Skip to main content

Fortíðin rannsökuð vandlega

Ekki voru allir listamenn á endurreisnartímanum sáttir við þróun listarinnar. Þeirra frægastur var Sandro Botticelli (1444–1510). Hann var hrifnari af hinum gotneska stíl. Verk hans fjalla ekki um kristna trú heldur heiðni, þar sem gyðjur og skógarvættir dansa um myndflötinn. Það þurfti mikið hugrekki til að mála myndir í andstöðu við hugmyndir kirkjunnar. Botticelli hafði kynnst skáldum og heimspekingum endurreisnarinnar sem hvöttu hann til að endurvekja hina fornu goðafræði. Málverk Botticellis eru mjög nákvæm þótt listamaðurinn reyni ekki að sýna dýpt eða fjarvídd. Umhverfið er skáldsagnakennt. Í málverkinu Vorið má telja 500 mismunandi jurtir og þar af eru 190 blóm. Grasafræðingar hafa nafngreint 130 þeirra. Hávaxnar gyðjurnar svífa um, sveipaðar gegnsæju híalíni sem myndar bylgjuhreyfingar í takti við sítt hár stúlknanna. Samnemandi Botticellis, Leonardo da Vinci, var ekki hrifinn af hugmyndum hans. Þó viðurkenndi Leonardo að málverk Botticellis væru afar fögur. Botticelli gleymdist í 400 ár og var enduruppgötvaður í lok nítjándu aldar.


Vorið eftir Sandro Botticelli.

Egg-tempera

Botticelli notaði egg-temperaliti til að mála með en slíkir litir höfðu verið notaðir í margar aldir. Til að búa þá til þarf eggjarauðu, vatn og litarefni. Litirnir þornuðu mjög hratt og það hafði áhrif á tæknina sem málarinn notaði. Komið hefur í ljós að þessir litir hafa varðveist betur en nokkur önnur málning sem notuð var á þessum tíma. Litirnir eru gjarnan mjög bjartir og skærir og dökkna ekki með tímanum. Olíulitir leystu egg-tempera litina af hólmi á endurreisnartímanum en þó voru nokkrir listamenn sem héldu áfram að nota þá gömlu aðferð.

Hinn fjölhæfi maður

Þegar nær dró lokum 15. aldar fór sú hugmynd að verða algengari að listamenn væru annað og meira en handverksmenn. Listamenn væru hugsuðir rétt eins og skáld og heimspekingar. Einn þeirra sem hélt þessu fram var Leonardo da Vinci (1452–1519). Hann var mörgum gáfum gæddur og forvitinn um allt milli himins og jarðar. Hann var svo frábær listmálari að meistari hans, Verrocchio, lét hann stjórna málaraverkstæðinu svo hann sjálfur gæti einbeitt sér að höggmyndalist. Auk þess að mála og teikna sinnti Leonardo rannsóknum á sviði náttúrufræði, líffræði, eðlisfræði og verkfræði. Hann var grænmetisæta og hafði svo mikla ást á fuglum að stundum keypti hann lifandi fugla í búrum á markaðinum til þess að sleppa þeim frjálsum á nýjan leik. Þessi áhugi hans á fuglum og flugi birtist í rannsóknum hans á eðlisfræði og gerði hann teikningar af allskyns svifflugum og flugvélum. Síðari tíma tilraunir hafa sýnt fram á að sumt af því sem Leonardo teiknaði hefði getað flogið ef það hefði verið smíðað. 


Teikning eftir Leonardo da Vinci.

Leonardo var örvhentur og skrifaði spegilskrift og segja sumir að það hafi hann gert til þess að gera öðrum erfitt fyrir að lesa það sem hann setti niður á blað. 

Leonardo málaði aðeins fimmtán málverk en vinnubækur hans prýða 13 þúsund síður af teikningum, textum og athugasemdum. Frægustu málverk Leonardos eru Síðasta kvöldmáltíðin frá 1495–1498 og Mona Lisa frá 1503–1505 sem er líklega frægasta málverk í heimi. 

Myndin Síðasta kvöldmáltíðin, er máluð á steinvegg í matsal Santa Maria delle Grazie-klaustursins í Mílanó á Ítalíu. Hún sýnir andartakið þegar Jesú segir við lærisveina sína: „Einn af ykkur mun svíkja mig“. Yfirleitt voru veggmálverk máluð með freskutækni. Þá er ekki hægt að breyta neinu eftir á en Leonardo notaði egg-tempera til þess að hafa frelsi til að breyta og lagfæra eftir því sem verkinu miðaði áfram. Afleiðingarnar urðu skelfilegar því málverkið fór strax að skemmast vegna þess að veggurinn sem það er málað á var oft rakur. Myndin er kveikja margra samsæriskenninga og var hún notuð sem hugmynd í frægri bók Dans Brown, „Da Vinci lykillinn“. 


