Skip to main content

Árið 1900 opnaði Þórarinn B. Þorláksson (1867–1924) fyrstu einkasýningu sína í Reykjavík. Sýningin var jafnframt fyrsta sýning íslensks listamanns hér á landi og markaði þannig upphaf íslenskrar nútímamyndlistar. Þar sýndi hann ýmis verk úr listnámi sínu í Danmörku en einnig myndir sem hann málaði á Íslandi, meðal annars frá Þingvöllum. Þórarinn nam hjá Þóru Pjetursdóttur áður en hann hélt utan til náms. Hann var teiknikennari að aðalstarfi næstu áratugi og þannig leiddi hann marga myndlistarmenn fyrstu skrefin í myndlistinni. Helsta viðfangsefni verka hans er íslenskt landslag, oft í rómantískum stíl þar sem birtan er sérstök og kyrrð svífur yfir vötnum. 


Þórarinn B. Þorláksson, Þingvellir, olía á striga, 57,5 x 81,5 cm, 1900.
Listasafn Íslands: LÍ 1051

Oft er talað um að frumherjar íslenskrar myndlistar séu fjórir og er Þórarinn elstur þeirra. Hinir eru Ásgrímur Jónsson (1876–1958), Jón Stefánsson (1881–1962) og Jóhannes Sveinsson Kjarval (1885–1972). Þessi gamla skilgreining er vafasöm enda listasagan flóknari en svo. Sannarlega settu þessir málarar allir mark sitt á myndlistararfinn en það gerðu aðrir líka, svo sem huldukonurnar sem voru forverar þeirra og myndlistarmenn sem unnu í aðra miðla.

Einar Jónsson (1874–1954) hélt til náms í Kaupmannahöfn árið 1895, rétt eins og Þórarinn B. Þorláksson, en hann lærði höggmyndlist og var frumherji á því sviði. Verk hans setja svip á Reykjavíkurborg en margar af þekktustu höggmyndum borgarinnar eru eftir hann, svo sem styttan af Ingólfi Arnarsyni á Arnarhóli, Útlagar við gamla kirkjugarðinn við Suðurgötu og Jón Sigurðsson á Austurvelli. Safn Einars Jónssonar á Skólavörðuholti var opnað árið 1923 og var fyrsta listasafnsbyggingin á Íslandi.


Útlagar eftir Einar Jónsson, gifsmynd, hæð 228 cm, 1901.
Listasafn Íslands: LÍ 7007

Ásgrímur Jónsson (1876–1958) kom fram á sjónarsviðið nokkrum árum síðar en Þórarinn. Hann málaði líka íslenskt landslag en í myndum hans voru meiri átök en hjá Þórarni, náttúran hrikalegri og sjónarhorninu stundum beint að ógnarafli náttúrunnar og margbreytileika hennar. Frá því á námsárunum vann hann einnig myndir sprottnar úr íslenskum þjóðsögum eins og margir norrænir myndlistarmenn gerðu á þeim tíma. Bæði Ásgrímur og Þórarinn fóru víða um landið til að mála, meðal annars upp á hálendið sem fæstir áttu þess kost að sjá með berum augum. Þannig færðu þeir áhorfendum nýja sýn á landið sitt og mótuðu á þann hátt viðhorf landsmanna til náttúrunnar. 


Nátttröllið á glugganum eftir Ásgrímur Jónsson, 1905.
Listasafn Íslands: LÍÁJ-27/91

Jón Stefánsson (1881–1962) var að læra verkfræði í Kaupmannahöfn þegar hann ákvað að helga sig myndlistinni. Hann lærði í einkaskóla og hjá kennurum sem voru nútímalegri en í Konunglega listaháskólanum sem margir höfðu sótt. Síðar hélt hann til Parísar til frekara náms í skóla Henri Matisse (1869–1954) á árunum 1908–1911. Matisse var þá leiðtogi fávistanna svokölluðu, eins helsta framúrstefnuhópsins í París. Kennslan var þó hefðbundin en þar kynntist Jón list Cézannes fyrir alvöru sem átti eftir að hafa mikil áhrif á feril hans. Ströng myndbygging og skýr form sem skapa spennu á myndfletinum einkenna mörg verka Jóns. Hann málaði gjarna landslag en myndbyggingin og formin skiptu hann meira máli en endursköpun á raunverulegu landslagi. 

