Skip to main content

Óregluleg perla

Í myndlistarsögunni er sautjánda öldin gjarnan kennd við barokk. Á ítölsku og portúgölsku þýðir barokk „óregluleg perla“. Helstu einkenni barokktímans í myndlist eru þau að í málaralist urðu birtuskil skarpari en áður. Sjónarhornið færðist neðar, líkt og horft væri upp til fólksins á myndinni. Alþýðufólk og öldungar voru oftar fyrirsætur. Auk þess varð hreyfing og frásögn mikilvægari í málverkunum. Höggmyndalistin tengdist að nýju húsagerðarlist og borgarskipulagi eins og hún hafði gert fyrir endurreisnartímann. Fellingar í klæðum sýndu meiri hreyfingu og ólík efni voru notuð saman til að auka tilfinningu fyrir raunveruleika. Ennfremur urðu áberandi tilfinningarík svipbrigði, reiði, sorg og gleði. Í húsagerðarlist var farið að nota skraut og prjál. Form urðu sporöskjulaga fremur en hringlaga og áherslur í hlutföllum urðu samhverfar fremur en dreifðar. Listgreinarnar þrjár; málaralist, húsagerðarlist og höggmyndalist urðu aftur samhangandi eins og verið hafði á miðöldum. 

Caravaggio

Þekktasti málari Ítala á barokktímanum var Caravaggio (1571–1610). Hann var skapbráður og kraftmikill og málaði beint á strigann án þess að teikna fyrst á hann. Hann varð valdur að dauða manns árið 1606 vegna veðmáls og furða margir sig á því hvernig ofstopamaður eins og Caravaggio gat málað jafn fagrar myndir. 

Caravaggio var umdeildur í lifanda lífi og vöktu verk hans oft hörð viðbrögð. Árið 1602 málaði hann mynd af Tómasi, lærisveininum vantrúaða sem varð að snerta síðusár Krists til að trúa. Myndin er raunsæ og sýnir lærisveininn sem utangarðsmann en það vakti mikla hneykslun að nota utangarðsmenn sem fyrirsætur. Caravaggio var frægur sem málari á 17. öldinni en gleymdist þar til 20. öldin tók hann í sátt. 


Tómas lærisveinninn vantrúaða eftir Caravaggio.


Afneitun Péturs postula eftir Caravaggio.

Artemisia

Artemisia Gentileschi (1593–1652) var einn áhrifamesti málari sinnar kynslóðar. Artemisia var heillandi persóna og öðlaðist frægð langt út fyrir Ítalíu. Hún lifði sjálfstæðu og athafnasömu lífi sem konum á þeim tíma bauðst almennt ekki. Tjáningarmáti Artemisiu var kröftugur og dramatískur. Hún var mjög fær í að sýna áhrif ljóss og skugga í myndum sínum en slík dramatísk myndbirting náði hámarki með Rembrandt. Artemisia málaði mörg málverk af blóðugu myndefni úr Gamla testamentinu sem líklega á rætur sínar í erfiðri lífsreynslu sem hún varð fyrir á yngri árum. Konur voru oft viðfangsefni hennar.


Júdith drepur Hólófernes eftir Artemisiu. Málverkið vekur upp hugrenningatengsl við fréttaljósmyndir samtímans og þá skefjalausu grimmd sem blasir við áhorfandanum.

Rembrandt

Hollenski listamaðurinn Rembrandt Harmenszoon frá Rín (1606–1669) dýpkaði hugmyndir Caravaggios. Hann notaði skuggaspil hans og leikræn tilþrif og sótti sér fyrirsætur í hverfi gyðinga í Amsterdam, þegar hann málaði persónur úr Gamla testamentinu.

Hæfileikar Rembrandts fólust í því frelsi sem hann tók sér sem persónulegur listamaður. Hann teiknaði, málaði og vann grafíkverk. Í stað þess að fullvinna hvert atriði lét hann nægja að gefa hlutina í skyn. Þetta gaf áhorfendum meira svigrúm til þess að túlka sjálfir það sem fyrir augu bar. Þess vegna eru sjálfsmyndir hans einar þær tilfinningaríkustu í allri listasögunni hvað varðar túlkun og persónulýsingar. Rembrandt málaði ótal sjálfsmyndir, fleiri en nokkur annar listamaður hefur gert. Þær eru til vitnis um skilning hans á sálarlífi mannanna, þar sem þær endurspegla tilfinningar hans. 


Sjálfsmynd eftir Rembrandt. Sjálfsmyndir hans eru einstakar í sinni röð og vekja upp spurningar um það hvort listræn iðkun hans hafi verið öðrum þræði leit að sjálfsþekkingu og sjálfsrannsókn.

Málverkið Samsæri Batava (1661) er tveir og hálfur metri á hæð og þrír metrar á breidd. Niðurlendingar kölluðust Batavar. Myndin sýnir uppreisnarmennina, sem sigruðu hersveitir Rómverja árið 69, leggja á ráðin um samsærið og er sáttmáli þeirra aðalatriði myndarinnar. Rembrandt málaði myndina fyrir Ráðhúsið í Amsterdam en ráðamönnum fannst hann mála of frjálslega og höfnuðu verkinu. Hið listræna frelsi sem Rembrandt tók sér varð stundum til þess að fólk hætti við að kaupa af honum myndir sem það hafði pantað og hann einangraðist með tímanum.


Samsæri Batava eftir Rembrandt. Tækni hans er afar sérstök því úr fjarlægð virðast málverk hans beinlínis vera lifandi en við nánari skoðun er málningunni smurt á strigann í þykkum klessum; hann gaf hlutina í skyn. Þessi aðferð skapar óvenjulega tilfinningu fyrir þrívídd, efniskennda áferð og gefur áhorfandanum mikið svigrúm til að fylla sjálfur í eyðurnar. 

