Skip to main content

Tilfinningar, lífið og tilveran

Um það leyti sem Leonardo (1519) og Rafael (1520) létust má segja að háendurreisnin hafi náð hápunkti sínum. Jafnvel þó Michelangelo (1475–1564) teljist háendurreisnarmaður voru hugmyndir hans ólíkar hugmyndum annarra endurreisnarmanna. Michelangelo sóttist ekki eftir jafnvægi né réttum hlutföllum í listinni heldur tjáningu tilfinninga og hugmynda um lífið og tilveruna.

Michelangelo tók að sér að gera marmarastyttu af Davíð fyrir Dómkirkjuna í Flórens. Styttan er meira en fimm metrar á hæð og var höggvin út úr marmarablokk sem margir héldu að væri of mjó fyrir verkið. En Michelangelo tókst svo vel til að höggva styttuna út að margir telja hana glæsilegustu höggmynd allra tíma. Michelangelo fór frjálslega með hlutföllin, höfuð og hendur eru óvenju stór miðað við grannvaxinn líkamann.


Davíð eftir Michelangelo.

Michelangelo var fyrst og fremst myndhöggvari. Meðan hann var í þjónustu páfans vildi páfinn þó að hann málaði loftið á Sixtínsku kapellunni en hún er aðalkapella Páfagarðs (Vatíkansins). Hvelfingin yfir kapellunni er engin smásmíði. Hún er 40 metrar á lengd og 14 metrar á breidd, samtals 560 fermetrar, hér um bil eins og handboltavöllur. Að auki er hún í 20 metra hæð frá gólfinu. Michelangelo vildi alls ekki taka verkið að sér því hann var fyrst og fremst myndhöggvari. Honum fannst svona stórt verkefni trufla einbeitingu sína við höggmyndalistina. En páfinn gaf sig ekki og Michelangelo byrjaði að mála hvolfþakið árið 1508 og lauk því 1512. Þar má sjá myndir úr sköpunarsögunni og eru 300 mannverur sýnilegar í verkinu.

Síðar málaði Michelangelo gafl kapellunnar með Dómsdagsfreskunni (1534–1541). Þar má sjá Krist dæma lifendur og dauða. Freskan var fyrirboði um átök innan kirkjunnar milli mótmælenda og kaþólikka en hún sýndi einnig sálarangist höfundarins.


Drottinn gefur Adam líf eftir Michelangelo. Þetta er ein frægasta mynd í heimi. Þar má sjá Drottin gefa Adam líf með snertingu fingurs. Táknrænt fyrir samband manneskjunnar við Guð sem gefur henni líf.

Michelangelo var margt til lista lagt. Hann endurhannaði Kapítóltorgið í Róm og hallirnar umhverfis. Auk þess lauk hann við hönnun hvolfþaks Péturskirkjunnar í Róm. Hann var margbrotin og hrjáð sál sem leitaði svölunar í listsköpun. Enginn listamaður náði jafn miklum árangri og hann á jafn ólíkum sviðum í höggmynda-, málara- og húsagerðarlist auk þess að vera mikið ljóðskáld.


Hvolfþak Péturskirkjunnar í Róm.

Konur hasla sér völl 

Konur sem vildu verða listamenn stóðu frammi fyrir miklum erfiðleikum varðandi listnám. Þær fengu ekki inngöngu í opinbera listaháskóla fyrr en um 1880. Fyrir þann tíma gátu aðeins konur af yfirstétt eða dætur listamanna stundað listnám og þá í einkaskólum.

Sofonisba Anguissola (1532–1625) var ein sex systra sem allar voru listamenn. Þær fæddust í Cremona á Norður-Ítalíu. Sofonisba ruddi braut kvenna þar sem hún var fyrsta konan til að öðlast myndlistarmenntun þrátt fyrir að vera hvorki af yfirstétt né dóttir listamanns. Hún var jafnframt fyrsta listakona sögunnar til að öðlast alþjóðafrægð. Filippus II Spánarkonungur kallaði hana í þjónustu sína sem hirðmálara. Sofonisba var meðal fyrstu listmálara sögunnar til að túlka innileik hversdagslífsins og gera þannig nánasta umhverfi sitt að meginviðfangsefni sínu. Þessi raunsæja afstaða hennar vakti aðdáun og forvitni ýmissa listamanna. 

