Fjarvídd

STUTT LÝSING

Nemendur kynnast hugtakinu fjarvídd og vinna verkefni því tengdu.

HÆFNIVIÐMIÐ

Sameiginleg hæfniviðmið fyrir list- og verkgreinar

Við lok 7. bekkjar getur nemandi t.d.:

  • útskýrt og sýnt vinnuferli sem felur í sér þróun frá hugmynd til afurðar,
  • hagnýtt leikni og þekkingu sem hann hefur öðlast til að takast á við fjölbreytt viðfangsefni,
  • haft sjálfbærni að leiðarljósi í vinnu sinni,
  • gert grein fyrir menningarlegu hlutverki list- og verkgreina,
  • gert grein fyrir helstu hugtökum sem tengjast viðfangsefni hans,
  • sýnt ábyrga og örugga umgengni við vinnu og frágang á vinnusvæði,
  • lagt mat á eigin verk og sýnt skilning á vönduðum vinnubrögðum.

Hæfniviðmið fyrir sjónlistir

Við lok 7. bekkjar getur nemandi t.d.:

  • notað mismunandi efni, verkfæri og miðla á skipulagðan hátt í eigin sköpun,
  • nýtt sér grunnþætti myndlistar í eigin sköpun,
  • unnið hugmynd frá skissu að lokaverki bæði fyrir tví- og þrívíð verk,
  • byggt eigin listsköpun á hugmyndavinnu tengdri ímyndun, rannsóknum og reynslu,
  • beitt hugtökum og heitum sem tengjast aðferðum verkefna hverju sinni.

KVEIKJA

Skoðið veggspjaldið Rými.
Ræðið um hugtökin fjarvídd, hvarfpunktur, samhliða línur, sjóndeildarhring o.fl. Reynið að finna dæmi um þetta í stofunni og í umhverfinu.

Minnast má á Filippo Brunelleschi en hann uppgötvaði fjarvíddarteikninguna en hún sýnir okkur hvernig við sjáum hluti miðað við hvar þeir eru staðsettir í umhverfinu. Sýnið nemendum mynddæmi þar sem fjarvídd kemur vel fram og þar sem línur eru framlengdar þangað til þær mætast í hvarfpunktum. Til að átta sig enn betur á þessu er hægt að fara út og sjá hvernig staurar virðast minnka eftir því sem þeir eru lengra í burtu frá okkur.

FRAMKVÆMD

Skoðið vel myndirnar sem fylgja hverju skrefi

1. skref
Nemendur fá A5 blað og teikna einfalda framhlið á byggingu sem fyllir út í blaðið.
Með reglustriku eru gerðar láréttar línur eftir gluggum og hurðum.

2.-3. skref
Nemendur finna miðjuna á stóra kartoninu (22,5 cm og 16 cm) og teikna hvarfpunktinn.
Síðan er sjónhæðarlína teiknuð lárétt í gegnum hvarfpunktinn.

 

4.-5. skref
Staðsetning láréttu línanna á A5 blaðinu er færð yfir á stóra kartonið, bæði hægra og vinstra megin. Nemendur draga línur með reglustiku frá staðsetningu láréttu línanna og í punktinn. Þá eru komnar hjálparlínur sem sýna hvernig húsin minnka eftir því sem þau fjarlægjast eða nálgast hvarpunktinn (ath. að á myndinni er búið að teikna línu fyrir gangstétt).

6. skref
Nú þarf að mæla breidd húsanna. Húsin eru breiðust yst en mjóst næst hvarfpunktinum. Mælt er á sjónhæðarlínunni og merkt við skv. eftirfarandi: hús 1: 9 cm, hús 2: 5,5 cm, hús 3: 3,3 cm, hús 4: 2 cm. Síðan eru dregin lóðrétt strik í gegnum punktana. Þá eru komnar hjálparlínur sem sýna breidd húsanna eða hvernig þau mjókka eftir því sem þau fjarlægjast.

7.-8. skref
Því næst eru þaklínurnar teiknaðar og nú fer form húsanna að sjást í gegnum hjálparlínurnar.

9.-11. skref

Næsta skref er að teikna glugga og hurðir og nota til þess hjálparlínurnar.

12.-14. skref
Bæta má við í bakgrunninn s.s. gangstétt, skiltum, ljósastaurum, fjöllum eða húsum.
Þegar búið er að teikna allt sem á að vera á myndinni er farið ofan í allar línur nema hjálparlínur með mjóum svörtum tússpenna (t.d. Artline 200-0,4 eða Artline 210-0,6).
Að því loknu eru allar hjálparlínur strokaðar út.

16. skref
Að lokum er myndin lituð t.d. með trélitum, tússlitum eða pastelkrít.

UMRÆÐUSPURNINGAR

Hvað er það sem gefur mynd dýpt?

Í lok verkefnisins:
Hvað hafið þið lært af þessu verkefni?

ÍTAREFNI

Leitarorð: fjarvídd | linear perspective | one-point perspective | perspective drawing

Form – veggspjald í myndmennt

Litir – veggspjald í myndmennt

Rými – veggspjald í myndmennt

Kveikjur fyrir skapandi skólastarf

ALDUR

Miðstig

GRUNNÞÆTTIR

Læsi, sköpun

FJÖLDI KENNSLUSTUNDA

2 x 80 mínútur

ÞVERFAGLEG TENGING

Samþættingarverkefni sjónlista og annarra greina eftir því hvernig verkefnið er útfært.

EFNI OG ÁHÖLD

A5 blöð
blýantar
pappír (45 x 32 cm)
reglustikur
trélitir, tússlitir og/eða pastelkrít
tússpennar, grannir og svartir (t.d. Artline 200-0,4 eða Artline 210-0,6)

HUGTÖK

fjarvídd
hvarfpunktur
sjóndeildarhringur

LISTAMENN

Að eigin vali

LISTASAGA

Að eigin vali

HÖFUNDUR

ⓒ Sigrún Ólafsdóttir
Menntamálastofnun 2022