Skip to main content

Listastefnan Expressjónismi varð til í lok nítjándu aldar. Á ensku og fleiri málum þýðir sögnin „express“ bæða að tjá og sýna svipbrigði og það er einmitt það sem expressjónistarnir vildu gera. Þeir vildu tjá tilfinningar sínar, líðan og reynslu. Þegar búið var að finna upp ljósmyndatæknina höfðu margir listamenn ekki lengur áhuga á að mála raunveruleikann enda gæti ljósmyndin tekið við því hlutverki. 

Til að tjá tilfinningar sína, hugsanir og viðbrögð í málverki notuðu expressjónistar oft sterka liti og gróf pensilför. Litirnir í myndunum þurftu ekki að vera eins og í raunveruleikanum. Þeir máluðu himininn rauðan, hafið gult og blá andlit ef það fangaði þær tilfinningar sem þeir vildu lýsa. Þannig fengu litirnir táknræna merkingu og þessir málarar eru því einnig kallaðir symbólistar.

Expressjónistarnir einfölduðu það sem þeir máluðu og í myndum þeirra er yfirleitt lítið um smáatriði. Þeir notfærðu sér lítið birtu og skugga en máluðu frekar fleti með hreinum samhliða litum, oft með dökkum útlínum. Þeir töldu miklu mikilvægara að túlka myndefnið eins og þeir skynjuðu það út frá eigin tilfinningum en að myndefnið liti raunverulega eða fallega út. 

Síð-impressjónistinn Vincent Van Gogh og Norðmaðurinn Edvard Munch (1863–1944) eru meðal þeirra sem lögðu grunninn að expressjónismanum. Munch og fleiri expressjónistar vildu takast á við þá staðreynd að lífið er ekki bara dans á rósum heldur einnig fullt af þjáningu, grimmd og fátækt. Mörgum fannst það hræsni og óheiðarlegt að túlka aðeins það sem er fagurt og fágað. Þessi hugmyndafræði féll í frjóan jarðveg í Þýskalandi og þar þróaðist sérstakur angi af stefnunni sem kallast þýskur expressjónismi.

expressjonismi
Ópið eftir norska listamanninn Edvard Munch frá 1893. Þarna sést vel hvernig skyndileg spenna eða ótti getur breytt allri okkar skynjun. Greinilegt er á mannverunni og umhverfinu að eitthvað hræðilegt hefur gerst. Umhverfið virðist taka þátt í angist hennar sem æpir eins og sést á flæðandi línunum í kringum andlitið sem er afskræmt af ótta.

Aðrir mikilvægir listamenn á þessu tímabili eru Henri Matisse (1869–1954) og Paul Gauguin en af íslenskum málurum sem hafa unnið í anda expressjónismans má nefna Jón Engilberts (1908–1972), Snorra Arinbjarnar (1901–1958), Gunnlaug Scheving (1904–1972) og Jóhann Briem (1907–1991) en allir urðu þeir fyrir miklum áhrifum frá stefnunni en einnig mætti nefna Nínu Tryggvadóttur (1913–1968) snemma á ferli hennar. Hér á landi birtist hún líka í átökum á milli náttúru og manngerðs umhverfis og á milli þéttbýlis og sveita. Greina má áhrif expressjónisma í litanotkun og tækni hjá mun fleiri íslenskum málurum, svo sem hjá Jóhannesi Kjarval, Ásgrími Jónssyni og Finni Jónssyni (1892–1993) þótt þeirra list sé almennt ekki flokkuð undir stefnuna. 

Gunnlaugur Scheving, Sumarnótt, 1959.
Listasafn Íslands: LÍ-1168

Jón Engilberts
Jón Engilberts, Fólk að koma frá vinnu, 1936.
Listasafn Íslands: LÍ 794

Nína Tryggvadóttir, Séð frá Unuhúsi, 1943.
Listasafn Íslands: LÍ 8913

Í Evrópu fjöruðu áhrif expressjónismans út á þriðja áratugnum en á Íslandi og á hinum Norðurlöndunum hafa þau varað lengur og eru enn áberandi. Ein af þeim stefnum sem eru afsprengi expressjónismans er abstrakt expressjónisminn en hann varð sérlega vinsæll í Bandaríkjunum eftir seinni heimstyrjöld.