Skip to main content

Í Norður-Evrópu

Enda þótt mikil gróska hafi verið í löndunum við Miðjarðarhaf þróaðist einnig menning norðar í Evrópu. Hún var nokkuð ólík þeirri suðrænu en hefur engu að síður haft mikla þýðingu fyrir þróun vestrænnar menningar. Þjóðirnar sem um ræðir voru norrænir menn og Keltar. Við Íslendingar eigum rætur okkar að rekja til þeirra.

Norrænir menn fóru víða og voru miklir siglingakappar. Handrit okkar Íslendinga greina frá ferðum þeirra þegar þeir fóru „í víking“. Það voru ekki skoðunarferðir um ókunn lönd eins og við þekkjum sjálf í dag heldur miklar ránsferðir þar sem engu var hlíft. Árið 793 hélt floti norrænna manna til Bretlands og eyddi samfélagi einsetumanna og munka á flæðieyjunni Lindisfarne. Eftir stóðu mannvirki og handrit sem munkarnir höfðu ritað. Eyjan er miðja vegu milli Edinborgar í Skotlandi og Newcastle á Englandi. 

Hundrað árum fyrr hafði Eadfrith, sem þá var biskup á Lindisfarne, átt stóran þátt í gerð Lindisfarne-guðspjallanna. Þau eru ein fegurstu og frumlegustu handrit sem miðaldir hafa eftirlátið okkur. Með þeim varð til ný og sérstæð listgrein, bókverkið, sem blómstraði á miðöldum. Handrit okkar Íslendinga, einkum eftir árið 1300, nálgast slíka bókagerð vegna ríkulegra skreytinga. Handritateikningar af þessari gerð eru kallaðar „lýsingar“. Lindisfarne-guðspjöllin eru glæsilegt dæmi um svokallaða fléttulist sem sýnir gróður og plöntumynstur. 


Lindisfarne.


Lindisfarne guðspjöllin.

Keltar og Norrænir menn, Lindesfarne minnisvarði.
Minnisvarði í Lindisfarne.

Oseberg skipið

Keltneska fléttulistin hafði mikil áhrif á norræna list. Drekahöfuðið á norska Oseberg skipinu sýnir vel keltneskt fléttumynstur. Þannig mynstur má einnig sjá á íslenskum útskurði. Norrænir menn kynntust fléttulistinni á ferðum sínum til Bretlandseyja.


Oseberg skipið.