DAGUR OG NÓTT – nálægð og fjarlægð

STUTT LÝSING

Nemendur mála tvær myndir – aðra þar sem nótt og hina þar sem er dagur.

HÆFNIVIÐMIÐ

Sameiginleg hæfniviðmið fyrir list- og verkgreinar

Við lok 4. bekkjar getur nemandi t.d.:

  • unnið eftir einföldu ferli frá hugmynd til afurðar,
  • hagnýtt þá leikni sem hann hefur öðlast í einföldum verkefnum,
  • tjáð sig á einfaldan hátt um viðfangsefni sitt,
  • gengið frá eftir vinnu sína,
  • lagt mat á eigin verk.

Hæfniviðmið fyrir sjónlistir

Við lok 4. bekkjar getur nemandi t.d.:

  • nýtt sér í eigin sköpun einfaldar útfærslur sem byggja á færni í meðferð lita- og formfræði og myndbyggingar,
  • skapað myndverk í ýmsum tilgangi með margvíslegum aðferðum,
  • útskýrt og sýnt vinnuferli sem felur í sér þróun frá hugmynd að myndverki.
  • þekkt og notað hugtök og heiti sem tengjast lögmálum og aðferðum verkefna hverju sinni,
  • fjallað um eigin verk og annarra.

Hæfniviðmið fyrir náttúrugreinar

Við lok 4. bekkjar getur nemandi t.d.:

  • tekið þátt í vali á náttúrufræðilegum verkefnum og kynningu á niðurstöðum,
  • aflað sér upplýsinga er varða náttúruna,
  • skráð atburði og athuganir, s.s. með ljósmyndum, teikningum, eigin orðum og sagt frá þeim.

KVEIKJA

Nemendur skoða mynddæmi af landslagi, helst bæði að næturlagi og í dagsbirtu. Rætt um litina í myndunum, áhrifum ljóss og skugga, litunum sem notaðir eru í ljósu fletina og skuggafletina o.fl. Einnig má sýna nemendum áhrif ljóss á hluti í kringum okkur með því að setja einhvern litríkan hlut á borð og kassa yfir með smá götum til að nemendur geti kíkt í gegnum. Inni í kassanum kemst lítið ljós að hlutnum og erfitt að greina lit hans. Þegar kassinn er fjarlægður og dagsbirtan eða ljósin í stofunni skína á hann sést hvernig hann er á litinn. Rætt er við nemendur um litina í litahringnum og hvernig við getum gert þá ljósari með því að blanda þá með hvítum lit og dekkri með því að blanda þá með svörtum lit.

Vekið athygli nemenda á myndbyggingu, ræðið um hugtökin nálægð og fjarlægð, forgrunn, bakgrunn og miðrými og hvort hreyfing sé í myndunum.

FRAMKVÆMD

Nemendur teikna tvær myndir með samskonar landslagi á tvö blöð og hafa í huga hugtökin forgrunn, bakgrunn og miðrými. Sýnið þeim einfalda aðferð til að skipta myndinni með því að draga tvær línur fyrir forgrunn, miðrými og bakgrunn. Nemendur draga tvær línur eftir blaðinu og teikna síðan landslag. Efri línan afmarkar útlínur fjallanna og skilin milli himins (bakgrunns) og miðrýmis (fjalla). Neðri línan afmarkar fjallsræturnar og skilin milli fjalla og sléttlendis (miðrýmis og forgrunns). Önnur myndin er af landslagi í dagsbirtu og þá þurfa nemendur að blanda ljósa liti. Hin er af landslagi að næturlagi svo nemendur þurfa að blanda dökka liti.

 

Í þessu verkefni eiga nemendur aðeins að nota grunnlitina sem og svartan og hvítan. Gott er að byrja á dagsbirtumynd og þá fá nemendur grunnlitina og talsvert af hvítum lit. Þegar kemur að næturlandslagsmynd þá fá nemendur grunnlitina og svartan lit. Nemendur þurfa að vara sig á að nota ekki of mikið af svörtum til að dekkja litina. Nemendur fá málninguna á plastlok, pappaspjald eða annað sem hentar og þeim sýnt hvernig á að bera sig að við að mála myndina. Þeim er kennt að blanda litina beint á pappírinn og hvernig hægt sé að halda málningunni á lokinu hreinni með því að dýfa ekki í miðjan litinn heldur taka lit úti í kantinum. Einnig er nemendum ráðlagt að byrja á að mála bakgrunninn (himininn), svo miðrýmið (fjöllin) og að síðustu forgrunninn (jafnsléttuna). Nemendur eru hvattir til að íhuga hvernig umhverfið sé á litinn og hvernig þeir geti blandað slíka liti. Ekki er nauðsynlegt að skola penslana á milli lita þar sem ekki er ætlast til að þau máli í hreinum eða tærum litum. Nemendur fá því ekki vatn til að skola penslana en ef þörf er á að skola þá er hægt að gera það í vaskinum. Þurrka penslana og halda áfram að mála. Ef nemendur vilja breyta um lit á einhverjum stað þá er best að bíða eftir að sá hluti þorni og mála svo yfir.

UMRÆÐUSPURNINGAR

Skiptir birta í teikningum máli?
Hvað lærðir þú af þessu verkefni?

ALDUR

Yngsta stig

GRUNNÞÆTTIR

Læsi, sköpun

FJÖLDI KENNSLUSTUNDA

2 x 80 mínútur

ÞVERFAGLEG TENGING

T.d. samþættingarverkefni sjónlista og náttúrugreina

EFNI OG ÁHÖLD

170-240 gr. pappír, stærð 45 × 32 cm
Flatir penslar (stærð 12-16)
Plastlok/pappaspjald til að setja málningu á
Skemmtilegt er að nota trönur í þessu verkefni
Skjávarpi til að sýna mynddæmi
Þekjulitir: grunnlitir, hvítur og svartur

HUGTÖK

bakgrunnur
fjarlægð
forgrunnur
frumlitir
hreyfing
miðrými
nálægð

LISTAMENN

Að eigin vali

LISTASAGA

Að eigin vali

HÖFUNDUR

ⓒ Sigrún Ólafsdóttir
Menntamálastofnun 2022