Gríma úr pappamassa

STUTT LÝSING

Nemendur gera skissu af grímu og útbúa síðan eina slíka. Þau eru hvött til að skreyta þær með formum og mynstrum.

HÆFNIVIÐMIÐ

Sameiginleg hæfniviðmið fyrir list- og verkgreinar

Við lok 7. bekkjar getur nemandi t.d.:

  • útskýrt og sýnt vinnuferli sem felur í sér þróun frá hugmynd til afurðar,
  • hagnýtt leikni og þekkingu sem hann hefur öðlast til að takast á við fjölbreytt viðfangsefni,
  • haft sjálfbærni að leiðarljósi í vinnu sinni,
  • gert grein fyrir menningarlegu hlutverki list- og verkgreina,
  • gert grein fyrir helstu hugtökum sem tengjast viðfangsefni hans,
  • sýnt ábyrga og örugga umgengni við vinnu og frágang á vinnusvæði,
  • lagt mat á eigin verk og sýnt skilning á vönduðum vinnubrögðum.

Hæfniviðmið fyrir sjónlistir

Við lok 7. bekkjar getur nemandi t.d.:

  • notað mismunandi efni, verkfæri og miðla á skipulagðan hátt í eigin sköpun,
  • nýtt sér grunnþætti myndlistar í eigin sköpun,
  • unnið hugmynd frá skissu að lokaverki bæði fyrir tví- og þrívíð verk,
  • byggt eigin listsköpun á hugmyndavinnu tengdri ímyndun, rannsóknum og reynslu,
  • beitt hugtökum og heitum sem tengjast aðferðum verkefna hverju sinni,
  • fjallað um eigin verk og verk annarra í virku samtali við aðra nemendur,
  • greint og fjallað um áhrif myndmáls í umhverfinu og samfélaginu.

 

Hæfniviðmið fyrir samfélagsgreinar

Við lok 7. bekkjar getur nemandi t.d.:

Reynsluheimur

  • skýrt tengsl samfélags, náttúru, trúar og lífsviðhorfa fyrr og nú,
  • rætt á upplýstan hátt um tímabil, atburði og persónur, sem vísað er til í þjóðfélagsumræðu,
  • rætt viðfangsefni sem snerta trú, lífsviðhorf og siðferði og sett í samhengi við atburði daglegs lífs.

Hugarheimur

  • gert sér grein fyrir jafngildi sínu og annarra manna og rætt þýðingu þess,
  • sett sig í spor fólks með ólíkan bakgrunn á völdum stöðum og tímum.

Félagsheimur

  • tjáð þekkingu sína og viðhorf með fjölbreyttum hætti, einn sér og í samstarfi við aðra.

KVEIKJA

Sýnið nemendum myndir af grímum frá ýmsum löndum og ræðið um hvernig þær eru skreyttar. Hvaða form sjá þau? Eru það grunnform eða náttúruleg form? Mynda formin mynstur? Benda má á hvernig formin eru notuð til að einfalda andlitsdrættina. Einnig er tilvalið að ræða um litanotkun, hvort notaðir séu frumlitir eða blandaðir litir.

FRAMKVÆMD

Byrjað er á kveikju.

Kennslustund 1:
Nemendur teikna útlínur grímu á stíft karton t.d. eftir grímuskapalóni. Skapalónið er notað til að augu og nef séu á réttum stað og til að grímurnar verði nógu stórar til að hylja andlitin vel. Nemendur geta síðan breytt laginu á grímunum ef þau vilja. Kennari sker út fyrir augum og nefi.

Hver nemandi fyllir plastpoka (á stærð við venjulegan innkaupapoka) með krumpuðum dagblöðum. Pokinn er lokaður með málningateipi og myndaður nokkurs konar sívalningur sem notaður er til að forma grímuna. Gríman er síðan teipuð við „sívalninginn“.

Kennslustund 2 og 3 – pappamassavinna
Nemendur fá dagblöð sem búið er að rífa í ræmur (ca. 4-5 cm breiðar). Ræmurnar eru makaðar báðum megin með hæfilegu magni af veggfóðurlími. Áður en þær eru settar á grímuna er nauðsynlegt að bera lím á hana líka annars festast þær ekki nógu vel. Ágætt er að fara fyrstu umferðina þversum og þá næstu langsum o.s.frv. Benda þarf nemendum á að ræmurnar verði að skarast og að festa það sem fer út fyrir vel á bakhlið grímunnar.

Þegar kemur að nefinu er nefflipanum lyft upp og ræmurnar settar allt í kringum nefið en nefopinu haldið opnu (best er að geyma nefið þar til síðast. Nemendur geta sett ræmurnar yfir augun og pota svo í gegn um götin meðan ræmurnar eru enn blautar og snyrt þau að lokum.

Misjafnt er hvað nemendur ná að gera margar umferðir í tímanum en lágmarkið er 3-4 umferðir. Þeim mun fleiri umferðir, þeim mun sterkari verður gríman. Hægt er að nota hvítan pappír í síðustu umferðina og sleppa því að grunnmála hana hvíta. Nú eru grímurnar látnar þorna þar til í næsta tíma.

Í stað þess að mála og skreyta grímurnar strax er hægt að útbúa upphleypt mynstur á grímuna t.d í kringum augu, munn eða nef. Þá dýfa nemendur ræmunum í límið, strjúka það mesta af þeim og krumpa í snúrur, kúlur, kubba eða hvað sem þeim dettur í hug. Síðan þarf að fara eina umferð með ræmum yfir mynstrin og muna að þrýsta vel upp að þeim þannig að ekki myndist loftrúm.

Kennslustund 4 – málun og skreyting:
Grímurnar eru losaðar af plastpokanum og grunnaðar með hvítri akrílmálningu (ef ekki hefur verið notaður hvítur pappír í síðustu umferð). Síðan styðjast nemendur við skissurnar sem þau gerðu í upphafi og mála mynstur á grímurnar með akrílmálningu. Að síðustu, þegar málningin er þornuð, er sett teygja í grímurnar. Ef tími vinnst til má skreyta grímurnar enn frekar með alls konar hlutum s.s. fjöðrum, baunum, garni o.fl. Þá er best að lakka yfir með glæru vatnslakki.

UMRÆÐUSPURNINGAR

Hvaða form sjáið þið í grímum sem þið skoðið á netinu? Eru það grunnform eða náttúruleg form? Mynda formin mynstur? Hvaða litir eru notaðir í grímunum? Eru það frumlitir,  2. stigs litir eða jafnvel 3.stigs litir?

ALDUR

Miðstig

GRUNNÞÆTTIR

Læsi, lýðræði- og mannréttindi, sköpun

FJÖLDI KENNSLUSTUNDA

4 x 80 mínútur

ÞVERFAGLEG TENGING

T.d. samþættingarverkefni sjónlista og samfélagsgreina

EFNI OG ÁHÖLD

akrílmálning
blýantar (og strokleður ef þarf)
dagblaðaræmur
grímuskapalón
málningarteip
plastpoki m/krumpuðum dagblöðum
rúnnuð teygja
skissupappír
stíft karton (t.d. afskurður)
veggfóðurslím

HUGTÖK

annars stigs litir
frumlitir
grunnform
jarðlitir
náttúruleg form

LISTAMENN

Að eigin vali

LISTASAGA

Að eigin vali

HÖFUNDUR

ⓒ Sigrún Ólafsdóttir
Menntamálastofnun 2022