Skip to main content

Gullöld mósaíkmyndanna

Fyrstu aldirnar eftir fæðingu Krists einkenndust af miklum styrjöldum og átökum um landamæri. Ríki Rómverja klofnaði endanlega í austrómverska ríkið og vestrómverska ríkið árið 395. Vestrómverska ríkið leið undir lok árið 476 en hið austrómverska stóð allt til ársins 1453. Hnignun vestrómverska ríkisins átti rætur sínar að rekja til farsótta, slæmrar hagstjórnar og stöðugra innrása þjóðflokka sem nefndust Germanir. 

Borgin Ravenna á Norður-Ítalíu varð stjórnstöð mikils germansks konungs. Hann hét Þjóðrekur og var konungur Austgota. Skömmu eftir árið 500 lét hann reisa þar mikla kirkju af basilíkugerð, Nýju Apolloníusarkirkjuna. Basilíkur eru stórar kirkjur með svokölluðu miðskipi en það er aðalsalurinn í kirkjunni. Til hliðar eru minni salir og eru þeir aðskildir miðskipinu með súlum. Okkar kirkjur eru enn með sama sniði, hvort heldur er Dómkirkjan eða Skálholtskirkja. Til forna voru þessar byggingar ekki eingöngu fyrir trúarlegt starf heldur var þar fjölbreytt starfsemi.

Þegar komið er inn í Nýju Apolloníusarkirkjuna blasa við mósaíkmyndir af englum og dýrlingum í beinni röð. Mósaík er fagur og glitrandi efniviður og gefur listaverkunum léttan og andlegan blæ. Það sem vekur athygli er að listamaðurinn lagði enga áherslu á persónuleika þessara himnesku herskara. Svipur flestra er sá sami og stellingar sömuleiðis. Allir snúa fram með hlutlausan andlitssvip. Á þessum tíma átti fólk að beina augliti sínu til himins, snúa baki við veraldlegum gæðum og huga að sælunni eftir dauðann. Öll hin forna goðaveröld Forn-Grikkja og Rómverja þótti á þessum tíma sýna guðleysi og heiðni. Þess vegna voru mörg forn listaverk eyðilögð.

Hugmynd í stað raunveruleika

Stundum sýnir listin ekki bara hlut heldur hugmynd. Þá er talað um óhlutbundna list. Listin vísar þá til einhvers sem er ósýnilegt. Þannig verður til táknheimur og er stafrófið og ritlistin ágætt dæmi um þetta. Gyðingar bönnuðu hlutbundna tjáningu því þeir litu á náttúruna sem verk Guðs. Listamaður sem gerði mynd af manneskju væri að setja sig á sama stall og Guð. Að dást að slíku listaverki var skurðgoðadýrkun. Það þótti hið argasta guðlast og því voru allar myndir harðbannaðar. Múslimar fylgdu fordæmi gyðinga og innan kristnu kirkjunnar voru skiptar skoðanir um málið. Löngu síðar höfðu þessar hugmyndir áhrif á Martein Lúther (1483–1546) sem var upphafsmaður þess að hin kristna kirkja klofnaði í tvennt, annars vegar hina rómversk-kaþólsku kirkju og hins vegar kirkju mótmælenda. Þetta varð til þess að kirkjur mótmælenda voru hreinsaðar af myndum og óþarfa skrauti. Íslenskar kirkjur eru gott dæmi; þar er lítið um skraut og oftast er altaristaflan eina myndin.

Oto Metz og höll Karlamagnúsar

Oto Metz var fyrsti þekkti arkitektinn í Norður-Evrópu. Nafn hans er frægt en ekkert er vitað um manninn sjálfan. Hann tók að sér að reisa höll fyrir Karlamagnús í borginni Aachen sem í dag er í Þýskalandi rétt við landamæri Frakklands. Lítið er eftir af höllinni nema dómkirkjan með áttstrendri kapellu. Hún er kölluð Palatínska kapellan og er talin vera eitt mesta meistaraverk miðalda á sviði húsagerðarlistar og jafnvel allra tíma. Í dag er Palatínska kapellan orðin hluti af dómkirkjunni í Aachen. Stærð kapellunnar er í samræmi við fullkomnu borgina sem Opinberunarbók Biblíunnar segir frá.

Photo by CEphoto, Uwe Aranas
Dómkirkjan í Aachen.
„Photo by CEphoto, Uwe Aranas“ Wikimedia.


Palatínska kapellan í Aachen.

Að forminu til er kapellan skyld Nýju Apolloníusarkirkjunni í Ravenna en hinir mislitu steinar í burðarbogunum benda til arabískra áhrifa, einkum frá Klettamoskunni í Jerúsalem sem var byggð einni öld fyrr.

Væntingar um endurreisn Rómaveldis 

Leo III páfi krýndi Karlamagnús sem keisara árið 800. Páfinn vildi endurreisa rómverska ríkið sem var nefnt „Hið heilaga rómverska keisaradæmi“. Karlamagnús hafði þau áhrif að Evrópubúum fannst þeir tilheyra einu og sama ríkinu. Hann var því kannski fyrsti Evrópusinninn. Engu að síður urðu til þjóðir innan Evrópu eftir hans dag og þannig skiptist Evrópa hægt og sígandi upp í mörg ríki og þjóðir eins og við þekkjum hana í dag.