Skip to main content

Byltingar, vísindi og tækni

Átjánda öldin var tími mikilla framfara í vísindum og tækni. Öld upplýsingar og byltinga í stjórnarfari. Franska byltingin hófst árið 1789 og breytti miklu í evrópskum samfélögum. Tónlistin varð fremst allra listgreina. Starfsævi tónskáldsins mikla Jóhanns Sebastíans Bach (1685–1750) var einmitt á fyrri hluta átjándu aldar. Í myndlistinni var þó ekki eins mikið að gerast. Átjándu öldinni hefur verið skipt í tvennt; rókókóstílinn sem er hástig skreytilistar sem kennd er við barokkstílinn og nýklassíska stílinn sem hafnaði alfarið skrauti og prjáli rókókótímans en vildu hverfa aftur til grísk-rómverskarar hófsemdar. 

Rosalba Carriera, málari kónga og keisara

Rosalba Carriera (1675–1757) var feneyskur mannamyndamálari sem náði þeim árangri að verða meðal eftirsóttustu listamanna sinnar kynslóðar. Hún varð eftirlæti kónga og keisara og sat Friðrik IV. konungur Dana og Íslendinga fyrir hjá henni. Rosalba hafði mikil áhrif á listamenn rókókótímans, sérstaklega með því að kynna fyrir þeim pasteltæknina, miðil sem liggur mitt á milli teikningar og málaralistar. Með þeirri tækni gátu listamenn leyft sér meira frjálsræði og bjartari litanotkun.


Danski konungurinn Frederik IV eftir Rosölbu Carriera, 1709.
Wikipedia

Auglýsing fyrir listsölu

Færri listamenn vekja athygli okkar á tíma rókókóstílsins en á sautjándu öldinni. Engu að síður skal fjallað um nokkra. Fyrstan má nefna franska listmálarann Antoine Watteau (1684–1721). Hann málaði glaðværar myndir af lautarferðum ungs fólk í París. Verk hans eru ljúfsár því líf hans sjálfs var ekki jafn þægilegt. 

Watteau dó úr berklum 37 ára gamall og ári áður en hann lést málaði hann myndina Skilti listverslunar Gersaints. Myndin sýnir þegar verið er að pakka niður myndum eftir hann sjálfan, líkt og hann hafi vitað að hverju stefndi og hafi ekki haft neina trú á að nafn sitt myndi lifa. 


Skilti listverslunar Gersaints eftir Antoine Watteau, olía á striga, 163 cm × 308 cm, 1720-1721.
Wikipedia

Annar snjall listamaður var hinn ítalski Giovanni Battista Tiepolo (1696–1770). Hann einbeitti sér að því að mála risastórar freskur af trúarlegum toga. Tiepolo er stundum kallaður síðasti veggskreytismeistarinn. Samvinna hans við arkitektinn Balthasar Neumann sýnir vel áherslu barokk- og rókókótímans á sameiningu listgreina. Saman áttu þeir stóran þátt í byggingu biskupssetursins í Würzburg nyrst í Bæjaralandi þar sem núna er Þýskaland. Löngu síðar, þegar Napóleon Boneparte Frakklandskeisari kom þangað, varð honum að orði að þetta væri huggulegasta biskupssetur í Evrópu.


Scipio Africanus Freeing Massiva eftir Giovanni Battista Tiepolo, olía á striga, 279,4 cm × 487,6 cm, 1719-1721.
Wikipedia

Afturhvarf til forns hreinleika

Upp úr miðri átjándu öld varð rókókóstíllinn fyrir æ meiri gagnrýni fyrir óhóf og skraut. Fyrsti listfræðingurinn, Jóhann Jóakim Winckelmann (1717–1768) frá Þýskalandi, vakti athygli á hinum forn-gríska stíl með ritum sínum Vangaveltur um eftirlíkingar á grískum verkum í málara og höggmyndalist, árið 1755 og Sögu fornlistar, árið 1764. Skrif hans höfðu mikil áhrif á þróun nýklassíska stílsins sem tók að birtast upp úr miðri átjándu öldinni. Landi Winckelmanns, heimspekingurinn Alexander Gottlieb Baumgarten (1714–1762) skrifaði merkilega bók sem hét Fagurfræði. Baumgarten hélt því fram að menn skildu listina aðeins með smekkvísinni og tilfinningum. Annaðhvort þætti mönnum listaverk þægileg eða óþægileg.