Síðasta kvöldmáltíðin eftir Leonardo da Vinci.

Dularfullt bros Monu Lisu og augnsvipur hafa verið mönnum ráðgáta um aldir. Konan sem sat fyrir á myndinni hét Lisa del Giocondo. Hún var eiginkona efnaðs kaupsýslumanns í Flórens. Það sem gerir bros Monu Lisu dularfullt og augu hennar leyndardómsfull er málaratækni sem Leonardo þróaði og kallast Sfumato eða „reyking“. Tæknin byggist á því að andstæður ljóss og skugga eru í lágmarki og engar skýrar útlínur sýnilegar. Þetta gerir myndina dularfulla og gefur ímyndunarafli áhorfandans lausan tauminn. Þess vegna finnst sumum, sem horfa á myndina í smástund, Mona Lisa horfa á móti og brosa til þeirra. Leonardo tók myndina með sér hvert sem hann fór og þess vegna er hún núna í Frakklandi því þangað flúði hann á gamals aldri þegar höfðingjarnir á Ítalíu voru orðnir honum andsnúnir.


Mona Lisa eftir Leonardo da Vinci.

Háendurreisn í Feneyjum

Sumum þótti Leonardo seinvirkur í lifanda lífi. Kannski vildu menn einfaldlega fá að sjá meira eftir hann. En engu að síður vakti málaratækni hans svo mikla athygli að listamenn um alla Evrópu reyndu að ná tökum á aðferðum hans. Sérhver borg á Ítalíu átti þó sína meistara og sinn stíl. Ólíkt listamönnum í Flórens notuðu málararnir í Feneyjum gjarnan landslag í bakgrunni og sem sviðsmynd fyrir persónurnar á málverkunum. Litanotkun feneyskra listamanna var líka mildari en málaranna frá Flórens svo og birtan í verkunum. Listamenn í Feneyjum notuðu striga til að mála á í stað tréplatna. Auk þess seldu þeir verk sín á opnum markaði frekar en að vinna eftir pöntunum. 

Frægasti listamaður Feneyja á 15. öld var Giovanni Bellini (1430–1516). Hann var líka frábær kennari því tveir af nemendum hans komust í hóp merkilegustu listamanna sögunnar. Það voru Giorgione (1477–1510) og Tizian (1490–1576). Þeir höfðu mikla tilfinningu fyrir litum, áferð og andrúmslofti og höfðu áhrif á mikilvægi málaralistarinnar næstu aldirnar. 

Bellini byrjaði að mála Veislu guðanna þegar hann var orðinn háaldraður. Hann var undir áhrifum frá Giorgione sem var nemandi hans en þeir dóu báðir áður en verkinu lauk. Tizian tók að sér að ljúka myndinni og bætti við hinu stórbrotna klettalandslagi og skýjafari bakvið bændurna sem halda uppskeruhátíð ásamt heiðnum vættum. Sjá má viss áhrif frá Vorinu eftir Botticelli þótt fólk Bellinis sé ekki eins draumkennt og goðsagnaverur hans.


Veisla guðanna eftir Bellini.

Háendurreisn í Róm

Á endurreisnartímanum var Ítalía ekki sameinað ríki heldur mörg smærri sjálfstæð ríki. Vald Rómarborgar óx jafnt og þétt í skjóli Vatíkansins enda voru páfarnir jafnframt veraldlegir leiðtogar líkt og konungar og keisarar. Þeir voru stórtækir listkaupendur og menningarfrömuðir og fengu til sín færustu listamenn hvaðanæva af Ítalíuskaga. Enginn gat neitað kalli páfa og skömmu eftir aldamótin 1500 gengu tveir frægir listamenn í þjónustu páfans. Það voru Rafael Sanzio (1483–1520) og Michelangelo Buonarroti (1475–1564). 

Rafael var listmálari en páfinn setti hann einnig yfir húsagerð Vatíkansins. Rafael sá meðal annars um smíði Péturskirkjunnar í Róm. Hann málaði einnig risavaxnar freskur í fjórum einkaherbergjum páfans. Freskurnar voru allt að sex metrar á hæð og átta metrar á breidd. Þeirra þekktust er Skólinn í Aþenu. Sumir halda því fram að myndin sé eitt fullkomnasta listaverk háendurreisnarinnar. Bakgrunnur myndarinnar er risahvelfingar Péturskirkjunnar í fullkominni fjarvídd með hópum af heimspekingum og stærðfræðingum fornaldar á stéttinni framan við hvelfingarnar. Fyrir miðju má sjá Platón og Aristóteles. Þetta verk Rafaels varð helsta fyrirmynd allrar klassískrar myndlistar fram undir miðja 19. öldina.


Skólinn í Aþenu eftir Rafael.