Skip to main content

Upphaf borgarmenningar

Mesópótamía er á milli stórfljótanna Efrat og Tígris, nafnið er komið úr grísku og merkir „milli fljóta“. Í dag er landið Írak á þessum slóðum. Margir gripir hafa fundist við fornleifarannsóknir á svæðinu þar sem Mesópótamía var fyrir ævalöngu. Þeir bera vitni um fágun og siðmenningu eins og Drottningarlýran, gullslegið hljóðfæri sem er myndskreytt með eðalsteinum og skeljum, sem fannst í borginni Úr. Einnig má nefna hið svonefnda Veldisskrín frá Úr (sjá hér að neðan). Það er skreytt myndum á annarri hliðinni sem líklega tákna stríð þar sem fjórhjóla stríðsvagnar og hermenn eru allsráðandi. Á hinni hliðinni eru myndir sem líklega tákna frið, þar má sjá sitjandi fólk og dýr. 

Íbúar svæðisins nefndust Súmerar og voru þeir brautryðjendur á mörgum sviðum svo sem í ritlist, stjörnufræði og stærðfræði og hafa haft varanleg áhrif á þá menningu sem á eftir kom.


Veldisskrín frá Úr.

Ritlistin

Hinir fornu Súmerar fundu upp fyrsta ritmálið sem kallað er fleygrúnir. Þeir skrifuðu eða stimpluðu með fleyglaga verkfærum í rakan leir. Þegar leirinn þornaði stóð fleygletrið eftir og leirplöturnar geymdust lengi, miklu lengur en pappírinn sem við notum í dag. Fleygrúnirnar voru einfaldaðar táknmyndir og þróuðust smám saman í hrein rittákn. Þessi aðferð breiddist hratt út og átti skrift Egypta rætur sínar að rekja til fleygrúna Súmera. Kínverjar og Japanir nota enn í dag letur sem líkist fleygrúnum Súmera. 

Áður höfðu menn tjáð hugsanir sínar með myndum, t.d. hellamálverkum eða ristum í stein, og aðrir séð verkin, skilið þau og meðtekið. Ritlistin eða skriftin er í raun myndræn skilaboð sem búið er að setja upp í kerfi sem margir skilja. Þá er hægt að raða saman mörgum táknum og gera skilaboðin efnismeiri og flóknari.

Ritlistin hefur fært okkur ómetanlegar upplýsingar um líf fólks í fornöld. Elsta hetjuljóð veraldar er sagnabálkurinn um Gilgamesh. Hann var konungur í Úrúk fyrir 4700 árum. Í dag er Úrúk þekkt sem landið Írak. Í Gilgamesh segir í fyrsta sinn frá flóðinu mikla sem þekkt er úr Biblíunni sem Nóaflóðið. Þannig má sjá hvernig sögur og hugmyndir ferðast manna á meðal og um langa vegu. Gilgamesh-ljóðin fundust greypt á tólf brotnar leirtöflur í Norður-Írak. Þar kemur í ljós að höfundur ljóðanna hét Sin-leqi-uninni og er hann elsti þekkti rithöfundurinn.

Gilgamesh ljóðin.

Babelsturninn

Goðsagnir eru táknsögur sem eru notaðar til að útskýra heiminn og það sem fólki hefur þótt dularfullt. Ein slík goðsögn er af Babelsturninum sem mennirnir reistu til þess að ná til himins. Hann átti að vera kennileiti til dýrðar mönnunum. Samkvæmt Biblíunni reiddist Guð vegna þessa verkefnis og hroka mannanna. Hann tvístraði þeim með því að rugla tungumálið en, samkvæmt goðsögninni, töluðu allir menn sama mál á þessum tíma. Mennirnir hættu að skilja hver annan, gátu ekki lokið verkinu, fóru hver í sína áttina og til urðu margar þjóðir. Samkvæmt Biblíunni stóð Babelsturninn í borginni Babýlon. Turninn var 92 metrar á hæð og var stallahof (Ziggúrat) en slík hof var að finna í öllum borgum hinnar fornu Mesópótamíu. Margir listamenn hafa spreytt sig á því að mála Babelsturninn. Ein frægasta myndin af turninum er eftir hollenska málarann Pieter Bruegel (1525–1569), sjá hér til hliðar. Myndin sýnir hæð turnsins og óendanlega innviði hans. Arkitektar Evrópuþingsins voru undir sterkum áhrifum af Bruegel þegar þeir reistu 60 metra háan turn Evrópuþingsins í Strasbourg í Frakklandi árið 1999. Kjörorð byggingarinnar „Margar tungur – ein rödd“ er greinileg vísun í goðsögnina um Babelsturninn.