Skip to main content

Tímabilið sem nefnt hefur verið endurreisn (Renaissance) hófst á Ítalíu. Vanalega er miðað við að það hafi staðið frá 1400–1600. Borgaryfirvöld í Flórens á Ítalíu héldu samkeppni um gerð bronshurða á austurhlið Skírnarkapellunnar í byrjun 15. aldar. Árið 1336 hafði gullsmiðurinn Andrea Pisano (1290–1348) lokið við samskonar hurðir á suðurhliðinni. Þær hurðir fjölluðu um ævi Jóhannesar skírara en núna vildu Flórensbúar fá hurðir sem byggðu á Gamla testamentinu.

Samkeppnin var hörð milli tveggja ungra metnaðarfullra gullsmiða. Þeir hétu Lorenzo Ghiberti (1378–1455) og Filippo Brunelleschi (1377–1446). Þeir skiluðu báðir lágmynd af fórn Abrahams á syni sínum Ísak. 

Dómnefndarmönnunum fannst líkamsbygging og stelling Ísaks í tillögu Ghiberti glæsilegri og vann hann keppnina. Honum hafði tekist að endurvekja næstum gleymda rómverska bronssteypuaðferð sem kölluð er „horfið vax“.

Ghiberti var alla ævina að vinna að verkefnum fyrir Skírnarkapelluna í Flórens. Það tók hann tuttugu og eitt ár að ljúka við bronshurðirnar en þær eru samsettar úr 28 einingum. Þegar því lauk fékk hann annað stórt verkefni fyrir Skírnarkapelluna. Frá 1425–1452 mótaði hann 10 stórar lágmyndir úr Gamla testamentinu og þótti takast svo vel til að Michelangelo (1475–1564) kallaði þær Paradísarhliðið.

Ósigur Brunelleschi varð til þess að hann fór frá Flórens til Rómar með vini sínum, listamanninum Donatello (1386–1466). Saman fóru þeir að rannsaka rómverskar húsarústir. Niðurstaða rannsóknanna leiddi til betri skilnings á rómverskri verkfræði og hlutföllum mannslíkamans og bygginga. Merkilegust var kannski lausnin á ráðgátunni um fjarvíddina því hún varð upphafið að nýrri tilfinningu fyrir rými í myndlistinni.

Til gamans má velta því fyrir sér hvort Brunelleschi hefði getað reist hvolfþakið á Dómkirkjuna í Flórens og enduruppgötvað fjarvíddina ef hann hefði eytt ævi sinni í að skreyta Skírnarkapelluna í Flórens líkt og Ghiberti gerði.


Paradísarhliðið.

Lágmyndir

Lágmyndir eru höggmyndir sem eru gerðar á flatt yfirborð þannig að myndin virðist koma út úr bakgrunninum. Öfugt við hefðbundnar höggmyndir þá eru lágmyndir aðeins skoðaðar framan frá líkt og málverk og eru gerðar til þess að skapa sjónhverfingu fyrir áhorfandann. Krónupeningurinn er ágætt dæmi um lágmynd. Þorskurinn á framhliðinni er lítið eitt upphleyptur þannig að hann verður raunverulegri en ef hann hefði bara verið teiknaður með línum. Stundum eru lágmyndirnar þannig að manneskjurnar koma nánast út úr myndinni líkt og við sjáum í bronshurðunum í Skírnarkapellunni.


Lágmynd eftir Ghiberti á bronshurðinni á Skírnarkapellunni í Flórens.

Horfið vax

Horfið vax er forn aðferð til að búa til afsteypur úr málmi af höggmyndum eða nytjahlutum. Fyrst er höggmyndin mótuð í leir eða tálguð úr tré. Síðan er búið til mót af henni úr gifsi. Ef myndin er einföld er gifsmótið í tveimur hlutum en stundum þarf mótið að vera samsett úr mörgum einingum. Upprunalega höggmyndin er tekin innan úr gifsmótinu og það sett saman á nýjan leik. Þá er bráðnu vaxi hellt ofan í mótið, ekki ólíkt því hvernig páskaeggin eru búin til. Þannig verður til afsteypa af upprunalegu höggmyndinni úr vaxi. Við vaxmyndina er bætt greinum úr vaxi sem verða síðar að aðfærsluæðum fyrir bráðinn málminn. Síðan er steypt mót utan um vaxmyndina úr hitaþolnu efni en ólíkt fyrra mótinu er þetta mót ekki með samskeytum. Síðan er mótið hitað í brennsluofni þannig að vaxið bráðnar og rennur burt og eftir stendur mótið tómt, tilbúið til að taka við bráðnum málminum sem oftast er brons. Þegar málmurinn hefur kólnað er mótið brotið utan af, aðfærsluæðarnar skornar burt og höggmyndin slípuð og lagfærð. Styttan af Jóni Sigurðssyni á Austurvelli eftir Einar Jónsson var einmitt búin til með þessari aðferð.


