Portrett í anda Andy Warhol

STUTT LÝSING

Nemendur teikna portrett mynd í anda popplistar. Áður skoða þau hvernig form, litir og myndbygging getur undirstrikað ákveðna þætti eða boðskap myndverks, t.d. með því að raða sömu formum upp á mismunandi vegu.

HÆFNIVIÐMIÐ

Sameiginleg hæfniviðmið fyrir list- og verkgreinar

Við lok 7. bekkjar getur nemandi t.d.:

 • útskýrt og sýnt vinnuferli sem felur í sér þróun frá hugmynd til afurðar,
 • hagnýtt leikni og þekkingu sem hann hefur öðlast til að takast á við fjölbreytt viðfangsefni,
 • haft sjálfbærni að leiðarljósi í vinnu sinni,
 • gert grein fyrir menningarlegu hlutverki list- og verkgreina,
 • gert grein fyrir helstu hugtökum sem tengjast viðfangsefni hans,
 • sýnt ábyrga og örugga umgengni við vinnu og frágang á vinnusvæði,
 • lagt mat á eigin verk og sýnt skilning á vönduðum vinnubrögðum.

Hæfniviðmið fyrir sjónlistir

Við lok 7. bekkjar getur nemandi t.d.:

 • notað mismunandi efni, verkfæri og miðla á skipulagðan hátt í eigin sköpun,
 • nýtt sér grunnþætti myndlistar í eigin sköpun,
 • unnið hugmynd frá skissu að lokaverki bæði fyrir tví- og þrívíð verk,
 • byggt eigin listsköpun á hugmyndavinnu tengdri ímyndun, rannsóknum og reynslu,
 • beitt hugtökum og heitum sem tengjast aðferðum verkefna hverju sinni,
 • fjallað um eigin verk og verk annarra í virku samtali við aðra nemendur,
 • greint og fjallað um áhrif myndmáls í umhverfinu og samfélaginu.

Hæfniviðmið fyrir stærðfræði

Við lok 7. bekkjar getur nemandi t.d.:

Tölur og reikningur

 • skráð hlutföll og brot á ólíka vegu.

KVEIKJA

Byrjað er á að ræða um popplist og einkenni hennar.

Því næst er hugtakið portrett úrskýrt og skoðuð portrett eftir Andy Warhol. Rætt er um silkiþrykk aðferðina sem Warhol notaði við gerð myndanna og hvernig sú tækni gerði honum mögulegt að gera mörg eintök af sömu myndinni í mismunandi litum.

Því næst er farið í gegnum aðferð til að teikna höfuð og andlit í „réttum“ hlutföllum. Orðið réttum er í gæsalöppum þar sem engin tvö andlit eru eins og hlutföll geta verið mismunandi þó nota megi vissar grunnreglur til viðmiðunar. En sú algengasta er sýnd skref fyrir skref hér fyrir neðan.

FRAMKVÆMD

1. skref
Teiknið ferning sem er 16 cm á breidd og 16 cm á lengd.

2. skref
Teiknið ferhyrning sem er 8 cm á breidd og 12 cm á hæð. Allar línur sem sýndar eru í rauðu skal teikna mjög laust því þetta eru hjálparlínur.

3. skref
Skiptið ferhyrningnum í 2 jafna helminga.

4. skref
Teiknið egglaga höfuð sem er breiðara að ofan en neðan.

5. skref
Teiknið hjálparlínu fyrir hárlínuna u.þ.b. 1,5 cm frá hvirfli (1/8 hluti af 12 cm).

6. skref
Skiptið bilinu frá hárlínunni og niður að höku í 3 jafna hluta (3,5 cm) með 2 hjálparlínum.

7. skref
Til að finna stærð og staðsetningu augnanna er breidd höfuðsins skipt í 5 jafna hluta (1,6 cm hver hluti).

8. skref
Teiknið augu og augabrúnir. Munið eftir augnkrókunum og augnlokunum. Augu eru oftast möndlulaga og augabrúnir geta verið mismunandi í laginu hjá fólki.

9. skref
Teiknið nefið. Breidd nefsins milli nasavængjanna er oft miðuð við breidd bilsins milli augnanna. Nef eru að sjálfsögðu mjög mismunandi að stærð og lögun og því er besta leiðin til að teikna nef að fá sér spegil og æfa sig á eigin nefi eða skoða myndir og herma eftir þeim.

10. skref
Teiknið eyrun. Stærð eyrna er einstaklingsbundin en þau eru samt sem áður staðsett á ákveðnum stað. Þau ná frá augabrúnum eða efri brún augna og niður að neðri brún nefsins. Eyru virðast frekar flókin og gott að nota fyrirmyndir til að skoða lögun og gerð.

11. skref
Teiknið munninn. Breidd munnsins er oftast miðuð við breidd bilsins milli augasteinanna. Bilið milli efri varar og höku er oftast 1/4 af heildarstærð höfuðsins.

12. skref
Teiknið hárið, hálsinn, axlirnar (og peysu eða bol?). Hárið getur verið sítt eða stutt, krullað eða slétt, allt eftir smekk.

13. skref
Farið nú ofan í allar línur (nema hjálparlínur) með grönnum svörtum túss. Strokið síðan út allar blýantslínur. Ljósritið myndina í 4 eintökum (eða 5 því gott er að hafa 1 eintak til vara).

14. skref
Veljið 4 liti (tré- eða tússliti) og litið mismunandi hluta andlitsins og bakgrunninn með hverjum lit. Til að auðvelda sér vinnuna er hægt að búa til töflu eins og sést á meðfylgjandi mynd.

15. skref
Að lokum eru myndirnar klipptar út og límdar á karton (t.d. svart).

UMRÆÐUSPURNINGAR

Hvað er popplist?
Hvað er portrett?
Skoðið nokkrar myndir eftir popplistamenn. Hvað eru myndirnar að segja? Fjalla þær um neysluþjóðfélög og fjölmiðlunar? T.d. myndasögur, auglýsingar, kvikmyndir, bæði á jákvæðan og neikvæðan hátt?

ÍTAREFNI

Leitarorð: Andy Warhol | Andy Warhol prints | grafík dúkrista | pop art | popplist | self portrait

Form – veggspjald í myndmennt

Litir – veggspjald í myndmennt

Rými – veggspjald í myndmennt

Kveikjur fyrir skapandi skólastarf

Ég sé með teikningu

ALDUR

Miðstig

GRUNNÞÆTTIR

Læsi, sköpun

FJÖLDI KENNSLUSTUNDA

2 x 80 mínútur

ÞVERFAGLEG TENGING

T.d. samþættingarverkefni sjónlista og stærðfræði

EFNI OG ÁHÖLD

A4 pappír
blýantar, vel yddaður
litir (t.d. tré-, túss- eða vaxlitir)
reglustika
strokleður
túss, grannur (t.d. Artline 210 nr. 0,6 eða Artline 200 nr. 0,4)

HUGTÖK

dúkrista
grafík
popplist
portrett
silkiþrykk

LISTAMENN

Andy Warhol

LISTASAGA

Popplist

HÖFUNDUR

ⓒ Sigrún Ólafsdóttir
Menntamálastofnun 2022