SJÁLFSMYND

STUTT LÝSING

Nemendur vinna myndræna frásögn úr nánasta umhverfi, upplifunum og ímyndunum með því að nota á fjölbreytilegan hátt viðeigandi efni, verkfæri og tækni. Þau læra að þekkja muninn á grunnformum og náttúrulegum formum og kynnast mismunandi miðlum s.s. málverki, teikningu, grafík, ljósmynd og höggmynd. Rætt er um hvaða svipbrigði/tilfinningar má lesa út úr andlitum fólks.

HÆFNIVIÐMIÐ

Sameiginleg hæfniviðmið fyrir list- og verkgreinar

Við lok 4. bekkjar getur nemandi t.d.:

  • unnið eftir einföldu ferli frá hugmynd til afurðar,
  • tjáð sig á einfaldan hátt um viðfangsefni sitt,
  • gengið frá eftir vinnu sína,
  • lagt mat á eigin verk.

Hæfniviðmið fyrir sjónlistir

Við lok 4. bekkjar getur nemandi t.d.:

  • nýtt sér í eigin sköpun einfaldar útfærslur sem byggja á færni í meðferð lita- og formfræði og myndbyggingar,
  • skapað myndverk í ýmsum tilgangi með margvíslegum aðferðum,
  • fjallað um eigin verk og annarra.

Hæfniviðmið fyrir samfélagsgreinar

Við lok 4. bekkjar getur nemandi t.d.:

  • áttað sig á og lýst ýmsum tilfinningum, svo sem gleði, sorg og reiði (hugarheimur),
  • tekið þátt í samstarfi og samræðu í jafningjahópi (félagsheimur).

KVEIKJA

Vitið þið hvað sjálfsmynd er? Hugtakið sjálfsmynd (e. self portrait) er útskýrt fyrir nemendum með mynddæmum en gott er að hafa mynddæmi af mismunandi tagi m.t.t. tækni t.d. málverk, teikningu, þrykk, ljósmynd, höggmynd o.fl. til að kynna þessi hugtök fyrir nemendum.

 

Dæmi um leitarorð: Judith Leyster self portrait | Leonardo da Vinci 1512 drawing |  Rembrant van Rijn 1630 etching | Rosa Bonheur self portrait | Portraits of Vincent van Gogh painting | Andy Warhol self portrait 1967 photography Joseph K Levene | Sjálfsmynd Thorvaldsens með Vonargyðjuna

 

Nemendur fá því næst spegil (t.d. stærðfræðispegil) og meðan þeir grandskoða andlit sín í speglinum er farið í gegnum öll hugtök sem tengjast höfðinu og andlitinu með því t.d. að teikna höfuð og andlit á töfluna. Gott er að fara í: lögun höfuðsins, staðsetningu og lögun augnanna svo og lit þeirra, lögun og lit andlits og hárs, augnhár, augabrúnir, enni, nef, munn, háls o.s.frv. Að lokum má sýna nemendum mynddæmi t.d. eftir aðra nemendur og um leið er farið í hvernig á að vinna verkefnið.

KENNSLUSTUND 1-2

Nemendur fá A3 karton (hvítt eða annan lit eftir smekk) og byrja á að teikna höfuðið. Passa þarf að þau teikni það ekki of lítið en það er tilhneiging hjá flestum. Því næst teikna þau allt sem á að vera á höfðinu þ.e. augu (ekki gleyma augasteinum, lithimnu og hvítu), augnhár, augabrúnir, nef, nasir, nasavængi, munn (ræða tilfinningar) og þá þarf að muna eftir tönnum og jafnvel tungu, eyru, hár, háls og axlir. Fylgjast þarf með og hjálpa nemendum að muna eftir öllum atriðum. Síðan lita þau með vaxlitum eða trélitum og fara ofan í útlínur með svörtum túss. Mála má bakgrunninn með vatnslitum eða þekjulitum. Útfærslur geta verið margs konar.

UMRÆÐUSPURNINGAR

Við erum öll ólík í útliti. Getið þið nefnt dæmi? Sum okkar eru með hrokkið hár á meðan önnur eru með slétt hár, sum eru dökk á hörund á meðan önnur eru ljós á hörund.

Þó svo við séum ólík að mörgu leiti erum við einnig lík. Líkamar okkar líta svipaðir út og þeir starfa flestir á sama hátt. Á höfðinu erum við t.d. með eyru, munn, augu, nef og meira að segja flest erum við með agnarsmá nefhár. Annað sem við eigum öll sameiginlegt er að við höfum öll tilfinningar. Nefnið dæmi um tilfinningar? Þær geta verið t.d. gleði, tilhlökkun, sorg, kvíði, hræðsla og spenna. Okkur líður mismunandi eftir því hvað við höfum verið að gera eða upplifa. Prófið að bíta laust í blýant, hvað gerist þá við munninn? Hann brosir. Við megum teikna okkur eins og við viljum sjálf og ráðum hvort við viljum vera glöð á myndinni, hissa, vonsvikin, spennt, leið eða eitthvað allt annað.

ÍTAREFNI

Bókin um Tíslu – Um er að ræða námsbók í siðfræði og lífsleikni. Hún fjallar um hugsanir, tilfinningar og atvik sem upp kunna að koma hjá börnum við upphaf skólagöngu og hvernig má takast á við breytingar á jákvæðan hátt.

Halló heimur 1 – nemendabók, kennsluleiðbeiningar – Fjallar m.a. um líkamann

Leit á vef:

self-portrait

sjálfsmynd 

self portrait sculpture

Self-portrait photographs

 

 

ALDUR

Yngsta stig

GRUNNÞÆTTIR

Læsi, heilbrigði og velferð, sköpun

FJÖLDI KENNSLUSTUNDA

2 x 80 mínútur

ÞVERFAGLEG TENGING

T.d. samþættingarverkefni sjónlista og samfélagsgreina.

EFNI OG ÁHÖLD

speglar (t.d. stærðfræðispeglar)
170-250 gr pappír (ca. A3 eða 32 x 45 cm)
blýantur (og strokleður ef þarf)
vaxlitir og/eða trélitir
vatnslitir og/eða þekjulitir (t.d. í bakgrunninn)
svartur tússlitur í útlínur (frekar sver, t.d. Artline 210 medium 0.6)

HUGTÖK

grafík
grunnform
höggmynd
ljósmynd
náttúruleg form
málverk
teikning
þrykk

LISTAMENN

T.d. Andy Warhol, Bertel Thorvaldsen, Judith Leyster, Leonardi da Vinci, Rembrant van Rijn, Rosa Bonheur, Vincent van Gogh.

LISTASAGA

Að eigin vali

HÖFUNDUR

ⓒ Sigrún Ólafsdóttir
Menntamálastofnun 2022