Bernini

Barokkið var stíll sem átti auðvelt með að miðla miklum tilfinningum, glæsileika og spennu með lifandi myndbyggingu, hreyfingu og smáatriðum. Kaþólska kirkjan og páfagarður ýttu undir útbreiðslu barokksins og brugðust þannig við vaxandi fylgi mótmælendatrúar. Stíllinn varð til í Róm og helsti upphafsmaður hans var myndhöggvarinn, arkitektinn og listmálararinn, Gian Lorenzo Bernini (1598–1680).

Bernini sá um byggingu Péturstorgsins í Róm. Þar gefur að líta tröllaukinn súlnafaðm á sporöskjulöguðu torgi. Á miðju torginu má sjá obelísku (uppmjóa steinsúlu) í anda Forn-Egypta og tvo gosbrunna. Konungar og einvaldar líktu eftir Péturstorginu þegar þeir skipulögðu hallir sínar og skrúðgarða, þar sem torgið var álitið nafli alheims og vildu þeir endurspegla það. Dæmi um þetta er Versalahöllin í nágrenni Parísar en hún sýnir vel hvernig konungurinn, Lúðvík 14. (1638–1715), líkti eftir sólkerfinu og alheiminum með sjálfan sig í miðjunni. Enda var hann kallaður Sólkonungurinn.


Péturstorgið í Róm sem Bernini hannaði.


Versalahöllin í Frakklandi.

Leiðarstjarnan

Hollenska listakonan Judith Leyster (1609–1660) var svokallaður tegundamálari en það er listamaður sem sérhæfir sig í ákveðnu viðfangsefni, t.d. blómamyndum, mannamyndum eða náttúrumyndum. Leyster sérhæfði sig í mannamyndum, kyrralífsmyndum og skemmtimyndum með hljóðfæraleikurum. Hún var samtímakona listamannsins Frans Hals (1582–1666) og átti honum margt að þakka hvað tæknikunnáttu varðar. 

Leyster var frábær málari og verk hennar full af lífskrafti. Margir hafa ruglað verkum hennar saman við verk eftir Frans Hals. Það var algengt að listaverk kvenna og listnema væru eignuð kennurum þeirra. Á sumum söfnum hanga enn þá myndir uppi undir nöfnum kennaranna þrátt fyrir að búið sé að leiðrétta hver málaði þær. Judith merkti verkin sín ávallt með stjörnu því Leyster þýðir „leiðarstjarna“ á flæmsku. 


Sjálfsmynd eftir Judith Leyster.

Málarar málaranna

17. öldin markaði tímamót með borgarskipulagi, höllum og lystigörðum. Einnig fór skilningur á vísindum, heimspeki og samfélagslegri vitund vaxandi. Þá grófu kaþólikkar og mótmælendur stríðsöxina árið 1648 eftir 30 ára stríðið. 

Þótt ósætti ríkti milli Hollands og Spánar var ekki mikill munur á Rembrandt og fremsta listmálara Spánverja á 17. öld, Diego Velázques (1599–1660). Staða Velázques og Rembrandt var reyndar ólík, því Rembrandt var sjálfstæður listamaður en Velázques í öruggri stöðu sem hirðmálari Filippusar IV Spánarkonungs. Þekktasta málverk hans, Hirðmeyjarnar frá 1656 sýnir óvænta komu konungshjónanna inn í vinnustofu listamannsins þar sem listmálarinn er að mála málverk af prinsessunni. 

Verkið er jafn óvenjulegt og málverk Jan van Eyck af Brúðkaupi Arnolfinis því að í báðum þessum verkum sést listamaðurinn sjálfur. Í málverki Jan van Eyck sést hann í speglinum í miðjunni en í málverki Velázques sést hann sjálfur líta snöggvast upp bakvið málverkið á trönunum. Sjálf konungshjónin sjást í spegli vinstra megin við miðju myndarinnar. Sjónarhorn áhorfandans er því það sama og konungshjónanna. Margar spurningar vakna þegar verkið er skoðað. Hvern var Velázques að mála? Var hann að mála sjálfan sig? Var hann að mála prinsessuna? Eða var hann ef til vill að mála sjálf konungshjónin? Heiti verksins, Hirðmeyjarnar, gefur til kynna að hann hafi verið að mála þær en ekki er allt sem sýnist. Það er þessi dæmalausa flétta sem gerir málverk Velázques að uppsprettu endalausrar umræðu. 


Hirðmeyjarnar eftir Diego Velázques.

17. öldin gaf af sér fleiri listamenn. Hollenski listmálarinn Johannes Vermeer (1632–1675) málaði Matseljuna, eitt sitt þekktasta verk tveimur árum eftir að Velázques málaði Hirðmeyjarnar

Líf og störf Vermeer eru listfræðingum mikil ráðgáta. Hann átti sæg af börnum og var fátækur allt sitt líf. Aðeins eru til 34 málverk eftir hann svo vitað sé. Málverkin eru agnarsmá í samanburði við risastór málverk Rembrandts og Velázques en titra af lífi og fegurð. Í verkum sínum sýnir Vermeer einfalt líf venjulegra borgarbúa öfugt við konunglegt líf Velázques og stjórnmálamenn Rembrandts. Hið hversdagslega, eins og að hella mjólk í skál, er skyndilega orðið að mikilvægu andartaki í listasögunni. Fyrirsætur Vermeer líta við með álíka undrunarsvip og við gerum sjálf þegar einhver nefnir nafn okkar og smellir af um leið með myndavélum nútímans. 


Matseljan eftir Johannes Vermeer.


Stúlka með perlueyrnalokka eftir Johannes Vermeer.