Sól og haf – heitir og kaldir litir

STUTT LÝSING

Nemendur útbúa verk með heitum og köldum litum og skoða hvað sú litanotkun hefur að segja fyrir verkið.

HÆFNIVIÐMIÐ

Sameiginleg hæfniviðmið fyrir list- og verkgreinar

Við lok 4. bekkjar getur nemandi t.d.:

  • unnið eftir einföldu ferli frá hugmynd til afurðar,
  • hagnýtt þá leikni sem hann hefur öðlast í einföldum verkefnum,
  • tjáð sig á einfaldan hátt um viðfangsefni sitt,
  • gengið frá eftir vinnu sína,
  • lagt mat á eigin verk.

Hæfniviðmið fyrir sjónlistir

Við lok 4. bekkjar getur nemandi t.d.:

  • nýtt sér í eigin sköpun einfaldar útfærslur sem byggja á færni í meðferð lita- og formfræði og myndbyggingar,
  • skapað myndverk í ýmsum tilgangi með margvíslegum aðferðum,
  • útskýrt og sýnt vinnuferli sem felur í sér þróun frá hugmynd að myndverki.

Hæfniviðmið fyrir náttúrugreinar

Við lok 4. bekkjar getur nemandi t.d.:

  • aflað sér upplýsinga er varða náttúruna,
  • skráð atburði og athuganir, s.s. með ljósmyndum, teikningum, eigin orðum og sagt frá þeim.

KVEIKJA

Litahringur er settur upp á töflu og dregin lína á milli heitu og köldu litanna. Nemendur eru spurðir hvað sé ólíkt með litunum sitt hvoru megin við línuna. Kennari útskýrir muninn á hugtökunum heitir litir og kaldir litir og biður nemendur um að nefna hluti í heitum og köldum litum. Skrifa má eða teikna hlutina þeim megin sem þeir tilheyra.

Einnig eru nemendum sýnd mynddæmi og þau beðin um að segja hvort myndirnar séu heitar eða kaldar og hvaða myndefni á myndunum er í heitum og köldum litum (sjór er t.d. í köldum litum og sól í heitum).

FRAMKVÆMD

Byrjað er á kveikju.

Nemendur fá blöð (ca. 32 x 22,5 cm) og teikna öldu yfir mitt blaðið. Þau endurtaka ölduna niður blaðið og þurfa að passa að hafa línurnar ekki of þéttar þannig að erfitt sé að lita á milli. Því næst teikna þau hring á miðjan efri hluta blaðsins og hringi utan um og aftur þarf að passa að hafa línurnar ekki of þéttar. Notaðir eru þekjulitir (t.d. Neocolor I í 15 lita öskjum) og nemendur flokka litina í heita og kalda áður en þau byrja að lita. Ef þau eru í vafa um flokkunina geta þau borið litina saman við litina í litahringnum. Nemendur lita síðan sjóinn í köldum litum og sólina í heitum og eru hvött til að lita þétt og fylla vel í reitina.

UMRÆÐUSPURNINGAR

ALDUR

Yngsta stig

GRUNNÞÆTTIR

Læsi, sköpun

FJÖLDI KENNSLUSTUNDA

2 x 80 mínútur

ÞVERFAGLEG TENGING

T.d. samþættingarverkefni sjónlista og náttúrugreina

EFNI OG ÁHÖLD

blýantur og strokleður
litahringur til útprentunar
pappír (ca. 32 x 22,5 cm)
skjávarpi til að sýna mynddæmi
þekjulitir s.s. neocolor I (15 lita öskjur)

HUGTÖK

heitir litir
kaldir litir
litahringur

LISTAMENN

Að eigin vali

LISTASAGA

Að eigin vali

HÖFUNDUR

ⓒ Sigrún Ólafsdóttir
Menntamálastofnun 2022