Á þessum tíma þótti óviðeigandi að konur lærðu anatómíu (líffærafræði) með því að teikna naktar fyrirsætur. Fyrir vikið þróaði Sofonisba sérstaka tækni í andlitsmyndum. Helsta tekjulind hennar voru mannamyndir af hefðarfólki en bestu verkin eru án efa málverk hennar af eigin fjölskyldu og sjálfri sér. Sjálfsmynd hennar frá 1556 gefur áhugaverða túlkunarmöguleika. Hún sjálf horfir til áhorfandans og snýr frá málverki sem sýnir Maríu Guðsmóður og Jesúbarnið. Málverk af málverki gefur til kynna fjarlægð og hugsanlega er Sofonisba að leggja áherslu á hvernig félagsleg staða hennar sem konu meinar henni að takast á við trúarleg viðfangsefni.


Sjálfsmynd eftir Sofonisbu Anguissola.

Lavinia Fontana (1552–1614) var dóttir vel metins listmálara í Bologna á Ítalíu. Sem nemandi föður síns hlaut hún alhliða menntun í faginu svo sem í módelteikningu eftir nakinni fyrirsætu en slíkt var konum bannað allt fram til loka 19. aldar. Lavinia varð því fyrst kvenna til að mála bæði kynin klæðalaus í goðsögulegum málverkum sínum. Hún varð doktor við Háskólann í Bologna og er af mörgum talin fyrsti kvenkyns atvinnulistamaðurinn. Hún var afkastamikill listmálari og skynjaði mikilvægi þess að styrkja ímynd kvenna í listum. Það kemur m.a. fram í bréfum hennar þar sem hún fer fögrum orðum um málverk starfssystur sinnar, Sofonisbu Anguissola.

Lavinia Fontana hafði áhuga á sérkennum tilverunnar. Hún hreifst af öllu sem var óvenjulegt. Ein af eftirlætis fyrirsætum hennar var Antonietta González. Hún var frá Kanaríeyjum og var kafloðin í framan. Faðir Antoniettu var fyrsta þekkta tilfellið í heiminum sem þjáðist af varúlfaveiki (hypertrichosis).


Antonietta González eftir Laviniu Fontana.

Endurreisn norðan Alpafjalla

Upphaf endurreisnarinnar var í Flórens á Ítalíu en hún breiddist út um Evrópu. Norðar í Evrópu var annar blær á myndlistinni vegna ólíkrar menningar ólíkra þjóða. Hieronymus Bosch (1450–1516) var hollenskur listmálari sem var uppi á mörkum miðalda og nýaldar. Talið er að Bosch hafi tilheyrt kristnum söfnuði sem aðhylltist hugmyndir Erasmusar frá Rotterdam (1466–1536). Hann var guðfræðingur og húmanisti sem hélt því fram að endurreisa þyrfti kirkjuna innan frá og útrýma spillingu og siðleysi. Hugmyndir hans áttu sinn þátt í siðaskiptunum sem Marteinn Lúther var upphafsmaður að. Bosch hafði fjörugt ímyndunarafl og sýndi spillinguna í heiminum og syndir mannanna sem hrikaleg skrímsli að kúga viljalausan allsnakinn almenning. Í málverkunum getur að líta risavaxna ávexti, mennsk skorkvikindi, fljúgandi fiska, ummyndaðar ófreskjur og ógnvænleg hljóðfæri. Hann málaði í smæstu smáatriðum með fjarvídd og glæsilegum formfléttum þannig að allt rennur saman í eina stóra heild, hvert sem augað eygir. Lítið er vitað um þróun Bosch sem listamanns því hann dagsetti ekki verk sín en hann málaði aðeins 25 myndir en hann hafði sannarlega fjörlegt hugmyndaflug.

