Skip to main content

Hin áþreifanlega tilvera

Raunsæi er stefna eins og rómantík en öfugt við hana þá fjallaði hún um það almenna fremur en hið sérstæða. Raunsæisstefnan hafnaði trúarlegum, sögulegum og goðsögulegum viðfangsefnum. Þess í stað var samtímanum lýst með beittri gagnrýni á yfirstéttina en hinar lægri stéttir fengu vinsamlegri umfjöllun. Þannig varð raunsæisstefnan að verkfæri í pólitískri baráttu. Raunsæisstefnan varð ekki langlíf en hún rann saman við impressjónismann eftir 1860.

Ádeiluháðfuglinn Honoré Daumier

Hið vaxandi hlutverk myndlistarinnar í samfélagslegri umræðu birtist í verkum franska skopteiknarans Honoré Daumier (1808–1879). Hann gerði fleiri en 4000 steinþrykksmyndir fyrir utan málverk og höggmyndir. Hann var miskunnarlaus þegar hann teiknaði myndir af yfirstéttarfólki og gerði óspart grín að snobbi og tilgerð. Hins vegar var hann nærgætinn þegar hann málaði almúgafólk. Hann var líka mjög gagnrýninn á valdakerfi Frakklands sem hann taldi vera spillt og ólýðræðislegt.


Rue Transnonain 1834 eftor Honoré Daumier.

Þessi steinþrykksmynd eftir Daumier er nokkurskonar fréttamynd sem birtist í ádeilublaðinu „La Caricature“. Myndin sýnir aðkomuna eftir að öryggisverðir ríkisins ruddust inn í fjölbýlishús í fátækrahverfi í París og skutu á allt sem hreyfðist.

Listmálun er glíma við raunveruleikann

Franski listmálarinn Gustave Courbet (1819–1877) er oft kallaður faðir raunsæisstefnunnar. Hann var stórlyndur að eðlisfari og hafnaði öllum viðteknum venjum. Hann vildi aðeins mála það sem hann gat séð. Á heimssýningunni í París árið 1855 fannst honum sér úthlutað ómerkilegu plássi og ákvað að reisa sinn eigin sýningarskála beint á móti hinum opinbera. Sýninguna kallaði hann „Raunsæi“ og sýndi þar 50 málverk.

Courbet var mikill hugsjónamaður og barðist fyrir bættu samfélagi. Hann stofnaði einkaskóla fyrir listamenn og fleygði út öllum gifsstyttum í grísk-rómverskum stíl sem notaðar voru á þessum tíma til að kenna teikningu. Þess í stað máluðu nemendurnir bændur, nautpening, svín eða hross. Þó að Parísarbúar hafi skellihlegið að þessum tilraunum Courbets, sem stóðu í nokkra mánuði, þá tóku hinir ungu listnemar þær mjög alvarlega og hafði það mikil áhrif á það hvernig listin þróaðist í framhaldinu.


Vinnustofa listamannsins eftir Gustave Courbet.

Þetta ristastóra málverk (359 x 598 cm á stærð) sem Courbet málaði árið 1855 fjarllar um þróun hans sem listamanns. Hann sýndi myndina á einkasýningunni „Raunsæi“. Courbet var mjög ánægður með sjálfan sig og hélt því fram að hann væri mesti listmálari í Frakklandi. Til þess að leggja áherslu á það stillti hann sjálfum sér upp fyrir miðju listaverksins við að mála landslag. Nakin fyrirsæta, drengur og hundur fylgjast hugfangin með handbragði málarans. Flestir hlógu að málverkinu en rómantíski listmálarinn Eugéne Delacroix (1787–1863) skoðaði málverkið í klukkustund á sýningunni og taldi myndina vera meistaraverk.

Franska listakonan Rosa Bonheur (1822–1899) sérhæfði sig í túlkun dýra í náttúrulegu umhverfi. Hún var ein fjögurra systkina sem öll lærðu að teikna og mála, einkum húsdýr. Faðir þeirra taldi að börnin sín ættu öll að fá sama uppeldi og möguleika í lífinu óháð kyni. Þannig byrjaði Rosa að læra myndlist undir handleiðslu föður síns þegar hún var 12 ára. Hún sætti sig aldrei við að ganga inn í hefðbundið hlutverk kvenna, gekk oft í karlmannsfötum og klippti hárið stutt sem var fáheyrt á hennar tíma. 

Eitt stærsta málverk Rosu Bonheur, Hrossasýningin (1853–1855), er yfir fimm metra breitt. Hún málaði einnig margar myndir af kúrekanum víðfræga Buffalo Bill þegar hann kom í heimsókn til Parísar. Rosa Bonheur var einn dáðasti listamaður sinnar samtíðar.


Hrossasýningin eftir Rosu Bonheur.


Buffalo Bill eftir Rosu Bonheur.

Natúralismi í Ameríku

Heimsálfurnar Norður-Ameríka og Evrópa höfðu vaxandi áhuga hvor á annarri. Á þessum tíma var mikill uppgangur í Bandaríkjunum í menningu og listum og hefur sú þróun haldið áfram allt fram á okkar daga.

Listmálarinn Thomas Eakins (1844–1916) er af mörgum talinn merkasti listamaður Bandaríkjanna á 19. öld. Hann bjó og lærði í París frá 1866–1870. Eakins hafði kynnst ljósmyndatækni og nýtti sér hana með því að semja við enska ljósmyndarann Eadweard Muybridge (1830–1904) um að taka myndir af hestum, hundum, körlum og konum á hreyfingu við leik og störf. Þessar ljósmyndir notaði hann sér til að skilja betur hreyfingar og sú kunnátta skilað sér í málverkum hans. Það var í anda natúralisma en svo kallast listastefna sem leggur áherslu á að líkja eftir fyrirmyndum náttúrunnar og einkennist oft af mjög nákvæmum lýsingum á raunveruleikanum.


Myndaraðir Muybridge af fólki og dýrum á hlaupum eða hreyfingu höfðu mikil áhrif í myndlistarheiminum en einnig á framgang kvikmyndagerðar.

Þrátt fyrir tilraunir Eakins til að ná vísindalegu valdi yfir málverkinu átti hann erfitt uppdráttar. Meistaraverk hans Gross sjúkrahúsið, frá árinu 1875, sýnir uppskurð á læri karlmanns og olli það miklu fjaðrafoki. Menn settu mikið út á myndefnið og var viðkvæmum sérstaklega ráðlagt að halda sig frá málverkinu.


Gross sjúkrahúsið eftir Thomas Eakins.