Hlutföll mannslíkamans

STUTT LÝSING

Nemendur skoða hver hlutföll líkamans eru og gera samanburð á hlutföllum og stærðum eftir mælingum. Í lokin teikna þau manneskju í réttum hlutföllum.

HÆFNIVIÐMIÐ

Sameiginleg hæfniviðmið fyrir list- og verkgreinar

Við lok 7. bekkjar getur nemandi t.d.:

  • útskýrt og sýnt vinnuferli sem felur í sér þróun frá hugmynd til afurðar,
  • hagnýtt leikni og þekkingu sem hann hefur öðlast til að takast á við fjölbreytt viðfangsefni,
  • haft sjálfbærni að leiðarljósi í vinnu sinni,
  • gert grein fyrir menningarlegu hlutverki list- og verkgreina,
  • gert grein fyrir helstu hugtökum sem tengjast viðfangsefni hans,
  • sýnt ábyrga og örugga umgengni við vinnu og frágang á vinnusvæði,
  • lagt mat á eigin verk og sýnt skilning á vönduðum vinnubrögðum.

Hæfniviðmið fyrir sjónlistir

Við lok 7. bekkjar getur nemandi t.d.:

  • notað mismunandi efni, verkfæri og miðla á skipulagðan hátt í eigin sköpun,
  • nýtt sér grunnþætti myndlistar í eigin sköpun,
  • unnið hugmynd frá skissu að lokaverki bæði fyrir tví- og þrívíð verk,
  • byggt eigin listsköpun á hugmyndavinnu tengdri ímyndun, rannsóknum og reynslu,
  • beitt hugtökum og heitum sem tengjast aðferðum verkefna hverju sinni,
  • fjallað um eigin verk og verk annarra í virku samtali við aðra nemendur,
  • greint og fjallað um áhrif myndmáls í umhverfinu og samfélaginu.

Hæfniviðmið fyrir stærðfræði

Við lok 7. bekkjar getur nemandi t.d.:

Tölur og reikningur

  • skráð hlutföll og brot á ólíka vegu.

KVEIKJA

Í gegnum söguna hafi listamenn stúderað mannslíkamann og endurreisnarlistamenn eins og Leonardo da Vinci og Michelangelo hafi meira að segja krufið lík til að kanna hvernig líkaminn er saman settur. Sýnið nemendum mynddæmi af skissum Leonardos og styttum Michelangelos og fleiri síður um mannslíkamann og hlutföll hans (t.d. um gullinsnið og skiptingu líkamans í 8 höfuð). Teikning Leonardos af Vitrúvíusarmanninum á að sýna fullkomin hlutföll mannslíkamans. Hann gerði teikninguna eftir texta rómverska húsameistarans Vitrúvíusar (1. öld fyrir Krist) sem fram kom í riti hans De architecture eða Um byggingarlistina.

Kynnið fyrir nemendum eina af þeim aðferðum sem notaðar eru til að mæla hlutföll mannslíkamans. Þessi aðferð gengur út á að nota stærð höfuðsins til að mæla hlutföll líkamans. Almenna reglan er sú að fullvaxin manneskja er u.þ.b. 8 höfuð á hæð en tekið skal fram að það er ekki algild regla. Börn eru að sjálfsögðu færri höfuð á hæð og ekki víst að nemendur í 8. bekk séu full 8 höfuð.

Til að komast að því hvort reglan um að líkaminn sé 8 höfuð standist eru einn eða tveir nemendur fengnir til að vera sjálfboðaliðar og útlínur þeirra teiknaðar á stóra örk af maskínupappír. Best er að láta þau liggja á maskínupappírnum meðan útlínurnar eru teiknaðar. Örkin er svo fest upp á vegg þar sem allir nemendur geta fylgst með. Stærð höfuðsins er mæld og hvað líkaminn eru mörg höfuð. Athugað er hvar höfuðin koma á líkamanum og merkt inn, t.d. haka, nafli, klof, hné o.fl. Sjá skýringarmynd 1.

Einnig er gaman að sanna hvort það standist að hæð okkar sé sú sama og lengdin milli útréttra handa. Ekki ætti að vera erfitt að fá sjálfboðaliða úr hópi nemenda til að sannreyna þá reglu.

FRAMKVÆMD

Nemendur æfa sig nú að teikna manneskju í réttum hlutföllum og fá A3 eða A4 blöð (þunn, t.d. 80 gr). Þau brjóta blöðin í tvennt, síðan aftur í tvennt og enn einu sinni. Þá er búið að skipta blöðunum í 8 hluta. Nemendur teikna manneskjur í réttum hlutföllum og geta t.d. stuðst við myndina á maskínupappírnum eða skýringarmynd 2.

UMRÆÐUSPURNINGAR

Í lok verkefnisins

Hvernig gekk að mæla stærðir og hlutföll?
Er teikningin í réttum hlutföllum? Hvar og hvað gerir það að verkum? Hvar ekki og hvernig er þá hægt að laga það?
Er teikningin í jafnvægi? Ef svo er, hvað gerir það að verkum? Ef ekki, hvernig er þá hægt að laga það?

ÍTAREFNI

Leitarorð: gullinsnið

Rými – veggspjald í myndmennt

Form – veggspjald í myndmennt

Litir – veggspjald í myndmennt

Kveikjur fyrir skapandi skólastarf

ALDUR

Unglingastig

GRUNNÞÆTTIR

Læsi, sköpun

FJÖLDI KENNSLUSTUNDA

1-2 x 80 mínútur

ÞVERFAGLEG TENGING

T.d. samþættingarverkefni sjónlista og stærðfræði

EFNI OG ÁHÖLD

A3 eða A4 blöð
blýantar (og strokleður ef þarf)
skýringarmynd 1
skýringarmynd 2

HUGTÖK

hlutföll

LISTAMENN

Leonardo da Vinci, Michelangelo

LISTASAGA

Endurreisn, háendurreisn

HÖFUNDUR

ⓒ Sigrún Ólafsdóttir
Menntamálastofnun 2022