Skip to main content

Formfesta og eilíft líf

Menning Forn-Egypta hefur haft mikil áhrif á heimsmenninguna og þar með okkar norrænu menningu. Egypsk menning fór að þróast fyrir 5000 árum og tók 500 ár að mótast. Eftir það breyttist hún nærri ekkert í 3000 ár en það er tíminn sem forn-egypska konungsdæmið var við lýði. Það leið undir lok á annarri öld eftir Krist. 

Sérkenni forn-egypskrar menningar

Forn-egypski stíllinn var mjög formfastur og einkenni hans svo sterk að hann þekkist strax. Sýna átti mannslíkamann frá eins dæmigerðu sjónarhorni og hægt var. Þetta þýddi að ekki voru allir hlutar líkamans sýndir frá sama sjónarhorninu. Höfuðið var ávallt sýnt frá hlið. Slík vangamynd sýndi aðeins annað augað og þá framan frá. Þessi sérstaka samsetning gaf forn-egypskum andlitum það svipmót sem við þekkjum í dag. Efri hluti líkamans neðan við hálsinn var sýndur framan frá en neðri hlutinn, frá mitti og niður, var sýndur frá hlið. Yfirleitt voru fæturnir sýndir sem tveir vinstri fætur eða tveir hægri fætur, allt eftir því í hvaða átt manneskjan sneri. Hlutföll mannslíkamans voru stöðluð og notuðu forn-egypskir listamenn ferningslaga reiti til að skipuleggja myndirnar. 


Mannslíkaminn út frá forn-egypsku sjónarhorni.

Stærð fólksins á myndunum fór eftir virðingarstöðu. Höfðingjar voru stórir og miklir í samanburði við eiginkonur sínar, þjónustufólk var enn minna og þrælar og ambáttir voru minnst. Dýrin voru svo nákvæmlega teiknuð að hver tegund er auðþekkjanleg.

Forn-Egyptar höfðu mikinn áhuga á dauðanum. Þeir reistu grafhýsi sem voru einhver mestu og stærstu mannvirki sem reist hafa verið, það eru píramídarnir í Giza í Egyptalandi. Þeir voru grafhýsi fyrir valdamikla konunga sem kallaðir voru Faraóar. Sá stærsti, Keópspíramídinn, er nærri 150 metra hár og var reistur á tuttugu ára tímabili fyrir rúmum 4500 árum. 


Giza píramídi.

Ekki er vitað með vissu hvaða tækni var notuð við byggingarnar en vitað er að steinana í píramídana þurfti að flytja um langan veg, suma meira en 700 kílómetra leið, álíka langt og frá Egilsstöðum til Reykjavíkur. 

Forn-Egyptar kappkostuðu að verk þeirra skyldu vera varanleg og minjar þeirra hafa varðveist mun betur en minjar fólksins í Mesópótamíu. Forn-Egyptar lögðu einnig áherslu á varðveislu líkama hinna látnu. Það gerðu þeir með því að fjarlægja innyflin og þurrka líkin með sérstöku salti. Líkamsleifar sem hafa verið meðhöndlaðar með þessum hætti eru kallaðar múmíur. Síðan var þeim komið fyrir í steinkistum sem höfðu form mannslíkamans.

Þessar kistur (sarcophagus) voru síðan settar inn í grafhýsi ásamt dauðabókinni sem hafði að geyma ráðleggingar fyrir hina látnu í framhaldslífinu. Styttur af þjónustufólki, þrælum og ambáttum voru settar umhverfis líkkistuna til þess að hin látnu nytu áfram þjónustu þrátt fyrir að hafa lokið jarðvist sinni.

Hugmyndir Forn-Egypta um varanleika tengdust eilífðinni. Þeir trúðu því að til þess að eiga möguleika á eilífu lífi yrði að varðveita mannslíkamann eftir andlátið. Það gerðu þeir með því að breyta hinum látnu í múmíur sem myndu aldrei eyðast. 


Píramídi í nærmynd.

Hver var Imhótep?

Húsameistarinn Imhótep er líklega fyrsti listamaðurinn sem er þekktur með nafni. Hann þjónaði Djóser konungi sem komst til valda fyrir um 4600 árum. Hann var fjölfræðingur og gegndi mörgum mismunandi hlutverkum. Hann var meðal annars ráðgjafi konungs, læknir, æðstiprestur, húsameistari, yfirsmiður, yfirmyndhöggvari og vasagerðarmaður. Hann var einn af fáum almennum borgurum sem var tekinn í guðatölu eftir andlát sitt. Talið er að hann hafi stjórnað gerð fyrsta píramídans í Egyptalandi sem var grafhýsi Djósers og nefnist Þrepapíramídinn í Sakkara. Hann varð fyrirmynd annarra píramída. Imhótep notaði aðeins mjög hart grjót og þess vegna urðu forn-egypsk mannvirki afar sterk og traust. Dæmi um það er Keópspíramídinn en hann er eina mannvirkið af sjö undrum veraldar í fornöld sem enn stendur. Imhótep reisti sjálfum sér leynilegt grafhýsi og er það enn þann dag í dag ófundið.

Hin sjö undur veraldar

Hin fornu menningarsamfélög við Miðjarðarhafið og í Miðausturlöndum reistu bæði byggingar og höggmyndir sem voru mikil afrek. Keópspíramídinn í Giza er það eina sem er uppistandandi en hin voru Hengigarðarnir í Babýlon, Seifsstyttan í Ólympíu, Artemisarhofið í Efesos, Mausoleusarhofið í Halikarnassos, Risinn á Ródos og Vitinn í Faros við Alexandríu.