Mynd Bosch, Garður jarðneskra lystisemda, er risastór þrískipt altaristafla, 220 sentímetrar á hæð og 398 á breidd, máluð með olíulitum á tréplötur. Í miðju verkinu má sjá hinar jarðnesku lystisemdir sem eina allsherjar veislu. Á vinstri vængnum er Drottinn að tala við Adam og Evu en á hægri vængnum má sjá vítisdvöl hinna fordæmdu. Talið er að myndin sé viðvörun til fólks um að forðast lystisemdirnar því annars bíði manna dvöl í Víti. Hægt er að loka altaristöflunni með því að leggja hliðarvængina að miðjunni og sést þá grátóna málverk af sköpun heimsins. Undirstaða þessara fínlegu vinnubragða var mikil teiknikunnátta Bosch. Hann var ekki einn um slíka kunnáttu því þýski listmálarinn Albrecht Dürer (1471–1528) var einnig frábær teiknari. Hann þekkti Bellini frá Feneyjum og skiptist á teikningum við Rafael árið 1515. Dürer var sennilega fyrsti listamaðurinn frá Norður-Evrópu sem varð þekktur á Ítalíu og hafði áhrif á ítalska málaralist. Talið er að landslagið í málverkum Giorgiones sé undir áhrifum frá Dürer. Bestu dæmin um teiknihæfileika Dürers eru vatnslitamynd hans af ungum héra (1502) og blýantsteikningin af móður hans (1514).


Garður jarðneskra lystisemda eftir Bosch.


Hérinn eftir Albrecht Dürer.
Dürer var svo nákvæmur í vinnubrögðum að hann málaði hvert einasta hár á feldi hérans. Þó hérinn virðist hreyfingarlaus býr svo mikil spenna í vöðvum dýrsins að hann getur stokkið af stað á hverri stundu.


Móðir listamannsins eftir Albrecht Dürer. Dürer gerði enga tilraun til að fegra móður sína. Myndin er teiknuð hratt og af miklu öryggi.

Annar áhrifamikill þýskur teiknari, Hans Holbein yngri (1497–1543) fór til Englands vegna vaxandi trúarátaka heimafyrir. Þar var mikill áhugi á mannamyndum og Hans Holbein var snjall á því sviði. 

Ambassadorarnir frá 1533 sýnir tvo herramenn standa við borð hlaðið alls konar siglingatækjum, hnöttum og hljóðfærum. Annar maðurinn er sendiherra Frakkakonungs og hinn er biskup; sendiherra Drottins. Hlutirnir á borðinu eru táknmyndir fyrir trú, vísindi og listir. Mennirnir eru sendiherrar hins veraldlega valds annars vegar og guðlega hins vegar. Neðst á málverkinu má sjá undarlegt form koma skáhallt inn í myndflötinn. Skoðað frá hlið að ofan má sjá að þetta er hauskúpa sem er máluð í sérstakri fjarvídd. Hans Holbein yngri hefur laumað þeim skilaboðum inn í myndina að þrátt fyrir allan glæsileik mannlegs samfélags þá eigi dauðinn síðasta orðið. Hauskúpan gæti þó líka verið undirskrift hans: Holt bein? Bein sem er holt að innan.


Ambassadorarnir eftir Hans Holbein yngri.


Erasmus frá Rotterdam eftir Hans Holbein yngri.

Hollenski málarinn Pieter Bruegel eldri (1525–1569) var þekktasti teiknari og málari Hollendinga á seinni hluta 16. aldar. Hann hafði mikinn áhuga á menningu alþýðunnar og málaði margar myndir sem sýna líf og störf bændafólks og leiki barna. Þetta hafði enginn gert áður og eru málverk Bruegel einstök heimild um líf venjulegs fólks á þessum tíma. Hann málaði einnig táknræn verk í anda Bosch sem sýna hinar dökku hliðar mannlífsins.

Bruegel málaði myndina Sveitabrúðkaup einu ári fyrir andlát sitt. Hún sýnir sveitabrúðkaup í heyhlöðu. Brúðurin situr með sælusvip framan við grænt áklæði. Barnið neðst á myndinni sem sleikir baunadiskinn sinn er í allt of stórum fötum og fyrir vikið er myndin kímin og full af ástúð og hlýju sem Bruegel hefur borið til sveitunga sinna.


Sveitabrúðkaup eftir Pieter Bruegel.