Borg úr kössum og boxum

STUTT LÝSING

Nemendur útbúa bæ eða borg úr kössum og boxum og skipuleggja hvaða þjónusta þarf að vera í boði.

HÆFNIVIÐMIÐ

Sameiginleg hæfniviðmið fyrir list- og verkgreinar

Við lok 4. bekkjar getur nemandi t.d.:

  • unnið eftir einföldu ferli frá hugmynd til afurðar,
  • hagnýtt þá leikni sem hann hefur öðlast í einföldum verkefnum,
  • tjáð sig á einfaldan hátt um viðfangsefni sitt,
  • gengið frá eftir vinnu sína,
  • lagt mat á eigin verk.

Hæfniviðmið fyrir sjónlistir

Við lok 4. bekkjar getur nemandi t.d.:

  • nýtt sér í eigin sköpun einfaldar útfærslur sem byggja á færni í meðferð lita- og formfræði og myndbyggingar,
  • skapað myndverk í ýmsum tilgangi með margvíslegum aðferðum,
  • útskýrt og sýnt vinnuferli sem felur í sér þróun frá hugmynd að myndverki.

 

Hæfniviðmið fyrir samfélagsgreinar

Við lok 4. bekkjar getur nemandi t.d.:

Reynsluheimur

  • bent á tengsl valinna þátta í samfélagi, náttúru, trú og lífsviðhorfi, einkum í nærsamfélaginu,
  • rætt um samfélagið og notað valin hugtök í því samhengi,
  • gert sér grein fyrir gildi náttúru og umhverfis og mikilvægi góðrar umgengni,
  • komið auga á nokkra þætti sem hafa haft áhrif á mannlífið í tímans rás, svo sem umhverfi og skipulag samfélaga,
  • bent á nokkrar mikilvægar stofnanir samfélagsins,
  • áttað sig á gildi samhjálpar í samfélaginu.

Hugarheimur

  • gert sér grein fyrir að í umhverfinu eru margvísleg áreiti, jákvæð og neikvæð, sem hafa áhrif á líf hans.

Félagsheimur

  • rætt um valin samfélagsleg og siðferðileg málefni,
  • tjáð þekkingu sína og viðhorf með ýmsum hætti,
  • sett sig inn í málefni nærsamfélagsins.

KVEIKJA

Sýnið nemendum myndir af bæjum og borgum og ræðið um skipulag, götur, hús o.þ.h. Hægt er að hugstorma og biðja nemendur að nefna allt sem þeim dettur í hug að þurfi að vera í bæ eða borg s.s. íbúðarhús, blokkir, götur, torg, spítali, sundlaug, verslanir, hótel, strætisvagnar og bílar o.fl. Nota má listann til að deila verkefnum milli nemenda þannig að ekki geri allir það sama. Ræða má um stærðarhlutföll og jafnvel hafa lítinn legókarl eða leikfangabíl sem viðmiðun um stærðarhlutföll. Það getur gefið borginni meiri heildarsvip og nemendum tækifæri til að átta sig á stærðarhlutföllum.

FRAMKVÆMD

1. – 2. kennslustund: Nemendur finna sér kassa og box til að útfæra þá byggingu sem þau hafa valið sér, líma t.d. fleiri en einn kassa saman eða líma á strompa o.þ.h. Ef tími vinnst til í þessum tíma geta þau byrjað að mála húsin og látið þau þorna þar til í næsta tíma. Bendið nemendum á að hentugra er að teikna glugga og hurðir eftir að húsin hafa verið máluð og þau þornuð.

3.-4. kennslustund: Nemendur byrja að skipuleggja borgina á stórt bylgjupappaspjald. Ákveða þarf hvar húsin eiga að standa, hvar götur, garðar og svoleiðis skuli vera. Skipulagið er teiknað á pappaspjaldið (gott er að teikna inn á hvar hvert hús á að standa og skrifa nafn þess sem á húsið í reitinn). Síðan þarf að lita eða mála götur og garða. Ef tími vinnst til er t.d. hægt að búa til ljósastaura, tré, strætóskýli, bíla o.þ.h. Að lokum eru húsin fest á pappaspjaldið með kennaratyggjói þar sem nemendur geta að lokum tekið húsin með sér heim.

Borgina eða bæinn má svo hafa til sýnis í skólanum í einhvern tíma áður en nemendur taka húsin með sér heim. Pappaspjaldið með skipulaginu má nýta í frjálsum tímum nemenda t.d. fyrir bílaleik.

UMRÆÐUSPURNINGAR

Hvaða form þekkið þið?
Hvernig má breyta tvívíðu formi í þrívítt form?
Hvaða þjónusta skiptir máli að hafa í bæ eða borg?

ÍTAREFNI

Form – veggspjald í myndmennt

Litir – veggspjald í myndmennt

Rými – veggspjald í myndmennt

Kveikjur fyrir skapandi skólastarf

Leitarorð: city scale model | Eco Compact City Network | Scale models of towns | Urban models

ALDUR

Yngsta stig

GRUNNÞÆTTIR

Heilbrigði og velferð, jafnrétti, lýðræði og mannréttir, læsi, sjálfbærni, sköpun

FJÖLDI KENNSLUSTUNDA

3-4 x 80 mínútur

ÞVERFAGLEG TENGING

T.d. samþættingarverkefni sjónlista og samfélagsgreina

EFNI OG ÁHÖLD

akrílmálning
bylgjupappaspjald ca. 1 × 1,2 m
litaður afgangspappír (t.d. silkipappír í tré)
litir
lím (t.d. UHU)
límstifti
málningarlímband
naglar (t.d. í ljósastaura)
penslar
tússpennar
umbúðir, litlir kassar o.fl. smádót

HUGTÖK

flötur
form
rými
tvívíð form
þrívíð form

LISTAMENN

Að eigin vali

LISTASAGA

Að eigin vali

HÖFUNDUR

ⓒ Sigrún Ólafsdóttir
Menntamálastofnun 2022