
metið og rætt hugmyndir annarra.
Við lok 10. bekkjar getur nemandi …
• framkvæmt og útskýrt sérhannaðar eða eigin athuganir úti og inni lesið texta um
náttúrufræði sér til gagns, umorðað hann og túlkað myndefni honum tengt
• aflað sér upplýsinga um náttúruvísindi úr heimildum á íslensku og erlendum málum
• dregið ályktanir af gögnum og gefið ólíkar skýringar með því að nota ólík sjónarhorn

KVEIKJA

Teljið upp nöfn á einhverjum fjöllum á Íslandi sem þið þekkið. Eru þau eldfjöll?
Hvernig væri landslagið á þeim stað sem fjallið er ef þar væri ekki fjall? Hefur fjallið áhrif á
nærliggjandi byggð eða er ef til vill engin byggð nálægt fjallinu og af hverju skyldi það þá vera?

FRAMKVÆMD

Hver nemandi velur sér fjall til að rannsaka, teikna og móta. Þeir sem eru ákveðnir frá byrjun hvaða
fjall þeir vilja vinna með, afla sér heimilda á netinu og/eða í bókum um fjallið, hinir finna sér fjall
og fara síðan í heimildavinnuna.

Þegar heimildavinnu er lokið þurfa nemendur að teikna fjallið í þeirri stærð sem þeir ætla að móta
það og skoða vel liti og áferð þess, t.d. á hrauni eða klettabeltum. Ef tíminn er naumur er hægt að
taka ljósrit, stækka það eða minnka og vinna eftir því þegar mótað er

1.
Leir er flattur út með plötuaðferð, sjá bls. 34 í bókinni Leirmótun-keramik fyrir alla. Form fjallsins er skorið út eftir sniði sem klippt er út af teikningu eða ljósriti og lagt á spónaplötu.

2.
Nú er áferð og litir kannaðir og helstu línur fjallsins „teiknaðar“ í leirinn með módelpinna, annaðhvort í gegnum pappírinn eða beint á leirinn

3.
Myndin er byggð smátt og smátt upp með því að bæta leir við grunnflötinn. Það er gert með því að þrýsta leirbútum meðfingrum og móta síðan með módelpinna. Leirinn þarf að vera frekar blautur svo að hann límist vel á grunnflötinn.

4.
Þegar mótuninni er lokið er áferð gerð með ýmsum verkfærum, sem geta verið gafflar, litlir vírburstar, harðir tannburstar eða
hvaða verkfæri sem er. Ekki má gleyma að huga að uppsetningu myndarinnar og ef á að hengja hana upp þarf eða gera eitt gat í miðjuna eða tvö sitt hvorum megin efst. Ef myndin á að standa þarf að líma litlar leirplötur aftan á hana á tveimur stöðum. Myndin er látin liggja á spónaplötunni í nokkra daga og þá er hún hrábrennd.

5.
Eftir hrábrennslu er málað á myndina með leirlit, hér svörtum sjá bls. 46–47, þar sem hún á að vera dökk.

6.
Leirliturinn er þveginn af að mestu með rökum svampi þannig að hann þekur aðeins að hluta til.

7.
Því næst er hvítur leirlitur, sjá bls. 47, málaður á þar sem snjór á að vera.

8.
Aftur er notaður rakur svampur til að má litinn út að hluta. Liturinn næst öðruvísi af ef svampurinn er vel undinn.

9.
Til þess að fá réttan lit á leirlitina þarf að glerja yfir með glærum glerung. Ef glerungurinn er með glansandi áferð, þ.e. ekki mattur, er betra að þynna hann til helminga, hvort sem dýpt er í glerung eða pensilglerungur notaður, sjá bls. 50–51.

10.
Framsetning verkefnis getur verið á ýmsa vegu. Hún getur verið þannig að fjöllin séu sett inn á eða við landakort og þá unnið að því
í hópverkefni. Annað dæmi er að ljósmynda leirfjallið í einhverju umhverfi með himin eða haf í bakgrunn. Sjá myndir. Lágmyndin af Herðubreið er mótuð, máluð með leirlit, glerjuð með þunnum glærum pensilglerung og brennd við 1060 °C.
Nemendur kynna verkefni sín og segja frá þeim upplýsingum sem þeir öfluðu sér um fjallið sem þeir völdu.

UMRÆÐUSPURNINGAR

Af hverju völduð þið þessi fjöll, sem þið hafið valið? Þekktuð þið þau vel eða voru þau ykkur ókunn?
Hafa þessi fjöll, nú eða fyrr á öldum, einhver áhrif haft á nærliggjandi byggðarlag og þá hver?
Segið nú frá fjöllunum ykkar.

ÍTAREFNI

Ísland, hér búum við, nemendabók, 2018, Hilmar Egill Sveinbjörnsson
Ísland, hér búum við, verkefnabók, 2018, Hilmar Egill Sveinbjörnsson
Íslandskort barnanna, 2018, Jean Antoine Posocco
Kortavefsjá Menntamálastofnunar, sjá Fjöll, 2014, Guðrún Jóna Óskarsdóttir og Tryggvi Jakobsson

Annars konar verkefni
Textílmennt – Að vefa utan vefstóls – Fjallið fagra

ALDUR

Miðstig
Unglingastig

GRUNNÞÆTTIR

Lýðræði og mannréttindi, læsi og sköpun

FJÖLDI KENNSLUSTUNDA

Ca. 4 x 40 mínútur

ÞVERFAGLEG TENGING

Samþættingarverkefni sjónlista og náttúrugreina (landafræði)

EFNI OG ÁHÖLD
  • blað
  • blýantur
  • glær glerungur
  • hvítur steinleir u.þ.b. 500 gr.
  • kefli
  • leirlitir
  • módelpinnar
  • oddhvasst verkfæri
  • penslar
  • skurðarvír
  • skæri
  • svampur
  • verkfæri fyrir áferð t.d. vírbursti
  • viðarplata
HUGTÖK

Áferð
Glerungur
Hrábrennsla
Lágmynd
Leirlitur
Pensilglerungur
Plötuaðferð

LISTAMENN

Að eigin vali

LISTASAGA

Að eigin vali

HÖFUNDUR

ⓒ Kristín Ísleifsdóttir
Menntamálastofnun 2022