Jón Stefánsson, sumarnótt, lómar
Sumarnótt (Lómar við Þjórsá)
eftir Jón Stefánsson, olíumálverk, 100 x 130 cm, 1929.
Listasafn Íslands: LÍ-366

Jóhannes Kjarval (1885–1972) þykir sérstæðastur frumherjanna fjögurra. Eftir hefðbundið og nokkuð gamaldags myndlistarnám í Konunglega listaskólanum í Kaupmannahöfn leyfði hann sér að verða fyrir áhrifum af helstu straumum og stefnum sem þá voru ríkjandi. Hann heillaðist af kúbisma og expressjónisma og áhrifa af þeim gætti í verkum hans með afar persónulegum hætti er heim var komið og hann tók til við túlkun á íslensku landslagi, oft í bland við fantasíu og önnur viðfangsefni. Eitt af því sem Kjarval gerði í verkum sínum var að breyta sjónarhorninu. Í stað þess að horfa á landslag í fjarska beindi hann sjónum áhorfenda að því sem nær var; mosa, blómum og öðrum gróðri, hrauni og klettum, smásteinum og hrjóstrugum jarðveginum. Hann málaði oft sömu staðina á ólíkum tímum og sýndi hvernig birtan, veðrið og árstíðirnar skapa ólík hughrif. Í sumum verkanna má sjá verur í hrauninu sem hann kallaði stundum „bergmál frá öðrum tíma“. Jóhannes Kjarval átti langa starfsævi og varð goðsögn í lifanda lífi. Hann hafði með verkum sínum mikil áhrif á samferðafólk sitt, aðra listamenn og viðhorf Íslendinga til náttúrunnar, m.a. hraunsins sem eins af einkennum landsins. 

Kjarval
Jóhannes Kjarval, Mosi á Þingvöllum, olía, 105 cm x 130 cm, 1937.
Listasafn Íslands: LÍ-509

Fleiri listamenn fylgdu í kjölfarið. Þar mætti nefna Guðmund Thorsteinsson (1891–1924) sem kallaður var Muggur og skrifaði og myndskreytti meðal annars bókina Sagan af Dimmalimm, Júlíönu Sveinsdóttur (1889–1966) og Kristínu Jónsdóttur (1888–1959) en öll stunduðu þau nám í Konunglega listaskólanum í Kaupmannahöfn á sama tíma á árunum 1912–1917. Muggur lést fyrir aldur fram en skapaði sér sérstöðu á stuttri starfsævi með fjölhæfni og efnistökum sem voru ólík öðrum íslenskum listamönnum á þeim árum. 

Muggur
Muggur, Stúlkan og huldusveinninn, blýantsteikning, 24,5 cm x 16,5 cm, 1915.
Listasafn Íslands: LÍ-1094

Júlíana ólst upp í Vestmannaeyjum en settist að í Danmörku. Hún sótti samt innblástur í íslenska náttúru, einkum í heimahaga sína í Vestmannaeyjum. Júlíana var ekki bara mikils metin fyrir málverk sín því hún vann einnig textílverk og var álitin einn helsti myndvefari Danmerkur. Eftir því sem leið á feril hennar urðu verk hennar huglægari og einkenndust af glímu við form og liti fremur en nákvæmar landslagsmyndir en ef til vill gætti þar áhrifa frá veflistinni. Hún og Kristín Jónsdóttir voru fyrstar íslenskra kvenna til að gera myndlistina að atvinnu sinni. 


Júlíana Sveinsdóttir, Frá Vestmannaeyjum (Elliðaey), olía á striga, 82 x 90 cm, 1946.
Listasafn Íslands: LÍ 778

Segja má að ferill Kristínar Jónsdóttur sé tvískiptur eftir að hún lauk námi. Á fyrri hluta ferils síns málaði hún töluvert landslagsmyndir frá heimaslóðum sínum á Norðurlandi þar sem myndir hennar þróast í átt til impressjónisma þar sem tær birta er áberandi. Síðar gifti hún sig og stofnaði fjölskyldu í Reykjavík og eftir það valdi hún myndefni úr nærumhverfi sínu. Hún málaði gjarna í garðinum við hús fjölskyldunnar við Laufásveginn en einnig við Reykjavíkurtjörn og Hljómskálann. Kristín var líka þekkt fyrir uppstillingar og blómamyndir sem voru afar vinsælar. Eins sótti hún myndefni í reynsluheim kvenna, t.d. í verki sínu Við þvottalaugarnar frá 1931 þar sem hún fangar strit nafnlausra þvottakvenna við gömlu laugarnar í Laugardal. Fram að árum seinni heimsstyrjaldarinnar var Kristín eina konan á Íslandi sem hafði málaralist að atvinnu. 


Kristín Jónsdóttir, Við Þvottalaugarnar, olía á striga, 100 x 123 cm, 1931.
Listasafn Íslands: LÍ 459