Málverk af Jóhanni Jóakim Winckelmann eftir Angelicu Kauffman,  olía á striga 97 cm × 71 cm, 1764.

List handa almenningi

Listin fór að þróast í ýmsar áttir á þessum tíma. Listamenn leituðu oft til eldri listamanna eftir hvatningu og innblæstri. Það gerði franski listmálarinn Jean-Siméon Chardin (1699–1779). Hann leitaði til Vermeer og samlanda hans í Hollandi að einfaldleika í málverkum í stað þess að segja eingöngu frá stórum atburðum. Hann horfði til þess smáa og einfalda. Hann málaði ótal myndir af hlutum, matvælum og veiðibráð sem stillt var upp á borði. Þarna sýnir Chardin mikilvægi hins einfalda. Hann var fyrsti listamaðurinn á þessum tíma til þess að snúa baki við skrautlegum og ofhlöðnum rókókóstílnum. Rókókóstíllinn er táknmynd fyrir lífsins lystisemdir sem aðeins konungar og yfirstétt gátu leyft sér.

Það var samt annar listamaður sem jarðsöng rókókóstílinn. Þetta var Jacques-Louis David (1748–1825). Það gerði hann árið 1784 með málverkinu Óður Hórasarbræðra. Málverkið var talið vera myndbirting á Samfélagssáttmálanum eftir svissneska heimspekinginn Jean-Jacques Rousseau (1712–1778). Rousseau var mikilvægur hugsuður upplýsingarstefnunnar og innblástur fyrir þá sem hófu frönsku byltinguna. Myndin sýnir hvernig Hórasarbræður og faðir þeirra gera með sér sáttmála um einingu manna og samfélags. Í frönsku byltingunni var konunginum steypt af stóli ásamt allri yfirstéttinni. Í kjölfarið var komið á fót nýju stjórnskipulagi í Frakklandi undir kjörorðunum „Frelsi, jafnrétti, bræðralag“. David gekk til liðs við forsprakka frönsku byltingarinnar árið 1789.

Angelica Kauffmann (1741–1807) var svissnesk-austurrískur listmálari sem hóf feril sinn tíu ára gömul þegar faðir hennar, listmálarinn Johann Joseph Kauffmann (1707–1782), uppgötvaði einstæða listgáfu hennar. Fjölskyldan flutti til Austurríkis og síðan Ítalíu þar sem Angelica sló strax í gegn sem undrabarn. Hún var ekki bara frábær myndlistarmaður heldur hafði hún einstaka söngrödd og lærði ítölsku, frönsku og ensku með undraverðum hraða. Frá unga aldri vann hún með föður sínum að myndskreytingum í kirkjum víða um Evrópu. Hún eignaðist marga aðdáendur meðal lista- og fræðimanna. Hún var einnig einn af stofnendum Konunglegu listakademíunnar í Lundúnum. Angelica kynntist skáldinu Goethe þegar hún settist að í Róm. Hann sagði síðar að hann hefði aldrei kynnst jafn atorkumiklum listamanni og Angelicu Kauffmann.


Hinn ungi Goethe eftir Angelicu Kaufmann.
Wikimedia

Við Íslendingar eigum dálítið í þekktum listamanni nýklassískrar höggmyndalistar. Það er Bertel Thorvaldsen (1770–1844). Íslenskur faðir hans, Gottskálk Þorvaldsson vann í skipasmíðastöð danska flotans. Gottskálk skar út stafnlíkneski sem prýddu stefni skipanna. Frá unga aldri aðstoðaði Bertel stundum föður sinn og varð áhugasamur um höggmyndalist. Hann var tekinn inn í Konunglegu akademíuna í Kaupmannahöfn og fékk skólastyrkt til að fara til Rómar. Þar stofnaði hann stórt verkstæði með mörgum aðstoðarmönnum og nemendum. Bertel bjó í Róm til ársins 1838 með konu sinni og börnum. Hann gerði 550 höggmyndir, þrjár afsteypur eru í Reykjavík og ein í Akureyrarkirkju. Thorvaldsens safnið í Kaupmannahöfn var opnað 1848 og í innri garði þess er listamaðurinn grafinn.


Sjálfsmynd Thorvaldsens með Vonargyðjunni eftir Bertel Thorvaldsen, 1817. Fyrsta útilistaverkið á Íslandi. Það var sett upp á Austurvelli árið 1875 en flutt í Hljómskálagarðinn árið 1931. Sjá fleiri verk eftir Bertel Thorvaldsen á Sarpur.is