Skip to main content

Borgir verða til 

Rómanski stíllinn (um 900–1200) var stíll dreifbýlisins og margar tígulegar rómanskar kirkjur er að finna í litlum og afskekktum þorpum Evrópu. Gotneski stíllinn var hins vegar stíll vaxandi borgarmenningar sem dafnaði frá 12. til 15. aldar. Gotneski stíllinn er með oddboga í stað hringboga. Oddurinn myndast þegar tveir hringbogar skerast. Tæknilega er oddbogi sterkari en hringbogi því álagið sem myndast leitar meira niður á við en til hliðanna. Þess vegna þarf ekki eins mikinn ytri stuðning við oddboga og við hringboga. Því var hægt að gera veggina léttari og koma fyrir gluggum. Gotneskar byggingar eru þar af leiðandi mun bjartari en rómanskar byggingar. Fyrir vikið varð glerlistin vinsæl og steindir gluggar bættust við freskurnar sem prýddu rómönsku kirkjurnar.

Hin gamla höfuðborg okkar Íslendinga, Kaupmannahöfn, er gott dæmi um gotneska borg. Innan þröngra virkisveggja sem reistir voru um 1170 röðuðu handverksmenn sér niður eftir götum sem voru nefndar eftir þeim. Nöfn eins og Vognmagergade (Vagnsmiðagata), Møntergade (Myntsláttugata) og Købmagergade (Kaupmannsgata) má enn finna í Kaupmannahöfn. 

Flestar borgir í Evrópu eiga sér svipaða skipulagssögu. Dómkirkjan var miðja og stolt flestra miðaldaborga og var turnum hennar ætlað að gnæfa yfir allar aðrar byggingar og sýna hversu rík borgin væri. Tækniframfarir í landbúnaði undir lok 11. aldar breyttu búskaparháttum mjög í þorpum og bæjum. Markaðirnir voru lifandi og fjörlegir, fólk kom saman og verslun og viðskipti efldust og handverksmenningin tók mikinn fjörkipp.

Gotneski oddboginn gerði arkitektum kleift að reisa enn hærri byggingar. Hæsta bygging heimsins nú er Burj-turninn í furstadæminu Dubai á Arabíuskaga. Hann er 828 metrar á hæð, næstum eins hár og Esjan. Hann hefur gotneskt yfirbragð sem er táknrænt því talið er að gotneski oddboginn sé arabískur að uppruna.


Sívaliturninn við Købmagergade í Kaupmannahöfn.


Gotneskir bogar i Landakotskirkju.


Burj-turninn í furstadæminu Dubai á Arabíuskaga.

Notre Dame

Gamlar gotneskar kirkjur hafa mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn. Notre Dame kirkjan í París er gott dæmi um það. Það tók hundrað ár að byggja hana. Hún var tilbúin árið 1260. Hún er fræg fyrir 28 svifstoðir utan á veggjunum sem halda við útveggina allan hringinn og fullkomna þannig burðarþolsfræði oddbogakerfisins. Rósettan á gafli kirkjunnar er glæsilegt dæmi um kunnáttu glerlistamanna á miðöldum. Í apríl 2019 kviknaði í þaki kirkjunnar og logaði eldurinn í 15 klukkustundir. Kirkjan skemmdist mikið við brunann og strax var ákveðið að ráðast í endurbyggingu.


Notre Dame kirkjan í París.

Tilfinningahyggja

Í gotneskri list er Kristur sýndur sem mannlegur á krossinum í þjáningu sinni. Hann færist þannig nær almenningi sem átti því auðveldara með að gera sér grein fyrir þjáningu frelsarans. Þetta hefur verið kölluð tilfinningahyggja en hún gerði skáldum og listamönnum síðar meir fært að tjá mannlegar tilfinningar og þjáningu af meiri dýpt.

Á miðöldum unnu listamenn líkt og iðnaðarmenn. Þeir byggðu kirkjurnar en fátt er vitað um þá. Einu mennirnir sem eitthvað er vitað um eru konungar, biskupar og höfðingjar sem létu reisa byggingarnar. Þess vegna eru fáir listamenn nafngreindir frá tímum Forn-Grikkja til miðalda. Þetta átti eftir að breytast með endurreisninni en þá varð listamaðurinn sjálfstæður.