Skip to main content

Á árunum milli heimstyrjaldanna fyrri og síðari varð til hreyfing í bókmenntum og listum sem bar nafnið súrrealismi sem á íslensku mætti kalla ofurveruleiki þar sem orðið „sur“ á frönsku þýðir „fyrir ofan“. Segja má að súrrealisminn hafi sprottið út frá dadaismanum.

Súrrealisminn varð formlega til í París árið 1924 þegar rithöfundurinn og ljóðskáldið André Breton (1896–1966) skrifaði stefnuskrá hreyfingarinnar. Súrrealistar vildu, líkt og dadaistarnir, hrista upp í hugmyndum fólks en ekki bara um list heldur einnig um lífið sjálft, upplifanir okkar og skynjun. Þeir vildu gera uppreisn gegn ríkjandi hugsunarhætti og afmá öll mörk á milli draums og vöku, ímyndunar og veruleika og koma þannig á svonefndum „ofurveruleika“.

Meðal þess sem hafði áhrif á súrrealistana voru kenningar sálgreinandans Sigmund Freuds (1856–1939) um merkingu drauma og fullyrðing dadaistanna um að listin væri of bundin hefðum. Súrrealistar héldu því fram að uppsprettu sköpunarinnar væri að finna í undirmeðvitundinni, draumum og eðlisávísuninni en ekki frá upplifunum og reynslu. Súrrealistar gerðu furðulegar myndir sem fá áhorfendur til að skoða hluti í nýju samhengi. Þeir voru hrifnir af tilviljanakenndri og óvæntri samsetningu hluta og fyrirbæra.

Einn fremsti súrrealistinn var Salvador Dalí (1904–1989). Á verkum hans eru hlutir oft í eyðilegu landslagi sem minnir á eyðimörk. Hann setti einnig ólíklegustu hluti saman eins og þegar hann skellti stórum humri ofan á síma svo úr varð „ready-made“ verkið Humarsíminn.

Annar þekktur málari þessa tímabils var belgíski listamaðurinn René Magritte (1898–1967). Hann málaði hversdagslega hluti í smæstu smáatriðum og bætti við hlutum úr raunveruleikanum eða úr mannkynssögunni á nýjan og óvæntan hátt. Eitt frægasta verk Magritte er líklega málverk af pípu en undir henni stendur „ceci n’est pas une pipe“ eða „þetta er ekki pípa“.

Rene Magritte
René Magritte, „þetta er ekki pípa“,
Wikipedia

Súrrealisminn náði aldrei fótfestu í íslensku listalífi en þó gætir áhrifa af honum hjá listamönnum á borð við Alfreð Flóka (1938–1987) og Erró (1932) snemma á ferli hans.