Stytta af Jóni Sigurðssyni á Austurvelli í Reykjavík eftir Einar Jónsson.

Lausnir á aldalöngum vanda 

Endurreisnin var merkileg fyrir fleira en að veita hinum klassíska stíl Forn-Grikkja uppreisn æru. Hún snerist um það hvernig fólk hugsaði. Listamenn einsettu sér að leysa vanda sem áður var talinn óleysanlegur. Tengsl vísinda og lista efldust og stærðfræði varð leiðarljós þeirra sem vildu láta taka mark á sér. 

Þó að opinbert upphaf endurreisnar sé talið vera um 1400 þá röktu Flórensbúar hana allt aftur til ítalska málarans og arkitektsins Giottos di Bondone (1266–1337). Giotto var orðinn svo frægur í lifanda lífi að þjóðskáld Ítala, Dante (1265–1321) sagði frá honum í Guðdómlega gleðileiknum. Dante er oft talinn standa á mörkum miðalda og endurreisnar. Giotto var fyrstur listamanna á miðöldum til að teikna og mála eftir raunverulegu umhverfi. Hann vildi sýna menn og dýr eins eðlileg og hægt væri. Þannig varð til það takmark endurreisnarmanna að fá sem skýrasta mynd af heiminum. Giotto málaði fleiri en 40 freskur í Scrovegni-kapelluna í Padúa á Norðaustur-Ítalíu. Freskurnar eru byggðar á ævi Maríu guðsmóður og þekja veggi og loft þannig að gesturinn er umvafinn átakamikilli myndasögu Giottos.

Töfrar Giottos fólust í því að hann notaði blæbrigði og skugga til að draga fram persónuleika fyrirmyndanna. Hann sýndi líka sérkenni þeirra, ólíkt hinum eldri málurum, sem sýndu sviplausa menn. Hann braut upp myndflötinn og persónurnar voru jafnvel á hreyfingu. Þá birtist á nýjan leik tilfinning þeirra, ást, sorg, svik og gleði. Hið mannlega var komið aftur inn í myndlistina.

Giotto var mikill húmoristi

Til er saga af því þegar páfinn leitaði að listamanni til að mála myndir fyrir Péturskirkjuna. Sendiboði kom á vinnustofu Giottos og bað hann um sýnishorn af kunnáttu sinni. Giotto tók pensil og rauða málningu, lagði stórt blað á gólfið, setti vinstri höndina meðfram síðunni og málaði í einni samfelldri hreyfingu fullkominn hring án hjálpartækja. „Hérna er teikningin þín!“ sagði Giotto við sendiboðann. Sendiboðinn varð afar móðgaður og fannst lítið til koma. „Fæ ég ekki aðra teikningu?“ spurði sendiboðinn. „Þetta er alveg nóg. Sýndu páfanum myndina“, sagði Giotto, „og hann skilur verkið“.

Þegar sendiboðinn sýndi páfanum verkið og sagði honum að Giotto hefði teiknað það fríhendis ákvað páfinn strax að ráða Giotto.

Sagan segir að Giotto hafi verið afar ófríður. Hann átti mörg börn og þau þóttu ekkert sérlega falleg á að líta. Þegar Dante kom til Giottos á vinnustofuna sá hann börnin hans leika sér í kring og spurði hissa: „Hvernig getur maður sem býr til fegurstu málverk í heimi búið til svona venjuleg börn?“ „Ég bjó þau til í myrkri!“ svaraði Giotto að bragði.


Harmakvein Krists eftir Giotto.


Freskan Brúðkaup í Kana eftir Giotto. Kana var fornt þorp í N-Ísrael þar sem Jesú gerði sitt fyrsta kraftaverk og breytti vatni í vín.


Giotto di Bondone.