Diskur með skreytingu

STUTT LÝSING

Nemendur búa til disk og mála á hann í anda Picasso eða annarra listamanna.

HÆFNIVIÐMIÐ

Hæfniviðmið fyrir sjónlistir
Við lok 7. bekkjar getur nemandi
• notað mismunandi efni, verkfæri og miðla á skipulagðan hátt í eigin sköpun
Við lok 10. bekkjar getur nemandi
• valið á milli mismunandi aðferða við sköpun, prófað sig áfram og unnið hugmyndir
í fjölbreytta miðla
• greint og beitt fjölbreyttum aðferðum og tækni

Hæfniviðmið fyrir samfélagsfræðigreinar
Við lok 7. bekkjar getur nemandi
• skýrt tengsl samfélags, náttúru, trúar og lífsviðhorfa fyrr og nú
• fylgt ferli orsaka og afleiðinga af gerðum manna og bent á leiðir til úrbóta
Við lok 10. bekkjar getur nemandi
• ígrundað víxlverkun samfélags, stjórnmála, náttúru, trúar og lífsviðhorfa í tímans rás,
í samhengi nærsamfélags og hnattvæðingar
• sýnt fram á skilning á eðli sjálfbærrar þróunar og þýðingu hennar fyrir umhverfi,
samfélag og efnahagslíf

KVEIKJA

Munið þið eftir að hafa séð sérstaklega athyglisverðan disk? Pappadiskar eru oft með skemmtilegar
myndir og gaman að nota þá við sérstök tækifæri en ekki alla daga eða hvað?

Við notum matardiska á hverjum degi og erum kannski ekkert að skoða hvort þeir eru skreyttir eða
með myndum. Kringlótta formið á diskum er skemmtilegt að skreyta og sumir frægir listamenn hafa
spreytt sig á að mála á diska, s.s. Pablo Picasso og Joan Miró.

Hægt er að mála myndir, mynstur eða merki á diskana. Nú getið þið skoðað myndir eftir Picasso
eða Miró og málað á diskana ykkar í þeirra anda eða valið að mála ykkar eigin mynd eða skreytingu.

FRAMKVÆMD

Nemendur kynna sér Picasso og Miró á netinu eða í bókum. Eftir að hafa valið mynd á diskinn er
hún teiknuð og máluð á pappadiska eða á blað. Hvetja ætti nemendur að teikna nokkrar tillögur og
velja úr þeim síðar þegar leirdiskurinn verður málaður.
Að hugmynda- og undirbúningsvinnu lokinni búa nemendur til sína diska.
Diskurinn þarf að vera orðinn þurr þegar hann er málaður og þurfa því að líða nokkrir dagar á milli
þess að diskurinn er tilbúinn þar til hann er málaður

1.-2.

Byrjað er á því að fletja út hnoðaðan leir og slétta með kökukefli, sjá um plötuaðferð á bls. 34 í bókinni Leirmótun-keramik fyrir alla.

3.-4.

Hringur er skorinn út í leirplötuna, hér er hann 20 x 20 cm. Þykkt plötunnar er 0,8–1,0 cm.

5.

Til þess að lyfta kantinum upp er diskurinn láta þorna á hring sem er vafinn úr dagblöðum.
Dagblaðahringurinnn er settur á spónaplötu og diskurinn þar ofan á og ekki hreyfður fyrr en hann er orðinnn þurr.
Brúnin á diskinum er rúnuð með fingrum eða rökum svampi.
Eftir nokkra daga þegar diskurinn er orðinn þurr er hann hrábrenndur

6.-7.

Hér er búið að teikna myndefnið á blað og síðan er það klippt út, lagt á hrábrenndan diskinn og dregin lína eftir því með blýanti.
Því næst er málað með svörtum þunnum leirlit, sjá um leirliti á bls. 47. Glerjað með glærum pensilglerungi.
Ýmsar aðrar leiðir er hægt að fara þegar diskurinn er skreyttur, ein leiðin er að hafa málaða pappadiskinn eða blaðið við hendina og reyna að ná nokkurn veginn sömu mynd á leirdiskinn. Hægt er að mála á hann bæði með leirlitum og glerja yfir með glærum glerungi til að ná réttum lit fram eða mála með pensilglerungum í ýmsum litum, sjá nánar um pensilglerunga á bls. 50.

Segið að lokum frá skreytingunni ykkar og til hvers þið ætlið að nota diskana.

UMRÆÐUSPURNINGAR

Borða allir af diskum? Eiga allir diska?

Hvar eru pappadiskar oft notaðir? Getið þið hugsað ykkur að nota alltaf pappadiska? Hvaða áhrif gæti það haft á umhverfið ef pappadiskar væru notaðir í öllum matmálstímum? Hvernig mynstur eru á diskum?

ÍTAREFNI

Picasso
Leitarorð „Pablo Picasso“.
Verk eftir Picasso má t.d. sjá á vefsíðunni Masterworks Fine Art.

ALDUR

Miðstig
Unglingastig

GRUNNÞÆTTIR

Lýðræði og mannréttindi, læsi og sköpun.

FJÖLDI KENNSLUSTUNDA

ca. 3 x 40 mínútur

ÞVERFAGLEG TENGING

Samþættingarverkefni sjónlista og samfélagsgreina

EFNI OG ÁHÖLD
  • akrýllitir
  • blað
  • blýantur
  • bækur eða vefefni um Miró og Picasso
  • glær glerungur
  • hringur vafinn úr dagblaði
  • hvítur steinleir ca. 800 grömm í disk sem er 15 x 15 cm
  • kefli
  • leirlitir
  • pappadiskar
  • penslar
  • prjónn eða oddhvasst verkfæri
  • skurðarvír
  • skæri
  • viðarplata
HUGTÖK

Glerungur
Hrábrennsla
Leirlitur
Pensilglerungur
Plötuaðferð

LISTAMENN

Picasso og fl.

LISTASAGA

T.d. impressjónismi og kúbismi

HÖFUNDUR

ⓒ Kristín Ísleifsdóttir
Menntamálastofnun 2022